Ferill 186. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 186 . mál.


793. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar um lífeyrisskuldbindingar vegna starfsmanna stjórnmálaflokkanna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða lífeyrisskuldbindingar hvíla á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins vegna starfsmanna stjórnmálaflokkanna, hvers um sig og samtals? Hve margir starfsmenn eiga í hlut hjá hverjum flokki, hver er meðaltalsfjárhæð skuldbindingarinnar og meðalstarfstíminn? Hve mikið af lífeyrisskuldbindingum verður innheimt hjá stjórnmálaflokkunum?

    Eftirfarandi svar er byggt á upplýsingum sem Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins tók saman að ósk ráðuneytisins.
    Í árslok 1995 voru áfallnar skuldbindingar vegna starfsmanna stjórnmálaflokka 145 millj. kr. samkvæmt mati tryggingafræðings sjóðsins. Við þennan útreikning var miðað við 2% ávöxtun umfram launahækkanir. Vinnu við tryggingafræðilega úttekt á stöðu sjóðsins í árslok 1996 er ekki lokið og því eru hér tilgreindar skuldbindingar miðað við árslok 1995. Skuldbindingar þessar eru vegna níu einstaklinga sem nú fá greiddan lífeyri frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) og 52 sjóðfélaga sem ekki eru byrjaðir að taka lífeyri.
    Ofangreind fjárhæð er skuldbinding vegna fimm stjórnmálaflokka, þ.e. Alþýðubandalagsins, Alþýðuflokksins-Jafnaðarmannaflokks Íslands, Bandalags jafnaðarmanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Lífeyrissjóðurinn hefur hins vegar ekki sundurliðun á skuldbindingum einstakra stjórnmálaflokka eða einstakra sjóðfélaga.
    Þegar lífeyrisskuldbindingar eru reiknaðar eru annars vegar reiknaðar áfallnar skuldbindingar vegna þeirra sem byrjaðir eru að taka lífeyri og hins vegar áfallnar skuldbindingar vegna þeirra sem ekki hafa byrjað töku lífeyris. Hér á eftir verður gerð grein fyrir réttindum núverandi og fyrrverandi starfsmanna stjórnmálaflokka samkvæmt þeirri sundurliðun.

Upplýsingar um lífeyrisþega.
    Alls fá nú átta fyrrverandi starfsmenn stjórnmálaflokka greiddan lífeyri frá LSR og að auki er greiddur makalífeyrir frá sjóðnum eftir einn fyrrverandi starfsmann hjá stjórnmálaflokki. Meðaltalslífeyrisprósenta þessara níu lífeyrisþega er 45,38%, en fyrir hvert ár í fullu starfi ávinna sjóðfélagar sér 2% lífeyrisrétt.
    Þrír fyrrverandi starfsmenn Sjálfstæðisflokksins fá nú lífeyrisgreiðslur frá LSR. Meðaltalslífeyrisprósenta þeirra er 48,33%. Fjórir fyrrverandi starfsmenn Framsóknarflokksins fá lífeyrisgreiðslur frá sjóðnum og er meðaltalslífeyrisprósenta þeirra 53,57%. Loks fær einn fyrrverandi starfsmaður Alþýðubandalagsins auk maka eins fyrrverandi starfsmanns flokksins lífeyrisgreiðslur frá LSR. Meðaltalslífeyrisprósenta þessara tveggja einstaklinga er 24,58%.

Upplýsingar um sjóðfélaga sem ekki eru byrjaðir að taka lífeyri.
    Alls hafa 52 núlifandi einstaklingar áunnið sér réttindi hjá LSR vegna starfa hjá stjórnmálaflokkum án þess að vera byrjaðir að taka lífeyri frá sjóðnum. Sjóðfélagar þessir eru ýmist í starfi í dag hjá flokkunum eða eiga geymd réttindi hjá sjóðnum vegna þessara starfa. Þessir sjóðfélagar hafa að meðaltali áunnið sér 14,48% lífeyrisrétt hjá LSR og meðalstarfstími á bak við þessi réttindi er 7,33 ár.
    Átta núverandi og fyrrverandi starfsmenn Alþýðubandalagsins, sem ekki eru byrjaðir að taka lífeyri, eiga réttindi hjá LSR. Meðalstarfstími á bak við réttindi vegna starfa hjá flokknum er 6,15 ár og meðaltalslífeyrisprósenta 11,74%.
    Sjö núverandi og fyrrverandi starfsmenn Alþýðuflokksins-Jafnaðarmannaflokks Íslands, sem ekki eru byrjaðir að taka lífeyri, eiga réttindi hjá LSR. Meðalstarfstími á bak við réttindi vegna starfa hjá flokknum er 2,04 ár og meðaltalslífeyrisprósenta 3,67%.
    Tveir fyrrverandi starfsmenn Bandalags jafnaðarmanna, sem ekki eru byrjaðir að taka lífeyri, eiga réttindi hjá LSR. Meðalstarfstími á bak við réttindi vegna starfa hjá flokknum er 0,71 ár og meðaltalslífeyrisprósenta 1,42%.
    Sautján núverandi og fyrrverandi starfsmenn Framsóknarflokksins, sem ekki eru byrjaðir að taka lífeyri, eiga réttindi hjá LSR. Meðalstarfstími á bak við réttindi vegna starfa hjá flokknum er 9,60 ár og meðaltalslífeyrisprósenta 19,07%.
    Átján núverandi og fyrrverandi starfsmenn Sjálfstæðisflokksins, sem ekki eru byrjaðir að taka lífeyri, eiga réttindi hjá LSR. Meðalstarfstími á bak við réttindi vegna starfa hjá flokknum er 8,50 ár og meðaltalslífeyrisprósenta 17%.

Lífeyrisskuldbindingar sem verða innheimtar hjá stjórnmálaflokkum.
    Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, eiga launagreiðendur sem tryggt hafa starfsmenn sína hjá sjóðnum að endurgreiða lífeyrissjóðnum þann hluta af lífeyrisgreiðslum sem er hækkun á áður úrskurðuðum lífeyri. Launagreiðendur greiða þannig í reynd allar hækkanir sem verða á lífeyrisgreiðslum. Hversu stór hluti af lífeyrisskuldbindingum verður innheimtur hjá launagreiðendum fer því eftir hækkunum á lífeyrisgreiðslum í framtíðinni.
    Í árslok 1995 voru endurmetnar bókfærðar eignir LSR um 20% af áföllnum skuldbindingum sjóðsins. 80% af áföllnum skuldbindingum hvíldu því á ríkissjóði og öðrum launagreiðendum sem greitt höfðu iðgjald til sjóðsins. Að hluta til hvíla þessar skuldbindingar á einstökum launagreiðendum, þar á meðal hlutfallslega á einstökum stjórnmálaflokkum, en að hluta til á ríkissjóði vegna bakábyrgðar ríkisins á skuldbindingum sjóðsins.
    Um margra ára skeið hefur fjármálaráðuneytið verið krafið um og greitt reikninga vegna lífeyrishækkana hjá fyrrverandi starfsmönnum stjórnmálaflokka. Áfallnar skuldbindingar hafa hins vegar verið skráðar á stjórnmálaflokkana.
    Eins og fram hefur komið ræðst það af launaþróun um hversu stóran hluta af lífeyrisskuldbindingum launagreiðendu verða krafðir. Er því ekki hægt með vissu að segja fyrir um hve mikið af framangreindum lífeyrisskuldbindingum launagreiðendur verða krafðir um eða í þessu tilviki fjármálaráðuneytið.