Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 232 . mál.


337. Frumvarp til laga



um áfengis- og vímuvarnaráð.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



Áfengis- og vímuvarnaráð.


1. gr.

    Stofna skal áfengis- og vímuvarnaráð sem heyrir undir ráðherra heilbrigðismála.
    Tilgangurinn með stofnun áfengis- og vímuvarnaráðs er að efla og styrkja áfengis- og vímuvarnir sérstaklega meðal barna og ungmenna og sporna gegn afleiðingum af neyslu áfengis og annarra vímuefna.
    Markmiðið með starfsemi áfengis- og vímuvarnaráðs er að uppræta fíkniefnaneyslu og draga stórlega úr áfengisneyslu. Ráðið skal stuðla að samvinnu og samræmingu milli þeirra sem starfa að áfengis- og vímuvörnum, svo sem heilsugæslu og annarra heilbrigðisstofnana, félagsmálayfirvalda sveitarfélaga, löggæslu, menntakerfis, refsivörslukerfis og félagasamtaka.

Verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs.


2. gr.

    Verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs eru:
    Að hafa eftirlit með að ákvæðum laga og reglugerða um áfengis- og vímuvarnir sé framfylgt, sem og stefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma í þessum málefnum.
    Að vera ríkisstjórn og öðrum stjórnvöldum, þar á meðal staðbundnum nefndum sem starfa að áfengis- og vímuvörnum, til ráðuneytis um áfengis- og vímuvarnir, m.a. um þörf á meðferðarúrræðum og gera tillögur um stefnu stjórnvalda á þessu sviði, með hliðsjón af niðurstöðum rannsókna.
    Að gera tillögur til heilbrigðisráðherra um veitingu styrkja úr Forvarnasjóði til verkefna á sviði áfengis- og vímuvarna.
    Að beita sér fyrir samhæfingu starfa þeirra sem vinna að áfengis- og vímuvörnum, sbr. 3. mgr. 1. gr., m.a. með því að halda reglulega samráðsfundi með fulltrúum þessara aðila.
    Að stuðla að útgáfu fræðslugagna um áfengis- og vímuvarnir og annast gagnasöfnun í vímuefnamálum þannig að hjá ráðinu séu nýjustu og haldbærustu upplýsingar um stöðu mála. Ráðið skal gefa út ársskýrslu þar sem fram koma upplýsingar um stöðu áfengis- og vímuvarna.
    Að stuðla að rannsóknum á sviði áfengis- og vímuvarna, m.a. árlegum könnunum á áfengis- og vímuefnaneyslu barna og ungmenna, og fylgjast með tengslum áfengis- og fíkniefnanotkunar og afbrota.
    Að fylgjast með stöðu áfengis- og vímuvarna í grannríkjum og annast samskipti við hliðstæðar stofnanir í nágrannalöndunum.
    Að annast önnur verkefni sem ráðherra eða ríkisstjórn fela ráðinu.

Skipan áfengis- og vímuvarnaráðs.


3. gr.

    Heilbrigðisráðherra skipar átta menn í áfengis- og vímuvarnaráð og jafnmarga til vara til fjögurra ára í senn. Til setu í áfengis- og vímuvarnaráði skal að jafnaði velja einstaklinga sem eru sérfróðir um áfengis- og vímuvarnir. Forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, félagsmálaráðherra, fjármálaráðherra, heilbrigðisráðherra, menntamálaráðherra, utanríkisráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefna hver sinn fulltrúa. Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti.
    Heilbrigðisráðherra skipar formann og varaformann úr ráðinu.
    Heilbrigðisráðherra ákveður þóknun til þeirra sem sitja í áfengis- og vímuvarnaráði.
    

Dagleg starfsemi áfengis- og vímuvarnaráðs.


4. gr.

    Dagleg starfsemi áfengis- og vímuvarnaráðs er í höndum sérhæfs starfsfólks sem ráðið ræður eftir þörfum.
    Heilbrigðisráðherra getur ákveðið að dagleg starfsemi áfengis- og vímuvarnaráðs verði hluti sérstakrar forvarnamiðstöðvar.

Árlegt ráðstöfunarfé áfengis- og vímuvarnaráðs.


5. gr.

