Ferill 146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 146 . mál.


161. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 8. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 97/1996:
    Orðin „svo og gengishækkun hlutdeildarskírteina“ í 1. málsl. falla brott.
    2. málsl. orðast svo: Til tekna í þessu sambandi telst enn fremur gengishækkun hlutdeildarskírteina, svo og hvers kyns gengishagnaður og afföll af keyptum verðbréfum, víxlum og sérhverjum kröfum og hvers kyns aðrar tekjur af peningalegum eignum.

2. gr.

    Í stað 2. málsl. 1. mgr. 26. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Stuðullinn skal miðast við breytingu á vísitölu neysluverðs frá upphafi til loka 12 mánaða tímabils, sbr. lög nr. 12/1995, um vísitölu neysluverðs, og skal miða breytingu við þann mun sem verður á vísitölu neysluverðs sem gildir fyrir janúarmánuð á tekjuári og vísitölu neysluverðs sem gildir fyrir janúarmánuð á álagningarári. Hafi aðili annað reikningsár en almanaksárið skal miða stuðulinn við þann mun sem verður á vísitölu neysluverðs sem gildir fyrir fyrsta mánuð tekjuárs og vísitölu neysluverðs sem gildir fyrir fyrsta mánuð eftir lok þess tekjuárs.

3. gr.

    B-liður 1. mgr. 30. gr. laganna, sbr. a-lið 5. gr. laga nr. 97/1996, fellur brott.

4. gr.

    Í stað orðsins „fimm“ í 1. málsl. 7. tölul. 31. gr. laganna kemur: átta.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
    Í stað hlutfallstalnanna „6“ og „8“ í 1. tölul. kemur: 5 og 10.
    Í stað hlutfallstalnanna „6“ og „8“ í 2. tölul. kemur: 5 og 10.
    Í stað hlutfallstalnanna „9“ og „12“ í 3.tölul. kemur: 5 og 15.
    Í stað hlutfallstalnanna „15“ og „20“ í a-lið 4.tölul. kemur: 10 og 20.
    Í stað hlutfallstalnanna „11“ og „15“ í b-lið 4. tölul. kemur: 10 og 20.
    5. tölul. orðast svo:
    Fyrning mannvirkja, þar með talin ræktun á bújörðum og byggingar, skal vera árlegur hundraðshluti af fyrningargrunni einstakra eigna sem hér segir:
    Af eftirtöldum mannvirkjum skal árleg fyrning vera að lágmarki 1% en að hámarki 3%:
         
    
    Íbúðarhúsnæði.
         
    
    Skrifstofubyggingum.
         
    
    Verslunarbyggingum.
    Af eftirtöldum mannvirkjum skal árleg fyrning vera að lágmarki 3% en að hámarki 6%:
         
    
    Verksmiðjubyggingum.
         
    
    Verkstæðisbyggingum.
         
    
    Vörugeymslubyggingum.
         
    
    Dráttarbrautum.
         
    
    Gisti- og veitingahúsum.
         
    
    Útihúsum á bújörðum.
         
    
    Loðdýrabúum og tilheyrandi girðingum.
         
    
    Lýsis-, olíu- og vatnsgeymum.
         
    
    Ræktun á bújörðum.
         
    
    Hvers konar önnur mannvirki og hús, notuð til atvinnurekstrar, sem ekki eru talin annars staðar í þessari grein.
    Af eftirtöldum mannvirkjum skal árleg fyrning vera að lágmarki 6% en að hámarki 8%:
         
    
    Bryggjum og plönum þeim tengdum.
         
    
    Gróðurhúsum.
    Af eftirtöldum mannvirkjum skal árleg fyrning vera að lágmarki 7,5% en að hámarki 10%:
         
    
    Borholum.
         
    
    Raflínum.
         
    
    Vinnubúðum, óvaranlegum.
    Ekki skiptir máli í sambandi við ákvörðun fyrningarhlutfalls úr hvaða byggingarefni mannvirki er gert.

6. gr.

    Við 63. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Einstaklingar í staðfestri samvist skulu telja fram og skattlagðir eins og hjón.

7. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „33,15%“ í 1. tölul. 1. mgr. 67. gr. laganna kemur: 30,5%.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. laganna:
    Á eftir „7. tölul. 3. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 2. tölul. kemur: sbr. þó 4. tölul. þessarar greinar.
    Á eftir „8. tölul. 3. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 3. tölul. kemur: sbr. þó 4. tölul. þessarar greinar.
    Við bætist nýr töluliður, er verður 4. tölul., sem orðast svo: Tekjuskattur manna sem hafa takmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 3. gr. af arði, leigutekjum og söluhagnaði skal ákvarðaður skv. 3. mgr. 67. gr. og skal það vera endanleg álagning á þessar tekjur, sbr. 4. mgr. 67. gr.

