Ferill 102. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 102 . mál.


105. Beiðni um skýrslu



frá heilbrigðisráðherra um úttekt á áhrifum langrar biðar eftir læknisaðgerðum.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur, Ástu R. Jóhannesdóttur,


Ágústi Einarssyni, Gísla S. Einarssyni, Guðmundi Árna Stefánssyni,


Jóni Baldvini Hannibalssyni, Lúðvík Bergvinssyni, Petrínu Baldursdóttur,


Sighvati Björgvinssyni, Svanfríði Jónasdóttur


og Össuri Skarphéðinssyni.



    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að heilbrigðisráðherra flytji Alþingi skýrslu um biðlista eftir aðgerðum á sjúkrahúsum og utan þeirra, áhrif biðarinnar á útgjöld hins opinbera, félagslegt öryggi og fjárhag sjúklinga og fjölskyldna þeirra sem á biðlistum eru, sem og áhrif langrar biðar eftir aðgerð á framvindu sjúkdóma og sjúkdómseinkenni.
    Í skýrslunni verði leitast við að svara eftirtöldum spurningum:
    Hvernig hefur þróun biðlista eftir læknisaðgerðum innnan og utan sjúkrahúsa verið sl. fimm ár, skipt eftir sjúkdómum, lengd biðtíma, kyni, aldri og félagslegri stöðu?
    Hvaða áhrif hafa sumarlokanir sjúkrahúsa haft á biðlista?
    Eru til skilgreind öryggismörk um hámarksbið eftir aðgerðum, skipt eftir sjúkdómum?
    Hver má áætla að útgjöld ríkis og sveitarfélaga séu á ári af heimaþjónustu og heimahjúkrun, læknismeðferð, lyfjum og vistunarplássum fyrir þá sjúklinga sem bíða eftir aðgerð?
    Hver eru helstu áhrif biðar eftir aðgerð á atvinnuöryggi, afkomu og fjárhag sjúklinga og fjölskyldna þeirra?
    Hvert er áætlað vinnutap sökum langvarandi biðar eftir aðgerðum á sjúkrahúsum og hvað má ætla að margir missi vinnu árlega af þeim sem eru á biðlistum eftir aðgerðum?
    Hvaða sjúkdómar sem kalla á aðgerðir á sjúkrahúsum leiða helst til fjarvista frá vinnu? Hver má áætla meðalútgjöld og vinnutap þessara sjúklinga?
    Hvað má ætla að margir fari árlega yfir á sjúkradagpeninga vegna biðar eftir aðgerðum og hvað er vitað um félagslega stöðu þeirra?
    Hver hefur þátttaka sjúkrasjóða stéttarfélaganna verið í að bæta sjúklingum á biðlistum tekjutap þeirra?
    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu á Alþingi fljótlega eftir að henni hefur verið útbýtt meðal þingmanna.

Greinargerð.


    Fram     hefur komið opinberlega að sparnaðaraðgerðir hafi valdið því að biðlistar eru sífellt að lengjast. Í mars sl. voru á fjórða þúsund manns á biðlistum, þar af um 1.300 manns á biðlistum bæklunardeilda sjúkrahúsanna.
    Draga verður í efa að sífellt lengri biðlistar leiði til sparnaðar. Þvert á móti er líklegt að bið sjúklinga eftir nauðsynlegum aðgerðum skapi gríðarleg útgjöld. Ekki bara fyrir ríkissjóð, heldur einnig sjúklingana sem bíða og fjölskyldur þeirra. Varla hverfur sjúkdómurinn þótt fólk sé sett á biðlista. Þvert á móti þurfa sjúklingar iðulega að vera undir læknishendi og á dýrum lyfjum meðan þeir bíða eftir aðgerð, kannski mánuðum eða árum saman. Sjúklingar á biðlistum þurfa líka oft á heimahjúkrun og heimaþjónustu að halda og jafnvel vistunarplássi meðan á biðinni stendur. Sá kostnaður bætist því ofan á kostnað við aðgerðina sjálfa þegar að henni kemur. Biðin kostar því ríkissjóð mikla fjármuni og er einungis frestun á þeim útgjöldum sem aðgerðinni fylgja. Ætla má að aðgerðin geti líka orðið umfangsmeiri og erfiðari og þar með kostnaðarsamari eftir því sem hún dregst lengur. Verst er þó biðin fyrir sjúklinginn sjálfan og fjölskyldu hans. Mörg heimili eru þannig stödd fjárhagslega að ekkert má út af bera til að fjármálin fari ekki úr skorðum. Þannig getur það stefnt heimili í gjaldþrot ef framfærandi heimilis er frá vinnu langtímum saman. Sé viðkomandi algjörlega óvinnufær um lengri tíma vegna veikinda verður hann fljótlega fyrir miklu tekjutapi. Sjúkradagpeningar, um 17 þús. kr. á mánuði, taka við af föstum launum en það getur bitnað mjög harkalega á framfærslu heimilisins. Þjáningum sjúklingsins fylgir því ekki einungis mikið álag fyrir heimilið heldur einnig miklar fjárhagsáhyggjur.
    Nauðsynlegt er að fram fari ítarleg úttekt á því hvað sífellt lengri biðlistar kosti ríkissjóð, heimilin og samfélagið allt. Víða erlendis hafa verið settar reglur um hámarksbið eftir aðgerðum og heilbrigðisþjónustu. Má nefna að í Svíþjóð voru settar reglur um þriggja mánaða hámarksbiðtíma eftir aðgerðum á sjúklingum með tiltekna sjúkdóma. Svipaðar reglur voru settar í Danmörku. Í Noregi var miðað við að sjúklingar með alvarlega sjúkdóma ættu rétt á nauðsynlegri meðferð eða aðgerð innan sex mánaða. Brýnt er að settar verði reglur hér á landi um hámarksbiðtíma eftir þjónustu. Slíkar reglur geta bæði auðveldað skipulagningu í heilbrigðisþjónustunni og leitt til sparnaðar fyrir samfélagið allt. Að ekki sé minnst á að lina þjáningar sjúklinga og eyða óvissu þeirra sem bíða eftir aðgerðum. Úttekt sú sem hér er farið fram á gæti auðveldað ákvörðun um að setja reglur um hámarksbið eftir aðgerð.