Ferill 219. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 219 . mál.


278. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Flm.: Ágúst Einarsson, Gísli S. Einarsson, Svanfríður Jónasdóttir.



1. gr.


    1. málsl. 4. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: Veiði fiskiskip minna en 80% af samanlögðu aflamarki sínu í þorskígildum talið tvö fiskveiðiár í röð fellur veiðileyfi þess og aflahlutdeild niður og skal aflahlutdeild annarra skipa í viðkomandi tegundum hækka sem því nemur.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Mikil umræða hefur farið fram undanfarin missiri um framsal veiðiheimilda. Þingflokkur jafnaðarmanna hefur í tengslum við veiðileyfagjald bent á að nýir aðilar sem hefja útgerð hér við land komast ekki til veiða nema með því að kaupa veiðiheimildir af aðilum sem fyrir eru og hafa fengið þeim úthlutað ókeypis af ríkisvaldinu. Þannig greiða nýir aðilar þegar veiðileyfagjald í útgerð en einungis til þeirra útgerða sem fengu þessum leyfum áður úthlutað af hálfu ríkisvaldsins. Upptaka veiðileyfagjalds breytir í sjálfu sér engu um framsal veiðiheimilda en þessu frumvarpi er ætlað að taka á tilteknum þætti þess máls.
    Framsal veiðiheimilda er heimilt í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Stærstur hluti þess er skipti á veiðiheimildum innan sömu útgerðar svo og jöfn skipti á veiðiheimildum milli útgerðaraðila. Slík skipti veiðiheimilda eru öllum aðilum hagkvæm og leiða til hagkvæmrar stýringar veiða.
    Annar flokkur framals er þegar veiðiheimildir eru leigðar innan ársins eða þegar varanlegar veiðiheimildir eru keyptar og seldar og peningaviðskipti eiga sér stað. Sala á varanlegum veiðiheimildum er hluti núverandi stjórnunarkerfis og felst í því að ýmsir aðilar minnka við sig eða hætta í útgerð en aðrir bæta við sig veiðiheimildum og nýir koma að atvinnugreininni. Þessi þáttur framsalsins hefur oft verið gagnrýndur og þá einkum af tveimur ástæðum:
    Annars vegar er gagnrýnisvert að handhafar veiðiheimilda skuli geta leigt frá sér árlega stóran hluta úthlutaðra heimilda og lifað góðu lífi á hinum ókeypis úthlutuðu veiðiheimildum. Þetta særir réttlætistilfinningu margra og er ein af röksemdunum fyrir veiðileyfagjaldi.
    Hins vegar hefur það verið gagnrýnt þegar aðilar leigja frá sér kvótann en leigja til sín aftur kvóta frá öðrum aðilum og láta sjómenn taka þátt í þeim viðskiptum. Þetta er lögbrot sem grunur leikur á að sé stundað í einhverjum mæli. Þingmenn jafnaðarmanna hafa lagt fram á Alþingi þingsályktun um að allur fiskur, sem seldur er innan lands, verði seldur á fiskmörkuðum. Lögfesting þessa leiðir m.a. til verðlagningar fyrir opnum tjöldum þannig að slík viðskipti heyra vonandi sögunni til.
    Flutningsmönnum frumvarpsins finnst óeðlilegt að rúmar heimildir séu fyrir því í núgildandi lögum að útgerðir, sem fá veiðiheimildum úthlutað endurgjaldslaust, geti leigt þær frá sér og nýti sjálfar tiltölulega lítinn hluta þeirra. Í lögunum eru ákvæði þess efnis að hafi útgerðaraðili ekki nýtt sjálfur a.m.k. 50% af veiðiheimildum samanlagt tvö ár í röð fellur úthlutun hans niður og veiðiheimildirnar koma öðrum til góða.
    Ástæðan fyrir því að miðað er við tvö ár er sú að skip getur bilað alvarlega eða verið frá vegna stórfelldra endurbóta þannig að eðlilegt er að hafa rýmri tíma við slíkar aðstæður.
    Breytingin samkvæmt frumvarpinu er sú að í stað þess að aðili verði að veiða a.m.k. 50% af úthlutuðu aflamarki verði hann að veiða a.m.k. 80%. Þetta þýðir að aðilar verða í reynd að gera það upp við sig hvort þeir séu í útgerð til langframa og nýti þá þær heimildir sem þeim er úthlutað eða hvort þeir hverfi úr útgerð.
    Með samþykkt þessa frumvarps er að mestu leyti komið í veg fyrir að útgerðaraðilar leigi árlega frá sér stóran hluta úthlutaðra veiðiheimilda og stundi ekki veiðar í samræmi við úthlutaðan kvóta. Frumvarpið tekur þannig á veigamiklum þætti í gagnrýni á framsal veiðiheimilda í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.