Ferill 192. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 192 . mál.


216. Tillaga til þingsályktunar



um upplýsinga- og fræðslumiðstöð háskólastigsins á Austurlandi.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Jón Kristjánsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að sjá til þess, í samvinnu við samráðsnefnd framhaldsskóla á Austurlandi, Samtök sveitarstjórna í Austurlandskjördæmi og Atvinnuþróunarfélag Austurlands, að hið fyrsta verði komið á fót upplýsinga- og fræðslumiðstöð háskólastigsins á Austurlandi.
    Verkefni miðstöðvarinnar verði fyrstu árin að auðvelda og þróa tengsl nemenda framhaldsskóla, almennings og atvinnulífs á Austurlandi við skóla og nám á háskólastigi og stuðla að fræðslu og námi á þessu skólastigi heima fyrir, m.a. með námskeiðum og fjarkennslu.

Greinargerð.


Upplýsinga- og fræðslumiðstöð háskólastigsins.
    Austfirðingar hafa hingað til að mestu verið afskiptir þegar um nám á háskólastigi er að ræða. Vissar tilraunir voru þó gerðar á síðasta áratug til að ná tengslum við þetta skólastig og hugmyndir hafa nýlega komið fram um háskólanám í fjórðungnum, eins og síðar er rakið. Sú tillaga sem hér er flutt felur í sér að hið fyrsta verði af hálfu yfirstjórnar menntamála ráðist í markvissar aðgerðir til að tengja Austurland við háskólastigið og leggja með því grunn að því sem síðar gæti orðið háskóli innan fjórðungsins.
    Að mati flutningsmanna eru ekki raunhæfar forsendur í bráð til þess að efna til sjálfstæðs háskóla á Austurlandi og önnur tilhögun er vænlegri til að Austfirðingar fái á skjótan hátt greiðari aðgang og betri tengsl við háskólastigið en nú er. Lagt er til að Alþingi feli menntamálaráðherra að sjá til þess, í samvinnu við samráðsnefnd framhaldsskóla á Austurlandi, Samband sveitarstjórna í Austurlandskjördæmi (SSA) og Atvinnuþróunarfélag Austurlands, að hið fyrsta verði komið á fót upplýsinga- og fræðslumiðstöð háskólastigsins í fjórðungnum. Verkefnasvið þessarar miðstöðvar verði fyrst í stað einkum tvíþætt eins og fram kemur í nafngiftinni upplýsinga- og fræðslumiðstöð, þ.e.:
—    að þróa víðtæk tengsl við skóla og nám á háskólastigi annars staðar á landinu og miðla þeim tengslum til nemenda framhaldsskóla, almennings og atvinnulífs á Austurlandi,
—    að stuðla að fræðslu og námi á þessu skólastigi á Austurlandi, m.a. í formi námskeiða og fjarkennslu.
    Endurmenntun, símenntun og fjarkennsla í samstarfi við þá háskóla sem fyrir eru gætu orðið meðal helstu verkefna miðstöðvarinnar og tengst skólum, fyrirtækjum og starfsgreinafélögum innan fjórðungsins.
    Líklegt er einnig að fljótlega sé hægt að byggja upp stuttar háskólabrautir í tengslum við framhaldsskóla á Austurlandi. Horfur eru á að framhaldsskólanám til stúdentspróf styttist innan tíðar úr fjórum árum í þrjú og mætti hugsa sér að í stað fjórða árs framhaldsskóla kæmi nám á háskólastigi, sbr. t.d. tölvuháskóla sem starfræktur er innan Verslunarskóla Íslands.

Háskólastig og byggðaþróun.
    Þekking og gott aðgengi að menntun eru nú meginstoðir atvinnuþróunar og ráða miklu um afstöðu fólks til búsetu. Fátt er mikilvægara fyrir byggðaþróun eigi vel að farnast en að þessum þáttum sé vel sinnt og að enginn landshluti sé afskiptur í aðgengi til menntunar. Allvel hefur verið brugðist við þessu kalli tímans á grunnskóla- og framhaldsskólastigi, en annað er uppi á teningnum þegar litið er til háskólastigs. Háskóla Íslands var ætlað að vera þjóðarskóli er hann var stofnaður en margt hefur skort á að svo yrði í reynd og námsframboð á vegum skólans hefur fyrst og fremst verið bundið við höfuðborgarsvæðið. Hér er fyrst og fremst um að kenna stefnuleysi af opinberri hálfu en einnig hafa takmörkuð fjárráð ráðið nokkru um þróun skólans.
    Stofnun Háskólans á Akureyri var á vissan hátt andsvar við því hversu staðbundin starfsemi Háskóla Íslands varð í reynd, sem og stofnana er skólanum tengjast. Frumkvæðið að stofnun háskóla á Akureyri kom frá Norðlendingum, stutt af þingmönnum Norðurlandskjördæmis eystra, þótt margir fleiri þingmenn, yfirvöld menntamála og síðan Alþingi í heild tækju undir þá stefnu að koma skólanum á fót. Ýmsir fleiri skólar er bjóða upp á sérhæft nám eru nú starfræktir á háskólastigi, sumir staðsettir utan Reykjavíkur, eins og Samvinnuháskólinn Bifröst og Bændaskólinn á Hvanneyri.

