Ferill 242. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 242 . mál.


371. Frumvarp til laga



um Póstminjasafn Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996.)



1. gr.

    Póstminjasafn Íslands er sjálfstæð vörslustofnun frímerkja og annarra póstminja í eigu íslenska ríkisins. Samgönguráðuneytið fer með yfirstjórn safnsins.
    Heimilisfang þess er í Reykjavík.
    Samgönguráðherra setur eða skipar forstöðumann safnsins að fenginni tillögu safnráðs. Forstöðumaður, sem skal vera sérfróður á sviði frímerkjafræða og póstsögu, annast daglegan rekstur safnsins og kemur fram fyrir hönd þess út á við.

2. gr.

    Safnráð Póstminjasafns Íslands hefur yfirumsjón með rekstri safnsins. Safnráð markar safninu stefnu, hefur umsjón með gerð rekstraráætlunar þess og framkvæmd hennar og annast önnur verkefni sem því eru sérstaklega falin í lögum þessum. Leita skal tillagna ráðsins um allar meiri háttar ákvarðanir sem safnið varðar.
    Samgönguráðherra skipar sex menn í safnráð til þriggja ára í senn sem hér segir: Tveir ráðsmenn skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu stjórnar þeirrar stofnunar eða lögaðila, sem veitt hefur verið umboð eða heimild til þess að fara með einkarétt ríkisins til frímerkjaútgáfu samkvæmt ákvæðum 12. gr., sbr. 8. gr. laga um póstþjónustu, einn ráðsmaður samkvæmt tilnefningu Landssamband íslenskra frímerkjasafnara, einn samkvæmt tilnefningu þjóðminjaráðs, einn samkvæmt tilnefningu Póst- og fjarskiptastofnunar og einn ráðsmann skipar ráðherra án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður ráðsins. Jafnmargir varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Safnráð heldur fundi þegar þurfa þykir. Halda skal gerðabók um störf safnráðs. Ráðsmenn eiga rétt á að fá bókaða stutta athugasemd um sérstöðu við afgreiðslu mála. Afl atkvæða ræður úrslitum við ákvarðanir ráðsins, en verði atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.
    Forstöðumaður hefur rétt til setu á safnráðsfundum með málfrelsi og tillögurétt.

3. gr.

    Hlutverk Póstminjasafns Íslands er að annast skipulega söfnun, skráningu og varðveislu íslenskra frímerkja svo og hvers konar gagna er veita upplýsingar um hönnun þeirra og gerð, tilefni útgáfu þeirra og notkun, enn fremur annars búnaðar og tækja sem notuð hafa verið við póstþjónustu hér á landi, hafa sögulegt gildi og varpa ljósi á þróun póstmála.
    Hlutverki sínu skal safnið meðal annars gegna á eftirfarandi hátt:
    Að heimta inn, skrásetja, búa um á skipulegan hátt og færa í örugga og varanlega vörslu a.m.k. 400 eintök af hverju íslensku frímerki sem út verður gefið eftir gildistöku laganna. Sama eintakafjölda ber safninu að heimta inn við hverja endurprentun frímerkis, þegar um það er að ræða.
    Að heimta inn og halda til haga hæfilegu magni nýrra útgefinna frímerkja sem safnráð telur nauðsynlegt að safnið hafi til sérstakra nota, svo sem vegna sýninga eða annarar ráðstöfunar sem safnið telur eðlilega og í samræmi við hutverk og tilgang safnins.
    Að sjá um varðveislu og eflingu Hans Hals safnsins sem nú er í vörslu Póst- og símamálastofnunar í Landssímahúsi.
    Að hafa umsjón með því að samningar við erlend póstmálayfirvöld um gagnkvæm skipti útgefinna frímerkja séu efndir, og að sjá um skipulega skráningu, umbúnað og vörslu þeirra frímerkja sem safnið eignast vegna þessara skipta.
    Með skipulegri söfnun og varðveislu annarra sögulegra verðmæta, tengdra póstþjónustu og -starfsemi.
    Við þá breytingu, sem verður á póst- og fjarskiptastarfsemi og -þjónustu við gildistöku laga nr. 103/1996, tekur Póstminjasafn Íslands við rekstri og vörslu þeirra póstminja og frímerkjasafna sem nú eru í vörslu Póst- og símamálastofnunar í Landssímahúsinu í Reykjavík og að Austurgötu 11 í Hafnarfirði. Póstminjar þessar og frímerkjasaöfn eru stofnverðmæti safnsins.

