Ferill 72. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 72 . mál.


72. Tillaga til þingsályktunar



um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar.

(Lögð fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



    Alþingi ályktar að ríkisstjórnin móti opinbera fjölskyldustefnu á grundvelli þeirra meginforsendna og markmiða sem lýst er í þingsályktun þessari. Jafnframt ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að framkvæma þær aðgerðir sem kveðið er á um í ályktuninni.

I. KAFLI

Meginforsendur fjölskyldustefnu.

    Fjölskyldan er hornsteinn íslensks samfélags. Ríkisstjórn á hverjum tíma ber að marka sér opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar í því skyni að styrkja hana og vernda án tillits til gerðar hennar.
    Opinber fjölskyldustefna hefur það markmið að efla fjölskylduna í nútímaþjóðfélagi. Verkefni hennar eru margþætt og snerta öll svið þjóðlífsins. Hún spannar því nánast öll viðfangsefni opinberrar stjórnsýslu.
    Fjölskyldustefna skal einkum taka mið af eftirfarandi meginforsendum:
—    að velferð fjölskyldunnar byggist á jafnrétti karla og kvenna og sameiginlegri ábyrgð á verkaskiptingu innan hennar
—    að fjölskyldan er vettvangur tilfinningatengsla
—    að fjölskyldulífið veiti börnum öryggi og tækifæri til að þroska eiginleika sína til hins ítrasta.

II. KAFLI

Almenn markmið stjórnvalda við framkvæmd fjölskyldustefnu.

    *         Að skapa skilyrði til þess að ná jafnvægi milli fjölskyldulífs og atvinnu foreldra. Að leggja áherslu á jafna ábyrgð beggja foreldra í heimilishaldi og við umönnun og uppeldi barna sinna.
    *         Að stofnanir samfélagsins, ekki síst skólar og leikskólar starfi í samvinnu við fjölskylduna og taki mið af ábyrgð foreldra á börnum sínum. Fræðsla um stofnun heimilis verði aukin og unnið verði gegn upplausn fjölskyldna m.a. með fjölskylduráðgjöf.
    *         Að grundvallaröryggi fjölskyldunnar efnahagslega sé tryggt ásamt rétti hennar til öryggis í húsnæðismálum.
    *         Að réttindi og skyldur sambúðarfólks verði skilgreind í lögum.
    *         Að heilbrigðisþjónustan taki mið af þörfum fjölskyldunnar sem heildar og tryggt sé að fjölskyldur geti notið stuðnings til að annast aldraða og sjúka. Öldruðum verði gert kleift að taka þátt í samfélaginu svo lengi sem auðið er.
    *         Að tekið verði mið af þörfum fjölskyldunnar við skipulag umhverfis, þjónustu, útivistar og umferðaröryggis.
    *         Að fjölskyldur fatlaðra njóti nauðsynlegs stuðnings í ljósi aðstæðna hverju sinni. Grundvallarréttur fatlaðra til fjölskyldustofnunar, heimilis og virkrar þátttöku í samfélaginu verði virtur.
    *         Að fjölskyldur nýbúa fái nauðsynlegan stuðning til að festa rætur í íslensku samfélagi.
    *         Að unnið sé gegn misrétti í garð þeirra sem skera sig úr vegna kynþáttar, trúarbragða eða menningar og í garð fjölskyldna samkynhneigðra.
    *         Að vernd gagnvart ofbeldi verði efld, jafnt innan fjölskyldu sem utan. Fjölskyldur njóti verndar og stuðnings gagnvart ofneyslu áfengis og annarra vímugjafa. Forvarnir vegna áfengis- og vímuefnaneyslu verði auknar.
    *         Að efla skilning á eðli fjölskyldunnar, hlutverki, myndun og upplausn. Þetta verði m.a. gert með auknum stuðningi við fjölskyldurannsóknir.

III. KAFLI

Aðgerðir í þágu fjölskyldunnar.

