Ferill 556. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 556 . mál.


914. Tillaga til þingsályktunar



um aðild að samningi Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun í löndum, sérstaklega í Afríku, sem eiga við alvarlegan vanda að etja af völdum þurrka og/eða eyðimerkurmyndunar.

(Lögð fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun í löndum, sérstaklega í Afríku, sem eiga við alvarlegan vanda að etja af völdum þurrka og/eða eyðimerkurmyndunar, er gerður var í París 17. júní 1994.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun í löndum, sérstaklega í Afríku, sem eiga við alvarlegan vanda að etja af völdum þurrka og/eða eyðimerkurmyndunar, er gerður var í París 17. júní 1994. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.
    Samningur þessi á rætur að rekja til heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun sem haldin var í Ríó de Janeiró árið 1992. Gerð samningsins lauk í París 17. júní 1994 og öðlaðist hann gildi 26. desember 1996, 90 dögum eftir að 50 ríki höfðu staðfest hann. Hinn 27. mars 1997 höfðu 68 ríki staðfest samninginn og eru öll hin norrænu ríkin á meðal þeirra.
    Samningurinn hefur að geyma 40 greinar og fjóra viðauka um svæðisbundnar aðgerðir. Við gerð samningsins var stuðst við ákvæði í 12. kafla Dagskrár 21 sem samþykkt var á ráðstefnunni í Ríó de Janeiró.
    Markmið samningsins er samkvæmt 2. gr. hans að vinna gegn eyðimerkurmyndun og draga úr skaðlegum afleiðingum þurrka í löndum sem eiga við alvarlegan vanda að etja af völdum þurrka og/eða eyðimerkurmyndunar, sérstaklega í Afríku. Beitt skal virkum aðgerðum á öllum stigum með það að markmiði að stuðla að sjálfbærri þróun á svæðum þar sem eyðimerkurmyndun á sér stað.
    Í samningnum er eyðimerkurmyndun skilgreind sem hnignun lands á þurrum eða úrkomulitlum svæðum og á úrkomulitlum jaðarsvæðum úrkomusvæða af völdum ýmissa þátta, þar á meðal veðurfarsbreytinga og mannlegra athafna. Samkvæmt skilgreiningu samningsins á þessum svæðum falla heimskautasvæði og svæði sem næst þeim liggja, þ.m.t. Ísland, þar fyrir utan.
    Í fyrstu þremur greinum samningsins er fjallað um skilgreiningar á helstu hugtökum, markmið og grunnreglur.
    Helstu skuldbindingar samningsaðila koma fram í 4., 5. og 6. gr., en síðar í samningnum er gerð nánari grein fyrir því hvað í þessum skuldbindingum felst.
    Í 4. gr. eru almenn ákvæði þar sem samningsaðilar skuldbinda sig til að gefa þessu vandamáli tilhlýðilegan gaum, jafnt heima fyrir sem á alþjóðlegum vettvangi, og m.a. stuðla að því að fjármagn sé veitt til þessara mála.
    Í 5. gr. er kveðið á um skuldbindingar aðila sem eiga við eyðimerkurmyndun að stríða. Aðilum er skylt að:
    veita aðgerðum gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka nauðsynlegan forgang og veita til þeirra nægilega mikið fjármagn eftir aðstæðum og getu hvers og eins;
    gera áætlanir um aðgerðir og forgangsröðun verkefna, innan ramma áætlana og/eða stefnu um sjálfbæra þróun, í baráttunni gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka;
    beina sjónum að frumorsökum eyðimerkurmyndunar og gefa sérstakan gaum þeim félags- og efnahagslegu þáttum sem valda henni;
    auka almenningsvitund um vandann og stuðla að þátttöku heimamanna, sérstaklega kvenna og ungs fólks, með stuðningi óháðra félagasamtaka, í baráttunni gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka; og
    skapa hvetjandi umhverfi með því að efla, eftir því sem þörf krefur, gildandi löggjöf um þessi mál, setja lög þar sem þau eru ekki fyrir hendi og móta langtímastefnu og framkvæmdaáætlanir.
    Í 6. gr. er lýst skuldbindingu iðnríkja um að styðja, hvert um sig eða í sameiningu, aðgerðir þróunarlanda sem eiga við eyðimerkurmyndun að etja. Iðnríkin skuldbinda sig til að veita umtalsverða fjárhagslega aðstoð til þróunarlanda, sérstaklega í Afríku. Þessum skuldbindingum er nánar lýst í 20. gr. þar sem segir að iðnríkjunum beri m.a. að útvega umtalsvert fjármagn, þar á meðal styrki og víkjandi lán, til að styðja framkvæmd áætlana sem hafa að markmiði að sporna gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka. Í þessu felst að þau iðnríki sem gerast aðilar að samningnum skuldbinda sig til að veita aðstoð til þróunarlanda sem eiga við eyðimerkurmyndun að glíma.
    Í 9.–15. gr. er fjallað sérstaklega um áætlanir ríkja sem eiga við eyðimerkurmyndun að glíma um mótaðgerðir. Skulu þau undirbúa, birta og framkvæma áætlanir um aðgerðir til að leysa vandamálið. Samkvæmt 10. gr. er markmið þessara áætlana að skilgreina þá þætti sem valda eyðimerkurmyndun og þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að koma í veg fyrir hana og draga úr afleiðingum þurrka. Í slíkum áætlunum skal skilgreina hlutverk stjórnvalda, sveitarfélaga og landnotenda og tilgreina þau úrræði sem fyrir hendi eru og þau sem á vantar. Áætlanirnar skulu fela í sér langtímaaðgerðir til að koma í veg fyrir eyðimerkurmyndun og draga úr afleiðingum þurrka og vera samofnar stefnu viðkomandi ríkis um sjálfbæra þróun. Tilgreint er að áætlanir skuli vera nægilega sveigjanlegar til þess að unnt sé að taka tillit til breytilegra félagslegra, efnahagslegra, líffræðilegra og jarðeðlisfræðilegra aðstæðna í viðkomandi héraði. Enn fremur er tiltekið að huga beri sérstaklega að forvarnaraðgerðum á landsvæðum sem enn hafa ekki, eða aðeins að litlu leyti, rýrnað. Stuðla ber að virkri þátttöku óháðra félagasamtaka og þátttöku heimamanna, bæði karla og kvenna, sérstaklega þeirra er nýta auðlindirnar. Krafist er reglubundins yfirlits og skýrslna um framkvæmd áætlana.
    Samningurinn hefur einnig að geyma ákvæði um söfnun, úrvinnslu og miðlun upplýsinga, rannsóknir, þróun og miðlun tækniþekkingar (16.–18. gr.). Með þessum ákvæðum skuldbinda samningsaðilar sig til að miðla tæknilegri þekkingu og upplýsingum.
    Í 19.–21. gr. er fjallað um stuðningsaðgerðir. Í 19. gr. segir að aðilar samningsins geri sér grein fyrir mikilvægi þess að auka færni, þ.e. að koma á fót stofnunum og stuðla að þjálfun og þróun nauðsynlegrar færni svæðisbundið og í einstökum löndum, með það að markmiði að sporna gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka.
    Í 21. gr. er kveðið á um hlutverk sérstaks Hnattræns styrktarsjóðs sem stofna skal á fyrsta fundi þings samningsaðila. Sjóðnum er ætlað að stuðla að öflun og stýringu fjármagns, m.a. til tæknimiðlunar, í formi styrkveitinga, með víkjandi lánum eða með öðrum skilmálum til þróunarríkja sem eru aðilar að samningnum.
    Samningurinn lýsir fyrirkomulagi þings samningsaðila (22. gr.) sem fyrst um sinn fundar árlega en síðan annað hvert ár. Fyrsti fundur þingsins verður haldinn í september 1997. Einnig er stofnuð fastaskrifstofa vegna samningsins (23. gr.) og fastanefnd um vísindi og tækni (24. gr.). Samningurinn hefur enn fremur að geyma ákvæði um reglulega skýrslugerð samningsaðila (26. gr.) þar sem segir m.a. að iðnríkin skuli gera grein fyrir fjárhagsaðstoð sem þau hafa veitt til þeirra mála sem samningurinn nær til.
    Við samninginn eru fjórir viðaukar sem fjalla um svæðisbundnar aðgerðir í Afríku (I. viðauki), í Asíu (II. viðauki), í rómönsku Ameríku og á Karíbasvæðinu (III. viðauki) og við norðanvert Miðjarðarhaf (IV. viðauki).
    Að lokum er rétt að benda á að samningurinn kemur væntanlega til með að þróast og breytast með tímanum. Því má búast við að aðild að samningnum hafi í för með sér frekari skuldbindingar í framtíðinni sem ekki er hægt að sjá fyrir að svo stöddu. Gera má fyrirvara við skuldbindingar sem hljótast af slíkum breytingum eins og segir í 31. gr. samningsins.
    Umsjón með samningnum hér á landi verður í höndum sérstaks starfshóps á vegum umhverfisráðuneytisins sem skipaður verður fulltrúum þess ráðuneytis og landbúnaðarráðuneytisins.
    Kostnaður vegna samningsins hlýst af framlagi Íslands í sameiginlegan sjóð til rekstrar fastaskrifstofu vegna samningsins, vinnu við skýrslugerð og upplýsingamiðlun og þátttöku í fundum þings samningsaðila og vinnu- og vísindanefnda. Áætlað er að þessi kostnaður nemi um einni milljón króna á ári.
    Eins og fram kemur hér að framan felur samningurinn í sér kvaðir um þróunaraðstoð. Hverju ríki er þó í sjálfsvald sett hversu miklu fjármagni það beinir í þennan farveg en ljóst er að samningurinn mun hafa áhrif á stefnumörkun ríkja í þessum málum.
    Ekki er þörf breytinga á íslenskri löggjöf vegna skuldbindinga sem felast í samningnum.



Fylgiskjal.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir


gegn eyðimerkurmyndun í löndum,


sérstaklega í Afríku, sem eiga við alvarlegan


vanda að etja af völdum þurrka og/eða


eyðimerkurmyndunar.



Aðilar að samningi þessum, sem
    eru sammála um að aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka skuli öðru fremur beinast að íbúum landa á áfallasvæðum eða svæðum sem ógnað er af þessum sökum,
    láta í ljós djúpar áhyggjur samfélags þjóðanna, bæði ríkja og alþjóðastofnana, af alvarlegum afleiðingum eyðimerkurmyndunar og þurrka,

    gera sér grein fyrir því
að þurr svæði, úrkomulítil svæði og úrkomulítil jaðarsvæði úrkomusvæða eru umtalsverður hluti af landsvæði jarðar og eru búsvæði og grundvöllur lífsviðurværis mikils hluta íbúa heims,
    viðurkenna þá staðreynd að eyðimerkurmyndun og þurrkar eru alþjóðlegur vandi sem hefur áhrif á allri jörðinni, og að þörf er sameiginlegra alþjóðlegra aðgerða til að sporna gegn eyðimerkurmyndun og/eða draga úr afleiðingum þurrka,
    gera sér grein fyrir því hve mörg þróunarlönd, sérstaklega þau minnst þróuðu, eru á svæðum þar sem alvarlegra þurrka og/eða eyðimerkurmyndunar gætir mest, og ekki síst hve alvarlegar afleiðingar þessa eru í Afríku,
    gera sér einnig grein fyrir því að eyðimerkurmyndun er afleiðing margra samfallandi náttúrulegra, pólitískra, félagslegra, menningarlegra og hagfræðilegra þátta,
    gera sér ljós áhrif viðskipta og ýmissa alþjóðlegra efnahagssamskipta á getu landa á áfallasvæðum til að berjast gegn eyðimerkurmyndun með viðunandi árangri,
    eru sér þess meðvitaðir að leggja verður megináherslu á sjálfbæran hagvöxt, félagslega þróun og útrýmingu fátæktar í þróunarlöndum á áfallasvæðum, sérstaklega í Afríku, og að þetta eru forsendur þess að unnt sé að ná markmiðum um sjálfbæra þróun,
    eru minnugir þess að eyðimerkurmyndun og þurrkar hafa áhrif á sjálfbæra þróun og tengjast mikilvægum félagslegum vandamálum, t.d. fátækt, lélegu heilsufars- og matvælaástandi, ótryggri matvælaöflun og vanda af völdum búferlaflutninga, tilfærslu einstaklinga og lýðfræðilegra breytinga,
    gera sér grein fyrir þeim mikilvæga árangri sem náðst hefur með aðgerðum hingað til og reynslu ríkja og alþjóðastofnana af baráttu gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka, ekki síst með því að hrinda í framkvæmd Áætlun um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun sem samþykkt var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um eyðimerkurmyndun árið 1977,
    viðurkenna að þrátt fyrir fyrri aðgerðir hefur baráttan gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka ekki borið þann árangur sem vænst hafði verið og að þörf er nýrra og virkari leiða á öllum stigum sjálfbærrar þróunar,

    gera sér grein fyrir
gildi og mikilvægi ákvarðana sem teknar voru á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun, sérstaklega Dagskrár 21 og 12. kafla hennar, þar sem lagður er grunnur að baráttunni gegn eyðimerkurmyndun,
    staðfesta í ljósi þessa þær skuldbindingar þróaðra landa sem fjallað er um í 13. mgr. 33. kafla Dagskrár 21,
    vísa til ályktunar Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 47/188, sérstaklega þess forgangs sem þar er tilgreindur varðandi Afríku, og allra annarra efnislega skyldra ályktana, ákvarðana og áætlana Sameinuðu þjóðanna varðandi eyðimerkurmyndun og þurrka, svo og tengdra yfirlýsinga landa í Afríku og öðrum heimsálfum,
    staðfesta Ríóyfirlýsinguna um umhverfi og þróun, en í 2. meginreglu hennar er því lýst yfir að ríki hafi, í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna og meginreglur þjóðaréttar, óskoraðan rétt til þess að nýta auðlindir sínar í samræmi við stefnu sína í umhverfis- og þróunarmálum, en einnig að á þeim hvíli sú skylda að tryggja að framkvæmdir innan lögsögu þeirra, eða svæða sem lúta stjórn þeirra, valdi ekki tjóni á umhverfi annarra ríkja eða svæða utan lögsögu ríkja,

    viðurkenna
að ríkisstjórnir gegni lykilhlutverki í baráttunni gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka og að árangur slíkrar baráttu byggist á því að hrint sé í framkvæmd staðbundnum aðgerðum á áfallasvæðum,
    viðurkenna einnig mikilvægi og nauðsyn alþjóðlegrar samvinnu og samstöðu í baráttunni gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka,

    viðurkenna
enn fremur nauðsyn raunhæfs stuðnings við þróunarlönd á áfallasvæðum, sérstaklega í Afríku, m.a. með umtalsverðu fjármagni, bæði nýrri fjármögnun og viðbótarfjármögnun, og tækniaðstoð, en án slíks stuðnings mun þeim reynast erfitt að standa að fullu við skuldbindingar sínar samkvæmt þessum samningi,
    láta í ljós áhyggjur af áhrifum eyðimerkurmyndunar og þurrka á lönd á áfallasvæðum í Mið-Asíu og Transkákasus,
    leggja áherslu á mikilvægan þátt kvenna á landsvæðum þar sem eyðimerkurmyndun og/eða þurrkar herja, sérstaklega í landbúnaðarhéruðum þróunarlanda, og mikilvægi þess að tryggð sé full þátttaka karla og kvenna á öllum stigum áætlana um að stemma stigu við eyðimerkurmyndun og draga úr áhrifum þurrka,
    leggja áherslu á sérstakt hlutverk óháðra félagasamtaka og annarra mikilvægra hópa í baráttunni gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka,

    hafa í huga
samhengið milli eyðimerkurmyndunar og annarra umhverfisvandamála jarðar sem blasa við samfélagi þjóðanna í heild og einstökum þjóðum,
    hafa einnig í huga þann þátt sem barátta gegn eyðimerkurmyndun getur átt í því að ná fram markmiðum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, samnings um líffræðilega fjölbreytni og annarra skyldra umhverfissamninga,

    telja
að aðferðir sem notaðar eru í baráttunni gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka verði árangursríkastar ef þær grundvallast bæði á skynsamlegum kerfisbundnum athugunum og hárnákvæmri vísindalegri þekkingu, og ef aðferðirnar eru í stöðugri endurskoðun,
    viðurkenna brýna nauðsyn þess að auka virkni og samhæfingu alþjóðlegs samstarfs í þeim tilgangi að auðvelda framkvæmd áætlana og forgangsverkefna einstakra ríkja og
    eru ákveðnir í að grípa til nauðsynlegra aðgerða í baráttunni gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka í þágu núlifandi og komandi kynslóða,

    hafa komið sér saman um eftirfarandi:


I. HLUTI


INNGANGUR


1. gr.


Notkun hugtaka.


    Í samningi þessum
    a) merkir „eyðimerkurmyndun“ hnignun lands á þurrum svæðum, úrkomulitlum svæðum og úrkomulitlum jaðarsvæðum úrkomusvæða af völdum ýmissa þátta, þar á meðal veðurfarsbreytinga og mannlegra athafna;
    b) nær „barátta gegn eyðimerkurmyndun“ til aðgerða sem eru hluti heildaráætlunar um sjálfbæra þróun á þurrum svæðum, úrkomulitlum svæðum og úrkomulitlum jaðarsvæðum úrkomusvæða og hafa að markmiði að:
         (i) koma í veg fyrir eða draga úr hnignun lands;

         (ii) endurheimta landgæði þar sem hnignun hefur átt sér stað í einhverjum mæli; og
         (iii) græða upp land sem orðið hefur eyðimerkurmyndun að bráð;
    c) merkir „þurrkur“ það náttúrulega ástand sem verður ríkjandi þegar úrkoma hefur verið marktækt minni en eðlileg skráð meðaltöl, og sem orsakar alvarlega röskun á vatnsbúskap landsins og rýrnun á framleiðslugetu þess;
    d) vísar „draga úr afleiðingum þurrka“ til aðgerða sem tengdar eru spám um þurrka og sem er ætlað að draga úr skaðlegum afleiðingum þurrka á samfélög og lífkerfi að því er varðar baráttuna gegn eyðimerkurmyndun;
    e) merkir „land“ lífrænt framleiðslukerfi sem samsett er af jarðvegi, gróðri og öðrum þáttum lífríkisins, og vistfræðilegu og vatnsfræðilegu ferli innan kerfisins;
    f) merkir „hnignun lands“ þá rýrnun eða það tap sem verður á þurrum svæðum, úrkomulitlum svæðum og úrkomulitlum jaðarsvæðum úrkomusvæða á líffræðilegri eða hagfræðilegri framleiðslugetu og fjölbreytileika þess ræktaða lands sem byggist á úrkomu, áveitusvæða, úthaga, ræktaðra beitilanda, skóga og skóglendis af völdum landnýtingar, ferlis eða ferla, sem m.a. má rekja til mannlegra athafna og búsetumunsturs, svo sem:
         (i) jarðvegseyðingu af völdum vatns og/eða vinda;
         (ii) hnignun náttúrulegra, efnafræðilegra og líffræðilegra eiginleika eða efnahagslegs gildis jarðvegs; og
         (iii) tap á náttúrulegum gróðri á löngum tíma;
    g) merkir „þurr svæði, úrkomulítil svæði og úrkomulítil jaðarsvæði úrkomusvæða“ svæði, önnur en heimskautasvæði og svæði sem næst þeim liggja, þar sem hlutfall ársúrkomu og gnóttaruppgufunar er á bilinu 0,05–0,65;
    h) merkir „áfallasvæði“ þurr svæði, úrkomulítil svæði og úrkomulítil jaðarsvæði úrkomusvæða þar sem eyðimerkur hafa myndast eða hætta er á eyðimerkurmyndun;
    i) merkir „lönd á áfallasvæðum“ lönd sem að öllu eða einhverju leyti eru á áfallasvæðum;
    j) merkir „svæðisstofnun um efnahagssamvinnu“ stofnun sem fullvalda ríki á tilteknu svæði hafa komið á fót og hefur vald í þeim málum sem samningur þessi nær til og sem hefur, í samræmi við innri starfsreglur sínar, fulla heimild til að undirrita, fullgilda, staðfesta eða samþykkja þennan samning eða til að gerast aðili að honum;
    k) merkir „þróuð aðildarlönd“ þróuð lönd sem eru aðilar að samningi þessum og svæðisstofnanir um efnahagssamvinnu sem þróuð lönd hafa komið á fót.

2. gr.


Markmið.


    1. Markmið samnings þessa er að vinna gegn eyðimerkurmyndun og draga úr skaðlegum afleiðingum þurrka í löndum sem eiga við alvarlegan vanda að etja af völdum þurrka og/eða eyðimerkurmyndunar, sérstaklega í Afríku, með virkum aðgerðum á öllum stigum sem studdar eru með alþjóðasamstarfi og samstöðu á grundvelli samþættrar nálgunar samkvæmt Dagskrá 21, með það að markmiði að stuðla að sjálfbærri þróun á áfallasvæðum.

    2. Til þess að ná þessu markmiði er þörf samþættra langtímaaðgerða, einkum á áfallasvæðum, sem beinast samtímis að aukinni framleiðslugetu landsins og endurheimt landgæða, verndun og sjálfbærri nýtingu lands og vatnsauðlinda, með bætt lífsskilyrði að leiðarljósi, einkum í einstökum sveitarfélögum.

3. gr.


Meginreglur.


    Í þeim tilgangi að ná fram markmiði þessa samnings og til að framfylgja ákvæðum hans skulu aðilar m.a. hafa eftirfarandi að leiðarljósi:
    a) að tryggja að ákvarðanir um eðli og framkvæmd áætlana um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun og/eða afleiðingum þurrka séu teknar í samstarfi við íbúa og hlutaðeigandi sveitarfélög, og að á æðri stjórnsýslustigum sé skapað hvetjandi umhverfi til að auðvelda aðgerðir í einstökum löndum eða stöðum;
    b) að efla samvinnu og samræmingu á undirsvæðum, svæðum og um heim allan í anda alþjóðlegrar samstöðu og samstarfs og beina efnahagslegri, mannlegri, skipulagslegri og tæknilegri þekkingu í auknum mæli þangað sem hennar er mest þörf;

    c) að þróa samstarf í anda samstöðu á öllum stigum hins opinbera stjórnkerfis, sveitarfélaga, óháðra félagasamtaka og landráðenda í þeim tilgangi að auka skilning á eðli og gildi lands og takmarkaðra vatnsauðlinda á áfallasvæðum, og til þess að stuðla að sjálfbærri nýtingu þessara auðlinda; og

    d) að taka fullt tillit til sérstakra þarfa og aðstæðna þeirra þróunarlanda á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar, sérstaklega þeirra sem eru minnst þróuð.

II. HLUTI


ALMENN ÁKVÆÐI


4. gr.


Almennar skuldbindingar.


