Ferill 102. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 102 . mál.


695. Skýrsla



heilbrigðisráðherra um úttekt á áhrifum langrar biðar eftir læknisaðgerðum.

(Lögð fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)




    Með beiðni frá Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri þingmönnum (á þskj. 105) er þess óskað að heilbrigðisráðherra leggi fyrir Alþingi skýrslu um úttekt á áhrifum langrar biðar eftir læknisaðgerðum.

Samantekt.
    Á síðustu 5 árum hafa afköst í íslenska heilbrigðiskerfinu stóraukist. Biðlistar hafa samt ekki styst merkjanlega en nákvæmar úttektir skortir. Samanburður við önnur lönd bendir til þess að á landinu séu gerðar a.m.k. jafnmargar aðgerðir við flestum vandamálum á 100 þúsund íbúa og annars staðar, jafnvel ívið fleiri. Dæmi eru þess að ákveðnar aðgerðir geti verið hérlendis allt að 3–4 sinnum algengari en í nágrannalöndunum. Þar er þó hugsanlega um að ræða að verið sé að vinna á uppsöfnuðum vanda.
    Fjöldi sjúklinga á biðlistum gefur einn sér litlar upplýsingar um hvort eða hve mikið vandamál, bið eftir læknismeðferð í raun er. Til þess eru mjög margar ástæður, erfiðleikar við gerð og eftirlit biðlista, mismunandi ástæður fyrir skráningu á biðlista og mismunandi viðmið við þá ákvörðun. Það er vel þekkt að þótt takist að stytta meðalbiðtíma eftir aðgerð þá fækki ekki sjúklingum í bið að sama skapi, eftirspurn eykst og þröskuldur inn á biðlista lækkar.
    Að draga ályktanir af fjölda sjúklinga á biðlista án þess að skoða það sem að baki liggur er því óáreiðanlegt og óljóst hvaða upplýsingar það gefur. Í yfirliti þessu hefur verið reynt að skyggnast á bak við tölurnar og gera úttekt á vandanum sem slíkum. Ljóst er að á þeim tíma er skýrslugerðin tók vannst ekki svigrúm til þess að vinna þær upplýsingar til fullnustu er um er spurst í skýrslubeiðninni enda hafa þeir læknar er biðlistana halda, þær upplýsingar ekki á hraðbergi og umdeilanlegt hvort það sé leyfilegt fyrir aðra aðila heldur en þá að gera slíka könnun. Þó eru tekin örfá dæmi.
    Upplýsingar um lyfjakostnað og kostnað þjóðfélagsins vegna bóta gefa einungis óljósa mynd af ástandinu og taka ekki tillit til þjáninga eða félagslegra afleiðinga að öðru leyti. Í grófum útreikningi Landspítalans á biðlistavandamáli sínu er talið að það myndi kosta um 270 millj. kr. að afgreiða alla þá sem eru á biðlistanum. Slíkur útreikningur gefur ákveðnar vísbendingar en áður en ráðist yrði í framkvæmdir þyrfti að skoða málið í heild.
    Ljóst er að aðalvandamálið er í bæklunarlækningum. Þar þarf að auka á viðvarandi hátt afköst og raða í forgangsröð innan spítalanna sjálfra, en auk þess virðist þurfa að veita sérstaka fjárveitingu til átaks um skamman tíma. Slíkt er fyrirhugað.
    Hvað varðar biðlistann eftir hjartaaðgerðum og kransæðavíkkunum, stefnir í það að með minni háttar tilhliðrunum og opnun nýrrar rannsóknastofu á Landspítalanum muni sá biðlisti komast í og síðan haldast í viðunandi horfi.
    Hvað varðar þvagfæraskurðlækningar er byggt á upplýsingum frá Landspítalanum. Þar er ástandið viðunandi að mati lækna, hefur lagast verulega sl. þrjú ár og þeir sem hafa veruleg og vinnuskerðandi einkenni af sínum sjúkdómi eru teknir fram fyrir á biðlista.
    Hvað varðar lýtalækningar er erfiðara en í mörgum öðrum greinum að meta stöðu biðlistans, vegna þeirra breytinga sem fyrirsjánlegar eru. Þar stendur fyrir dyrum opnun lýtalækningadeildar á Landspítalanum á nýjan leik og því ekki talið að annarra aðgerða sé þörf að svo stöddu.
    Hvað varðar háls-, nef- og eyrnalækningar hefur deildin á Sjúkrahúsi Reykjavíkur átt við skipulagsvanda að etja þar eð færri barnapláss standa þeim til boða en áður. Í skoðun er hvort fjölga megi aðgerðadögum, t.d. á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði til að stytta biðtíma.
    Hvað varðar almennar skurðlækningar hefur þar myndast biðlisti á síðustu árum einkum á Landspítala og einkanlega, að því er virðist, vegna þess að komin er ný og fljótvirkari tækni er eykur væntingar fólks og fjölgar aðgerðum. Viðbúið er að biðlisti verði viðvarandi meðan verið er að vinna á þessum kúf.
    Þá má enn auka úrræði fyrir geðsjúka.
    Þá kemur fram af þeim svörum er bárust frá öðrum sjúkrahúsum en þeim á Stór-Reykjavíkursvæðinu að biðlistar eru þar mun minna vandamál og nánast ekkert á sjúkrahúsum úti á landsbyggðinni. Samt eru sjúklingar á landsbyggðinni á biðlista á Reykjavíkursjúkrahúsunum. Ákveðinn hópur þeirra sjúklinga vill frekar bíða eftir aðgerð á Reykjavíkursjúkrahúsunum, enda hafa þeir verið skoðaðir og metnir af læknum þeirra. Unnið er að því að kanna hvort ekki sé hægt að færa til aðgerðir þannig að þessi sjúkrahús nýtist betur og biðlistar styttist á Reykjavíkursjúkrahúsunum.
    Þá er ljóst að fylgjast þarf grannt með því að hagkvæmasta nýting úrræða náist í meðferð aldraðra og endurhæfingu. Að öðrum kosti geta teppst bráðarými og hindrað eðlilega nýtingu annarrar starfsemi, svo sem skurðaðgerða. Hér um því um að ræða ákveðna röðun í forgang innan sjúkrahúsanna sjálfra og gagnvart öðrum stofnunum á sama starfssvæði.
    
Inngangur.
    Á undanförnum árum hafa verið gerðar sívaxandi kröfur um hagræðingu og sparnað í íslenska heilbrigðiskerfinu eins og víða annars staðar í hinum vestræna heimi. Vegna þessa hefur sjónum manna verið beint æ meir að þeim þáttum er mæla framleiðslugetu kerfisins og jafnframt á það treyst að heilbrigðisstarfsmenn sjái til þess að gæði starfseminnar minnki ekki.
    Í umræðunni um afkastagetu heilbrigðisþjónustunnar hefur oft verið horft til biðlista sem mælitækis afkastagetu. Þótt sú umræða sé ekki ný hefur hún verið mjög virk hérlendis á undanförnum mánuðum, enda oft gripið til þess að fullyrða að ekki megi breyta fjárhagsramma sjúkrastofnanna þar eð biðlistar muni þá lengjast. Þessi umræða hefur verið mjög afdráttarlaus, tölur á biðlistum tíundaðar og í viðtölum við allmarga stjórnenda á heilbrigðisstofnunum, hafa komið fram skýr skilaboð til þeirra er ákvarða fjárhagsrammann, að biðlistar séu sífellt að lengjast, á þeim sé óásættanlegur fjöldi sjúklinga, sem bíði mjög lengi. Þessu ástandi fylgi mikil notkun lyfja, mikill kostnaður vegna sjúkradagpeninga og íjað er að dæmum um atvinnumissi, eignamissi og að ýmis konar félagsleg vandamál hljótist af þessu ástandi. Ekki hefur hins vegar reynst gerlegt að skyggnast á bak við tölurnar enda er það flókið og tímafrekt eins og nú er frá biðlistum gengið. Slíkt krefst verulegra breytinga á vinnubrögðum við gerð og eftirliti biðlista, breytinga sem vissulega eru tímabærar eins og ráða má af því sem hér fer á eftir.
    Í maímánuði 1996 hafði heilbrigðisráðherra skipað nefnd fagfólks úr ráðuneytinu, af sjúkrahúsunum og frá Landlæknisembættinu til þess að gera úttekt á stöðu biðlista og koma með tillögur til úrbóta. Í októbermánuði barst beiðni um skýrslugerð frá Alþingi þar sem óskað er eftir líkri úttekt, en auk þess óskað að reynt sé að meta m.a. fjárhagslegar afleiðingar þess að þurfa að bíða lengi á biðlistum, fyrir einstaklinga og þjóðfélagið í heild.
    Sú úttekt sem hér fer á eftir er að hluta afrakstur þessa nefndarstarfs auk vinnu í ráðuneytinu sjálfu og fól m.a. í sér að leitað var álits fjölda aðila í heilbrigðiskerfinu, einkum yfirlækna og sjúkrahúsastjórnenda, til þess að fá sem gleggsta mynd af ástandi og afleiðingum langra biðlista. Upplýsingar eru til um fyrri tilraunir til slíkrar úttektar í formi vinnuplagga þegar til hefur staðið að gera sk. „biðlistaátak”, en slík nálgun hefur víða verið reynd. Það hefur verið reynslan að slík tímabundnin verkefni fækka oftast sjúklingum á biðlista einhvern tíma, en sé ekki samtímis gripið til aðgerða sem haldi biðlistum í einhverju ákveðnu horfi, sækir fljótt í sama farið.
    Sú úttekt sem hér er kynnt byggir jafnframt að grunni til á þeirri vinnu er unnin hefur verið hjá Landlæknisembættinu við að halda saman upplýsingum um biðlista, en þær upplýsingar eru í raun takmarkaðar og kostar mikla vinnu til að koma í veg fyrir að þær úreldist. Með viðtölum við aðila á sjúkrahúsunum er hins vegar reynt að skyggnast lengra en á tölurnar einar sér. Tæmandi úttekt er þó því miður ekki um að ræða, til þess er málið í heild sinni of margþætt, einstakir þættir þess of breytilegir og því oftlega niðurstöður byggðar á huglægu mati. Það er mat ráðuneytisins, að það sem hér kemur fram gefi þokkalega mynd af biðlistum sem vandamáli í upphafi ársins 1997. Jafnframt má greina vísbendingar um það hvar leita megi leiða til úrbóta og í hvaða röð (forgangsröð).
    