    Til að sinna hlutverki sínu hefur áfengis- og vímuvarnaráð árlega eftirgreinda fjármuni til ráðstöfunar:
    Forvarnasjóð skv. 8. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi, eins og henni var breytt með lögum nr. 85/1996.
    Fjárveitingar samkvæmt fjárlögum hverju sinni.
    Framlög sem fyrirtæki eða aðrir kunna að leggja af mörkum til starfsemi á vegum ráðsins.

Reglugerðarheimild.


6. gr.

    Heilbrigðisráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, m.a. um ráðstöfun fjár úr Forvarnasjóði samkvæmt lögum um gjald af áfengi.

Brottfall og breytingar lagaákvæða.


7. gr.

    Við gildistöku laga þessara falla brott 26.–29. gr. í áfengislögum, nr. 82/1969, með áorðnum breytingum.
    Í stað þriggja síðustu málsliða 8. gr. laga um gjald af áfengi, nr. 96/1995, eins og ákvæðinu var breytt með 1. gr. laga nr. 85/1996, kemur: Áfengis- og vímuvarnaráð gerir tillögur til heilbrigðisráðherra um veitingu styrkja úr Forvarnasjóði.

Gildistökuákvæði.


8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Áfengisvarnaráð verður heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn til ráðgjafar um áfengisvarnir þangað til sérstök forvarnamiðstöð verður stofnuð en þó ekki lengur en til næstu alþingiskosninga.
    Starf áfengisvarnaráðunautar verður lagt niður eigi síðar en 1. maí 1998. Um réttindi hans fer eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.
    Skrifstofa áfengisvarnaráðs verður lögð niður 1. júlí 1997 og halda starfsmenn ráðsins störfum sínum fram til þess tíma. Um réttindi þeirra fer eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Ráðuneyti þau sem áfengis- og vímuvarnir heyra undir hafa um langt skeið staðið fyrir margvíslegum aðgerðum til að draga úr og hindra neyslu áfengis og annarra vímuefna.
    Í lok janúar 1996 ákvað ríkisstjórnin að tillögu dómsmálaráðherra, menntamálaráðherra, félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra að samræma aðgerðir vegna ávana- og fíkniefnavarna. Skipuð var nefnd ráðuneyta í ávana- og fíkniefnavörnum. Áður hafði dómsmálaráðherra hrundið af stað sérstöku átaki í ávana- og fíkniefnavörnum í því skyni að skoða ýmis svið ávana- og fíkniefnavarna sem undir dómsmálaráðuneytið heyra, svo sem viðurlög, meðferð ákæruvalds og dómstóla á brotum vegna ávana- og fíkniefna, forvarnir á þessu sviði sem og löggæslu og meðferðarúrræði, m.a. fyrir ungmenni sem leiðst hafa út í afbrot í tengslum við vímuefnaneyslu.
    Verkefnisstjórn dómsmálaráðherra skilaði skýrslu og tillögum í júní 1996. Þar var m.a. lagt til að ríkisstjórnin markaði sér samræmda stefnu til nokkurra ára í fíkniefnavörnum og að stofnað verði sérstakt afbrota- og áfengis- og vímuvarnaráð.
    Nefnd ráðuneyta í ávana- og fíkniefnavörnum var í kjölfarið falið að gera drög að stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum og kanna möguleika á stofnun afbrota- og áfengis- og vímuvarnaráðs.
    Nýsamþykkt stefna ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum, sem birt er sem fylgiskjal II með frumvarpinu, byggir á tillögum nefndarinnar. Þá hefur nefndin unnið þetta lagafrumvarp um áfengis- og vímuvarnaráð. Hvorttveggja ber merki aukinnar áherslu stjórnvalda á áfengis- og vímuvarnir.
    Í lagafrumvarpi þessu er kveðið á um stofnun sérstaks áfengis- og vímuvarnaráðs í þeim tilgangi að efla og styrkja áfengis- og vímuvarnir, sérstaklega meðal barna og ungmenna, og sporna gegn afleiðingum af neyslu áfengis og annarra vímuefna.