1. Fjölskylduráð.
    Stofnað verði opinbert fjölskylduráð, sem hafi það hlutverk að stuðla að eflingu og vernd fjölskyldunnar. Fjölskylduráðið verði skipað fimm mönnum. Þrír verði kosnir hlutfallskosningu af Alþingi, einn verði tilnefndur af Háskóla Íslands, en félagsmálaráðherra skipi þann fimmta án tilnefningar og skal hann vera formaður ráðsins. Starfsemi fjölskylduráðsins skal heyra undir félagsmálaráðuneyti.
    Hlutverk fjölskylduráðs skal m.a. vera eftirfarandi:
    Að veita stjórnvöldum ráðgjöf í fjölskyldumálum, t.d. vegna áforma um stjórnvaldsaðgerðir, jafnframt því að koma á framfæri ábendingum um úrbætur í fjölskyldumálum.
    Að annast tillögugerð um framkvæmdaáætlanir í málefnum fjölskyldunnar, með hliðsjón af heildarsýn yfir viðfangsefni einstakra ráðuneyta og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    Að eiga frumkvæði að opinberri umræðu um málefni fjölskyldunnar.
    Að hvetja til aðgerða á sviði fjölskyldumála í samfélaginu.
    Að stuðla að rannsóknum á högum og aðstæðum íslenskra fjölskyldna.
    
2. Barnafjölskyldur.
    Ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að staða og afkoma barnafjölskyldna í nútímasamfélagi verði könnuð sérstaklega og úrbætur gerðar þar sem nauðsynlegt er talið.
    
3. Réttur beggja foreldra til fæðingarorlofs.
    Ríkisstjórnin skapi skilyrði sem tryggi feðrum aukinn rétt til fæðingarorlofs.
    
4. Tillaga um fullgildingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156 um starfsfólk með fjölskylduábyrgð.
    Ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að sköpuð verði skilyrði til þess að Ísland geti fullgilt samþykkt nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð, sem gerð var á 67. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) í Genf 23. júní 1981.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.

    Þingsályktunartillagan, sem hér er lögð fram, er að stofni til endurskoðuð tillaga sem unnin var á vegum landsnefndar um Ár fjölskyldunnar 1994 og lögð var fyrir Alþingi vorið 1995. Félagsmálaráðherra, Páll Pétursson, tók á sínum tíma efnislega undir tillögu landsnefndarinnar en hafði hug á að útfæra hana nánar. Í lok október sl. skipaði hann starfshóp til að yfirfara og endurskoða tillöguna. Í starfshópnum voru Lára Margrét Ragnarsdóttir alþingismaður, Siv Friðleifsdóttir alþingismaður og Árni Gunnarsson aðstoðarmaður félagsmálaráðherra og var hann jafnframt formaður hópsins. Ingibjörg Broddadóttir deildarstjóri í félagsmálaráðuneyti var ritari starfshópsins. Þingsályktunartillögu þessari var dreift til þingmanna á sl. vori, en félagsmálaráðherra náði ekki að mæla fyrir henni.
    Fjölskyldan verður að búa við skilyrði sem gera henni kleift að taka ábyrgð á sjálfri sér. Verkefni fjölskyldnanna hafa breyst mikið samfara breyttum lífsháttum á þessari öld, ekki síst á síðustu áratugum. Samfélagið er orðið flóknara og heimilislífið hefur leitast við að aðlaga sig að þessum breytingum. Í nútímanum er farsælt samspil atvinnu og fjölskyldulífs grundvallaratriði í lífi fólks. Breytt verkefni fjölskyldnanna stafa m.a. af löngum vinnudegi beggja foreldra utan heimilis. Því hafa skólarnir orðið að taka við auknu hlutverki í uppeldi barnanna og aldraðir eyða ævikvöldinu í ríkari mæli en áður á stofnunum. Fjölskyldan í dag verður að gefa einstaklingnum rótfestu og hún er vettvangur lífsnauðsynlegra tilfinningatengsla. Þrátt fyrir aukið hlutverk skólanna í uppeldi æskunnar er umönnun og uppeldi barna enn í dag mikilvægasta verkefni fjölskyldunnar.
    Íslensk heimili skera sig að mörgu leyti úr í alþjóðlegum samanburði. Fjölskyldurnar eru barnmargar og hlutfallslega mörg pör búa saman án þess að hafa gengið í hjónaband. Heimilin eru töluvert fjölmennari en á hinum Norðurlöndunum og það er einkennandi fyrir íslensku fjölskyldurnar hve lengi ungt fólk býr í foreldrahúsum. Hér á eftir fylgja töflur sem sýna þróun fjölskyldugerða frá 1960 til 1988, búsetu ungra kvenna og karla, stærð heimila og aldursskiptingu íbúa á Norðurlöndum. Þessar töflur eru fengnar úr bókinni „Fjölskyldan uppspretta lífsgilda“, sem gefin var út á vegum landsnefndar um Ár fjölskyldunnar á árinu 1994.

