Ferill 403. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 403 . mál.


700. Tillaga til þingsályktunar



um mótun áætlunar um afnám ofbeldis gagnvart konum.

Flm.: Kristín Halldórsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd til að móta áætlun um afnám ofbeldis gagnvart konum í samræmi við yfirlýsingu sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. desember 1993. Nefndin verði skipuð fulltrúum dómsmálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, menntamálaráðuneytis, Jafnréttisráðs, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Neyðarmóttöku vegna nauðgana, Kvennaathvarfsins í Reykjavík og Stígamóta, svo og fulltrúa forsætisráðuneytis sem verði formaður. Nefndin móti áætlun til fimm ára og hafi eftirlit með framkvæmd hennar. Skýrsla um störf nefndarinnar verði lögð fyrir Alþingi eftir því sem verkinu miðar.

Greinargerð.


    Barátta kvenna um allan heim fyrir kvenfrelsi og góðum lífsskilyrðum kvenna og barna er hluti af þeirri mannréttindabaráttu sem staðið hefur um aldir. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er það nú viðurkennt að líta beri á stöðu kvenna út frá mannréttindum, en það leggur þjóðum þá skyldu á herðar að skoða stöðu kvenna sérstaklega og tryggja konum sömu réttindi og möguleika og körlum.
    Sameinuðu þjóðirnar hafa á undanförnum árum staðið fyrir mörgum mikilvægum ráðstefnum um málefni sem skipta mannkynið miklu. Mannréttindi kvenna hafa þar skipað sífellt stærri sess, og snerist t.d. mannréttindaráðstefnan í Vín 1993 að miklu leyti um mannréttindi kvenna. Þá er í fersku minni kvennaráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Kína í september árið 1995, en þar náðust mikilsverðir áfangar í baráttunni fyrir mannréttindum kvenna sem varða munu veginn til framtíðar.
    Í kjölfar mannréttindaráðstefnunnar í Vín 1993 var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna yfirlýsing um afnám ofbeldis gagnvart konum. Yfirlýsingin, sem fylgir hér með sem fylgiskjal, var samþykkt 20. desember 1993 og greiddu Íslendingar henni atkvæði. Í henni er lögð áhersla á þátt stjórnvalda í að draga úr því ofbeldi sem konur eru beittar, og bent á mikilvægi þess að stjórnvöld styðji við bakið á þeim sem vinna að úrbótum í því efni. Ofbeldi gegn konum er vandamál samfélagsins alls, en ekki eingöngu þeirra sem fyrir því verða. Með undirskrift sinni hafa íslensk stjórnvöld tekið undir þau sjónarmið. Nú þarf að brúa bilið milli orða og athafna.
    Vissulega má benda á atriði í meðfylgjandi yfirlýsingu sem ekki ætti að þurfa að taka sérstaklega á hér á landi, en önnur þarfnast svo sannarlega rækilegrar umfjöllunar og úrbóta við. Eins og fram kemur í yfirlýsingunni er mikilvægt að afla upplýsinga og gagna og móta áætlun um úrbætur með hliðsjón af þeim. Nýútkomin skýrsla dómsmálaráðherra um orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis og annars ofbeldis gegn konum og börnum, sem birt er á þskj. 612 á þessu þingi, hlýtur að verða mikilvægur stuðningur við þá áætlanagerð.
    Við mótun áætlunar um afnám ofbeldis gagnvart konum þarf m.a. að hafa eftirfarandi atriði í huga:
—    að fræðsla um ofbeldi og áhrif þess verði aukin verulega í skólum og meðal almennings, hvort sem um er að ræða kynferðislegt ofbeldi eða ofbeldi af öðrum toga,
—    að heimilisofbeldi verði skilgreint og meðhöndlað eins og annað ofbeldi,
—    að fræðsla fyrir lögreglumenn, lögfræðinga og dómara um kynferðisofbeldi og ofbeldi á heimilum verði stóraukin,
—    að markvisst verði unnið að því að fjölga konum í þeim starfsstéttum sem vinna við meðferð ofbeldismála, bæði hjá lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum,
—    að kæruskylda hvíli á lögreglu og ákæruvaldi vegna ofbeldisbrota, en ábyrgðin hvíli ekki á þolanda brotsins,
—    að brotaþola sé skipaður málsvari allt frá upphafi rannsóknar til málsloka,
—    að lögreglu verði gert kleift að beita nálgunarbanni jafnhliða áminningu ef einhver raskar friði annarrar manneskju eða vekur henni ótta með ógnunum eða ofsóknum,
—    að tryggt verði fjármagn til reksturs miðstöðva fyrir konur og börn sem beitt hafa verið kynferðislegu ofbeldi,
—    að komið verði á meðferðarúrræðum fyrir karla sem beita konur ofbeldi.
    Þar sem rannsóknir og umræða um ofbeldi gagnvart konum er komin lengst er það flokkað sem kvennamál óháð stéttum, litarhætti og þjóðfélagsgerð. Það er flokkað sem glæpsamlegt athæfi og heilbrigðismál, enda reynir á heilbrigðiskerfið, dómskerfið og félagsmálayfirvöld við meðferð slíkra mála. Mikið skortir á skilning og aðstæður til viðbragða innan íslensks stjórnkerfis, og úr því verður að bæta. Ofbeldi inni á heimilum er þjóðfélagsvandi og dulið vandamál sem fólk forðast að viðurkenna, en rannsóknir sýna að heimilisofbeldi er mun algengara en almennt hefur verið talið og á sér stað óháð félagslegri stöðu fólks. Í ofbeldi gegn konum birtist kvennakúgun í sinni grófustu mynd, og það er krafa kvenna að gripið verði til aðgerða til að afmá þann smánarblett af íslensku samfélagi.