    1. Aðilar samnings þessa skulu hrinda ákvæðum hans í framkvæmd, hver um sig eða sameiginlega, annaðhvort með núverandi eða væntanlegu tvíhliða eða fjölþjóðlegu samstarfi eða samblandi af hvoru tveggja, eftir því sem við á, og leggja áherslu á nauðsyn þess að samræma aðgerðir og móta heilsteypta framkvæmdaáætlun til langs tíma á öllum stigum.
    2. Í því skyni að stuðla að framkvæmd markmiða þessa samnings skulu aðilar hans:
    a) taka upp samþætta stefnu þar sem tekist er á við náttúrulegar, félagslegar og hagrænar hliðar eyðimerkurmyndunar og þurrka;
    b) veita sérstaka athygli, innan hlutaðeigandi alþjóðlegra og svæðisbundinna stofnana, ástandi í þróunarlöndum á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar, hvað varðar alþjóðaviðskipti, markaðsaðstöðu og skuldastöðu, í þeim tilgangi að skapa öflugt alþjóðlegt fjárhagslegt umhverfi sem stuðlar að sjálfbærri þróun;
    c) samþætta aðgerðir til útrýmingar á fátækt og aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka;
    d) stuðla að samstarfi aðildarlanda á áfallasvæðum á sviði umhverfisverndar og verndunar lands og vatnsauðlinda, að því leyti sem slíkt tengist eyðimerkurmyndun og þurrki;
    e) efla samstarf á undirsvæðum og svæðum og alþjóðlegt samstarf;
    f) stuðla að samstarfi hlutaðeigandi milliríkjastofnana;
    g) ákvarða samstarfsskipulag stofnana þar sem þess gerist þörf og leggja áherslu á að komið sé i veg fyrir tvíverknað; og
    h) stuðla að því að nýta núverandi tvíhliða eða fjölhliða fjármálastofnanir og fyrirkomulag, sem afla umtalsverðs fjármagns og beina því til þróunarlanda á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar, til aðgerða gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka.
    3. Þróunarlönd á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar eiga rétt á aðstoð við framkvæmd samnings þessa.

5. gr.


Skuldbindingar aðildarlanda á áfallasvæðum.


    Auk þeirra skuldbindinga sem getið er í 4. gr. skuldbinda aðildarlönd á áfallasvæðum sig til að:
    a) veita aðgerðum gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka nauðsynlegan forgang og veita til þeirra nægilega mikið fjármagn eftir aðstæðum og getu hvers og eins;
    b) gera áætlanir um aðgerðir og forgangsröðun verkefna, innan ramma áætlana og/eða stefnu um sjálfbæra þróun, í baráttunni gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka;
    c) beina sjónum að frumorsökum eyðimerkurmyndunar og gefa sérstakan gaum þeim félags- og efnahagslegu þáttum sem valda henni;
    d) auka almenningsvitund um vandann og stuðla að þátttöku heimamanna, sérstaklega kvenna og ungs fólks, með stuðningi óháðra félagasamtaka, í baráttunni gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka; og
    e) skapa hvetjandi umhverfi með því að efla, eftir því sem þörf krefur, gildandi löggjöf um þessi mál, setja lög þar sem þau eru ekki fyrir hendi og móta langtímastefnu og framkvæmdaáætlanir.


6. gr.


Skuldbindingar þróaðra aðildarlanda.


    Auk þeirra almennu skuldbindinga sem getið er í 4. gr. skuldbinda þróuð aðildarlönd sig til að:
    a) styðja með raunhæfum hætti, samkvæmt samkomulagi, hvert fyrir sig eða sameiginlega, viðleitni þróunarlanda á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar, sérstaklega þeirra í Afríku og minnst þróuðu landanna, til að berjast gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka;
    b) leggja fram umtalsvert fjármagn og veita annan stuðning til þess að aðstoða með virkum hætti þróunarlönd á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar, sérstaklega í Afríku, við að móta og framkvæma eigin langtímaáætlanir og aðferðir í baráttu gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka;
    c) afla nýs fjármagns og viðbótarfjármagns, skv. b-lið 2. mgr. 20. gr.;
    d) stuðla að fjármögnun frá einkaaðilum og öðrum óopinberum aðilum; og

    e) stuðla að og auðvelda aðgengi aðildarlanda á áfallasvæðum, sérstaklega þróunarlanda, að viðeigandi tækni, þekkingu og kunnáttu.



7. gr.


Forgangur Afríku.


    Við framkvæmd samnings þessa skulu aðilar hans veita aðildarlöndum á áfallasvæðum í Afríku forgang, í ljósi hins sérstaka ástands sem ríkir í heimsálfunni, án þess þó að vanrækja þróunarlönd á áfallasvæðum í öðrum heimshlutum sem eru samningsaðilar.

8. gr.


Tengsl við aðra samninga.


    1. Aðilar samnings þessa skulu hvetja til samræmingar aðgerða sem unnið er að í nafni samningsins og annarra sambærilegra alþjóðlegra samþykkta sem þeir eru aðilar að, einkum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og samnings um líffræðilega fjölbreytni, í því skyni að tryggja sem bestan árangur hvers samnings og koma í veg fyrir tvíverknað. Aðilar samningsins skulu hvetja til sameiginlegra áætlana, einkum á sviði rannsókna, þjálfunar, kerfisbundinna athugana og söfnunar og skipta á gögnum, að því leyti sem þær áætlanir geta stuðlað að því að markmiðum slíkra samninga verði náð.

    2. Ákvæði samnings þessa skulu ekki hafa áhrif á réttindi og skyldur nokkurs aðila hans sem honum eru lagðar á herðar með tvíhliða, svæðisbundnum eða alþjóðlegum samningum sem hann gerðist aðili að áður en þessi samningur tók gildi að því er hann varðar.

III. HLUTI


FRAMKVÆMDAÁÆTLANIR, VÍSINDALEGT


OG TÆKNILEGT SAMSTARF


OG STUÐNINGSAÐGERÐIR


1. kafli. Framkvæmdaáætlanir.


9. gr.


Grundvallarstefna.


    1. Við framkvæmd þeirra skuldbindinga sem getið er í 5. gr. skulu þróunarlönd á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar, svo og öll önnur aðildarlönd á áfallasvæðum, innan ramma viðauka um framkvæmdir á einstökum svæðum eða, á annan hátt, sem hafa skriflega tilkynnt fastaskrifstofunni þá áætlun sína að undirbúa framkvæmdaáætlun í viðkomandi landi, eftir því sem við á, undirbúa, kynna opinberlega og hrinda í framkvæmd áætlunum í einstökum löndum sem nýta og byggja, eftir því sem unnt er, á viðeigandi tillögum og áætlunum og á framkvæmdaáætlunum á öðrum undirsvæðum og svæðum, sem reynst hafa vel í baráttunni gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka. Slíkar áætlanir skulu vera í stöðugri endurskoðun samstarfsaðila á grundvelli fenginnar reynslu og niðurstaðna af rannsóknum. Undirbúningur framkvæmdaáætlana í einstökum löndum skal vera í samræmi við aðrar aðgerðir sem hafa það að markmiði að móta stefnu viðkomandi þjóðar um sjálfbæra þróun.
    2. Hjálparaðgerðir þróaðra aðildarlanda skv. 6. gr. skulu fyrst og fremst felast í stuðningi, samkvæmt samkomulagi, við framkvæmdaáætlanir þróunarlanda á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar, þ.e. í einstökum löndum, á undirsvæðum eða svæðum, sérstaklega í Afríku, annaðhvort beint, gegnum viðeigandi alþjóðastofnanir eða hvort tveggja.
    3. Aðilar samnings þessa skulu hvetja til þess að stofnanir, sjóðir, aðrar framkvæmdaáætlanir Sameinuðu þjóðanna og annarra hlutaðeigandi milliríkjastofnana, háskólastofnanir, vísindastofnanir og óháð félagasamtök, sem hugsanlegt er að eiga samstarf við, styðji undirbúning, framkvæmd og eftirfylgni áætlana í samræmi við umboð sitt og getu.


10. gr.


Framkvæmdaáætlanir einstakra ríkja.


    1. Markmið framkvæmdaáætlana einstakra ríkja er að skilgreina þá þætti sem valda eyðimerkurmyndun og þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að koma í veg fyrir eyðimerkurmyndun og draga úr afleiðingum þurrka.
    2. Í slíkum áætlunum skal skilgreina hlutverk stjórnvalda, sveitarfélaga og landnotenda og tilgreina þau úrræði sem fyrir hendi eru og þau sem á vantar. Áætlanirnar skulu m.a.:
    a) fela í sér langtímaaðgerðir til að koma í veg fyrir eyðimerkurmyndun og draga úr afleiðingum þurrka, leggja áherslu á aðgerðir og vera samofnar stefnu viðkomandi ríkis um sjálfbæra þróun;
    b) gera ráð fyrir breytingum á áætlunum í samræmi við breyttar aðstæður og vera nægilega sveigjanlegar til þess að unnt sé að taka tillit til breytilegra félagslegra, efnahagslegra, líffræðilegra og jarðeðlisfræðilegra aðstæðna í viðkomandi héraði;
    c) huga sérstaklega að forvarnaraðgerðum á landsvæðum sem enn hafa ekki rýrnað, eða aðeins rýrnað að litlu leyti;
    d) auka í hverju landi færni á sviði loftslagsfræði, veðurfræði og vatnafræði og getu til að spá fyrir um þurrka;
    e) móta stefnu og efla stofnanir sem stuðla að samstarfi og samræmingu milli þeirra sem veita framlög, allra stiga stjórnkerfisins, heimamanna og samfélagshópa, og auðvelda aðgengi heimamanna að nauðsynlegum upplýsingum og tæknikunnáttu;


    f) stuðla að því að óháð félagasamtök og heimamenn, bæði karlar og konur, sérstaklega þeir er nýta auðlindirnar, þar á meðal bændur, hirðingjar og samtök þeirra, taki virkan þátt, bæði heima í héruðum, í landinu í heild og svæðisbundið, í stefnumótun, ákvarðanatöku, framkvæmd og endurskoðun framkvæmdaáætlana einstakra ríkja; og

    g) krefjast reglubundins yfirlits og skýrslna um framkvæmd áætlana.
    3. Í því skyni að bregðast við þurrki og draga úr afleiðingum hans geta framkvæmdaáætlanir einstakra ríkja m.a. verið fólgnar í því að:
    a) koma á fót og/eða efla eftir þörfum viðvörunarkerfi, bæði heima í héruðum og í löndunum í heild, svo og sameiginleg kerfi á undirsvæðum og svæðum, og kerfisbundnar aðgerðir til að hjálpa fólki sem flosnað hefur upp;
    b) efla viðbúnað gegn þurrkum, þar á meðal að gera áætlanir vegna ófyrirsjáanlegra þurrka í einstökum héruðum, löndum, á undirsvæðum og svæðum, þar sem byggt er á spám um árstíðabundnar veðurfarssveiflur og sveiflur milli ára;
    c) koma á fót og/eða efla eftir þörfum kerfi sem tryggja næg matvæli, þar á meðal góða aðstöðu til geymslu og dreifingar matvæla, sérstaklega til sveita;
    d) auka fjölbreytni atvinnulífsins til að tryggja tekjur á svæðum þar sem hætta er á þurrki; og

    e) þróa sjálfbærar áveituáætlanir, bæði til framleiðslu nytjajurta og búfjárafurða.
    4. Vegna sérstæðra aðstæðna og þarfa hvers aðildarlands á áfallasvæði eru sum eða öll eftirfarandi forgangsverkefni, meðal annarra, hluti af framkvæmdaáætlunum landanna, þar sem þau tengjast aðgerðum gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka á áfallasvæðum og varða íbúa þeirra svæða: Aukin fjölbreytni atvinnulífsins og bætt efnahagslegt umhverfi landanna í þeim tilgangi að efla áætlanir sem hafa það að markmiði að útrýma fátækt og tryggja næg matvæli; lýðfræðilegar breytingar; sjálfbær nýting náttúruauðlinda; sjálfbær landbúnaður; þróun og skynsamleg nýting ýmissa orkulinda; stofnanir og löggjöf; bætt aðstaða til mats og kerfisbundinna athugana, þar á meðal vatnafræðileg og veðurfræðileg þjónusta, og aukin færni, menntun og almenningsvitund.





11. gr.


Framkvæmdaáætlanir á einstökum


undirsvæðum og svæðum.


    Aðildarlönd á áfallasvæðum skulu hafa samráð og samstarf þar sem það á við, samkvæmt viðaukum samnings þessa vegna framkvæmda á einstökum svæðum, við undirbúning framkvæmdaáætlana á einstökum undirsvæðum og/eða svæðum í því skyni að samræma, bæta og auka skilvirkni áætlana í einstökum löndum. Ákvæði 10. gr. skulu, að breyttu breytanda, eiga við um framkvæmdaáætlanir á einstökum undirsvæðum og svæðum. Slíkt samstarf getur verið fólgið í samþykktum sameiginlegum verkefnum sem varða sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda sem eru sameiginlegar fyrir fleiri ríki, í samvinnu á vísinda- og tæknisviðinu og eflingu stofnana sem hlut eiga að máli.

12. gr.


Alþjóðlegt samstarf.


    Aðildarlönd á áfallasvæðum eru hvött til að starfa með aðilum samnings þessa og hinu alþjóðlega samfélagi til að stuðla að öflugri alþjóðlegri samstöðu um framkvæmd samningsins. Slíkt samstarf ætti einnig að ná til tæknimiðlunar, vísindalegra rannsókna og þróunar, söfnunar og dreifingar upplýsinga og til fjármögnunar.



13. gr.


Stuðningur við undirbúning og


framkvæmd áætlana.


    1. Aðgerðir til stuðnings framkvæmdaáætlunum skv. 9. gr. eru m.a.:
    a) fjárhagslegt samstarf til að styrkja gerð framkvæmdaáætlana í því skyni að stuðla að gerð nauðsynlegra langtímaáætlana;
    b) gerð og nýting samstarfsvettvangs er stuðli að stuðningi heima í héruðum, þar á meðal aðgerðir óháðra félagasamtaka, í þeim tilgangi að hvetja til endurtekinnar notkunar tilraunaverkefna sem reynst hafa vel, þar sem það á við;
    c) aukinn sveigjanleiki við skipulagningu verkefna, fjármögnun og framkvæmdir og við endurtekningu tilraunaverkefna með þátttöku heimamanna og í samstarfi við þá; og
    d) aðferðir við stjórnun og fjárhagsáætlanagerð, eftir því sem við á, til að auka skilvirkni samstarfs og stuðningsaðgerða.
    2. Veita skal aðildarlöndum í Afríku og minnst þróuðum aðildarlöndum forgang þegar þróunarlöndum á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar er veittur stuðningur.

14. gr.


Samræming undirbúnings og


framkvæmdar áætlana.


    1. Aðilar samnings þessa skulu hafa með sér náið samstarf við undirbúning og framkvæmd áætlana, bæði beint og fyrir milligöngu viðkomandi milliríkjastofnana.
    2. Aðilar samnings þessa skulu koma á fót starfsvettvangi, sérstaklega á lands- og héraðsvísu, til að tryggja eins góða samræmingu og unnt er milli þróaðra aðildarlanda, þróunarlanda sem eru samningsaðilar, hlutaðeigandi milliríkjastofnana og óháðra félagasamtaka í því skyni að forðast tvíverknað, samræma inngrip og aðferðir og tryggja hámarksárangur aðstoðar. Í þróunarlöndum á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar skal veita forgang þeim samræmingaraðgerðum sem tengdar eru alþjóðasamstarfi í því skyni að nýta fjármagn sem best, til að tryggja virk viðbrögð og til að auðvelda framkvæmd áætlana einstakra ríkja og forgangsverkefna sem unnið er að undir merkjum þessa samnings.

15. gr.


Viðaukar vegna framkvæmda á


einstökum svæðum.


    Efnisatriði sem ætlað er að vera hluti framkvæmdaáætlana skal velja og aðlaga að ríkjandi félagslegum, efnahagslegum, landfræðilegum og veðurfarslegum skilyrðum á áfallasvæðum eða í aðildarlöndum á áfallasvæðum, og jafnframt að þróunarstigi þeirra. Leiðbeiningar við undirbúning framkvæmdaáætlana, nákvæmar áherslur þeirra og efnisþættir fyrir sérstök undirsvæði og svæði eru í viðaukum vegna framkvæmda á einstökum svæðum.

2. kafli. Vísinda- og tæknisamstarf.


16. gr.


Söfnun, greining og skipti á gögnum.


    Aðilar samnings þessa samþykkja, í samræmi við getu hvers og eins, að samþætta og samræma söfnun, greiningu og gagnkvæm skipti á skammtíma- og langtímagögnum og upplýsingum til að tryggja kerfisbundið eftirlit með hnignun lands á áfallasvæðum og til að skilja betur og meta ferli og afleiðingar þurrka og eyðimerkurmyndunar. Þetta myndi m.a. gera kleift að koma á fót viðvörunarkerfum og gera áætlanir fyrirfram um aðgerðir sem allir gætu gripið til, ekki síst heimamenn, þegar veðurfar breytist til hins verra. Í þessu skyni skulu aðilar samningsins, þar sem það á við:

    a) stuðla að og efla starfsemi alþjóðlegs samskiptanets stofnana og skapa aðstæður til söfnunar, greiningar og skipta á gögnum og til kerfisbundinna athugana á öllum stigum sem skulu m.a.:

         (i) stefna að notkun sambærilegra staðla og kerfa;
         (ii) ná til viðkomandi gagna og stöðva, þar á meðal á fjarlægum slóðum;
         (iii) skiptast á nútímatækni og nýta hana við söfnun og dreifingu gagna og við mat á hnignun lands; og
         (iv) tengja gagna- og upplýsingastöðvar í einstökum löndum, á undirsvæðum og svæðum betur við upplýsingabanka sem ná til alls heimsins;
    b) tryggja að söfnun, greining og skipti á gögnum og upplýsingum svari þörfum heimamanna á viðkomandi svæðum og þeirra sem taka ákvarðanir, í þeim tilgangi að leysa sérstök vandamál og til að tryggja að heimamenn séu virkir þátttakendur í þessu starfi;
    c) styðja og þróa tvíhliða og fjölþjóðlegar áætlanir og verkefni sem hafa það að markmiði að skilgreina, stjórna, meta og fjármagna söfnun, greiningu og skipti á gögnum og upplýsingum, m.a. samþættar náttúrufræðilegar, félagslegar og hagfræðilegar vísbendingar;
    d) nýta til fullnustu sérfræðiþekkingu hæfra milliríkjastofnana og óháðra félagasamtaka, sérstaklega í þeim tilgangi að dreifa mikilvægum upplýsingum og reynslu til markhópa á ólíkum svæðum;

    e) leggja áherslu á söfnun, greiningu og skipti á gögnum um félags- og efnahagslegar aðstæður og samþættingu þeirra við náttúrufræðileg gögn;
    f) skiptast á gögnum og gera að fullu og tafarlaust aðgengilegar allar upplýsingar sem eru opnar almenningi og sem varða baráttu gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka; og
    g) skiptast, að svo miklu leyti sem löggjöf og/eða opinber stefna í hverju landi heimilar, á upplýsingum um staðbundna og hefðbundna þekkingu í hverju landi, þó þannig að tryggt sé að sú þekking sé nægilega vernduð og að heimamönnum sem hlut eiga að máli sé greiddur hæfilegur arður af henni, á sanngjörnum grundvelli og samkvæmt gagnkvæmu samkomulagi.

17. gr.


Rannsóknir og þróun.


    1. Aðilar samnings þessa takast á hendur, í samræmi við getu hvers og eins, að stuðla að tæknilegu og vísindalegu samstarfi að tilhlutan stofnana í einstökum löndum, á undirsvæðum og svæðum og alþjóðastofnana í baráttunni gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka. Í þeim tilgangi skulu þeir styðja rannsóknastarfsemi sem:
    a) leiðir til aukinnar þekkingar á þeim þáttum sem orsaka eyðimerkurmyndun og þurrka, og á áhrifum náttúrulegra og mannlegra orsakavalda og greiningu þeirra, með það að markmiði að vinna gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka og stuðla að aukinni framleiðni og sjálfbærri nýtingu og stjórnun auðlinda;
    b) kemur til móts við vel skilgreind markmið og sérstakar þarfir íbúa hvers svæðis og leiðir til þess að fundnar verða úrlausnir og hrundið í framkvæmd aðgerðum sem bæta lífsskilyrði íbúa á áfallasvæðum;
    c) varðveitir, samþættir, styður og staðfestir gildi hefðbundinnar og staðbundinnar þekkingar, kunnáttu og starfsaðferða og tryggir, að svo miklu leyti sem löggjöf og/eða opinbera stefna viðkomandi lands leyfir, að eigendur þessarar þekkingar hljóti beinan arð, á sanngjörnum grundvelli og samkvæmt gagnkvæmu samkomulagi, ef þekkingin er notuð í viðskiptaskyni eða sem grundvöllur tækniþróunar;
    d) þróar og eflir rannsóknaaðstöðu í einstökum löndum, á undirsvæðum og svæðum í þróunarlöndum á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar, sérstaklega í Afríku, og sem eflir staðbundna kunnáttu og viðeigandi færni, sérstaklega í löndum þar sem rannsóknir standa höllum fæti, og leggur sérstaka áherslu á þverfagleg samstarfsrannsóknaverkefni á sviði félags- og hagfræði;
    e) tekur, þar sem svo hagar til, tillit til samhengisins milli fátæktar, fólksflutninga af völdum umhverfisþátta og eyðimerkurmyndunar;
    f) stuðlar að sameiginlegum verkefnum rannsóknastofnana í einstökum löndum, á undirsvæðum og svæðum og alþjóðlegra rannsóknastofnana, bæði í opinbera geiranum og einkageiranum, í þeim tilgangi að þróa bætta, ódýra og aðgengilega tækni í þágu sjálfbærrar þróunar, með virkri þátttöku heimamanna og sveitarfélaga; og

    g) eykur nýtanlegt vatn á áfallasvæðum, m.a. með skýjasöllun.

    2. Í framkvæmdaáætlunum skal forgangsraða rannsóknaverkefnum fyrir einstök svæði og undirsvæði með tilliti til aðstæðna á hverjum stað. Þing aðila samnings þessa skal endurskoða forgangsröðina með reglulegu millibili samkvæmt tillögum vísinda- og tækninefndarinnar.



18. gr.


Miðlun, öflun, aðlögun


og þróun tækni.


