Ferill 313. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 313 . mál.


574. Tillaga til þingsályktunar



um íslenska táknmálið sem móðurmál heyrnarlausra.

Flm.: Svavar Gestsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að undirbúa frumvarp til laga sem lagt verði fyrir næsta reglulegt Alþingi um að íslenska táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra og heyrnarskertra hér á landi.

Greinargerð.


    Málefni heyrnarlausra hafa oft komið til meðferðar á Alþingi. Fullyrða má að þar sé samstaða um að íslenska táknmálið eigi að geta orðið móðurmál heyrnarlausra. Það leiðir reyndar hugann að því að ekki er einfalt að setja slíkt í lög og hætta er á að lögin verði dauður bókstafur ef þeim er ekki fylgt eftir. Reyndar er íslenskan ekki viðurkennt móðurmál Íslendinga í lögum eða stjórnarskrá, og þess gerist reyndar ekki þörf þar sem hún er móðurmálið í raun og enginn dregur það í efa. Vaknar sú spurning hvort engu að síður væri rétt að setja lög um móðurmálið eða ákvæði um það í stjórnarskrá. Má hugsa sér í því sambandi almenn lög og breytingar á einstökum lögum, t.d. breytingu á lögum um þingsköp Alþingis þar sem tekið yrði fram að töluð skuli íslenska á Alþingi og að skjöl skuli vera á íslensku.
    Sérstök lög um íslenska táknmálið sem móðurmál eru hins vegar annars eðlis, þau eru jafnréttismál sem snýst um að tiltekinn hópur hafi rétt á því að taka þátt í öllum athöfnum þjóðfélagsins til jafns við aðra og að hann eigi því rétt á túlkun. Jafnframt væri samfélagið með slíkri lagasetningu að ákveða að mennta túlka og að rannsaka og þróa íslenska táknmálið með svo sem nauðsynlegt er. Hins vegar ráða fjármunir og fjárlög úrslitum. Auðvitað er unnt að taka ákvörðun um að táknmálið sé raunverulegt móðurmál heyrnarlausra með því að veita fjármuni til þess. Tryggja þarf að til sé nægur hópur táknmálstúlka og táknmálskennara, að heyrnarlausir og aðstandendur þeirra hafi tækifæri til að læra táknmálið og að foreldrar heyrnarlausra barna læri það, að heyrnarlaus börn í Vesturhlíðarskóla fái móðurmálskennslu í táknmáli og að allir kennarar kunni táknmál og geti verið málfyrirmyndir. Það þarf að tryggja að börnin fái táknmálstúlkun í grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum. Til þess að allt þetta megi gerast þarf að þróa rannsóknir á íslenska táknmálinu. Tryggja þarf að opinberar stofnanir, dómstólar, sjúkrahús o.s.frv. hafi táknmálstúlka. Loks þarf að sjá til þess að skýrt sé hver á að borga hvað svo að réttindi heyrnarlausra merjist ekki sundur á milli ríkis og sveitarfélaga eins og oft hefur gerst.
    Mikilvægar ákvarðanir hafa reyndar þegar verið teknar. Í Menntaskólanum við Hamrahlíð hefur táknmálið verið kennt heyrandi nemendum en auk þess hafa heyrnarlausir nemendur lært um táknmálið sem móðurmál sitt, þ.e. um málfræðilega uppbyggingu málsins, sögu þess og þróun. Þátttaka í táknmáli fyrir heyrandi sem valgrein hefur verið góð, þar hafa verið 20 nemendur eða svo á ári. Kennslan í táknmáli fyrir heyrnarlausa á að vera fyrir alla heyrnarlausa nemendur á framhaldsskólastigi, einnig þá sem sækja aðra skóla. Þeir eiga að geta stundað námið í MH og fengið það metið. Í Háskóla Íslands er kennd táknmálsfræði sem fullgild aðalgrein til BA-prófs og eins vetrar viðbótarnám í táknmálstúlkun, sem telst hagnýtt nám fyrir utan BA-stig. Háskólakennslan er samkvæmt tímabundnum samningi sem rennur út sumarið 1997. Nú hefur náðst samkomulag um þriðja árið, kennt verður 1997–98 en framhald er óljóst. Fyrir vísindanefnd heimspekideildar Háskólans liggur erindi um að kenna táknmálsfræði áfram við deildina, en ljóst er að ekki verða teknir inn nýnemar næsta haust.