Fylgiskjal.

85. ALLSHERJARÞING SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA



Yfirlýsing um afnám ofbeldis gagnvart konum.


(20. desember 1993.)



Allsherjarþingið
     viðurkennir að brýn þörf er á að konur alls staðar í heiminum njóti réttinda og grundvallarhugmynda er byggja á jafnrétti, öryggi, frelsi, heilindum og virðingu fyrir öllum mönnum,
     gerir sér ljóst að slík réttindi og grundvallarhugmyndir eru hluti af alþjóðasamningum, meðal annars alþjóðayfirlýsingu um mannréttindi, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, samningi um afnám allrar mismununar gagnvart konum og samningi gegn pyntingum og annarri grimmilegri og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð og refsingu,
     viðurkennir að árangursrík framkvæmd samnings um afnám allrar mismununar gagnvart konum stuðlar að afnámi ofbeldis gagnvart konum og að yfirlýsing um afnám ofbeldis gagnvart konum, sem sett er fram í þessari ályktun, styrkir og stuðlar að því markmiði,
     hefur áhyggjur af því að ofbeldi gagnvart konum komi í veg fyrir að jafnrétti, þróun og friður, sem fjallað er um í Nairobi-áætlun um framsókn kvenna, þar sem mælt var með ráðstöfunum til að vinna gegn ofbeldi gagnvart konum, og að samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum nái fram að ganga,
     staðfestir að ofbeldi gagnvart konum er brot á réttindum og grundvallarfrelsi kvenna og skerðir eða kemur í veg fyrir að þær njóti þessara réttinda og frelsis og hefur áhyggjur af því hve illa gengur að vernda og stuðla að þessum réttindum og frelsi að því er varðar ofbeldi gagnvart konum,
     viðurkennir að ofbeldi gagnvart konum er staðfesting á aldagömlu valdamisvægi kynjanna er leiddi til drottnunar karlmanna og mismununar gagnvart konum og hindraði öfluga framsókn kvenna og að ofbeldi gagnvart konum er einn af þeim grundvallarþáttum í samfélaginu er leiðir til þess að konur eru settar skör lægra en karlmenn, hefur áhyggjur af því að sumir hópar kvenna, til dæmis konur í minnihlutahópum, innfæddar konur, flóttakonur, farandkonur, konur er búa í sveitum eða einangruðum samfélögum, blásnauðar konur, konur á stofnunum eða í fangelsum, stúlkur, fatlaðar konur, eldri konur og konur á stríðstímum, eru einkum beittir ofbeldi,
     hefur í huga niðurstöðu 23. mgr. í viðauka við ályktun efnahags- og félagsmálaráðsins 1990/15 frá 24. maí 1990 þar sem segir að ofbeldi gagnvart konum innan fjölskyldunnar og í samfélaginu sé ríkjandi og óháð efnahag, stétt og menningu og að brýnt sé að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir það,
