Ferill 503. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 503 . mál.


846. Tillaga til þingsályktunar



um fríverslunarsamninga við Færeyjar og Grænland.

Flm.: Vilhjálmur Egilsson, Gunnlaugur M. Sigmundsson, Árni M. Mathiesen,


Sighvatur Björgvinsson, Hjörleifur Guttormsson.



    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að kanna við stjórnvöld í Færeyjum og Grænlandi möguleika á endurskoðun þeirra samninga sem íslenska ríkið hefur gert um viðskipti við þessi lönd.

Greinargerð.


    EFTA-ríkin og Evrópusambandið hafa á undanförnum árum gert marga fríverslunarsamninga við ríki Austur-Evrópu og ýmis ríki við Miðjarðarhafið. Í mörgum þeirra samninga eru ákvæði um að samræmdar upprunareglur skuli gilda um viðskipti milli ríkjanna. Til dæmis geta Íslendingar nú flutt inn til vinnslu hráefni frá Tékklandi og selt inn á sameiginlega markaðinn án þess að það skipti máli hvort varan telst upprunnin þar eða hér.
    Færeyjar og Grænland eru ekki hluti af hinu Evrópska efnahagssvæði og í þeim fríverslunarsamningum sem bæði EFTA-ríkin og Evrópusambandið hafa gert við þessi ríki eru engin ákvæði um samræmdar upprunareglur. Þetta veldur því t.d. að Íslendingar geta ekki flutt inn fisk til vinnslu frá Færeyjum og Grænlandi og selt inn á sameiginlega markaðinn með sömu kjörum og ef um íslenskan fisk væri að ræða og sama gildir ef þessar þjóðir ætla að kaupa fisk af Íslendingum til frekari vinnslu og selja inn á Evrópumarkaðinn. Færeyjar og Grænland eru um margt ákjósanlegir markaðir fyrir afurðir margra íslenskra fyrirtækja í matvælaiðnaði. Fyrir nokkrum árum sköpuðust t.d. tækifæri til útflutnings á ýmsum mjólkurafurðum til Færeyja. Þessi viðskipti komust hins vegar aldrei af byrjunarstigi vegna þess að ekki náðust gagnkvæmir samningar um verslun með slíkar vörur. Líkur eru á að það geti verið sameiginlegt hagsmunamál Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga að draga úr viðskiptahindrunum af því tagi sem hér hefur verið lýst milli landanna og gagnvart mörkuðum annars staðar í Evrópu. Þetta þarf að kanna hið fyrsta meðal stjórnvalda landanna með það að markmiði að greiða fyrir gagnkvæmum viðskiptum.
    Með hliðsjón af framansögðu er lagt til í tillögunni að ríkisstjórninni verði falið að huga að endurskoðun á þeim viðskiptasamningum sem gerðir hafa verið við Færeyjar og Grænland af hálfu íslenska ríkisins. Við þá endurskoðun verði hugað að því hvort ekki megi opna frekari markaði fyrir íslenskar vörur.