Ferill 166. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 166 . mál.


222. Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar um rekstur dagvistarheimila á vegum sjúkrahúsa.

    Ekki reyndist unnt að afla eins ítarlegra upplýsinga og um var beðið, enda krefst það mun meiri tíma þar sem um er að ræða að safna saman upplýsingum áratugi aftur í tímann.

    Hvenær hófu sjúkrahúsin í Reykjavík, Ríkisspítalar, Borgarspítali og síðar Sjúkrahús Reykjavíkur og Landakotsspítali, að kosta rekstur dagvistarheimila fyrir börn í Reykjavík og vistun barna hjá dagmæðrum? Hver hefur kostnaðurinn verið árlega hjá hverjum spítala og samtals á núvirði?
    Ríkisspítalar hófu rekstur fyrsta leikskólans árið 1960. Þegar mest var voru reknir fimm leikskólar, þrjú skóladagheimili og ein skóladagheimilisdeild. Öllum skóladagheimilum var lokað á árunum 1992–95. Um þessar mundir eru reknir fimm leikskólar með rými fyrir 180 börn í heilsdagsvistun.
    Á árinu 1982 var gerð bókun í kjarasamningi hjúkrunarfræðinga um að sjúkrahúsin skyldu taka þátt í vistun barna hjá dagmæðrum. Sett voru nokkur skilyrði fyrir greiðslunum sem fóru rólega af stað en á árunum 1985–90 þegar mikil þensla var á vinnumarkaðinum var mjög mikið um þessar greiðslur og náðu þær til allra faghópa spítalans, en ekki einungis til hjúkrunarfræðinga. Um tíma námu þær 700–800 þús. kr. á mánuði hjá Ríkisspítölum. Seinni hluta árs 1993 hafði staðan breyst og þá ákvað leikskólanefnd Ríkisspítala að hætta þessum greiðslum. Þeir foreldrar sem nutu þeirra þá héldu þeim, en ekki var bætt við og síðari hluta árs 1995 var greiðslunum hætt. Rétt er að geta þess að bókunin frá 1982 var aldrei tekin upp í samningum og endurnýjuð og því taldi nefndin að hún væri ekki gild lengur. Í meðfylgjandi töflu kemur fram árlegur kostnaður spítalans.

Ríkisspítalar

Verðlag hvers árs,

Verðlag ársins 1995,


þús. kr.

þús. kr.



1990     
88.721
105.612
1991     
95.853
106.832
1992     
81.689
87.770
1993     
81.649
84.277
1994     
50.978
51.846
1995     
36.740
36.740

    Borgarspítalinn hóf rekstur leikskóla árið 1969. Þegar mest var rak spítalinn þrjá leikskóla og eitt skóladagheimili og var rými fyrir 125 börn í heilsdagsvistun.
    Ráðuneytinu tókst ekki að afla upplýsinga um hvenær St. Jósefsspítali Landakoti hóf rekstur leikskóla, en þegar mest var rak spítalinn þrjá leikskóla og eitt skóladagheimili, með rými fyrir 92 börn í heilsdagsvistun. Frá árinu 1993 hafa stjórnendur spítalans dregið verulega úr rekstri dagvistarheimila fyrir börn og er nú einungis eitt þeirra í notkun.
    Nú tekur Sjúkrahús Reykjavíkur (áður Borgarspítalinn og Landakot) þátt í rekstri fjögurra leikskóla, með samtals 113 rými fyrir börn í heilsdagsvistun. Ekkert skóladagheimili er nú rekið á vegum spítalans. Í töflunni kemur fram árlegur kostnaður spítalans.

Sjúkrahús Reykjavíkur (Borgarspítalinn og Landakot)

Verðlag hvers árs,

Verðlag ársins 1995,


þús. kr.

þús. kr.