9. gr.

    Á eftir orðinu „samvinnufélögum“ í 2. málsl. 1. mgr. 5. tölul. 74. gr. laganna kemur: stofnfjárbréf í sparisjóðum.

10. gr.

    97. gr. laganna orðast svo:
    Heimild til endurákvörðunar skatts skv. 96. gr. nær til skatts vegna tekna og eigna síðustu fjögurra ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Ef rekja má röng framtalsskil til stórfellds gáleysi eða ásetnings af hálfu skattaðila skal frestur þessi vera sex ár.

11. gr.

    Við 109. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Innheimtuaðilum samkvæmt þessari grein skal heimill aðgangur að fasteigna-, skipa- og ökutækjaskrá í því skyni að sannreyna eignastöðu einstakra gjaldenda.


12. gr.

    Við 1. mgr. 114. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Reglur þessarar málsgreinar um ábyrgð hjóna skulu gilda með sama hætti um samskattað sambúðarfólk og einstaklinga í staðfestri samvist.

13. gr.

    118. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er ríkisskattstjóra að breyta tímaákvörðunum og frestum sem um ræðir í 93., 98. og 99. gr. ef brýna nauðsyn ber til.

14. gr.

    Á eftir orðinu „samvinnufélög“ í 1. málsl. 124. gr. laganna kemur: og stofnfjárbréf í sparisjóðum, sbr. lög nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði.

15. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda eins og hér greinir:
    Ákvæði 6., 9., 11., 12., 13. og 14. gr. koma til framkvæmda þegar í stað.
    Ákvæði 10. gr. kemur til framkvæmda frá og með gildistöku laga þessara og gildir um úrskurði um endurákvarðanir frá og með þeim tíma, þó þannig að hafi heimild skattyfirvalda til endurákvörðunar gjalda verið fallin niður við gildistöku laga þessara, skv. 2. mgr. 97. gr. eins og hún hljóðaði fyrir gildistöku laga þessara, skapast ekki nýr afturvirkur frestur.
    Ákvæði 3. gr. öðlast gildi þann 1. janúar 1997 og verður því eigi heimilt að draga frá tekjum ársins 1997 fjárhæð vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri.
    Ákvæði 4. og 5. gr. kemur til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1997 vegna rekstrar ársins 1996 og eigna í lok þess árs.
    Ákvæði 7. gr. kemur til framkvæmda við staðgreiðslu tekjuskatts á árinu 1997 og álagningu tekjuskatts á árinu 1998 vegna tekna ársins 1997.
    Ákvæði 1. og 8. gr. koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 1998 vegna tekna á árinu 1997.
    Ákvæði 2. gr. kemur fyrst til framkvæmda á árinu 1998 við útreikning verðbreytingarstuðuls fyrir tekjuárið 1997.

16. gr.

    Við lögin bætast tvö ákvæði til bráðabirgða er orðast svo ásamt fyrirsögn:

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

Sérstakur verðbreytingarstuðull fyrir tekjuárið 1996.

    Auk verðbreytingarstuðuls skv. 26. gr. laganna skal ríkisskattstjóri birta sérstakan verðbreytingarstuðul sem miðast við breytingu sem verður á vísitölu neysluverðs sem gildir fyrir 1. janúar 1996 og janúar 1997. Skattaðila skal heimilt í stað verðbreytingarstuðuls skv. 26. gr. laganna að miða verðbreytingar við þennan sérstaka stuðul. Sama stuðli skal beitt á allar eignir og skuldir.
    Fyrir annað reikningsár, sbr. 60. gr. laganna, sem lýkur á árinu 1996 skal með sama hætti heimilt að nota sérstakan verðbreytingarstuðul sem ákveðinn skal með sama hætti og í 1. mgr. greinir.

II.
Nýting eftirstöðva rekstrartapa rekstraráranna 1988 og síðar.

    Þrátt fyrir ákvæði 7. tölul. 31. gr. er heimilt að draga eftirstöðvar rekstrartapa, sem mynduðust í rekstri á rekstrarárunum 1988 og síðar og yfirfæranleg eru samkvæmt lögum frá skattskyldum tekjum við ákvörðun tekjuskattsstofns vegna rekstraráranna 1997–2000.     

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.

