Ferill 48. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 48 . mál.


288. Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1996.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haft frumvarp til fjáraukalaga til meðferðar, leitað skýringa og fengið upplýsingar og athugasemdir frá ýmsum aðilum um efni þess og beiðnir um auknar fjárheimildir frá fjárlögum 1996.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir verulegum tekjuauka A-hluta ríkissjóðs frá því sem áætlað var í fjárlögum ársins, eða um 5,1 milljarði kr. Þá er gert ráð fyrir gjaldaheimildum til viðbótar við fjárlög 1996 að fjárhæð 15,9 milljarðar kr. Eins og fram kemur í umsögn Ríkisendurskoðunar um frumvarpið er þannig reiknað með að tekjuhalli A-hluta ríkissjóðs verði um 14,7 milljarðar kr. ef allar gjaldaheimildir fjárlaga og fjáraukalaga 1996 yrðu nýttar. Fjármálaráðherra áætlar hins vegar að 1,9 milljarðar kr. af gjaldaheimildum í árslok 1996 verði ekki nýttar í ár heldur fluttar til næsta árs eða felldar niður. Er þar um að ræða aukningu á ónotuðum gjaldaheimildum frá fyrra ári um 300 millj. kr. Að því gefnu er samkvæmt fjáraukalagafrumvarpinu gert ráð fyrir að tekjuhalli A-hluta ríkissjóðs verði 12,8 milljarðar kr., eða 8,9 milljörðum kr. meiri en fjárlög ársins 1996 gerðu ráð fyrir. Þá er í frumvarpinu óskað eftir viðbótarlántökuheimild frá fjárlögum 1996 að fjárhæð 20,6 milljarðar kr. en ekki er gert ráð fyrir að nýta nema 18,7 milljarða kr. af henni. Samkvæmt breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar við frumvarpið er ljóst að gjöldin verða um 350 millj. kr. hærri en frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Minni hlutinn ítrekar þá gagnrýni, sem fram kom í nefndaráliti hans við afgreiðslu fjáraukalaga 1995, á það að sótt sé um gjaldaheimildir umfram það sem ætlunin er að nota. Ríkisendurskoðun hefur ítrekað gagnrýnt þetta mjög og spurt hvers vegna sótt sé um hærri aukafjárveitingu en útlit er fyrir að þörf sé fyrir á árinu og hvort ekki væri rétt að taka ákvörðun um flutning fjárheimilda til næsta árs við afgreiðslu fjárlaga það ár, en ekki með fjáraukalögum sem lögð verða fyrir þingið á næsta ári.
    Þá gagnrýnir minni hlutinn að í fjáraukalögum skuli nánast eingöngu vera sótt um viðbótarheimildir vegna útgjalda sem þegar hafa fallið til sem leiðir til þess að afgreiðsla Alþingis verður eingöngu formsatriði og staðfesting á löngu teknum ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. Ríkisendurskoðun hefur bent á að þegar sótt er um aukafjárveitingar þurfi að gera kröfu um að beiðnir séu vel rökstuddar, sérstaklega að það komi fram í slíkum rökstuðningi hvers vegna útgjaldatilefni varð ekki séð fyrir við afgreiðslu gildandi fjárlaga. Því miður verður ekki séð við afgreiðslu þessa fjáraukalagafrumvarps að fjármálastjórn hins opinbera sé styrk hvað þetta varðar. Oft á tíðum er um uppsafnaðan halla að ræða sem löngu er fyrirséð að þurfi að taka á með auknum fjárframlögum. Sem dæmi má hér nefna rekstur Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítala. Frumvarpið gerir ráð fyrir um 450 millj. kr. viðbótarfjárveitingu vegna hallareksturs spítalanna. Þá fjárhæð sem nú er lagt til að verði varið til sjúkrahúsanna vantaði fyrirsjáanlega upp á við afgreiðslu fjárlaga ársins 1996 og var ítrekað bent á það af forsvarsmönnum spítalanna og af stjórnarandstöðunni við umræður í þinginu. Minni hlutinn lagði fram breytingartillögur við frumvarp til fjárlaga um að þessari fjárvöntun yrði mætt að einhverju leyti en þær voru ekki samþykktar. Hið sama mætti segja um niðurskurð til menntamála sem var harðlega gagnrýndur við afgreiðslu fjárlaga þessa árs og bent á að menntakerfið þyldi ekki frekari handahófskenndan niðurskurð. Ríkisstjórnin skellti skollaeyrum við þessum ábendingum og hélt á lofti algerlega óraunsæjum sparnaðartillögum en í athugasemdum við frumvarp til fjáraukalaga er það viðurkennt að aukning útgjaldanna stafi að stórum hluta af því að sparnaðaráform gengu ekki eftir.
    Minni hlutinn telur algerlega óviðunandi að ekki sé lögð meiri áhersla á að fjárlög endurspegli raunverulegt rekstrarumfang þeirra stofnana sem þau ná til. Óraunhæfar sparnaðartillögur á sviði heilbrigðismála eru dýrar fyrir ríkissjóð og koma fram á einum eða öðrum stað í heilbrigðiskerfinu. Heilbrigðisráðuneytið hefur nú t.d. óskað eftir aukafjárveitingu sem nemur 15,1 millj. kr. til heilsugæslunnar í Reykjavík og í greinargerð til fjárlaganefndar um málið kemur fram að halli heilsugæslunnar í Reykjavík, sem nemur sömu fjárhæð, sé fyrst og fremst tilkominn vegna skorts á hjúkrunarrýmum í Reykjavík auk þess sem sjúklingar séu fyrr útskrifaðir af sjúkrahúsum í Reykjavík en áður. Þetta komi fram í aukningu á heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu. Fjármálaráðuneytið og meiri hluti fjárlaganefndar hefur hins vegar ekki fallist á þessa beiðni heilbrigðisráðuneytisins og neitar að horfast í augu við orsök vandans. Minni hlutinn átelur þessi viðhorf harðlega og leggur fram breytingartillögu um að orðið verði við þessari tillögu heilbrigðisráðuneytisins.
    Frumvarp ríkisstjórnarinnar til fjáraukalaga og þær breytingartillögur sem nú liggja fyrir sýna svo ekki verður um villst að stjórn fjármála ríkisins er ekki í ásættanlegum farvegi. Ríkisstjórnin heldur áfram þeirri iðju sinni á sviði heilbrigðismála að beita óraunhæfum, handahófskenndum niðurskurði sem hefur í för með sér ómælt tjón, hvort sem litið er á þau mál út frá fjárhagslegum eða öðrum forsendum.
    Minni hlutinn áskilur sér rétt til að styðja einstakar tillögur til breytinga sem lagðar hafa verið fram af meiri hlutanum og til að leggja fram aðrar breytingartillögur en situr að öðru leyti hjá við afgreiðslu frumvarpsins.

Alþingi, 9. des. 1996.



Bryndís Hlöðversdóttir,

Gísli S. Einarsson.

Kristinn H. Gunnarsson.


frsm.



Kristín Halldórsdóttir.