Staða biðlistamála á Norðurlöndum.
    Á öllum Norðurlöndunum hafa verið langir biðlistar og biðtími eftir þjónustu á ýmsum sviðum orðið vaxandi vandamál á síðustu árum. Leitað hefur verið ýmissa leiða til þess að ráða bót á þessum vanda. Undanfarin ár hafa öll Norðurlöndin nema Ísland, sett reglur um hámarksbið eftir þjónustu, en illa hefur þó gengið að koma slíkum reglum á í Finnlandi.
    Við gerð þessarar skýrslu er því talið rétt að fram komi helstu þættir úttektar er nýverið hefur verið gerð á Norðurlöndum um biðlista og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til til þess að stytta þá. Þar eru einkum til umræðu þær aðgerðir sem nefndar hafa verið „ventetidsgarantier“, þar sem heilbrigðisyfirvöld í hverju landi fyrir sig eða í fylkjum eða afmörkuðum svæðum, hafa ákveðið t.d. að enginn sjúklingur, með tilgreinda sjúkdóma, skuli vera lengur á biðlista heldur en t.d. þrjá eða jafnvel sex mánuði, („Ventetidsgarantier i Norden, veje til kortere ventelister og ventetider i sundhedsvæsenet?“ — Dansk Sygehus Institut, marts 1996).
    Meginástæða þess að biðlistar myndast í heilbrigðisþjónustunni er í stórum dráttum sú að eftirspurn eftir þjónustu er meiri en framboð á henni. Eftirspurnin getur hins vegar verið breytileg eftir þjóðfélögum og í sama þjóðfélaginu frá einum tíma til annars. Þannig hafa nýjar aðferðir, nýjir lækningamöguleikar getið af sér auknar væntingar þar sem upplýsingaflæði er gott og læknar fylgjast vel með. Þannig myndast því biðlistar eftir aðgerðum sem áður voru ýmist ekki gerðar eða ekki gerðar við ákveðnum vandamálum. Því fylgja ákveðin öfugmæli að biðlistar lengjast þegar nýjar aðferðir eru teknar upp sem auka afköst, stytta aðgerðatíma og legu eftir aðgerð. Umræðan verður ruglingsleg sé ekki talað skýrt og dæmi um það er að á sama tíma og lyfjanotkun hefur nánast lagt af aðgerðir vegna magasára, er á nú farið að tala um að aðgerðir í gegnum kviðsjá, vegna einkenna mikils þindarslits, kosti sem nemi eins og hálfs árs lyfjameðferð, en það er sá biðtími sem nú er eftir þessari aðgerð. Þetta sýnir að mjög erfitt getur verið að meta biðlistavandamálið, eigi einungis að taka mið af fjárhagslegum breytum, og því er mikilvægt að taka tillit til félagslegra og sálarlegra afleiðinga sjúkdóma, afleiðinga sem ekki er hægt að meta til fjár. Þá fjölgar öldruðum hérlendis sem annars staðar.
    
Biðlistar sem tæki til skipulagningar — biðlistar sem vandamál.
    Þegar einstaklingar lenda á biðlista eða í biðröð eftir aðgerðum eða læknismeðferð og biðin verður löng, er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvers vegna biðin verður og hverjir og hvað hefur áhrif á lengd hennar. Það getur verið um skipulagsþætti að ræða; röðun í forgang og dreifingu fjármagns en oftast eru það læknar sem hafa mest áhrif á það hverjir fara á biðlista og hversu lengi þeir eru þar. Á Íslandi hefur ekki fengist fram opinber umræða um röðun, en slíkrar er að vænta í kjölfar vinnu forgangsröðunarnefndar heilbrigðisráðuneytisins og samsvarandi nefndar hjá Læknafélagi Íslands. Ekki hefur verið tekið undir það hérlendis, að menn fái að borga sig framhjá biðlistum, með því að greiða fyrir aðgerð sjálfir, heldur er fagleg röðun látin gilda.
    Það virðist vera alþjóðleg niðurstaða, að þar sem sjúklingur ber ekki kostnað af aðgerðinni sjálfur, þ.e. þar sem ríkið greiðir, þar eru biðlistar almennt lengri. Þar sem læknum er greitt fyrir hverja aðgerð sérstaklega, þar eru biðlistar að jafnaði styttri. Slíku afkastahvetjandi kerfi fylgja þó ýmsir ókostir; það er allajafna dýrara og um það standa sífelldar deilur hvort gerðar séu ónauðsynlegar aðgerðir. Það er því í beinu framhaldi af þessum atriðum sem á það er bent að lengd biðlista sé í öfugu hlutfalli við það hversu miklu fé er veitt til aðgerða. Þess vegna hafa víða verið gerð biðlistaátök, sem vissulega hafa stytt biðlista tímabundið, en slíkar aðgerðir einar sér án heildarathugunar og heildarskipulagningar á kerfinu leiða einungis til þess að biðlistar lengjast í öðrum aðgerðum og getur haft slæm áhrif á faglega röðun í forgang. Umræða um fjölda sjúklinga á biðlistum er oft ómarkviss og gefur afbakaða mynd af vandamálinu sjálfu. Þannig eru dæmi þess m.a. hérlendis að biðtími hafi styst en sjúklingum hafi ekkert fækkað á biðlistunum. Slík reynsla er þekkt annars staðar, m.a. í Bretlandi. Í íslensku umræðunni hefur ekki verið gerður greinarmunur á þeim fjölda sjúklinga á biðlistum sem eru í bráðri þörf eftir aðgerð, þeim sem eru í minni þörf og þeim sem auðveldlega geta beðið. Í eftirfarandi úttekt er reynt að meta slíka þætti.
    Í stórum dráttum má líta á biðlista sem tæki til þess að gera áætlanir og skipuleggja vinnu og vinnuálag. Hér á landi hafa þeir stundum fengið þá stöðu í umræðunni að verða tæki til þess að fá aukið fé veitt inn á ákveðnar deildir eða til ákveðinna aðgerða. Það er því áróðurslega jákvætt að geta sýnt fram á langa biðlista og að þeir lengist, þegar talið er að meira fé þurfi til starfseminnar. Það er hins vegar mikil einföldun eins og reynt er að draga fram hér að framan. Langir biðlistar gera líka auknar kröfur til mönnunar í stjórnun og það er reynslan að þar sem umhirðu biðlistanna er sinnt stöðugt er ástandið betra og skipulagning auðveldari. Slík vinnubrögð eru mikilvæg og hefur sýnt sig að stöðug endurskoðun biðlista heldur þeim í lágmarki (ekki er óalgengt að biðlistar styttist um 10–15% við það eitt að „fara yfir þá“).
    Við skiptingu biðlistahópsins eftir alvöru vandamála verður um að ræða ákveðna röðun í forgang og kemur hún vel í ljós við yfirferð á íslensku listunum (sbr. síðar). Þá er reynt að taka tillit til þarfa sjúklingsins eftir þeim almennu sjónarmiðum sem tíðkast í dag í umræðunni um forgangsröðun. Sjúklingar sem hafa sjúkdóm þar sem til er aðgerð eða inngrip sem hindrar það að sjúkdómurinn valdi lífshættulegum skaða, og sem bati verður af, ganga fyrir þeim sem geta beðið. Þeir, sem ólíklegt er að aðgerð breyti litlu um framgang sjúkdóms bíða enn frekar, einkum ef sjúkdómurinn veldur ekki miklum þjáningum eða óvinnufærni.
    Ábendingar fyrir aðgerðum skipta máli þegar talið er á biðlistum. Mismunandi skoðanir lækna á notkun biðlista og hvenær sjúklingar eru settir á biðlista, gera samanburð erfiðan. Þannig er t.d. ástæða til þess að kanna ef rétt reynist að ákveðnar aðgerðir eru algengari á Íslandi heldur en annars staðar. Dæmi eru um að sjúklingar eru settir á biðlista „til öryggis“, t.d. ef hætta er á að sjúkdómurinn versni og sjúklingur þurfi að koma til aðgerðar einhvern tímann í framtíðinni.
    Þá er vel þekkt að bið eftir einni ákveðinni tegund aðgerða getur verið löng þótt svo að á sama spítala sé lítil sem engin bið eftir öðrum aðgerðum. Þess gætir einnig hérlendis að það er mjög mislöng biðtíð eftir spítölum og eftir einstökum skurðlæknum svo að dæmi séu nefnd.
    
Hvað er hægt að gera til þess að stytta biðlista og stytta biðtíma?
    Það er ýmislegt sem bendir til þess að biðlistum í heilbrigðiskerfinu sé hvorki hægt né æskilegt að eyða algjörlega. Hins vegar er mikilvægt að tekin sé afstaða til þess að hverju skuli stefnt og hvað sé ásættanlegt hvað varðar biðtíma. Það er þess vegna ástæða til þess að hafa biðlista undir stöðugu eftirliti en vandamálið er hvernig það eftirlit skuli vera og hver eigi að annast það. Biðtíð er frá sjónarhóli sjúklinga almennt talin af hinu illa, ósanngjörn og ónauðsynleg. Læknirinn getur metið málið öðruvísi og tekur sér stundum það vald að ráða eða ákvarða að það skaði ekki sjúklinginn að bíða. Einhver biðtími getur líka verið nauðsynlegur til þess að sjúklingurinn geti undirbúið sig og það hefur víða komið fram að sjúklingar vilja kannski ekkert endilega fá aðgerðina alveg strax (sbr. síðar). Almennt eru menn sammála um að nauðsynlegt sé:
    að taka af biðlistum sjúklinga sem ekki þurfa á aðgerð að halda (sbr. áður),
    að koma upp ítarlegu upplýsingakerfi um hverjir þeir eru sem bíða, hversu lengi þeir bíða og hvaða áhrif það hefur hvað varðar lyfjatöku, vinnufærni og fjárhagsástand,
    að koma á auknu jafnvægi til lengri tíma milli eftirspurnar og framboðs, þannig að biðlistar og biðtíð komist á ásættanlegt stig og haldist þar.
    Framangreindar aðgerðir eru að minnsta kosti nauðsynlegar til þess að hægt sé að setja heilbrigðiskerfinu markmið svo sem eins og það að ákveðnir sjúklingahópar skuli aldrei bíða lengur en þrjá mánuði, aðrir sex eða jafnvel ennþá lengur, þ.e. að biðlistar verði þannig af fleiri en einni tegund eða þyngd. Takist ekki að ná settum markmiðum með skipulögðum aðgerðum þarf að skoða þann möguleika að sjúklingar geti valið að fá aðgerðina gerða annars staðar. Sjúklingum verði gefinn ákveðin áætlun um það hvenær aðgerðin verði gerð og hvaða valkosti hann hafi verði ekki við þá áætlun staðið. Það eykur ábyrgð þeirra sem setja sjúklinga á biðlista og þeirra sem taka á móti sjúklingum af biðlista, sé það ekki sami aðilinn, sem jafnframt ber ábyrgð á því að sjúklingurinn dagi ekki uppi á biðlistanum eða þurfi að bíða allt of lengi. Í Bandaríkjunum er t.d. oft ákveðið milli læknis og sjúklings hvenær aðgerðin skuli gerð og sjúklingurinn þar með ekki settur á einhvern óljósan biðlista. Meðalbiðtími í Bandaríkjunum er lengri en t.d. í breska heilbrigðiskerfinu en þar sem sjúklingarnir vita hvenær aðgerð verður gerð eru þeir ekki í „læknisfræðilegu stofufangelsi“ og því eru biðlistar ekki sams konar vandamál í Bandaríkjunum og í Bretlandi.
    Það hefur sýnt sig víða í heiminum, að svigrúm til skipulagsbreytinga, breytinga á stjórnskipulagi og læknisfræðilegri aðferð hefur verið meira en menn áttu von á. Það lýsir sér best í skurðlækningum þar sem mjög hefur verið breytt yfir í dagsinnlagnir og utanspítalaaðgerðir, sem hefur gert mögulegar fleiri aðgerðir fyrir sama fé. Til viðbótar þessu má nefna þá umræðu sem sífellt verður sterkari um möguleika þess að hafa áhrif á það hvernig staðið er að málum frá faglegu sjónarmiði. Þannig er umræða um hinar ýmsu leiðir til að ná utan um faglega nálgun, hvort sem það er nefnt; „good practice” — viðeigandi „inngrip“ — „state of the art“ eða „clinical guidelines“. Hér er um það að ræða að fagfólk komi sér saman um það á hvern hátt þeim markmiðum verði best náð, að sjúklingur fái þá bestu þjónustu sem völ er á, á sem hagkvæmastan hátt og að óþarfa bið valdi honum ekki skaða.

