Ferill 209. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 209 . mál.


248. Tillaga til þingsályktunar



um læsivarða hemla í bifreiðum.

Flm.: Rannveig Guðmundsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir,


Bryndís Hlöðversdóttir, Svanfríður Jónasdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að því að veittur verði afsláttur af vörugjaldi bifreiða sem búnar eru læsivörðum hemlum í öryggisskyni.

Greinargerð.


    Samhljóða tillaga til þingsályktunar var flutt á 120. löggjafarþingi og er nú endurflutt óbreytt.
    Þann 15. maí 1996 sendi Félag íslenskra bifreiðaeigenda frá sér tillögur um breytingar á vörugjaldi bifreiða. Til að fylgja tillögum sínum eftir skoraði félagið á fjármálaráðherra og Alþingi að beita sér nú þegar fyrir breytingu á vörugjaldi bifreiða þannig að verð stærri og öruggari bifreiða lækkaði. Það hefði í för með sér aukið öryggi í umferðinni, bættan hag stórra fjölskyldna, aukna hagkvæmni í rekstri bifreiða og stuðla að minni mengun frá bílum, svo og kæmi það til móts við þarfir þeirra sem búa í dreifbýli.
    Jafnframt skoraði FÍB á sömu aðila að fella alveg niður vörugjald á þeim hlutum nýrra bíla sem stuðla að auknu umferðaröryggi, svo sem höggpúðum (líknarbelgjum) og læsivörðum hemlum (ABS).
    Í nágrannalöndum okkar hafa augu manna beinst að því að mikilvægur þáttur í sparnaði í heilbrigðiskerfinu er fólginn í öryggistækjum í bifreiðum og að með því að auka öryggi akandi vegfarenda sé augljóslega verið að spara mikið fé auk þess að draga úr þeim hörmungum sem fylgja alvarlegum slysum og örkumlum. Öryggisbúnaður bifreiða er ótvírætt talinn þýðingarmikil forvörn.
    Læsivarðir hemlar (svokallaður ABS-hemlabúnaður) eru mikilvægur öryggisbúnaður sem gerir ökumanni kleift að stýra bifreið sinni jafnhliða nauðhemlun og dregur úr hættu á að hann missi vald á bifreiðinni þótt hann þurfi að hemla snögglega við slæmar aðstæður.
    Í grannlöndum okkar er veittur afsláttur af vörugjaldi bifreiða sem nemur þeim aukakostnaði sem fylgir öryggisbúnaði af þessum toga. Á liðnum árum hefur kastljósinu í vaxandi mæli verið beint að öryggi bifreiða og þýðingu þess að afstýra umferðarslysum svo sem unnt er. Þess vegna hefur færst í vöxt að tekið sé tillit til öryggisatriða þegar ákvarðanir eru teknar um gjöld á bifreiðar. Þannig ákvað Norska stórþingið (ekki ríkisstjórnin) að breyta bifreiðagjöldum vorið 1994 með tilliti til öryggisatriða og gefa afslátt af gjöldum öryggisbúnaðar, svo sem loftpúða, læsivarinna hemla og hárra hemlaljósa. Afslátturinn af læsivörðu hemlunum í Noregi og Danmörku skiptir tugþúsundum íslenskra króna. Þar sem útsöluverð þessa öryggisbúnaðar er mjög hátt hér á landi er hann aðeins boðinn í dýrari gerðir bíla.
    Hér á landi hefur mikið verið rætt um nauðsyn þess að spara í heilbrigðiskerfinu. Enginn afsláttur er hins vegar veittur af búnaði sem er til þess fallinn að afstýra umferðaróhöppum og slysum, og sparar augljóslega fé. Með þeirri hvatningu sem hér er lögð til má stuðla að því að bifreiðir verði í auknum mæli útbúnar með sérstökum öryggisbúnaði.