    Eins og fram kemur í 7. gr. gerir frumvarpið ráð fyrir að starfsemi áfengisvarnaráðs verði lögð niður og áfengis- og vímuvarnaráði falin þau verkefni sem það hefur hingað til annast ásamt fíkniefnavörnunum. Áfengisvarnaráð í núverandi mynd mun þannig hætta störfum þegar heilbrigðisráðherra hefur sett á laggirnar sérstaka forvarnamiðstöð en þó eigi síðar en við næstu alþingiskosningar. Um aðdraganda að niðurlagningu áfengisvarnaráðs er sérstaklega fjallað í ákvæði til bráðabirgða með lögunum. Margvísleg hagkvæmnisrök mæla með að sameina áfengisvarnir öðrum fíkniefnavörnum enda hefur margsinnis með rannsóknum verið sýnt fram á tengsl áfengisneyslu og annarrar vímuefnaneyslu.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að fyrst um sinn verði dagleg starfsemi áfengis- og vímuvarnaráðs sjálfstæð. Gert er þó ráð fyrir að innan skamms verði sérstök forvarnamiðstöð sett á laggirnar og er undirbúningur þess þegar hafinn í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Þegar til þess kemur mun dagleg starfsemi áfengis- og vímuvarnaráðs færast til slíkrar miðstöðvar. Sérstakt áfengis- og vímuvarnasvið yrði innan miðstöðvarinnar og áfengis- og vímuvarnaráð yrði til faglegrar ráðgjafar um þau verkefni sem ráðinu eru falin samkvæmt frumvarpinu. Undir þessa stofnun verður væntanlega felld starfsemi tóbaksvarna, heilsueflingar, manneldismála og slysavarna svo nokkuð sé nefnt. Hliðstæðar stofnanir hafa um nokkurt skeið starfað í nágrannalöndum okkar og lofar árangur af slíku samræmdu forvarnastarfi góðu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. er fjallað um að stofna skuli áfengis- og vímuvarnaráð sem heyri undir ráðherra heilbrigðismála.
    Tilgangi með stofnun ráðsins er lýst í 2. mgr. en hann er að efla og styrkja áfengis- og vímuvarnir og sporna gegn afleiðingum af neyslu áfengis og annarra vímuefna. Starfsemi ráðsins skal beinast gegn neyslu áfengis- og vímuefna í öllum aldurshópum. Ráðið skal þó leggja sérstaka áherslu á áfengis- og vímuvarnir meðal barna og ungmenna.
    Skaðvænlegar afleiðingar af neyslu áfengis og annarra vímuefna eru vel kunnar. Áfengis- og vímuefnaneysla er þekktur áhættuþáttur í sjálfsvígum, m.a. sjálfsvígum ungmenna. Rannsóknir hafa staðfest tengsl áfengis- og vímuefnanotkunar og áhættuhegðunar, m.a. afbrota. Könnun á vegum Fangelsismálastofnunar sýndi að af 108 ungmennum á aldrinum 15–23 ára sem fengu skilorðsbundna ákærufrestun á árunum 1993–1994 sagðist rúmlega helmingur einhvern tíma hafa neytt fíkniefna og rúmlega helmingur sagðist hafa verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna þegar afbrot var framið. Rannsókn sömu stofnunar á árunum 1991–1994 á 177 föngum á aldrinum 16–25 ára leiddi í ljós að þrír af hverjum fjórum sögðust einhvern tíma hafa neytt fíkniefna og 82% sögðust hafa verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna þegar afbrot var framið.
    Markmiðið með starfi áfengis- og vímuvarnaráðs er því að uppræta fíkniefnaneyslu og draga stórlega úr áfengisneyslu. Ýmsum aðferðum má beita í forvörnum til að draga stórlega úr neyslu áfengis, ekki síst meðal barna og ungmenna. Samhæfing starfs og samvinna á þessu sviði er mjög mikilvæg. Markmiði um að uppræta fíkniefnaneyslu er unnt að ná ef allir þeir fjölmörgu aðilar sem vinna að áfengis- og vímuvörnum taka höndum saman og stilla saman krafta sína í öflugri samvinnu. Tengsl milli þeirra sem starfa að áfengis- og vímuvörnum eru of lítil. Þau þarf að efla og bæta. Áfengis- og vímuvarnaráði er því sérstaklega ætlað að beita sér fyrir samvinnu þessara aðila og samræmingu starfa þeirra. Hér er m.a. átt við heilsugæslu og aðrar heilbrigðisstofnanir, félagsmálayfirvöld sveitarfélaga, löggæslu, menntakerfið, refsivörslukerfið og félagasamtök. Markmiðið með stofnun ráðsins er ekki að yfirtaka verkefni þessara aðila heldur tryggja sem besta samvinnu og koma þar með í veg fyrir óþarfa margverknað.