Biðlistar á Íslandi.
    Í umræðunni um biðlista á Íslandi er mikilvægt að gera sér grein fyrir þeim breytingum er átt hafa sér stað í sjúkrahúsaþjónustu sl. 5–7 ár. Það er jafnframt mikilvægt að gera sér grein fyrir því að biðlistar eru ekki einungis hvað varðar skurðaðgerðir. Bið eftir annarri þjónustu getur haft áhrif á biðlista eftir skurðaðgerðum vegna samkeppni um rými á sjúkrahúsum. Það er jafnframt mikilvægt að gera sér grein fyrir því að opinber umræða hefur einungis verið um fjölda sjúklinga á biðlistum en upplýsingar um lengd biðtíma hafa ekki verið áberandi. Umræðan hérlendist á síðustu mánuðum hefur mótast af notkun biðlista sem tækis til að hafa áhrif á röðun í forgangsröð. Til viðbótar við þann skort sem verið hefur á upplýsingum um lengd biðtíma, hafa engar upplýsingar verið skráðar um vinnufærni, færni almennt eða hvort sjúklingar séu yfirleitt sjálfbjarga, kostnað fyrir styrkjakerfi eða lyfjanotkun. Þær upplýsingar sem hér koma fram, þótt af skornum skammti séu, eru því nýjar af nálinni og safnað er upplýsingum frá þeim læknum sem mest hafa með biðlista að gera. Jafnframt eru upplýsingar um kostnað við aðgerðir mjög af skornum skammti þótt töluvert hafi áunnist á síðasta ári í þá veru að verðleggja einstaka aðgerðir, einkum á Ríkisspítölunum. Því er í reynd ómögulegt við núverandi aðstæður án þess að það kosti margra mánaða vinnu, að gera sér grein fyrir því í smáatriðum, á hvern hátt fjárhagsleg eða þjóðfélagsleg áhrif biðar á biðlista er háttað og ekki er hægt að bera það saman við þann kostnað sem af því hlytist að gera þessar aðgerðir þannig að enginn biðlisti skapist. (Í ljósi þess sem áður er sagt er það markmið hins vegar óraunsætt).
    Þessi niðurstaða er hins vegar athyglisverð í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið og hefur oft mátt skilja sem svo að fyrir lægju allar upplýsingar um þær afleiðingar sem dvöl á biðlista hefur fyrir sjúklingana. Nákvæmar upplýsingar um slíkt eru alla jafna ekki skráðar hérlendis og því aðeins hægt að styðjast við almennar upplýsingar og einstök afmörkuð dæmi. Slíkar kannanir hafa þó einstaka sinnum verið gerðar erlendis fyrir einstaka sjúkdóma eða einstakar aðgerðir (Läkartidningen 1984) og einstakar litlar kannanir hafa verið gerðar hérlendis, sem vitnað verður til síðar.
    Skráning Landlæknsembættisins yfir biðlista nær yfir fjölda sjúklinga og breytingar á fjölda frá 1991. Það hefur gengið misvel að safna þessum upplýsingum frá sjúkrahúsunum og ekki tekist að ná saman upplýsingum um dvalartíma eða aðrar þær upplýsingar sem um er getið í þessum inngangi. Það vekur því upp þá spurningu á hvern hátt megi auðvelda þessa vinnu auk þess sem sjálfsagt er rétt að skrá fleiri atriði.
    Á árunum eftir 1990 hafa orðið miklar breytingar í heilbrigðiskerfi íslensku þjóðarinnar. Kröfur um hagræðingu hafa valdið miklum viðbrögðum og starfsfólk sjúkrastofnana lagt sig í líma við að koma í veg fyrir að breytingar skaði þjónustu við sjúklinga. Á þessu tímabili hefur bráðasjúkrahúsunum í Reykjavík fækkað úr þremur í tvö, með sameiningu Landakotsspítala og Borgarspítala í Sjúkrahús Reykjavíkur. Á sama tíma hafa „afköst“ aukist en útgjöld staðið mikið til í stað, og Íslendingar haldist á meðaltalsbekk OECD-ríkja. Á þessu tímabili hefur meðhöndlun skurðsjúklinga utan spítala og á dagdeildum stóraukist og á þessu tímabili hefur t.d. 90 rúmum á skurðdeildum verið lokað endanlega í Reykjavík og á Reykjanesi eða u.þ.b. þriðjungur þeirra rúma sem til boða hafa staðið. Á sama tíma annast hjúkrunarfólk fleiri sjúklinga en verið hefur eða um 17,2% aukning á hvert stöðugildi. (Greinargerð Ríkisendurskoðunar, mars 1996)
    Á töflu 1 sést að á árunum 1989 til 1995 hefur innlögnum um landið allt fjölgað úr 44.502 í 48.441, en meðalrúmafjöldi fækkað úr 1.091 niður í 1.003 og meðallegutími styst úr 8,1 degi niður í 6,8. Þessi tafla talar skýru máli um afkastaaukningu á spítölum. Á töflu 2 eru hluti þessara upplýsinga brotinn upp eftir einstökum greinum fyrir árin 1990–1995.
    Þær upplýsingar sem þar eru sýndar stefna í sömu átt. Ekki koma hér fram tölulegar upplýsingar um utanspítalaþjónustu sem hefur aukist verulega á þessu tímabili. Þrátt fyrir þessa aukningu á þjónustu hefur fjöldi sjúklinga á biðlistum samkvæmt skrá Landlæknisembættisins lítið breytst og vandamálið því óbreytt við fyrstu sýn.

Tafla 1.

Almennar sjúkradeildir.




Innlagnir

Meðalrúmafjöldi

Meðallegutími




         1989
44.502
1.091 8 ,1
    1990 44.949 1.086 7 ,9
         1991
46.090
1.057 7 ,5
         1992
47.891
1.058 7 ,3
         1993
48.371
1.068 7 ,3
         1994
47.422
1.034 7 ,2
         1995
48.441
1.003 6 ,8

Tafla 2.

Innlagnafjöldi eftir deildum, þar sem sérgreinadeildir


koma fram í sjúklingabókhaldi.



1990

1991

1992

1993

1994

1995



Bæklunarlækningadeild
Landspítali     
992
779 800  910  969  963
Sjúkrahús Reykjavíkur     
1569
1627 1941 1896 1680 1626
FSA          
423
 411 450  487  484  553
                   
2984
2817 3191 3293 3133 3142
Háls-, nef- og eyrnadeild
Sjúkrahús Reykjavíkur     
1203
1302 1156 1154 1226 1155
FSA          
  47
  49  125  114   77  121
                   
1250
1351 1281 1268 1303 1276
Þvagfæraskurðdeild
Landspítali     
 543
 617 499 603  782  803
Sjúkrahús Reykjavíkur     
 485
 451 586 600  543  548
                   
1028
1068 1085 1203 1325 1351


Bæklunarlækningar.
    Upplýsingaaðilar eru Halldór Jónsson, yfirlæknir á Landspítala, Brynjólfur Mogensen, yfirlæknir á bæklunarlækningadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, Árni Sverrisson, framkvæmdastjóri St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og Júlíus Gestsson, yfirlæknir á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.
    Á biðlistum bæklunarlækningadeilda eru nú um 1300 manns og er það lengsti biðlisti einnar sérgreinar. Samkvæmt biðlistayfirliti landlæknis voru 1160 manns á biðlistanum 1991 en fækkaði niður undir 900 á árunum 1992 og 1993 en fjölgaði síðan í um 1300 á árunum 1995 og 1996. Á þessu tímabili hafa komið til nýjar aðgerðir, bakspengingar þar sem um 180 manns bíða aðgerðar og hefur það veruleg áhrif á biðlistann. Bæklunarlæknar starfa á Landspítala, Sjúkrahúsi Reykjavíkur, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, Sjúkrahúsi Akraness, St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og Sjúkrahúsi Suðurnesja. Bæklunarskurðlækningum hefur verið hætt á Landakoti en aukin áhersla hefur verið lögð á bæklunarskurðlækningar á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og á Sjúkrahúsi Akraness. Á Landspítala, Sjúkrahúsi Reykjavíkur og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri eru reknar sjálfstæðar bæklunarskurðdeildir. Starfsemin var þannig 1995:
    
                                  

Meðalrúmafjöldi

Innlagnafjöldi


Sjúkrahús Reykjavíkur
30
1662
Landspítali     
22
 963
FSA                         
15
 553

    Út frá þessum tölum má áætla að rúm fyrir bæklunarskurðlækningar séu að jafnaði um 75 og innlagnir á ári um 3400. Á bæklunarskurðdeildum er um helmingur sjúklinga bráðasjúklingar og helmingur innkallaðir sjúklingar. Þannig má áætla að um 1700 sjúklingar séu árlega lagðir inn af biðlista og nemur biðlistinn sem svarar 9 mánaða innlögnum innkallaðra sjúklinga.
    Bið eftir aðgerðum utan spítala er lítil samkvæmt upplýsingum sérfræðinga.
    Biðlistinn virðist hafa styst árið 1992 þegar hann komst niður undir 900 sjúklinga en lengst aftur 1994 og er nú um 1300 sjúklingar. Ekki er öruggt að þessar tölur séu sambærilegar vegna breytinga á sjúkrahúsaþjónustunni í Reykjavík og flutnings sérfræðinga og biðlista milli stofnana.

Tafla 3.

Sjúklingar á biðlista eftir tegund aðgerða.



Aðgerðir

Landspítali

Sjúkrahús Rvíkur

St. Jósefsspítali



Gerviliðir     
139
113
Liðspeglanir     
  4
175
Hryggspengingar, prófspengingar     
103
 14
Handarskurðlækningar     
 96
Krossbönd     
41
Annað, óflokkað      
94
247 204
Samtals     
340
774 204     


Skilgreind öryggismörk um hámarksbið.
    Ekki eru til skilgreind öryggismörk fyrir hámarksbið. Þó margir sjúklingar líði verulegar þjáningar er sjúkdómur þeirra sem bíða á biðlista ekki lífshættulegur. Sjúklingar haldnir illkynja eða lífshættulegum sjúkdómum eru lagðir inn með skömmum fyrirvara.
    Í viðræðum við yfirlækna í greininni hefur komið fram að t.d. mætti stefna að 3–4 mánaða hámarksbið eftir gerviliðaaðgerðum og 6 mánaða bið eftir bakspengingum. Sé reiknað með 1700 aðgerðum á innkölluðum bæklunarsjúklingum á ári og fjögurra mánaða bið eftir öllum aðgerðum nema bakspengingum þar sem biðin mætti vera sex mánuðir, samsvarar það um 600 manna biðlista.
    Biðtími getur verið allt að átta mánuðir eftir gerviliðaaðgerðum á Landspítala og allt að níu mánuðir á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, en getur orðið 18 mánuðir eftir bakspengingum á Landspítalanum.
    