    1. Aðilar samnings þessa takast á hendur, samkvæmt gagnkvæmu samkomulagi þar um og í samræmi við löggjöf og/eða opinbera stefnu í viðkomandi löndum, að stuðla að, fjármagna og/eða aðstoða við fjármögnun vegna miðlunar, öflunar, aðlögunar og þróunar vistvænnar, fjárhagslega nothæfrar og félagslega ásættanlegrar tækni til notkunar í baráttunni gegn eyðimerkurmyndun og/eða afleiðingum þurrka, í þeim tilgangi að stuðla að sjálfbærri þróun á áfallasvæðum. Slíkt samstarf skal vera tvíhliða eða fjölþjóðlegt, eftir því sem við á, og nýta skal til fullnustu sérfræðiþekkingu milliríkjastofnana og óháðra félagasamtaka. Aðilar samningsins skulu sérstaklega:
    a) nýta til fullnustu þau upplýsingakerfi sem fyrir hendi eru í einstökum löndum, á undirsvæðum og svæðum og alþjóðleg upplýsingakerfi, svo og stofnanir sem dreifa upplýsingum um tiltæka tækni, uppruna hennar, umhverfishættu sem af henni stafar og meginskilyrði sem sett eru fyrir notkun hennar;
    b) auðvelda, einkum þróunarlöndum á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar, á hagstæðum kjörum, þar á meðal með ívilnunar- og forgangskjörum, samkvæmt gagnkvæmu samkomulagi, með hliðsjón af nauðsyn þess að vernda hugverkaréttindi, aðgang að þeirri tækni sem best hentar sérstökum þörfum heimamanna, með sérstöku tilliti til félagslegra, menningarlegra, efnahagslegra og umhverfislegra áhrifa slíkrar tækni;
    c) stuðla að tæknisamstarfi þróunarlanda á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar með fjárhagsaðstoð eða öðrum viðeigandi hætti;
    d) auka tæknisamstarf við þróunarlönd á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar, þar á meðal með sameiginlegum verkefnum, þar sem það hentar, sérstaklega á sviðum sem gætu aukið fjölbreytni atvinnulífsins; og
    e) grípa til nauðsynlegra aðgerða til að skapa markaðsaðstæður í viðkomandi löndum og fjárhagslegt eða annars konar frumkvæði sem leiða til þróunar, miðlunar, öflunar og aðlögunar gagnlegrar tækni, þekkingar, kunnáttu og starfsaðferða, þar á meðal aðgerða til að tryggja næga og virka verndun hugverkaréttinda.
    2. Aðilar samnings þessa skulu, í samræmi við getu og samkvæmt löggjöf og/eða opinberri stefnu ríkja, varðveita, efla og nota einkum viðeigandi hefðbundnar og staðbundnar tækniaðferðir, þekkingu, kunnáttu og starfsaðferðir, og í því skyni skuldbinda þeir sig til að:
    a) gera úttekt á slíkum tækniaðferðum, þekkingu, kunnáttu og starfsaðferðum og á notagildi þeirra, með þátttöku heimamanna, og dreifa slíkum upplýsingum, þar sem það á við, í samstarfi við viðkomandi milliríkjastofnanir og óháð félagasamtök;

    b) tryggja að slíkar tækniaðferðir, þekking, kunnátta og starfsaðferðir séu nægilega verndaðar og að heimamenn hljóti beinan arð, á sanngjörnum grundvelli og samkvæmt gagnkvæmu samkomulagi, af viðskiptalegri nýtingu þeirra eða af tækniþróun sem byggist á þeim;
    c) hvetja til og styrkja þróun og dreifingu slíkra tækniaðferða, þekkingar, kunnáttu og starfsaðferða eða þróun nýrrar tækni sem byggist á þeim; og

    d) stuðla eftir þörfum að aðlögun slíkra tækniaðferða, þekkingar, kunnáttu og starfsaðferða að almennri notkun og samþætta þær nútímatækni, eftir því sem við á.

3. kafli. Stuðningsaðgerðir.


19. gr.


Aukin færni, menntun og


almenningsvitund.


    1. Aðilar samnings þessa gera sér grein fyrir mikilvægi þess að auka færni, þ.e. að koma á fót stofnunum og stuðla að þjálfun og þróun nauðsynlegrar færni á einstökum stöðum og löndum, með það að markmiði að sporna gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka. Þeir skulu, eftir því sem þörf krefur, stuðla að aukinni færni:
    a) með fullri þátttöku heimamanna á öllum stigum, ekki síst í sveitarfélögum, sérstaklega kvenna og ungs fólks, í samstarfi við óháð og staðbundin félagasamtök;
    b) með því að efla þjálfun og rannsóknafærni á sviði eyðimerkurmyndunar og þurrka í hverju landi;

    c) með því að koma á og/eða auka stuðning og upplýsingaþjónustu með það að markmiði að koma á skilvirkan hátt á framfæri viðeigandi tæknikunnáttu og aðferðum, og með því að þjálfa ráðunauta og meðlimi félagasamtaka í sveitum í samstarfi um verndun og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda;

    d) með því að stuðla að nýtingu og útbreiðslu þeirrar þekkingar, kunnáttu og starfsaðferða sem heimamenn búa yfir í sambandi við tæknileg samstarfsverkefni, þar sem það á við;
    e) með því að aðlaga, þar sem þess gerist þörf, vistvænar tækniaðferðir og hefðbundnar aðferðir í landbúnaði og hjarðlífi að nútíma félags- og efnahagslegum aðstæðum;
    f) með því að veita nauðsynlega þjálfun og leggja til tækni við nýtingu nýrra orkulinda, sérstaklega endurnýjanlegra orkulinda, í þeim tilgangi að draga úr þörf fyrir eldivið sem orkugjafa;
    g) með samstarfi, samkvæmt gagnkvæmu samkomulagi, um að gera þróunarlöndum á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar kleift að skipuleggja og hrinda í framkvæmd áætlunum um söfnun, greiningu og skipti á upplýsingum skv. 16. gr.;
    h) með því að finna nýjar leiðir til að stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi, þar á meðal með þjálfun í nýjum starfsgreinum;
    i) með þjálfun þeirra sem taka ákvarðanir, stjórnenda og starfsfólks sem ber ábyrgð á söfnun og greiningu gagna vegna dreifingar og notkunar forvarnaupplýsinga um þurrkaástand og matvælaframleiðslu;
    j) með því að nýta betur þær stofnanir og þá löggjöf sem fyrir hendi eru í hverju landi og, þar sem þess gerist þörf, koma á fót nýjum stofnunum og setja ný lög, svo og bæta áætlanagerð og stjórnun; og
    k) með starfsmannaskiptum til að stuðla að aukinni færni í aðildarlöndum á áfallasvæðum með gagnkvæmu langtímanámi og rannsóknum.

    2. Þróunarlönd á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar skulu, eftir þörfum og í samstarfi við aðra aðila samningsins og hæfar milliríkjastofnanir og óháð félagasamtök, gera alhliða úttekt á þeirri færni og aðstöðu sem fyrir hendi er á einstökum stöðum og löndum, svo og möguleikum til úrbóta.

    3. Aðilar samnings þessa skulu hafa samstarf sín
á milli og fyrir milligöngu hæfra milliríkjastofnana, svo og við óháð félagasamtök, um framkvæmd og stuðning við aðgerðir til aukinnar almenningsvitundar og fræðslu, bæði í aðildarlöndum á áfallasvæðum og, ef þess gerist þörf, í aðildarlöndum utan þeirra til að auka skilning á orsökum og afleiðingum eyðimerkurmyndunar og þurrka og á nauðsyn þess að ná fram markmiðum þessa samnings. Í þeim tilgangi skulu þeir:
    a) skipuleggja átaksaðgerðir til að auka almenningsvitund;
    b) vinna að því að almenningur hafi ávallt aðgang að upplýsingum sem máli skipta og að víðtækri þátttöku almennings í upplýsinga- og fræðslustarfi;
    c) hvetja til stofnunar samtaka sem vinna að aukinni almenningsvitund;
    d) þróa og skiptast á upplýsinga- og fræðsluefni, á máli viðkomandi þjóðar ef unnt er, skiptast á sérfræðingum og aðstoða þá við að þjálfa starfsfólk frá þróunarlöndum á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar til að annast upplýsinga- og fræðslustarfsemi, og nýta til fullnustu viðeigandi fræðsluefni sem fyrir hendi er hjá hæfum alþjóðastofnunum;
    e) leggja mat á menntunarþörf á áfallasvæðum, semja vandað námsefni á þessu sviði fyrir skóla og auka eftir þörfum lestrarfræðslu fyrir fullorðna og veita öllum, sérstaklega stúlkum og konum, tækifæri til að þekkja, vernda og nýta náttúruauðlindir á áfallasvæðum á sjálfbæran hátt; og

    f) gera þverfaglegar áætlanir þar sem þróun vitundar um eyðimerkurmyndun og afleiðingar þurrka er tengd fræðslukerfinu, m.a. óhefðbundnum kennsluaðferðum, fullorðinsfræðslu, fjarkennslu og hagnýtri fræðslu.
    4. Þing aðila samnings þessa skal koma á og/eða efla net svæðisbundinna fræðslu- og þjálfunarstöðva til að vinna gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka. Starfsemi slíkra neta skal samræmd af stofnun sem verður sett á fót og/eða tilnefnd í þessum tilgangi, til að þjálfa vísinda- og tæknimenn og stjórnendur og efla, þar sem þess gerist þörf, þær stofnanir sem fyrir hendi eru og ábyrgar eru fyrir menntun og þjálfun í aðildarlöndum á áfallasvæðum, í því skyni að samræma áætlanir og skipuleggja upplýsingaskipti milli þeirra á grundvelli fenginnar reynslu. Þessi net skulu hafa náið samstarf við viðkomandi milliríkjastofnanir og óháð félagasamtök til þess að koma í veg fyrir tvíverknað.


20. gr.


Fjármagn.


    1. Fjármögnun er grundvöllur þess að unnt sé að ná fram markmiði samningsins og því skulu aðilar hans, í samræmi við getu hvers og eins, gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja nægilegt fjármagn til framkvæmdaáætlana sem hafa það að markmiði að sporna gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka.
    2. Í þessu samhengi og skv. 7. gr. skuldbinda þróuð aðildarlönd sig, um leið og þau veita aðildarlöndum á áfallasvæðum í Afríku forgang, án þess að vanrækja þróunarlönd á áfallasvæðum á öðrum svæðum sem eru samningsaðilar, til að:
    a) útvega umtalsvert fjármagn, þar á meðal styrki og víkjandi lán, til að styðja framkvæmd áætlana sem hafa að markmiði að sporna gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka;

    b) stuðla að nægilegri fjármögnun, þegar hennar er þörf, þar á meðal útvegun nýs fjármagns og viðbótarfjármagns frá Alþjóðaumhverfisfjármögnunarsjóðnum vegna samþykkts viðbótarkostnaðar við aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun sem snerta fjögur meginviðfangsefni sjóðsins, í samræmi við stofnsamning hans;

    c) stuðla með alþjóðasamstarfi að miðlun tækni, þekkingar og kunnáttu ; og

    d) íhuga, í samstarfi við þróunarlönd á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar, nýjar leiðir til og frumkvæði við að útvega og beina fjármagni, þar á meðal frá sjóðum, óháðum félagasamtökum og öðrum einkaaðilum, sérstaklega með skuldbreytingum og öðrum nýjum leiðum til að auka raunverulegt fjármagn með því að minnka erlenda skuldabyrði þróunarlanda á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar, sérstaklega í Afríku.
    3. Þróunarlönd á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar skuldbinda sig, í samræmi við getu hvers og eins, til að útvega nægilegt fjármagn til að hrinda í framkvæmd áætlunum í viðkomandi löndum.
    4. Við útvegun fjármagns skulu aðilar samnings þessa reyna að nýta til fullnustu og með sem bestum hætti allar fjármögnunarleiðir og -aðferðir, bæði á landsvísu og í gegnum tvíhliða og fjölhliða samtök, nýta viðskiptasambönd, sameiginlegar framkvæmdaáætlanir og fjármögnunarleiðir og leitast við að afla fjármagns frá einkaaðilum, m.a. frá óháðum félagasamtökum. Í þessum tilgangi skulu samningsaðilar nýta til fullnustu þær leiðir sem fjallað er um í 14. gr.
    5. Í því skyni að útvega það fjármagn sem þróunarlönd á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar þurfa á að halda til að sporna gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka skulu aðilar þessa samnings:
    a) hagræða og bæta nýtingu þess fjármagns sem þegar hefur verið veitt til að sporna gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka með því að nota það á sem hagkvæmastan og skilvirkastan hátt, meta kosti og galla hverju sinni, ryðja úr vegi hindrunum sem koma í veg fyrir skilvirka nýtingu fjármagns og endurskoða, þegar þörf krefur, áætlanir í ljósi þeirrar samþættu langtímastefnu sem samningur þessi gerir ráð fyrir;
    b) stuðla að því að stjórnir fjölþjóðlegra fjármálastofnana, annarra fjármögnunaraðila og sjóða, þar á meðal svæðisbundinna þróunarbanka og sjóða, veiti forgang og stuðning við aðgerðir þróunarlanda á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar, sérstaklega í Afríku, til að hrinda samningnum í framkvæmd, einkum framkvæmdaáætlunum sem þau skuldbinda sig til að vinna að innan þess ramma sem lýst er í viðaukum vegna framkvæmda á einstökum svæðum; og
    c) kanna á hvern hátt megi efla samstarf á svæðum og undirsvæðum til stuðnings við aðgerðir í einstökum löndum.
    6. Aðrir aðilar samnings þessa eru hvattir til að leggja endurgjaldslaust fram þekkingu, kunnáttu og tækniaðferðir varðandi eyðimerkurmyndun og/eða fjárveitingar til þróunarlanda á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar.
    7. Með því að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum, sérstaklega að því er varðar fjármögnun og tæknimiðlun, munu þróuð aðildarlönd veita þróunarlöndum á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar, sérstaklega í Afríku, mikilsverða aðstoð við framkvæmd skuldbindinga þeirra samkvæmt samningnum. Við framkvæmd skuldbindinga sinna skulu þróuð aðildarlönd leggja sérstaka áherslu á að efnahagslegar og félagslegar umbætur og útrýming fátæktar hafi forgang í þróunarlöndum á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar, sérstaklega í Afríku.

21. gr.


Skipulag fjármála.


    1. Þing aðila samnings þessa skal koma á fót fjármálakerfi er leitist við að afla sem mests fjármagns til þess að gera þróunarlöndum á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar, sérstaklega í Afríku, kleift að hrinda samningnum í framkvæmd. Í þeim tilgangi skal þingið m.a. gera tillögur um leiðir og stefnumörkun sem:

    a) auðveldar útvegun nauðsynlegs fjármagns í einstökum löndum, á undirsvæðum, svæðum og um heim allan til þeirra aðgerða sem fjallað er um í samningnum;
    b) styður fjölbreytilegar fjármögnunarleiðir, starfsaðferðir og kerfi og mat á þeim, í samræmi við 20. gr.;
    c) veitir aðilum samnings þessa, sem áhuga hafa, og viðeigandi milliríkjastofnunum og óháðum félagasamtökum með reglulegum hætti upplýsingar um fyrirliggjandi fjármagn og fjármagnsleiðir í því skyni að auðvelda samræmingu milli þeirra;
    d) stuðlar, eftir því sem við á, að gerð fyrirkomulags, eins og landgræðslusjóða í einstökum löndum, þar á meðal með þátttöku óháðra félagasamtaka, sem gegni því hlutverki að beina fjármagni með skjótum og virkum hætti til þurfandi svæða í þróunarlöndum á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar; og
    e) eflir núverandi sjóði og fjármálakerfi á einstökum undirsvæðum og svæðum, sérstaklega í Afríku, í því skyni að stuðla að sem árangursríkastri framkvæmd samningsins.
    2. Þing aðila samnings þessa skal vinna að auknum stuðningi ýmissa stofnana Sameinuðu þjóðanna og fjölþjóðlegra fjármálastofnana við aðgerðir í einstökum löndum, á undirsvæðum og svæðum til að gera þróunarlöndum sem eru samningsaðilar kleift að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.
    3. Þróunarlönd á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar skulu nýta sér, stofna til og/eða efla, þar sem þess gerist þörf, samræmingaraðgerðir sem eru samþættar þróunaráætlunum hvers lands, til að tryggja sem besta nýtingu þess fjármagns sem fyrir hendi er. Þau skulu einnig notfæra sér sjálfboðaliðastarf óháðra félagasamtaka, hópa heimamanna og einkaaðila við fjáröflun, til að skipuleggja og framkvæma áætlanir og til að tryggja hópum heimamanna fjármagn. Unnt er að stuðla að þessu með aukinni samræmingu og sveigjanlegri áætlanagerð þeirra sem veita aðstoð.

    4. Í því skyni að auka nýtingu og skilvirkni þeirra fjármálakerfa sem fyrir hendi eru er hér með stofnaður Hnattrænn styrktarsjóður sem ætlað er að stuðla að öflun og stýringu umtalsverðs fjármagns, m.a. til tæknimiðlunar, í formi styrkveitinga og/eða með víkjandi lánum eða með öðrum skilmálum, til þróunarlanda á áfallasvæðum sem eru samningsaðilar. Hnattræni styrktarsjóðurinn skal hlíta fyrirmælum og ákvörðunum þings aðila samnings þessa og vera ábyrgur gagnvart því.
    5. Á fyrsta reglulega fundi sínum skal þing aðila samnings þessa tilgreina aðila er hýsi Hnattræna styrktarsjóðinn. Þingið og aðilinn sem það tilgreinir skulu samþykkja starfsreglur fyrir styrktarsjóðinn sem tryggja m.a. að hann:

    a) tilgreini og skrái viðeigandi tvíhliða og fjölhliða samstarfsáætlanir sem fyrir hendi eru til að hrinda samningnum í framkvæmd;

    b) veiti aðilum samnings þessa ráðgjöf, þegar þess er óskað, um nýjar leiðir til fjármögnunar og fjárhagsaðstoðar og um leiðir til aukinnar samræmingar samstarfs í einstökum löndum;
    c) veiti aðilum sem hafa áhuga og viðeigandi milliríkjastofnunum og óháðum félagasamtökum upplýsingar um fyrirliggjandi fjármagn og fjármögnunarleiðir til að auðvelda samræmingu þeirra á milli; og
    d) gefi þingi aðila samnings þessa skýrslu um starfsemi sína, í fyrsta skipti á öðrum fundi þess.
    6. Á fyrsta fundi þings aðila samnings þessa skal gengið frá samkomulagi við þann aðila, sem það hefur tilgreint til að hýsa Hnattræna styrktarsjóðinn, um rekstur hans og nýta, eftir því sem kostur er, það fjármagn og þann mannafla sem þar er fyrir hendi.

    7. Á þriðja reglulega fundi sínum skal þing aðila samnings þessa endurskoða stefnu, starfsreglur og starfsemi Hnattræna styrktarsjóðsins sem er ábyrgur gagnvart því skv. 4. mgr. og taka tillit til ákvæða 7. gr. Á grundvelli þeirrar endurskoðunar skal þingið íhuga og gera viðeigandi ráðstafanir.


IV. HLUTI


STOFNANIR


22. gr.


Þing aðila samnings þessa.


    1. Þing aðila samnings þessa er hér með stofnað.

    2. Þingið er æðsta stofnun samningsins. Það skal, samkvæmt eigin umboði, taka nauðsynlegar ákvarðanir til að stuðla að skilvirkri framkvæmd hans. Það skal einkum:
    a) endurskoða reglubundið framkvæmd samningsins og starfsemi stofnana hans í ljósi fenginnar reynslu í einstökum löndum, á undirsvæðum og svæðum og um heim allan og á grundvelli þeirrar þróunar sem á sér stað á sviði vísindalegrar og tæknifræðilegrar þekkingar;
    b) stuðla að og auðvelda skipti á upplýsingum um framkvæmdir sem aðilar samningsins hafa unnið að, taka ákvörðun um hvernig og hvenær upplýsingum er komið á framfæri skv. 26. gr., fara yfir skýrslurnar og gera tillögur þeim viðvíkjandi;

    c) koma á fót þeim undirstofnunum sem talin er þörf á til að hrinda samningnum í framkvæmd;

    d) fara yfir skýrslur frá undirstofnunum og marka stefnu í starfi þeirra;
    e) samþykkja og setja með samhljóða samkomulagi starfs- og fjárhagsreglur fyrir sig og allar undirstofnanir;
    f) samþykkja breytingar á samningnum skv. 30. og 31. gr.;
    g) samþykkja starfs- og fjárhagsáætlun fyrir starfsemi sína og undirstofnana sinna og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fjármagna starfsemina;


    h) eftir því sem þörf krefur, leita samstarfs við og nýta þjónustu og upplýsingar viðeigandi aðila eða stofnana, bæði alþjóðlegra og í einstökum löndum og bæði þeirra sem ríkisstjórnir standa að og óháðra;
    i) stuðla að tengslum og efla samband við aðra viðeigandi samninga en forðast tvíverknað; og

    j) standa að öðrum aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að ná fram markmiðum samningsins.

    3. Á fyrsta fundi sínum skal þingið setja sér starfsreglur með samhljóða samkomulagi, þar á meðal um aðferðir við ákvarðanatöku í málum sem enn hefur ekki verið tekið fram í samningnum hvernig tekin skuli ákvörðun um. Um getur verið að ræða ákvæði um tiltekinn meiri hluta sem þarf til að samþykkja sérstakar tillögur.
    4. Bráðabirgðaskrifstofan sem fjallað er um í 35. gr. skal boða til fyrsta fundar þingsins og skal hann haldinn eigi síðar en einu ári eftir að samningurinn tekur gildi. Hafi þingið ekki ákveðið annað skal halda annan, þriðja og fjórða reglulega fundinn árlega, en síðan skal halda reglulegan fund annað hvert ár.


    5. Aukafundir þingsins skulu haldnir samkvæmt ákvörðun sem tekin er á reglulegum fundum eða að skriflegri beiðni einhvers aðila þessa samnings, að því tilskildu að beiðnin hafi hlotið stuðning a.m.k. eins þriðja hluta aðila samningsins innan þriggja mánaða eftir að hún barst þeim frá fastaskrifstofunni.

    6. Á hverjum reglulegum fundi þingsins skal kjósa framkvæmdaráð. Í starfsreglum skal kveðið á um skipulag og starfsreglur ráðsins. Við tilnefningar í ráðið skal gæta þess að þar sé tryggð sanngjörn hnattsvæðisdreifing og hæfilegur fjöldi þátttakenda frá aðildarlöndum á áfallasvæðum, sérstaklega í Afríku.

    7. Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna og sérstofnana þeirra, og aðildarríkja eða áheyrnaraðila þeirra sem ekki eru aðilar að samningnum mega sitja sem áheyrnarfulltrúar á fundum þingsins. Sérhver aðili eða stofnun, hvort sem hún er í einstöku landi eða alþjóðleg, og hvort sem ríkisstjórnir standa að henni eða hún er óháð, sem býr yfir sérþekkingu í málefnum þeim sem samningur þessi nær til, getur átt áheyrnarfulltrúa á fundi þingsins, hafi verið lögð fram ósk um það hjá fastaskrifstofunni, nema a.m.k. einn þriðji hluti viðstaddra aðila greiði atkvæði gegn því. Aðgengi og þátttaka áheyrnarfulltrúa skal vera háð starfsreglum sem þingið setur.

    8. Þingið getur óskað eftir því að viðkomandi stofnanir ríkja eða alþjóðastofnanir, sem ráða yfir viðeigandi sérfræðiþekkingu, veiti þinginu upplýsingar sem varða g-lið 16. gr., c-lið 1. mgr. 17. gr. og b-lið 2. mgr. 18. gr.


23. gr.


Fastaskrifstofa.


    1. Fastaskrifstofu er hér með komið á fót.
    2. Hlutverk fastaskrifstofunnar skal vera að:

    a) undirbúa fundi þings aðila og undirstofnana þess sem settar hafa verið á stofn samkvæmt samningnum, og veita þeim nauðsynlega þjónustu;

    b) safna saman og dreifa skýrslum sem henni berast;
    c) auðvelda, eftir því sem óskað er, aðstoð við þróunarlönd á áfallasvæðum, sérstaklega í Afríku, sem eru samningsaðilar við öflun og dreifingu upplýsinga sem krafist er samkvæmt samningnum;
    d) samræma starfsemi sína og starfsemi skrifstofa annarra viðeigandi alþjóðastofnana og -samninga;

    e) gera, undir leiðsögn þings aðila, stjórnunarlegar og samningsbundnar ráðstafanir sem nauðsynlegar eru vegna starfsemi sinnar;

    f) gera skýrslur um störf sín samkvæmt samningnum og leggja þær fyrir þing aðila; og

    g) annast önnur skrifstofustörf eftir því sem þing aðila ákveður.