    Í þessu frumvarpi eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Sumar þessara breytinga þarf að skoða í samhengi við ákvæði annarra skattafrumvarpa sem lögð eru fram á Alþingi á sama tíma. Í meginatriðum má skipta þessum breytingum í fernt. Fyrstu tvö atriðin eru kynnt í þessu frumvarpi. Fyrst eru breytingar á tekju- og eignarsköttum fyrirtækja. Í öðru lagi eru tilteknar breytingar á tekjusköttum einstaklinga. Hér er þó rétt að nefna að sérstök nefnd, skipuð fulltrúum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, vinnur nú að tillögum um breytingar á tekjuskatti einstaklinga sem miða að því að draga úr jaðaráhrifum tekjuskatts og ýmissa bótagreiðslna. Gert er ráð fyrir að nefndin skili tillögum fyrir áramót og eru því að svo stöddu engar tillögur gerðar er varða þau atriði sem ætla má að nefndin taki á, nema um afnám skattafsláttar vegna hlutafjárkaupa. Í þriðja lagi eru breytingar á tryggingagjaldi sem fyrirtæki greiða. Í fjórða lagi eru breytingar á vörugjöldum.

    Skattbreytingar að undanförnu. Verulegar breytingar hafa orðið á skattlagningu fyrirtækja og einstaklinga á undanförnum árum. Hér hefur einkum verið horft til þess að samræma skattlagninguna við það sem er í helstu samkeppnislöndunum. Tekjuskattshlutfall fyrirtækja hefur verið lækkað umtalsvert, en á móti hafa ýmsir frádráttarliðir verið lækkaðir eða felldir niður. Aðstöðugjald, sem lagt var á veltu fyrirtækja, var fellt niður. Skattstofn virðisaukaskatts var breikkaður og tekið upp nýtt lægra þrep. Jafnframt var virðisaukaskattur á matvælum lækkaður. Loks voru stigin fyrstu skref í átt til þess að draga úr jaðaráhrifum tekjuskattskerfisins með því að undanþiggja lífeyrisiðgjöld einstaklinga skattlagningu og draga úr tekjuskerðingu við útreikning barnabótaauka. Með þeim breytingum sem kynntar eru í þessu frumvarpi er haldið áfram á þeirri braut að styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og laga skattlagninguna að því sem er víða erlendis. Nánari grein er gerð fyrir þessum breytingum hér á eftir.

    Samhengi áformaðra skattbreytinga. Sem fyrr segir eru áformaðar fleiri breytingar í skattamálum en felast í þessu frumvarpi. Þessar breytingar tengjast að nokkru leyti. Þannig vega breytingar á tekjuskatti fyrirtækja í þessu frumvarpi á móti tillögum sem kynntar eru í öðru frumvarpi um að samræma álagningu tryggingagjalds milli atvinnugreina og stefna að einu gjaldhlutfalli eftir fjögur ár. Þetta á fyrst og fremst við um rýmri heimildir til að nýta rekstrartap fyrri ára til frádráttar tekjum. Fyrirhuguð er frekari lækkun á vörugjöldum og er þar um að ræða síðari hluta þeirrar breytingar sem hafin var fyrr á þessu ári. Gert er ráð fyrir að hún verði fjármögnuð með því að nýta það svigrúm sem myndast við lækkun á atvinnutryggingagjaldi, þ.e. þeim hluta tryggingagjalds sem rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Því er ekki gert ráð fyrir að tryggingagjaldið í heild þurfi að hækka frá því sem nú er. Þá er rétt að nefna að frekari breytingar á tekjuskatti fyrirtækja eru enn til skoðunar í fjármálaráðuneytinu, svo sem hugmynd um að draga úr eða aflétta tvísköttun á arði sem greiddur er milli fyrirtækja með því að fella niður heimild fyrirtækja til að draga frá skattskyldum hagnaði útborgaðan arð allt að 7% af nafnvirði hlutafjár. Í stað þessa frádráttar kæmi það að arður yrði skattfrjáls hjá þeim lögaðila sem veitir honum móttöku. Á móti hugsanlegum neikvæðum áhrifum á skattgreiðslur fyrirtækja komi lækkun eignarskatta hjá fyrirtækjum og einstaklingum að undangenginni breikkun eignarskattsstofns o.fl. Enn fremur er til athugunar að setja reglur um samsköttun móður- og dótturfyrirtækja; frestun á tekjufærslu söluhagnaðar hlutabréfa; rýmkaðar reglur um gjaldfærslu vegna tapaðs hlutafjár; hugmynd um svokallaða forúrskurði um álitaefni í skattamálum o.fl. Gert er ráð fyrir að þessari skoðun ljúki fljótlega þannig að unnt verði að lögfesta frekari breytingar á vorþingi.

