Ferill 325. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 325 . mál.


588. Tillaga til þingsályktunar



um aðgang nemenda að tölvum og tölvutæku námsefni.

Flm.: Pétur H. Blöndal, Árni M. Mathiesen, Egill Jónsson, Einar Oddur Kristjánsson,


Guðný Guðbjörnsdóttir, Gunnlaugur M. Sigmundsson, Hjálmar Árnason,


Kristinn H. Gunnarsson, Kristján Pálsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir,


Lúðvík Bergvinsson, Steingrímur J. Sigfússon, Svanfríður Jónasdóttir.



    Alþingi skorar á ríkisstjórnina að gera áætlun um að innan þriggja ára hafi sérhver nemandi í opinberum skólum aðgang að tölvum og tölvutæku námsefni minnst einn tíma á dag.

Greinargerð.


Stefna ríkisstjórnar.
    Í framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið er sett fram það meginmarkmið að Íslendingar verði í fararbroddi þjóða heims við nýtingu upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar. Skilgreind eru eftirfarandi þrjú forgangsverkefni sem eru sögð mikilvæg til að stefna stjórnvalda í málefnum upplýsingasamfélagsins nái fram að ganga:
    átak á sviði menntamála,
    áhersla á flutningsgetu og flutningsöryggi tölvutækra upplýsinga,
    að útboðsstefnu ríkisins verði framfylgt við kaup hugbúnaðar fyrir ríkisstofnanir og ráðuneyti.
    Menntamálaráðuneytið hefur mótað mjög ítarlega stefnu sem sett er fram í ritinu „Í krafti upplýsinga“. Þar kemur meðal annars fram að kenna verði notkun upplýsingatækni á öllum skólastigum. Við námsgagnagerð verði að nýta kosti margmiðlunar til að efla menntun og auka fjölbreytni í skólastarfi. Lögð er áhersla á að í skólum landsins eigi að vera fullnægjandi tölvubúnaður til að nemendum og starfsmönnum sé gert kleift að nýta sér möguleika upplýsingatækni í námi, kennslu, rannsóknum, stjórnun og samskiptum innan lands og utan. Að þessu er nú unnið og hluti stefnunnar hefur þegar verið framkvæmdur.

Afleiðing niðurskurðar.
    Mikill og flatur niðurskurður undangenginna ára hefur bitnað mest á þeim sem síst skyldi, þeim sem reyna að fara að fjárlögum. Slíkur niðurskurður leiðir stefnuna frá raunverulegu markmiði velferðarkerfisins: Hvert viljum við stefna og hver á þáttur ríkisins að vera? Nokkur hluti menntakerfisins er þegar í höndum einkaaðila og má þar nefna listaskóla og tölvuskóla. Hið almenna skólakerfi er þó að mestu í höndum opinberra aðila og það varðar foreldrana, þjóðina og atvinnulífið miklu hvernig til tekst með menntun barnanna okkar. Þess vegna er mikilvægt að tryggja að menntakerfið sé skilvirkt og skili menntuðum, upplýstum og sjálfstæðum einstaklingum sem hafa til að bera frumkvæði.

Framleiðniaukning.
    Mikil framleiðniaukning einkennir alla þætti atvinnulífsins hin síðari ár. Stór þáttur í þessari framleiðniaukningu er notkun örgjörva eða tölva í iðnaði, verslun, sjávarútvegi og landbúnaði. Opinbera stjórnsýslan hefur og tekið þetta verkfæri í auknum mæli í þjónustu sína. Í menntamálum hafa margir einstaklingar lagt hönd á plóginn við að tölvuvæða menntakerfið á ýmsan hátt og nægir þar að nefna Íslenska menntanetið. Enn fremur hafa einstök foreldrafélög, kennarar og skólastjórnendur lyft grettistaki í því að tölvuvæða einstaka skóla. Það vekur svo aftur upp spurningar um stöðu þeirra nemenda sem ekki verða þeirrar gæfu aðnjótandi. En þrátt fyrir þetta gleðilega framtak er ljóst að betur má ef duga skal. Nýleg könnun á getu íslenskra nemenda í raungreinum sýnir að þeir hafa hugsanlega ekki þá þekkingu eða færni sem æskileg er og nauðsynleg ef þjóðin ætlar að standa sig í samkeppni þjóðanna í framtíðinni. Því er þörf úrbóta.

Margþætt vandamál.
    Í framangreindri könnun stóðu nemendur frá Singapúr áberandi best. Því væri e.t.v. eðlilegt að fólk leitaði þangað að fyrirmyndum og gleymdi öðrum atriðum. Aðrar námsgreinar og önnur atriði eru ekki síður mikilvægar í kennslu en raungreinar. T.d. er nauðsynlegt að hafa mikla færni í tungumálum í ört vaxandi alþjóðasamskiptum. Frumkvæði, sjálfstæði, áhættugleði og hugmyndaauðgi eru ekki síðri eiginleikar en þekking. Einnig hefur verið bent á hugsanlegar skuggahliðar á námsárangrinum. Of mikill metnaður og streita kann að fylgja þessum árangri barnanna í Singapúr. Því er nauðsynlegt að huga að mörgum þáttum þegar leitað er leiða til að auka metnað og færni íslenskra skólabarna.