    3. Á fyrsta fundi sínum skal þing aðila tilnefna fastaskrifstofu og gera nauðsynlegar ráðstafanir vegna starfsemi hennar.

24. gr.


Vísinda- og tækninefnd.


    1. Vísinda- og tækninefnd er hér með komið á fót sem undirstofnun þings aðila og skal hún veita þinginu upplýsingar og ráðgjöf í vísindalegum og tæknilegum málefnum er varða baráttuna gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka. Nefndin skal koma saman í tengslum við reglulega fundi þingsins, vera þverfaglega skipuð og opin öllum aðilum að samningnum. Í nefndinni skulu eiga sæti fulltrúar stjórnvalda og skulu þeir hafa þekkingu á viðkomandi sérfræðisviðum. Á fyrsta fundi sínum skal þingið ákveða skilmála skipunarbréfs nefndarinnar.


    2. Þing aðila skal gera og viðhalda skrá yfir sjálfstæða sérfræðinga sem ráða yfir sérfræðiþekkingu og reynslu á viðeigandi sviðum. Skráin skal vera byggð á skriflegum tilnefningum aðila samningsins og skal þess gætt að hún sé þverfagleg og að þátttakendur séu víðs vegar að úr heiminum.

    3. Þingið skal, eftir því sem þörf krefur, tilnefna sérstaka starfshópa sem er ætlað að veita því, að tilstuðlan vísinda- og tækninefndarinnar, upplýsingar og ráðgjöf um stöðu mála á sviði vísinda og tækni er varða baráttuna gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka. Í slíkum starfshópum skulu eiga sæti sérfræðingar sem valdir eru af áðurnefndri skrá og skal þess gætt að hóparnir séu þverfaglegir og að þátttakendur séu víðs vegar að úr heiminum. Sérfræðingarnir skulu hafa vísindalega menntun og starfsreynslu og vera tilnefndir af þinginu að fengnum tillögum vísinda- og tækninefndarinnar. Þingið ákveður skilmála skipunarbréfs og starfshætti slíkra starfshópa.



25. gr.


Samskiptakerfi opinberra stofnana og aðila.


    1. Vísinda- og tækninefndin skal, undir yfirumsjón þings aðila, gera ráðstafanir til að fá yfirlit yfir og mat á fyrirliggjandi samskiptakerfum, opinberum stofnunum og aðilum á þessu sviði sem eru fúsir til að taka þátt í nýju samskiptakerfi sem er ætlað að stuðla að framkvæmd samningsins.

    2. Á grundvelli þess yfirlits og mats sem getið er um í 1. mgr. skal vísinda- og tækninefndin leggja fyrir þing aðila tillögur um leiðir og aðferðir til að greiða fyrir og treysta samskipti kerfa í einstökum héruðum, löndum og svæðum í því skyni að tryggja að unnið sé að þeim viðfangsefnum sem tilgreind eru í 16.–19. gr.

    3. Á grundvelli þessara tillagna skal þingið:

    a) tilgreina þær stofnanir í einstökum löndum og á undirsvæðum og svæðum svo og alþjóðastofnanir sem eru best til þess fallnar að taka þátt í slíku samskiptakerfi og gera tillögur um starfsaðferðir þeirra og tímamörk; og
    b) tilgreina þær stofnanir sem eru best til þess fallnar að greiða fyrir og treysta slíkt samskiptakerfi á öllum stigum.

V. HLUTI


STARFSHÆTTIR


26. gr.


Upplýsingaflæði.


    1. Sérhver samningsaðili skal, fyrir milligöngu fastaskrifstofunnar, leggja fram skýrslu á reglulegum fundum þings aðila um aðgerðir sem hann hefur unnið að við framkvæmd samningsins. Þingið skal setja tímamörk varðandi afhendingu og gerð slíkra skýrslna.

    2. Aðildarlönd á áfallasvæðum skulu leggja fram lýsingu á þeim starfsaðferðum sem ákveðnar hafa verið skv. 5. gr. og allar upplýsingar sem máli skipta varðandi framkvæmd þeirra.
    3. Aðildarlönd á áfallasvæðum, sem vinna að framkvæmdaáætlunum skv. 9.–15. gr., skulu leggja fram ítarlega lýsingu á áætlunum sínum og framkvæmd þeirra.
    4. Aðildarlönd á áfallasvæðum geta lagt fram sameiginlega greinargerð um framkvæmd áætlana á einstökum undirsvæðum og/eða svæðum.

    5. Þróuð aðildarlönd skulu gefa skýrslur um aðstoð við undirbúning og framkvæmd áætlana, þar á meðal upplýsingar um fjárhagsaðstoð sem þau hafa veitt eða eru að veita samkvæmt samningi þessum.

    6. Fastaskrifstofan skal, eins fljótt og auðið er, senda þingi aðila og þeim undirstofnunum sem málið varðar þær upplýsingar sem veittar eru skv. 1.–4. mgr.
    7. Þing aðila skal, þegar þess er óskað, auðvelda þróunarlöndum á áfallasvæðum, sérstaklega í Afríku, aðgang að tækni- og fjárhagsaðstoð við söfnun og dreifingu upplýsinga samkvæmt þessari grein og meta þörf fyrir tækni- og fjárhagsaðstoð vegna framkvæmdaáætlana.


27. gr.


Leiðir til lausnar á álitamálum um framkvæmd.


    Þing aðila skal kanna og taka upp starfsaðferðir og stofnanafyrirkomulag til að leysa álitamál sem upp geta komið vegna framkvæmdar samningsins.




28. gr.


Lausn deilumála.


    1. Aðilar samnings þessa skulu leysa öll deilumál sem kunna að rísa milli þeirra um túlkun eða beitingu samningsins með samningum eða öðrum friðsamlegum hætti að eigin vali.
    2. Aðili samnings þessa, sem ekki er svæðisstofnun um efnahagssamvinnu, getur, þegar hann fullgildir, staðfestir eða samþykkir samninginn eða gerist aðili að honum, eða hvenær sem er síðar, sent vörsluaðila skriflega yfirlýsingu um það að rísi deila vegna túlkunar eða beitingar samningsins skuldbindi sá aðili sig til að hlíta annarri eða báðum eftirfarandi leiða til að leysa viðkomandi deilu, svo fremi sem hinn aðili deilunnar geri það einnig:

    a) deilunni er vísað til gerðardóms samkvæmt starfsreglum sem þing aðila setur í viðauka svo fljótt sem auðið er;
    b) deilunni er vísað til Alþjóðadómstólsins.

    3. Svæðisstofnun um efnahagssamvinnu, sem aðili er að samningi þessum, getur gefið yfirlýsingu, sem hefur sama gildi að því er varðar gerðardómsmeðferð, í samræmi við það fyrirkomulag sem getið er um í a-lið 2. mgr.
    4. Yfirlýsing sem gefin er skv. 2. mgr. skal vera í gildi þar til hún rennur út við sett tímamörk eða þar til þrír mánuðir eru liðnir frá því að skrifleg yfirlýsing um afturköllun hennar hefur borist vörsluaðila.
    5. Gildislok yfirlýsingar, tilkynning um afturköllun eða ný yfirlýsing skal ekki á nokkurn hátt hafa áhrif á málaferli fyrir gerðardómi eða Alþjóðadómstólnum, nema deiluaðilar séu sammála um annað.

    6. Hafi deiluaðilar ekki fallist á sömu leið eða hafi þeir fallist á hvoruga leiðanna sem getið er í 2. mgr. og hafi þeir ekki getað leyst deilu sína innan 12 mánaða frá því að annar aðilinn tilkynnti hinum að deila væri risin milli þeirra skal deilan, að ósk hvors deiluaðila sem er, lögð í sátt samkvæmt starfsreglum sem þing aðila setur í viðauka svo fljótt sem auðið er.


29. gr.


Staða viðauka.


    1. Viðaukar eru óaðskiljanlegur hluti samnings þessa og felur tilvísun til samningsins einnig í sér tilvísun til viðauka hans nema skýrt sé kveðið á um annað.

    2. Aðilar samnings þessa skulu túlka ákvæði viðauka í samræmi við réttindi sín og skyldur samkvæmt ákvæðum samningsins.


30. gr.


Breytingar á samningnum.


    1. Sérhverjum aðila samningsins er heimilt að leggja fram breytingartillögur við hann.
    2. Tillögur til breytinga á samningnum skal leggja fram til samþykktar á reglulegum fundum þings aðila. Fastaskrifstofan skal senda aðilum samningsins texta allra breytingartillagna eigi síðar en sex mánuðum fyrir þann fund sem fjalla á um þær. Fastaskrifstofan skal einnig senda öllum þeim sem undirrituðu samninginn breytingartillögurnar.

    3. Aðilar samnings þessa skulu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ná samhljóða samkomulagi um breytingartillögur. Hafi allar tilraunir til samkomulags reynst árangurslausar skal, sem síðasta úrræði, bera tillöguna upp til atkvæða og telst hún samþykkt ef hún hlýtur stuðning tveggja þriðju hluta greiddra atkvæða viðstaddra fulltrúa samningsaðila. Fastaskrifstofan skal tilkynna vörsluaðila um samþykktar breytingar sem skal senda þær öllum aðilum samnings þessa til fullgildingar, staðfestingar, samþykktar eða aðildar.
    4. Skjölum um fullgildingu, staðfestingu eða samþykkt breytingar eða aðild að henni skal komið til vörsluaðila. Breyting sem hefur verið samþykkt skv. 3. mgr. skal öðlast gildi gagnvart þeim aðilum samnings þessa sem samþykktu hana á 90. degi eftir að vörsluaðili tekur við skjölum um fullgildingu, staðfestingu, samþykkt eða aðild a.m.k. tveggja þriðju hluta aðila samningsins sem voru aðilar þegar breytingin var samþykkt.

    5. Breyting skal öðlast gildi gagnvart öllum öðrum aðilum samningsins á 90. degi eftir að þeir hafa afhent vörsluaðila skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykkt umræddrar breytingar eða aðild að henni.
    6. Þegar í grein þessari og 31. gr. er vísað til „greiddra atkvæða viðstaddra fulltrúa aðila samnings þessa“ er átt við viðstadda fulltrúa aðila samnings þessa sem greiða atkvæði með eða móti.

31. gr.


Samþykkt og breyting á viðaukum.


    1. Gera ber tillögu um og samþykkja sérhvern viðauka sem bætist við samninginn og hverja breytingu á viðaukum samkvæmt reglum um breytingu á samningnum sem lýst er í 30. gr., að því tilskildu að þegar samþykktur er viðbótarviðauki vegna svæðisbundinna framkvæmda eða breyting á viðauka vegna svæðisbundinna framkvæmda skulu í þeim meiri hluta sem mælt er fyrir um í sömu grein vera tveir þriðju hlutar greiddra atkvæða viðstaddra fulltrúa samningsaðila á viðkomandi svæði. Vörsluaðili skal tilkynna öllum aðilum um samþykkt eða breytingu á viðauka.
    2. Viðauki, annar en viðbótarviðauki vegna svæðisbundinna framkvæmda, eða breyting á viðauka, önnur en breyting á viðauka vegna svæðisbundinna framkvæmda, sem samþykkt hafa verið skv. 1. mgr., skal öðlast gildi gagnvart öllum aðilum samningsins sex mánuðum eftir að vörsluaðili hefur tilkynnt þeim um samþykki slíks viðauka eða breytingar. Þetta gildir þó ekki um þá aðila samningsins sem hafa, innan þess tíma, tilkynnt vörsluaðila skriflega að þeir samþykki ekki slíkan viðauka eða breytingu. Slíkur viðauki eða breyting skal öðlast gildi gagnvart þeim aðilum samningsins, sem afturkalla tilkynningu sína um að þeir hafi ekki samþykkt, á 90. degi eftir að vörsluaðila berst slík afturköllun í hendur.

    3. Viðbótarviðauki vegna svæðisbundinna framkvæmda eða breyting á viðauka vegna svæðisbundinna framkvæmda, sem hefur verið samþykkt skv. 1. mgr., skal öðlast gildi gagnvart öllum aðilum samningsins sex mánuðum eftir að vörsluaðili tilkynnir aðilunum um samþykkt slíks viðauka eða breytingar, nema hvað varðar:

    a) aðila samningsins sem hefur tilkynnt vörsluaðila skriflega innan slíkra sex mánaða tímamarka að hann hafi ekki samþykkt viðkomandi viðbótarviðauka vegna svæðisbundinna framkvæmda eða breytingu á viðauka vegna svæðisbundinna framkvæmda. Slíkur viðauki eða breyting skal öðlast gildi gagnvart þeim aðilum samningsins, sem afturkalla tilkynningu sína um að þeir hafi ekki samþykkt, á 90. degi eftir að vörsluaðila berst slík afturköllun í hendur; og
    b) aðila samningsins sem hefur gefið yfirlýsingu að því er varðar viðbótarviðauka vegna svæðisbundinna framkvæmda eða breytingar á viðauka vegna svæðisbundinna framkvæmda skv. 4. mgr. 34. gr. Slíkur viðauki eða breyting skal öðlast gildi gagnvart þeim aðila samningsins á 90. degi eftir að hann afhendir vörsluaðila skjal um fullgildingu, staðfestingu, samþykkt eða aðild að því er varðar slíkan viðauka eða breytingu.

    4. Feli samþykki á viðauka eða breytingu á viðauka í sér breytingu á samningnum skal slíkur viðauki eða breyting á viðauka ekki öðlast gildi fyrr en viðkomandi breyting á samningnum hefur öðlast gildi.

32. gr.


Atkvæðisréttur.


    1. Sérhver aðili þessa samnings skal hafa eitt atkvæði, með þeim undantekningum sem getið er í 2. mgr.
    2. Svæðisstofnun um efnahagssamvinnu skal, í málum er falla undir valdsvið hennar, neyta atkvæðisréttar síns með þeim fjölda atkvæða sem er jafn fjölda þeirra aðildarríkja stofnunarinnar sem eru aðilar að samningi þessum. Slík stofnun skal ekki neyta atkvæðisréttar síns ef eitthvert aðildarríkja hennar gerir það, og öfugt.

VI. HLUTI


LOKAÁKVÆÐI


33. gr.


Undirritun.


    Samningurinn skal liggja frammi til undirritunar í París 14.–15. október 1994 af hálfu fulltrúa aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna eða einhverra sérstofnana þeirra eða ríkja sem eru aðilar að samþykktum Alþjóðadómstólsins og fulltrúa svæðisstofnana um efnahagssamvinnu. Samningurinn skal síðan liggja frammi til undirritunar í aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York til 13. október 1995.

34. gr.


Fullgilding, staðfesting, samþykkt og aðild.


    1. Samningur þessi er háður fullgildingu, staðfestingu, samþykkt eða aðild ríkja og svæðisstofnana um efnahagssamvinnu. Aðild að honum skal vera opin frá og með deginum eftir að tíma til undirritunar lýkur. Skjölum um fullgildingu, staðfestingu, samþykkt eða aðild skal komið til vörslu hjá vörsluaðila.
    2. Svæðisstofnun um efnahagssamvinnu sem verður aðili að samningi þessum, án þess að nokkurt aðildarríki hennar sé aðili að honum, skal vera bundin af öllum skuldbindingum samkvæmt samningnum. Séu eitt eða fleiri aðildarríki slíkrar stofnunar einnig aðilar að samningnum tekur stofnunin og aðildarríki hennar ákvörðun um hvernig hvert og eitt þeirra rækir skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum. Í slíkum tilvikum geta ekki bæði stofnunin og aðildarríki samhliða neytt réttar síns samkvæmt samningnum.

    3. Stofnanir um efnahagssamvinnu skulu í skjölum sínum um fullgildingu, staðfestingu, samþykkt eða aðild greina frá valdsviði þeirra í þeim málum sem samningurinn nær til. Enn fremur skulu þær þegar í stað tilkynna vörsluaðila, sem síðan tilkynnir það öðrum aðilum samningsins, ef veruleg breyting verður á valdsviði þeirra.

    4. Í skjölum um fullgildingu, staðfestingu, samþykkt eða aðild geta aðilar samningsins lýst því yfir að hvað þá varðar muni hver viðbótarviðauki vegna svæðisbundinna framkvæmda eða breyting á viðauka vegna svæðisbundinna framkvæmda fyrst öðlast gildi þegar skjal um fullgildingu, staðfestingu, samþykkt eða aðild að téðum viðbótarviðauka eða breytingu er afhent til vörslu.

35. gr.


Bráðabirgðaráðstafanir.


    Starfsemi fastaskrifstofunnar, sem fjallað er um í 23. gr., verður til bráðabirgða í höndum skrifstofu, sem sett var á fót með ályktun Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 47/188 22. desember 1992, þar til fyrsti fundur þings aðila samnings þessa hefur verið haldinn.

36. gr.


Gildistaka.


    1. Samningur þessi öðlast gildi á 90. degi eftir afhendingu 50. skjalsins um fullgildingu, staðfestingu, samþykkt eða aðild.

    2. Að því er varðar hvert ríki eða svæðisstofnun um efnahagssamvinnu, sem fullgildir, staðfestir, samþykkir eða gerist aðili að samningi þessum eftir afhendingu 50. skjalsins um fullgildingu, staðfestingu, samþykkt eða aðild, skal samningurinn öðlast gildi á 90. degi eftir afhendingu skjals viðkomandi ríkis eða svæðisstofnunar um efnahagssamvinnu um fullgildingu, staðfestingu, samþykkt eða aðild.

    3. Að því er varðar 1. og 2. mgr. skal ekki litið svo á að skjal frá svæðisstofnun um efnahagssamvinnu komi til viðbótar þeim skjölum sem aðildarríki stofnunarinnar hafa afhent.


37. gr.


Fyrirvarar.


    Óheimilt er að gera fyrirvara við samning þennan.



38. gr.


Uppsögn.


    1. Aðili samnings þessa getur með skriflegri tilkynningu til vörsluaðila sagt samningi þessum upp hvenær sem er þegar þrjú ár eru liðin frá því að samningurinn öðlast gildi gagnvart honum.
    2. Uppsögn öðlast gildi þegar eitt ár er liðið frá því að vörsluaðili tekur við tilkynningu um uppsögnina, eða síðar, ef það er tekið fram í tilkynningunni.


39. gr.


Vörsluaðili.


    Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal vera vörsluaðili samnings þessa.

40. gr.


Gildir textar.


    Frumriti samnings þessa skal koma til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu og eru arabíski, enski, franski, kínverski, rússneski og spænski textinn jafngildir.


    Þessu til staðfestu
hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

    Gjört í
París hinn 17. júní 1994.


I. viðauki.


Viðauki vegna svæðisbundinna


framkvæmda í Afríku.


1. gr.


Gildissvið.


    Þessi viðauki gildir um Afríku, að því er varðar hvern aðila samnings þessa og í samræmi við samninginn, sérstaklega 7. gr., og er markmiðið að vinna gegn eyðimerkurmyndun og/eða draga úr afleiðingum þurrka á þurrum svæðum, úrkomulitlum svæðum og úrkomulitlum jaðarsvæðum úrkomusvæða álfunnar.

2. gr.


Tilgangur.


    Tilgangur þessa viðauka í einstökum löndum Afríku og á undirsvæðum og svæðum, og í ljósi sérstæðra aðstæðna þar, er að:
    a) skilgreina aðgerðir og fyrirkomulag, þar á meðal eðli og tegund aðstoðar þróaðra aðildarlanda, í samræmi við þau ákvæði samningsins sem við eiga;

    b) tryggja virkar og hagkvæmar aðgerðir við framkvæmd samningsins sem hæfa hinum sérstæðu aðstæðum í Afríku; og
    c) stuðla að aðgerðum og athöfnum í baráttunni gegn eyðimerkurmyndun og/eða afleiðingum þurrka á þurrum svæðum, úrkomulitlum svæðum og úrkomulitlum jaðarsvæðum úrkomusvæða í Afríku.

3. gr.


Sérstæðar aðstæður í Afríku.


    Við framkvæmd skuldbindinga sinna samkvæmt samningi þessum og við framkvæmd þessa viðauka skulu aðilar starfa samkvæmt grundvallarreglum sem taka tillit til eftirfarandi aðstæðna sem eru sérstæðar fyrir Afríku:
    a) mikillar víðáttu þurra svæða, úrkomulítilla svæða og úrkomulítilla jaðarsvæða úrkomusvæða;
    b) mikils fjölda landa og þjóða sem verða fyrir alvarlegum áföllum af völdum eyðimerkurmyndunar og margendurtekinna þurrkatímabila;
    c) mikils fjölda landluktra landa sem eru á slíkum áfallasvæðum;
    d) mikillar fátæktar í flestum þeirra landa sem eru á áfallasvæðum, mikils fjölda hinna minnst þróuðu landa í þeim hópi og þarfar þeirra fyrir umtalsverða aðstoð annarra landa í formi styrkja og víkjandi lána til þess að ná fram þróunarmarkmiðum sínum;

    e) erfiðra félags- og efnahagslegra aðstæðna sem eru enn þungbærari en ella vegna versnandi og sveiflukenndra viðskiptaskilyrða, erlendra skulda og pólitísks óstöðugleika sem leiðir til fólksflutninga innan lands, innan álfunnar og til annarra landa;
    f) lífsafkoma þessara þjóða byggist að miklu leyti á náttúrulegum auðlindum en það, ásamt áhrifum lýðfræðilegrar þróunar, veikri tækniundirstöðu og ósjálfbærum framleiðsluháttum, veldur alvarlegri rýrnun auðlindanna;

    g) ófullkominnar uppbyggingar stofnana og ófullnægjandi löggjafar, veikrar innri skipulagningar og ófullnægjandi vísindalegrar, tæknilegrar og menntunarlegrar stöðu sem veldur því að mikil þörf er fyrir aukna færniþróun; og
    h) vægis aðgerða gegn eyðimerkurmyndun og/eða afleiðingum þurrka fyrir þróun landa á áfallasvæðum í Afríku.


4. gr.


Skuldbindingar og skyldur aðildarlanda


í Afríku.


    1. Aðildarlönd í Afríku skuldbinda sig, í samræmi við getu hvers og eins, til að:
    a) samþykkja að aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun og/eða afleiðingum þurrka verði grundvallaratriði í baráttu þeirra fyrir útrýmingu fátæktar;
    b) stuðla að svæðisbundnu samstarfi og samþættingu, í anda samstöðu og samstarfs, vegna sameiginlegra hagsmuna, að því er varðar áætlanir og aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun og/eða afleiðingum þurrka;
    c) nýta betur og efla þær stofnanir sem fyrir hendi eru og starfa að lausn vandamála á sviði eyðimerkurmyndunar og þurrka, og fá eftir þörfum aðrar stofnanir til samstarfs, í þeim tilgangi að gera þær virkari og tryggja betri nýtingu fjármagns og aðstöðu;
    d) stuðla að auknu upplýsingaflæði á sviði tækni, þekkingar, kunnáttu og starfsaðferða milli landanna; og
    e) þróa neyðaráætlanir vegna óvæntra þurrka til að draga úr áhrifum þeirra á svæðum þar sem landgæði hafa rýrnað af völdum eyðimerkurmyndunar og/eða þurrka.
    2. Aðildarlönd á áfallasvæðum í Afríku skulu, í samræmi við almennar og sérstakar skuldbindingar sem getið er í 4. og 5. gr. samningsins, stefna að því að:
    a) ráðstafa nauðsynlegu fjármagni á fjárlögum í samræmi við ástand og aðstæður í hverju landi, er endurspegli þá auknu áherslu sem ríki Afríku leggja á lausn vanda af völdum eyðimerkurmyndunar og/eða þurrka;
    b) viðhalda og efla umbætur sem unnið er að og sem miða að aukinni valddreifingu og umráðarétti yfir auðlindum og aukinni þátttöku heimamanna og sveitarfélaga; og
    c) finna og virkja nýjar og fleiri fjármögnunarleiðir í hverju landi og leggja megináherslu á að auka og bæta núverandi getu og aðstöðu til að nýta sem best það fjármagn sem fyrir hendi er í hverju landi.