Atvinnuöryggi, vinnutap, sjúkradagpeningar.
    Á biðlista er ekki skráð hvort sjúklingar eru vinnufærir. Samkvæmt sjúklingabókhaldi 1994 og 1995 voru 70% þeirra sjúklinga sem innkallaðir voru á bæklunarlækningadeildir yngri en 67 ára.
    Brynjólfur Mogensen yfirlæknir gefur eftirfarandi upplýsingar: „Í könnun þar sem haft var samband við 55 sjúklinga sem biðu eftir gerviliðaaðgerð á Sjúkrahúsi Reykjavíkur voru 35 á vinnufærum aldri. Af þeim voru 16 óvinnufærir en 11 töldu sig geta snúið til vinnu eftir aðgerð.
    Á bæklunarlækningadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur var haft samband við 100 sjúklinga sem biðu eftir gervilið (52), krossbandsaðgerð (25) eða þurftu að fara í axlaraðgerð (23). Fjörutíu og fimm af þeim 52 sjúklingum, sem biðu eftir gervilið, vildu fá aðgerðina gerða sem allra fyrst, fjórir voru ekki tilbúnir til að fara í aðgerð, einn var óákveðinn, einn var veikur og gat ekki farið í aðgerð og búið var að gera aðgerð hjá einum á öðru sjúkrahúsi. Tuttugu og fimm manns biðu eftir krossbandsaðgerð, 20 voru tilbúnir til að fara strax í aðgerð en fimm vildu bíða og sjá til en óskuðu eindregið eftir að vera áfram á biðlistanum. Af þeim 23 sjúklingum sem biðu eftir axlaraðgerð vildu 18 fara sem allra fyrst í aðgerð, tveir vildu bíða með aðgerð en þrír afþökkuðu aðgerð og voru teknir út af biðlistanum. Þannig má gera ráð fyrir, miðað við þessar niðurstöður, að það sé ekki mikil þörf hjá 10–15% sjúklinga sem bíða eftir þessum tegundum aðgerða.
    Á árinu 1995 var gerð viðhorfskönnun 55 sjúklinga sem haft var samband við af handahófi og biðu eftir gerviliðaaðgerð á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Fjörutíu þessara sjúklinga höfðu beðið í minna en eitt ár en 15 höfðu beðið í meira en eitt ár. Af 52 sjúklingum sem tóku afstöðu til verkja sögðu 12 verkinn vera óþolandi, 31 verkinn mikinn, sjö töldu sig hafa nokkra verki en tveir höfðu lítinn verk. Þeir sem bíða eftir gervilið í mjöðm eða hné höfðu langflestir mikil ástigsóþægindi. Liðverkur truflaði nætursvefn hjá 37 af 55 sjúklingum. Langflestir þurftu að nota verkja- eða vöðvaslakandi lyf og allverulegur hluti sjúklinga þurfti að nota svefnlyf að staðaldri. Þrjátíu af 55 sjúklingum þurftu að nota hjálpartæki, þar af 16 einn staf, 11 sjúklingar þurftu hækjur en enginn þurfti á göngugrind eða hjólastól að halda. Göngufærni sjúklinga var mjög misjöfn. Af 53 sjúklingum sem tóku afstöðu sögðust 20 geta farið út í bíl, 23 gátu gengið allt að 500 metra ef þeir fengu nógu mikinn tíma til þess og 10 gátu gengið lengra en 500 metra. Fjörutíu og tveir sjúklinganna bjuggu með maka, börnum eða systkinum en 13 bjuggu einir. Allir nema einn bjuggu í hefðbundnu húsnæði.
    Meiri hluti sjúklinga eða 30 af 55 gátu ekki bjargað sér sjálfir. Þeir sem hjálpuðu til voru maki eða börn í 21 tilviki, heimilishjálp þurftu sjö og vinir aðstoðuðu tvo. Hjálpin fólst í innkaupum fyrir 18, þrif hjá 27, böðun hjá sex, eldun fyrir einn og aðkeyptur matur fyrir tvo. Á vinnufærum aldri voru 35 af þessum 55 sjúklingum sem biðu eftir gerviliðaaðgerð. Sextán af þessum 35 voru óvinnufærir vegna liðsins. Ellefu af þessum 16 töldu sig geta hafið vinnu af nýju ef þeir fengju gerviliðinn ísettan en 5 af 16 töldu sig ekki geta snúið aftur til vinnu. Langflestir höfðu miklar væntingar til nýja liðsins í von um betri líðan.
    Þegar könnuð voru viðhorf sjúklinga um hversu lengi þeir teldu rétt að bíða eftir aðgerð töldu átta sjúklinganna að hæfileg bið ætti að vera minna en mánuður, 22 töldu bið í allt að þrjá mánuði vera í lagi, 18 töldu jafnvel allt að sex mánaða bið vera í lagi en enginn taldi að hann ætti að bíða í meira en eitt ár. Tólf sjúklinganna sem voru spurðir höfðu áður farið í gerviliðaaðgerð og töldu 11 þeirra að þeir myndu fara í gerviliðaaðgerð á sama lið ef þeir hefðu fengið að vita útkomuna fyrir fram.“
    Biðlisti eftir bæklunarlækningaaðgerðum á Sjúkrahúsi Reykjavíkur er langur og hefur lengst undanfarin ár. U.þ.b. fjórðungur sjúklinga flokkast sem „þungir“ og á framanskráð lýsing kannski hvað best við um þann hóp. Aðrir teljast meðalþungir og léttir og þá vinnufærir. Miklar breytingar hafa orðið á rekstri deildarinnar síðastliðið ár. Búið er að raða í forgang innan deildarinnar og gera samning við St. Jósefsspítalann í Hafnarfirði. Samningurinn miðar að því að hægt er að gera miðlungi þungar aðgerðir í Hafnarfirði og nota Sjúkrahús Reykjavíkur eingöngu undir þyngri aðgerðir fyrir inniliggjandi sjúklinga. Eftir lokun á Landakoti virðist vera sem léttari aðgerðir flytjist í æ meira mæli á aðgerðarstöðvar utan sjúkrahússins. Með skipulagsbreytingunum á Sjúkrahúsi Reykjavíkur er vonast til að megi fremur auðveldlega fjölga gerviliðaaðgerðum um 100 á ári og gera samtals um 250 aðgerðir á ári en til þess að svo megi vera þarf að koma til aukið fjármagn sem mótsvarar jaðarkostnaði 100 gerviliðaaðgerða á mjöðum, hnjám og öxlum.

Biðlistar eftir hryggspengingum og gerviliðaaðgerðum á Ríkisspítölum.
    Um 180 manns bíða eftir hryggspengingu og um 180 eftir gerviliðaaðgerð. Framkvæmdar eru 2 hryggspengingar og 6 gerviliðaaðgerðir á viku. Með 45 vinnuvikum á ári er því um 18 mánaða bið eftir hryggspengingu og um 8 mánaða bið eftir gerviliðaaðgerð. Frá áramótum hefur verið í gangi átaksverkefni þar sem hryggspengingum er fjölgað í 4 á viku. Þannig er fyrirhugað að ljúka 50 aðgerðum fyrir apríllok. Þetta átak er dæmi um skipulagsbreytingu og breytta röðun í forgang. innan spítalans en ekki hefur verið veitt sérstakri fjárveitingu til þessa verkefnis. Markmið átaksverkefnis væri að stytta biðlistann þannig að mestur biðtími yrði 6 mánuðir eftir hryggspengingu og 3 mánuðir eftir gerviliðaaðgerð. Framkvæma þyrfti 112 hryggspengingar og 88 gerviliðaaðgerðir svo að þessu markmiði yrði náð.
    Eftirfarandi upplýsingar eru frá Halldóri Jónssyni, yfirlækni á bæklunarlækningadeild, Landspítala: „Meðalaldur sjúklinga sem bíða eftir hryggspengingu eða gerviliðaaðgerð, er 51 ár. Þessi hópur er því á vinnufærum aldri og ný tækni í þessum aðgerðum gerir það að verkum að í stað eins árs fjarveru frá vinnu eftir hryggspengingu er nú verið að tala um 6 vikna til 3ja mánaða fjarveru frá vinnu.
    Stór hópur sjúklinga á biðlistanum er með stöðuga verki og tekur ávanabindandi lyf að staðaldri. Metin hefur verið (H J) lyfjanotkun hóps sjúklinga. Um 40 sjúklingar taka inn morfín (contalgin) að staðaldri eða morfínlíkt lyf (nobligan) og um 80 sjúklingar taka inn parkóden forte eða dolvipar sem eru sterk ávanabindandi verkjalyf. Notkun contalgins og nobligans er um 6 töflur að meðaltali á dag fyrir hvern sjúkling og parkóden forte og dolvipar notkun er um 8 töflur að meðaltali á dag fyrir hvern sjúkling. Kostnaður vegna þessara verkjalyfja er því um 360.000 kr. á mánuði fyrir contalgin/nobligan og um 192.000 kr. á mánuði fyrir parkóden forte/dolvipar. Heildarverkjalyfjakostnaður á ári er um 6,6 millj. kr. fyrir þessa 120 sjúklinga ef þeir komast ekki í aðgerð.
    Viðbótarkostnaður fyrir Ríkisspítala til að taka að sér slíkt átaksverkefni er um 600 þús. kr. fyrir hverja hryggspengingu og um 400 þús. kr. fyrir hverja gerviliðaaðgerð. Ef framkvæmdar yrðu 112 hryggspengingar yrði heildarviðbótarkostnaður vegna þeirra 67,2 millj. kr. og ef gerðar yrðu 88 gerviliðaaðgerðir yrði heildarviðbótarkostnaður vegna þeirra 35,2 millj. kr. Heildarkostnaður átaksins yrði því 102,4 millj. kr. Tekið skal fram að í apríl og maí 1995 var gert slíkt átak á Ríkisspítölum.“