Um 2. gr.


    Í 2. gr. eru verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs talin upp í átta töluliðum. Verkefnin bera þess merki að þungamiðjan í starfsemi ráðsins er að stuðla að samræmingu í áfengis- og vímuvörnum.
    Í 1. tölul. er fjallað um eftirlitshlutverk ráðsins, en ráðinu er ætlað að fylgja því eftir að ákvæðum laga og reglugerða um áfengis- og vímuvarnir sé framfylgt. Þá er einnig gert ráð fyrir að ráðið hafi það verkefni að fylgja eftir stefnu ríkisstjórnar í þessum málaflokki. Það mun því falla í hlut áfengis- og vímuvarnaráðs að fylgja eftir þeirri stefnu í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum sem ríkisstjórnin hefur nýlega samþykkt.
    Í 2. tölul. er fjallað um ráðgjafarhlutverk áfengis- og vímuvarnaráðs. Því er ætlað að vera ríkisstjórn, sem og öðrum stjórnvöldum, þar á meðal staðbundnum nefndum sveitarfélaga, til ráðuneytis um áfengis- og vímuvarnir, gera tillögur um stefnu á þessu sviði og byggja þar á niðurstöðum rannsókna sem fyrir liggja á hverjum tíma. Ráðinu er sérstaklega ætlað að vera til ráðgjafar um þörf á meðferðarúrræðum fyrir þá sem fjötrast hafa í ofneyslu vímuefna.
    Samkvæmt 3. tölul. er áfengis- og vímuvarnaráði ætlað að gera tillögur um veitingu styrkja úr Forvarnasjóði. Í 5. gr. frumvarpsins er gerð grein fyrir árlegu ráðstöfunarfé áfengis- og vímuvarnaráðs. Forvarnasjóður sem stofnaður var samkvæmt lögum um gjald af áfengi, nr. 96/1995, sbr. lög nr. 85/1996, mun heyra undir áfengis- og vímuvarnaráð. Í 6. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að um þetta hlutverk ráðsins verði sett sérstök reglugerð.
    Eins og áður hefur verið vikið að er tilgangur stofnunar áfengis- og vímuvarnaráðs aðallega sá að stuðla að samhæfingu og samræmingu starfa þeirra fjölmörgu aðila sem vinna að áfengis- og vímuvörnum. Í verkefnalista ráðsins er þetta hlutverk aftur tilgreint, sbr. 4. tölul. 2. gr., og undirstrikað að þetta skuli framkvæmt með því m.a. að hafa reglulega samráðsfundi með fulltrúum þessara aðila. Þannig er gert ráð fyrir að þessir samráðsfundir verði haldnir a.m.k. tvisvar á ári og að áfengis- og vímuvarnaráð hafi frumkvæði að því að boða til og halda slíka fundi.
    Samkvæmt 5. tölul. á áfengis- og vímuvarnaráð að stuðla að útgáfu fræðslugagna um áfengis- og vímuvarnir. Hér er átt við alls kyns fræðsluefni, bæði námsefni og fræðsluefni til almennra nota. Gert er ráð fyrir að áfengis- og vímuvarnaráð geti hlutast til um að aðrir aðilar sjái um framkvæmd þessa verkefnis. Félagasamtök munu hér eftir sem hingað til hafa veigamiklu hlutverki að gegna við útgáfu fræðsluefnis um áfengis- og vímuvarnir fyrir almenning. Ákvæðið gerir þannig ráð fyrir að áfengis- og vímuvarnaráð hafi ákveðnu umsjónarhlutverki að gegna í þessum efnum, fylgist með þörf á útgáfu fræðsluefnis og stuðli að því að efni af því tagi sé ætíð til reiðu án þess að annast framkvæmdina sjálfa. Mikilvægt er að til séu á einum stað allar upplýsingar um áfengis- og vímuvarnir, bæði hér á landi og í nágrannalöndunum. Í 5. tölul. er áfengis- og vímuvarnaráði því einnig falið að annast gagnaöflun svo tryggt sé að hjá ráðinu verði ætíð unnt að finna nýjustu og haldbærustu upplýsingar um stöðu þessara mála. Slíkur gagnabanki kemur öllum þeim sem starfa á þessu sviði til góða og er nauðsynleg forsenda árangursríkra áfengis- og vímuvarna. Í töluliðnum er ráðinu einnig gert að gefa út ársskýrslu þar sem fram eiga að koma upplýsingar um stöðu áfengis- og vímuvarna.
    Í 6. tölul. er áfengis- og vímuvarnaráði falið að stuðla að rannsóknum sem að gagni geta komið við áfengis- og vímuvarnir. Hér er svipað uppi á teningnum og gagnvart fræðsluefninu. Ekki er gert ráð fyrir að áfengis- og vímuvarnaráðið framkvæmi sjálft þessar rannsóknir heldur hlutist til um að þær séu gerðar. Framkvæmd rannsókna verður falin þeim aðilum sem færastir eru til slíkra hluta, t.d. Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála eða öðrum. Sérstök áhersla er lögð á það að áfengis- og vímuvarnaráð sjái til þess að árlega fari fram rannsóknir til að fylgjast með þróun í áfengis- og vímuefnanotkun barna og ungmenna. Slíkar rannsóknir hafa um árabil verið framkvæmdar meðal nágrannaþjóða okkar og þykja nauðsynlegar til að byggja á forvarnastarf á þessu sviði. Þá á ráðið að fylgjast með tengslum áfengis- og vímuefnanotkunar og afbrota en tengsl hér á milli eru óvefengd og augljós.
    Í 7. tölul. er áfengis- og vímuvarnaráði falið að fylgjast með stöðu þessara mála í grannríkjunum og annast samskipti við hliðstæðar stofnanir í þessum löndum.
    Gert er ráð fyrir að unnt verði að fela áfengis- og vímuvarnaráði önnur verkefni en þau sem talin eru upp sérstaklega í 2. gr. frumvarpsins, sbr. 8. tölul.

