Ferill 322. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 322 . mál.


724. Svar


frá viðskiptaráðherra við fyrispurn Guðmundar Hallvarðssonar og Péturs H. Blöndals
um innstæður í bönkum og sparisjóðum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða innstæður (fjárupphæðir) eru inni á reikningum banka og sparisjóða, öðrum en tékkareikningum, sem bera lægri vexti en sem nemur meðalverðbólgu síðasta árs og hver var raunávöxtun þessara reikninga?
    Svar óskast sundurliðað eftir reikningstegundum.


    Að undanskildum tékkareikningum voru það einungis almennar sparisjóðsbækur sem báru neikvæða raunvexti hjá innlánsstofnunum á síðasta ári.
    Á almennum sparisjóðsbókum voru samtals 14.770 millj. kr. í árslok 1996, eða 8,4% af innlánum. Innlán í bankakerfinu skiptust þannig í árslok 1996 í millj. kr.:

Tékkareikningar     
37.033

Almennar sparisjóðsbækur     
14.770

Annað óbundið sparifé     
44.987

Orlofsreikningar     
2.176

Önnur verðtryggð innlán     
51.983

Annað bundið sparifé     
13.048

Gjaldeyrisreikningar     
12.066

Gengisbundnir krónureikningar     
77

Innlán alls     
176.140


    Vaxtakjör og form almennra sparisjóðsbóka eru svipuð hjá innlánsstofnunum. Almennar sparisjóðsbækur báru að meðaltali 0,8% nafnvexti á síðasta ári. Meðalverðbólga á síðasta ári var 2,1%. Raunvextir á almennum sparisjóðsbókum voru því neikvæðir um 1,3% á síðasta ári. Í vissum tilfellum bera sparisjóðsbækur hærri vexti en auglýst kjör segja til um. Ekki liggja fyrir upplýsingar um umfang slíkra viðskipta.
    Í lok síðasta árs skiptust innlán á almennar sparisjóðsbækur og heildarinnlán þannig á innlánsstofnanir í millj. kr.:

Sparisjóðsbækur

Heildarinnlán



Landsbanki     
5.669
61.249
Íslandsbanki     
2.425
39.183
Búnaðarbanki     
2.945
36.752
Sparisjóðir     
1.437
36.179
Innlánsdeildir kaupfélaga     
2.294
2.294
Póstgíróstofa     
0
484

    Þess ber að geta að margir viðskiptavina innlánsstofnana kjósa að nota almenna sparisjóðsbók sem veltureikning frekar en tékkareikning. Því er mikil hreyfing á fjölmörgum þessara reikninga og ekki mikill munur á tékkareiknings- og sparisjóðsbókarforminu að þessu leyti. Reynsla einstakra innlánsstofnana sýnir að allt upp í 85% af innstæðum almennra sparisjóðsbóka er veltufé. Þetta reikningsform er gamalt og hefur verið að víkja fyrir reikningum með betri ávöxtun sem jafnframt eru ódýrari í rekstri fyrir bankastofnanir.
    Mun meira fé liggur inni á öðrum óbundnum og óverðtryggðum sparireikingum. Nær öll ný óverðtryggð innlán fara inn á þessa reikninga. Þessir reikningar eru margs konar en uppbygging þeirra þó oft á þann veg að vextir hækka ef innstæða hefur staðið óhreyfð í ákveðinn tíma. Nafnvextir allra þessara reikninga eru hærri en verðbólga en þeirra er getið hér því að í vissum tilfellum reiknast almennir sparisjóðsvextir á úttekna fjárhæð ef tekið er út skömmu eftir innlegg.
    Meðfylgjandi upplýsingar um kjör og form einstakra óbundinna sparireikninga frá 1. febrúar 1997 eru fengnar frá Seðlabankanum. Um alla reikningana gildir að úttektargjald er ekki tekið af vöxtum sem færðir hafa verið á höfuðstól undangengin tvö vaxtatímabil. Vextir eru færðir á höfuðstól 30. júní og 31. desember hjá Landsbanka og Íslandsbanka (Sparileið 2(3)) en 31. desember hjá Búnaðarbanka, sparisjóðum og Íslandsbanka (Uppleið).

Landsbanki Íslands:
Kjörbók, nafnvextir 3,8%. Þegar innstæða hefur staðið óhreyfð í 24 mánuði bætast við fyrri ávöxtun 0,6%, sem gilda frá innleggsdegi. Ef tekið er út innan 60 daga frá því að lagt var inn, reiknast almennir sparibókarvextir á úttekna fjárhæð í stað Kjörbókarvaxta.

Íslandsbanki:
Uppleið
, nafnvextir 2,75%. Óhreyfð innstæða fær stighækkandi óafturvirka vaxtahækkun á 6 mánaða fresti, fyrst 2,25% og síðan 0,5% hækkun þar til 36 mánuðum er náð. Samtals nemur hækkun vaxtanna 4,75%. Innstæðan er ávallt laus án úttektargjalds.
Sparileið 2 (3), nafnvextir 3,15%. Úttektargjald er 0,2% af úttekinni fjárhæð en fellur niður þegar innstæða hefur staðið óhreyfð í 12 mánuði.

Búnaðarbanki Íslands:
Gullbók, nafnvextir 3,5%. Við vexti óhreyfðrar innstæðu á árinu leggst 0,5% vaxtaábót. Innstæðan er ávallt laus. Ef úttektir í mánuði eru fleiri en ein reiknast 0,1% úttektargjald. Metbók, nafnvextir 4,75%. Við vexti óhreyfðrar innstæðu á árinu leggst 0,5% vaxtaábót. Úttektargjald er 0,2% af úttekinni fjárhæð en fellur niður þegar liðnir eru þrír mánuðir frá því að lagt var inn.

Sparisjóðirnir:
Trompbók, laus, nafnvextir 3,9%. Úttekin fjárhæð fær sparibókarvexti í úttektarmánuði.