Samantekt.
    Í raun er biðlisti eftir bæklunaraðgerðum sá biðlisti sem mestrar skoðunar þarfnast. Bæði er að þar er mikill fjöldi fólks sem bíður eftir aðgerð en því fylgja verulegir verkir, veruleg verkjalyfjanotkun, og takmarkanir á hreyfingum og þar er helst að leita þess hóps sem fær greiddar bætur vegna þess að það dregst að losa þá af biðlista. Þar er þó atriði sem vert er að gefa gaum að vissulega eru menn teknir í aðgerð af biðlistanum og færðir fram eftir eðli sjúkdóms og alvöru.
    Annað sem hefur veruleg áhrif á biðlistann er það að stór hluti aðgerðanna er gerður á slysadeild eða í tengslum við slysadeild og vegna þessa er mjög erfitt um vik hvað varðar skipulag og langtímaáætlun aðgerðadaga. Þannig getur það gerst að sjúklingar séu kallaðir inn til aðgerðar sem síðan hefur orðið að fresta þegar aðgerð vegna slyss tók upp skurðstofuna.
    Til umræðu hafa verið úrlausnir er bæta megi ástandið. Áður hafa verið gerðar tilraunir með átaksverkefni er stytt hafa biðlistatímann tímabundið, en síðan aftur sótt í sama farið. Það bendir til þess að almennt séu ekki gerðar nógu margar aðgerðir til þess að halda biðlistum innan ásættanlegra marka Rétt er að hafa í huga að ekki hafa verið sett markmið um lengd biðtíma, en rétt væri að stefna að því að gerviliðaaðgerðir væru helst gerðar innan þriggja mánaða og að bið eftir hryggspengingu verði ekki lengri en 6 til 9 mánuðir.
    Hér ber þó þess að geta að mjög er mismunandi ástand á sjúkrahúsunum í Reykjavík hvað varðar bið eftir hryggspengingu og þeim fjölda er þar bíða. Að hluta til stafar það af mismunandi nálgun og eru einfaldlega uppi tvenns konar viðhorf hvað varðar bakaðgerðir. Annar spítalinn sker mikið en hinn lítið. Aðrir þættir er koma að máli samkvæmt upplýsingum Halldórs Jónssonar, er að stutt er síðan farið var að gera þessar aðgerðir hérlendis og því sé í raun um að ræða að verið sé að vinna á uppsöfnuðum vanda og að toppnum sé nú náð. Að sögn Halldórs kann að vera skýring á miklum fjölda bakaðgerða sú, að sjúklingar fari fyrr í aðgerð hérlendis en t.d. í Svíþjóð vegna mismunandi tryggingafyrirkomulags.
    Ljóst er að ástandið á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri er mun betra og biðtími styttri, jafnvel allt niður í fjórir mánuðir. Þar hefur nú verið bætt við fjórða bæklunarskurðlækninum og í bréfi yfirlæknis kemur fram að með bættri endurhæfingu og bættri hjúkrunaraðstöðu fyrir aldraða á Norðurlandi geti sjúkrahúsið sinnt mun fleirum á Norðurlandi öllu og jafnvel tekið við sjúklingum frá Reykjavíkursvæðinu. Kanna þarf á hvern hátt það tengist t.d. þeim fjölda sjúklinga utan Reykjavíkur sem eru á biðlistanum á höfuðborgarsjúkrahúsunum. Það er hins vegar ljóst, að margir sjúklingar vilja ekki skipta um lækni og margir vilja heldur bíða lengur og halda sig við „sinn lækni“. Hér mætti gera betur og finna leiðir til að kynna á reglubundinn hátt hvar er stysta biðin og leyfa sjúklingum að flytja sig á milli biðlista.
    Þá hefur Sjúkrahús Reykjavíkur gert samning við St. Jósefsspítala í Hafnarfirði um miðlungsþungar aðgerðir og þar hefur sjúklingum fjölgað á biðlista úr 65 í 204. Ekki er ljóst á þessu stigi á hvern hátt biðlisti Sjúkrahúss Reykjavíkur breytist við þennan samning.
    Að lokum er rétt að nefna það að sjúklingar á biðlistum þessara fjögurra sjúkrahúsa eru mjög misþungir og samanburður því mjög erfiður.

Fyrirhugaðar aðgerðir í bæklunarlækningum:
    *    Aukin samvinna og sameining verkefna sjúkrahúsanna á Reykjavíkursvæðinu, Sjúkrahúsi Reykjavíkur, Landspítala og St. Jósefsspítala í Hafnarfirði (skurðlæknateymi). Á þann hátt fæst aukin sérhæfing og betra skipulag og meiri afköst, m.a. þar sem slysalækningar verða einungis á einum stað.
    *    Gerð verði áætlun um hvað fjölga þurfi aðgerðum mikið tímabundið til þess að stytta biðlistatíma niður í 3 til 6 mánuði og síðan halda honum þar. Kannað verði í samvinnu við landlækni hvers vegna, gerðar eru fleiri aðgerðir vegna tiltekinna vandamála s.s. bakaðgerðir samanborið við nágrannaþjóðir og hvaða áhrif það hefur á biðlista og biðlistatíma í bæklunarlækningum yfirleitt.
    *    Heilbrigðisráðuneytið hefur 100 millj. kr. í hagræðingarsjóði til að mæta, a.m.k. að hluta, aukakostnaði sem af átaksverkefni kann að hljótast. Endurskoða skal dreifingu aðgerða í ljósi þess að bæst hefur við ný læknisstaða á Akureyri og veitt hefur verið sérstakt fé til Sjúkrahússins á Akranesi í bæklunaraðgerðir.

Hjartasjúkdómar.
    Eftirfarandi kafli er unninn eftir upplýsingum frá Grétari Ólafssyni, yfirlækni á hjarta- og brjóstholsskurðdeild Landspítalans, Árna Kristinssyni, yfirlækni á hjartadeild Landspítalans og Magna Jónssyni, sviðsstjóra lyflækningasviðs Sjúkrahúss Reykjavíkur.
    Í greinargerð kemur fram að þann 6. janúar 1997 bíða 55 fullorðnir sjúklingar og 8 börn á biðlistum til hjartaaðgerða. Af fullorðnum sjúklingum þarf að flýta 13, þ.e. þeir mega ekki bíða lengur en í mesta lagi þrjár vikur og sumir þessara sjúklinga verða að fara í aðgerð fyrr.
    Eins og nú er ástatt þarf enginn sjúklingur að bíða lengur en í fjóra mánuði, en bíði þeir lengur er það vegna eigin óska eða að talið er óhætt að áliti lækna. Sé hins vegar talið að ástand þeirra leyfi ekki þessa bið er lagt mjög hart að sjúklingum að fara í aðgerð. Sjúklingar sem þurfa að fara í bráðaaðgerð fara strax í slíka aðgerð.
    Það er eftirtektarvert að samkvæmt skýrslu landlæknis voru sl. haust 29 sjúklingar á biðlista. Sú aukning sem þarna hefur orðið er vegna fría um jólin og sérstaks átaks í hjartaþræðingum sem gert var í desember. Jafnframt er ljóst að sumarlokanir hafa nokkur áhrif á þennan biðlista.

Tafla 4.

1992

1993

1994

1995

1996



Hjartaþræðingar á Landspítala     
597
617 497 600 560
Hjartaþræðingar á Sjúkrah. Rvíkur     
187
317 331 417 426
          Hjartaþræðingar samtals:      784 934 828 1017 986

Kransæðavíkkanir á Landspítala     
161
219 238 340 347

Hjartaaðgerðir     
254
248 267 243 226

    Á meðfylgjandi töflu yfir fjölda hjartaþræðinga á Landspítala og Sjúkrahúsi Reykjavíkur svo og kransæðavíkkana og hjartaaðgerða (tafla 4), kemur í ljós að frá 1992 hefur samanlagður fjöldi hjartaþræðinga aukist verulega og jafnframt hefur kransæðavíkkunum og hjartaaðgerðum samtals fjölgað úr 415 í 573. Þannig hefur tekist að sinna mun fleiri sjúklingum með kransæðaþrengsli, einkum vegna tilkomu kransæðavíkkana, sennilega þannig fækkað skurðaðgerðum. Kransæðavíkkanir er enn hægt að auka og fyrirsjáanlegt er að með tilkomu nýrrar rannsóknastofu í hjartasjúkdómum á Landspítala, sem til stendur að opna á fyrri hluta þessa árs, verða möguleikar til meðhöndlunar hjartasjúklinga á þennan hátt orðnir mjög viðunandi. Hvað varðar starfsgetu eru á biðlistanum þann 6. janúar 1997, 21 sjúklingur 67 ára og eldri, 13 sjúklingar 70 ára og eldri en á biðlistanum eru engar sérstakar upplýsingar um það hvort viðkomandi sé óvinnufær. Þeir Grétar og Árni vilja samt taka fram að þeir sjúklingar sem voru óvinnufærir fyrir aðgerð (en það er fyrst og fremst skráð þegar sjúklingur kemur til aðgerðar) verði í langflestum tilvikum vinnufærir u.þ.b. 3 mánuðum eftir aðgerð.
    Hvað lyfjakostnað áhrærir var gerð tilraun til að reikna út lyfjakostnað sjúklinga og reiknað verð algengustu hjartalyfja (Imdur, Adalat, Atenolol, Magnýl og Nitromex) og er kostnaður um 150 kr. á dag vegna hvers sjúklings.
    
Samantekt.
    Að mati Grétars og Árna er þjónusta á sviði kransæðavíkkana og kransæða- og hjartaaðgerða, miðað við núverandi aðstæður, viðunandi og batnar enn eftir að hjartarannsóknastofa opnar á fyrri hluta þessa árs. Það er þó mikilvægt að ekki komi til samdráttar í starfsemi eins og um jól eða á sumrin er geti leitt til þess að dragi úr aðgerðafjölda á viku hverri, en þá safnast fljótt á biðlistann. Síðastliðið haust var biðlisti u.þ.b. 30 manns sem er viðunandi og mikilvægt að það geti haldist og þarf þá að miða við 6 aðgerðir á viku.
    Þá hefur á þessu sviði verið gerð áætlun um kostnað vegna kransæðaaðgerða, annars vegar fyrir fullorðna sem reynist á bilinu 616 þús. kr. til 777 þús. kr. og hins vegar fyrir börn á bilinu 1,5 mkr. til 1,8 mkr. Í vinnu skýrsluhöfunda var jafnframt gerð tilraun til þess að meta lyfjakostnað eins og að framan greinir. Miðað við upplýsingar læknanna er hins vegar ógerlegt að gera greinarmun á skertri vinnufærni vegna sjúkdómsins sjálfs og bóta vegna hans eða bóta er stafa af óeðlilegri bið á biðlista, sem að þeirra mati er í raun ekki um að ræða (sbr. áður).

Lýtalækningar.
    Samkvæmt upplýsingum landlæknisembættisins hefur biðlistinn verið sem hér segir og er þá miðað við Landspítala, St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og Sjúkrahús Reykjavíkur:
                        
1991
1.000
                        
1992
1.484
                        
1993
 934
                        
1994
 895
                        
1995
 626     þar af 363 á Landspítala.

