Ferill 483. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 488 . mál.


814. Tillaga til þingsályktunar



um hafnaáætlun 1997–2000.

(Lögð fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



    Alþingi ályktar skv. 24. gr. hafnalaga, nr. 23/1994, að árin 1997–2000 skuli framkvæmdum í hafnamálum hagað samkvæmt eftirfarandi hafnaáætlun:

I. Ný hafnarmannvirki 1997–2000 sem ríkið styrkir samkvæmt hafnalögum.




(1 síða)




























Prentað upp.


(1 síða)

II. Sundurliðun framkvæmda í einstökum höfnum.




(9 síður)




III. Áætlaðar fjárveitingar ríkissjóðs.


(Fjárhæðir í m.kr.)




(2 síður)




Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.


    Í mars 1993 var hafnaáætlun, fyrir árin 1993–1996, lögð fyrir 116. löggjafarþing í formi þingsályktunartillögu.
    Undirbúningur að gerð hafnaáætlunar fyrir árin 1995–1998 hófst með því að sent var bréf til hafnarstjórna í janúar 1994. Óskað var eftir að þær gerðu grein fyrir framkvæmdaþörf og æskilegri forgangsröðun verkefna. Jafnframt skyldi gerð grein fyrir möguleikum hafnarsjóðs til að fjármagna sinn hluta í umbeðnum framkvæmdum. Svör bárust frá allflestum þeirra 63 hafna sem fengu send gögn. Lauslega áætlað var kostnaður við framkvæmdir, sem sveitarfélögin töldu þörf á að lokið yrði á áætlanatímabilinu, rúmir 7,7 milljarðar kr. (verðlag maí 1994).
    Undirbúningsvinna við gerð hafnaáætlunar fyrir árin 1995–1998 var vel á veg komin í lok ársins 1994, en af ýmsum ástæðum var ákveðið að fresta því að leggja áætlunina fram á Alþingi. Í því sambandi má nefna að þingi lauk snemma vors 1995 og ólokið var setningu reglugerðar með hafnalögum frá 1994, en í reglugerðinni skyldi kveða nánar á um greiðsluþátttöku ríkisins í einstökum verkefnum. Frestunin gaf jafnframt möguleika á að tekið yrði tillit til niðurstaðna úttektar á hafnaþörfum sem unnið var að á árunum 1994 og 1995.
    Drög að hafnaáætlun fyrir árin 1996–1999 voru lögð fram og kynnt á 26. ársfundi Hafnasambands sveitarfélaga, sem haldinn var á Húsavík í lok október 1995, og jafnframt voru drögin send hafnarstjórnum til umsagnar. Þar var gert ráð fyrir framkvæmdakostnaði árin 1996–1999 að upphæð 2.440 m.kr. (verðlag september 1995). Svör með athugasemdum bárust frá 29 höfnum og flest þeirra fólu í sér óskir um meiri framkvæmdir.
    Farið var yfir athugasemdirnar og áætlunin endurskoðuð í ljósi þeirra. Stærsta breytingin felst í því að nú eru teknar inn í áætlunina úrbætur á innsiglingu til Grindavíkur, samtals um 230 m.kr. Þar af eru 90 m.kr vegna ytri hluta innsiglingarinnar á árunum 1999–2000. Að öðru leyti var aðeins í takmörkuðum mæli hægt að taka tillit til óska sem bárust um auknar framkvæmdir. Ekki náðist að leggja hafnaáætlun fram á vorþingi 1996 og voru drögin því enn á ný tekin til endurskoðunar og þá miðað við áætlunartímabilið 1997–2000. Eftir þessa lokayfirferð var framkvæmdakostnaður á áætlunartímabilinu kominn í 2.802 m.kr.