Skipting einkaheimila á Íslandi eftir tegundum frá 1960 til 1993.


Manntal

Manntal

Lífskjara-

Vinnu-

1960

1981

könnun

markaðs-

*

1988**

könnun

1993**


%

%

%

%


Tegund heimilis:
Einn fjölskyldukjarni:
             Barnlaus hjón     
11,3
15,3 18,9 20,3
             Hjón með barn/börn     
58,7
49,7 43,1 42,5
             Foreldri með barn/börn     
7,6
9,1 9,3 9,3
             þar af mæður     
5,4
8,0 8,4
Fleiri en einn fjölskyldukjarni, samtals     
5,3
8,3 5,6 4,7
  þar af    Tvenn hjón með eða án
              fleiri fjölskyldukjarna     
2,0
2,5 1,9 1,9
              Ein hjón og einn eða fleiri aðrir
              fjölskyldukjarnar     
2,7
3,9 3,7 2,8
              Ekki hjón en einn eða
              fleiri aðrir fjölskyldukjarnar     
0,7
1,9
Annað sambýli     
3,8
2,7 2,1 1,4
Einbýlingar og leigjendur     
13,2
15,0 20,9 21,8
    ALLS          
100,0
100,0 100,0 100,0
              Fjöldi heimila     
44.399
69.318 82.000 93.000

 *    Hér er um bráðabirgðatölur að ræða og hafa verður fyrirvara á um breytingar þeirra við síðari og nákvæmari úrvinnslu.
**    Vegið með þátttökulíkum og síðan áætlað fyrir elstu aldurshópa.
Fjölskyldan, uppspretta lífsgilda, bls. 140.


Búseta karla og kvenna 16 til 30 ára 1993.


Býr hjá

Býr hjá

Býr sjálf-

Býr sjálf-

ALLS

foreldrum

foreldrum

stætt í

stætt

og er

og er

sambúð

ein-

ekki í

í sam-

hleypur

sambúð

búð


%

%

%

%

%


Karlar
    16 til 18 ára      81 ,3 6 ,5 3 ,3 8 ,9 100 ,0
    19 til 21 árs      71 ,9 5 ,8 12 ,9 9 ,4 100 ,0
    22 til 24 ára      35 ,9 3 ,1 40 ,4 20 ,6 100 ,0
    25 til 27 ára      21 ,6 3 ,6 54 ,0 20 ,8 100 ,0
    28 til 30 ára      12 ,8 ,8 69 ,6 16 ,8 100 ,0
         Alls      42 ,1 3 ,7 36 ,4 17 ,8 100 ,0
Konur
    16 til 18 ára      75 ,3 7 ,2 5 ,2 12 ,3 100 ,0
    19 til 21 árs      58 ,6 2 ,6 27 ,6 11 ,2 100 ,0
    22 til 24 ára      16 ,8 4 ,8 54 ,4 24 ,0 100 ,0
    25 til 27 ára      9 ,2 ,9 66 ,4 23 ,5 100 ,0
    28 til 30 ára      3 ,1 1 ,5 76 ,5 18 ,9 100 ,0
         Alls      29 ,2 2 ,7 48 ,7 19 ,4 100 ,0

Fjölskyldan, uppspretta lífsgilda, bls. 142.

Stærð heimila á Norðurlöndum.

         

Meðalfjöldi

         

íbúa


         Danmörk 1991

2,2

         Finnland 1991

2,4

         Ísland 1993

2,8

         Noregur 1990

2,4

         Svíþjóð 1990

2,1

    
Heimild: Norræna tölfræðiárbókin 1994, nema Ísland þar Vinnumarkaðskönnun.
Fjölskyldan, uppspretta lífsgilda, bls. 144 .


Hlutfallsleg skipting íbúa á Norðurlöndum eftir aldri 1991.


Danmörk

Finnland

Ísland

Noregur

Svíþjóð


Aldur

%

%

%

%

%



0 til 14 ára      16
,9 19 ,2 24 ,8 19 ,0
18 ,1
15 til 64 ára      67
,5 67 ,2 64 ,5 64 ,7
64 ,1

65 ára og eldri      15
,6 13 ,5 10 ,7 16 ,3
17 ,7

Heimild: Norræna tölfræðiárbókin 1992.
Fjölskyldan, uppspretta lífsgilda, bls. 146.