Möguleikar tölvuhugbúnaðar.
    Á undanförnum mánuðum og árum hefur sýnt sig þvílíkt afl býr í tölvum og netkerfum þegar litið er til upplýsingaöflunar og miðlunar. Nú er ekkert mál að senda bréf og flókinn hugbúnað heiminn á enda á nokkrum sekúndum sem áður tók vikur og mánuði. Unnt er að afla upplýsinga um allan heim um ákveðið málefni sem áður fyrr var ekki hægt eða með miklum tilkostnaði og tíma. Þar sem kennsla er aðallega fólgin í miðlun þekkingar og upplýsinga má ljóst vera að tölvan getur verið mjög mikilhæft verkfæri í menntakerfinu. Nægir í því sambandi að benda á sambland texta, tóns, mynda og kvikmynda í margmiðlunartölvu sem hægt er að miðla yfir net eða á ódýrum geisladiskum. Kostir þessa miðils umfram bókina og töfluna eru ótvíræðir.
    Tölvuvæðing kemur öllum námgreinum til góða nema e.t.v. leikfimi. Möguleikar tölvunnar sem verkfæris í íslenskukennslu og tungumálakennslu eru ekki síðri en í stærðfræði og eðlisfræði. Hugmyndaauðgi kennara og hugbúnaðarfólks mun skapa nýjar víddir í kennslu með aðstoð þessa nýja verkfæris þar sem blandað er saman texta (bók), hljóði (framburður), myndum (lýsing) og kvikmyndum. Nemandinn stýrir hraðanum og að vissu leyti stefnunni.
    Tölvan hefur auk þess þann kost að hún er alltaf til staðar fyrir nemandann. Nemandinn ræður ferðinni. Hann er virkur. Tölvan þreytist aldrei, verður aldrei óþreyjufull, jafnvel ekki þegar nemandinn spyr í þrítugasta skipti hvað ákveðið orð í dönsku þýðir. Ásókn ungmenna í tölvuleiki sýnir og þá möguleika sem gott námsefni á tölvutæku formi gæti haft til örvunar og hvatningar. Þannig munu ekki aðeins færustu nemendurnir njóta slíks námsefnis. Þeir nemendur, sem mestan tíma þurfa, fá þann tíma því að þeir stjórna hraðanum sjálfir. Tölvuvæðingin mun því nýtast þeim nemendum best sem ekki fylgja meðaltalinu, þeim sem fljótastir eru að tileinka sér námsefnið og hinum sem þurfa mikinn tíma.

Breyting á kennsluháttum.
    Það er hægt að sjá fyrir miklar breytingar ef notkun tölva verður almenn í menntakerfinu. Hið hefðbundna form kennslu, sem hefur verið við lýði í hundruð ára, kann að riðlast. Í stað hefðbundinnar skólastofu, þar sem kennarinn er virkur og hópur nemenda er meira og minna óvirkur, kemur opin skólastofa þar sem nemendur eða hópar nemenda eru virkir við hverja tölvu en kennari eða kennarar ganga á milli, örva nemendur og leysa vandamál. Gera má ráð fyrir að kennsla staðreynda og æfing verði virkari og því mun aukast tími til að þjálfa nemendur í framkomu og tjáningu sem nokkuð hefur skort á.

Félagsleg einangrun?
    Bent hefur verið á að seta við tölvu geti leitt til félagslegrar einangrunar. Þetta á líka við setu í hefðbundnum bekk. Þess vegna er mjög mikilvægt að hugað sé að frímínútum sem brjóta upp kennsluna og jafnframt að börnin vinni saman í litlum hópum við að leysa verkefni. Kröfulýsing til námsgagna gæti miðað að því. Þar sem tölvutækt námsefni virkjar nemandann í miklum mæli þarf að gæta vel að því að ofgera ekki börnunum. Við framkvæmd þingsályktunarinnar mætti t.d. miða við að yngstu börnin, 5–8 ára, væru ekki lengur en einn kennslutíma á dag fyrir framan tölvuna. Þennan tíma mætti svo auka með auknum aldri þannig að 15 ára nemendur væru e.t.v. 75% af virkum kennslutíma fyrir framan tölvuna.

Hugbúnaðargerð.

