Ferill 553. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 553 . mál.


911. Tillaga til þingsályktunar



um aðgang að íslenskum handritum hér á landi og í erlendum söfnum.

Flm.: Valgerður Sverrisdóttir, Jón Kristjánsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að móta heildarstefnu um varðveislu og aðgengi að íslenskum handritum, hvort heldur þau eru varðveitt hér á landi eða í erlendum söfnum. Sérstaklega verði hugað að nýrri tækni í tölvu- og upplýsingamiðlun í þessu sambandi og á hvern hátt hún geti nýst til að gera sem flestum aðgengilegt efni handritanna.

Greinargerð.


    Í júní á þessu ári lýkur formlega handritaskilum Dana samkvæmt samningi milli þjóðanna, frá 1. júlí 1965 og fullgiltur var 1. apríl 1971. Fyrstu handritin komu heim frá Danmörku 21. apríl árið 1971 með danska eftirlitsskipinu Vædderen. Flateyjarbók og Konungsbók eddukvæða höfðu þá verið í varðveislu Dana í rúm þrjú hundruð ár. Enginn vafi er á að það hefur haft og mun ávallt hafa gífurlega þýðingu fyrir íslenska þjóð og íslensk fræði að fá þessi handrit og hin sem á eftir þeim komu heim. Þann 21. apríl 1996 var afhendingar handritanna minnst með hátíðarsamkomu í Háskólabíói í tilefni þess að 25 ár voru liðin frá komu fyrstu handritanna. Viðstaddur var m.a. menntamálaráðherra Danmerkur, Ole Vig Jensen.
    „Íslensk handrit eru víða til; sá sem vildi virða þau öll fyrir sér yrði að vitja ófárra staða.“ Þessi orð eru höfð eftir Jóni Helgasyni prófessor og koma fram í „Handritaspjalli“ sem gefið var út í Reykjavík árið 1958. Ljóst er að þrátt fyrir að stórkostlegur árangur hafi náðst við endurheimt handrita frá Danmörku eru enn varðveitt erlendis, í Danmörku og meðal annarra þjóða, stórkostleg menningarverðmæti sem þjóðin hefur takmarkaðan aðgang að. Enda þótt til séu ljósmyndir eða filmur af mörgum þeirra er það langt í frá tæmandi og margar eru orðnar gamlar og jafnvel lítt nothæfar. Það sem varpar nýju ljósi á þessi mál öll nú er m.a. það að á síðustu árum hefur komið fram ný tækni á upplýsingasviðinu sem gerbreytir öllum möguleikum til að miðla hvers kyns gögnum.
    Flutningsmenn þessarar tillögu telja brýnt annars vegar að hugað sé að á hvern veg sé hægt að gera efni íslenskra handrita erlendis aðgengilegt íslenskum fræðimönnum og öðrum áhugamönnum og hins vegar sé nauðsynlegt að huga að þeim handritakosti sem til er hér á landi, á hvern hátt sé best að varðveita hann um ókominn aldur og gera efni hans um leið aðgengilegt hverri nýrri kynslóð. Jafnframt þarf að hafa í huga að mörg handritanna, einkum frá síðari öldum, eru ekki nægilega skráð og má til að mynda nefna að lítil grein er gerð fyrir nótum í handritum. Á tímum ört vaxandi alþjóðahyggju er hverri þjóð lífsnauðsyn að huga að eigin menningararfi og á hvern veg hún fái sem best varðveitt og miðlað sögu sinni og eigin menningu. Á Íslandi er lifandi áhugi á fornum og nýjum arfi þjóðarinnar. Nauðsynlegt er að gefa öllum tækifæri til að efla samband sitt við eigin menningararf með því að nýta nýjustu tækni til að styrkja tengsl þjóðarinnar við eigin rætur.
    Íslenskur menningararfur er ekki nægilega aðgengilegur í dag. Hluti hans er varðveittur í erlendum söfnum sem jafnvel fræðimenn hafa ekki möguleika á að sækja heim nema að mjög takmörkuðu leyti og þá oftast í mjög skamman tíma. Fyrir allan þorra fólks eru söfnin hér á landi ekki aðgengileg sem skyldi, auk þess sem varðveislusjónarmið hamla mjög notkun þeirra. Við þessu þarf að sporna með því að setja efni handritanna yfir á annað form sem geti gefið fleirum tækifæri til að eignast hlutdeild í eigin menningararfi, t.d. með því að hafa möguleika á að rannsaka hann sjálfir. Þá eru handritaskilin frá frændum okkar Dönum einnig kærkomið tækifæri til að líta fram á við og reyna að átta okkur á því á hvern hátt við getum best axlað þá ábyrgð að varðveita menningararfinn með þeim myndugleika sem honum hæfir og glæða um leið áhuga á honum með nýjum kynslóðum sem búa við miklu meira menningarlegt framboð en áður hefur þekkst. Varðveisla íslenskra handrita felst ekki eingöngu í því að setja þau í læstar hirslur, heldur í rannsóknum á þeim og útgáfu, að þau geti verið aðgengileg fræðimönnum og öðrum áhugamönnum t.d. með ljósmyndun eða á tölvutæku formi. Þá er mikið verkefni óunnið við að gera við sjálf frumgögnin sem eiga að vera til um ókomin ár.
    Hér á landi er handrit einkum að finna í Stofnun Árna Magnússonar og handritadeild Landsbókasafns. Í Þjóðskjalasafni og héraðsskjalasöfnum víða um land má búast við að sé að finna nokkur þúsund handrit.
    Erlendis er að finna íslensk handrit svo þúsundum skiptir, á Norðurlöndum, Bretlandseyjum og víðar. Flest þeirra eru á Stofnun Árna Magnússonar og í Konunglegu bókhlöðunni í Kaupmannahöfn.
    Auk alls þessa eru gífurleg söfn til annars staðar sem við höfum litla sem enga yfirsýni yfir. Þar er t.d. átt við 19. og 20. aldar bréfasöfn og dagbækur landnema í Vesturheimi og afkomenda þeirra. Sumt af þessu efni hefur ratað á söfn í Bandaríkjunum og í Kanada, eitthvað er án efa enn varðveitt hjá ættingjum og afkomendum landnemanna. Gera þarf stórátak í að safna þessum handritum og öðrum þeim sem teljast mikilvæg menningarverðmæti.
    Tilvist íslenskrar þjóðar byggist fyrst og fremst á eigin sögu sem hún hefur fært í letur á eigin tungu. Þess vegna tóku Íslendingar að krefjast eigin handrita af Dönum um leið og þeir urðu aftur sjálfstæð þjóð. Að heimta aftur handritin var okkur staðfesting þess að við værum frjáls þjóð. Nú þegar við stöndum á þeim tímamótum að handritaskilum Dana er lokið er rétt að huga að því hvernig við getum gert menningararfinn sýnilegan og lifandi þannig að okkar kynslóð og ókomnar kynslóðir geti notið hans.