     hefur einnig í huga ályktun efnahags- og félagsmálaráðsins 1990/15 frá 30. maí 1991 þar sem ráðið mælir með frekari þróun alþjóðlegs gernings sem fjallar sérstaklega um ofbeldi gagnvart konum,
     fagnar því að kvennahreyfingar vekja í auknum mæli athygli á eðli, alvarleika og umfangi ofbeldis gagnvart konum,
     óttast mjög að tækifæri kvenna til að öðlast lagalegt, félagslegt, stjórnmálalegt og efnahagslegt jafnræði í þjóðfélaginu séu takmörkuð, meðal annars vegna þess hve algengt ofbeldi er,
     er sannfært um í ljósi þess sem fyrr greinir að þörf er á víðtækri skilgreiningu á ofbeldi gagnvart konum, skýrri yfirlýsingu um þau réttindi sem eiga að tryggja afnám alls ofbeldis gagnvart konum, skuldbindingum ríkja um eigin ábyrgð og skuldbindingum hins alþjóðlega samfélags í heild um afnám ofbeldis gagnvart konum,
     kunngerir eftirfarandi yfirlýsingu um afnám ofbeldis gagnvart konum og hvetur til að allra bragða verði neytt til að hún öðlist viðurkenningu og verði virt:

1. gr.

    Að því er þessa yfirlýsingu varðar merkir hugtakið „ofbeldi gagnvart konum“ ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga kvenna, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

2. gr.

    Ofbeldi gagnvart konum felur í sér, en er þó ekki takmarkað við, eftirfarandi:
    líkamlegt, kynferðislegt og sálrænt ofbeldi innan fjölskyldunnar, meðal annars barsmíðar, kynferðislegt ofbeldi gagnvart stúlkum á heimili, ofbeldi tengt heimanmundi, nauðgun í hjónabandi, skaði á kynfærum stúlkna og aðrar hefðir sem eru skaðlegar konum, ofbeldi annars en maka og misnotkun í gróðaskyni;
    líkamlegt, kynferðislegt og sálrænt ofbeldi í þjóðfélaginu almennt, meðal annars nauðganir, kynferðislegt ofbeldi, kynferðisleg áreitni og hótanir á vinnustað, í menntastofnunum og annars staðar, þrælasala kvenna og þvingun til vændis;
    líkamlegt, kynferðislegt og sálrænt ofbeldi stjórnvalda eða framið með samþykki stjórnvalda hvar sem slíkt á sér stað.

3. gr.

    Konur eiga rétt á því að njóta allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við aðra á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála, menningarmála, í einkalífi eða á hverju öðru sviði. Þessi réttindi fela meðal annars í sér:
    rétt til að lifa;
    rétt til að njóta jafnréttis;
    rétt til frelsis og persónulegs öryggis;
    rétt til að njóta réttaröryggis á við aðra;
    rétt til að vera laus við hvers konar mismunun;
    rétt til bestu líkamlegrar og andlegrar heilsu sem völ er á;
    rétt til réttlátra og hagkvæmra vinnuskilyrða;
    rétt til að þurfa ekki að þola pyntingar og aðra grimmilega og ómannlega eða vanvirðandi meðferð og refsingu.