Um 3. gr.


    Í 3. gr. frumvarpsins er fjallað um skipan áfengis- og vímuvarnaráðs. Gert er ráð fyrir að í ráðinu eigi sæti átta einstaklingar sem heilbrigðisráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Sérstaklega er tekið fram að til setu í ráðinu skuli að jafnaði velja einstaklinga sem eru sérfróðir um áfengis- og vímuvarnir. Í ráðið tilnefna forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, félagsmálaráðherra, fjármálaráðherra, heilbrigðisráðherra, menntamálaráðherra, utanríkisráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga hver sinn fulltrúa og varamenn með sama hætti. Þannig er reynt að tryggja að öll ráðuneyti sem áfengis- og vímuvarnir falla að einhverju leyti undir tilnefni fulltrúa til setu í áfengis- og vímuvarnaráði. Auk þess er gert ráð fyrir að Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefni fulltrúa enda hafa sveitarfélögin veigamiklu hlutverki að gegna í vímuvörnum samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum.

Um 4. gr.


    Í 4. gr. frumvarpsins er fjallað um daglega starfsemi áfengis- og vímuvarnaráðs. Eins og 2. gr. frumvarpsins ber með sér eru verkefni ráðsins umfangsmikil. Því er gert ráð fyrir að ráðið reki skrifstofu þar sem starfi sérhæft starfslið sem sjái um framkvæmd ákvarðana sem áfengis- og vímuvarnaráð tekur um verkefni sem því eru falin. Jafnframt er í ákvæðinu heimilað að dagleg starfsemi ráðsins geti sameinast sérstakri forvarnamiðstöð sem heilbrigðisráðherra hyggst setja á laggirnar. Þegar slík forvarnamiðstöð kemst á myndi dagleg starfsemi áfengis- og vímuvarnaráðs verða sérstakt svið innan hennar og ráðið verða fagaðili til stuðnings og ráðgjafar þeirri starfsemi. Innan vébanda forvarnamiðstöðvar verður safnað saman verkefnum á forvarnasviði. Til viðbótar vímuvörnum verða þar væntanlega tóbaksvarnir, heilsuefling, manneldismál, kynsjúkdómavarnir, forvarnir langvinnra sjúkdóma og slysavarnir. Hugsanlegt er að tóbaksvarnir verði þá sameinaðar vímuvörnum enda margsýnt fram á tengsl tóbaksreykinga og neyslu annarra vímuefna, ekki síst meðal barna og ungmenna.