    Rannsóknir á íslenska táknmálinu eru samkvæmt lögum hluti af verkefnum Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og það sem hæst ber núna er vinna við margmiðlunarefni þar sem unnt verður að bera saman táknmál og íslensku á skjánum. Fékkst styrkur til að vinna þetta þróunarverkefni áfram í samvinnu við Dani. Annars hefur þurft að gera rannsóknir samhliða allri praktískri vinnu hér á landi en ekki er hægt að leita í smiðju erlendra rannsakenda því að hér er sérstakt málsamfélag, gagnstætt því sem margir kynnu að halda.
    Gallinn við umræðuna um þessi mál á Alþingi hefur verið sá að hún hefur ekki verið nægilega skýr. Með þessari tillögu er lagt til að menntamálaráðuneytið fái það verkefni að undirbúa frumvarp um þessi efni. Undanfari þess yrði væntanlega skýrsla um stöðu málsins og samantekt um táknmálið sem móðurmál heyrnarlausra í öðrum ríkjum. Í þingsályktun þessari er því talað um frumvarp en auðvitað gæti menntamálaráðuneytið í upphafi lagt málið fyrir Alþingi í hvaða formi sem er.
    Fyrir þinginu liggur nú fyrirspurn frá Svanfríði Jónasdóttur um málefni heyrnarskertra og heyrnarlausra. Málið hefur oft komið við sögu. Hér er til marks um það birtur listi yfir þau skipti sem málið kemur fyrir í gagnasafni Alþingis. Fyrst er listi yfir þingskjölin, síðan yfir ræðurnar og á þeim sést að þar hafa flestir flokkar á einhvern hátt sinnt málinu.
     Þingskjöl:
    Þskj. 901 (ÞÞ), 112. löggjafarþing, 515. mál: táknmál heyrnarlausra, fsp. til menntmrh.
    Þskj. 666 (nál. meiri hluta menntmn.), 118. löggjafarþing, 126. mál: grunnskóli (heildarlög), frv.
    Þskj. 96 (menntmrh.), 120. löggjafarþing, 94. mál: framhaldsskólar (heildarlög), frv.
    Þskj. 918 (stöðuskjal), 120. löggjafarþing, 94. mál: framhaldsskólar (heildarlög), frv.
    Þskj. 1103 (lög um framhaldsskóla), nr. 80 11. júní 1996, 120. löggjafarþing, 94. mál: framhaldsskólar (heildarlög).
    Þskj. 409 (SvanJ), 121. löggjafarþing, 249. mál: málefni heyrnarskertra, fsp. til menntmrh.
     Ræður:
    26. apríl 1990, menntmrh., 112. löggjafarþing, 514. mál: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra, fsp.
    26. apríl 1990, ÞÞ, 112. löggjafarþing, 515. mál: táknmál heyrnarlausra, fsp.
    26. apríl 1990, menntmrh., 112. löggjafarþing, 515. mál: táknmál heyrnarlausra, fsp.
    26. apríl 1990, ÞÞ, 112. löggjafarþing, 515. mál: táknmál heyrnarlausra, fsp.
    31. október 1990, menntmrh. (flutningsræða), 113. löggjafarþing, 99. mál: Samskiptamiðstöð heyrnarlausra, frv.
    20. febrúar 1992, VS, 115. löggjafarþing, 241. mál: staða táknmálstúlkunar, fsp.
    20. febrúar 1992, SvG, 115. löggjafarþing, 241. mál: staða táknmálstúlkunar, fsp.
    20. febrúar 1992, menntmrh. (svar), 115. löggjafarþing, 241. mál: staða táknmálstúlkunar, fsp.
    19. nóvember 1992, fyrirspyrjandi SvG (flutningsræða), 116. löggjafarþing, 217. mál: kennsla í táknmálstúlkun, fsp.
    2. maí 1994, SvG, 117. löggjafarþing, 589. mál: þjónusta Ríkisútvarpsins við heyrnarskerta og heyrnarlausa, fsp.
    10. desember 1993, SvG, 117. löggjafarþing, 1. mál: fjárlög 1994, frv.
    16. febrúar 1995, frsm. meiri hluta SAÞ (flutningsræða), 118. löggjafarþing, 126. mál: grunnskóli (heildarlög), frv.
    16. febrúar 1995, frsm. 1. minni hluta KÁ (flutningsræða), 118. löggjafarþing, 126. mál: grunnskóli (heildarlög), frv.
    16. febrúar 1995, frsm. 2. minni hluta VS (flutningsræða), 118. löggjafarþing, 126. mál: grunnskóli (heildarlög), frv.
    16. febrúar 1995, frsm. 3. minni hluta SvG (flutningsræða), 118. löggjafarþing, 126. mál: grunnskóli (heildarlög), frv.
    Með stofnun Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra urðu kaflaskil í málefnum heyrnarlausra og heyrnarskertra á Íslandi. Samskiptamiðstöðin hefur margþætt hlutverk, eða eins og segir í 2. gr. laga nr. 129/1990:
    „Hlutverk Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra er að annast:
    rannsóknir á íslensku táknmáli,
    kennslu táknmáls,
    táknmálstúlkun,
    aðra þjónustu.
    Um skipan þjónustunnar skal kveðið á í reglugerð.
    Stofnunin skal hafa samstarf við svæðisstjórnir um málefni fatlaðra, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Heyrnleysingjaskólann, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Námsgagnastofnun og aðra opinbera aðila varðandi málefni er snerta starfsemi þeirra. Sama gildir um samstarf við félög áhugamanna.“
    Lögin um Samskiptamiðstöðina áttu sér nokkurn aðdraganda, eins og rakið var í framsöguræðu menntamálaráðherra er lögin voru sett. Þar segir: „Talsverð umræða hefur verið á undanförnum árum um táknmál heyrnarlausra og notkun þess. Má segja að tvær stefnur hafi verið uppi, önnur sú að heyrnarlausir eigi eingöngu að nota talmál og varaaflestur og hin um notkun táknmáls heyrnarlausra. Hefur þróunin mjög verið í þá átt að táknmálið hefur styrkst og notkun þess. Þetta er þróun sem hefur átt sér stað í heiminum víða og æ fleiri þjóðir hafa gert heyrnarlausum kleift að nota það mál sem mörgum þeirra er eðlilegast, þ.e. táknmál heyrnarlausra. Þessi þróun hefur einnig verið í gangi hér á landi um nokkurt árabil og umræður hafa verið talsverðar.
    Vorið 1989 fól menntamálaráðherra nefnd þriggja embættismanna úr félagsmálaráðuneyti, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti að semja drög að reglugerð um starfsemi samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Þá var ætlunin að reglugerðin yrði sett á grundvelli laga um málefni fatlaðra. Nefndin skilaði drögum að reglugerð í september 1989. Þar var gert ráð fyrir því að stöðin heyrði undir félagsmálaráðuneyti og ætti stoð í lögum nr. 43/1983, um málefni fatlaðra. 20. nóvember 1989 voru drögin send til umsagnar fjölmargra aðila, þ.e. Félags heyrnarlausra, Öryrkjabandalags Íslands, Heyrnarhjálpar, Foreldra- og styrktarfélags heyrnardaufra, Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands, Þroskaþjálfaskóla Íslands, Heyrnleysingjaskólans, Námsgagnastofnunar, Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands og auk þess svæðisstjórnanna um málefni fatlaðra í öllum umdæmum, Reykjavík, Reykjanesi, Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi og Suðurlandi, og loks til stjórnarnefndar um málefni fatlaðra í félagamálaráðuneyti.
    Hinn 7. desember 1989 voru reglugerðardrögin tilbúin eftir að farið hafði verið yfir athugasemdir þær sem borist höfðu. En eftir áramótin síðustu tóku að berast óskir frá þeim sem einkum munu nota samskiptamiðstöðina um að hún mundi heyra undir menntamálaráðuneyti því að þarna væri um að ræða menntun, skóla og rannsóknir. Um nokkurt skeið leituðum við leiða til þess að leysa þetta vandamál. M.a. var kannað hvort hugsanlegt væri að stöðin heyrði undir menntamálaráðuneytið þó að hún ætti stoð í lögunum um málefni fatlaðra. En þegar upp var staðið og leið á þetta ár kom í ljós að það var erfitt, ef ekki óframkvæmanlegt. Þá leitaði ég enn leiða til að koma þessari stofnun á laggirnar án þess að setja um hana sérstök lög, þ.e. að hún yrði í raun og veru starfrækt á grundvelli reglugerðar. Þá hafði ég í huga reglugerð á grundvelli laganna um Heyrnleysingjaskólann. Það tókst ekki að finna þessu stoð í lögunum um Heyrnleysingjaskólann og þess vegna ákvað ríkisstjórnin að leita til Alþingis með því stjórnarfrumvarpi sem hér liggur fyrir.“
    Nánar verður fjallað um tillöguna í framsögu. Birt er sem fylgiskjal greinargerð Valgerðar Stefánsdóttur sem er stjórnandi Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra en greinargerðina vann hún fyrir vísindanefnd heimspekideildar Háskóla Íslands.



