Ferill 367. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 367 . mál.


869. Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Birnu Sigurjónsdóttur um fæðingarorlofsrétt íslenskra kvenna við nám á Norðurlöndum.

    Hver er staða íslenskra kvenna sem eru við nám í:
    Danmörku,
    Noregi,
    Svíþjóð,
varðandi rétt til greiðslu í fæðingarorlofi í námslandinu annars vegar og hér á landi hins vegar?


Réttur í námslandi.
    Þegar einstaklingar sem tryggðir eru á Íslandi hjá Tryggingastofnun ríkisins fara til annars ríkis á Norðurlöndum til náms er almenna reglan sú að þeir taka upp búsetu þar og flytja lögheimili sitt til námslandsins nema um stutta dvöl sé að ræða. Ákveðnar reglur gilda um flutning lögheimilis milli Norðurlandanna (Auglýsing nr. 13 22. maí 1990, um Norðurlandasamning um almannaskráningu.). Tryggingakerfi Norðurlandanna byggjast á búsetu sem grunnreglu þegar tekin er afstaða til þess hverjir eiga rétt á tryggingu. Norðurlandasamningurinn um almannatryggingar byggist einnig á búsetulandsreglunni sem grunnreglu. Reglur EES-samningsins um almannatryggingar byggjast hins vegar á vinnulandsreglunni sem grunnreglu. Þeir sem flytjast milli Norðurlandanna eru því tryggðir í búsetulandinu ef ekki kemur annað til, svo sem vinna í öðru landi en búsetulandi, útsending starfsmanna o.s.frv. (L. nr. 46 6. maí 1993, um heimild til þess að fullgilda Norðurlandasamning um almannatryggingar, 2. gr., sbr. 6. gr. samningsins og 1. kafla III. hluta samningsins.)
    Réttur íslenskra kvenna til greiðslu í fæðingarorlofi í norrænu námslandi þar sem þær eru búsettar fer því eftir reglum búsetulandsins. Reglur norrænu landanna sem um er spurt eru í aðalatriðum sem hér segir:

     Danmörk.
    Allir sem eru á vinnumarkaði eiga rétt á fæðingarorlofi með greiðslum í tengslum við meðgöngu og fæðingu. Greiðslutímabilið er samtals 28 vikur. Launþegar verða að hafa verið í starfi í 13 vikur áður en orlofið hefst og þá unnið í minnst 120 klst. Greiðslur miðast við full laun en eru þó aldrei hærri en 2.545 danskar kr. á viku (1995). Þeir sem ekki fullnægja skilyrðum til að fá þessar bætur geta fengið félagslega aðstoð (kontanthjælp). Þeir sem fá félagslega aðstoð eiga ekki rétt á fæðingardagpeningum en halda rétti sínum til félagslegrar aðstoðar. Af þessu má álykta að kona í námi sem ekki hefur verið á vinnumarkaði fær engar greiðslur frá dönskum almannatryggingum en gæti átt rétt á félagslegri aðstoð (kontanthjælp). Þá mun vera við það miðað að engir aðrir tekjumöguleikar séu fyrir hendi.
    Ekki er hér fjallað um þær reglur sem gilda um greiðslur til feðra.
    Sérstakar reglur munu gilda um styrki frá danska námslánasjóðnum til þeirra sem þurfa að fresta námi vegna fæðingar, auk lánamöguleika. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur ekki nákvæmar upplýsingar um það atriði, né heldur um þær reglur sem gilda um rétt til greiðslna samkvæmt dönskum lögum um félagslega aðstoð (kontanthjælp).
    Til viðbótar reglunum um orlof og greiðslur í tengslum við meðgöngu og fæðingu gilda í Danmörku sérstök lög um leyfi fyrir fólk á vinnumarkaði til að sinna börnum sínum á aldrinum 0–8 ára í a.m.k. 26 vikur gegn sérstökum greiðslum sem eru u.þ.b. 70% af hámarksatvinnuleysisdagpeningum.

     Noregur.
    Allir sem eru á vinnumarkaði eiga rétt á fæðingarorlofi með greiðslum í tengslum við meðgöngu og fæðingu. Greiðslutímabilið getur verið allt að 48 vikur. Konur sem hafa haft atvinnutekjur eiga rétt á dagpeningum. Kona verður að vera búsett í landinu til að eiga aðild að almannatryggingum þar og hún þarf að hafa haft tekjur sem veita rétt til lífeyrisávinnings í a.m.k. sex mánuði sl. tíu mánuði fyrir fæðinguna. Verða árstekjurnar að vera a.m.k. 50% af grunnfjárhæð almannatrygginganna. Þær konur sem ekki uppfylla þessi skilyrði eiga rétt á eingreiðslu sem nemur 32.138 norskum kr. (1. janúar 1996). Af þessu má álykta að kona í námi sem ekki hefur verið á vinnumarkaði fær ekki fæðingardagpeninga en gæti átt rétt á eingreiðslu.
    Ekki er hér fjallað um þær reglur sem gilda um greiðslur til feðra.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur ekki upplýsingar um reglur norska námslánasjóðsins varðandi rétt til náms eða styrkja, né heldur um þær reglur sem gilda um rétt til greiðslna samkvæmt norskum lögum um félagslega aðstoð.
    Til viðbótar reglunum um orlof og greiðslur í tengslum við meðgöngu og fæðingu gilda í Noregi sérstakar reglur um rétt til orlofs í eitt ár vegna hvers barns til að sinna því. Engar greiðslur eru tengdar því orlofi.