2. Meginþættir hafnaáætlunar.


    Samkvæmt hafnaáætlun eru eftirfarandi framkvæmdir áformaðar:
    Árið 1997 er áætlað að framkvæma fyrir 634 m.kr. í 33 höfnum í eigu sveitarfélaga.
    Árið 1998 er áætlað að framkvæma fyrir 627 m.kr. í 21 höfn.
    Árin 1999–2000 er áætlað að framkvæma fyrir 1.541 m.kr. í 29 höfnum.
    Samtals er kostnaður við ríkisstyrktar hafnargerðir áætlaður 2.802 m.kr. á árunum 1997–2000. Hlutur sveitarfélaganna í þessum framkvæmdum er 889 m.kr. en hlutur ríkissjóðs 1.913 m.kr. Áætlað er að skuld ríkissjóðs við hafnarsjóðina í árslok 1996 hafi verið 728 m.kr. en jafnframt var til geymd fjárveiting frá fyrri árum, 44 m.kr. Gert er ráð fyrir að skuld ríkissjóðs við hafnarsjóðina verði gerð upp á áætlunartímabilinu. Þá er áætlað að hlutur ríkissjóðs í styrkhæfum fjármagnskostnaði nemi 23 m.kr. á árunum 1997–2000. Samkvæmt hafnaáætlun þessari er því áformað að framlög ríkissjóðs til hafnarmannvirkja á árunum 1997–2000 nemi samtals 2.620 m.kr.
    Fjárveiting á fjárlögum 1997 til hafnarmannvirkja er 567 m.kr. og nýttar verða 44 m.kr. af geymdri fjárveitingu eða samtals 611 m.kr. Af þessari upphæð fara 344 m.kr. til framkvæmda við ný hafnarmannvirki, en 267 m.kr. til uppgjörs við hafnarsjóðina. Ríkisframlag að upphæð 154 m.kr. vegna framkvæmda ársins verður gert upp á árunum 1998–2000.
    Nánari sundurliðun á kostnaði og kostnaðarskiptingu við einstakar hafnir er að finna í I. og II. lið áætlunarinnar. Í III. lið er yfirlit yfir áætlaða fjárveitingaþörf, þ.e. framlag til nýframkvæmda, fjármagnskostnað og uppgjör hvert ár.
    Á nokkrum stöðum á landinu eru í gangi samningaviðræður um myndun hafnasamlaga eða sameiningu sveitarfélaga. Niðurstaða þeirra gæti leitt af sér breytingar á framkvæmdaröð áætlunarinnar.
    Allar kostnaðartölur í áætluninni eru á verðlagi nóvembermánaðar 1996 (byggingarvísitala 217,4 stig).

3. Uppgjör eldri framkvæmda.


    Óuppgerður hluti ríkissjóðs vegna framkvæmda á árinu 1996 eða fyrr, er kemur til greiðslu af fjárveitingum 1997 eða síðar, er áætlaður 728,3 m.kr. Þessi tala byggir á bráðabirgðauppgjöri Siglingastofnunar frá í desember 1996. Miðað er við að gera upp þessar skuldir við hafnarsjóðina á áætlunartímabilinu. Nýjum framkvæmdum er stillt upp á móti áætluðum fjárveitingum á tímabilinu.
    Við endurskoðun hafnaáætlunar eftir tvö ár verður gert ráð fyrir fjárveitingum á árunum 2001–2002 til þess að ljúka við dýpkun innsiglingarinnar til Grindavíkur, en gert er ráð fyrir byrjunarfjárveitingu til verksins á árunum 1999–2000. Er það í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 14. janúar sl., þar sem segir að ráðist verið í frekari framkvæmdir við innsiglinguna, þ.e. 2. og 3. áfanga, í samræmi við hafnaáætlun áranna 1999–2002 sem væntanlega verður lögð fram haustið 1998.
    Óuppgerður hlutur ríkissjóðs í framkvæmdum 1996 eða fyrr hefur að hluta verið fjármagnaður með lánum þar sem fyrir liggur samþykkt um að fjármagnskostnaður sé styrkhæfur. Höfuðstóll lána með styrkhæfum fjármagnskostnaði verður í árslok 1996 samtals 135 m.kr. Hlutur ríkisins í fjármagnskostnaði er áætlaður 14 m.kr. árið 1997, 1998 er áætlað að upphæðin verði 6 m.kr. og 3 m.kr. árið 1999 eða um 23 m.kr. alls. Til uppgjörs eldri framkvæmda að meðtöldum ríkishluta í fjármagnskostnaði þarf því 751 m.kr. á áætlunartímabilinu. Í III. lið er fjármagnskostnaður innifalinn í tölum um uppgjör skulda hjá einstökum höfnum.
    Fjármagnskostnaður vegna láns sem tekið var vegna dýpkunar í Sandgerði er á sérstökum fjárlagalið. Áætlað er að hann nemi 16 m.kr. árið 1997, 10 m.kr. árið 1998 og 6 m.kr. árið 1999.