4. gr.

    Póstminjasafn Íslands skal vera upplýsinga- og fræðslustofnun á sviði frímerkjafræða og póstsögu. Því markmiði skal m.a. náð með föstum sýningum í húsakynnum safnsins svo og með hvers konar kynningu á eigum safnsins og starfsemi þess.
    Safnið skal opið almenningi á auglýstum tíma.
    Safnið og starfsemi þess skal sérstaklega kynnt nemendum skóla í samráði við skólayfirvöld, ýmist í húsakynnum safnsins eða í skólunum.

5. gr.

    Frímerki þau, sem Póstminjasafn Íslands eignast skv. 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna, og sambærileg merki, sem safnið tekur við skv. 3. mgr. sömu greinar, skulu ævinlega vera eign safnsins. Þeim ber að koma í örugga geymslu í fjárhirslum Seðlabanka Íslands jafnskjótt og safnið hefur fengið formlega vörslu þeirra.
    Hans Hals safnið má ekki selja frá safninu án breytingar laga þessara.

6. gr.

    Safnráð tekur ákvarðanir um kaup frímerkja og annarra póstminja til safnsins eftir því sem fjárhagur þess leyfir hverju sinni.
    Ekki er safninu skylt að þiggja minjagripi að gjöf ef kvaðir fylgja.

7. gr.

    Kostnaður af rekstri Póstminjasafns Íslands greiðist af þeim póstrekanda sem fer með einkarétt ríkisins til frímerkjaútgáfu skv. 12. gr., sbr. 8. gr. laga um póstþjónustu.

8. gr.

    Samgönguráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara. Í þeim reglum má m.a. kveða nánar á um starfshætti safnsins, vörslu muna og önnur atriði varðandi starfsemi þess.

9. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Póst- og símamálastofnun opnaði í janúarmánuði 1987 póst- og símaminjasafn í gömlu símstöðinni að Austurgötu 11 í Hafnarfirði. Safnið geymir mikið úrval fjölbreytilegra muna og tækja og hvers konar búnaðar úr langri sögu póst- og símaþjónustunnar á Íslandi. Safninu stýrir þriggja manna stjórn, en safnvörður hefur daglega umsjón og vörslu þess. Safnið er opið almenningi til sýnis og er aðgangur ókeypis. Póst- og símamálastofnunin hefur kostað stofnun og rekstur safnsins til þessa.
    Í annan stað er í vörslu Póst- og símamálastofnunarinnar í Landssímahúsinu í Reykjavík safn frímerkja og annarra póstminja, svo sem póststimpla og annarra muna, prentmóta gamalla frímerkja, skissna og teikninga og annarra minja um hönnun og gerð frímerkja. Frímerkjum þeim eða söfnum frímerkja, sem þar eru varðveitt, má skipta í fjóra flokka:
    Eintök eða sýnishorn allra íslenskra frímerkja sem út hafa verið gefin af póstmálayfirvöldum. Í þennan flokk frímerkjasafnsins bætast 400 eintök, þ.e. fjórar eða eftir atvikum átta heilar arkir, af hverju nýju frímerki sem gefið verður út. Frímerkjum þessum er veittur sá umbúnaður að arkirnar eru lagðar í rauðleitar bréfamöppur, en möppurnar varðveittar í sérstökum skjalaskápum í eldtraustu herbergi. Að ráði Ríkisendurskoðunar verður ekki í hirslur þessar komist nema fyrir sameiginlegan atbeina þriggja starfsmanna stofnunarinnar í trúnaðarstöðum, hvers með sinn lykil að hirslunum. Frímerkin í þessum flokki má ekki láta af hendi og þau verður að varðveita í vatnsheldum og eldtraustum hirslum þar sem aðgengi verður að vera jafntryggt og um seðla, mynt og gullforða seðlabanka væri að ræða.
                  Í þessu sambandi þykir rétt að vekja athygli á þeirri staðreynd að Alþingishátíðarmerkin 1930 voru ekki gefin út af íslensku póstmálastjórninni heldur þvert á vilja og gegn mótmælum þáverandi póstmeistara. Sem slík eru frímerkin því ekki í þessum flokki frímerkjasafnsins. Þessi útgáfa var í sjálfu sér hreint slys, víti sem verður að vera til varnaðar við frímerkjaútgáfu um alla framtíð. Því má vera að nauðsyn sé að gera sérstaklega grein fyrir aðdragandanum að þessari frímerkjaútgáfu, hvernig hún var framkvæmd og andvaraleysi ráðamanna um þær afleiðingar sem frávikin óhjákvæmilega hlutu að hafa og höfðu.
    Í öðrum flokki eru sams konar frímerki og í fyrsta flokki. Póstmálayfirvöld hafa auk merkjanna 400 haldið til haga nokkru magni frímerkja til þess að ráðstafa til frímerkjaskipta eða af öðru sérstöku tilefni.
                  Frímerki þessi eru varðveitt í gráum möppum og með sama hætti og merkin í fyrsta flokki. Úr þessu safni hafa verið lánuð frímerki, m.a. til sýninga. Enda þótt gera verði mjög stranga kröfu um varðveislu þessa hluta póstminjanna að því er umbúnað og aðgengi varðar, verður í sjálfu sér ekki talin jafnbrýn þörf tryggari geymslu eða persónulegri vörslu en þeirri sem nú er. Núverandi hirsla er, eins og áður segir, í eldtraustri geymslu á efstu hæð Landssímahússins. Hún er í beinni fluglínu að og frá Reykjavíkurflugvelli.
    Í þriðja flokki frímerkja, sem varðveitt eru í póstminjageymslunni í Landssímahúsinu, er eitt hið merkilegasta safn íslenskra frímerkja úr einkaeigu og kennt við safnanda og fyrri eiganda, sænska auðmanninn Hans Hals, en safn þetta var keypt eftir lát hans og var á þeim tíma talið jafnvirði eins Svíþjóðarbátanna sem þá var í óða önn verið að flytja til landsins. Þetta safn er allt hið merkilegasta og við það er unnt að auka með frímerkjum jafnóðum og út eru gefin og í eintakafjölda og uppsetningu á þann hátt er safnarar helst telja eftirsóknarverðan. Varsla þess ætti að vera með sama hætti og lagt er til um vörslu á merkjum í fyrsta flokki hér að framan. Þó mætti gera þau frávik frá því sem gildir um merkin í fyrsta flokki að lána mætti úr safninu til sýninga, enda væri varsla þeirra tryggð meðan á sýningu stendur og flutningi safnsins eða hluta þess vegna hennar og nægilega há fjártrygging sett fyrir skaða og skilum.
    Í fjórða flokknum eru erlend frímerki sem fengist hafa í skiptum fyrir íslensk við útgáfu þeirra. Póstmálastjórnir hátt á annað hundrað landa eða ríkja hafa bundist samningum um gagnkvæm skipti allra frímerkja sem út eru gefin í þessum löndum þannig að í hvert sinn, er frímerki er gefið út í einhverju þátttökuríkjanna, eru þrjú eintök þess send til allra hinna. Þessum merkjum hefur verið haldið til haga á skipulegan hátt. Hér er auðvitað matsatriði hvort nauðsynlegt sé um aldur og ævi að varðveita söfn slíkra merkja í þremur eintökum. Ekki eru sömu rök fyrir nauðsyn jafntryggrar hirslu og vörslu þessara merkja eða safna og þeirra sem í fyrsta flokki voru talin.