Um 5. gr.


    Árlegt ráðstöfunarfé áfengis- og vímuvarnaráðs til að sinna verkefnum sínum verður af þrennum toga. Í fyrsta lagi Forvarnasjóður sem stofnaður var með lögum nr. 96/1995. Með lögum nr. 85/1996 var ákvæðum um Forvarnasjóðinn breytt þannig að fjármunum hans má nú ráðstafa til áfengis- og fíkniefnavarna. Áður var ráðstöfun sjóðsins bundin við áfengisvarnir. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að Alþingi geti veitt áfengis- og vímuvarnaráði sérstakar viðbótarfjárveitingar á fjárlögum hverju sinni. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að starfsemi ráðsins verði að einhverju leyti fjármögnuð með framlögum frá fyrirtækjum eða öðrum sem vilja leggja vímuvörnum lið með fjárstuðningi.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.


    Hér er fjallað um hvaða lagaákvæði skuli falla brott við gildistöku laga um áfengis- og vímuvarnaráð. Ber þar fyrst að nefna 26.–28 gr. áfengislaga, nr. 82/1969, en í þeim ákvæðum er fjallað um áfengisvarnaráð og hlutverk þess. Í 29. gr. laganna eru ákvæði um að af ágóða Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins skuli árlega leggja framlag í gæsluvistarsjóð eins og ákveðið sé í lögum nr. 39/1964, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Með lögum nr. 144/1995 var III. kafli um gæsluvistarsjóð í lögum nr. 39/1964, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, felldur brott. Hér er því lagt til að 29. gr. áfengislaga verði til lagahreinsunar einnig felld brott. Loks er gert ráð fyrir að þrír lokamálsliðir 8. gr. laga um gjald af áfengi falli niður, eins og því ákvæði var breytt með 1. gr. laga nr. 85/1996, en í staðinn komi nýr málsliður um að áfengis- og vímuvarnaráð geri tillögur til heilbrigðisráðherra um veitingu styrkja úr Forvarnasjóði.

Um 8. gr.


    Brýnt er að áfengis- og vímuvarnaráð geti hafið störf hið fyrsta. Því er gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 1997.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Hér er fjallað um hvernig staðið skuli að því að leggja áfengisvarnaráð niður. Áfengisvarnaráð sem Alþingi kýs að loknum alþingiskosningum starfar sem ráðgjafi heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnar í áfengismálum þangað til forvarnamiðstöð hefur verið stofnuð, þó eigi lengur en að næstu alþingiskosningum.
    Starf áfengisvarnaráðunautar skal lagt niður eigi síðar en 1. maí 1998 og á hann réttindi af þeim sökum í samræmi við ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Áfengisvarnaráðunautur verður þó áfram í áfengisvarnaráði fram til næstu alþingiskosninga, hafi það ekki þegar verið lagt niður, sbr. 1. mgr.
    Starfsemi skrifstofu áfengisvarnaráðs verður lögð niður 1. júlí 1997. Vegna niðurlagningar starfseminnar munu starfsmenn skrifstofunnar eiga réttindi af þeim sökum samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.


Fylgiskjal I.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um áfengis- og vímuvarnaráð.