Tillögur og hugmyndir um háskólanám á Austurlandi.

    Á Austurlandi hafa á síðustu tólf árum verið gerðar nokkrar tilraunir er snerta háskólastigið. Ber þar fyrst að nefna tillögu sem Berit Johnsen sérkennslufulltrúi flutti ásamt Guðmundi Magnússyni, fræðslustjóra í fræðsluráði Austurlandsumdæmis, 9. ágúst 1984 um könnun á „að koma á námi í sérkennslu heima í héraði fyrir starfandi kennara. Námið yrði skipulagt í samvinnu við KHÍ (Kennaraháskóla Íslands) og undir eftirliti hans“. Könnun sem Berit gerði hafði leitt í ljós að þörf væri á 15–20 sérkennurum í umdæminu og voru helstu rök fyrir tillögunni að kennarar úti á landsbyggðinni mundu almennt ekki að óbreyttu taka sig upp til að stunda framhaldsnám í launalausu leyfi. Því þyrfti að koma til nýskipan mála með fjarkennslusniði, þannig að starfandi kennarar gætu lokið eins árs námi á tveimur árum. Tillaga þessi hlaut byr og innrituðust 16 kennarar í slíkt nám sem haldið var uppi á tímabilinu 1987–89. Berit stjórnaði þessu námi en með henni kenndu m.a. kennarar frá KHÍ. Segja má að þessi tilraun hafi ýtt undir stofnun farskóla KHÍ árið 1992, sem nú heitir fjarskóli KHÍ, en fyrstu B.Ed.-kandídatar útskrifuðust úr honum í ágúst 1996, þar af tíu kennarar af Austurlandi. Einnig ber að geta hugmyndar sem Berit Johnsen setti fram árið 1991 um að nýta Eiðaskóla sem eins konar miðstöð fyrir námskeiðshald, fjarkennslu og stuðning við námsmenn á háskólastigi. Yrði hann rekstrarlega sjálfstæð stofnun undir menntamálaráðuneytinu og þjónaði öllu landinu. Sú hugmynd hlaut þá ekki brautargengi.
    Á vettvangi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi (SSA) var síðastliðið sumar rætt um nauðsyn þess að koma á fót háskólamenntun á Austurlandi. Aðalfundur SSA 1996 gerði svohljóðandi ályktun um málið:
    „Aðalfundur Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, haldinn í Neskaupstað 29. og 30. ágúst 1996, felur stjórn SSA að undirbúa í samvinnu við stjórnvöld og forsvarsmenn skóla á háskólastigi að koma á fót háskólamenntun á Austurlandi í tengslum við austfirskt atvinnulíf og til að efla þekkingu og menntun í fjórðungnum.“
    Þá er þess að geta að bæjarstjórn Egilsstaða skipaði í júní 1996 nefnd „til undirbúnings menntun á háskólastigi á Egilsstöðum“ og tilnefndi í hana Emil Björnsson, Helgu S. Hreinsdóttur og Elínu S. Einarsdóttur. Tók nefnd þessi til starfa 1. október 1996 og hefur m.a. snúið sér til SSA með ósk um samstarf.
    Drög að þeirri tillögu sem hér er flutt voru kynnt stjórn SSA á fundi hennar með þingmönnum Austurlands 21. nóvember 1996 og voru viðbrögð viðstaddra jákvæð. Einnig hefur tillagan verið kynnt fulltrúa frá nefnd Egilsstaðabæjar sem veitt hefur upplýsingar um byrjunarstörf og hugmyndir nefndar sveitarfélagsins.