Fylgiskjal.


Nám í táknmálstúlkun og táknmálsfræðum.


(Greinargerð til vísindanefndar heimspekideildar HÍ.)



    Greinargerð þessi er samin um nám í táknmálsfræði og táknmálstúlkun að beiðni Höskuldar Þráinssonar. Í henni mun verða gerð grein fyrir upphafi og forsögu námsins, þar næst þeim fjölda sem hefur innritast í greinina og lokið þaðan námi og að lokum lýst uppbyggingu námsins. Í framhaldi af því verður metið að hve miklu leyti gera má ráð fyrir að markmiðum hafi verið náð, bæði þeim sem tengjast bættri stöðu heyrnarlausra í íslensku samfélagi og einnig þeim sem lúta að eflingu rannsókna og þekkingu á stöðu, menningu og máli heyrnarlausra.
    Í framhaldi af þessu leggjum við mat á hvort og þá hvers vegna ástæða sé til þess að ætla að þörf sé á áframhaldandi kennslu í þessum greinum og bent er á nokkra kosti varðandi framtíðarsýn námsins.

1.    Upphaf og forsaga náms í táknmálstúlkun og táknmálsfræðum.
    Árið 1992 leitaði forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar til Háskóla Íslands með tvíþætt erindi. Hið fyrra var að koma á BA-námi í táknmáli og túlkun á Íslandi en hið síðara varðaði rannsóknir.
    Samkvæmt upphaflegu erindi um BA-námið var farið fram á að það yrði að hluta til byggt upp á framlagi frá Samskiptamiðstöðinni og að hluta á námskeiðum sem kennd voru við Háskólann og gætu fallið að námsmarkmiðum sem sett yrðu í túlkanáminu. Gert var ráð fyrir að allt er lyti að heyrnarleysi, táknmáli og túlkun yrði framlag frá Samskiptamiðstöðinni og kennt í samvinnu við Háskóla Íslands. Tryggja átti að kennsla sú er fram færi undir umsjón Samskiptamiðstöðvarinnar yrði greidd af henni en ekki Háskóla Íslands. Nemendur mundu síðan útskrifast endanlega með BA-próf frá Háskólanum. Til þess að bæta úr brýnustu þörf var gert ráð fyrir að nægjanlegt væri að þessi samvinna stæði í um það bil fimm ár eða þannig að tækist að mennta tvo hópa af táknmálstúlkum, samtals um 15 túlka.
    Erindið er varðaði rannsóknarþáttinn var sprottið af því að í lögum Samskiptamiðstöðvar stendur að hún eigi að sinna rannsóknum á táknmáli. Til þess að rannsóknirnar verði nægjanlega víðtækar og góðar og í samhengi við menningu heyrnarlausra verður einnig að sinna þeim við vísindastofnun sem hefur fjölbreyttari grunngerð en Samskiptamiðstöðin. Því var þess farið á leit við háskólarektor að hann reyndi að vekja áhuga hinna ýmsu deilda háskólans á mörgum óloknum verkefnum til vísindarannsókna á þessu sviði. Bent var á að rannsóknaverkefnið væri mjög áhugavert og gæti varpað nýju ljósi á rannsóknir í til dæmis málvísindum, mannfræði, félagsvísindum, sálarfræði og heimspeki. Við Háskóla Íslands gæti þannig smám saman orðið til vísindaleg þekking sem stutt gæti kennslu er tengdist heyrnarlausum og heyrnarleysi og verið bakhjarl áframhaldandi námstilboða á þessu sviði sem yrðu að öllu leyti í höndum Háskóla Íslands.
    Við undirbúning táknmálsfræðináms og túlkunar við Háskólann var víða leitað fanga. Annars vegar var tekið mið af Bandaríkjunum, sérstaklega námi í „deaf studies“ við California State University Northridge og hins vegar túlkamenntun á Norðurlöndum. Auk þessa var leitast við að námið félli að námsuppbyggingu innan heimspekideildar Háskólans.
    Nokkrir háskólamenn, Þórður Kristinsson, Þóra Hjartardóttir, Eiríkur Rögnvaldsson, Vésteinn Ólason, Mikael Karlsson, og fulltrúar Samskiptamiðstöðvar, Valgerður Stefánsdóttir og Svandís Svavarsdóttir, áttu viðræður og fundi um skipan námsins sem endaði með samkomulagi um nám í táknmálsfræðum og túlkun sem samþykkt var innan Háskólans. (Sjá meðfylgjandi samning Háskólans og Samskiptamiðstöðvar.)
    Skipulagið miðaðist við að fyrstu tvö árin yrðu fullgild aðalgrein til BA-prófs innan heimspekideildar en þriðja árið yrði hagnýtt viðbótarnám (40 einingar) sem félli utan BA-stigsins á svipaðan hátt og hagnýt fjölmiðlun innan félagsvísindadeildar. Fyrstu tvö árin væru þannig ekki með hagnýtu sniði heldur fyrst og fremst málanám og fræðileg námskeið samhliða því. Námið hófst í september 1994 og er við heimspekideild í málvísinda- og bókmenntaskor. Tveir hópar hafa innritast í námið1994 og 1995.
    Höfuðmarkmið þessa tilraunanáms í táknmálsfræði og túlkun við Háskóla Íslands er að mennta táknmálstúlka fyrir samfélag heyrnarlausa. Mikill skortur er á táknmálstúlkum þar sem ekkert nám var til fram til 1994 og ekki er hægt að læra íslenskt táknmál nema á Íslandi. Gert er ráð fyrir að í nánustu framtíð sé þörf á fimmtán til tuttugu túlkum en þörfin er reiknuð út frá reynslu nágrannaþjóða okkar af þróun túlkaþjónustu. Í Svíþjóð er gert ráð fyrir að einn túlkur geti þjónað 12 heyrnarlausum eða heyrnarskertum einstaklingum og að daufblindir þurfi túlk að meðaltali átta tíma á viku. Séu þessar tölur yfirfærðar á Ísland þurfum við 20 túlka. Við gerum ráð fyrir að fá fimmtán til sautján túlka út úr þessum tveimur hópum sem hófu nám í táknmálsfræði, þannig að ekki er fyrirsjáanlegt að þörf verði á fleiri túlkum í allra nánustu framtíð.