1. Skattlagning lögaðila.

    Rýmkun heimilda til yfirfærslu rekstrartaps milli ára. Á árinu 1991 var gerð sú lagabreyting á yfirfærslu rekstrartaps í atvinnurekstri sem myndar frádrátt frá tekjum að í stað þess að vera ótímabundin var yfirfærslan bundin við síðustu fimm ár á undan tekjuári. Eitt meginmarkmið með þessum breytingum var að fella niður heimild til að nýta rekstrartap sem myndaðist fyrir mörgum árum og jafnvel áratugum, en verðuppfærsla þess hafði verið nokkuð umdeild. Lögin tóku gildi árið 1992, en samkvæmt þeim á heimild til að nýta rekstrartap sem myndaðist árið 1990 og fyrr að falla niður í árslok 1996.
    Þegar við gildistöku laganna var bent á að fimm ára tímabil væri afar skammur tími, bæði í samanburði við þær reglur sem gilda víða erlendis og eins og ekki síður við íslenskar aðstæður þar sem í senn gætti meiri sveiflna í rekstri milli ára og eins næðu þær yfir lengra tímabil en víðast annars staðar. Að undanförnu hafa farið fram viðræður milli stjórnvalda og fulltrúa atvinnurekenda þar sem þessi sjónarmið hafa verið ítrekuð. Jafnframt hefur verið bent á að miðað við óbreytt lög verði ekki lengur heimilt að nýta rekstrartap frá erfiðleikaárunum 1988–1990 til frádráttar tekjum, en þessi ár hafi verið fyrirtækjum afar erfið og enn sé mikið ónýtt tap frá þessum árum.
    Þessar ábendingar eru réttmætar. Í frumvarpinu er lagt til að tímabilið til nýtingar rekstrartaps frá fyrri árum til frádráttar tekjum verði lengt úr fimm árum í átta ár til frambúðar. Vegna sérstakra aðstæðna er einnig gerð tillaga um að heimilt verði að nýta það rekstrartap sem myndaðist á árunum 1988–1990 fram til ársins 2000, en tap ársins 1987 og fyrri ára falli niður um næstu áramót.
    Í öðru frumvarpi ríkisstjórnarinnar eru tillögur um að samræma álagningu tryggingagjalds milli atvinnugreina og stefna að einu gjaldhlutfalli eftir fjögur ár, en það er nú í tveimur þrepum. Samkvæmt þessum tillögum mun tryggingagjald þeirra atvinnugreina sem nú eru í lægra þrepinu (landbúnaður, sjávarútvegur, iðnaður, hugbúnaðariðnaður, kvikmyndaiðnaður, gisting, veitingarekstur og bílaleigur) hækka um tæplega 2% af launum. Tryggingagjald annarra atvinnugreina mun hins vegar lækka um 1,35% af launum. Rýmri heimildir til að nýta rekstrartap fyrri ára koma ekki síst mörgum sjávarútvegs- og iðnfyrirtækjum til góða og vegur þannig á móti hækkun tryggingagjalds, en þessar greinar eiga verulegan hluta þess rekstrartaps sem enn er ónýtt frá þessum árum. Auk þess mun breytingin treysta nýsköpun í atvinnulífinu þar sem hún styrkir stöðu ungra fyrirtækja, en fyrstu rekstrarárin eru oft erfið meðan fyrirtækin eru að vinna sér stöðu á markaðnum og bera kostnað af fjárfestingum o.fl.

    Sveigjanlegri afskriftareglur. Í frumvarpinu er gerð tillaga um að afskriftaheimildir verði sveigjanlegri en nú er. Án þess að vikið sé frá því meginsjónarmiði að afskriftir ráðist af verðrýrnun varanlegra rekstrarfjármuna eru möguleikar fyrirtækja til að bregðast við tímabundnum sveiflum í afkomu auknir og reksturinn þannig treystur. Veigamikil rök eru fyrir þessari breytingu. Bæði virðast afskriftareglur margra Evrópuríkja mun sveigjanlegri en hér á landi og eins sýnast sveiflur í atvinnurekstri meiri hér en víðast erlendis. Þessar breytingar hafa ekki áhrif á tekjur ríkissjóðs til lengri tíma litið, en gætu leitt til breytinga á greiðsluflæði einstakra ára í báðar áttir.

2. Tekjuskattur einstaklinga.

     Afnám hlutabréfafrádráttar. Sem fyrr segir er nú unnið að endurskoðun á tekjuskatti einstaklinga í sérstakri nefnd og því eru engar tillögur er varða þau atriði sem ætla má að nefndin taki á í þessu frumvarpi. Til þess að skapa nefndinni svigrúm til lækkunar jaðarskatta hefur ríkisstjórnin hins vegar ákveðið að fella niður sérstakan skattafrádrátt vegna hlutabréfakaupa einstaklinga frá næstu áramótum. Vegna afturvirknissjónarmiða er nauðsynlegt að lögfesta breytinguna fyrir áramót þannig að hún geti skilað peningum í ríkissjóð árið 1998. Þær breytingar sem verða á skattlagningu arðs af hlutabréfum á næsta ári stuðla væntanlega að meiri viðskiptum með hlutabréf og því eru ekki jafngild rök fyrir þessari ívilnun og áður.