5. gr.


Skuldbindingar og skyldur


þróaðra aðildarlanda.


    1. Við framkvæmd skuldbindinga sinna skv. 4., 6. og 7. gr. samningsins skulu þróuð aðildarlönd veita aðildarlöndum á áfallasvæðum í Afríku forgang og í því sambandi:
    a) aðstoða þau við að sporna gegn eyðimerkurmyndun og/eða afleiðingum þurrka, m.a. með því að veita þeim og/eða auðvelda þeim aðgang að fjármagni og/eða öðrum úrræðum og stuðla að, fjármagna og/eða auðvelda fjármögnun miðlunar, aðlögunar og aðgengis að nauðsynlegri umhverfistækni og -kunnáttu, samkvæmt gagnkvæmu samkomulagi og í samræmi við stefnu hvers lands. Tekið skal tillit til þess að meginmarkmið þessara þjóða er að útrýma fátækt;
    b) halda áfram að veita umtalsvert fjármagn og/eða auka fjármagn til baráttunnar gegn eyðimerkurmyndun og/eða áhrifum þurrka; og
    c) aðstoða þau við að efla stofnanir sínar og auka vísindalega og tæknilega færni, söfnun og greiningu gagna, rannsóknir og þróun með því markmiði að vinna gegn eyðimerkurmyndun og/eða afleiðingum þurrka.


    2. Öðrum aðildarlöndum er heimilt að bjóða aðildarlöndum á áfallasvæðum í Afríku aðstoð á sviði tækni, þekkingar og kunnáttu er varðar eyðimerkurmyndun og/eða fjármagnsleiðir. Unnt er að auðvelda miðlun slíkrar þekkingar, kunnáttu og tækni með alþjóðlegu samstarfi.

6. gr.


Gerð rammaáætlana um


sjálfbæra þróun.


    1. Framkvæmdaáætlanir hvers ríkis skulu vera kjarni og samþættur hluti víðtækari aðgerða við mótun stefnu um sjálfbæra þróun aðildarlanda á áfallasvæðum í Afríku.
    2. Nauðsynlegt er að fram fari ráðgefandi undirbúningsferli með þátttöku viðkomandi opinberra aðila, heimamanna, sveitarfélaga og óháðra félagasamtaka sem er ætlað að vera til leiðbeiningar um sveigjanlegar áætlanir þar sem gert er ráð fyrir sem mestri þátttöku heimamanna og sveitarfélaga. Tvíhliða og fjölhliða stuðningsstofnanir geta, eftir þörfum og að beiðni aðildarlands á áfallasvæði í Afríku, tekið þátt í þessu ferli.

7. gr.


Tímaáætlun fyrir undirbúning


framkvæmdaáætlana.


    Aðildarlönd í Afríku skulu, þar til samningur þessi öðlast gildi, í samstarfi við aðra þátttakendur í hinu alþjóðlega samfélagi og eftir því sem frekast leyfir, beita til bráðabirgða þeim ákvæðum samningsins er varða undirbúning að framkvæmdaáætlunum í einstökum löndum, á undirsvæðum og svæðum.

8. gr.


Efni framkvæmdaáætlana einstakra ríkja.


    1. Skv. 10. gr. samnings þessa skal í framkvæmdaáætlunum einstakra ríkja í grundvallaratriðum lögð áhersla á samþættar, svæðisbundnar þróunaráætlanir fyrir áfallasvæði, byggðar á víðtæku samstarfi og samræmingu aðgerða til útrýmingar fátæktar og aðgerða gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka. Áætlanir skulu stefna að því að efla getu yfirvalda heima í héruðum, tryggja virka þátttöku heimamanna, sveitarfélaga og hópa, með sérstakri áherslu á menntun og þjálfun, þátttöku óháðra félagasamtaka sem hafa sannað getu sína og eflingu sjálfstæðra opinberra stofnana og aðila.


    2. Framkvæmdaáætlanir einstakra ríkja skulu, eftir því sem við á, fela í sér eftirfarandi almenn atriði:
    a) að nýta við þróun og framkvæmd áætlana fengna reynslu í baráttunni gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka og taka tillit til félagslegra, efnahagslegra og vistfræðilegra aðstæðna;

    b) að gera grein fyrir þeim þáttum sem stuðla að eyðimerkurmyndun og/eða þurrkum, auðlindum og færni sem fyrir hendi er og sem þörf er á, mótun nauðsynlegrar stefnu, viðbragða og aðgerða stofnana og annarra til að sporna gegn þessum eyðingaröflum og/eða til að draga úr áhrifum þeirra; og
    c) að auka þátttöku heimanna og sveitarfélaga, þar á meðal kvenna, bænda og hirðingja, og leggja þeim meiri stjórnunarábyrgð á herðar.

    3. Framkvæmdaáætlanir einstakra ríkja skulu einnig, eftir því sem við á, fela í sér eftirfarandi:
    a) aðgerðir til að bæta efnahagslegt umhverfi, í þeim tilgangi að útrýma fátækt:
         (i) að auka tekjur og atvinnutækifæri, sérstaklega hinna verst settu í samfélaginu, með því að:

—    koma á fót markaði fyrir landbúnaðarafurðir;

—    setja á laggirnar fjármálakerfi sem yrði aðlagað þörfum á hverjum stað;
—    hvetja til fjölbreytni og stofnunar fyrirtækja í landbúnaði; og
—    þróa fjármálastarfsemi í hliðargreinum landbúnaðar og greinum utan landbúnaðar;
         (ii) að bæta langtímaefnahagshorfur í sveitarhéruðum með því að:
—    hvetja til nýrra, arðbærra fjárfestinga og auðvelda aðgang að framleiðsluháttum; og
—    taka upp stefnu í verðlags- og skattamálum og í viðskiptaháttum sem stuðlar að hagvexti;
         (iii) að skilgreina og framkvæma stefnu í búsetumálum og búferlaflutningum í því skyni að draga úr búsetuálagi á land; og
         (iv) að hvetja til ræktunar nytjaplantna sem þola þurrka og til samþættra ræktunaraðferða á úrkomulitlum svæðum til að tryggja nægileg matvæli;
    b) aðgerðir sem stuðla að verndun náttúruauðlinda:
         (i) að tryggja samþætta og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, þar á meðal:
—    ræktunar- og beitilanda;
—    gróðurs og dýralífs;
—    skóga;
—    vatnsauðlinda; og
—    líffræðilegrar fjölbreytni;
         (ii) að efla umhverfisvitund fólks, auka fræðslu um umhverfismál og dreifingu á tækniþekkingu sem varðar sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda; og


    (iii) að tryggja þróun og hagkvæma nýtingu mismunandi orkulinda og nýrra orkulinda, sérstaklega sólarorku, vindorku og lífræns gass, og gera sérstakar ráðstafanir vegna miðlunar, öflunar og aðlögunar viðeigandi tækni til að draga úr nýtingu viðkvæmra náttúruauðlinda;

    c) aðgerðir til að bæta uppbyggingu stofnana:
         (i) að skilgreina hlutverk og ábyrgð stjórnvalda og sveitarfélaga varðandi stefnu í landnýtingu;

         (ii) að hvetja til raunverulegrar valddreifingar, fela sveitarstjórnum aukna ábyrgð á stjórnun og ákvarðanatöku, stuðla að auknu frumkvæði og ábyrgðartilfinningu sveitarfélaga og koma á fót viðeigandi aðstöðu í héraði; og

         (iii) að aðlaga eftir þörfum stofnanaleg og lagaleg atriði sem varða nýtingu náttúruauðlinda í því skyni að tryggja umráðarétt heimamanna yfir landinu;
    d) aðgerðir til aukinnar þekkingar á eyðimerkurmyndun:
         (i) að efla rannsóknir og söfnun, úrvinnslu og skipti á gögnum sem varða vísindalegar, tæknilegar og félags- og efnahagslegar hliðar eyðimerkurmyndunar;
         (ii) að bæta aðstöðu í viðkomandi löndum til rannsókna og söfnunar, úrvinnslu, skipta og greiningar á gögnum í því skyni að auka skilning og gera niðurstöður gagna nýtanlegar; og

         (iii) að hvetja til meðal- og langtímarannsókna á:
—    félags- og efnahagslegum og menningarlegum sveiflum á áfallasvæðum;
—    breytingum á magni og gæðum náttúruauðlinda; og
—    samspili loftslags og eyðimerkurmyndunar; og

    e) aðgerðir til að fylgjast með þurrkum og meta áhrif þeirra:
         (i) að þróa aðferðir til að meta áhrif náttúrulegra veðurfarsbreytinga á svæðisbundna þurrka og eyðimerkurmyndun, og/eða nota spár um veðurfarsbreytingar milli árstíða eða milli ára til að draga úr afleiðingum þurrka;
         (ii) að bæta viðvörunarkerfi og viðbragðsgetu, tryggja góða stjórnun neyðar- og matvælahjálpar, bæta aðstöðu til geymslu og dreifingar matvæla, gera áætlanir um nautgripavernd og opinberar framkvæmdir og auka fjölbreytni atvinnulífsins á svæðum þar sem hætta er á þurrkum; og
         (iii) að fylgjast með og meta vistfræðilega rýrnun landgæða til að afla í tíma áreiðanlegra gagna um eðli og hraða slíkrar rýrnunar í því skyni að auðvelda stefnumótun og viðbrögð.


9. gr.


Mótun framkvæmdaáætlana einstakra ríkja


og framkvæmda- og matsmælikvarða.


    Hvert aðildarland á áfallasvæði í Afríku skal koma á fót samræmingarnefnd sem skal eiga frumkvæði að undirbúningi, framkvæmd og mati á árangri framkvæmdaáætlunar landsins. Samræmingarnefndin skal skv. 3. gr. og eftir þörfum:

    a) skilgreina og gera yfirlit yfir aðgerðir er hefjist með samráði heima í héruðum, með þátttöku heimamanna og sveitarfélaga og í samstarfi sveitarstjórna, þróaðra aðildarlanda, milliríkjastofnana og óháðra félagasamtaka, á grundvelli viðræðna við þá sem um málin fjalla í viðkomandi landi;


    b) skilgreina og skýra erfiðleika, þarfir og annmarka sem hafa áhrif á þróun og sjálfbæra landnýtingu og gera tillögur um hagkvæmar aðgerðir í því skyni að forðast tvíverknað með því að nýta sem best þau verkefni sem unnið er að á þessum sviðum og koma niðurstöðum þeirra í framkvæmd;
    c) auðvelda, móta og skilgreina framkvæmdaáætlanir sem byggjast á víxlverkandi og sveigjanlegum aðferðum, í þeim tilgangi að stuðla að virkri þátttöku íbúa á áfallasvæðum, að draga sem mest úr neikvæðum áhrifum slíkra framkvæmda og að skilgreina þörf fyrir fjárhagsaðstoð og tæknileg samskipti og raða þeim í forgangsröð;
    d) þróa viðeigandi matsaðferðir, byggðar á mælingum, sem auðvelt er að endurtaka, til að meta og dæma framkvæmdaáætlanir landsins, til skamms, meðallangs og langs tíma, og til að meta framkvæmd og árangur slíkra áætlana; og

    e) gera áfangaskýrslur um framkvæmd áætlana landsins.

10. gr.


Skipulagsrammi framkvæmdaáætlana


á undirsvæðum.


    1. Skv. 4. gr. samningsins skulu aðildarlönd í Afríku hafa samstarf um undirbúning og framkvæmd áætlana á undirsvæðum í Mið-, Austur-, Norður-, Suður- og Vestur-Afríku, og geta þau falið viðeigandi milliríkjastofnunum á undirsvæðum eftirfarandi verkefni:

    a) að vera þungamiðja við undirbúning og samræmingu á framkvæmd áætlana á þessum undirsvæðum;
    b) að aðstoða við undirbúning og framkvæmd áætlana í einstökum löndum;
    c) að auðvelda skipti á upplýsingum, reynslu og þekkingu og veita ráðgjöf við endurskoðun löggjafar í einstökum löndum; og
    d) öll önnur verkefni er varða framkvæmd áætlana á viðkomandi undirsvæðum.
    2. Sérhæfðar stofnanir á þessum undirsvæðum geta veitt stuðning, ef þess er óskað, og/eða þeim má fela þá ábyrgð að samræma aðgerðir á sérsviðum hverrar þeirra.

11. gr.


Efni og undirbúningur framkvæmdaáætlana


á undirsvæðum.


    Framkvæmdaáætlanir á undirsvæðum skulu beinast að verkefnum sem hagkvæmast er að leysa á undirsvæðum. Komið verði á stjórnun á nýtingu sameiginlegra náttúruauðlinda, þar sem þess gerist þörf. Leitast skal við að finna skynsamlega lausn á vandamálum vegna eyðimerkurmyndunar og/eða þurrka sem ná yfir landamæri ríkja og styðja skal samstillta framkvæmd áætlana í einstökum löndum. Forgangsatriði í framkvæmdaáætlunum á undirsvæðum skulu, eftir því sem við á, vera:
    a) sameiginlegar áætlanir um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda sem eru sameiginlegar tveimur eða fleiri löndum með tvíhliða og fjölhliða stjórnun, eftir því sem við á;
    b) samræmdar áætlanir um þróun nýrra orkugjafa;

    c) samstarf um varnir gegn meindýrum og sjúkdómum í plöntum og dýrum;
    d) aukin færni, menntun og almenningsvitund með aðgerðum sem er hagkvæmast að framkvæma eða styrkja á undirsvæðum;
    e) vísindalegt og tæknilegt samstarf, sérstaklega á sviði loftslagsfræði, veðurfræði og vatnafræði, þar á meðal með samskiptakerfum fyrir gagnasöfnun og gagnamat, upplýsingaflæði og eftirlit með verkefnum, og samræming og forgangsröðun verkefna á sviði rannsókna og þróunar;
    f) viðvörunarkerfi og sameiginlegar áætlanir til að draga úr áhrifum þurrka, þar á meðal aðgerðir til að takast á við vandamál vegna búferlaflutninga sem breytingar á umhverfisaðstæðum valda;
    g) könnun á leiðum til að skiptast á reynslu, sérstaklega varðandi þátttöku heimamanna og sveitarfélaga, og að skapa umhverfi er stuðlar að bættri landnýtingu og notkun hagkvæmrar tækni;

    h) að auka getu samtaka á viðkomandi undirsvæðum til að samræma og veita tæknilega þjónustu, og koma á fót, endurskipuleggja og efla miðstöðvar og stofnanir á undirsvæðum; og

    i) mótun stefnu á ýmsum sviðum, svo sem í viðskiptum, sem hafa mikla þýðingu á áfallasvæðum og fyrir íbúa þeirra, þar á meðal stefnu um samræmd markaðssvæði á viðkomandi undirsvæðum og um sameiginlega innri skipulagningu viðkomandi undirsvæða.

12. gr.


Skipulagsrammi svæðisbundinnar


framkvæmdaáætlunar.


    1. Skv. 11. gr. samnings þessa skulu aðildarlönd í Afríku taka sameiginlega ákvarðanir um aðferðir við undirbúning og framkvæmd svæðisbundinnar áætlunar.
    2. Aðilar samnings þessa geta veitt viðkomandi svæðisbundnum stofnunum og samtökum í Afríku nauðsynlega aðstoð til að gera aðildarlöndum í álfunni auðveldara um vik að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.

13. gr.


Efni svæðisbundinnar framkvæmdaáætlunar.


    Svæðisbundin framkvæmdaáætlun kveður á um aðgerðir til að vinna gegn eyðimerkurmyndun og/eða draga úr afleiðingum þurrka og nær, eftir því sem við á, til eftirtalinna forgangsverksviða:
    a) að koma á svæðisbundnu samstarfi og samræmingu um framkvæmdaáætlanir á undirsvæðum til að ná svæðisbundnu samkomulagi um grundvallarstefnuatriði, m.a. með reglubundnum viðræðum við samtök á viðkomandi undirsvæðum;
    b) að auka getu til aðgerða sem hagkvæmast er að framkvæma svæðisbundið;
    c) að leita lausna á alþjóðavettvangi á hnattrænum efnahagslegum og félagslegum vandamálum sem hafa áhrif á áfallasvæðum og taka tillit til b-liðar 2. mgr. 4. gr. samningsins;
    d) að auka, milli aðildarlanda á áfallasvæðum í Afríku og undirsvæða og milli þeirra og annarra áfallasvæða, skipti á upplýsingum og miðlun viðeigandi tækni, tækniþekkingu og reynslu sem að gagni má koma; auka vísindalegt og tæknilegt samstarf, einkum á sviði loftslagsfræði, veðurfræði, vatnafræði, þróunar vatnsauðlinda og nýrra orkugjafa; samræmingu rannsóknastarfsemi á undirsvæðum og svæðum; og úttekt á svæðisbundinni forgangsröðun rannsókna og þróunar;

    e) að samræma samskiptakerfi fyrir kerfisbundnar athuganir, mat og upplýsingaskipti og tengja þau við alþjóðleg samskiptakerfi; og

    f) að samræma og efla viðvörunarkerfi og áætlanir vegna óvæntra þurrka á undirsvæðum og svæðum.


14. gr.


Fjármagn.


    1. Skv. 20. gr. samnings þessa og 2. mgr. 4. gr. skulu aðildarlönd á áfallsvæðum í Afríku leitast við að skapa efnahagslegar forsendur til að efla fjármunamyndun, móta stefnu og finna leiðir til að veita fjármagn á virkari hátt til staðbundinna þróunarverkefna, þar á meðal fyrir milligöngu óháðra félagasamtaka, eftir því sem við á.


    2. Skv. 4. og 5. mgr. 21. gr. samnings þessa samþykkja aðilar að gera úttekt á fjármögnunarleiðum í einstökum löndum, á undirsvæðum og svæðum og um heim allan, til að tryggja skynsamlega nýtingu þess fjármagns sem fyrir hendi er og finna veikleika í fjárveitingum, í því skyni að greiða fyrir framkvæmd áætlana. Úttektina skal endurskoða og breyta henni reglubundið með tilliti til nýrra upplýsinga.
    3. Skv. 7. gr. samnings þessa skulu þróuð aðildarlönd halda áfram að veita umtalsvert fjármagn til og/eða auka fjárveitingar og aðra aðstoð við aðildarlönd á áfallasvæðum í Afríku, á grundvelli samstarfssamninga og fyrirkomulags sem vísað er til í 18. gr., og skal m.a. tekið tillit til skulda, alþjóðaviðskipta og markaðsfyrirkomulags skv. b-lið 2. mgr. 4. gr. samningsins.



15. gr.


Skipulag fjármála.


    1. Skv. 7. gr. samningsins, þar sem lögð er áhersla á að veita aðildarlöndum á áfallasvæðum í Afríku forgang, og í ljósi hins sérstaka ástands sem ríkir í heimsálfunni, skulu aðilar samnings þessa gefa sérstakan gaum að framkvæmd í Afríku á ákvæðum d- og e-liða 1. mgr. 21. gr. samningsins, einkum með því að:
    a) stuðla að því að komið verði á fót fyrirkomulagi, eins og landgræðslusjóðum í einstökum löndum, til að beina fjármagni heim í héruð; og
    b) efla sjóði og fjárhagslegt fyrirkomulag sem fyrir hendi er á undirsvæðum og svæðum.
    2. Skv. 20. og 21. gr. samningsins skulu þeir aðilar hans, sem einnig eru aðilar að stjórnum hlutaðeigandi fjármálastofnana á svæðum og undirsvæðum, þar á meðal Þróunarbanka Afríku og Þróunarsjóðs Afríku, stuðla að því að þeim aðgerðum þessara stofnana, sem greiða fyrir framkvæmd þessa viðauka, verði veittur viðeigandi forgangur.

    3. Aðilar samnings þessa skulu, eftir því sem unnt er, auðvelda fjárstreymi til aðildarlanda á áfallasvæðum í Afríku.

16. gr.


Tækniaðstoð og samstarf.


    Aðilar samnings þessa skuldbinda sig, eftir getu hvers og eins, til að greiða fyrir tækniaðstoð og samstarfi við aðildarlönd í Afríku í þeim tilgangi að auka árangur af verkefnum og áætlunum, m.a. með því að:
    a) takmarka umsýslukostnað í sambandi við aðstoð, sérstaklega við stjórnun. Slíkur kostnaður má að öðru jöfnu aðeins vera lágt hlutfall af heildarkostnaði verkefnis til þess að árangur af fjármagninu verði sem mestur;
    b) leggja áherslu á að nota hæfa sérfræðinga hverrar þjóðar eða, þar sem þess gerist þörf, hæfa sérfræðinga frá viðkomandi undirsvæði og/eða svæði, við hönnun, undirbúning og framkvæmd verkefna og stuðla að aukinni sérfræðiþekkingu heimamanna þar sem hún er ekki fyrir hendi; og
    (c) stjórna, samræma og nýta á virkan hátt þá tækniaðstoð sem veitt er.


17. gr.


Miðlun, öflun, aðlögun og aðgengi


að vistvænni tækni.


    Við framkvæmd 18. gr. samningsins, sem varðar miðlun, öflun, aðlögun og þróun tækni, skuldbinda aðilar samnings þessa sig til þess að veita aðildarlöndum í Afríku forgang og að þróa eftir þörfum hjá þeim nýtt fyrirkomulag samstarfs í þeim tilgangi að stuðla að aukinni færni á sviði vísindalegra rannsókna og þróunar og öflunar og dreifingar gagna í því skyni að gera þeim kleift að hrinda í framkvæmd aðgerðum gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka.


18. gr.


Samkomulag um samræmingu og samstarf.


    1. Aðildarlönd í Afríku skulu samræma undirbúning, samningaviðræður og framkvæmd áætlana í einstökum löndum og á undirsvæðum og svæðum. Í þessu skyni geta þau, eftir þörfum, fengið til liðs við sig aðra aðila samningsins og hlutaðeigandi milliríkjastofnanir og óháð félagasamtök.
    2. Markmið slíkrar samræmingar skulu vera að tryggja að fjárhagslegt og tæknilegt samstarf sé í samræmi við samninginn og að tryggja nauðsynlega framvindu í nýtingu og stjórnun fjármagns.

    3. Aðildarlönd í Afríku skulu koma á samráðsfyrirkomulagi í einstökum löndum og á undirsvæðum og svæðum. Slíkt samráðsfyrirkomulag getur:
    a) verið vettvangur til að ræða og koma á samningum um samstarf byggða á framkvæmdaáætlunum í einstökum löndum, á undirsvæðum og svæðum; og
    b) ákveðið framlag aðildarlanda í Afríku og annarra aðila samráðshópa að áætlunum og ákveðið forgangsröð og fyrirkomulag framkvæmda, sem og aðferðir við endurmat og fyrirkomulag fjármögnunar vegna framkvæmda.