    Auk framangreindra póst- og símaminja hefur Póst- og símamálastofnun í tilefni 90 ára afmælisins keypt aftur gömlu loftskeytastöðvarbygginguna á Melunum af Háskóla Íslands og hafa þessar tvær stofananir ákveðið að stofna til samstarfsverkefnis um rekstur minjasafns fjarskipta á Íslandi með aðaláherslu á sögu loftskeyta og ritsíma, og rekstur þjálfunar- og rannsóknarstöðvar í nútímafjarskiptatækni sem notuð verður við kennslu í fjarskiptum fyrir nemendur Háskólans og tæknimenn Póst- og símamálastofnunar. Póst- og símamálastofnuninni er það metnaðarmál að til sé gott símasafn. Núverandi safn póst- og símaminja í gömlu símstöðinni í Hafnarfirði er of lítið fyrir bæði söfnin. Markmiðið er að gera safnið á Melunum að fullkomnasta símasögusafni landsins. Skipulagsskrá fyrir samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Póst- og símamálastofnunar var undirrituð á 90 ára afmælinu.
    Um næstu áramót tekur Póstur og sími hf. við rekstri póst- og símaþjónustu af Póst- og símamálastofnun í samræmi við ákvæði laga nr. 103/1996. Jafnframt tekur hlutafélagið við skuldbindingum og eignum sem rekstrinum eru nauðsynlegar, en hins vegar ekki stjórnsýslustarfsemi stofnunarinnar.
    Framangreind póst- og símaminjasöfn eru ekki nauðsynleg rekstri hlutafélagsins en hafa, auk gífurlegs verðmætis frímerkjasafnanna, ómetanlegt minjagildi og skylt er að varðveita þau sem þjóðareign.
    Jafnvel þótt hlutafélaginu væri um sinn falin umsjá og varsla minjasafna þessara, alfarið eða að hluta, er eðlilegt nú þegar að kveða á um það með sérstakri löggjöf að minjasöfnin séu og verði eign íslenska ríkisins eða sérstakrar stofnunar í eigu ríkisins og þeim verði ekki ráðstafað af hlutafélaginu, hvorki með sölu, veðsetningu ellegar með gjöf, né heldur geti skuldheimtumenn hlutafélagsins nokkurn tíma gengið að eignum þessum vegna skuldbindinga félagsins.
    Því þarf að lögfesta skipulag safnanna svo og rekstrar- og eignarform, þar á meðal hvort skipta eigi söfnunum upp í tvö eða fleiri eða reka sem eina einingu. Samstarfssamningurinn við Háskólann gefur til kynna að við gerð hans hafi verið gengið út frá því að minjasafn það og rannsóknarstofnun, sem fyrirhuguð eru, verði sjálfstæð stofnun og ekki í tengslum við safnið í Hafnarfirði sem þá verði eingöngu póstminjasafn.
    Þá er til þess að líta að saga póstmála og minja tengdra henni er eldri og hefur verið haldið til haga um lengri tíma, og jafnframt þess að Póst- og símamálastofnun og Háskóli Íslands hafa gert með sér sérstaka skipulagsskrá um samstarfsverkefni næstu tíu ár þar sem tilgangur samstarfsverkefnisins og hlutverk með skipulagsskránni er að koma upp og styðja rekstur minjasafns um sögu fjarskiptamála.
    Í því skyni hefur Póst- og símamálastofnun skuldbundið sig til þess að leggja verkefninu til tækjabúnað sem tengist sögu símamála á Íslandi frá upphafi, allt til nýjustu símatækni, auk stofnkostnaðar til þess að gera safnbúnað aðgengilegan almenningi.
    Þá hefur Póst- og símamálastofnun skuldbundið sig til að tryggja samstarfsverkefninu tekjur með árlegum fjárframlögum næstu tíu ár.
    Gamla símstöðvarhúsið í Hafnarfirði hefur ekki slíkar geymslur að forsvaranlegt væri að geyma þar frímerkjasafn það, sem nú er geymt í Landssímahúsinu, auk þess sem nauðsyn væri stöðugrar gæslu öryggisvarða allan sólarhringinn, þótt forsvaranlegar hirslur væru í húsinu til að forða vá af völdum vatns eða elds. Í raun þyrfti því hluti frímerkjasafnsins að varðveitast í hirslum Seðlabankans með aðgengi fyrir stjórnendur safnsins fyrir meðalgöngu sömu starfsmanna Seðlabankans og varðveita peninga- og gullforða bankans.
    Þrátt fyrir kröfu um sérstaka og jafnvel lögboðna vörslu frímerkjanna kemur auðvitað vel til greina að frímerkjasöfnin og aðrar póstminjar lúti einni stjórn. Nú mæla ýmis rök með því að önnur stjórn fari með málefni minjasafna og rannsóknargagna fjarskipta, sbr. það sem að framan var greint um samstarfsverkefni Póst- og símamálastofnunar og Háskóla Íslands. Einnig má geta þess að æðsti stjórnandi Póst- og símamálastofnunar hefur að jafnaði verið valinn með hliðsjón af tæknilegri menntun og kunnáttu á tækni- og fjarskiptasviði. Meiri áhersla hefur því eðlilega verið lögð á þróun, framfarir og vöxt á sviði fjarskipta en á sviði póstmála, auk þess sem framfarirnar og vöxturinn á fjarskiptasviðinu hafa dregið úr umsvifum póstsins og þörf.
    Engu síður er full þörf aukinna umsvifa póstsins með aukinni samkeppni. Minjasöfn og sérstakar sýningar póstminja, upplýsingar á interneti, bæklingar um frímerkjaútgáfu og sýningar á frímerkjum væru mjög til þess fallnar að vekja áhuga innlendra og erlendra frímerkjasafnara á íslenskum frímerkjum (og gæti orðið til verulegs tekjuauka fyrir þann aðila sem veitt verður umboð til þess að fara með einkarétt ríkisins (koncession) til frímerkjaútgáfu). Raunhæft er að leggja þá kvöð á þann sem fer með útgáfuréttinn að hann kosti rekstur póstminjasafnsins eða a.m.k. vörslu frímerkjasafnsins auk afhendingarskyldu, innheimtu, móttöku og skipulags nýrra frímerkjasafna samkvæmt því sem um var rætt í sambandi við frímerkjasafnið í liðum 1–4 hér að framan.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin kveður á um tilurð sjálfstæðrar vörslustofnunar póstminja í eigu ríkisins er lúti samgönguráðuneytinu í stjórnsýslunni, en að sérfróður forstöðumaður annist daglegan rekstur og fyrirsvar.