3. Aðrar breytingar.

    Aðrar helstu breytingar samkvæmt frumvarpi þessu eru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar varðandi frádrátt frá tekjum einstaklinga vegna kaupa á stofnfjárbréfum í sparisjóðum. Þessar breytingar lúta einkum að framkvæmd laganna, en núgildandi reglur eru að ýmsu leyti gallaðar.
    Í öðru lagi lækkar skatthlutfall tekjuskatts einstaklinga vegna flutnings grunnskóla til sveitarfélaga.
    Í þriðja lagi eru fyrirhugaðar breytingar á reglum er varða málsmeðferð samkvæmt tekjuskattslögunum.
    Í fjórða lagi eru ákvæði sem gera réttarstöðu einstaklinga í staðfestri samvist þá sömu og gildir um hjón að því er varðar skattlagningu tekna og eigna og rétt til nýtingar þess skattalega hagræðis sem gildir um hjón. Með þessum breytingum eru ákvæði gildandi laga um tekju- og eignarskatt löguð að lögum um staðfesta samvist.
    Í fimmta lagi er lagt til að við útreikning verðbreytingarstuðuls verði miðað við vísitölu neysluverðs í stað byggingarvísitölu.
    Í sjötta lagi eru síðan gerðar smávægilegar breytingar er lúta að skattlagningu fjármagnstekna einstaklinga, þ.e. annars vegar að því er varðar hlutdeildarskírteini og hins vegar að því er varðar einstaklinga sem hafa takmarkaða skattskyldu hér á landi. En hvor tveggja eru ívilnandi breytingar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, er gert ráð fyrir að árlega sé innheimtur staðgreiðsluskattur af gengishækkun hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðum. Þessi innheimtumáti getur verið mjög ósanngjarn í þeim tilvikum þegar skírteinin hafa ekki verið innleyst. Þannig getur hagnaður eins árs verið orðinn að engu það næsta. Þykir því eðlilegt að ekki sé innheimt staðgreiðsla af tekjum þessum nema við innlausn hlutdeildarskírteina. Er samhliða þessu frumvarpi lagt fram sérstakt frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, þar sem staðgreiðsluskyldunni er breytt að þessu leyti.
    Sú breyting sem lögð er til á 8. gr. felur ekki í sér neina efnisbreytingu, en ákvæði 8. gr. hefur að geyma skilgreiningu tekjuskattslaga á vöxtum, afföllum og gengishagnaði. Breytingin felst í því að tilgreining á gengishækkun hlutdeildarskírteina er flutt á milli málsliða, þar sem hún þykir eiga betur heima.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er lögð til breyting á útreikningi verðbreytingarstuðuls skv. 26. gr. laganna. Samkvæmt gildandi ákvæði miðast ákvörðun verðbreytingarstuðuls við þær breytingar sem orðið hafa á byggingarvísitölu fyrir janúarmánuð á tekjuári og sömu vísitölu fyrir janúarmánuð á álagningarári. Hér er lagt til að í stað byggingarvísitölu verði miðað við vísitölu neysluverðs skv. lögum nr. 12/1995. Þykir vísitala neysluverðs vera heppilegri mælikvarði verðbreytinga í skattskilum en byggingarvísitalan. Vegna hugsanlegra íþyngjandi áhrifa þessarar breytingar í einstökum tilvikum er lagt til að þessi breyting komi til framkvæmda við gerð skattframtals vegna tekjuársins 1997 og við álagningu 1998, sbr. 16. gr. frumvarpsins. Í ljósi þess að á yfirstandandi ári er verulegur munur á verðbreytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs annars vegar og byggingarvísitölu hins vegar þykir rétt að gefa skattaðilum kost á að nota verðbreytingarstuðul sem byggist á breytingum á neysluverðsvísitölu við skattuppgjör vegna tekjuársins 1996. Er ákvæði hér að lútandi í bráðabirgðaákvæði I.


Um 3. gr.

    Lagt er til að sérstakur frádráttur vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri verði afnuminn frá og með næstu áramótum. Um forsendur vísast til almennra athugasemda.

Um 4. gr.