    4. Fastaskrifstofan getur, að ósk aðildarlanda í Afríku og skv. 23. gr. samningsins, stuðlað að því að koma á slíku samráðsfyrirkomulagi með því að:

    a) veita ráðgjöf um skipulagningu virks samráðsfyrirkomulags og byggja í því sambandi á fenginni reynslu af slíku fyrirkomulagi;
    b) veita hlutaðeigandi tvíhliða og fjölhliða stofnunum upplýsingar um samráðsfundi og starfsemi og hvetja til virkrar þátttöku þeirra; og



    c) veita aðrar upplýsingar sem gætu orðið að gagni við að koma á eða bæta samráðsfyrirkomulag.

    5. Samræmingaraðilar undirsvæða og svæða skulu m.a.:
    a) gera tillögur um viðeigandi breytingar á samstarfssamningi;
    b) fylgjast með, meta og gefa skýrslur um framkvæmd áætlana sem samþykktar hafa verið fyrir undirsvæði og svæði; og
    c) vinna að því að tryggja virk samskipti og samstarf milli aðildarlanda í Afríku.
    6. Þátttökurétt í samráðshópum skulu, eftir því sem við á, eiga ríkisstjórnir, hagsmunahópar og styrktaraðilar, hlutaðeigandi stofnanir, sjóðir og áætlanir sem unnið er að á vegum Sameinuðu þjóðanna, hlutaðeigandi samtök undirsvæða og svæða og fulltrúar hlutaðeigandi óháðra félagasamtaka. Þátttakendur í hverjum samráðshópi skulu ákvarða hvernig stjórnun og starfsemi hans er háttað.

    7. Skv. 14. gr. samningsins eru þróuð aðildarlönd hvött til að móta að eigin frumkvæði óformlegar reglur um samráð og samræmingu sín á milli í einstökum löndum og á undirsvæðum og svæðum og, að ósk aðildarlands á áfallasvæði í Afríku eða viðeigandi samtaka á undirsvæðum eða svæðum, að taka þátt í samráðsferli í einstökum löndum eða á undirsvæðum eða svæðum, með það að markmiði að meta og bregðast við þörf á aðstoð til að auðvelda framkvæmd.


19. gr.


Eftirfylgni.


    Aðildarlönd Afríku skulu fylgja eftir framkvæmd þessa viðauka samkvæmt samningi þessum eins og hér segir:
    a) í hverju einstöku landi af starfshópi skipuðum af hverju aðildarlandi á áfallasvæði í Afríku, sem m.a. fulltrúar sveitarfélaga skulu eiga sæti í, og skal hann starfa undir yfirumsjón samræmingarnefndar viðkomandi lands sem getið er í 9. gr.;

    b) á undirsvæðum af þverfaglegri vísinda- og tækniráðgjafarnefnd, og skulu aðildarlönd á viðkomandi undirsvæði í Afríku taka ákvörðun um skipun hennar og starfsemi; og

    c) svæðisbundið af starfshópi sem skipaður er samkvæmt viðeigandi ákvæðum samningsins um stofnun Efnahagssambands Afríku og af Vísinda- og tæknilegri ráðgjafarnefnd Afríku.


II. viðauki.


Viðauki vegna svæðisbundinna framkvæmda


í Asíu.


1. gr.


Tilgangur.


    Tilgangur þessa viðauka er að veita leiðbeiningar og fjalla um fyrirkomulag sem stuðlar að árangursríkri framkvæmd samnings þessa í aðildarlöndum á áfallasvæðum í Asíu, í ljósi hinna séstæðu aðstæðna í álfunni.

2. gr.


Sérstæðar aðstæður í Asíu.


    Við framkvæmd skuldbindinga sinna samkvæmt samningnum skulu aðilar hans, eftir því sem við á, taka tillit til eftirfarandi sérstæðra aðstæðna sem eiga við í mismiklum mæli í aðildarlöndum á áfallasvæðum í álfunni:
    a) hinnar hlutfallslega miklu víðáttu landsvæða sem eru á áfallasvæðum eða eru í hættu vegna eyðimerkurmyndunar og þurrka, og hins mikla fjölbreytileika þessara svæða með tilliti til loftslags, landslags, landnýtingar og félags- og efnahagslegra aðstæðna;
    b) mikils álags á náttúruauðlindir vegna öflunar lífsviðurværis;
    c) ríkjandi framleiðsluaðferða sem eru bein afleiðing mikillar fátæktar og valda hnignun lands og miklu álagi á takmarkaðar vatnslindir;
    d) mikilla áhrifa ríkjandi aðstæðna í efnahagsmálum heimsins og félagslegra vandamála eins og fátæktar, lélegs heilsufars og næringarskorts, ótryggrar fæðuöflunar, búferlaflutninga, fólks sem hefur flosnað upp og lýðfræðilegra breytinga;
    e) vaxandi, en ennþá ófullnægjandi, getu stofnana í einstökum löndum til að takast á við vandamál af völdum eyðimerkurmyndunar og þurrka; og
    f) þarfa þessara ríkja fyrir alþjóðlegt samstarf til að framfylgja markmiðum sjálfbærrar þróunar í sambandi við baráttuna gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka.

3. gr.


Fyrirkomulag framkvæmdaáætlana


einstakra ríkja.


    1. Framkvæmdaáætlanir einstakra ríkja skulu vera samþættur hluti heildarstefnu aðildarlanda á áfallasvæðum í álfunni um sjálfbæra þróun.

    2. Aðildarlönd á áfallasvæðum skulu, eftir því sem við á, móta framkvæmdaáætlanir landanna skv. 9.–11. gr. samningsins, með sérstakri áherslu á f-lið 2. mgr. 10. gr. Leita má liðsinnis tvíhliða eða fjölhliða samstarfsstofnana við þetta verkefni eftir þörfum og að ósk viðkomandi aðildarlands á áfallasvæði.

4. gr.


Framkvæmdaáætlanir einstakra ríkja.


    1. Við undirbúning og framkvæmd áætlana í einstökum ríkjum skulu aðildarlönd á áfallasvæðum í álfunni, í samræmi við aðstæður þeirra og markmið og eftir því sem við á, m.a.:
    a) tilnefna viðeigandi aðila er séu ábyrgir fyrir undirbúningi, samræmingu og framkvæmd áætlananna;
    b) virkja íbúa á áfallasvæðum, þar á meðal sveitarfélög, til þátttöku í undirbúningi, samræmingu og framkvæmd áætlana, með samráðsfyrirkomulagi á hverjum stað, í samstarfi við sveitarstjórnir og viðeigandi opinber samtök og óháð félagasamtök;

    c) gera úttekt á umhverfisástandi á áfallasvæðum í því skyni að meta orsakir og afleiðingar eyðimerkurmyndunar og ákveða forgangssvið við aðgerðir;

    d) meta, með þátttöku íbúa á áfallasvæðum, fyrri og núverandi framkvæmdaáætlanir gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka í því skyni að móta aðferðafræði og undirbúa aðgerðir;

    e) undirbúa tækni- og fjárhagsáætlanir á grundvelli upplýsinga um aðgerðir sem fjallað er um í a- til d-liðum;
    f) þróa og beita aðferðum og mælikvörðum til mats á framkvæmd áætlana;

    g) stuðla að samþættri nýtingu vatnasviða, verndun jarðvegs og bættri og skynsamlegri nýtingu vatnsauðlinda;

    h) efla og/eða koma á fót söfnun upplýsinga, mati, eftirfylgni og viðvörunarkerfum á landsvæðum sem eru í hættu vegna eyðimerkurmyndunar og þurrka og taka í því sambandi tillit til loftslagsfræðilegra, veðurfræðilegra, vatnafræðilegra, líffræðilegra og annarra viðeigandi þátta; og
    i) koma á, þar sem um alþjóðlegt samstarf er að ræða, þar á meðal á sviði fjármögnunar og tækni, í anda samstöðu, viðeigandi fyrirkomulagi til að styðja við framkvæmdaáætlanir sínar.
    2. Skv. 10. gr. samningsins skal í framkvæmdaáætlunum einstakra ríkja lögð áhersla á samþættar, staðbundnar þróunaráætlanir á áfallasvæðum, byggðar á samstarfi og samþættum aðgerðum til útrýmingar á fátækt sem lið í baráttunni gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka. Svæðisbundnum aðgerðum framkvæmdaáætlana skal skipa í forgangssvið þar sem tillit er tekið til þess mikla fjölbreytileika áfallasvæða álfunnar sem fjallað er um í a-lið 2. gr.


5. gr.


Framkvæmdaáætlanir á undirsvæðum og


sameiginlegar framkvæmdaáætlanir.


    1. Skv. 11. gr. samnings þessa geta aðildarlönd á áfallasvæðum í Asíu gert gagnkvæmt samkomulag um að hafa samráð og samstarf, eftir því sem við á, við aðra aðila samningsins um undirbúning og framkvæmd áætlana á undirsvæðum eða sameiginlegra áætlana, eftir því sem við á, í því skyni að bæta og auka árangur af áætlunum einstakra ríkja. Hlutaðeigandi aðilar geta orðið sammála um að fela samtökum á undirsvæðum, þar á meðal samtökum í einu eða tveimur löndum, eða sérhæfðum stofnunum ábyrgð varðandi undirbúning, samræmingu og framkvæmd áætlana. Slík samtök eða stofnanir geta einnig verið þungamiðja við kynningu og samræmingu aðgerða skv. 16.–18. gr. samningsins.

    2. Við undirbúning og framkvæmd áætlana á undirsvæðum eða sameiginlegra áætlana skulu aðildarlönd á áfallasvæðum m.a., eftir því sem við á:
    a) skilgreina, í samstarfi við stofnanir viðkomandi landa, forgangssvið í baráttunni gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka, sem hagkvæmara er að fást við með slíkum áætlunum, svo og viðeigandi aðgerðir sem unnt er að hrinda með virkum hætti í framkvæmd innan ramma áætlananna;
    b) meta framkvæmdagetu og starfsemi viðeigandi stofnana á svæðum, undirsvæðum og í einstökum löndum;
    c) leggja mat á þær áætlanir sem unnið er að á sviði eyðimerkurmyndunar og þurrka í öllum eða sumum aðildarlandanna á viðkomandi svæði eða undirsvæði og tengsl þeirra áætlana við framkvæmdaáætlanir í einstökum löndum; og
    d) koma á, þar sem um alþjóðlegt samstarf er að ræða, þar á meðal á sviði fjármögnunar og tækni, í anda samstöðu, viðeigandi tvíhliða og/eða fjölhliða fyrirkomulagi til að styðja við áætlanirnar.

    3. Framkvæmdaáætlanir á undirsvæðum eða sameiginlegar framkvæmdaáætlanir geta falið í sér samþykktar sameiginlegar áætlanir um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, sem eru sameiginlegar tveimur eða fleiri löndum, og varða eyðimerkurmyndun, forgangsröðun við samræmingu og aðrar aðgerðir sem stuðla að aukinni færni, vísindalegt og tæknilegt samstarf, sérstaklega viðvörunarkerfi vegna þurrka og upplýsingaflæði, og leiðir til að efla viðeigandi samtök eða stofnanir á undirsvæðum og önnur samtök og stofnanir.

6. gr.


Svæðisbundnar aðgerðir.


    Svæðisbundnar aðgerðir, sem hafa það að markmiði að stuðla að framkvæmd svæðisbundinna eða sameiginlegra áætlana, geta m.a. verið fólgnar í því að efla stofnanir og fyrirkomulag sem stuðlar að samræmingu og samstarfi í einstökum löndum og á undirsvæðum og svæðum, og stuðla að framkvæmd þeirra mála sem getið er um í 16.–19. gr. samningsins. Þessar aðgerðir geta einnig falið í sér að:
    a) auka og efla tæknileg samstarfsnetkerfi;

    b) undirbúa úttekt á tækni, þekkingu, kunnáttu og starfsaðferðum og á hefðbundinni og staðbundinni tækniþekkingu og kunnáttu, og stuðla að dreifingu og notkun hennar;
    c) meta þörf fyrir tæknimiðlun og stuðla að aðlögun og notkun slíkrar tækni; og

    d) hvetja til áætlana sem stuðla að aukinni almenningsvitund og aukinni færni á öllum stigum, auka þjálfun, rannsóknir og þróun og skapa aðstæður fyrir þróun mannauðs.


7. gr.


Fjármagn og fyrirkomulag.


    1. Aðilar samnings þessa skulu, með tilliti til mikilvægis baráttunnar gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka í Asíu, vinna að útvegun umtalsverðs fjármagns og að fjármálalegu fyrirkomulagi skv. 20. og 21. gr. samningsins.

    2. Aðildarlönd á áfallasvæðum í álfunni skulu, hvert um sig eða sameiginlega, samkvæmt samningnum, á grundvelli samræmingarfyrirkomulagsins sem fjallað er um í 8. gr. og í samræmi við þróunarstefnu hvers lands:
    a) samþykkja aðgerðir til að auka hagkvæmni og efla fyrirkomulag við að útvega fjármagn með opinberum fjárfestingum og einkafjárfestingum í því skyni að ná tilteknum árangri í baráttunni gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka;
    b) skilgreina þörf fyrir alþjóðlegt samstarf til að styðja aðgerðir í einstökum löndum, sérstaklega fjárhagslegt, tæknilegt og tæknifræðilegt samstarf; og

    c) stuðla að þátttöku tvíhliða og/eða fjölhliða, fjármálalegra samstarfsstofnana í þeim tilgangi að tryggja framkvæmd samningsins.

    3. Aðilar samnings þessa skulu einfalda, eins og frekast er unnt, leiðir til að beina fjármagni til aðildarlanda á áfallasvæðum í álfunni.

8. gr.


Samstarf og samræmingarfyrirkomulag.


    1. Aðildarlönd á áfallasvæðum geta, eftir því sem við á og í samstarfi við viðeigandi aðila sem tilnefndir eru skv. a-lið 1. mgr. 4. gr. og aðra aðila þessa samnings í álfunni, komið á fyrirkomulagi, m.a. í þeim tilgangi að:
    a) skiptast á upplýsingum, reynslu, þekkingu og kunnáttu;
    b) stuðla að samstarfi og samræmingu aðgerða, þar á meðal tvíhliða og fjölhliða fyrirkomulags, á undirsvæðum og svæðum;
    c) efla vísindalegt, tæknilegt, tæknifræðilegt og efnahagslegt samstarf skv. 5.–7. gr.;

    d) skilgreina þörf fyrir utanaðkomandi samstarf; og
    e) fylgja eftir og meta framkvæmd áætlana.

    2. Aðildarlönd á áfallasvæðum og aðrir aðilar samnings þessa í álfunni geta einnig, eftir því sem við á og í samráði við aðila sem tilnefndir hafa verið skv. a-lið 1. mgr. 4. gr., haft samráð um og samræmt framkvæmdaáætlanir í einstökum löndum og á undirsvæðum og sameiginlegar áætlanir. Þau geta eftir þörfum gert ráðstafanir til að aðrir aðilar samningsins og viðeigandi milliríkjastofnanir og óháð félagasamtök taki þátt í þessu ferli. Slíkri samræmingu er m.a. ætlað að reyna að tryggja samkomulag um möguleika á alþjóðasamstarfi skv. 20. og 21. gr. samningsins, auka tæknilegt samstarf og stýra fjármagni með þeim hætti að það komi að sem mestu gagni.
    3. Aðildarlönd á áfallasvæðum í álfunni skulu halda samræmingarfundi reglubundið og getur fastaskrifstofan, að ósk þeirra og skv. 23. gr. samningsins, greitt fyrir því að slíkir fundir séu haldnir með því að:
    a) veita ráðgjöf um skipulagningu virks samræmingarfyrirkomulags og byggja í því sambandi á fenginni reynslu af slíku fyrirkomulagi;
    b) veita hlutaðeigandi tvíhliða og fjölhliða stofnunum upplýsingar um samræmingarfundi og hvetja til virkrar þátttöku þeirra; og

    c) veita aðrar upplýsingar sem gætu orðið að gagni við að koma á eða bæta samræmingarfyrirkomulag.

III. viðauki.


Viðauki vegna svæðisbundinna


framkvæmda í rómönsku Ameríku


og á Karíbasvæðinu.


1. gr.


Tilgangur.


    Tilgangur þessa viðauka er að veita almennar leiðbeiningar við framkvæmd samningsins í rómönsku Ameríku og á Karíbasvæðinu í ljósi sérstæðra aðstæðna þar.

2. gr.


Sérstæðar aðstæður í rómönsku Ameríku


og á Karíbasvæðinu.


    Samkvæmt ákvæðum samningsins skulu aðilar hans taka tillit til eftirfarandi sérstæðra aðstæðna í þessum heimshluta:
    a) víðáttumikilla landsvæða sem eru viðkvæm og hafa orðið fyrir miklum skaða af völdum eyðimerkurmyndunar og/eða þurrka og þar sem gætir margra sérkenna sem eru breytileg frá einu svæði til annars. Þetta langvarandi og hraðvaxandi ferli hefur neikvæð félagsleg, menningarleg, efnahagsleg og umhverfisleg áhrif sem eru enn alvarlegri fyrir þá sök að í þessum heimshluta er einhver mesti líffræðilegi fjölbreytileiki sem um getur á jörðinni;
    b) víðtækrar ósjálfbærrar nýtingar auðlinda á áfallasvæðum sem er afleiðing samverkandi náttúrulegra, pólitískra, félagslegra, menningarlegra og efnahagslegra þátta, þar á meðal þátta sem tengdir eru alþjóðlegum efnahagsmálum eins og erlendra skulda, versnandi viðskiptastöðu og viðskiptahátta sem hafa áhrif á markað fyrir landbúnaðar-, sjávar- og timburafurðir; og
    c) mikillar rýrnunar á framleiðslugetu vistkerfa sem er helsta afleiðing eyðimerkurmyndunar og þurrka og sem kemur fram í rýrnandi afurðum í jarðrækt, búfjárrækt og skógrækt og minnkandi líffræðilegum fjölbreytileika. Félagslegar afleiðingar þessa eru aukin fátækt, fólksflutningar, breytingar á byggðamynstri innanlands og rýrnandi lífsgæði. Af þessum sökum verða lönd í þessum heimshluta að takast sameiginlega á við vandamál eyðimerkurmyndunar og þurrka með því að taka upp stefnu sjálfbærrar þróunar í samræmi við umhverfislegt, efnahagslegt og félagslegt ástand í hverju landi.



3. gr.


Framkvæmdaáætlanir.


    1. Samkvæmt samningi þessum, sérstaklega 9.–11. gr., og í samræmi við stefnu sína í þróunarmálum skulu aðildarlönd á áfallasvæðum í þessum heimshluta, eftir því sem við á, hvert fyrir sig undirbúa og framkvæma landsáætlanir gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka sem verða samþættur hluti af stefnu þeirra um sjálfbæra nýtingu. Undirbúa má og framkvæma framkvæmdaáætlanir á undirsvæðum og svæðum í samræmi við þarfir heimshlutans.
    2. Við gerð framkvæmdaáætlana skulu aðildarlönd á áfallasvæðum í þessum heimshluta gefa ákvæði f-liðar 2. mgr. 10. gr. samningsins sérstakan gaum.

4. gr.


Efni framkvæmdaáætlana einstakra ríkja.


    Aðildarlönd á áfallasvæðum í þessum heimshluta skulu, eftir ástandi í hverju landi, m.a. leggja áherslu á eftirfarandi efnisatriði við mótun aðgerða gegn eyðimerkurmyndun og/eða afleiðingum þurrka, skv. 5. gr. samningsins:

    a) aukna færni, menntun og vitund almennings, tæknilegt, vísindalegt og tæknifræðilegt samstarf, fjármagn og fyrirkomulag;

    b) útrýmingu fátæktar og aukin lífsgæði;

    c) að ná fram markmiðum um næg matvæli, sjálfbæra þróun og stjórnun í jarðrækt, búfjárrækt, skógrækt og fjölhliða atvinnustarfsemi;
    d) sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, sérstaklega skynsamlega meðferð vatnasviða;

    e) sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda á hálendi;

    f) skynsamlega nýtingu og verndun jarðvegs og hagkvæma nýtingu vatnsauðlinda;

    g) gerð og framkvæmd neyðaráætlana til að draga úr afleiðingum þurrka;
    h) að efla og/eða koma á upplýsingastarfsemi, mati og eftirfylgni og koma upp viðvörunarkerfum á landsvæðum þar sem er hætta er á eyðimerkurmyndun og þurrkum, og taka í því sambandi tillit til loftslagsfræðilegra, veðurfræðilegra, vatnafræðilegra, líffræðilegra, jarðvegsfræðilegra, hagfræðilegra og félagslegra þátta;
    i) að þróa, stjórna og nýta á hagkvæman hátt mismunandi orkulindir, þar með talið að þróa nýja kosti;
    j) verndun og sjálfbæra notkun líffræðilegrar fjölbreytni samkvæmt ákvæðum samningsins um líffræðilega fjölbreytni;
    k) að taka tillit til lýðfræðilegra sjónarmiða sem tengjast eyðimerkurmyndun og þurrkum; og
    l) að koma á fót eða efla stofnanir og löggjöf varðandi framkvæmd samningsins og vinna m.a. að því að dreifa valdi og starfsemi sem varðar eyðimerkurmyndun og þurrka, með þátttöku sveitarfélaga á áfallasvæðum og samfélagsins í heild.


5. gr.


Tæknilegt, vísindalegt og


tæknifræðilegt samstarf.


    Aðildarlönd á áfallasvæðum í þessum heimshluta skulu, hvert um sig eða sameiginlega, samkvæmt samningnum, sérstaklega 16.–18. gr., og á grundvelli samræmingarfyrirkomulags þess sem getið er í 7. gr.:
    a) vinna að því að efla tæknileg samstarfsnet og upplýsingakerfi í hverju landi, eða net á undirsvæðum og svæðum , og tengja þau eftir þörfum alþjóðlegum upplýsingabönkum;

    b) gera úttekt á þeirri tækni og kunnáttu sem fyrir hendi er og stuðla að dreifingu hennar og notkun;

    c) stuðla að notkun hefðbundinnar tækni, þekkingar, kunnáttu og starfsaðferða skv. b-lið 2. mgr. 18. gr. samningsins;
    d) skilgreina þörf fyrir tæknimiðlun; og

    e) stuðla að þróun, aðlögun, nýtingu og miðlun viðeigandi fyrirliggjandi og nýrrar umhverfisvænnar tækni.

6. gr.


Fjármagn og fyrirkomulag.


    Samkvæmt samningi þessum, sérstaklega 20. og 21. gr., á grundvelli þess samræmingarfyrirkomulags sem getið er í 7. gr. og í samræmi við þróunarstefnu hvers lands skulu aðildarlönd á áfallasvæðum í þessum heimshluta, hvert um sig eða sameiginlega:
    a) samþykkja aðferðir til að auka hagkvæmni og efla fyrirkomulag við að útvega fjármagn með opinberum fjárfestingum og einkafjárfestingum í því skyni að ná ákveðnum árangri í baráttunni gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka;
    b) skilgreina þörf fyrir alþjóðlegt samstarf til að styðja aðgerðir í einstökum löndum; og

    c) stuðla að þátttöku tvíhliða og/eða fjölhliða fjármálalegra samstarfsstofnana í þeim tilgangi að tryggja framkvæmd samningsins.