1990     
68.693
81.771
1991     
107.497
119.810
1992     
95.378
102.478
1993     
84.810
87.539
1994     
35.391
35.994
1995     
37.467
37.467


    Hvaða sjúkrahús önnur hafa kostað rekstur dagvistarheimila fyrir börn og vistun barna hjá dagmæðrum, hver hefur kostnaðurinn verið árlega hjá hverjum spítala og samtals hjá þeim öllum á núvirði?
    Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri rak leikskóla í leiguhúsnæði á árunum 1973–78. Frá ársbyrjun 1979 var hann fluttur í eigið húsnæði sem var áður notað til annarra þátta í starfsemi sjúkrahússins. Þá rak sjúkrahúsið einnig skóladagheimili á árunum 1981–94, en þá var starfsmönnum sagt upp og rekstri hætt. Í kjölfar lækkaðra fjárveitinga til dagheimila á árinu 1994 hefur sjúkrahúsið dregið úr þessari starfsemi. Þannig var skóladagheimili lokað og gerður samningur við Akureyrarbæ um yfirtöku sveitarfélagsins á tíu rýmum á leikskólanum frá 1. janúar 1995. Akureyrarbær hefur því nú til ráðstöfunar og greiðir fyrir 22 rými, en sjúkrahúsið fyrir tólf. Í töflunni kemur fram árlegur kostnaður spítalans.

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri

Verðlag hvers árs,

Verðlag ársins 1995,


þús. kr.

þús. kr.



1989     
15.414
21.071
1990     
15.622
18.596
1991     
15.897
17.718
1992     
14.949
16.062
1993     
13.392
13.823
1994     
5.917
6.018
1995     
4.873
4.873

    St. Jósefsspítali Hafnarfirði tók þátt í rekstri leikskóla St. Jósefssystra sem svaraði hlut barna starfsmanna. Þessi þátttaka var ekki skilgreind sérstaklega í bókhaldi fyrr en árið 1981 þannig að eldri tölur er mjög erfitt að finna. Þetta á einnig við um styrk vegna barnagæslu dagmæðra, en hann var greiddur allt til ársins 1993. Rekstri leikskólans var hætt 1. október sl. þegar Hafnarfjarðarbær yfirtók reksturinn og keypti húsnæðið. Í töflunni kemur fram árlegur kostnaður spítalans.

St. Jósefsspítali Hafnarfirði

Verðlag hvers árs,

Verðlag ársins 1995,


þús. kr.

þús. kr.



1981     
251
3.572
1982     
340
3.204
1983     
499
2.552
1984     
1.296
5.132
1985     
1.174
3.512
1986     
1.609
3.969
1987     
3.263
6.776
1988     
5.319
8.807
1989     
4.863
6.648
1990     
4.139
4.927
1991     
5.065
5.645
1992     
8.890
9.552
1993     
8.090
8.350
1994     
3.963
4.030
1995     
5.779
5.779

    Sjúkrahús Akraness hefur frá árinu 1978 rekið leikskóla með 16 rými í eigin húsnæði. Árlegur kostnaður spítalans hefur verið á bilinu 2,5–3,5 millj. kr. (var á síðasta ári 2,5 millj. kr.). Nú standa yfir viðræður við Akranesbæ um yfirtöku rekstursins.
    Einnig komu sjúkrahúsin í Vestmannaeyjum og í Neskaupstað til skamms tíma að rekstri dagvistarheimila fyrir börn, í formi styrks sem nam 500–600 þús. kr. á ári. Þá rak hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi þar til fyrir skömmu leikskóla með tólf rými. Árlegur kostnaður Sunnuhlíðar var um 2,6 millj. kr.

    Hversu mörg dagvistarheimili hefur hver spítali reist og rekið og hver var stofnkostnaður þeirra hvers um sig og samtals á núvirði? Hvernig skiptist stofnkostnaðurinn milli ríkis og sveitarfélaga, sundurliðað eftir sveitarfélögum og spítölum?
    