    Markmiðið með frumvarpinu er að efla og styrkja varnir gegn neyslu áfengis og vímuefna, sérstaklega á meðal barna og ungmenna. Lagt er til að stofnað verði áfengis- og vímuvarnaráð sem samhæfi og samræmi störf þeirra er vinna að vörnum gegn neyslu vímuefna, svo sem heilbrigðisstofnana, félagsmálayfirvalda sveitarfélaga, löggæslu, stofnana menntamála og félagasamtaka. Gert er ráð fyrir að hið nýja ráð taki við störfum núverandi áfengisvarnaráðs, sem verði lagt niður í áföngum.
    Samkvæmt 3. gr. eru skipaðir átta menn í áfengis- og vímuvarnaráð, þremur fleiri en í núverandi áfengisvarnaráð. Í 4. gr. er gert ráð fyrir að dagleg störf ráðsins verði í höndum sérhæfðs starfsfólks sem ráðið verði eftir þörfum. Heilbrigðisráðherra getur ákveðið að starfsemin verði hluti af sérstakri forvarnamiðstöð.
    Í 2. gr. frumvarpsins eru talin upp nokkuð umfangsmikil verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs í átta töluliðum og verður að gera ráð fyrir að nokkur kostnaður hljótist af þeim. Sum eru þegar í höndum áfengisvarnaráðs og verður þar eingöngu um tilflutning verkefna á milli aðila að ræða. Á meðal helstu verkefna ráðsins sem telja verður ný, eða að aukist að umfangi, er að ráðinu er ætlað að gera tillögur um ráðstöfun fjár úr Forvarnasjóði, stuðla að útgáfu fræðslugagna um vímuvarnir, vera í samskiptum við erlend ríki um áfengis- og vímuvarnir og stuðla að rannsóknum á því sviði auk þess að samhæfa verkefni þeirra sem vinna gegn neyslu vímuefna.
    Kostnaður við áfengisvarnaráð er áætlaður 9,1 m.kr. í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1997, og er hann greiddur af Forvarnasjóði, sbr. 8. gr. laga nr. 96/1995. Árið 1994 fékk áfengisvarnaráð 3 m.kr. af óskiptum lið heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins til viðbótar við framlag í fjárlögum og 2 m.kr. árið 1995.
    Í 5 gr. er gert ráð fyrir að áfengis- og vímuvarnaráð standi undir kostnaði við starfsemi sína af framlögum úr Forvarnasjóði, með fjárveitingum í fjárlögum hverju sinni og með framlögum sem fyrirtæki eða aðrir kunna að leggja af mörkum. Verður að gera ráð fyrir að kostnaður við ráðið verði greiddur úr Forvarnasjóði í samræmi við núverandi fjármögnun áfengisvarnaráðs. Eru tekjur sjóðsins áætlaðar samtals 55 m.kr. í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1997. Kostnaður við áfengis- og vímuvarnaráð fer mjög eftir umfangi þess kynningar- og samræmingarstarfs sem það tekur sér á hendur og hversu margt fólk verður ráðið til að annast verkefni þess. Gera má ráð fyrir að aukinn kostnaður verði einkum af útgáfu- og kynningarstarfsemi, stuðningi við rannsóknir, erlendu samstarfi og samræmingu starfa þeirra er koma að vímuvörnum. Kostnaðarauka vegna þessara verkefna má áætla a.m.k. 4–5 m.kr. á ári og má gera ráð fyrir að auknum verkefnum verði að hluta sinnt með verkefnastyrkjum úr Forvarnasjóði. Loks má gera ráð fyrir 2–3 m.kr. stofnkostnaði fyrsta árið vegna búnaðar og tækja.
    Samantekið má gera ráð fyrir að frumvarpið hafi 14–15 m.kr. árlegan kostnað í för með sér vegna reksturs áfengis- og vímuvarnaráðs og verkefna sem það á að stuðla að. Þar til viðbótar kemur 2–3 m.kr. kostnaður við kaup á tækjum og búnaði fyrsta árið og 3,3 m.kr. biðlaunagreiðslur til starfsmanna áfengisvarnaráðs. Gera má ráð fyrir að á móti þeim kostnaði falli niður 9,1 m.kr. sem nú er ráðstafað til áfengisvarnaráðs, en hætta á rekstri þess 1. júlí 1997. Verður að gera ráð fyrir að áfengis- og vímuvarnaráð verði ekki komið að fullu í rekstur fyrr en það hefur tekið við öllum verkefnum áfengisvarnaráðs. Miðað við núverandi fyrirkomulag á fjármögnun áfengisvarnaráðs verður daglegur rekstrarkostnaður áfengis- og vímuvarnaráðs greiddur af Forvarnasjóði og hefur því ekki bein áhrif á afkomu ríkissjóðs ef frá eru taldar biðlaunagreiðslur og kaup á stofnbúnaði.
Fylgiskjal II.


Stefna ríkisstjórnarinnar í


fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum.


(3. desember 1996.)



(8 síður myndaðar)