    Jafnréttismál og hagsmunamál barna eru veigamikill þáttur í stefnumótun í málefnum fjölskyldunnar. Farsæl fjölskyldustefna felur í sér aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna bæði á vinnumarkaði og innan veggja heimilanna. Enn fremur leitast hún við að jafna rétt barna án tillits til þess í hvernig fjölskyldugerð þau búa. Hugtakið jöfnuður er grundvöllur markvissrar fjölskyldustefnu og nær það m.a. yfir mismunandi aðstöðu ólíkra fjölskyldugerða, ójöfnuð kynjanna, misjafnar uppeldisaðstæður barna og réttarstöðu bæði ungra og aldraðra í fjölskyldunni. Með hliðsjón af því hve barnmörg íslenska þjóðin er, er rétt að minna á að Ísland hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna. Í samningnum er m.a. kveðið á um full mannréttindi allra barna og að velferð þeirra verði sett í fyrirrúm.
    Ýmsar aðgerðir stjórnvalda hafa þau áhrif að fjölskyldum reynist lífsbaráttan auðveldari og má þar t.d. nefna öfluga heilsugæslu um allt land og almannatryggingar. Á hinn bóginn geta aðgerðir stjórnvalda eða aðgerðaleysi haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir fjölskylduna án þess að það hafi verið yfirlýstur tilgangur þeirra. Hlutverk stjórnvalda er að setja þær leikreglur sem þjóðfélagið á að fara eftir og þess vegna er mikilvægt að þau hafi fjölskylduna í huga við ákvarðanatöku á hverjum tíma.
    Einstakar aðgerðir stjórnvalda beinast yfirleitt að ákveðnum hóp svo sem að öldruðum eða sjúkum. Fjölskyldan sem heild er sjaldan til umfjöllunar og mönnum reynist oft erfitt að fóta sig í þeirri umræðu. Fólki er tamara að hugleiða aðstæður einstaklinganna innan fjölskyldunnar fremur en að hugleiða stöðu hennar sem heildar. Engin heildarstefna er fyrir hendi um fjölskyldumál og ekki hafa verið gerðar tilraunir til að meta áhrif einstakra stjórnvaldsaðgerða á fjölskyldulífið. Í eftirmála rannsóknarinnar Barnafjölskyldur, Samfélag — lífsgildi — mótun er fjallað um jöfnuð og fjölskylduvernd. Þar segir m.a. að á meðan litið er á fjölskylduna sem einkastofnun en ekki sem eina af grunnstofnunum samfélagsins sem snertir almannaheill, er útilokað að uppræta ójöfnuð milli kynja, aðstöðumun foreldra eftir fjölskyldugerðum og mismunun barna eftir uppeldisaðstæðum. Það sé sanngirnismál að stjórnvöld geri ráð fyrir fjölskyldunni „í stefnumörkun og taki ábyrgð á velferð hennar en láti ekki einstökum fjölskyldum á grundvelli eigin verðleika og hagsmuna að leysa það sem er samfélagslegt hagsmunamál. Í raun eru einstaklingar og fjölskyldur heldur ekki fær um að hafa þá yfirsýn sem þarf til að koma málum þannig fyrir að þau reynist vel sem heildarlausn. Þannig hlýtur það að teljast réttlætismál og eitt af mikilvægustu hlutverkum stjórnvalda að marka fjölskyldustefnu sem gerir ráð fyrir misjafnri aðstöðu og bætir upp bresti og tryggir hinum ýmsu fjölskyldugerðum viðunandi lífsskilyrði.“ (Bls. 117.)
    Þingsályktunartillaga þessi fjallar um fjölskylduna og gefur henni ákveðinn sess innan stjórnsýslunnar. Með samþykkt hennar er fjölskyldan viðurkennd með formlegum hætti sem hornsteinn og grunneining samfélagsins og þess vænst að með því móti verði fjölskyldunum búnir betri afkomumöguleikar.

Athugasemdir við einstaka kafla þingsályktunartillögunnar.

Um I. kafla.