4. gr.

    Ríki ættu að fordæma ofbeldi gagnvart konum og ekki beita fyrir sig venjum, siðum eða trúarlegum ástæðum til að komast hjá skuldbindingum sínum að því er varðar afnám þess. Ríki ættu hið fyrsta að leita allra leiða til að afnema ofbeldi gagnvart konum og í því skyni að:
    íhuga, hafi þau ekki þegar gert það, að fullgilda eða gerast aðilar að samningi um afnám allrar mismununar gagnvart konum eða láta af fyrirvörum sínum við samninginn;
    láta af ofbeldi gagnvart konum;
    gera sitt ítrasta til að koma í veg fyrir, rannsaka og, í samræmi við innlenda löggjöf, refsa fyrir ofbeldi gagnvart konum hvort sem ríkið eða einstaklingar eiga sök þar á;
    bæta innlenda refsilöggjöf, löggjöf um rétt borgaranna, vinnulöggjöf og stjórnsýsluaðgerðir til að refsa og bæta fyrir óréttlæti gagnvart konum sem þolað hafa ofbeldi; konur sem verða fyrir ofbeldi ættu að hafa aðgang að réttarkerfinu og, eins og kveðið er á um í innlendri löggjöf, að réttlátum og árangursríkum úrræðum vegna þess skaða sem þær hafa orðið fyrir; ríkin skulu einnig upplýsa konur um rétt þeirra til að sækja um bætur í gegnum réttarkerfið;
    íhuga þann möguleika að móta innlendar aðgerðaráætlanir til að stuðla að verndun kvenna gegn hvers konar ofbeldi, eða setja ákvæði í þessu skyni í áætlanir sem eru fyrir hendi þar sem tillit er tekið til, eftir því sem við á, samvinnu einkarekinna samtaka, einkum þeirra samtaka er láta sig sérstaklega varða ofbeldi gagnvart konum;
    móta víðtækar fyrirbyggjandi aðgerðir og lagalegar, stjórnmálalegar, stjórnsýslulegar og menningarlegar ráðstafanir til að stuðla að verndun kvenna gagnvart hvers konar ofbeldi og tryggja að konur verði ekki endurtekið fyrir ofbeldi vegna laga er taka ekki tillit til kynferðis fórnarlambs, fullnustureglna eða annarrar íhlutunar;
    leitast við að tryggja, að því marki sem æskilegast telst í ljósi þess fjármagns sem er fyrir hendi og, þar sem þörf er á, innan ramma alþjóðlegrar samvinnu, að konur sem orðið hafa fyrir ofbeldi og, eftir því sem við á, börn þeirra, fái sérhæfða aðstoð við umönnun barna og framfærslueyri, meðferð, ráðgjöf og heilbrigðis- og félagslega þjónustu, aðstöðu og meðferð, auk stuðnings og ættu að gera allar aðrar viðeigandi ráðstafanir til að stuðla að öryggi þeirra og líkamlegri og andlegri endurhæfingu;
    setja í fjárlög ríkisins nægilegt fjármagn til þess hluta starfsemi sinnar er lýtur að afnámi ofbeldis gagnvart konum;
    gera ráðstafanir til að tryggja að lögregla og opinberir starfsmenn sem bera ábyrgð á framkvæmd stefnanna og eiga að koma í veg fyrir, rannsaka og refsa fyrir ofbeldi gagnvart konum fái þjálfun til að auka skilning þeirra á þörfum kvenna;
    gera allar viðeigandi ráðstafanir, einkum á sviði menntunar, til að breyta félagslegu og þjóðfélagslegu hegðunarmynstri karla og kvenna og kveða niður fordóma, viðteknar venjur og allar aðrar venjur er grundvallast á hugmyndinni um að annað kynið sé óæðra eða æðra og um fastmótuð hlutverk karla og kvenna;
    stuðla að rannsóknum, safna upplýsingum og taka saman gögn um ofbeldi á heimilum, um tíðni hinna ýmsu tegunda ofbeldis gagnvart konum og hvetja til rannsókna á orsökum, eðli, umfangi og afleiðingum ofbeldis gagnvart konum og um áhrif ráðstafana sem gerðar eru til að koma í veg fyrir og bæta fyrir ofbeldi gagnvart konum; þessi gögn og niðurstöður rannsókna verða birt opinberlega;
    gera ráðstafanir er miða að afnámi ofbeldis gagnvart konum sem eru sérlega berskjaldaðar gagnvart ofbeldi;
    hafa í skýrslum sem þau leggja fram samkvæmt viðeigandi mannréttindasamningum Sameinuðu þjóðanna upplýsingar um ofbeldi gagnvart konum og ráðstafanir sem gerðar hafa verið til framkvæmdar þessari yfirlýsingu;
    hvetja til þess að viðeigandi viðmiðunarreglur verði settar til að stuðla að framkvæmd þeirra grundvallarhugmynda sem fram koma í þessari yfirlýsingu;
    viðurkenna mikilvægi kvennahreyfinga og einkarekinna samtaka hvar sem er í heiminum við að vekja athygli á og draga úr ofbeldi gagnvart konum;
    auðvelda og efla starf kvennahreyfinga og einkarekinna samtaka og vinna með þeim á minni og stærri svæðum og í löndunum;
    hvetja til að samtök sveitarfélaga fjalli einnig um afnám ofbeldis gagnvart konum í áætlunum sínum eftir því sem við á.