7. gr.


Skipulag.


    1. Aðildarlönd á áfallasvæðum í þessum heimshluta skulu, í þeim tilgangi að hrinda þessum viðauka í framkvæmd:
    a) skilgreina og/eða styrkja þungamiðjur á landsvísu til að samræma aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun og/eða draga úr afleiðingum þurrka; og
    b) koma á fyrirkomulagi til að samræma starfsemi innlendra þungamiðja í þeim tilgangi að:
         (i) skiptast á upplýsingum og reynslu;
         (ii) samræma aðgerðir á undirsvæðum eða svæðum;
         (iii) efla tæknilegt, vísindalegt, tæknifræðilegt og fjárhagslegt samstarf;
         (iv) skilgreina þörf fyrir utanaðkomandi samstarf; og
         (v) fylgja eftir og meta árangur framkvæmdaáætlana.
    2. Aðildarlönd á áfallasvæðum í heimshlutanum skulu halda samræmingarfundi reglubundið og getur fastaskrifstofan, að ósk þeirra og skv. 23. gr. samningsins, greitt fyrir því að slíkir fundir séu haldnir með því að:
    a) veita ráðgjöf um skipulagningu virks samræmingarfyrirkomulags og byggja í því sambandi á fenginni reynslu af slíku fyrirkomulagi;
    b) veita hlutaðeigandi tvíhliða og fjölhliða stofnunum upplýsingar um samræmingarfundi og hvetja til virkrar þátttöku þeirra; og
    c) veita aðrar upplýsingar sem gætu orðið að gagni við að koma á eða bæta samræmingarfyrirkomulag.

IV. viðauki.


Viðauki vegna svæðisbundinna framkvæmda


við norðanvert Miðjarðarhaf.


1. gr.


Tilgangur.


    Tilgangur viðauka þessa er að veita leiðbeiningar og fjalla um undirbúning er stuðlar að árangursríkri framkvæmd samnings þessa í aðildarlöndum á áfallasvæðum við norðanvert Miðjarðarhaf, í ljósi sérstæðra aðstæðna í þeim heimshluta.




2. gr.


Sérstæðar aðstæður við


norðanvert Miðjarðarhaf.


    Þær sérstæðu aðstæður við norðanvert Miðjarðarhaf sem getið er í 1. gr. eru m.a.:
    a) lítil úrkoma á víðáttumiklum svæðum, árstíðabundnir þurrkar, mjög miklar sveiflur í úrkomu og skyndileg úrfelli;
    b) næringarsnauður jarðvegur sem hætt er við eyðingu og því að yfirborðsskel myndist á honum;
    c) óslétt yfirborð lands með miklum halla og fjölbreytilegt landslag;
    d) mikið tap á skóglendi vegna tíðra skógarelda;

    e) alvarlegt ástand í hefðbundnum landbúnaði sem hefur orsakað brottflutning úr sveitum og minnkandi jarðvegs- og vatnsvernd;
    f) ósjálfbær nýting vatnsauðlinda sem hefur leitt til alvarlegs tjóns á umhverfinu, þar á meðal efnamengunar, saltsöfnunar í jarðvegi og rýrnandi vatnsleiðni hans; og
    g) vaxandi atvinnuuppbygging í strandhéruðum sem er afleiðing vaxandi þéttbýlis, iðnvæðingar, ferðamennsku og landbúnaðar sem byggist á áveitum.

3. gr.


Gerð rammaáætlana um


sjálfbæra þróun.


    1. Framkvæmdaáætlanir einstakra ríkja skulu vera kjarni og samþættur hluti stefnumótunar um sjálfbæra þróun aðildarlanda á áfallasvæðum við norðanvert Miðjarðarhaf.
    2. Koma skal á samráðs- og samstarfsferli, m.a. með þátttöku viðeigandi fulltrúa stjórnvalda, sveitarfélaga og óháðra félagasamtaka, sem ætlað er að vera til leiðbeiningar um sveigjanlegar áætlanir, þar sem gert er ráð fyrir sem mestri þátttöku heimamanna skv. f-lið 2. mgr. 10. gr. samningsins.


4. gr.


Skuldbinding um gerð framkvæmda- og


tímaáætlunar einstakra ríkja.


    Aðildarlönd á áfallasvæðum við norðanvert Miðjarðarhaf skulu móta framkvæmdaáætlanir og, eftir því sem við á, framkvæmdaáætlanir á undirsvæðum eða svæðum eða sameiginlegar framkvæmdaáætlanir. Undirbúningi slíkra áætlana skal ljúka eins fljótt og auðið er.



5. gr.


Undirbúningur og framkvæmd áætlana


einstakra ríkja.


    Við undirbúning og framkvæmd áætlana í einstökum löndum, skv. 9. og 10. gr. samningsins, skal hvert aðildarland á áfallasvæði í þessum heimshluta, eftir því sem við á:
    a) tilnefna viðeigandi aðila er séu ábyrgir fyrir undirbúningi, samræmingu og framkvæmd áætlunar;
    b) virkja íbúa á áfallasvæðum, þar á meðal sveitarfélög, til þátttöku við undirbúning, samræmingu og framkvæmd áætlunarinnar, með samráðsfyrirkomulagi á hverjum stað og í samstarfi við sveitarstjórnir og viðeigandi óháð félagasamtök;

    c) gera úttekt á umhverfisástandi á áfallasvæðum í því skyni að meta orsakir og afleiðingar eyðimerkurmyndunar og ákveða forgangssvið vegna aðgerða;

    d) meta, með þátttöku íbúa á áfallasvæðum, fyrri og núverandi framkvæmdaáætlanir gegn eyðimerkurmyndun og afleiðingum þurrka í því skyni að móta aðferðafræði og undirbúa aðgerðir áætlunarinnar;
    e) undirbúa tækni- og fjárhagsáætlanir á grundvelli upplýsinga um aðgerðir sem getið er í a- til d-liðum; og
    f) þróa og beita aðferðum og mælikvörðum til að fylgjast með og meta framkvæmd áætlunarinnar.


6. gr.


Efni framkvæmdaáætlana einstakra ríkja.


    Í framkvæmdaáætlunum aðildarlanda á áfallasvæðum í þessum heimshluta geta verið fólgnar aðgerðir sem varða:
    a) löggjöf, stofnanir og stjórnunarleg atriði;

    b) landnýtingarmynstur, nýtingu vatnsauðlinda, jarðvegsvernd, skógrækt, framkvæmdir varðandi landbúnað og nýtingu ræktaðra og óræktaðra beitilanda;
    c) stjórnun á nýtingu og verndun villtra dýra og annars líffræðilegs fjölbreytileika;
    d) varnir gegn skógareldum;
    e) aukningu í fjölbreytni atvinnulífsins; og
    d) rannsóknir, þjálfun og almenningsvitund.

7. gr.


Framkvæmdaáætlanir á undirsvæðum og svæðum


og sameiginlegar framkvæmdaáætlanir.


    1. Aðildarlönd á áfallasvæðum í þessum heimshluta geta skv. 11. gr. samnings þessa undirbúið og framkvæmt áætlanir á undirsvæðum og/eða svæðum í því skyni að bæta og auka árangur af áætlunum einstakra ríkja. Tvö eða fleiri aðildarlönd á áfallasvæðum í þessum heimshluta geta á sama hátt orðið ásátt um að undirbúa sameiginlega framkvæmdaáætlun milli landanna.
    2. Ákvæði 5. og 6. gr. skulu að breyttu breytanda eiga við um undirbúning og framkvæmd áætlana á undirsvæðum og svæðum og sameiginlegra áætlana. Auk þess geta slíkar áætlanir falið í sér ákvæði um hvernig staðið skuli að rannsóknar- og þróunarverkefnum varðandi sérstök vistkerfi á áfallasvæðum.

    3. Við undirbúning og framkvæmd áætlana á undirsvæðum og svæðum og sameiginlegra áætlana skulu aðildarlönd á áfallasvæðum í þessum heimshluta, eftir þörfum:
    a) skilgreina, í samstarfi við innlendar stofnanir, markmið landanna varðandi eyðimerkurmyndun sem er hagkvæmara að ná fram með slíkum áætlunum og með viðeigandi aðgerðum sem unnt væri að hrinda í framkvæmd innan ramma áætlananna;
    b) meta framkvæmdagetu og starfsemi viðkomandi stofnana á undirsvæðum, svæðum og í einstökum löndum; og
    c) leggja mat á ríkjandi framkvæmdaáætlanir varðandi eyðimerkurmyndun, sem aðilar samningsins í þessum heimshluta eru að vinna að, og hvernig þær tengjast áætlunum einstakra ríkja.

8. gr.


Samræming áætlana á undirsvæðum og


svæðum og sameiginlegra áætlana.


    Aðildarlönd á áfallasvæðum, sem eru að undirbúa framkvæmdaáætlanir á undirsvæðum eða svæðum eða sameiginlegar framkvæmdaáætlanir, geta komið á fót samræmingarnefnd sem í eiga sæti fulltrúar frá hverju aðildarlandi á áfallasvæði. Nefndin skal gegna því hlutverki að meta árangur baráttunnar gegn eyðimerkurmyndun, samræma áætlanir einstakra ríkja, veita ráðgjöf á mismunandi stigum undirbúnings og framkvæmdar þessara áætlana og vera þungamiðja varðandi eflingu og samræmingu tæknisamstarfs skv. 16.–19. gr. samningsins.

9. gr.


Vanhæfi að því er fjárhagsaðstoð varðar.


    Við framkvæmd áætlana í einstökum löndum, á undirsvæðum og svæðum og sameiginlegra áætlana eiga þróuð aðildarlönd á áfallasvæðum í þessum heimshluta ekki rétt á fjárhagsaðstoð samkvæmt samningi þessum.

10. gr.


Samræming við önnur undirsvæði og svæði.


    Framkvæmdaáætlanir á undirsvæðum og svæðum og sameiginlegar framkvæmdaáætlanir á svæðinu við norðanvert Miðjarðarhaf má undirbúa og hrinda í framkvæmd í samstarfi við áætlanir á öðrum undirsvæðum eða svæðum, sérstaklega í Norður-Afríku.

UNITED NATIONS CONVENTION TO


COMBAT DESERTIFICATION IN THOSE


COUNTRIES EXPERIENCING SERIOUS


DROUGHT AND/OR DESERTIFICATION,


PARTICULARLY IN AFRICA



The Parties to this Convention,
     Affirming that human beings in affected or threatened areas are at the centre of concerns to combat desertification and mitigate the effects of drought,

     Reflecting the urgent concern of the international community, including States and international organizations, about the adverse impacts of desertification and drought,
     Aware that arid, semi-arid and dry sub-humid areas together account for a significant proportion of the Earth's land area and are the habitat and source of livelihood for a large segment of its population,

     Acknowledging that desertification and drought are problems of global dimension in that they affect all regions of the world and that joint action of the international community is needed to combat desertification and/or mitigate the effects of drought,
     Noting the high concentration of developing countries, notably the least developed countries, among those experiencing serious drought and/or desertification, and the particularly tragic consequences of these phenomena in Africa,
     Noting also that desertification is caused by complex interactions among physical, biological, political, social, cultural and economic factors,

     Considering the impact of trade and relevant aspects of international economic relations on the ability of affected countries to combat desertification adequately,
     Conscious that sustainable economic growth, social development and poverty eradication are priorities of affected developing countries, particularly in Africa, and are essential to meeting sustainability objectives,

     Mindful that desertification and drought affect sustainable development through their interrelationships with important social problems such as poverty, poor health and nutrition, lack of food security, and those arising from migration, displacement of persons and demographic dynamics,
     Appreciating the significance of the past efforts and experience of States and international organizations in combating desertification and mitigating the effects of drought, particularly in implementing the Plan of Action to Combat Desertification which was adopted at the United Nations Conference on Desertification in 1977,

     Realizing that, despite efforts in the past, progress in combating desertification and mitigating the effects of drought has not met expectations and that a new and more effective approach is needed at all levels within the framework of sustainable development,
     Recognizing the validity and relevance of decisions adopted at the United Nations Conference on Environment and Development, particularly of Agenda 21 and its chapter 12, which provide a basis for combating desertification,
     Reaffirming in this light the commitments of developed countries as contained in paragraph 13 of chapter 33 of Agenda 21,
     Recalling General Assembly resolution 47/188, particularly the priority in it prescribed for Africa, and all other relevant United Nations resolutions, decisions and programmes on desertification and drought, as well as relevant declarations by African countries and those from other regions,

     Reaffirming the Rio Declaration on Environment and Development which states, in its Principle 2, that States have, in accordance with the Charter of the United Nations and the principles of international law, the sovereign right to exploit their own resources pursuant to their own environmental and developmental policies, and the responsibility to ensure that activities within their jurisdiction or control do not cause damage to the environment of other States or of areas beyond the limits of national jurisdiction,
     Recognizing that national Governments play a critical role in combating desertification and mitigating the effects of drought and that progress in that respect depends on local implementation of action programmes in affected areas,
     Recognizing also the importance and necessity of international cooperation and partnership in combating desertification and mitigating the effects of drought,
     Recognizing further the importance of the provision to affected developing countries, particularly in Africa, of effective means, inter alia substantial financial resources, including new and additional funding, and access to technology, without which it will be difficult for them to implement fully their commitments under this Convention,
     Expressing concern over the impact of desertification and drought on affected countries in Central Asia and the Transcaucasus,
     Stressing the important role played by women in regions affected by desertification and/or drought, particularly in rural areas of developing countries, and the importance of ensuring the full participation of both men and women at all levels in programmes to combat desertification and mitigate the effects of drought,
     Emphasizing the special role of non-governmental organizations and other major groups in programmes to combat desertification and mitigate the effects of drought,
     Bearing in mind the relationship between desertification and other environmental problems of global dimension facing the international and national communities,
     Bearing also in mind the contribution that combating desertification can make to achieving the objectives of the United Nations Framework Convention on Climate Change, the Convention on Biological Diversity and other related environmental conventions,
     Believing that strategies to combat desertification and mitigate the effects of drought will be most effective if they are based on sound systematic observation and rigorous scientific knowledge and if they are continuously re-evaluated,

     Recognizing the urgent need to improve the effectiveness and coordination of international cooperation to facilitate the implementation of national plans and priorities,
     Determined to take appropriate action in combating desertification and mitigating the effects of drought for the benefit of present and future generations,
     Have agreed as follows:

PART I


INTRODUCTION


Article 1


Use of terms


    For the purposes of this Convention:
    (a) “desertification” means land degradation in arid, semi-arid and dry sub-humid areas resulting from various factors, including climatic variations and human activities;

    (b) “combating desertification” includes activities which are part of the integrated development of land in arid, semi-arid and dry sub-humid areas for sustainable development which are aimed at:

         (i) prevention and/or reduction of land degradation;
         (ii) rehabilitation of partly degraded land; and

         (iii) reclamation of desertified land;

    (c) “drought” means the naturally occurring phenomenon that exists when precipitation has been significantly below normal recorded levels, causing serious hydrological imbalances that adversely affect land resource production systems;
    (d) “mitigating the effects of drought” means activities related to the prediction of drought and intended to reduce the vulnerability of society and natural systems to drought as it relates to combating desertification;
    (e) “land” means the terrestrial bio-productive system that comprises soil, vegetation, other biota, and the ecological and hydrological processes that operate within the system;
    (f) “land degradation” means reduction or loss, in arid, semi-arid and dry sub-humid areas, of the biological or economic productivity and complexity of rainfed cropland, irrigated cropland, or range, pasture, forest and woodlands resulting from land uses or from a process or combination of processes, including processes arising from human activities and habitation patterns, such as:

         (i) soil erosion caused by wind and/or water;

         (ii) deterioration of the physical, chemical and biological or economic properties of soil; and

         (iii) long-term loss of natural vegetation;
    (g) “arid, semi-arid and dry sub-humid areas” means areas, other than polar and sub-polar regions, in which the ratio of annual precipitation to potential evapotranspiration falls within the range from 0.05 to 0.65;
    (h) “affected areas” means arid, semi-arid and/or dry sub-humid areas affected or threatened by desertification;

    (i) “affected countries” means countries whose lands include, in whole or in part, affected areas;
    (j) “regional economic integration organization” means an organization constituted by sovereign States of a given region which has competence in respect of matters governed by this Convention and has been duly authorized, in accordance with its internal procedures, to sign, ratify, accept, approve or accede to this Convention;
    (k) “developed country Parties” means developed country Parties and regional economic integration organizations constituted by developed countries.

Article 2


Objective


    1. The objective of this Convention is to combat desertification and mitigate the effects of drought in countries experiencing serious drought and/or desertification, particularly in Africa, through effective action at all levels, supported by international cooperation and partnership arrangements, in the framework of an integrated approach which is consistent with Agenda 21, with a view to contributing to the achievement of sustainable development in affected areas.
    2. Achieving this objective will involve long-term integrated strategies that focus simultaneously, in affected areas, on improved productivity of land, and the rehabilitation, conservation and sustainable man agement of land and water resources, leading to improved living conditions, in particular at the community level.

Article 3


Principles


    In order to achieve the objective of this Convention and to implement its provisions, the Parties shall be guided, inter alia, by the following:
    (a) the Parties should ensure that decisions on the design and implementation of programmes to combat desertification and/or mitigate the effects of drought are taken with the participation of populations and local communities and that an enabling environment is created at higher levels to facilitate action at national and local levels;
    (b) the Parties should, in a spirit of international solidarity and partnership, improve cooperation and coordination at subregional, regional and international levels, and better focus financial, human, organizational and technical resources where they are needed;
    (c) the Parties should develop, in a spirit of partnership, cooperation among all levels of government, communities, non-governmental organizations and landholders to establish a better understanding of the nature and value of land and scarce water resources in affected areas and to work towards their sustainable use; and
    (d) the Parties should take into full consideration the special needs and circumstances of affected developing country Parties, particularly the least developed among them.

PART II


GENERAL PROVISIONS


Article 4


General obligations


    1. The Parties shall implement their obligations under this Convention, individually or jointly, either through existing or prospective bilateral and multilateral arrangements or a combination thereof, as appropriate, emphasizing the need to coordinate efforts and develop a coherent long-term strategy at all levels.

    2. In pursuing the objective of this Convention, the Parties shall:
    (a) adopt an integrated approach addressing the physical, biological and socio-economic aspects of the processes of desertification and drought;
    (b) give due attention, within the relevant international and regional bodies, to the situation of affected developing country Parties with regard to international trade, marketing arrangements and debt with a view to establishing an enabling international economic environment conducive to the promotion of sustainable development;
    (c) integrate strategies for poverty eradication into efforts to combat desertification and mitigate the effects of drought;
    (d) promote cooperation among affected country Parties in the fields of environmental protection and the conservation of land and water resources, as they relate to desertification and drought;
    (e) strengthen subregional, regional and international cooperation;
    (f) cooperate within relevant intergovernmental organizations;
    (g) determine institutional mechanisms, if appropriate, keeping in mind the need to avoid duplication; and
    (h) promote the use of existing bilateral and multilateral financial mechanisms and arrangements that mobilize and channel substantial financial resources to affected developing country Parties in combating desertification and mitigating the effects of drought.

    3. Affected developing country Parties are eligible for assistance in the implementation of the Convention.

Article 5


Obligations of affected country Parties


    In addition to their obligations pursuant to article 4, affected country Parties undertake to:
    (a) give due priority to combating desertification and mitigating the effects of drought, and allocate adequate resources in accordance with their circumstances and capabilities;
    (b) establish strategies and priorities, within the framework of sustainable development plans and/or policies, to combat desertification and mitigate the effects of drought;
    (c) address the underlying causes of desertification and pay special attention to the socio-economic factors contributing to desertification processes;
    (d) promote awareness and facilitate the participation of local populations, particularly women and youth, with the support of non- governmental organizations, in efforts to combat desertification and mitigate the effects of drought; and
    (e) provide an enabling environment by strengthening, as appropriate, relevant existing legislation and, where they do not exist, enacting new laws and establishing long-term policies and action programmes.

Article 6


Obligations of developed country Parties


    In addition to their general obligations pursuant to article 4, developed country Parties undertake to:
    (a) actively support, as agreed, individually or jointly, the efforts of affected developing country Parties, particularly those in Africa, and the least developed countries, to combat desertification and mitigate the effects of drought;

    (b) provide substantial financial resources and other forms of support to assist affected developing country Parties, particularly those in Africa, effectively to develop and implement their own long-term plans and strategies to combat desertification and mitigate the effects of drought;
    (c) promote the mobilization of new and additional funding pursuant to article 20, paragraph 2 (b);
    (d) encourage the mobilization of funding from the private sector and other non-governmental sources; and
    (e) promote and facilitate access by affected country Parties, particularly affected developing country Parties, to appropriate technology, knowledge and know-how.


Article 7


Priority for Africa


    In implementing this Convention, the Parties shall give priority to affected African country Parties, in the light of the particular situation prevailing in that region, while not neglecting affected developing country Parties in other regions.


Article 8


Relationship with other conventions


    1. The Parties shall encourage the coordination of activities carried out under this Convention and, if they are Parties to them, under other relevant international agreements, particularly the United Nations Framework Convention on Climate Change and the Convention on Biological Diversity, in order to derive maximum benefit from activities under each agreement while avoiding duplication of effort. The Parties shall encourage the conduct of joint programmes, particularly in the fields of research, training, systematic observation and information collection and exchange, to the extent that such activities may contribute to achieving the objectives of the agreements concerned.
    2. The provisions of this Convention shall not affect the rights and obligations of any Party deriving from a bilateral, regional or international agreement into which it has entered prior to the entry into force of this Convention for it.


PART III


ACTION PROGRAMMES, SCIENTIFIC AND


TECHNICAL COOPERATION AND


SUPPORTING MEASURES


Section 1: Action programmes


Article 9


Basic approach


    1. In carrying out their obligations pursuant to article 5, affected developing country Parties and any other affected country Party in the framework of its regional implementation annex or, otherwise, that has notified the Permanent Secretariat in writing of its intention to prepare a national action programme, shall, as appropriate, prepare, make public and implement national action programmes, utilizing and building, to the extent possible, on existing relevant successful plans and programmes, and subregional and regional action programmes, as the central element of the strategy to combat desertification and mitigate the effects of drought. Such programmes shall be updated through a continuing participatory process on the basis of lessons from field action, as well as the results of research. The preparation of national action programmes shall be closely interlinked with other efforts to formulate national policies for sustainable development.

    2. In the provision by developed country Parties of different forms of assistance under the terms of article 6, priority shall be given to supporting, as agreed, national, subregional and regional action programmes of affected developing country Parties, particularly those in Africa, either directly or through relevant multilateral organizations or both.
    3. The Parties shall encourage organs, funds and programmes of the United Nations system and other relevant intergovernmental organizations, academic institutions, the scientific community and non-governmental organizations in a position to cooperate, in accordance with their mandates and capabilities, to support the elaboration, implementation and follow-up of action programmes.

Article 10


National action programmes


    1. The purpose of national action programmes is to identify the factors contributing to desertification and practical measures necessary to combat desertification and mitigate the effects of drought.