2.    Uppbygging náms og námsþátttaka.
    Nám í táknmálsfræðum hófst við Háskóla Íslands í september 1994. Sumarið 1994 voru 27 nemar skráðir í táknmálsfræði. Af þeim luku fjórir engum prófum, fimm luku 10–30 einingum og átján hafa tekið táknmál sem aðalgrein til 60 eininga. Tveir af þessum átján eru nú í málvísindanámi og átta í viðbótarnámi í túlkun. Þrír úr hópnum hafa lokið BA-prófi, einn með bókasafns- og upplýsingafræði sem aukagrein, annar viðskipta- og hagfræði og sá þriðji er með aukagrein í heimspekideild (rússnesku og önnur námskeið). Árið 1995 innrituðust 37 nemendur. Fimm tóku engin próf, átta hafa hætt námi með 10–30 einingar í táknmálsfræði en tuttugu og fjórir eru nú í námi með táknmálsfræði sem aðalgrein. Gert er ráð fyrir að átta til tíu af þessum nemendum fari í viðbótarnám í túlkun veturinn 1997–1998.

1. ár — Táknmálsfræði.
Haustönn:
Táknmál I
 104 tímar

Málfræði táknmáls I
  78 tímar

Menning og saga heyrnarlausra I
  52 tímar


Vorönn:
Táknmál II
 104 tímar

Íslensk málfræði
  65 tímar

Málfræði táknmáls II
  78 tímar


2. ár — Táknmálsfræði.
Haustönn:
Táknmál III
 104 tímar

Hugfræði
  52 tímar

Málfræði táknmáls III
  52 tímar

Daufblinda
  26 tímar


Vorönn:
Táknmál IV
 104 tímar

Samskiptafræði
  26 tímar

Menning og saga heyrnarlausra II
  52 tímar

BA-ritgerð

3. ár — Viðbótarnám í táknmálstúlkun.
Haustönn:
Táknmál V
 104 tímar

Túlkunarfræði
  52 tímar

Túlkun I
 104 tímar

Siðfræði
  26 tímar


Vorönn:
Túlkun II
 260 tímar

Meðferð talaðs máls
  52 tímar


Sumarönn:
Túlkun III
 208 tímar

Túlkunarfræði
  10 tímar


Samantekt.
Táknmál
 520 tímar

Málfræði táknmáls II
 208 tímar

Íslensk málfræði
  65 tímar

Meðferð talaðs máls
  52 tímar

Hugfræði
  52 tímar

Daufblinda
  26 tímar

Samskiptafræði
  26 tímar

Túlkunarfræði
  52 tímar

Túlkun
 572 tímar

Siðfræði
  26 tímar

Menning og saga heyrnarlausra
 104 tímar

Samtals
1.703 tímar


3.    Áhrif kennslu í táknmálsfræðum og táknmálstúlkun á stöðu heyrnarlausra í íslensku samfélagi.
    Heyrnarlausir eru mjög einangraðir í íslensku samfélagi og hafa ekki fengið að taka þátt í því sem fullgildir borgarar. Til þess að þeir fái aðild að samfélaginu þarf að viðurkenna rétt þeirra til þjónustu og þátttöku í þjóðfélaginu í gegnum táknmál. Börnin þurfa menntun þar sem táknmál er kennslumál og fullorðnum heyrnarlausum þarf að tryggja þátttöku í gegnum túlka. Til þess að íslenskt samfélag geti staðið við skyldur sínar gagnvart heyrnarlausu fólki og foreldrar heyrnarlausra barna geti sinnt uppeldisskyldum sínum gagnvart börnunum verður einhvers staðar að viðhalda þekkingu sem nægir til þess að hægt sé til dæmis að halda táknmálsnámskeið, vinna námsefni í táknmáli, standa á bak við kennaramenntun og menntun annarra uppeldisstétta, auk þess að geta boðið upp á nám í túlkun annað slagið eftir þörfum.