    Samkvæmt upplýsingum Rafns A. Ragnarssonar, yfirlæknis á lýtalækningadeild Landspítalans þann 10. janúar 1997 eru alls 493 sjúklingar sem bíða aðgerða á Landspítala (92 á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði). Af þeim sem bíða á Landspítala bíða 306 eftir brjóstaminnkunaraðgerðum, 53 bíða vegna aðgerða vegna öra og 32 eru á biðlista eftir aðgerðum á nefi. Í öðru bréfi mánuði síðar ritar Rafn að hann sé að endurskoða biðlistann og hann stefni að því að reyna að koma fjöldanum niður fyrir 300 áður en lýtalækningadeild opnar að nýju sem fyrirhugað er hinn 1. apríl nk. Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur eru um 200 sjúklingar þar á biðlista.
    Mjög erfitt er að gera sér grein fyrir hversu alvarlegur þessi biðlistavandi er eða hvað biðin er löng. Ekki er skráð hversu lengi sjúklingar hafa verið á biðlista. Þó eru upplýsingar frá St. Jósefsspítala í Hafnarfirði er benda til þess að þar geti verið allt að ársbið eftir brjóstaaðgerð. Legusár, húðkrabbamein og stórar lýtaaðgerðir ganga fyrir og aðgerðir á börnum sömuleiðis og hefur gengið vel að hindra bið. Aðgerðir eftir húðskemmdir eftir krabbamein ganga fyrir.
    Eins og fram hefur komið hefur lýtalækningadeild ekki verið rekin sem sérstök deild á Landspítalanum um u.þ.b. fimm ára skeið. Hún hefur haft nokkur rúm inn á 13 D (þvagfæraskurðdeild) og hefur því meðferðaraðstaða eins og fyrir brunasjúklinga verið ónæg. Nú hillir undir að deildin opni á nýjan leik og verða þá gerðar lýtaaðgerðir á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, Landspítalanum og St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Mun það gjörbreyta ástandi á þessum biðlista. Engin bið er eftir aðgerð sem hægt er að gera utan spítala.
    Svo sem fram kemur að framan er það ljóst að stærsti hluti þeirra sem bíða á Landspítalanum eru konur með of stór brjóst og stoðkerfiseinkenni og almenn einkenni vegna þess. Engar upplýsingar eru til um vinnufærni þessara kvenna.

Þvagfæraskurðlækningar.
    Það vísast til svars Egils Jacobsen, yfirlæknis á Landspítala, og fundar með honum og Guðmundi Vikari Einarssyni og Guðjóni Haraldssyni. Í viðtali við þá kemur fram að samtals eru á biðlista á Landspítala 245 einstaklingar, þar af 114 í reglubundnu eftirliti vegna blöðrukrabbameins, sem sums staðar væru ekki taldir á biðlista, en 131 er bíða annarra aðgerða. Þar er einkum um að ræða konur með þvagleka og karlmenn með blöðruhálskirtilsstækkun. Þar kemur í ljós að á biðlistanum eru 54 frá árinu 1996 en á bilinu 7–12 á árunum allt aftur til 1991. Hvers vegna þeir hafa ekki farið í aðgerð er ekki ljóst. Það kom fram að deildin er að bíða eftir stækkuðu húsnæði er verður við það að lýtalækningadeildin tekur til starfa 1. apríl á deild 13 A á Landspítalanum og færist þá úr þeim rúmum sem hún hefur notað á þvagfæralækningaskurðdeild 13 D.
    Það kom fram að forgangsröðun er á biðlista eftir því hversu bráður og alvarlegur sjúkdómurinn er og þeir sem eru óvinnufærir bíða mjög óverulega. Þannig er talið að um óeðlilega bið á þessum biðlista sé ekki að ræða eða hafi þannig áhrif á vinnufærni eða bótagreiðslur fram yfir það að vera sjúkur yfirleitt gerir. Biðlistar eru styttri á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og að mati lækna þar er ástand ásættanlegt. Ekki eru nákvæmar upplýsingar um biðlista á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði en sá listi er styttri. Ástæða er til að ætla að þeir séu ekki í eðli sínu frábrugðnir því sem hér er fram talið frá Landspítalanum.
    
Háls-, nef- og eyrnasjúkdómar.
    Biðlistar hafa verið langir á háls-, nef- og eyrnadeild á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði og á Sjúkrahúsi Suðurnesja í Reykjanesbæ. Auk þess eru háls-, nef- og eyrnaaðgerðir gerðar víðsvegar um landið og er þar stærstur staður Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Þar bíða aðgerðar 146 þar af 36 sem beðið hafa lengur en 4 mánuði. Samkvæmt upplýsingum Landlæknisembættisins haustið 1996 eru 973 á biðlista hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur og 135 á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Þann 7. febrúar eru þær tölur 953 og 118.
    Frekari upplýsingar voru fengnar frá Kristjáni Guðmundssyni, settum yfirlækni á háls-, nef- og eyrnadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Tafla 5 sýnir skiptingu þessa 953 biðlistaaðgerða.

Tafla 5.

Aðgerð

Fjöldi sjúklinga



Hálskirtlatökur     
566

Háls- og nefkirtlatökur     
155

Aðgerð á miðsnesi     
123

Aðrar aðgerðir     
233


    Jafnframt kemur fram að aðgerðum hefur fjölgað úr 1190 árið 1995 í 1214 árið 1996. Hjá Kristjáni kom fram að algengur biðtími væri eitt ár eftir aðgerð eins og hálskirtlatöku. Óæskilegt er að biðin sé lengri en fjórir mánuðir.
    Á þessari deild eins og svo mörgum öðrum hafa verið miklar breytingar, m.a. með sameiningu Landakots og Borgarspítala og flutningi barnadeildar af Landakoti yfir á Sjúkrahús Reykjavíkur. Við það hafi innlagnarmöguleikar háls-, nef- og eyrnalækna á barnadeild versnað því að nú eru þeir í auknum mæli í samkeppni um pláss við slysadeild og heila- og taugaskurðlækningadeild. Þess sjái líka merki að nú sé ekki lengur teknir hálskirtlar eða gerðar HNE-aðgerðir í húsnæði Fæðingarheimilis Reykjavíkur.
    Vandamál deildarinnar er því fyrst og fremst það að hún getur ekki skipulagt starfsemi sína og ræður ekki yfir nægu rými. Það að t.d. geta aukið um einn aðgerðardag á St. Jósefsspítala mundi gjörbreyta ástandi á biðlista HNE á öllu Reykjavíkursvæðinu. Kristján taldi að þessi bið skapaði viðbótarsýklalyfjanotkun og einhver veikindi barna og hugsanlega þar með vinnutap foreldra, en þar sem slíkt væri sérstakt vandamál, væri reynt að flýta aðgerð fram yfir það sem að framan er getið. Hann hafði því engar upplýsingar um vinnutap vegna þessa biðlista, en taldi það óverulegt ef þá nokkurt. Aukin sýklalyfjanotkun vegna óeðlilegar dvalar á biðlista hefur ekki verið metið.
    
Augnlækningar.
    Algengt og ásættanlegt er að á biðlista augndeildar séu um 150–200 manns. Fjöldi sjúklinga á biðlista á augndeild Landspítala er 314, þar af konur 194 og karlar 120 með aldursskiptingu sem hér segir:

Tafla 6.

Aldursskipting sjúklinga á biðlista eftir fæðingarárum.



Fæðingarár

Fjöldi sjúklinga



1897–1910     
36

1911–1920     
124

1921–1930     
81

1931–1940     
27

1941–1950     
10

1951–1960     
7

1961–1970     
3

1971–1980     
10

1981–1996     
6


    Jafnframt fylgir tafla yfir þróun á starfsemi deildarinnar á Landakotsspítala 1991–1995.

Tafla 7.

Fjöldi aðgerða innlagna og legutími samkvæmt ársskýrslu Landakotsspítala.



Ár

Aðgerðir

Innalagnir

Legudagar



1991          
974
785 4006
1992          
1131
855 3857
1993          
1118
997 3257
1994          
1015
891 3070
1995          
1237
1043 3298

    Vegna fjárhagsþrenginga Sjúkrahúss Reykjavíkur á síðasta ári var fækkað rúmum augndeildar og þótt tölur liggi ekki fyrir fyrir árið 1996 er talið að þar hafi orðið um fækkun aðgerða að ræða frá 1995. Augndeildin hefur nú fengið samastað á Landspítala og í áætlaðri fjárveitingu til deildarinnar fyrir árið 1997 var gert ráð fyrir því að aðgerðum mundi aftur fjölga, þannig að biðlistar kæmust í fyrra horf.
    Þá eru einnig gerðar augnaðgerðir á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði, auk Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Í lista frá St. Jósefsspítala er bið eftir augnaðgerðum ekki talin upp sem vandamál. Upplýsingar frá FSA liggja ekki fyrir. Ekki er talið ljóst á hvern hátt biðlistadvöl vegna augnaðgerða valdi vinnutapi sem aðgerð mundi laga og því ekki hægt að greina aukakostnað af óeðlilegri bið á biðlistum frá afleiðingum undirliggjandi sjúkdóms.
    
Almennar handlækningar.
    Upplýsingar frá Jónasi Magnússyni, prófessor á Landspítala og Gunnari Gunnlaugssyni yfirlækni skurðlækningadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur. Það vísast til meðfylgjandi taflna sem eru fjórar talsins:
    






(Töflur 8, 9, 10 og 11


Repró u.þ.b. 2 bls.)















    Á fyrstu töflunni sést að almenn skurðdeild Landspítala er nú komin með biðlista er telur 146 sjúklinga. Að hluta til stafar þetta af nýjum möguleikum, kögunaraðgerðum sem teknar voru upp 1993 og hefur farið fjölgandi svo sést á töflunni. Jafnframt kemur fram óhagræði af því að bráðastarfsemi fer vaxandi en náðst hefur árangur þar sem meðallegutími hefur styst. Á handlækningadeild Landspítalans hafa verið teknar upp til viðbótar við gallblöðruaðgerðir, aðgerðir vegna þindarslits í gegnum kviðsjá og aðgerðir á nýrnahettum og er deildin því í fremstu röð og hefur yfir að ráða nýjustu tækni á þessum sviðum. Tekist hefur að halda biðlistum á Sjúkrahúsi Reykjavíkur í lágmarki. Þar eru sennilega u.þ.b. 100 sjúklingar á biðlista og er biðtími eftir algengum aðgerðum 3–4 vikur. Ekki liggja fyrir upplýsingar hjá Jónasi um óvinnufærni sjúklinga á þessum biðlista. Á yfirliti Landspítalans kemur fram að aðgerðir spítalans eru sífellt að lengjast og bendir það til þess að aðgerðir verði stöðugt erfiðari og tímafrekari. Það er í samræmi við aukna dagdeildarvinnu og að léttari aðgerðir eru gerðar utan spítalans í æ ríkari mæli.     

Kvensjúkdómar.
    Á kvennadeildinni hefur verið unnið markvisst að hagræðingu og hefur verið aukið við hlutfall þeirra aðgerða sem hægt er að gera með kviðsjá eða legspeglun. Biðlisti kvenlækningadeildar — legudeildar er óverulegur og tekist hefur að koma á ákveðnu vinnuferli. Venjulegt ferli er; að beiðni berst deildinni, konunni er sent bréf innan 7–10 daga og boðin innlögn. Aðgerðir eru bókaðar 1–2 mánuði fram í tímann.
    
Tafla 12.

Meðallegutími

Meðallegutími


Innlagnir á

Skráðar

á krabbameins-

á alm. kven-


kvenlækninga-

aðgerðir

Sjúklingar

lækningadeild/

sjúkdómadeild/


Ár

deildir

á skurðstofu

í aðgerð

legudeild

5-daga-deild



1992          
2906
3496 3132 5 ,6 2 ,7
1993          
3060
3596 3231 5 ,0 3 ,3
1994          
3090
3424 3082 4 ,7 3 ,3
1995          
3368
3626 3257 4 ,3 2 ,6
1996          
3609
3735 3370 5 ,0 1 ,7


Tafla 13.

