Ferill 111. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 111 . mál.


171. Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Svavars Gestssonar um flutning sendiherra og annarra starfsmanna utanríkisþjónustunnar.

    Hvaða reglur gilda um flutning sendiherra og annarra flutningsskyldra starfsmanna utanríkisþjónustunnar að því er varðar starfstíma á hverjum stað, tilkynningarfrest og önnur slík starfskjaraatriði?
    Samkvæmt 10. gr. laga nr. 39/1971 eru starfsmenn utanríkisþjónustunnar „skyldir til að starfa sem fulltrúar utanríkisþjónustunnar erlendis eða í utanríkisráðuneytinu samkvæmt ákvörðun utanríkisráðherra. Eigi þarf nýja skipun, þótt starfsmaður sé fluttur milli staða eða starfa innan sama flokks samkvæmt 8. gr. þessara laga.“ Við framkvæmd þessa ákvæðis eru eftirfarandi viðmiðunarreglur hafðar að leiðarljósi:
    Nauðsynlegt er að nýir sendierindrekar utanríkisþjónustunnar fái leiðsögn og þjálfun í ráðuneytinu um árabil áður en þeir eru fluttir til starfa erlendis til skemmri eða lengri tíma. Reynt er eftir föngum að flytja nýja sendierindreka milli skrifstofa ráðuneytisins til að veita þeim sem víðtækasta reynslu og yfirsýn.
    Það má telja eðlilegt að nýr starfsmaður flytjist utan eftir tveggja til þriggja ára starf í ráðuneytinu og megi þá vænta þess að hann muni sinna störfum í sendiráði eða við fastanefnd í u.þ.b. fjögur ár. Þær aðstæður geta þó verið fyrir hendi að starfsmaður þurfi að flytjast milli staða innan skemmri tíma, annaðhvort til annarrar sendiskrifstofu eða til ráðuneytisins. Starfsmenn geta ekki vænst þess að vera lengur en í átta ár samfleytt erlendis. Verður að telja eðlilegt að þeir endurnýi þá starfsreynslu sína í ráðuneytinu með dvöl á Íslandi í þrjú til fjögur ár. Starfsreynsla í ráðuneytinu er hverjum starfsmanni nauðsynleg og óhjákvæmileg til að halda tengslin við land og þjóð.
    Æskilegt er að sendiherrar ílendist ekki lengur erlendis en í átta til tíu ár samfleytt og flytjist þá reglubundið til starfa á Íslandi. Sendiherrar sem flytjast heim munu þá veita forstöðu ýmsum skrifstofum ráðuneytisins, starfa við sérstök störf, svo sem við heimasendiráð eða taka við starfi ráðuneytisstjóra.
    Miðað mun við að sendiherrar gegni að jafnaði ekki störfum erlendis eftir að þeir hafa náð 65 ára aldri.
    Með þessum reglum er ætlað að skapa kjölfestu í starfsmannaflutningum utanríkisþjónustunnar.
    Samráð hefur verið haft við utanríkismálanefnd um reglurnar.

    Hvaða reglur gilda um greiðslu kostnaðar af flutningi starfsmanna utanríkisþjónustunnar?
    Hér á eftir fara reglur ráðuneytisins um greiðslu kostnaðar af flutningi starfsmanna utanríkisþjónustunnar.

1. gr.


Kostnaður við búslóðaflutning.


A. Hvað telst til búslóðar.
    Til búslóðar samkvæmt þessum kafla telst allt venjulegt innbú starfsmanns og fjölskyldu hans og þeir hlutir aðrir sem oftast fylgja fjölskyldum, svo sem barnavagnar, reiðhjól o.þ.h.

B. Hvenær kostnaður er greiddur af ríkissjóði.
    Ríkissjóður greiðir kostnað við flutning búslóðar starfsmanna utanríkisþjónustunnar í eftirfarandi tilvikum:
    Þegar starfsmaður flyst búferlum milli starfsstaða.
    Þegar flutningsskyldur starfsmaður lætur af störfum erlendis og flyst til Íslands.
    Þegar flutningsskyldur starfsmaður andast erlendis.

C. Hvað er greitt.
    Ríkissjóður greiðir kostnað við pökkun, afgreiðslu, sendingu, tollafgreiðslu, heimflutning og upppökkun búslóðar, hreingerningu íbúðar að lokinni pökkun, svo og flutningstryggingu sem utanríkisráðuneytið sér um, sbr. 3. gr., og enn fremur geymslukostnað þegar um hann er að ræða.
    Flutningskostnaður greiðist aðeins fyrir flutning í fyrstu íbúð í starfsríki, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi og utanríkisráðuneytið hafi veitt fyrir fram samþykki fyrir greiðslu kostnaðar við flutning í aðra íbúð eða hluta hans.
    Auk fyrirframgreindra beinna kostnaðarliða greiðir ríkissjóður vissa bótafjárhæð vegna flutningsins, sbr. 2. mgr. 5. gr.