     Svíþjóð.
    Allir foreldrar sem búsettir eru í Svíþjóð og eiga þar með aðild að almannatryggingunum þar í landi eiga rétt á fæðingarorlofi með greiðslum í tengslum við meðgöngu og fæðingu. Samanlagt eiga foreldrarnir rétt á því að fá fæðingardagpeninga í allt að 64 vikur. Þeir sem ekki eru á vinnumarkaði fá ákveðna lágmarksupphæð (garanti) allan dagpeningatímann (420 sænskar kr. á viku 1995, lágmark 60 sænskar kr. á dag). Þeir sem eru á vinnumarkaði fá fæðingardagpeninga sem reiknaðir eru eftir þeim tekjum sem veita rétt til sjúkradagpeninga. Fyrstu 30 dagana eru dagpeningarnir 85% af viðmiðunartekjunum en eftir það eru þeir 75% af viðmiðunartekjum (1996). Af þessu má álykta að kona í námi sem ekki hefur verið á vinnumarkaði fær ekki dagpeninga en gæti fengið framangreinda lágmarksupphæð (garanti, 420 sænskar kr. á viku) allan dagpeningatímann (64 vikur).
    Ekki er hér fjallað um þær reglur sem gilda um greiðslur til feðra.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur ekki upplýsingar um reglur sænska námslánasjóðsins varðandi rétt til láns eða styrkja, né heldur um þær reglur sem gilda um rétt til greiðslna samkvæmt sænskum lögum um félagslega aðstoð.
    Í Svíþjóð eru engar reglur um sérstakt orlof til að sinna börnum.

    Hér hefur aðeins í stuttu máli verið fjallað um helstu reglur varðandi greiðslur almannatrygginga vegna meðgöngu og fæðingar í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Ekki er fjallað um aðrar greiðslur vegna barna, svo sem til föður vegna fæðingar, greiðslur til einstæðra foreldra, barnabætur o.fl. Upplýsingarnar eru fengnar úr skýrslunni „Tema Nord 1996:612, Orlovsordninger I Norden“ og bæklingi Försäkringskassaforbundets 1996 „Socialförsäkringen I Norden, en översikt“. (Um nánari upplýsingar, sjá t.d. framangreinda skýrslu og bækling, lög viðkomandi ríkja og ýmsa bæklinga frá tryggingastofnunum landanna.)
    Af þessum upplýsingum má ráða að í Svíþjóð og Noregi eru sérstakar lágmarksgreiðslur úr almannatryggingum til þeirra sem ekki hafa verið á vinnumarkaði eða uppfylla ekki lágmarksskilyrði, þ.e. annars vegar u.þ.b. 26.880 sænskar kr. og hins vegar u.þ.b. 32.138 norskar kr. Í Danmörku er tekið á málum á annan hátt þar sem það eru einvörðungu aðilar á vinnumarkaði er fullnægja ákveðnum skilyrðum sem njóta greiðslna frá almannatryggingum. Mál annarra eru leyst eftir öðrum leiðum.
    Til þess að fá nánari upplýsingar en að framan greinir um réttindi námskvenna vegna meðgöngu og fæðingar í ofangreindum löndum þyrfti að beina fyrirspurn til viðkomandi yfirvalda í þeim löndum.

Réttur hér á landi.
    Eins og fram hefur komið falla námsmenn sem búsettir eru á annars staðar á Norðurlöndunum, undir almannatryggingalög viðkomandi lands. Þeir njóta því ekki á sama tíma almannatryggingaréttinda hér á landi. Hins vegar njóta námsmenn sem búsettir eru hér landi og tryggðir eru hjá Tryggingastofnun ríkisins réttar skv. 15. og 16. gr. laga nr. 117/1993. Í 15. gr. er fjallað um fæðingarstyrk en í 16. gr. er fjallað um fæðingardagpeninga. Allar konur sem tryggðar hafa verið hjá Tryggingastofnun ríkisins í 12 mánuði eiga rétt á fæðingarstyrk en fæðingardagpeningar eru ætlaðir þeim sem eru á vinnumarkaði og leggja niður launuð störf í fæðingarorlofinu. Í 16. gr. kemur fram að launuð vinna merki alla vinnu að tekjuöflun, jafnt atvinnurekenda sem launþega, og að um mat á atvinnuþátttöku foreldris skuli setja ákvæði í reglugerð. Í reglugerð nr. 546/1989 voru settar reglur um að reikna skuli nám á ákveðinn hátt til vinnustunda þannig að nám veiti rétt til fæðingardagpeninga. Því fá námsmenn sem fullnægja ákveðnum skilyrðum, bæði fæðingarstyrk og fæðingardagpeninga. Fæðingarstyrkur nemur nú 27.758 kr. á mánuði og greiðist í sex mánuði. Fullir fæðingardagpeningar eru nú 1.164 kr. á dag og greiðast í sex mánuði. Aðrar reglugerðir þar sem fjallað er um greiðslur í fæðingarorlofi eru reglugerð nr. 20/1989, um breytingu á reglugerð nr. 546/1989, og reglugerð nr. 655/1994, um framkvæmd laga um almannatryggingar.

    Hvaða áhrif hefur það á rétt þeirra til fæðingarorlofs ef þær flytja lögheimili sitt til námslandsins meðan á námi stendur?
    Í svari við fyrstu spurningunni kom fram að ákveðnar reglur gilda um flutning lögheimilis milli Norðurlandanna og að þeir sem ekki eru í vinnu og flytja milli Norðurlandanna falla að meginreglu til undir löggjöf búsetulandsins. Þeir sem eiga rétt á dagpeningum við flutning úr landi til annars EES-lands, þar með talið Norðurlandanna, halda hins vegar þeim rétti þar til réttur fellur niður. Þeir sem njóta fæðingardagpeninga við flutning halda þannig þeim greiðslum þar til sex mánaða greiðslutímabili lýkur.