Um 2. gr.


    1. mgr. kveður á um valdsvið og hlutverk safnráðs, en 2. mgr. um skipan þess, en að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 3. gr.


    Greinin fjallar um hlutverk safnsins og hvernig því skuli gegnt. 1. mgr. þarfnast ekki sérstakra skýringa, en um 2. mgr. er vísað til almennra athugasemda hér að framan um varðveislu, skrásetningu og umbúnað frímerkjasafna og annarra póstminja sem til varðveislu eru nú á efstu hæð Landssímahússins í Reykjavík, en það safn myndar m.a. stofnverðmæti safnsins skv. 3. mgr.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.


    Hér er kveðið á um það að ákveðinn hluti safnsins, þ.e. 400 eintök hvers merkis sem út hefur verið gefið og endurútgefið hingað til, skuli ævinlega verða eign safnsins og varðveitt sem gersemar í fjárhirslum Seðlabanka Íslands, en samráð hefur verið haft við stjórnendur bankans um þá vörslu. Þarna er jafnframt kveðið á um að Hans Hals safnið (sbr. almennar athugasemdir) megi ekki selja frá safninu án lagaheimildar.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.


    Kostnaður við safnið, skráningu og varðveislu þeirra frímerkja og annars safnbúnaðar sem tengist íslenskri póstsögu hefur verið greiddur af Póst- og símamálastofnun af tekjum sem fyrst og fremst hafa tengst frímerkjaútgáfunni. Því þykir rétt að kveða á um það í sambandi við samninga þá eða umboð, sem Pósti og síma hf. eða eftir atvikum öðrum óháðum póstrekanda verður veitt til þess að fara með einkarétt ríkisins til útgáfu frímerkja, að sá aðili greiði allan kostnað við rekstur safnsins, svo og nauðsynlegan kostnað við að gera safnbúnað aðgengilegan almenningi.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Póstminjasafn Íslands.


    Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar laga nr. 103/1996 þar sem kveðið er á um að Póst- og símamálastofnun verði gerð að hlutafélagi frá og með 1. janúar 1997 og til samræmis við ákvæði í frumvarpi til laga um póstþjónustu. Tilgangur frumvarpsins er að lögfesta skipulag póstminjasafns í eigu ríkisins sem hefur verið í vörslu Póst- og símamálastofnunar og eru í frumvarpinu settar skorður við sölu einstakra hluta safnsins. Lagt er til að stofnað verði Póstminjasafn Íslands sem mun verða upplýsinga- og fræðslustofnun í frímerkjafræðum og póstsögu. Gert er ráð fyrir því að safnið verði opið almenningi á auglýstum tímum og til þess verði ráðinn forstöðumaður. Skv. 7. gr. frumvarpsins mun kostnaður af rekstri safnsins verða greiddur af þeim póstrekanda sem fer með einkarétt ríkisins til frímerkjaútgáfu.
    Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins hafi í för með sér beinan kostnað fyrir ríkissjóð.