D. Rúmtak búslóðar.
    Ríkissjóður greiðir ekki flutningskostnað þess hluta búslóðar sem er umfram eftirfarandi brúttó-rúmmetrafjölda (að frátalinni bifreið):
    Hjá föstum forstöðumanni sendiráðs      100 m 3
    Hjá sendifulltrúa, sendiráðunauti eða sendiræðismanni skv. 2. og
        3. flokki 8. gr. utanríkislaga     
45 m 3

    Hjá sendiráðsritara, vararæðismanni eða aðstoðarmanni skv. 4. og
        5. flokki utanríkislaga     
30 m 3

    Hjá öðrum flutningsskyldum starfsmönnum      25 m 3
    Rúmmetratala skv. 2. og 3. tölul. hækkar um 25% sé starfsmaður í hjónabandi, svo og um 5 m 3 fyrir hvert barn sem býr hjá starfsmanni og hann fær viðbótargreiðslur fyrir.
    Sé húsnæði búið húsgögnum í eigu ríkisins getur utanríkisráðuneytið ákveðið lægri rúmmetratölu hverju sinni.

E. Tilboð um flutingskostnað.
    Við flutning milli sendiráða eða til Íslands skal sendiráð, nema sérstakar ástæður mæli gegn því, afla tveggja eða þriggja sambærilegra tilboða frá viðurkenndum flutningafyrirtækjum. Heimildar ráðuneytisins skal leitað áður en tilboði er tekið.

F. Bókfærsla flutningskostnaðar.
    Allur kostnaður sem sendiráð greiðir vegna flutnings búslóðar færist beint á reikning ríkissjóðs.

2. gr.

Bifreiðir.


    Um flutningskostnað bifreiðar gildir sú regla, þegar flutt er milli starfsstaða, að ríkissjóður greiðir kostnaðinn verði starfsmaður fyrir verulegum skaða ef hann selur bifreiðina á fyrri starfsstað. Þegar svo stendur á skal samþykkis utanríkisráðuneytisins aflað fyrir fram.
    Þegar starfsmaður flytur til Íslands greiðir ríkissjóður flutningskostnað bifreiðar ef starfmaður hefir starfað minnst þrjú ár erlendis og flyst til starfa í utanríkisráðuneytinu eða þegar ástæða til búslóðarflutnings er sú að starfsmaður hefir náð eftirlaunaaldri. Hafi starfsmaður látist erlendis greiðir ríkissjóður heimflutning bifreiðar sem eftirlifandi maki tekur með sér.
    Aldrei greiðist flutningskostnaður fyrir fleiri en eina bifreið fyrir sömu fjölskyldu.

3. gr.

Trygging búslóðar.


    Utanríkisráðurneytið hefir milligöngu um tryggingu búslóða.
    Eftirfarandi upplýsingar þurfa að koma fram í beiðni um tryggingu:
    Hvaðan og hvert er flutt.
    Hvaða dag tryggingin skal taka gildi og hvaða dag áætlað er að flutningi verði lokið.
    Rúmmetrafjöldi búslóðar.
    Með hvaða flutningstækjum búslóðin er send.
    Hvort búslóðin verður geymd í vörugeymslu fyrir eða eftir sendingu og þá áætlaður geymslutími.
    Hvort einhverjir munir séu í búslóðinni sem eru svo verðmætir að kaupa þurfi sérstaka tryggingu fyrir þá.
    Verði tjón á búslóð í flutningi skal starfsmaður afla yfirlýsingar flutningafyrirtækis eða þess aðila sem annaðist upppökkun um tjónið og senda ráðuneytinu með bótakröfu sinni. Sé um stórtjón að ræða skal þegar í stað haft samband við utanríkisráðuneytið.

4. gr.

Geymsla búslóðar.


    Þegar húsnæðisaðstæður hjá starfsmanni erlendis eða í utanríkisráðuneytinu eru þannig að hann getur ekki komið þar fyrir búslóð sem er innan eðlilegra marka getur ráðuneytið samþykkt að greiða geymslukostnað á Íslandi af þeim hluta búslóðar sem ekki rúmast í húsnæði starfsmanns. Sé verðmæti þessa búslóðarhluta lítið í hlutfalli við geymslukostnað áskilur ráðuneytið sér rétt til að óska fremur eftir sölu á þessum munum gegn greiðslu hæfilegra bóta.

5. gr.


Annar kostnaður sem af búferlaflutningi leiðir.


