Ferill 534. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–1997. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 534 . mál.


888. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 47/1995, um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.


    2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Teljist kvikmynd geta haft alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna eða ungmenna að mati Kvikmyndaskoðunar ákveður hún hvort banna skuli að sýna eða afhenda kvikmyndina börnum innan 16 ára aldurs eða á tilteknum aldursskeiðum innan þess aldurs samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Heimilt er Kvikmyndaskoðun að ákveða sérstök aldursmörk fyrir mismunandi myndmiðla.

2. gr.


    5. gr. laganna orðast svo:
    Sjónvarpsstöðvar, sem leyfi hafa til útvarps, annast með hliðsjón af 1. og 3. gr. skoðun kvikmynda, sem sýna á í dagskrá, að höfðu samráði við Kvikmyndaskoðun. Menntamálaráðherra getur þó ákveðið að tiltekin kvikmynd skuli skoðuð af Kvikmyndaskoðun sem hefur þá úrskurðarvald um það hvort sýning kvikmyndarinnar brjóti gegn ákvæðum laga þessara.
    Sjónvarpsstöðvum, þar með talið Ríkisútvarpinu, sjónvarpi, er skylt að haga svo vali útsendingartíma eða gera til þess tæknilegar ráðstafanir að tryggt sé að börn og ungmenni á því svæði er útsendingin nær til muni ekki að öðru jöfnu sjá eða heyra dagskrárefni sem líklegt er til að skaða líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska þeirra.

3. gr.


    11. gr. laganna orðast svo:
    Menntamálaráðherra skal setja reglur um skoðun tölvuleikja, þ.e. tölvuforrita sem hafa að geyma gagnvirka leiki, til að tryggja að notkun þeirra sé ekki í ósamræmi við tilgang laga þessara, sbr. 1.–3. gr. Skal þá haga slíkri skoðun með áþekkum hætti og skoðun kvikmynda að fengnum tillögum Kvikmyndaskoðunar. Um gjaldtöku skal fara á álíkan hátt og kveðið er á um í 4. gr. þannig að þeim aðilum, sem framleiða tölvuleiki hér á landi, flytja þá til landsins eða ætla að dreifa þeim með sölu eða á annan hátt hérlendis, er skylt að sjá til þess að Kvikmyndaskoðun fái tölvuleikina umsvifalaust til skoðunar og ber þeim þá að greiða skoðunargjöld sem renna í ríkissjóð. Skoðunargjöldin ákvarðast í reglugerð og skal fjárhæð þeirra taka mið af kostnaði af skoðuninni.

4. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með bréfi, dags. 12. nóvember 1996, lagði umboðsmaður barna það til við menntamálaráðherra að lög nr. 47/1995, um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, og útvarpslög, nr. 68/1985, yrðu tekin til endurskoðunar til þess að tryggja börnum betur þá vernd sem 76. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um og einnig til þess að uppfylla ákvæði 17. gr. í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem og ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnskipunarfyrirmælum um sjónvarpsrekstur (ESB/89/552). Í bréfi umboðsmanns barna koma fram tillögur að einstökum lagabreytingum og er frumvarp þetta samið á grundvelli þeirra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Að tillögu umboðsmanns barna er hér lagt til að kveðið verði fastar að orði en gert er í núgildandi lögum varðandi þær viðmiðanir sem Kvikmyndaskoðun ber að hafa hliðsjón af við skoðun og mat á kvikmyndum.

Um 2. gr.


    Að tillögu umboðsmanns barna er hér lagt til að í 5. gr. laganna komi skýrt fram að sjónvarpsstöðvar skuli við skoðun á dagskrárefni nota sömu viðmiðanir og Kvikmyndaskoðun endranær. Þá er lagt til að við greinina bætist ný málsgrein þar sem sjónvarpsstöðvum er bannað að sýna dagskrárefni sem líklegt er til að skaða líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna og ungmenna ef ekki er tryggt með vali á útsendingartíma eða með einhverjum öðrum tæknilegum ráðstöfunum að börn og ungmenni á því svæði er útsendingin nær til muni ekki að öðru jöfnu sjá eða heyra slíkar útsendingar.
    Þessi tillaga er gerð með hliðsjón af ákvæði 22. gr. tilskipunar Evrópusambandsins um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnskipunarfyrirmælum um sjónvarpsrekstur (ESB/89/552). Með hliðsjón af 5. tölul. 3. gr. útvarpslaga, nr. 68/1985, munu allar sjónvarpsstöðvar, sem fá leyfi til útvarpsreksturs, sbr. 2. mgr. 2. gr. útvarpslaga, verða skuldbundnar til að hlíta þessu ákvæði. Sama á við um Ríkisútvarpið, sjónvarp eins og skýrt er tekið fram í greininni.

Um 3. gr.


    Að tillögu umboðsmanns barna er hér kveðið á um að menntamálaráðherra sé ekki einvörðungu heimilt, heldur skylt, að setja reglur um skoðun tölvuleikja þannig að þeir lúti hliðstæðum skoðunarreglum og kvikmyndir. Gert er ráð fyrir að um tilhögun skoðunar tölvuleikja og gjaldtöku verði tekið mið af öðrum ákvæðum laganna.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 47/1995,


um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum.


    Í frumvarpinu eru lagðar til skýrari viðmiðanir við skoðun og mat á kvikmyndum sem sýndar eru í kvikmyndahúsum eða hjá sjónvarpsstöðvum. Einnig er lagt til að menntamálaráðherra verði skylt að setja reglur um skoðun tölvuleikja þannig að þeir lúti hliðstæðum skoðunarreglum og kvikmyndir og að kostnaður við skoðunina greiðist af skoðunargjöldum.
    Frumvarpið leiðir ekki til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð að því er séð verður.