4. Frumrannsóknir.


    Í þjónustusamningi Vita- og hafnamálastofnunar, nú Siglingastofnunar Íslands, við samgönguráðuneytið og fjárlögum 1997 eru 36 m.kr. ætlaðar til frumrannsókna á sviði vita, hafna og sjóvarnargarða. Gert er ráð fyrir að sú upphæð haldist óbreytt út áætlunartímabilið. Með frumrannsóknum er átt við öflun ýmissa grunnupplýsinga, mælingar og rannsóknir, sem stuðla að öryggi sjófarenda og réttum ákvörðunum við val á lausnum við mannvirkjagerð. Helstu verkefnaflokkar eru eftirfarandi:
     Grunnkort af höfnum. Árlegur kostnaður um 4 m.kr. Áhersla verður lögð á að staðsetja hafnir (lengd og breidd) í landskerfi. Þá verða dýptarmælingar endurnýjaðar og gömul hafnarmannvirki hnitsett.
     Sjávarföll og sjávarflóð. Árlegur kostnaður um 2 m.kr. Áfram verður unnið að því að ákvarða kortanúll nákvæmar en áður. Það er gert með því að mæla sjávarföll í viðkomandi höfn í minnst eitt ár. Unnið verður úr sjávarfallamælingum m.a. í þeim tilgangi að meta sjávarflóð og kvarða tölvuspár þar að lútandi. Þá verður hugað að kortlagningu lágsvæða.
     Líkantilraunir. Árlegur kostnaður um 13 m.kr. Gert er ráð fyrir að vinna að líkantilraunum við Ísafjarðarhöfn (1997) og Hafnarfjarðarhöfn (1997). Markmiðið með líkantilraunum af Ísafjarðarhöfn er að kanna hvaða áhrif stækkun Sundahafnar hefur á kyrrð í höfninni og vinna að skipulagi á syðsta hluta Sundahafnar. Í Hafnarfjarðarhöfn er ætlunin að skoða áætlanir um stækkun hafnarinnar utan Suðurgarðs út með Hvaleyrinni.
     Öldurannsóknir. Árlegur kostnaður um 6 m.kr. Áfram verður unnið úr gögnum frá úthafsölduduflum stofnunarinnar og unnið að undirstöðurannsóknum á sjólagi. Árið 1997 verða meðal annars öldumælingar við Ísafjarðarhöfn. Öldusveigjureikningar verða gerðir fyrir Reykjavík, Hafnarfjörð, Bolungarvík, Ísafjörð, Súðavík og Grundarfjörð.
     Efnisflutningar við hafnir. Árlegur kostnaður um 4 m.kr. Fylgst verður með efnisflutningum vegna öldu og strauma í og við nokkrar hafnir. Þeir eru einna mestir á innsiglingaleiðinni til Hornafjarðarhafnar og verður metið hvort og hvenær byggja þurfi sandfangara út í Þinganessker til að draga úr efnisflutningum að austan. Jafnframt verða grynnslin utan við Ósinn rannsökuð og metið hvort þar sé raunhæft að dýpka.
     Aðrar rannsóknir. Árlegur kostnaður um 7 m.kr. Þróun upplýsingakerfis um veður og sjólag mun verða haldið áfram. Hönnunaraðferðir fyrir brimvarnargarða verða þróaðar áfram. Unnið verður að botnrannsóknum í nokkrum höfnum, m.a. í innsiglingunni til Djúpavogs. Ný tækni við jarðvegsrannsóknir í lausum jarðvegi hefur verið tekin í notkun. Nauðsynlegt er að tengja saman nýjar og gamlar jarðvegsathuganir þannig að hægt sé að túlka gömul gögn með nýrri aðferð. Unnið verður að tæknilegum og hagrænum athugunum vegna hugsanlegrar hafnargerðar í Vík í Mýrdal.
    