    Þegar starfsmaður flytur til starfa við sendiráð eða heim til starfa í ráðuneytinu greiðir ríkissjóður stofnkostnað af síma, sbr. nánar reglur um greiðslur símakostnaðar sendiráðsmanna í 11. gr. 7. kafla.
    Annar kostnaður sem af búferlaflutningi leiðir, t.d. húsaleigutap, breytingar á gluggatjöldum og spennu á rafmagnstækjum o.s.frv., greiðist með ákveðinni fjárhæð sem ráðuneytið ákveður hverju sinni.

6. gr.

Ferða- og dvalarkostnaður við búferlaflutninga.


    Ákvæði 10. kafla um ferðakostnað gilda um búferlaflutninga með breytingum og viðaukum skv. 7.–10. gr. þessa kafla.

7. gr.

Fargjöld.


    Fargjöld maka sendierindreka og barna, sem hann nýtur viðbótargreiðslna fyrir, greiðast úr ríkissjóði á sama farrými og sendierindreki ferðast á. Fargjald barns, sem býr hjá starfsmanni en orðið hefir 21 árs meðan starfsmaður var erlendis, greiðist úr ríkissjóði, enda flytji það á sama tíma og starfsmaður. Eftir það greiðist enginn frekari ferðakostnaður fyrir barnið.
    Við flutning frá Íslandi fær sendierindreki greitt fargjald til starfsstaðar fyrir einn einkaþjónustustarfsmann.
    Nauðsynleg yfirvigt og annar kostnaður, sem greinir í 1.–4. tölul. 7. gr. 10. kafla, greiðist úr ríkissjóði.

8. gr.

Dagpeningar eða gisti- og fæðiskostnaður erlendis.


    Við flutning til starfa í sendiráði fær starfsmaður dagpeninga skv. 5. gr. 10. kafla fyrir þann tíma sem ferðalagið stendur yfir. Maki sendierindreka fær 50% af dagpeningum starfsmanns, svo og börn hans á aldrinum 10–21 árs. Fyrir börn yngri en 10 ára reiknast 25% af dagpeningum starfsmanns.
    Þurfi starfsmaður að búa í gistihúsi fyrir brottför frá sendiráði greiðast dagpeningar skv. 1. mgr. fyrir allt að 7 daga.
    Þurfi starfsmaður að búa í gistihúsi við komu á starfsstað greiðast dagpeningar skv. 1. mgr. í allt að 14 daga. Ef sérstaklega stendur á getur ráðuneytið einnig heimilað greiðslu á dagpeningum þó að starfsmaður búi ekki á gistihúsi við komu á eða fyrir brottför frá starfsstað.
    Sé lengri gistihúsadvöl en að framan greinir óhjákvæmileg á brottfarar- eða komustað er ráðuneytinu heimilt að bæta starfsmanni aukakostnað sem af því leiðir samkvæmt umsókn starfsmanns þar um.
    Kjósi starfsmaður fremur að fá greiddan raunverulegan gisti- og fæðiskostnað sinn og fjölskyldu sinnar en dagpeninga skv. 1. mgr. skal hann senda ráðuneytinu frumreikninga yfir kostnaðinn til úrskurðar.

9. gr.


Dagpeningar eða gisti- og fæðiskostnaður á Íslandi.


    Þegar starfsmaður flytur til Íslands eða frá Íslandi og aðstæður þar eru eins og greinir í 2. og 3. mgr. 8. gr. á hann rétt á gisti- og fæðiskostnaði fyrir sig og fjölskyldu sína samkvæmt reglum 1. mgr. 6. gr. 10. kafla.
    Kjósi starfsmaður fremur dagpeninga en greiðslu skv. 1. mgr. þessarar greinar skulu þeir greiddir eftir reglum 2. mgr. 6. gr. 10. kafla, þó þannig að fullir dagpeningar greiðast fyrir starfsmann og alla fjölskyldumeðlimi hans sem um ræðir í 7. gr.

10. gr.

Ferðakostnaðarreikningur þegar flutt er búferlum.


    Innan mánaðar frá því búferlaflutningum lauk skal starfsmaður senda utanríkisráðuneytinu ferðakostnaðarreiking (fyrirmynd nr. 7) vegna þeirra kostnaðarliða sem um ræðir í 6.–9. mgr.

    Hverju nam kostnaður ráðuneytisins af flutningi:
         
    
    sendiherra,
         
    
    annarra starfsmanna utanríkisþjónustunnar,
        skipt eftir árum 1991–95?

    Eftirfarandi er heildarkostnaður ráðuneytisins af flutningi starfsmanna þess árin 1991–95 (frekari sundurliðun liggur ekki fyrir):
                                   Ár          
Kr.

                                  1991     
26.272.669

                                  1992     
23.346.293

                                  1993     
19.363.998

                                  1994     
27.686.493

                                  1995     
35.011.439

    Þess skal getið að kostnaður af búferlaflutningum starfsmanna það sem af er þessu ári nemur 16.157.614 kr. Ekki er gert ráð fyrir frekari kostnaði á árinu.