Biðlisti fyrir kvensjúkdómaaðgerðir



Mánuður og ár

Fjöldi



Ágúst 1994     
438

Mars 1995     
240

Ágúst 1995     
269

Desember 1995     
367

Mars 1996     
310

September 1996     
221

Desember 1996     
262

Febrúar 1997     
285


    Á 5-daga-deildinni er biðlisti, en konur með verki, blæðingar og önnur einkenni svo og vegna keiluskurðar, fara í forgang. Því ættu sjúklingar á biðlista kvenlækningadeildar að vera flestir vinnufærir. Þeir sem hafa það mikil einkenni að dragi úr vinnufærni komast að fljótlega.
    Biðlisti glasafrjóvgunardeildar hefur af og til verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Á biðlista deildarinnar eru 345 pör. Í ágúst opnaði deildin stærra og betra húsnæði og frysting fósturvísa hófst í apríl sl. Því aukast afköst deildarinnar og gert er ráð fyrir að hefja smásjárfrjóvganir með vorinu. Biðlisti er því að styttast.
    Enginn biðlisti er á Kvensjúkdómadeild FSA.
    
Heila- og taugaskurðdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur.
    Á lista landlæknis kemur fram að síðasta tala sé 96. Í bréfi Bjarna Hannessonar, yfirlæknis, frá 5. febrúar 1997 kemur í ljós að fjöldi sjúklinga er 57 og meðalaldur þeirra er 43,5. Í greinargerð hans kemur fram að u.þ.b. helmingur þeirra 800 sjúklinga sem lagðir eru inn á heila- og taugaskurðlækningadeild á ári hverju, eru með bráðasjúkdóma í heila og mænu. Á ári hverju má reikna með yfir 60 æxlum í heila og mænu, 20 heilamengisblæðingum undir kögri og 10 blæðingum í heila. Þá voru gerðar 10 aðgerðir vegna vatnshöfuðs. Um helmingur sjúklinga sem legst inn á heila- og taugaskurðlækningadeild eru sjúklingar með brjósklos í hrygg. Þar er nú notuð smásjártækni við að fjarlægja brjósklos í hrygg og hefur það stytt legutíma eftir aðgerð úr 5–7 dögum niður í 2–3 daga. Sjúklingum sem verða fyrir slysum á miðtaugakerfi hefur sem betur fer farið fækkandi sl. ár.
    Fjöldi aðgerða á ári hverju hefur verið svipaður, eða um 300 að meðaltali sl. fimm ár. Í nóvember 1996 varð fjölgun á skurðstofudögum hjá deildinni þannig að í stað þriggja og stundum tveggja skurðstofudaga á viku er nú um að ræða 4,5 dag. Biðlisti hefur því styst og annað sem í raun er þýðingarmeira er það að stórar og erfiðar aðgerðir á heila og mænu sem áður voru gerðar að kvöldi eða næturlagi er nú hægt að gera á dagvinnutíma. Meðallegutími á deildinni 1994 voru fjórir og hálfur dagur.
    
Geðdeildir.
    Í svari Tómasar Helgasonar, prófessors á geðdeild Landspítala, kemur fram að á biðlistum deildarinnar eru tæplega 200 manns, allir nema tveir undir 55 ára aldri. Á biðlista barnageðdeildar eru 93 börn og unglingar sem bíða eftir að komast í rannsókn með greiningu og meðferð á göngudeild auk 11 barna og unglinga er bíða eftir innlögn á unglingadeild. Á fíkni- og fjölkvilladeildum eru 74 á biðlista, þar af 33 undir 35 ára aldri. Tómas Helgason tekur fram að yfirleitt hefur ekki þýtt að hafa biðlista á geðdeildinni vegna þess að öll mál sem þangað koma eru svo bráð að leysa verður úr þeim þegar í stað. Mál sem ekki eru bráð komast því ekki að svo að ekki þýðir að halda biðlista nema fyrir þá sem bráðliggur á.
    Nú er svo ástatt um 20 sjúklinga sem liggur á að komast inn á aðrar geðdeildir, ýmist í skammtímameðferð eða endurhæfingu. Í töflum er fylgja svari Tómasar kemur í ljós að starfsemi deildarinnar á árunum 1994 og 1995 hefur breyst verulega, legudögum fækkað um 7% en dagsjúklingum fjölgað mikið eða um 22%. Göngudeildarviðtölum hefur fjölgað og meðaldvalartími á bráðadeild hefur lækkað á árunum 1986–1995 úr u.þ.b. 26 niður í 20.
    Í upplýsingum frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur kemur fram að heildarlegudagafjöldi hefur aukist á árunum 1992–1995 úr 49.000 í rúmlega 50.000, sbr. eftirfarandi töflu:
    
Tafla 14.

Geðsvið 1992 til 1995 – legudagar.



Ár

Sólarhringsvistun

Dagvistun

Heildarfjöldi



1992          
29.026
20.016 49.042
1993          
28.418
21.335 49.753
1994          
30.972
19.432 50.404
1995          
28.366
21.924 50.290

    Af sömu orsökum og tíundaðar eru frá Landspítala eru biðlistar á Sjúkrahúsi Reykjavíkur yfirleitt stuttir. Þó eru á biðlista eftir sérhæfðri meðferð á dagdeild á bilinu 6–12 sjúklingar á aldrinum 18–50 ára. Flestir hafa skerta vinnufærni eða eru öryrkjar vegna síns sjúkdóms. Þá er nokkur biðlisti eftir langtímaplássi fyrir sjúklinga með öldrunargeðsjúkdóma er dveljast á öðrum bráðadeildum sjúkrahússins.
    
Endurhæfingardeildir.
    Rétt er að geta lítillega ástands á endurhæfingardeildum vegna þeirra áhrifa sem tafir á flutningi sjúklinga af bráðadeildum yfir á endurhæfingardeildir hafa á starfsemi þeirra deilda. Könnun var gerð á fjölda endurhæfingarsjúklinga á lyflækninga-, handlækninga- og taugalækningadeildum Landspítalans þann 27. janúar 1997. Taldir voru þeir sjúklingar þar sem eftirtaldar forsendur voru fyrir hendi:
    Bráðameðferð er lokið.
    Líkur eru til þess að sjúklingur nái sjálfstæðri hæfni og geti farið heim.
    Sjúklingur getur ekki útskrifast vegna færnisskerðingar.
    Niðurstöður eru sýndar á eftirfarandi töflu.

Tafla 15.

Deild

Fjöldi sjúklinga



Taugalækningadeild
32A 
     2     (venjulega 4–5)
Lyflækningadeild
11B 
     1     (venjulega 2–3)
Lyflækningadeild
11A 
     2     
Handlækningadeild
11G
     1     (venjulega 3)
Handlækningadeild
12G 
     3
Handlækningadeild
13G 
     2
Lyflækningadeild
14E 
     3
Handlækningadeild
13D 
     2
Lyflækningadeild
14G 
     5
Samtals:
     21

    Sams konar könnun sama dag á Sjúkrahúsi Reykjavíkur leiddi í ljós 10 sjúklinga. Þannig eru samtals á báðum bráðasjúkrahúsunum hverju sinni 37 sjúklingar sem hafa lokið bráðameðferð og bíða eftir endurhæfingarplássi.
    Í gangi er samvinnuverkefni sjúkrahúsanna beggja um nýtingu Grensásdeildar, en það tekur enn fremur til Reykjalundar sem hefur 169 endurhæfingarpláss. Fyrirhugað er að kanna hvort gera megi þjónustusamning um nýtingu þeirra rúma. Enn fremur er í bígerð sams konar samningur við Heilsuhælið í Hveragerði. Þessar aðgerðir eiga að miða að því að bæta svo skipulag og starfsemi endurhæfingardeilda í Reykjavík og nágrenni að losa megi um þessi 37 rúm sem að framan getur.
    
Öldrunardeildir.
    Í ágústmánuði 1996 var gert samkomulag milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, fjármálaráðherra og borgarstjórans í Reykjavík um aukna samvinnu og verkaskiptingu sjúkrahúsanna í Reykjavík. Miklar breytingar voru gerðar á fyrirkomulagi öldrunarþjónustu. Gert er ráð fyrir matsdeildum á báðum bráðasjúkrahúsunum og öldrunardeildum á Landakoti. Á þennan hátt eru líkur á að ná fram verulegri hagræðingu og bættri þjónustu. Jafnframt var gerð breyting á reglugerð sem veitir spítalasjúklingum a.m.k. jafnan aðgang að hjúkrunarheimilum í hlutfalli við eignarhlut ríkisins.
    Ljóst er að enn er bið eftir fullri uppbyggingu og talið er að bæta þurfi um 15% við þau rými sem fyrir eru í Reykjavík fram til ársins 2010 samkvæmt mannfjöldaspám. Af 189 með mjög brýna þörf sem bíða eftir plássi á hjúkrunarrými munu um 70 nú vera á bráðasjúkrahúsunum. Þannig teppa bæði endurhæfingar- og öldrunarsjúklingar rými á bráðasjúkrahúsunum.
    
Biðlistar einstakra sjúkrahúsa.
St. Jósefsspítali í Hafnarfirði.
    Meðfylgjandi er tafla yfir innlagnir og aðgerðir svo og legutíma og heildarbiðlista frá árunum 1992–1996. Jafnframt fylgir biðlistaskipting milli sérgreina.

Tafla 16.

Innlagnir

Legutími

 


Ár

Aðgerðir

Innl.

Ferliverk

Innl.

Ferliverk

Biðlisti



1992          
1658
1009 693
1993          
1653
1145 595 408
1994          
1348
897 532 3 ,92 1 ,33 527
1995          
1389
669 720 4 ,99 1 ,30 621
1996          
1382
569 813 5 ,05 1 ,35 417
1997          
577


Tafla 17.

Biðlistar: Skipting milli sérgreina.



1993

1994

1995

1996

1997



Háls-, nef- og eyrnalækningar     
102
189 236 135 118
Þvagfæralækningar     
80
38 64 87 121
Bæklunarlækningar     
108
169 142 65 204
Lýtalækningar     
102
101 145 90  92
Kvensjúkdómar og annað     
38
30 34 40  42
Samtals     
408
627 621 417 577

    Á töflunum sést að hluti ferliverka fer vaxandi og biðlisti háls-, nef- og eyrnalækninga hefur heldur styst, þvagfæralækninga heldur lengst og bæklunarlækninga lengst verulega eins og og skýrt var í kaflanum um bæklunarlækningar vegna samninga Sjúkrahúss Reykjavíkur við St. Jósefsspítala. Með aukinni samvinnu við stóru sjúkrahúsin í Reykjavík og breytinga vegna reglugerða um ferliverk og almennra aðgerða er snertir bæklunarlækningar (sbr. áður) er vonast til að þessi biðlisti haldist í horfinu. Hvað snertir vinnufærni á það við sem áður var sagt um þvagfæraskurðlækningar og bæklunarskurðlækningar. Þess ber þó að geta að bæklunarskurðlækningar eru flestar af miðlungsþunga og sjúklingar því flestir vinnufærir.
    
