Ferill 158. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 158 . mál.


215. Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um upplýsingamiðstöð fyrir aðstandendur ungra fíkniefnaneytenda.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig hefur sú 12 millj. kr. fjárveiting, sem veitt var til barna- og unglingageðdeildar Ríkisspítalanna til að koma á fót upplýsingamiðstöð fyrir aðstandendur ungra fíkniefnaneytenda, verið nýtt? Hvernig hefur starfsemi hennar verið kynnt? Hver er reynslan af því sérstaka átaki sem gera átti til þjónustu við foreldra barna og unglinga í verulegum vímuefnavanda?

    Eins og fram kemur í fyrirspurninni ákvað ríkisstjórnin í febrúar sl. að verja 12 millj. kr. á árinu 1996 til barna- og unglingageðdeildar Ríkisspítalanna til að koma á fót upplýsingamiðstöð fyrir aðstandendur ungra fíkniefnaneytenda í samvinnu við aðra sem vinna að málaflokknum.
    Barna- og unglingageðdeild auglýsti eftir fagfólki í apríl sl. til að vinna að markmiðum sem fram komu í ákvörðun ríkisstjórnarinnar um sérstaka fjárveitingu til deildarinnar. Ráðinn var geðlæknir, félagsráðgjafi og sálfræðingur með sérhæfingu í meðferð ofvirkra barna og barna með hegðunartruflanir og hófu þeir störf í byrjun sumars. Þá hefur sérhæfðum hjúkrunarfræðingi verið falið að veita fyrstu ráðgjöf þegar um vímuefnavanda unglinga er að ræða.
    Þessi fjölgun starfsmanna hefur gert barna- og unglingageðdeild kleift að auka þjónustu við foreldra, m.a. með því að veita frumráðgjöf. Þá hefur hún aukið getu barna- og unglingageðdeildar til þess að taka á móti og greina börn sem eiga við hegðunartruflanir að stríða, m.a. ofvirk börn, en talið er að þessi börn séu í áhættuhópi hvað varðar vímuefnanotkun. Í þessu sambandi má geta þess að um þriðjungur unglinga sem leita til deildarinnar á við vímuefnavanda að stríða. Loks hefur deildin hafið fræðslu og þjálfun fyrir foreldra í formi námskeiða.
    Ráðuneytið telur mjög brýnt að efla forvarnir gegn vímuefnaneyslu ungmenna, m.a. göngudeildarþjónustu. Hefja þarf forvarnavinnuna mun fyrr en verið hefur, m.a. með því að styrkja svo sem unnt er greiningu, meðferð og eftirfylgd barna með hegðunartruflanir og fræðslu og þjálfun fyrir foreldra, en án verulegs stuðnings þeirra verður árangri ekki náð á þessum vettvangi. Rétt greining og meðferð strax í upphafi gerir mögulegt að beita árangursríkustu meðferð sem þekkt er á hverjum tíma og nýta þannig fjármuni sem veittir eru til forvarna á hagkvæmasta hátt, m.a. með eflingu starfsemi barna- og unglingageðdeildar. Sérstök kynning á starfsemi deildarinnar hefur ekki farið fram.
    Vinna barna- og unglingageðdeildar að forvörnum er nú markvissari en áður og nær til fleiri aðila. Fræðslu- og þjálfunarnámskeið BUGL fyrir foreldra barna í áhættuhópi hafa mælst mjög vel fyrir og telja bæði starfsmenn og þeir sem tekið hafa þátt í námskeiðunum að þau muni gera foreldra hæfari til þess að taka á vandamálum barna sinna. Þá hafa verið teknar upp nýjungar í þjónustu við ofvirk börn og börn með hegðunartruflanir. Talið er að þessi nýja þjónusta geti dregið úr líkum á vímuefnavanda síðar og sé þannig mikilvæg forvörn.