    Lögð er til breyting á 7. tölul. 31. gr. laganna sem fjallar um heimildir til að draga frá rekstrartekjum tap fyrri ára. Samkvæmt gildandi lögum er heimilt að draga frá tekjum af atvinnurekstri og sjálfstæðri starfsemi eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu fimm árum á undan tekjuári. Þessi fimm ára takmörkun var lögfest með lögum nr. 85/1991, en fram að þeim tíma hafði tapsyfirfærslan ekki verið takmörkuð við tiltekinn árafjölda. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði við þau lög var sérstaklega heimilað að draga frá tekjum næstu fimm ára frá gildistöku laganna eftirstöðvar rekstrartapa fyrri ára eins og þær voru 31. desember 1990. Samkvæmt því fellur sú heimild niður um næstu áramót.
    Fulltrúar atvinnurekenda hafa ítrekað bent á að fimm ára fresturinn sé of skammur, einkum með vísan til þess að sveiflur í hagkerfinu hér á landi geta orðið talsvert miklar og fimm ár því of skammur tími til að að nýtast fyrirtækjunum eðlilega. Hér er lagt til að fresturinn verði lengdur í átta ár til að koma til móts við þessi sjónarmið. Um nánari forsendur vísast til umfjöllunar í almennum athugasemdum. Sérstaklega skal vakin athygli á bráðabirgðaákvæði frumvarpsins, þar sem gert er ráð fyrir að fram til ársins 2000 verði heimilt að nýta rekstrartöp allt aftur til ársins 1988, en það byggist fyrst og fremst á því að rekstrarárin 1988 og 1989 voru erfið ár í rekstri margra fyrirtækja hér á landi.

Um 5. gr.

    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 38. gr. laganna þar sem kveðið er á um afskriftahlutföll. Fulltrúar atvinnurekenda hafa um nokkuð skeið óskað eftir því að afskriftaheimildir yrðu rýmkaðar til að stuðla að því að hægt verði að nota afskriftirnar í ríkari mæli til sveiflujöfnunar. Þær tillögur um breytingar sem lagðar eru til í greininni fela í sér nokkra rýmkun á afskriftahlutföllum og byggjast fyrst og fremst á alþjóðlegum samanburði, en um forsendur að öðru leyti vísast til umfjöllunar í almennum athugasemdum. Sérstök athygli er vakin á ákvæði e-liðar greinarinnar, en þar eru tekin inn í lögin ákvæði um fyrningu mannvirkja, en sambærileg ákvæði eru í reglugerð nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Eðlilegt þykir að ákvæði þessi séu sett inn í lögin, þannig að þar sé kveðið á um fyrningarhlutföll mannvirkja, en ákvarðanavald þar að lútandi ekki framselt ráðherra með reglugerðarheimild eins og er í gildandi lögum.

Um 6. gr.

    Á sl. þingi voru samþykkt lög sem heimiluðu einstaklingum af sama kyni að fá sambúð sína staðfesta. Í þeim lögum var gert ráð fyrir að slíkir einstaklingar nytu sömu réttarstöðu og hjón, m.a. í skattalegu tilliti. Ekki voru gerðar samhliða breytingar á skattalögunum. Hér er lögð til breyting á tekjuskattslögum í samræmi við þetta, þannig að réttarstaða einstaklinga í staðfestri samvist verði sérstaklega skilgreind í skattalögunum. Ekki er um efnislega breytingu frá gildandi rétti heldur einungis verið að árétta ákvæði laga um staðfesta samvist með sérstöku ákvæði þar að lútandi. Er þetta ekki hvað síst gert í þeim tilgangi að skoðun laga um tekjuskatt og eignarskatt gefi sem besta mynd af rétti og skyldum manna í skattalegu tilliti.

Um 7. gr.

    Á sl. þingi voru gerðar þær breytingar á lögum að grunnskólinn færðist frá ríki til sveitarfélaga. Til að standa straum af kostnaði sveitarfélaga við þetta verkefni var gert ráð fyrir að útsvör yrðu hækkuð og tekjuskattur einstaklinga lækkaður samsvarandi. Samþykkti Alþingi á sl. þingi breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga í þessa veru. Breyting sú sem hér er lögð til er í samræmi við þá lagabreytingu og felur það í sér að tekjuskattshlutfall einstaklinga lækki úr 33,15% í 30,5%.

Um 8. gr.

    Í þessari grein er verið að samræma skattlagningu þeirra manna sem skattskyldir eru hér á landi breyttum reglum um skattlagningu fjármagnstekna. Þannig er gert ráð fyrir að skatthlutfall lækki í 10% af arði, leigu og söluhagnaði. Sem fyrr er ekki gert ráð fyrir að vaxtatekjur þessara aðila verði skattlagðar hér á landi.

Um 9. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á 74. gr. laganna þar sem kveðið er á um eignamat, þannig að sérstaklega verði kveðið á um hvernig stofnfjárbréf í sparisjóðum skuli metin við ákvörðun eignarskattsstofns. Ekki er sérstaklega kveðið á um þetta í gildandi lögum en eðlilegt er að þetta sé tilgreint sérstaklega í lögunum með sama hætti og um eignarhlutdeildir í öðrum fyrirtækjum.