    Í fyrsta kafla eru meginforsendur fjölskyldustefnunnar dregnar fram. Áhersla er lögð á að fjölskyldan er grunneining samfélagsins og stjórnvöldum á hverjum tíma beri því að veita henni sérstaka athygli og móta stefnu í málefnum hennar sem hafi það að markmiði að styðja hana og styrkja. Stefnumótunin skal unnin með tilliti til hinna mismunandi fjölskyldugerða sem búa í landinu. Þrátt fyrir að flestir búi í hinni hefðbundnu kjarnafjölskyldu eru ýmsar aðrar fjölskyldugerðir til staðar og nægir hér að nefna barnafjölskyldur þar sem einstætt foreldri er í forsvari.
    Umfang opinberrar fjölskyldustefnu er margþætt. Fjölskyldulífið snertir með einum eða öðrum hætti flest svið mannlífsins og á sama hátt tekur opinber fjölskyldustefna til langflestra sviða opinberrar stjórnsýslu. Fjölskyldur á hverjum tíma eiga samskipti við fjölmargar stofnanir samfélagsins. Algengast er að samskiptin fari fram milli einstakra fjölskyldumeðlima og stofnana, en oft færi betur á að þjónustustofnanir litu á fjölskylduna sem heild.
    Meginforsendur fjölskyldustefnu byggjast ekki síst á jafnrétti kynjanna og sameiginlegri ábyrgð þeirra á verkaskiptingu í heimilishaldi. Á þetta er lögð rík áhersla í þingsályktunartillögunni. Fjölskyldan er viðurkenndur vettvangur tilfinningalegra tengsla og í farsælu fjölskyldulífi felst að börn njóti öryggis og tækifæra til að þroska eiginleika sína til hins ýtrasta og komast til manns.
    

Um II. kafla.

    Í öðrum kafla eru tilgreind almenn markmið, sem stjórnvöldum ber að hafa í huga við framkvæmd fjölskyldustefnu. Kaflinn fjallar um ellefu mismunandi viðfangsefni sem öll hafa veigamiklu hlutverki að gegna við mótun og framkvæmd fjölskyldustefnu. Hér er ekki um tæmandi upptalningu að ræða heldur er litið á viðfangsefnin sem leiðarljós við stefnumótun í þessum málaflokki og nánari útfærsla á þeim er falin stjórnvöldum.
    Ein meginforsenda þess að börn njóti öryggis og nauðsynlegrar umönnunar á heimilunum er að atvinnulífið gefi foreldrum kost á þeim sveigjanleika sem til þarf. Sameiginleg ábyrgð foreldra á uppeldi þeirra og í heimilishaldi er nauðsynleg og er mikilvægt að feðrum verði gert kleift að taka virkan þátt í fjölskyldulífinu. Skipulögð fræðsla til ungs fólks um stofnun heimilis hefur verið af skornum skammti og er lagt til að úr verði bætt. Hér er átt við leiðsögn um grundvallaratriði sem fylgja fjölskyldulífi og stofnun og rekstri heimilis, svo sem um fjármál, foreldraábyrgð, fræðslu um samskipti kynjanna og getnaðarvarnir. Þá er ekki síður mikilvægt að fyrir hendi sé fjölskylduráðgjöf bæði handa börnum og fullorðnum, þar sem stuðningur er veittur við úrlausn ýmissa vandamála, svo sem vegna uppeldis, samskiptaerfiðleika eða skilnaðar.
    Önnur almenn atriði sem kaflinn fjallar um beinast m.a. að því að heilbrigðisþjónustan taki mið af þörfum fjölskyldunnar sem heildar og að tekið verði tillit til þarfa fjölskyldunnar við skipulag umhverfis, þjónustu og umferðar. Þar verður að koma til samstarf við sveitarfélögin í landinu. Þó svo að dauðaslysum og öðrum áverkum vegna slysa hafi fækkað verulega á undanförnum árum eru slys á börnum hérlendis mun tíðari en hjá nágrannaþjóðunum. Á Íslandi verður fjórða hvert barn fyrir slysi árlega en í Svíþjóð verður áttunda hvert barn fyrir slysi á ári hverju.
    Þá er bent á nauðsyn þess að skilgreina betur í lögum réttindi og skyldur sambúðarfólks. Fjölskyldur sem þarfnast sérstaks stuðnings eru sérstaklega tilgreindar og á það við um fjölskyldur fatlaðra, aldraðra og nýbúa. Þá er lögð áhersla á að unnið sé gegn misrétti í garð þeirra sem eiga undir högg að sækja vegna ýmissa fordóma. Að lokum er fjallað um eflingu forvarna vegna fíkniefnaneyslu og að vernd gegn ofbeldi, jafnt innan fjölskyldu sem utan, verði aukin.
    