5. Um áætlanir.


    Undanfarna þrjá áratugi hefur Vita- og hafnamálastofnun, nú Siglingastofnun, unnið fjögurra ára áætlun, hafnaáætlun, fyrir framkvæmdir í höfnum. Áætlun þessi, sem er endurskoðuð á tveggja ára fresti, hefur í senn verið undirstaða fjárveitinga ríkisins og grunnur fyrir framkvæmdaáætlun sveitarfélaganna á þessu sviði.
    Áætlunin byggist á óskum hafnarstjórna um framkvæmdir sem oftast nema töluvert hærri fjárhæð en til ráðstöfunar er. Hefur framangreind vinna einkum beinst að því að skera niður listann þannig að hann sé í samræmi við fjárveitingar til málaflokksins.
    Á síðari árum hefur komið fram gagnrýni á þessi vinnubrögð. Sérstaklega er bent á að hætta geti verið á að um offjárfestingar geti orðið að ræða ef fjárveitingar byggjast um of á óskum hafnarstjórnanna sjálfra, þar sem þær séu oft í beinni samkeppni um viðskiptavini. Vita- og hafnamálastofnun hefur á undanförnum þremur árum verið að móta aðrar aðferðir til að meta þörf á framkvæmdum í höfnum og líkan til að forgangsraða þeim. Verkefnið, sem gengur undir nafninu mat á hafnaþörfum, hófst með því að safnað var grunnupplýsingum um hafnirnar. Stærð og gerð kanta, dýpi og athafnarými var athugað. Enn fremur hefur umferð um hafnirnar verið skoðuð og mat lagt á þörf fyrir viðlegu- og löndunarkanta. Þessi vinna er nú svo langt komin að við gerð þessarar hafnaáætlunar var hægt að hafa niðurstöðurnar til hliðsjónar við mat á þörf fyrir framkvæmdir. Áformað er að umrætt mat á hafnaþörfum nýtist sem grunnur að tíu ára áætlun um hafnargerðir sem ætlunin er að vinna að samhliða endurskoðun hafnaáætlunar á árinu 1998.
    Áfram verður unnið að þróun líkans til að forgangsraða verkefnum og er vonast til að við gerð næstu fjögurra ára áætlunar fyrir árin 1999–2002 verði mat á hafnaþörfum ásamt þeirri forgangsröðun, sem út úr því kemur, lögð til grundvallar áætluninni.
    

6. Kostnaðarskipting milli ríkis og hafnarsjóða.


    Í II. lið, sundurliðun framkvæmda í einstökum höfnum, er auk heildarkostnaðar gerð grein fyrir hluta ríkissjóðs í hverri framkvæmd.
    Í 22. gr. hafnalaga, nr. 23/1994, segir að greiðsluþátttaka ríkissjóðs í einstökum verkefnum skuli ákveðin um leið og verk eru tekin inn á hafnaáætlun og síðan tekin til endurmats á tveggja ára fresti við endurskoðun hafnaáætlunar. Jafnframt segir að við mat á greiðsluþátttöku ríkissjóðs skuli tekið tillit til fjárhagslegrar getu hafnarsjóðs til að standa undir nauðsynlegum hafnarframkvæmdum, þó með þeim takmörkunum um hámark sem kveðið er á um í 21. gr. laganna. Á grundvelli þessara ákvæða og hliðstæðra ákvæða í eldri lögum hafa framlög til ákveðinna framkvæmda í fáeinum höfnum verið skert um lengri eða skemmri tíma á undanförnum árum.
    Við gerð þessarar hafnaáætlunar var ákveðið að leggja meiri áherslu en áður á val þeirra hafnarframkvæmda er geta notið ríkisstyrks. Í nokkrum sveitarfélögum er ekki gert ráð fyrir að ríkissjóður styrki hafnarframkvæmdir á áætlunartímabilinu. Í öðrum sveitarfélögum verða einungis þær framkvæmdir, sem tilgreindar eru í áætluninni, metnar styrkhæfar.
    Áætlunin gerir ráð fyrir að greiðsluþátttaka ríkissjóðs fylgi því hámarki sem heimilt er skv. 21. gr. hafnalaga árið 1997. Hins vegar er við það miðað að ríkið greiði 75% en ekki 90% stofnkostnaðar framkvæmda sem taldar eru upp í 2. tölul. greinarinnar, þ.e. hafnargörðum, dýpkunum og siglingarmerkjum, á árunum 1998–2000. Í samræmi við ákvæði í 28. gr. hafnalaga er gert ráð fyrir að Hafnabótasjóður veiti 15% styrk til tekjulágra hafna í fámennum sveitarfélögum. Hlutur þessara minni sveitarfélaga í hafnargörðum og dýpkunum yrði þá áfram einungis 10% eftir breytinguna.



Fylgiskjal I.


(4 síður - töflur.)









Fylgiskjal II.




(2 síður - töflur.)