Um 10. gr.

    Lagðar eru til breytingar á 97. gr. laganna sem fjallar um frest skattyfirvalda til að endurákvarða skatta. Samkvæmt gildandi ákvæði er fresturinn tvenns konar. Almenna reglan er í 1. mgr. gildandi ákvæðis, þar sem kveðið er á um að heimild til endurákvörðunar skatts, nái til skatts vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Í 2. mgr. gildandi ákvæðis er síðan skemmri frestur eða tvö ár í þeim tilvikum er skattaðili hefur í framtali sínu eða fylgigögnum látið í té fullnægjandi upplýsingar til að byggja rétta álagningu á. Þetta fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt bæði af skattyfirvöldum og gjaldendum. Hafa athugasemdir gjaldenda fyrst og fremst lotið af því að sex ár væru of langur tími sérstaklega þegar um væri að ræða mistök eða gáleysi við framtalsgerðina. Í slíkum tilvikum sé ósanngjarnt að fá bakreikning til sex ára. Athugasemdir skattstjóra hafi á hinn bóginn lotið að því að sá tími sem skattstjóra er ætlaður til þess að skoða ný framtöl, tveggja ára fresturinn, sé of skammur með tilliti til fjölda framtala. Fyrir álagningu beinist öll vinnan að grunnskoðun framtala og gefst því einungis tími til þess að leiðrétta mjög augljós atriði svo sem reikningsskekkjur. Framtalsfrestur einstaklinga er til 10. febrúar og lögaðila til 31. maí og einstaklinga í rekstri til 15. apríl. Í framkvæmd eru frestir þessir lengdir og eru síðustu framtöl lögaðila að berast inn rétt fyrir álagningu. Strax að lokinni álagningu tekur við vinna við kærur vegna álagningar og er sú vinna fram að áramótum. Þá hafa skattstjórar tvo til þrjá mánuði til að breyta framtölum áður en álagningarvinna hefst að nýju. Það er því fyrst og fremst tímaskortur sem veldur því að framtöl eru ekki skoðuð til hlítar fyrir álagningu.
    Með þeirri breytingu sem hér er lögð til að er gert ráð fyrir að almenna reglan verði fjögurra ára frestur, og er með því verið að koma til móts við bæði þessi sjónarmið sem hér hafa verið rakin. Frávik frá þessum fjögurra ára fresti er ef rekja má röng framtalsskil til stórfellds gáleysis eða ásetnings og gildir þá sex ára frestur. Það þykir ekki eðlilegt að takmarka heimildir skattyfirvalda til endurákvörðunar gjalda ef röng skattskil má rekja til slíks saknæmis hjá gjaldanda. Eðli máls samkvæmt er það háð mati hverju sinni hvort þessi saknæmisskilyrði eru til staðar. Þannig er gert ráð fyrir að ef gjaldandi sýnir fram á sérstakar málsbætur muni fjögurra ára fresturinn eiga við. Mat skattstjóra um þetta atriði sætir síðan endurskoðun fyrir yfirskattanefnd eða eftir atvikum dómstólum.

Um 11. gr.

    Hér er lagt til að kveðið verði á um það með afdráttarlausum hætti að innheimtumönnum ríkissjóðs sé heimill aðgangur að fasteigna-, skipa- og ökutækjaskrá. Í framkvæmd er það svo að innheimtumenn hafa aðgang að skipa- og ökutækjaskrá, en að því er varðar fasteignaskrána var aðgangi innheimtumanna lokað á grundvelli úrskurðar tölvunefndar frá 16. maí 1994, þar sem m.a. var komist að þeirri niðurstöðu að við ákvörðun um aðgang að fasteignaskrá beri að líta til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga, enda sé ekki fyrir að fara sérstökum lagaákvæðum sem heimili þennan aðgang. Innheimta skatta er að mörgu leyti ólík annarri kröfuinnheimtu. Einkum er stofnun skattkrafna með sérstökum hætti þar sem hún stofnast í reynd með einhliða lögbundinni ákvörðun stjórnvalda. Hið opinbera hefur engin tök á því að tryggja fullnustu kröfunnar við stofnun hennar ólíkt til að mynda því þegar um lánveitingar er að ræða. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er verið að stuðla að því að innheimtumenn geti sannreynt eignir manna án þess að fara með innheimtumál í gjaldþrotameðferð. Með þessu er þannig verið að skapa frekari grundvöll undir það að gjaldþrotamálum fækki í þjóðfélaginu og farið verði að afskrifa óinnheimtanlegar kröfur fyrr en gert hefur verið, eða þegar sannreynt er við árangurslaust fjárnám að viðkomandi gjaldandi er eignalaus. Tekið skal fram að í þessu ákvæði er eingöngu verið að kveða með afdráttarlausum hætti á um heimildir innheimtuaðila til aðgangs að þessum tilgreindu skrám. Ekki ber því að gagnálykta frá þessu ákvæði um heimildir innheimtuaðila til aðgangs að öðrum skrám.