Heimaaðilar verði með í stefnumótun.
    Af framansögðu er ljóst að á Austurlandi er ört vaxandi áhugi á að tengjast háskólastiginu. Nauðsynlegt er að tryggja sem besta samvinnu yfirstjórnar menntamála og þeirra aðila heima fyrir sem sýna málefnum háskólastigsins áhuga. Að mati flutningsmanna er vænlegt að sameina kraftana um að koma hið fyrsta á fót upplýsinga- og fræðslumiðstöð háskólastigsins í fjórðungnum. Menntamálaráðuneytið getur sem forustuaðili virkjað krafta heima fyrir til að undirbúa jarðveginn. Skilgreina þarf þörfina fyrir nám á háskólastigi í landshlutanum og hvernig miðstöð háskólastigins geti sem best orðið að liði. Ekki er hér gerð tillaga um aðsetur eða umfang slíkrar miðstöðvar þar eð slíkt er eðlilegur hluti þess undirbúnings sem fram þarf að fara nái tillagan fram að ganga.
    Þeir þrír aðilar sem tilnefndir eru til samráðs samkvæmt tillögunni ættu að geta tryggt víðtæk tengsl við málið innan fjórðungsins.
    Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi hefur á þrjátíu ára starfsferli reynst góður samnefnari til að fylkja sveitarstjórnum til sameiginlegra átaka, m.a. í mennta- og menningarmálum. Eins og framangreind ályktun ber með sér hefur SSA þegar hvatt til aðgerða til að koma á háskólamenntun í kjördæminu. Hefur stjórn SSA falið framkvæmdaráði sínu að fylgja ályktuninni eftir.
    Atvinnuþróunarfélag Austurlands hefur eflst og má nú teljast samnefnari fyrir fyrirtæki og atvinnulíf í fjórðungnum. Í lögum félagsins er m.a. kveðið á um að félagið skuli miðla upplýsingum um tækni- og rekstrarmál og hafa milligöngu um námskeiðshald og aðra fræðslustarfsemi sem völ er á fyrir starfsfólk í atvinnulífinu. Vorið 1996 tók til starfa sérstök þróunarstofa á vegum Atvinnuþróunarfélagsins og nýtur hún m.a. fjárhagslegs stuðnings frá Byggðastofnun og SSA samkvæmt samningi. Miðast starfsemi þróunarstofunnar nú við þriggja ára tilraunaverkefni til að auka nýsköpun og arðsemi í atvinnulífi, m.a. með ráðgjafarstarfi og náinni samvinnu við mennta-, þróunar- og rannsóknastofnanir í öðrum landshlutum. Tengsl við háskólastigið er fyrirtækjum eystra og starfsfólki þeirra mikil nauðsyn og ætti tilkoma upplýsinga- og fræðslumiðstöðvar háskólastigsins að létta þann róður.
    Framhaldsskólar á Austurlandi hafa haft með sér samstarf allt frá árinu 1979 að sérstök stjórnunarnefnd var sett á laggirnar. Menntamálaráðuneytið beitti sér fyrir því vorið 1996 að treysta samstarf framhaldsskólanna til að gera það markvissara en verið hefur. Skólameistarar framhaldsskólanna hafa lýst fylgi við frumkvæði ráðuneytisins og sett fram hugmyndir um aukið samstarf skólanna. Vinnur sameiginleg nefnd ráðuneytis og heimaaðila nú að því verkefni. Fulltrúi ráðuneytisins í nefndinni er Kristrún Ísaksdóttir en af hálfu samráðsnefndar framhaldsskólanna Helga S. Hreinsdóttir. Eitt af því sem nefnt hefur verið af skólameisturum framhaldsskólanna er efling fræðslu fullorðinna og stofnun miðstöðvar til að styðja við hana, m.a. með því að nýta tækninýjungar eins og gagnvirkt sjónvarp í fjarkennslu. Tengsl gætu sem best orðið milli þessara hugmynda varðandi framhaldsskólastigið og miðstöðvar háskólastigsins, þannig að hvort styðji annað. Egilsstaðabær og nefndin sem starfar á hans vegum gæti í senn tengst starfi SSA og framhaldsskólanna að málefnum háskólastigsins.
    Góð tengsl eru nauðsynleg við háskólana í landinu á undirbúningsstigi og þegar til framkvæmda kemur. Margháttaða reynslu má einnig sækja til annarra landa og laga hana að íslenskum aðstæðum.
    Með samþykkt tillögunnar kæmi fram vilji Alþingis í málinu og góður grunnur væri lagður til að koma skipulegum undirbúningi af stað með það að markmiði að tengja íbúa Austurlands og atvinnulíf þar við háskólastigið.