Ferill 272. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 272 . mál.


525. Fyrirspurn



til fjármálaráðherra um árangur af skatteftirliti og skattrannsóknum.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur.



    Hverjar voru heildarhækkanir á opinberum gjöldum árlega sl. fjögur ár í kjölfar skattrannsókna og eftirlits, sundurliðað eftir lögaðilum, einstaklingum og tegundum skattsvika? Hve hátt hlutfall er það af áætluðum skattsvikum?
    Hversu mörgum málum er ólokið hjá skattrannsóknarstjóra og um hvaða fjárhæðir er þar að ræða?
    Að hverju hafa skatteftirlit og rannsóknir helst beinst á þessum árum? Sérstaklega er átt við í hve miklum mæli þær hafi beinst að svartri atvinnustarfsemi, meintum virðisaukaskattssvikum, ólöglegum frádráttarliðum og að eigin neysla forsvarsmanna fyrirtækja sé færð á rekstur fyrirtækisins.
    Hvað hafa verið kveðnir upp margir dómar í skattsvikamálum sl. fjögur ár og hve mörgum hefur lokið með sektarúrskurðum hjá yfirskattanefnd? Óskað er sundurgreiningar á tegundum skattsvika, annars vegar í málum sem dæmt hefur verið í og hins vegar þar sem málum hefur lokið með sektarúrskurði.
    Hvað hefur skattrannsóknarstjóri rannsakað mörg mál þar sem um hefur verið að ræða bein vanskil á opinberum gjöldum, og þá hvaða gjöldum og í hvers konar rekstri? Hve háar fjárhæðir voru í vanskilum í þeim tilvikum, hve mikið innheimtist af þeim og hve oft var um gjaldþrota fyrirtæki að ræða?
    Hver er ábyrgð löggiltra endurskoðenda vegna rangra skila og upplýsinga, af ásetningi eða af gáleysi, á skattframtölum sem þeir gera fyrir aðra? Eru dæmi um að löggiltir endurskoðendur hafi sætt refsingu vegna brota á skattalögum?
    Eru uppi áform um að bæta skattskil, t.d. með auknum mannafla við skatteftirlit og skattrannsóknir?


Skriflegt svar óskast.