Ferill 127. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 127 . mál.


138. Tillaga til þingsályktunar



um afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu.

Flm.: Viktor B. Kjartansson.



    Alþingi ályktar að skora á menntamálaráðherra að leggja fram frumvarp um afnám skylduáskriftar almennings að Ríkisútvarpinu.

Greinargerð.


    Hlutverk og skipulag Ríkisútvarpsins hlýtur ávallt að vera í stöðugri endurskoðun, einkum í ljósi þjóðfélagsbreytinga og tækninýjunga. Á síðustu árum hefur orðið gjörbreyting á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Í stað einnar ríkisrásar, í hljóðvarpi og sjónvarpi, getur almenningur valið um fjölda innlendra útvarps- og sjónvarpsstöðva.
    Ljóst er að afnotagjöld Ríkisútvarpsins raska samkeppni á þessum markaði. Sú skipan mála gengur þvert gegn markmiðum samkeppnislaga og því almenna viðhorfi að gæta eigi jafnræðis milli aðila í atvinnurekstri. Þessi sjónarmið hafa m.a. komið fram hjá samkeppnisráði í áliti þess, nr. 5/1995.
    Ríkisútvarpið er í samkeppni við einkaaðila bæði á markaði fyrir áskrift og auglýsingar. Auglýsingasamkeppnin er bein en áskriftarsamkeppnin er hins vegar óbein. Hin óbeina samkeppni kemur fram í því að almenningur er þvingaður til áskriftar að Ríkisútvarpinu sem takmarkar svigrúm margra, einkum hinna tekjulægri, til að kaupa áskrift að öðrum fjölmiðlum. Þannig eru lagðar ákveðnar hömlur á valfrelsi almennings.
    Það verður að teljast grundvallaratriði í frjálsu markaðsþjóðfélagi að almenningur hafi frelsi til að velja vöru og þjónustu í samræmi við þörf og áhuga. Hið opinbera á ekki að hafa vit fyrir fólki varðandi val á sjónvarpsefni og með því að hamla þróun á fjölmiðlamarkaði. Niðurfelling afnotagjalda er því réttlætismál, bæði í skilningi valfrelsis neytenda og jafnræðis á milli keppinauta á sama markaði.
    Síðan er það sérstakt skoðunarefni hvernig eigi að standa að fjármögnun reksturs Ríkisútvarpsins ef á annað borð er talið að hið opinbera eigi að sinna slíkri þjónustu. Þá þarf í fyrstu að skilgreina umfang og eðli þeirrar þjónustu auk þess sem gæta verður þess að raska ekki samkeppnisstöðu á markaðinum. Í því sambandi má benda á tvær leiðir, annars vegar að Ríkisútvarpinu verði gert að innheimta áskriftargjöld líkt og gerist hjá keppinautum þess og hins vegar að Ríkisútvarpið hverfi alfarið af auglýsingamarkaði en verði fjármagnað með beinum fjárframlögum úr ríkissjóði.