    Öll þessi kennsla verður að byggjast á fræðilegum rannsóknum á táknmáli og því að við getum menntað kennara til þess að halda henni úti. Bæði þarf að mennta táknmálskennara og kennara á öllum stigum fyrir heyrnarlausa. Það er því grundvallarforsenda fyrir jafnrétti heyrnarlausra til þátttöku í íslensku samfélagi að táknmálinu sé gefinn sess í háskólaumhverfinu við hlið annarra mála.
    Enn er ekki búið að brautskrá táknmálstúlka þannig að áhrifa námsins er ekki farið að gæta úti í samfélagi heyrnarlausra. Útlit er fyrir að upphaflegu markmiði, um að mennta 15–20 túlka, út úr þessari tilraun, verði náð. Augljóst er að almenn þekking á táknmáli og stöðu heyrnarlausra hefur aukist verulega á síðustu árum og fleiri stúdentar láta málefni þeirra sig varða. Samfara náminu hafa verið gerðar, bæði af nemendum og kennurum, rannsóknir á táknmálinu og á samfélagi og menningu heyrnarlausra. Aukin þekking hefur því orðið til og ljóst er að til þess að efla rannsóknir og þekkingu á stöðu, menningu og máli heyrnarlausra verður þetta verkefni að halda áfram.

4.    Á greinin heima sem háskólafag og getur hún stutt við aðrar greinar Háskólans?
    Táknmál er fullgilt tungumál sem miðlað er með höndum og líkama og skynjað með augum. Það er því mál sem flutt er með öðrum miðli en raddmál. Rannsóknir á táknmáli hafa varpað nýju ljósi á aðrar málvísindarannsóknir en einnig á rannsóknir í mannfræði, sálfræði, hugfræði, sögu og öðrum greinum. Það er því mikill fengur fyrir háskólasamfélagið að fá þessa grein inn í Háskólann. Táknmálsfræði er vaxandi grein á háskólastigi víða í heiminum. Sífellt fleiri fræðimenn láta sig greinina varða og fræðigreinar um táknmál sjást æ oftar í viðurkenndum fræðiritum.

Niðurlag.
    Varðandi framtíðarsýn námsins eru nokkrir kostir til. Bjóða má upp á:
    60 eininga nám til BA-prófs með líku sniði og verið hefur.
    30 eininga aukagrein til BA-prófs. Samsetningin yrði eins og fyrra árið er nú en þó með nokkrum breytingum.
    Boðið yrði upp á námskeið í táknmálsfræði innan almennra málvísinda eða sem hluta af einhvers konar „applied lingustics“.
    Boðið yrði upp á táknmálsfræði sem viðbótarnám með meiri áherslu á félagslega þætti í ætt við „deaf studies“.