Um III kafla.

    Í þessum kafla eru lagðar fram fjórar tillögur að aðgerðum í þágu fjölskyldnanna. Þær beinast að almennum atriðum sem ættu að koma öllum fjölskyldum til góða, en sérstök áhersla er lögð á barnafjölskyldur. Í fyrsta lagi er lagt til að stofnað verði fjölskylduráð. Í öðru lagi að gerð verði úttekt á afkomu barnafjölskyldna. Í þriðja lagi að sköpuð verði skilyrði til að tryggja rétt beggja foreldra til launa í fæðingarorlofi, og að lokum að undirbúið verði að Ísland geti fullgilt tillögu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156 um starfsfólk með fjölskylduábyrgð.
    Markmiðið með stofnun fjölskylduráðs er m.a. að tryggja stjórnvöldum aðgang að ráðgjafarnefnd sem hafi yfirsýn yfir aðstæður fjölskyldnanna í landinu. Ráðinu er enn fremur ætlað að eiga frumkvæði að opinberri umræðu um fjölskyldumál. Í því felst einkum að vekja athygli á því sem betur má fara og móta tillögur að úrbótum. Enn fremur er lagt til að ráðið beiti sér fyrir því að ýmis samtök og einkaaðilar láti málefni fjölskyldunnar til sín taka.
    Í þeim tilgangi að tryggja heildarsýn í málaflokknum er lagt til að fjölskylduráðið annist tillögugerð um stefnumarkandi áætlun í málefnum fjölskyldunnar í samráði við einstök ráðuneyti, sambærilega við framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum sem gerð er til fjögurra ára í senn. Við tillögugerðina skal ráðið hafa til hliðsjónar viðfangsefni einstakra ráðuneyta og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Eins og kunnugt er deilast þessi verkefni á milli flestra ráðuneytanna og enn fremur hafa sveitarfélögin hér mikilvægu hlutverki að gegna.
    Lagt er til að fjölskylduráðið verði skipað fimm mönnum, þrír verði kosnir hlutfallskosningu af Alþingi, einn verði tilnefndur af Háskóla Íslands og félagsmálaráðherra skipi formann án tilnefningar. Þátttaka fulltrúa Háskóla Íslands er m.a. hugsuð til að treysta fræðilegan grunn fjölskylduráðsins og auðvelda því að stuðla að rannsóknum á högum og aðstæðum íslenskra fjölskyldna.
    Lagt er til við ríkisstjórnina að hún beiti sér fyrir því að staða og afkoma barnafjölskyldna í nútímasamfélagi verði könnuð sérstaklega og úrbætur gerðar ef nauðsynlegt er talið. Íslenskar fjölskyldur eru barnmargar og sker þjóðin sig úr á þessu sviði á alþjóðlegum vettvangi. Það er því einkar mikilvægt að þannig sé búið að fjölskyldunum, bæði fjárhagslega og félagslega, að þeim takist að veita börnunum það öryggi og umönnun sem nauðsynlegt er til að þau nái að þroskast og dafna. Langur vinnudagur og mikil atvinnuþátttaka beggja foreldra einkennir íslenskt fjölskyldulíf. Nauðsynlegt að kanna áhrif skattalaga á barnafjölskyldur svo og hvernig barnabóta- og vaxtabótakerfið hefur reynst þeim í raun. Einnig er æskilegt að gera tilraunir með sveigjanlegan vinnutíma.
    Réttur beggja foreldra til fæðingarorlofs er veigamikið atriði í allri jafnréttisumræðu. Ákvörðun um að tryggja feðrum aukinn rétt á við mæður mun án efa leiða til þess að fleiri feður sjái sér fært að taka virkan þátt í uppeldi og umönnun barnanna strax á fyrsta æviskeiði. Mikilvægi samvista móður og barns á fyrstu mánuðunum í ævi barnsins er óumdeilt. Engu að síður er það jafn mikilvægt, að feður taki sem fyrst þátt í umönnun þess og að tilfinningatengsl föður og barns nái að myndast í frumbernsku.
    Að lokum er lagt til að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að sköpuð verði skilyrði til þess að Ísland geti fullgilt samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) nr. 156 um starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Samþykktin felur í sér fjölmörg veigamikil atriði sem skipta fjölskyldur máli og tryggja að starfsmenn geti sinnt þörfum fjölskyldunnar samhliða þátttöku í atvinnulífinu. Stefna íslenskra fyrirtækja í málefnum starfsmanna með fjölskylduábyrgð er frekar sveigjanleg. Samkomulag á milli helstu samtaka á vinnumarkaði um greiðslur til starfsfólks vegna veikinda barna, framkvæmdaáætlanir ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í jafnréttismálum, þátttaka í norrænum samstarfsverkefnum og markviss uppbygging dagvistarheimila fyrir börn ættu að gera það kleift að fullgilda samþykktina. Það atriði, sem hefur komið í veg fyrir fullgildingu er ákvæði 8. gr. um að fjölskylduábyrgð sem slík skuli ekki vera gild ástæða til uppsagnar.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um tillögu til þingsályktunar um mótun opinberrar

fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar.

    Þessi tillaga að þingsályktun var flutt á síðasta löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Hún er nú endurflutt, óbreytt. Efni tillögunnar er að Alþingi álykti að ríkisstjórnin móti opinbera fjölskyldustefnu á grundvelli þeirra meginforsendna og markmiða sem þar er lýst. Jafnframt álykti Alþingi að fela ríkisstjórninni að framkvæma þær aðgerðir sem kveðið er á um í tillögunni.
    Þingsályktunartillagan skiptist í þrjá kafla sem bera eftirfarandi heiti:
    I.          Meginforsendur fjölskyldustefnu.
    II.     Almenn markmið stjórnvalda við framkvæmd fjölskyldustefnu.
    III.     Aðgerðir í þágu fjölskyldunnar.
    Að því er tekur til kostnaðar sem leiða mun af samþykkt tillögunnar er hans einkum að vænta af verkefnum undir III. kaflanum þar sem getið er eftirfarandi aðgerða:
     Fjölskylduráð. Stofnað verði opinbert fjölskylduráð sem hafi það hlutverk að stuðla að eflingu og vernd fjölskyldunnar. Í því sambandi eru talin upp nokkur atriði sem skulu vera hlutverk fjölskylduráðs, eins og ráðgjöf til stjórnvalda í fjölskyldumálum, að annast tillögugerð um framkvæmda áætlun í fjölskyldumálum, eiga frumkvæði að opinberri umræðu um málefni fjölskyldunnar, hvetja til aðgerða á sviði fjölskyldumála og stuðla að rannsóknum á högum og aðstæðum íslenskra fjölskyldna.
     Barnafjölskyldur. Ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að staða og afkoma barnafjölskyldna í nútímasamfélagi verði könnuð sérstaklega og úrbætur gerðar þar sem nauðsynlegt er talið.
     Réttur beggja foreldra til fæðingarorlofs verði tryggður með því að ríkisstjórnin skapi skilyrði sem tryggi feðrum aukinn rétt til fæðingarorlofs.
     Fullgilding á samþykkt ILO nr. 156. Ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að sköpuð verði skilyrði fyrir því að Ísland geti fullgilt samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156, um starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Samþykktin felur í sér mörg veigamikil atriði sem skipta fjölskyldur máli og tryggja að starfsmenn geti sinnt þörfum fjölskyldunnar samhliða þátttöku í atvinnulífinu.
    Stofnun fjölskylduráðs mun valda nokkurri kostnaðaraukningu hjá ríkissjóði en gert er ráð fyrir að ráðið verði skipað fimm mönnum. Sé gert ráð fyrir að það haldi um 20 fundi á ári og að með því starfi ritari má reikna með að kostnaður verði um 1,5–2,0 m.kr. á ári. Er þá reiknað með nefndarþóknun til sex manna auk annars kostnaðar sem felst í launum starfsmanns í hlutastarfi, ferðum, húsnæðisaðstöðu o.fl.
    Samkvæmt upplýsingum frá starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis voru greiddar tæplega 240 m.kr. í fæðingarorlof og skylda liði árið 1995 en í þeirri tölu eru ekki taldar greiðslur sjúkrahúsa annarra en ríkisspítala. Komi til þess að karlar taki fæðingarorlof í jafnríkum mæli og konur má reikna með að þessi fjárhæð hækki verulega.
     Um annan kostnað er erfitt að segja og fer eftir framkvæmd ályktunarinnar verði tillagan samþykkt.