Ferill 323. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 323 . mál.


585. Tillaga til þingsályktunar



um notkun rafknúinna farartækja á Íslandi.

Flm.: Hjálmar Árnason, Ísólfur Gylfi Pálmason,


Ólafur Örn Haraldsson, Stefán Guðmundsson.



    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að skipa nefnd til að athuga með hvaða hætti megi hvetja til almennrar notkunar rafknúinna farartækja á Íslandi. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir tillögum nefndarinnar fyrir árslok 1997.

Greinargerð.


    Ökutæki knúin bensíni eða dísilolíu munu valda um 30% af koldíoxíðmengun hérlendis. Bifreiðaeign Íslendinga er miðað við höfðatölu ein sú mesta í Evrópu. Alþekkt er úr umferðinni að ökumenn sitja oft einir í bifreiðum sínum. Nú þegar við blasir að mengun muni aukast af völdum stóriðju er mikilvægt fyrir þjóðina að gegna alþjóðlegum skyldum sínum í umhverfismálum. Vistvæn orka fallvatna er ríkuleg auðlind Íslendinga. Í stað þess að flytja til landsins dýra og óvistvæna orkugjafa á borð við bensín og olíu gætu Íslendingar hugsanlega nýtt ódýra og vistvæna raforku. Í Bandaríkjunum mun hafa verið brugðist við mengun af völdum bifreiða með því að setja lög, t.d. í Kaliforníu, sem kveða á um að 2% seldra bíla árið 1998 skuli rafknúin. Fyrir vikið eru framleiðendur bifreiða farnir að skoða í alvöru leiðir til að fjöldaframleiða rafknúin ökutæki. Vegna vaxandi mengunar í heiminum má ætla að rafknúnir bílar verði til muna algengari í framtíðinni en þeir eru í dag. Því er rökrétt að Íslendingar bregðist skjótt við þessum möguleikum og taki jafnvel ákveðna forustu í að innleiða rafknúin ökutæki.
    Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir skipan nefndar er hafi það hlutverk að athuga með hvaða hætti megi hvetja til rafvæðingar farartækja hérlendis og koma henni á.
    Bent skal á að nú þegar eru framleiddir rafknúnir bílar sem geta ekið 120–170 km á hverri hleðslu. Það felur í sér að slíkir bílar dygðu á flestum þéttbýlissvæðum á Íslandi. Hins vegar þyrfti að athuga með hvaða hætti raforka til slíkra ökutækja yrði framleidd, henni dreift og hver annaðist dreifinguna. Minnt skal á að rafknúnar bifreiðar eru mun hljóðlátari en vélknúnar, en hávaðamengun af umferð er orðin alvarlegt vandamál í þéttbýli.
    Önnur leið sem nefndin gæti kannað eru kostir þess að nota rafknúna sporvagna í stærstu kaupstöðum. Viðhald slíkra vagna er lítið og ending mikil samkvæmt reynslu annarra þjóða og rafmagn getum við framleitt sjálf. Mikilvægt er að einblína ekki á hagkvæmni heldur að hafa einnig í huga umhverfissjónarmið sem og sparnað að minna viðhaldi á götum og hugsanlega einnig lægri slysatíðni.
    Þriðja leiðin sem bent skal á hér er að setja mengunarskatt á alla umferð í tiltekinni fjarlægð frá þéttbýli. Sú leið hefur verið farin á nokkrum stöðum erlendis, t.d. í Noregi, í því skyni að draga úr notkun einkabíla og þar af leiðandi mengunar.
    Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnar Íslands, byggðri á rammaáætlun um loftlagsbreytingar, er m.a. kveðið á um endurskoðun á gjaldtöku af bifreiðum og eldsneyti með það fyrir augum að auka hlutfall sparneytinna bifreiða sem og að fella niður vörugjöld á mengunarlausa bíla, svo sem rafbíla. Þingsályktunartillaga þessi fellur að þeim hugmyndum þó að gert sé ráð fyrir að tilteknir þættir verði athugaðir nánar af nefndinni sem lagt er til að verði komið á fót.
    Samkvæmt þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir að umhverfisráðherra geri Alþingi grein fyrir tillögum nefndarinnar fyrir árslok 1997 þannig að Alþingi geti tekið afstöðu til þeirra kosta er nefndin kann að leggja til.