Ferill 426. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 426 . mál.


730. Fyrirspurn



til viðskiptaráðherra um áhrif breytinga á ríkisviðskiptabönkunum.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur og Guðmundi Árna Stefánssyni.



    Hefur farið fram úttekt vegna áforma um hlutafélaga- og einkavæðingu bankakerfisins þar sem kemur fram mat á áhrifum þeirra breytinga á fjármagnsmarkaðinn og ríkisbúskapinn, svo sem á markaðsvexti, erlend lánskjör, fákeppni og/eða einokunartilhneigingar í bankakerfinu, afnám ríkisábyrgðar, stöðu tryggingarsjóðs til að mæta skakkaföllum og öryggi innstæðna? Ef svo er, hverjar eru helstu niðurstöður þeirrar úttektar?
    Hafi framangreind eða sambærileg úttekt á helstu áhrifum breytinganna ekki farið fram, er þá ráðherra reiðubúinn að láta slíka úttekt fara fram áður en frumvarp til laga um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands verður afgreitt frá Alþingi þar sem áhrif breytinganna á eftirfarandi þætti yrðu metin:
         
    
    markaðsvexti,
         
    
    erlend lánskjör þjóðarinnar,
         
    
    markaðshlutdeild innlendra banka,
         
    
    lánastefnu viðskiptabankanna og byggða- og atvinnulegar afleiðingar hennar bæði til skamms og langs tíma,
         
    
    fákeppni og/eða einokunartilhneigingu í bankakerfinu,
         
    
    streymi sparifjár úr landi,
         
    
    líkur á trúnaðarhruni í bankakerfinu og efnhagslegum afleiðingum þess,
         
    
    líkur á fækkun banka eða yfirtöku þeirra af erlendum aðilum,
         
    
    líkur á hagkvæmari rekstri bankanna,
         
    
    samkeppnisstöðu bankanna,
         
    
    þjónustu við innlenda viðskiptavini,
         
    
    starfsöryggi og atvinnustig í bankakerfinu,
         
    
    öryggi innstæðna,
         
    
    skattgreiðslur og ríkisbúskap?
    Tekur ráðherra undir sjónarmið ráðgjafarfyrirtækisins Spicer & Oppenheim sem veitti Seðlabankanum það álit árið 1991, um áhrif breytinga ríkisviðskiptabankanna í hlutafélagabanka, að afnám ríkisábyrgðar mundi bæði auka lántökukostnað og draga úr aðgangi ríkisviðskiptabanka að erlendu lánsfé, jafnvel þótt ríkið héldi meirihlutaeign sinni í bönkunum?
    Tekur ráðherra undir það álit bankastjórnar Seðlabankans frá 1991 að vafasamt sé að afnám ríkisábyrgðar á viðskiptabönkunum mundi firra ríkið ábyrgð á skuldbindingum þeirra ef í harðbakka slægi? Hvernig hefur reynslan verið annars staðar á Norðurlöndum?
    Ef farið verður í útboð á nýju hlutafé í væntanlegum hlutafélagabönkum, hvernig verður framkvæmdinni háttað, t.d. varðandi dreifða eignaraðild og þak á henni, og hver má áætla áhrif hennar á vexti, fjármagnsmarkað og afkomu ríkissjóðs? Er erlend eignaraðild að bönkunum æskileg eða möguleg að áliti ráðherra?
    Hvað má áætla að markaðurinn gæti tekið við miklu af nýju hlutafé, í ljósi álits ráðgjafarfyrirtækisins Spicer & Oppenheim fyrir Seðlabankann árið 1991 um að möguleikar markaðarins til að taka við nýju hlutafé væri þá á bilinu 500–1.000 millj. kr.?
    Hvernig er staða Tryggingarsjóðs bankanna til að mæta skakkaföllum í bankakerfinu og hverjar eru nú beinar og óbeinar skuldbindingar ríkisviðskiptabankanna?


Skriflegt svar óskast.