5. gr.

    Stofnanir og sérskrifstofur Sameinuðu þjóðanna ættu hver á sínu sviði að leggja sitt af mörkum til að réttindi og grundvallarhugmyndir þessarar yfirlýsingar verði viðurkenndar og komið til framkvæmdar og ættu í því skyni meðal annars að:
    stuðla að alþjóðlegri samvinnu og samvinnu milli svæða með það í huga að skilgreina svæðaáætlanir í baráttunni gegn ofbeldi, miðla reynslu og fjármagna áætlanir er miða að því að afnema ofbeldi gagnvart konum;
    stuðla að því að haldnir verði fundir og ráðstefnur með það í huga að vekja alla til umhugsunar um afnám ofbeldis gagnvart konum;
    ýta undir samræmingu og samskipti mannréttindastofnana innan Sameinuðu þjóðanna svo að unnt sé að taka málefni tengd ofbeldi gagnvart konum föstum tökum;
    taka með í greiningu samtaka og stofnana Sameinuðu þjóðanna á þjóðfélagsástandi og -vanda, má þar nefna reglulegar skýrslur um þjóðfélagsástandið í heiminum, könnun á því hvað helst einkennir ofbeldi gagnvart konum;
    hvetja samtök og stofnanir Sameinuðu þjóðanna til að taka upp í yfirstandandi áætlanir umfjöllun um ofbeldi gagnvart konum, einkum með hliðsjón af hópum kvenna sem eru sérstaklega berskjaldaðar gagnvart ofbeldi;
    stuðla að því að settar verði viðmiðunarreglur eða leiðbeiningar varðandi ofbeldi gagnvart konum, þar sem tillit er tekið til ráðstafana sem um getur í þessari yfirlýsingu;
    hafa í huga afnám ofbeldis gagnvart konum, eftir því sem við á, við framkvæmd mannréttindasamninga sem þær eru aðilar að;
    hafa samvinnu við einkarekin samtök um að takast á við ofbeldi gagnvart konum.

6. gr.

    Ekkert í þessari yfirlýsingu hefur áhrif á ákvæði sem kunna að vera í löggjöf ríkis eða alþjóðasamningi, sáttmála eða öðrum gerningi sem gildir í ríki og stuðla enn frekar að afnámi ofbeldis gagnvart konum.