    Ekki er nóg að kaupa tölvur til þess að ná fram markmiði þessarar þingsályktunartillögu. Má jafnvel fullyrða að tölvukaup ættu að vera undirmarkmið. Höfuðmarkmiðið er gerð nýs hugbúnaðar eða staðfærsla erlends kennsluhugbúnaðar. Mikilvægt er að hanna kerfi greiðslna fyrir afnot af kennsluhugbúnaði sem hvetji kennara og hugbúnaðarfólk til þess að taka höndum saman við að búa til eða staðfæra hugbúnað sem bæði fræðir og kennir en er jafnframt hvetjandi og skemmtilegur. Enn fremur þarf hann að mæla árangur. Átak í gerð kennsluhugbúnaðar getur verið mikil hvatning til kennara. Ef vel tekst til ætti átak í þessa veru að geta leitt til útflutnings á kennsluhugbúnaði.

Stöðug fjárfesting.
    Margir átta sig ekki á því hve þróun tölva og hugbúnaðar er ör um þessar mundir. Tölvur, sem þóttu nýjasta nýtt fyrir þremur árum, teljast varla gjaldgengar lengur. Hugbúnaðurinn er jafnvel enn skammlífari. Þetta þarf að hafa í huga þegar ákveðið er að fara út í fjárfestingar eins og ályktun þessi ber með sér. Fólk getur ekki gert ráð fyrir að nóg sé að þróa hugbúnað og kaupa tölvur í eitt skipti fyrir öll. Hér verður um stöðuga fjárfestingu að ræða, fjárfestingu sem skila mun arði fyrst eftir áratugi. Hún er hins vegar nauðsynleg ef við ætlum að halda þeirri stöðu okkar að vera á meðal þjóða sem búa við bestu lífskjörin.

Leit að hugbúnaði.
    Hluti af framkvæmd ályktunarinnar gæti falist í því að vaka yfir og fylgjast með því sem er nýjast í kennsluhugbúnaði á alþjóðamarkaði. Í þessu felst leit að hugbúnaði, kaup á honum, aðlögun og prófun.
    Oft vill gleymast að kennsla á hugbúnað og umsjón og viðhald tölvukerfa og hugbúnaðar er mjög viðamikið starf. Því þarf að gera ráð fyrir þjálfun starfsfólks og kennara á þessum sviðum.

Upplýsingar til kennara.
    Það hlýtur að vera hluti þessa átaks að upplýsa kennara um möguleika og kosti þessa nýja kennslumiðils og kenna þeim á þann hugbúnað sem stendur til boða. Einnig þarf beinlínis að gera ráð fyrir virkni kennara við að þróa nýjan hugbúnað og aðlaga erlendan hugbúnað íslenskum aðstæðum.
    Tryggja þarf leiðir sem styðja og örva nýjar hugmyndir um kennsluefni. Þeir sem koma með skynsamlega hugmynd fái styrk, hlutafé eða víkjandi lán til þess að koma hugmyndinni í framkvæmd með aðstoð hugbúnaðarfólks. Setja þarf reglur um greiðslur fyrir afnot nemenda og kennara á geisladiskum eða öðru menntaefni. T.d. mætti greiða fyrir aðgang hvers nemanda að forritinu. Það yrði hvatning til kennara, hugbúnaðarfólks og fjárfesta að gera forritin skemmtileg og áhugaverð.

Lauslegt mat á kostnaði.
    Það er ljóst að framkvæmd slíks átaks kostar mikið fé en líta má á átakið sem langtímafjárfestingu. Til þess að árangur verði einhver er nauðsynlegt að setja ekki minni fjármuni í þróun hugbúnaðar en kaup á tölvum. Í grunnskólum landsins eru um 42 þús. nemendur. Ef gert er ráð fyrir að þrír verði um hverja tölvu þarf 14 þús. tölvur í grunnskólana. Í framhaldskólunum eru um 17 þús. nemendur. Ef gert er ráð fyrir að hver þeirra þurfi eina tölvu þyrfti alls um 30 þús. tölvur. Þannig þyrfti að kaupa um 10.000 tölvur á ári. Áætla má að sá kostnaður verði um 600–900 millj. kr. Samkvæmt framansögðu væri eðlilegt að verja sömu upphæð til hugbúnaðargerðar. Átakið mundi því kosta 1.200–1.800 millj. kr. á ári.

Þátttaka sveitarfélaga.
    Ljóst er að samstarf þarf að hafa við sveitarfélög um framkvæmd þessarar stefnu þar sem þau sjá um framkvæmd grunnskólans. Mikilvægt er að þeim sé séð fyrir fjármunum í því skyni að kaupa tölvur og hugbúnað.

Aðstöðumunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis.
    Mikilvægt er að nemendur eigi jafnan kost á því verkfæri sem tölvan er. Þess vegna er brýnt að það átak, sem lagt er til í tillögunni, nái til allra opinberra skóla, jafnt í dreifbýli sem þéttbýli. Slík tölvu- og upplýsingavæðing mun auka möguleika á fjarkennslu sem aftur mun styrkja hefðbundna kennslu og því mun hún jafna muninn á skólum í þéttbýli og dreifbýli.