Ferill 128. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 128 . mál.


295. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Viktors B. Kjartanssonar um smásölu áfengis.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hver er stefna ráðherra varðandi ríkisrekstur á smásölu áfengis hér á landi?
    Telur ráðherra nauðsynlegt að ríkisstarfsmenn sjái um sölu áfengis? Ef svo er ekki, er þá eitthvað því til fyrirstöðu að einkaaðilum verði heimilað, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að stunda verslun með þessa vörutegund eins og annan neysluvarning?


    Lögum nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, og áfengislögum, nr. 82/1969, var breytt vorið 1995 og samþykkt ný lög, nr. 96/1995, um gjald af áfengi. Einkaréttur ÁTVR á innflutningi og heildsölu með áfengi var afnuminn og í stað þess að ríkið aflaði tekna með hagnaði af áfengissölu kom gjald á áfengi. Málið var ítarlega rætt á Alþingi ásamt öðrum þáttum sem tengjast verslun ríkisins með áfengi. Þannig hafnaði Alþingi t.d. þeim möguleika að smásöluverð áfengis mætti vera breytilegt eftir útsölustöðum og endurspegla að einhverju leyti mismunandi sölu- og dreifingarkostnað. Á eftir ákvæði þess efnis að fjármálaráðherra skyldi ákveða útsöluverð áfengis á hverjum tíma tók Alþingi eftirfarandi ákvæði inn í frumvarp það sem var til umfjöllunar: „Verð í smásöluverslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á hverri vöru fyrir sig skal vera það sama hvar sem er á landinu.“
    Ákvæði 10. gr. áfengislaga var ekki breytt, en þar er kveðið á um skilyrði fyrir opnun útsölustaða áfengis. Fyrstu tvær málsgreinarnar hljóða svo:
    „Ríkisstjórninni er heimilt að setja á stofn útsölustaði áfengis, en þó aðeins í sveitarfélögum þar sem meiri hluti íbúanna býr í þéttbýli og íbúafjöldi hefur náð a.m.k. 1.000 í þrjú ár samfellt.
    Áður en útsala er sett á stofn skal fara fram atkvæðagreiðsla kosningarbærra manna í því sveitarfélagi sem í hlut á og þarf meiri hluta greiddra atkvæða til þess að útsala sé leyfð.“
    Með hliðsjón af framansögðu er ljóst að löggjafinn hefur sett smásöluverslun með áfengi mjög þröngar skorður. Eftir að fjármálaráðherra hefur lögum samkvæmt ákveðið útsöluverð áfengis er það hlutverk stjórnar og forstjóra ÁTVR að reka fyrirtækið á hagkvæman hátt og hámarka arðsemi ríkisins sem eiganda. Stjórnendum fyrirtækisins er hins vegar vandi á höndum því að raddir um bætta þjónustu eru háværar og óskum um nýja útsölustaði fjölgar stöðugt. Vandinn er sá að fjölgun útsölustaða eykur kostnað fyrirtækisins fremur en tekjur og samrýmist því illa kröfunni um hámarksarðsemi.
    Stefna fjármálaráðherra er að fela eigi eignarhald og rekstur á einstökum útsölustöðum áfengis einkaaðilum í eins ríkum mæli og lög leyfa. Nýja útsölustaði á að bjóða út og semja við einstaklinga eða félög þeirra um að annast eins marga þætti rekstursins og kostur er, sbr. fyrirkomulag við opnun nýrra útsölustaða á undanförnum árum og útboð vegna fyrirhugaðra útsölustaða í Kópavogi og á Patreksfirði. Engin gild rök hafa verið færð fyrir því að áfengisútsölur þurfi, frekar en vínveitingahús, að vera í ríkisrekstri. Ríkið hefur hins vegar mikilvægu eftirlitshlutverki að gegna gagnvart sölu á áfengi, sem æskilegt er að sjálfstæður aðili, óháður verslunarhagsmunum, sinni.
    Fjármálaráðherra hefur beint þeim tilmælum til stjórnar ÁTVR að gera grein fyrir framlegð og arðsemi einstakra útsölustaða fyrirtækisins. Tilgangurinn er aukið rekstraraðhald og að undirbúa þann möguleika að rekstur núverandi útsölustaða, sem alfarið eru á ábyrgð ÁTVR, verði boðinn út. Einnig gæti þetta orðið liður í því að almennar gagnsæjar reglur verði settar um rekstur og opnun nýrra útsölustaða, en tiltekin arðsemi er eitt þeirra skilyrða sem eðlilegt er að gera til hvers útsölustaðar.
    Á grundvelli þess sem að framan greinir telur fjármálaráðherra eðlilegt að stefnt sé að því að einkaaðilum verði heimilað að versla með áfengi, að uppfylltum almennum en ákveðnum skilyrðum. Til þess að það geti orðið þarf hins vegar að breyta lögum.