Þau sjúkrahús sem tekið hafa á einhvern hátt þátt í dagvistun barna hafa á undanförnum árum dregið verulega úr þeirri þátttöku. Einungis fjögur sjúkrahús taka enn þátt í kostnaði við dagvistun barna, Ríkisspítalar, Sjúkrahús Reykjavíkur, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og Sjúkrahús Akraness, en þau hafa öll dregið verulega úr kostnaðarþátttöku sinni á undanförnum árum. Samkvæmt nýju samkomulagi ráðherra heilbrigðis- og fjármála og borgarstjórans í Reykjavík skulu Ríkisspítalar og Sjúkrahús Reykjavíkur hætta rekstri leikskóla í áföngum á árunum 1996–99.
    Ríkisspítalar hófu rekstur fyrsta leikskólans árið 1960. Síðan bættust þeir við einn af öðrum og einnig skóladagheimili. Þegar mest var voru reknir fimm leikskólar, þrjú skóladagheimili og ein skóladagheimilisdeild og var rými fyrir 250 börn í heilsdagsvistun. Öllum skóladagheimilum var lokað á árunum 1992–95. Um þessar mundir eru reknir fimm leikskólar með rými fyrir 180 börn í heilsdagsvistun.
    Ríkisspítalar hafa alfarið greitt stofnkostnað leikskóla sinna. Ekki liggur fyrir stofnkostnaður þeirra, en fasteignamatið var samtals 61,2 millj. kr. miðað við 1. desember 1995.
    Þegar mest var rak Borgarspítalinn þrjá leikskóla og eitt skóladagheimili og var rými fyrir 125 börn. Reykjavíkurborg reisti og keypti leikskólana til afnota fyrir spítalann.
    St. Jósefsspítali Landakoti rak þegar mest var þrjá leikskóla og eitt skóladagheimili og var rými fyrir 92 börn. Rekstur þessara heimila var í þremur húsum, þar af voru tvö í eigu styrktarsjóðs St. Jósefsspítala. Tvö þessara húsa fylgdu með í samkomulagi um sameiningu spítalanna (öðru þeirra hefur verið lokað), en það þriðja er nú í eigu sjálfseignarstofnunar St. Jósefsspítala og ekki nýtt lengur af spítalanum. Ekki liggur fyrir kaupverð þessara eigna en fasteignamat þeirra í ársreikningi 1995 var um 30 millj. kr.
    Nú tekur Sjúkrahús Reykjavíkur (áður Borgarspítalinn og Landakot) þátt í rekstri fjögurra leikskóla, með samtals 113 rými, en ekkert skóladagheimili er rekið á vegum spítalans.
    Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri rak leikskóla í leiguhúsnæði á árunum 1973–78. Frá ársbyrjun 1979 var hann fluttur í eigið húsnæði. Það var áður notað til annarra þátta í starfsemi sjúkrahússins. Ekki liggur fyrir vitneskja um hversu mikið breytingar á húsnæðinu kostuðu, en stjórnendur sjúkrahússins ætla að þær hafi numið 4–5 millj. kr. (á núvirði). Þegar mest var kostaði spítalinn 34 dagheimilisrými og 20 skóladagheimilisrými.
    St. Jósefssystur ráku barnaskóla í húsi við spítalann frá árinu 1938. Þeim rekstri var síðar breytt í leikskóla sem þær ráku sérstaklega í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ. Árið 1984 yfirtók spítalinn fyrst rekstur leikskólans, en hafði áður greitt í samræmi við fjölda barna starfsmanna. Húsnæðið fylgdi með án greiðslu, en á árinu 1987 keyptu ríkið og Hafnarfjarðarbær spítalann fyrir 110 millj. kr. Ekki kom fram skipting verðs eftir hverju húsnæði fyrir sig, en árið 1983 var hafist handa við byggingu leikskóla á baklóð spítalans. Bygging þessi var einingahús keypt frá SG einingahúsum á Selfossi. Byggingarkostnaður var 4.053.000 kr. og var húsið tekið í notkun árið 1985 (starfsemin var flutt úr gamla barnaskólanum). Flest voru rýmin 30, en Hafnarfjarðarbær nýtti og kostaði á hverjum tíma a.m.k. þriðjung þeirra. Eins og fram hefur komið keypti Hafnarfjarðarbær leikskólann á þessu ári og var kaupverð 85% hluta ríkisins 12 millj. kr.
    Sjúkrahús Akraness rekur leikskóla í eigin húsnæði. Ekki fengust upplýsingar um kaupverð hússins, en spítalinn fékk leikskólahúsnæðið (í sama húsi er starfsmannaíbúð) í makaskiptum fyrir annað húsnæði í eigu spítalans.

    Hver er ástæða þess að sjúkrahúsin hafa farið út í rekstur dagvistarheimila?
    Sjúkrahúsin hófu þátttöku í rekstri dagvistarheimila annars vegar vegna erfiðleika á að ráða sérmenntað starfsfólk og hins vegar vegna þess að framboð dagvistarrýma hjá sveitarfélögum hefur á engan hátt verið nægjanlegt. Fyrst var nær eingöngu um að ræða skort á hjúkrunarfræðingum, en fleiri sérmenntaðar stéttir bættust síðan við.