Sjúkrahús Akraness.
    Á Sjúkrahúsi Akraness hefur verið mjög dæmigerð breyting á síðustu fimm árum. Sjúklingum hefur fjölgað, legudögum fækkað og meðallegutími á sjúkling sömuleiðis styst og aðgerðum fjölgað. Á biðlistum á Sjúkrahúsi Akraness eru nú á þriðja hundrað sjúklinga. Skurðdeild sjúkrahússins er ekki fullnýtt og með auknu fjármagni væri hægt að nýta betur bæði húsnæði og tækjabúnað skurðdeildar.

Tafla 18.

Aðgerðir, innlagnir og meðallegutími.



1991

1992

1993

1994

1995

1996 *



Sjúklingafjöldi     
2381
2521 2709 2701 2835 2785
Fjöldi legudaga     
27074
26569 25528 25273 25511 22031
Meðallegutími sjúklinga.     
11,7
10,9 9,7 9,6 9,3 8,0
Heildarfjöldi aðgerða     
2452
2658 2766 2700 3405 **

 *  Bráðabirgðatölur fyrir 1996, endanlegar tölur úr sjúklingabókhaldi eru ekki til staðar.
**  Upplýsingar um aðgerðafjölda 1996 liggja ekki fyrir strax.
1. apríl 1996 var sjúkrarúmum fækkað úr 93 í 75.

Biðlisti:
Bæklunarsjúkdómar     66
Þvagfæraskurðlækningar     16
Háls-, nef- og eyrnalækningar     56
Kvensjúkdómar     67

    Hvað varðar almennar skurðlækningar eru um 30 sjúklingar á biðlista eftir valaðgerðum og þurfa þeir að jafnaði að bíða í um þrjá mánuði. Lang oftast eru þessir sjúklingar vinnufærir.
    
Sjúkrahús Vestmannaeyja.
    Þar bíða 42 sjúklingar eftir aðgerð. Þær aðgerðir hafa þegar verið ákveðnar að mestu og er fullbókað út febrúar (18 skurðaðgerðir). Þar fyrir utan bíða um 20–30 eftir smærri aðgerðum eða ferliverkum. Hér er því um að ræða röðun en ekki biðlista í þröngri merkingu.
    
Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað.
Tafla 19.

Aðgerðir, innlagnir, legudagar o.fl.



1992

1993

1994

1995

1996



Aðgerðir     
332
320 274 322 344
Innlagnir     
745
728 731 736 797
Fæðingar     
30
40 41 51 56
Legudagar     
14353
14009 13155 12874 13564
Langlega á sjúkrad.     
1513
13 11 9
Þjónustudeild     
11
11 11 11 11
Röntgenrannsóknir     
1166
1069 1193 1184 1520
Rannsóknir     
12468
14019 12729 13310 16148

    Þær upplýsingar berast frá Neskaupstað að ekki séu margir sjúklingar á biðlista.
    Ekki bárust upplýsingar frá öðrum sjúkrahúsum.
         
Spurningar – svör.
    Í beiðni þingmanna á þskj. 105 eru spurningar sem veitt eru svör við hér á eftir.

    Hvernig hefur þróun biðlista eftir læknisaðgerðum innnan og utan sjúkrahúsa verið sl. fimm ár, skipt eftir sjúkdómum, lengd biðtíma, kyni, aldri og félagslegri stöðu?

    Þróun biðlista kemur fram hér að framan. Almennt má segja að þrátt fyrir auknar innlagnir og aukinn fjölda aðgerða, hefur fjöldi sjúklinga á biðlistum lítið breyst en biðtími styst. Erfitt er að meta biðlistann í geðsjúkdómum en að honum frátöldum eru biðlistar í bæklunarlækningum þeir sem mest ber á. Einnig þyrfti að bæta við aðgerðadögum fyrir háls-, nef- og eyrnaaðgerðir að minnsta kosti tímabundið. Í skýrslunni koma fram nokkrar upplýsingar um þær tegundir aðgerða, sem biðlistar hafa myndast vegna og tekist hefur að ná saman upplýsingum um aldur í nokkrum þeirra. Skipting eftir kyni er breytileg innan hverrar sérgreinar enda oft sjúkdómar mistíðir eftir kynjum.

    Hvaða áhrif hafa sumarlokanir sjúkrahúsa haft á biðlista?     
    Vísað er til greinargerðar Ríkisendurskoðunar frá í maí 1996, „Greinargerð um sumarlokanir sjúkrahúsa“. Þar segir á bls. 19, „af framangreindu má ráða að hefðbundnum biðlistaaðgerðum hafi fjölgað milli ára 1993 og 1995. Þá virðast biðlistar ekki hafa lengst á sama tímabili ef undan er skilinn biðlisti eftir hjartaþræðingum. Þannig virðast sumarlokanir sjúkrahúsanna hvorki hafa haft í för með sér fækkun aðgerða né lenginu biðlista á því þriggja ára tímabili er athugunin tók til.“ Í skýrslu þeirri sem hér er fram sett er þess þó getið að lokanir/frí geti haft einhver áhrif á lengd biðlista.

    Eru til skilgreind öryggismörk um hámarksbið eftir aðgerðum, skipt eftir sjúkdómum?

    Í framangreindri skýrslu kemur fram að mjög víða er miðað við 3–6 mánaða biðtíma, þó allt eftir alvöru vandamálsins og afkastagetu sjúkrahúsa í ákveðnum sérgreinum. Það má meta af þeim upplýsingum er fram komu í skýrslunni að biðtími eftir bæklunaraðgerðum sé of langur og er um það sérstaklega fjallað. Jafnframt er biðtími eftir háls-, nef- og eyrnaaðgerðum of langur eða allt að ári á Reykjavíkursvæðinu eftir algengum aðgerðum eins og hálskirtlatöku. Biðtími er styttri úti á landsbyggðinni.

    Hver má áætla að útgjöld ríkis og sveitarfélaga séu á ári af heimaþjónustu og heimahjúkrun, læknismeðferð, lyfjum og vistunarplássum fyrir þá sjúklinga sem bíða eftir aðgerð?
    Hver eru helstu áhrif biðar eftir aðgerð á atvinnuöryggi, afkomu og fjárhag sjúklinga og fjölskyldna þeirra?
    Hvert er áætlað vinnutap sökum langvarandi biðar eftir aðgerðum á sjúkrahúsum og hvað má ætla að margir missi vinnu árlega af þeim sem eru á biðlistum eftir aðgerðum?
    Hvaða sjúkdómar sem kalla á aðgerðir á sjúkrahúsum leiða helst til fjarvista frá vinnu? Hver má áætla meðalútgjöld og vinnutap þessara sjúklinga?
    Hvað má ætla að margir fari árlega yfir á sjúkradagpeninga vegna biðar eftir aðgerðum og hvað er vitað um félagslega stöðu þeirra?
    Hver hefur þátttaka sjúkrasjóða stéttarfélaganna verið í að bæta sjúklingum á biðlistum tekjutap þeirra?

    Eins og fram kemur í skýrslu eru þessar spurningar mjög umfangsmiklar og þess hefur ekki verið gætt við skráningu biðlista að halda slíkum upplýsingum til haga. Þó virðist vera að hér sé einungis um að ræða hluta af þeim sjúklingum, sem nú eru á biðlista eftir bæklunaraðgerðum. Mjög er misjafnt hvernig einstakir sjúklingar njóta bóta frá stéttarfélögum samanber meðfylgjandi yfirlit. 1 Hér gæti því verið um að ræða 150 manns en tilraunir til að áætla kostnað eða hvernig hann skiptist eru einungis ágiskanir. Þessi athugun hefur undirstrikað nauðsyn þess að breyta skráningaraðferðum hvað varðar biðlista. Til þess að svara spurningum svo sem hér eru fram settar þyrfti að gera könnun, þar sem sjúklingum væri fylgt eftir frá því þeir fara á biðlistann og þar til aðgerð er gerð. Slík rannsókn er hins vegar mjög umfangsmikil tekur að minnsta kosti 12 til 18 mánuði til þess að verða markverð og hefði í för með sér töluverðan kostnað. Óvíst er hvort slíkt svaraði kostnaði, þar er það virðist blasa við hvar vandamálið er og hvaða skref þarf að taka og er verið að taka, til þess að leysa það. Bættri skráningu biðlista er þó sjálfsagt að stefna að.

1   Lágmarkslaunaréttur vegna sjúkdóms og slysaforfalla launafólks er ákveðinn í lögum og ræðst af lengd starfstíma hjá sama atvinnurekanda. Rétturinn er einn mánuður eftir eitt ár, tveir mánuðir eftir þrjú ár og þrír mánuðir eftir fimm ár. Fyrsta mánuðinn eru greidd full laun en síðan daglaun. Betri veikindaréttur er í sumum kjarasamningum t.d. Sóknarsamningum og kjarasamningum verslunarmanna. Kjarasamningar VR kveða t.d. á um greiðslu sex mánuða launa eftir 10 ára starf. Þegar launaréttur er fallinn niður taka við sjúkrasjóðir verkalýðsfélaganna. Réttindi í þeim eru mjög breytileg. Sá sem hefur verið fullgildur aðili að VR í sex mánuði með 70 þús. kr. laun á mánuði eða minna á rétt á 56 þúsund krónum á mánuði í allt að níu mánuði og þeir sem hafa yfir 70 þús. kr. laun á mánuði fá auk þess 60% af því sem umfram er í bætur. Flestir sjúkrasjóðir gefa samt minni rétt.
    Samkvæmt reglugerð er veikindaréttur opinberra starfsmanna eftir 12 mánuða starf full laun í 90 daga og síðan helmingur af því í 180 daga á hverjum 12 mánuðum. Eftir 10 ára starf hækka mörkin í 120 og 240 daga og eftir 15 ára starf hækka mörkin í 180 og 360 daga. Eftir 20 ára starf er 360 daga veikindaréttur á 12 mánuðum. Fólk með minni en sex mánuða starfstíma á rétt á fullum launum í 30 daga og síðan helmingi þess næstu 30 daga. Lausráðið fólk með stuttan starfstíma á minni rétt.
    Fólk með stuttan starfstíma, lausráðið fólk, fólk utan verkalýðsfélaga, ýmsir „verktakar“, námsmenn og fleiri hafa mjög lítinn rétt til greiðslu launa í veikindum.
    Þeir sjúklingar sem misst hafa laun vegna veikinda eiga rétt á sjúkradagpeningum frá Tryggingastofnun ríkisins sem eru 17.460 kr. á mánuði. Sjúklingar í meðferð eiga rátt á endurhæfingarlífeyrir og sjúklingar sem metnir hafa verið til fullrar örorku eiga rétt á örorkulífeyri. Báðir þessir bótaflokkar geta orðið 53.840 krónur fyrir tekjulausan einstakling sem býr einn að teknu tilliti til tekjutryggingar, heimilisuppbótar og sérstakrar heimilisuppbótar.
         Þannig er ljóst að hópur fólks getur orðið af launum í veikindatilvikum og þar með ef það er óvinnufært á biðlistum. Ekki eru til haldbærar upplýsingar um fjölda þeirra sem missa laun, þyggja sjúkradagpeninga, endurhæfingarlífeyri eða örorkulífeyri á biðlistum enda tengist launamissirinn oft lengri sjúkdómssögu og röskun á högum áður en sjúklingur var settur á biðlista.


Fylgiskjal.





(Repró – fimm töflur)