Um 12. gr.

    Hér er lagt til að kveðið verði afdráttarlaust á um að samskattað sambúðarfólk, sbr. 63. gr., og einstaklingar í staðfestri samvist beri ábyrgð á skattgreiðslum eins og gildir um hjón. Fyrr á þessu ári voru samþykkt lög um staðfesta samvist og var í þeim lögum kveðið á um að einstaklingar í staðfestri samvist skyldu bera réttindi og hafa skyldur sem hjón, m.a. í skattalegu tilliti. Í 114. gr. er eingöngu talað um sameiginlega skuldaábyrgð hjóna á skattskuldum, enda var ekki þegar það ákvæði var samið gert ráð fyrir að sambúðarfólk utan hjónabands gæti verið samskattað. Í framkvæmd hefur verið litið svo á að sambúðarfólk, sem óskar samsköttunar, öðlist með því þau réttindi sem af lögunum leiðir eins og heimild til millifærslu persónuafsláttar, sem og takist á herðar þær skyldur sem samkvæmt lögunum eru lagðar á hjón, þar á meðal skuldaábyrgðina. Til að taka af allan vafa hér að lútandi er lagt til að hin sameiginlega skuldaábyrgð verði sérstaklega lögfest með sama hætti og gildir um hjón.

Um 13. gr.

    Samkvæmt 118. gr. laganna hefur fjármálaráðherra heimild til að breyta tímaákvörðunum og frestum samkvæmt lögunum ef brýna nauðsyn ber til. Í framkvæmd hefur það verið svo um árabil að fjármálaráðherra hefur framselt þessa frestsheimild til ríkisskattstjóra. Hér er lagt til að þessi framkvæmd verði lögfest.


Um 14. gr.

    Samkvæmt þessari grein er verið að taka af öll tvímæli um að ákvæði laganna um hlutabréf og jöfnunarhlutabréf eigi með sama hætti við um stofnfjárbréf í sparisjóðum.


Um 15. gr.

    Í þessu ákvæði um gildistöku er sérstaklega kveðið á um hvenær einstök ákvæði frumvarpsins komi til framkvæmda verði það að lögum.


Um 16. gr.

    Gert er ráð fyrir að við lögin bætist tvö ákvæði til bráðabirgða. Í bráðabirgðaákvæði I er lagt til að rekstraraðilum verði gefinn kostur á að miða verðbreytingar vegna tekjuársins 1996 við verðbreytingarstuðul sem reiknaður verður miðað við vísitölu neysluverðs. Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að verðbreytingarstuðull verði miðaður við breytingar á neysluverðsvísitölu í stað byggingarvísitölu eins og nú er. Samkvæmt gildistökuákvæðinu er gert ráð fyrir að sú breyting taki ekki gildi fyrr en við álagningu 1998 vegna tekjuársins 1997. Ekki þótti hægt að hafa gildistöku hins almenna ákvæðis 2. gr. afturvirkt þar sem það gæti í einstökum tilvikum haft íþyngjandi áhrif við skattlagningu söluhagnaðar. Í ljósi þessa er í þessu ákvæði til bráðabirgða opnað fyrir val skattaðila að miða verðbreytingar vegna tekjuársins 1996 við vísitölu neysluverðs í stað byggingarvísitölu. Ef skattaðili velur að miða verðbreytingar við neysluverðsvísitölu við skattskil sín vegna tekjuársins 1996 verður að nota þann stuðul við allar verðbreytingar það árið.
    Í ákvæði til bráðabirgða II er lagt til að fram til ársins 2000 verði rekstraraðilum heimilt að nýta rekstrartöp allt aftur til rekstrarársins 1988. Samkvæmt þeim breytingum sem í frumvarpinu eru lagðar til á 7. tölul. 31. gr. laganna er gert ráð fyrir að heimilt verði að nýta eftirstöðvar rekstrartapa síðustu átta ára. Með vísan til þess að árin 1988 og 1989 voru sérstaklega erfið í atvinnurekstri og nokkuð stór töp eru vegna þeirra ára er lagt til að heimilt verði að nýta töp allt aftur til þeirra ára fram til ársins 2000. Um forsendur vísast til almennra athugasemda.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 75/1981,
um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta snýr að breytingum á lögum varðandi tekjur ríkissjóðs og verður ekki séð að það hafi teljandi áhrif á gjaldahlið.