Ferill 175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 175 . mál.


418. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið á sinn fund Halldór Kristjánsson og Jón Ingimarsson frá iðnaðarráðuneyti, Halldór Jónatansson og Örn Marinósson frá Landsvirkjun, Júlíus Jónsson og Albert Albertsson frá Hitaveitu Suðurnesja, Kristján Haraldsson frá Orkubúi Vestfjarða, Jakob Björnsson, bæjarstjóra á Akureyri, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, formann stjórnar veitustofnana Reykjavíkur, Kristján Jónsson, forstjóra RARIK, Gunnar Sigurðsson og Magnús Oddsson frá Akranesveitum, Arngrím Blöndahl, bæjarstjóra á Eskifirði og fulltrúa Sambands sveitarfélaga á köldum svæðum, Runólf Maack og Magnús Baldursson frá Félagi ráðgjafarverkfræðinga, Guðjón Ingva Stefánsson frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Lárus Ögmundsson frá Ríkisendurskoðun og Þórð Friðjónsson, forstjóra Þjóðhagsstofnunar og formann orkunefndar. Umsagnir bárust frá Bæjarveitum Vestmannaeyja, Félagi ráðgjafarverkfræðinga, Hitaveitu Suðurnesja, Orkubúi Vestfjarða, Rafveitu Sauðárkróks, Rafveitu Hafnarfjarðar, Ríkisendurskoðun, Sambandi sveitarfélaga á köldum svæðum og Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi.
    Að baki frumvarpi þessu liggur samningur milli ríkisstjórnar Íslands, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar um breytingu á sameignarsamningi sömu aðila um Landsvirkjun og vinna nefndar eignaraðila um endurskoðun á eignarhaldi, rekstrarformi og hlutverki Landsvirkjunar. Iðnaðarnefnd hefur kynnt sér ítarlega niðurstöður viðræðunefndarinnar og þau gögn sem hún studdist við.
    Á fundum nefndarinnar hefur sérstaklega verið fjallað um arðgjafar-, gjaldskrár- og arðgreiðslumarkmið Landsvirkjunar. Stefnt skal að því að arðgjöf af því eigin fé sem í Landsvirkjun er bundið verði 5–6% á ári en arðgreiðslur reiknist af lægri fjárhæð, þ.e. 14 milljörðum kr. Útborgaður arður verður aðeins lítill hluti af arðgreiðslustofni en getur stighækkað eftir því sem afkoma fyrirtækisins og skuldastaða batnar. Jafnframt er að því stefnt að gjaldskrá Landsvirkjunar til almenningsrafveitna verði í meginatriðum óbreytt að raungildi til ársins 2000 en lækki síðan að raungildi um 2–3% á ári frá 2001–2010. Í þessu sambandi er rétt að minna á að í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, hefur frá upphafi verið ákvæði um arðgreiðslur til eigenda af sérstökum eiginfjárframlögum og Landsvirkjun hefur í nokkur skipti greitt arð til sinna eigenda. Samkomulagið felur í sér málamiðlun milli eðlilegra sjónarmiða um hæfilegar arðgreiðslur til eigenda og þess meginmarkmiðs að raunverð á raforku geti lækkað eftir aldamót. Það er skilningur meiri hlutans, sem einnig hefur komið fram af hálfu iðnaðarráðherra, að markmið um lækkun gjaldskrár gangi framar arðgreiðslumarkmiðum.
    Í núgildandi lögum er stjórn Landsvirkjunar gert að leita eftir tillögu Þjóðhagsstofnunar áður en gjaldskrá er sett, en frumvarpið gerir ráð fyrir að þessi skylda falli niður. Á fundum nefndarinnar hafa vaknað spurningar um verðlagseftirlit með verðákvörðunum stjórnar Landsvirkjunar. Umsögn Þjóðhagsstofnunar hefur í sjálfu sér ekki verið verðlagseftirlit. Síður er þörf á henni þegar fyrir liggur samningur eigenda Landsvirkjunar um gjaldskrármarkmið og framangreind yfirlýsing iðnaðarráðherra um forgang þeirra umfram arðgreiðslumarkmið. Þá getur í þessu sambandi reynt á samkeppnislög.
    Í apríl 1996 skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra ráðgjafarnefnd til að endurskoða löggjöf um vinnslu, flutning og dreifingu orku, svonefnda orkulaganefnd. Skilaði nefndin tillögum að framtíðarskipan orkumála í október sl. Snemma næsta ár hyggst iðnaðarráðherra leggja fram tillögu til þingsályktunar um skipan orkumála þar sem tekið verður á þeim hugmyndum sem orkunefnd hefur sett fram. Meginatriði breytinga á sviði raforkumála felst í því að skilja í sundur náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins og þætti þar sem samkeppni verður við komið. Meðal áfanga til lengri tíma litið í að koma á markaðsbúskap í raforkumálum er stofnun raforkuflutningsfyrirtækis (Landsnets) til að skilja að raforkuvinnslu annars vegar og hins vegar raforkuflutning og dreifingu. Í tengslum við þá breytingu að samkeppni verði í auknum mæli innleidd í raforkumálum er eðlilegt að almenn samkeppnislög nái yfir raforkumarkaðinn og hlutverk Samkeppnisstofunar varðandi eftirlit með raforkufyrirtækjum verði skilgreint.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á 1. gr. frumvarpsins. Er það gert til að taka af allan vafa um að Landsvirkjun er ekki ætlað að fara í samkeppni á innanlandsmarkaði með því að taka að sér verkefni þar eða eiga hlut í innlendum fyrirtækjum sem annast rannsóknir, ráðgjöf og aðra þjónustu innan lands á sviði orkumála.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Efnismgr. 1. gr. orðist svo:
    Landsvirkjun er heimilt að hagnýta þá þekkingu og búnað sem fyrirtækið ræður yfir á sviði orkumála til verkefna erlendis með því að taka að sér verkefni fyrir fyrirtæki eða stofna og eiga hlut í erlendum fyrirtækjum sem annast rannsóknir, ráðgjöf eða aðra þjónustu á sviði orkumála eða aðra starfsemi tengda orkumálum.

Alþingi, 18. des. 1996.



Stefán Guðmundsson,

Guðjón Guðmundsson.

Sigríður A. Þórðardóttir.


form., frsm.



Árni R. Árnason.

Hjálmar Árnason.

Pétur H. Blöndal.