    2. national action programmes shall specify the respective roles of government, local communities and land users and the resources available and needed. They shall, inter alia:
    (a) incorporate long-term strategies to combat desertification and mitigate the effects of drought, emphasize implementation and be integrated with national policies for sustainable development;
    (b) allow for modifications to be made in response to changing circumstances and be sufficiently flexible at the local level to cope with different socio-economic, biological and geo-physical conditions;
    (c) give particular attention to the implementation of preventive measures for lands that are not yet degraded or which are only slightly degraded;
    (d) enhance national climatological, meteorological and hydrological capabilities and the means to provide for drought early warning;
    (e) promote policies and strengthen institutional frameworks which develop cooperation and coordination, in a spirit of partnership, between the donor community, governments at all levels, local populations and community groups, and facilitate access by local populations to appropriate information and technology;
    (f) provide for effective participation at the local, national and regional levels of non-governmental organizations and local populations, both women and men, particularly resource users, including farmers and pastoralists and their representative organizations, in policy planning, decision-making, and implementation and review of national action programmes; and
    (g) require regular review of, and progress reports on, their implementation.
    3. national action programmes may include, inter alia, some or all of the following measures to prepare for and mitigate the effects of drought:
    (a) establishment and/or strengthening, as appropriate, of early warning systems, including local and national facilities and joint systems at the subregional and regional levels, and mechanisms for assisting environmentally displaced persons;
    (b) strengthening of drought preparedness and management, including drought contingency plans at the local, national, subregional and regional levels, which take into consideration seasonal to interannual climate predictions;
    (c) establishment and/or strengthening, as appropriate, of food security systems, including storage and marketing facilities, particularly in rural areas;

    (d) establishment of alternative livelihood projects that could provide incomes in drought prone areas; and
    (e) development of sustainable irrigation programmes for both crops and livestock.
    4. Taking into account the circumstances and requirements specific to each affected country Party, national action programmes include, as appropriate, inter alia, measures in some or all of the following priority fields as they relate to combating desertification and mitigating the effects of drought in affected areas and to their populations: promotion of alternative livelihoods and improvement of national economic environments with a view to strengthening programmes aimed at the eradication of poverty and at ensuring food security; demographic dynamics; sustainable management of natural resources; sustainable agricultural practices; development and efficient use of various energy sources; institutional and legal frameworks; strengthening of capabilities for assessment and systematic observation, including hydrological and meteorological services, and capacity building, education and public awareness.



Article 11


Subregional and regional


action programmes


    Affected country Parties shall consult and cooperate to prepare, as appropriate, in accordance with relevant regional implementation annexes, subregional and/or regional action programmes to harmonize, complement and increase the efficiency of national programmes. The provisions of article 10 shall apply mutatis mutandis to subregional and regional programmes. Such cooperation may include agreed joint programmes for the sustainable management of transboundary natural resources, scientific and technical cooperation, and strengthening of relevant institutions.



Article 12


International cooperation


    Affected country Parties, in collaboration with other Parties and the international community, should cooperate to ensure the promotion of an enabling international environment in the implementation of the Convention. Such cooperation should also cover fields of technology transfer as well as scientific research and development, information collection and dissemination and financial resources.

Article 13


Support for the elaboration and


implementation of action programmes


    1. Measures to support action programmes pursuant to article 9 include, inter alia:
    (a) financial cooperation to provide predictability for action programmes, allowing for necessary long-term planning;
    (b) elaboration and use of cooperation mechanisms which better enable support at the local level, including action through non-governmental organizations, in order to promote the replicability of successful pilot programme activities where relevant;
    (c) increased flexibility in project design, funding and implementation in keeping with the experimental, iterative approach indicated for participatory action at the local community level; and
    (d) as appropriate, administrative and budgetary procedures that increase the efficiency of cooperation and of support programmes.
    2. In providing such support to affected developing country Parties, priority shall be given to African country Parties and to least developed country Parties.

Article 14


Coordination in the elaboration and


implementation of action programmes


    1. The Parties shall work closely together, directly and through relevant intergovernmental organizations, in the elaboration and implementation of action programmes.
    2. The Parties shall develop operational mechanisms, particularly at the national and field levels, to ensure the fullest possible coordination among developed country Parties, developing country Parties and relevant intergovernmental and non-governmental organizations, in order to avoid duplication, harmonize interventions and approaches, and maximize the impact of assistance. In affected developing country Parties, priority will be given to coordinating activities related to international cooperation in order to maximize the efficient use of resources, to ensure responsive assistance, and to facilitate the implementation of national action programmes and priorities under this Convention.

Article 15


Regional implementation


annexes


    Elements for incorporation in action programmes shall be selected and adapted to the socio-economic, geographical and climatic factors applicable to affected country Parties or regions, as well as to their level of development. Guidelines for the preparation of action programmes and their exact focus and content for particular subregions and regions are set out in the regional implementation annexes.


Section 2: Scientific and technical cooperation


Article 16


Information collection, analysis and exchange


    The Parties agree, according to their respective capabilities, to integrate and coordinate the collection, analysis and exchange of relevant short term and long term data and information to ensure systematic observation of land degradation in affected areas and to understand better and assess the processes and effects of drought and desertification. This would help accomplish, inter alia, early warning and advance planning for periods of adverse climatic variation in a form suited for practical application by users at all levels, including especially local populations. To this end, they shall, as appropriate:
    (a) facilitate and strengthen the functioning of the global network of institutions and facilities for the collection, analysis and exchange of information, as well as for systematic observation at all levels, which shall, inter alia:
         (i) aim to use compatible standards and systems;

         (ii) encompass relevant data and stations, including in remote areas;
         (iii) use and disseminate modern technology for data collection, transmission and assessment on land degradation; and
         (iv) link national, subregional and regional data and information centres more closely with global information sources;
    (b) ensure that the collection, analysis and exchange of information address the needs of local communities and those of decision makers, with a view to resolving specific problems, and that local communities are involved in these activities;

    (c) support and further develop bilateral and multilateral programmes and projects aimed at defining, conducting, assessing and financing the collection, analysis and exchange of data and information, including, inter alia, integrated sets of physical, biological, social and economic indicators;
    (d) make full use of the expertise of competent intergovernmental and non-governmental organizations, particularly to disseminate relevant information and experiences among target groups in different regions;
    (e) give full weight to the collection, analysis and exchange of socio-economic data, and their integration with physical and biological data;
    (f) exchange and make fully, openly and promptly available information from all publicly available sources relevant to combating desertification and mitigating the effects of drought; and
    (g) subject to their respective national legislation and/or policies, exchange information on local and traditional knowledge, ensuring adequate protection for it and providing appropriate return from the benefits derived from it, on an equitable basis and on mutually agreed terms, to the local populations concerned.


Article 17


Research and development


    1. The Parties undertake, according to their respective capabilities, to promote technical and scientific cooperation in the fields of combating desertification and mitigating the effects of drought through appropriate national, subregional, regional and international institutions. To this end, they shall support research activities that:
    (a) contribute to increased knowledge of the processes leading to desertification and drought and the impact of, and distinction between, causal factors, both natural and human, with a view to combating desertification and mitigating the effects of drought, and achieving improved productivity as well as sustainable use and management of resources;
    (b) respond to well defined objectives, address the specific needs of local populations and lead to the identification and implementation of solutions that improve the living standards of people in affected areas;
    (c) protect, integrate, enhance and validate traditional and local knowledge, know-how and practices, ensuring, subject to their respective national legislation and/or policies, that the owners of that knowledge will directly benefit on an equitable basis and on mutually agreed terms from any commercial utilization of it or from any technological development derived from that knowledge;
    (d) develop and strengthen national, subregional and regional research capabilities in affected developing country Parties, particularly in Africa, including the development of local skills and the strengthening of appropriate capacities, especially in countries with a weak research base, giving particular attention to multidisciplinary and participative socio-economic research;
    (e) take into account, where relevant, the relationship between poverty, migration caused by environmental factors, and desertification;
    (f) promote the conduct of joint research programmes between national, subregional, regional and international research organizations, in both the public and private sectors, for the development of improved, affordable and accessible technologies for sustainable development through effective participation of local populations and communities; and
    (g) enhance the availability of water resources in affected areas, by means of, inter alia, cloud-seeding.
    2. Research priorities for particular regions and subregions, reflecting different local conditions, should be included in action programmes. The Conference of the Parties shall review research priorities periodically on the advice of the Committee on Science and Technology.



Article 18


Transfer, acquisition, adaptation


and development of technology


    1. The Parties undertake, as mutually agreed and in accordance with their respective national legislation and/or policies, to promote, finance and/or facilitate the financing of the transfer, acquisition, adaptation and development of environmentally sound, economically viable and socially acceptable technologies relevant to combating desertification and/or mitigating the effects of drought, with a view to contributing to the achievement of sustainable development in affected areas. Such cooperation shall be conducted bilaterally or multilaterally, as appropriate, making full use of the expertise of intergovernmental and non-governmental organizations. The Parties shall, in particular:
    (a) fully utilize relevant existing national, subregional, regional and international information systems and clearing-houses for the dissemination of information on available technologies, their sources, their environmental risks and the broad terms under which they may be acquired;
    (b) facilitate access, in particular by affected developing country Parties, on favourable terms, including on concessional and preferential terms, as mutually agreed, taking into account the need to protect intellectual property rights, to technologies most suitable to practical application for specific needs of local populations, paying special attention to the social, cultural, economic and environmental impact of such technology;
    (c) facilitate technology cooperation among affected country Parties through financial assistance or other appropriate means;
    (d) extend technology cooperation with affected developing country Parties, including, where relevant, joint ventures, especially to sectors which foster alternative livelihoods; and

    (e) take appropriate measures to create domestic market conditions and incentives, fiscal or otherwise, conducive to the development, transfer, acquisition and adaptation of suitable technology, knowledge, know-how and practices, including measures to ensure adequate and effective protection of intellectual property rights.
    2. The Parties shall, according to their respective capabilities, and subject to their respective national legislation and/or policies, protect, promote and use in particular relevant traditional and local technology, knowledge, know-how and practices and, to that end, they undertake to:
    (a) make inventories of such technology, knowledge, know-how and practices and their potential uses with the participation of local populations, and disseminate such information, where appropriate, in cooperation with relevant intergovernmental and non-governmental organizations;
    (b) ensure that such technology, knowledge, know-how and practices are adequately protected and that local populations benefit directly, on an equitable basis and as mutually agreed, from any commercial utilization of them or from any technological development derived therefrom;
    (c) encourage and actively support the improvement and dissemination of such technology, knowledge, know-how and practices or of the development of new technology based on them; and
    (d) facilitate, as appropriate, the adaptation of such technology, knowledge, know-how and practices to wide use and integrate them with modern technology, as appropriate.

Section 3: Supporting measures


Article 19


Capacity building, education and


public awareness


    1. The Parties recognize the significance of capacity building — that is to say, institution building, training and development of relevant local and national capacities — in efforts to combat desertification and mitigate the effects of drought. They shall promote, as appropriate, capacity-building:

    (a) through the full participation at all levels of local people, particularly at the local level, especially women and youth, with the cooperation of non-governmental and local organizations;
    (b) by strengthening training and research capacity at the national level in the field of desertification and drought;
    (c) by establishing and/or strengthening support and extension services to disseminate relevant technology methods and techniques more effectively, and by training field agents and members of rural organizations in participatory approaches for the conservation and sustainable use of natural resources;
    (d) by fostering the use and dissemination of the knowledge, know-how and practices of local people in technical cooperation programmes, wherever possible;
    (e) by adapting, where necessary, relevant environmentally sound technology and traditional methods of agriculture and pastoralism to modern socio-economic conditions;
    (f) by providing appropriate training and technology in the use of alternative energy sources, particularly renewable energy resources, aimed particularly at reducing dependence on wood for fuel;
    (g) through cooperation, as mutually agreed, to strengthen the capacity of affected developing country Parties to develop and implement programmes in the field of collection, analysis and exchange of information pursuant to article 16;
    (h) through innovative ways of promoting alternative livelihoods, including training in new skills;

    (i) by training of decision makers, managers, and personnel who are responsible for the collection and analysis of data for the dissemination and use of early warning information on drought conditions and for food production;
    (j) through more effective operation of existing national institutions and legal frameworks and, where necessary, creation of new ones, along with strengthening of strategic planning and management; and
    (k) by means of exchange visitor programmes to enhance capacity building in affected country Parties through a long-term, interactive process of learning and study.
    2. Affected developing country Parties shall conduct, in cooperation with other Parties and competent intergovernmental and non-governmental organizations, as appropriate, an interdisciplinary review of available capacity and facilities at the local and national levels, and the potential for strengthening them.
    3. The Parties shall cooperate with each other and through competent intergovernmental organizations, as well as with non-governmental organizations, in undertaking and supporting public awareness and educational programmes in both affected and, where relevant, unaffected country Parties to promote understanding of the causes and effects of desertification and drought and of the importance of meeting the objective of this Convention. To that end, they shall:
    (a) organize awareness campaigns for the general public;
    (b) promote, on a permanent basis, access by the public to relevant information, and wide public participation in education and awareness activities;
    (c) encourage the establishment of associations that contribute to public awareness;
    (d) develop and exchange educational and public awareness material, where possible in local languages, exchange and second experts to train personnel of affected developing country Parties in carrying out relevant education and awareness programmes, and fully utilize relevant educational material available in competent international bodies;
    (e) assess educational needs in affected areas, elaborate appropriate school curricula and expand, as needed, educational and adult literacy programmes and opportunities for all, in particular for girls and women, on the identification, conservation and sustainable use and management of the natural resources of affected areas; and
    (f) develop interdisciplinary participatory programmes integrating desertification and drought awareness into educational systems and in non-formal, adult, distance and practical educational programmes.
    4. The Conference of the Parties shall establish and/or strengthen networks of regional education and training centres to combat desertification and mitigate the effects of drought. These networks shall be coordinated by an institution created or designated for that purpose, in order to train scientific, technical and management personnel and to strengthen existing institutions responsible for education and training in affected country Parties, where appropriate, with a view to harmonizing programmes and to organizing exchanges of experience among them. These networks shall cooperate closely with relevant intergovernmental and non-governmental organizations to avoid duplication of effort.

Article 20


Financial resources


    1. Given the central importance of financing to the achievement of the objective of the Convention, the Parties, taking into account their capabilities, shall make every effort to ensure that adequate financial resources are available for programmes to combat desertification and mitigate the effects of drought.

    2. In this connection, developed country Parties, while giving priority to affected African country Parties without neglecting affected developing country Parties in other regions, in accordance with article 7, undertake to:
    (a) mobilize substantial financial resources, including grants and concessional loans, in order to support the implementation of programmes to combat desertification and mitigate the effects of drought;
    (b) promote the mobilization of adequate, timely and predictable financial resources, including new and additional funding from the Global Environment Facility of the agreed incremental costs of those activities concerning desertification that relate to its four focal areas, in conformity with the relevant provisions of the Instrument establishing the Global Environment Facility;
    (c) facilitate through international cooperation the transfer of technology, knowledge and know-how; and
    (d) explore, in cooperation with affected developing country Parties, innovative methods and incentives for mobilizing and channelling resources, including those of foundations, non-governmental organizations and other private sector entities, particularly debt swaps and other innovative means which increase financing by reducing the external debt burden of affected developing country Parties, particularly those in Africa.
    3. Affected developing country Parties, taking into account their capabilities, undertake to mobilize adequate financial resources for the implementation of their national action programmes.
    4. In mobilizing financial resources, the Parties shall seek full use and continued qualitative improvement of all national, bilateral and multilateral funding sources and mechanisms, using consortia, joint programmes and parallel financing, and shall seek to involve private sector funding sources and mechanisms, including those of non-governmental organizations. To this end, the Parties shall fully utilize the operational mechanisms developed pursuant to article 14.
    5. In order to mobilize the financial resources necessary for affected developing country Parties to combat desertification and mitigate the effects of drought, the Parties shall:

    (a) rationalize and strengthen the management of resources already allocated for combating desertification and mitigating the effects of drought by using them more effectively and efficiently, assessing their successes and shortcomings, removing hindrances to their effective use and, where necessary, reorienting programmes in light of the integrated long-term approach adopted pursuant to this Convention;
    (b) give due priority and attention within the governing bodies of multilateral financial institutions, facilities and funds, including regional development banks and funds, to supporting affected developing country Parties, particularly those in Africa, in activities which advance implementation of the Convention, notably action programmes they undertake in the framework of regional implementation annexes; and

    (c) examine ways in which regional and subregional cooperation can be strengthened to support efforts undertaken at the national level.
    6. Other Parties are encouraged to provide, on a voluntary basis, knowledge, know-how and techniques related to desertification and/or financial resources to affected developing country Parties.

    7. The full implementation by affected developing country Parties, particularly those in Africa, of their obligations under the Convention will be greatly assisted by the fulfilment by developed country Parties of their obligations under the Convention, including in particular those regarding financial resources and transfer of technology. In fulfilling their obligations, developed country Parties should take fully into account that economic and social development and poverty eradication are the first priorities of affected developing country Parties, particularly those in Africa.

Article 21


Financial mechanisms


    1. The Conference of the Parties shall promote the availability of financial mechanisms and shall encourage such mechanisms to seek to maximize the availability of funding for affected developing country Parties, particularly those in Africa, to implement the Convention. To this end, the Conference of the Parties shall consider for adoption inter alia approaches and policies that:
    (a) facilitate the provision of necessary funding at the national, subregional, regional and global levels for activities pursuant to relevant provisions of the Convention;
    (b) promote multiple-source funding approaches, mechanisms and arrangements and their assessment, consistent with article 20;
    (c) provide on a regular basis, to interested Parties and relevant intergovernmental and non-governmental organizations, information on available sources of funds and on funding patterns in order to facilitate coordination among them;
    (d) facilitate the establishment, as appropriate, of mechanisms, such as national desertification funds, including those involving the participation of non-governmental organizations, to channel financial resources rapidly and efficiently to the local level in affected developing country Parties; and

    (e) strengthen existing funds and financial mechanisms at the subregional and regional levels, particularly in Africa, to support more effectively the implementation of the Convention.
    2. The Conference of the Parties shall also encourage the provision, through various mechanisms within the United Nations system and through multilateral financial institutions, of support at the national, subregional and regional levels to activities that enable developing country Parties to meet their obligations under the Convention.
    3. Affected developing country Parties shall utilize, and where necessary, establish and/or strengthen, national coordinating mechanisms, integrated in national development programmes, that would ensure the efficient use of all available financial resources. They shall also utilize participatory processes involving non-governmental organizations, local groups and the private sector, in raising funds, in elaborating as well as implementing programmes and in assuring access to funding by groups at the local level. These actions can be enhanced by improved coordination and flexible programming on the part of those providing assistance.
    4. In order to increase the effectiveness and efficiency of existing financial mechanisms, a Global Mechanism to promote actions leading to the mobilization and channelling of substantial financial resources, including for the transfer of technology, on a grant basis, and/or on concessional or other terms, to affected developing country Parties, is hereby established. This Global Mechanism shall function under the authority and guidance of the Conference of the Parties and be accountable to it.
    5. The Conference of the Parties shall identify, at its first ordinary session, an organization to house the Global Mechanism. The Conference of the Parties and the organization it has identified shall agree upon modalities for this Global Mechanism to ensure inter alia that such Mechanism:
    (a) identifies and draws up an inventory of relevant bilateral and multilateral cooperation programmes that are available to implement the Convention;
    (b) provides advice, on request, to Parties on innovative methods of financing and sources of financial assistance and on improving the coordination of cooperation activities at the national level;
    (c) provides interested Parties and relevant intergovernmental and non-governmental organizations with information on available sources of funds and on funding patterns in order to facilitate coordination among them; and
    (d) reports to the Conference of the Parties, beginning at its second ordinary session, on its activities.
    6. The Conference of the Parties shall, at its first session, make appropriate arrangements with the organization it has identified to house the Global Mechanism for the administrative operations of such Mechanism, drawing to the extent possible on existing budgetary and human resources.
    7. The Conference of the Parties shall, at its third ordinary session, review the policies, operational modalities and activities of the Global Mechanism accountable to it pursuant to paragraph 4, taking into account the provisions of article 7. On the basis of this review, it shall consider and take appropriate action.

PART IV


INSTITUTIONS


Article 22


Conference of the Parties


    1. A Conference of the Parties is hereby established.
    2. The Conference of the Parties is the supreme body of the Convention. It shall make, within its mandate, the decisions necessary to promote its effective implementation. In particular, it shall:
    (a) regularly review the implementation of the Convention and the functioning of its institutional arrangements in the light of the experience gained at the national, subregional, regional and international levels and on the basis of the evolution of scientific and technological knowledge;
    (b) promote and facilitate the exchange of information on measures adopted by the Parties, and determine the form and timetable for transmitting the information to be submitted pursuant to article 26, review the reports and make recommendations on them;
    (c) establish such subsidiary bodies as are deemed necessary for the implementation of the Convention;
    (d) review reports submitted by its subsidiary bodies and provide guidance to them;
    (e) agree upon and adopt, by consensus, rules of procedure and financial rules for itself and any subsidiary bodies;
    (f) adopt amendments to the Convention pursuant to articles 30 and 31;
    (g) approve a programme and budget for its activities, including those of its subsidiary bodies, and undertake necessary arrangements for their financing;

    (h) as appropriate, seek the cooperation of, and utilize the services of and information provided by, competent bodies or agencies, whether national or international, intergovernmental or non-governmental;
    (i) promote and strengthen the relationship with other relevant conventions while avoiding duplication of effort; and
    (j) exercise such other functions as may be necessary for the achievement of the objective of the Convention.
    3. The Conference of the Parties shall, at its first session, adopt its own rules of procedure, by consensus, which shall include decision-making procedures for matters not already covered by decision-making procedures stipulated in the Convention. Such procedures may include specified majorities required for the adoption of particular decisions.
    4. The first session of the Conference of the Parties shall be convened by the interim secretariat referred to in article 35 and shall take place not later than one year after the date of entry into force of the Convention. Unless otherwise decided by the Conference of the Parties, the second, third and fourth ordinary sessions shall be held yearly, and thereafter, ordinary sessions shall be held every two years.
    5. Extraordinary sessions of the Conference of the Parties shall be held at such other times as may be decided either by the Conference of the Parties in ordinary session or at the written request of any Party, provided that, within three months of the request being communicated to the Parties by the Permanent Secretariat, it is supported by at least one third of the Parties.
    6. At each ordinary session, the Conference of the Parties shall elect a Bureau. The structure and functions of the Bureau shall be determined in the rules of procedure. In appointing the Bureau, due regard shall be paid to the need to ensure equitable geographical distribution and adequate representation of affected country Parties, particularly those in Africa.
    7. The United Nations, its specialized agencies and any State member thereof or observers thereto not Party to the Convention, may be represented at sessions of the Conference of the Parties as observers. Any body or agency, whether national or international, governmental or non-governmental, which is qualified in matters covered by the Convention, and which has informed the Permanent Secretariat of its wish to be represented at a session of the Conference of the Parties as an observer, may be so admitted unless at least one third of the Parties present object. The admission and participation of observers shall be subject to the rules of procedure adopted by the Conference of the Parties.
    8. The Conference of the Parties may request competent national and international organizations which have relevant expertise to provide it with information relevant to article 16, paragraph (g), article 17, paragraph 1 (c) and article 18, paragraph 2(b).

Article 23


Permanent Secretariat


    1. A Permanent Secretariat is hereby established.
    2. The functions of the Permanent Secretariat shall be:
    (a) to make arrangements for sessions of the Conference of the Parties and its subsidiary bodies established under the Convention and to provide them with services as required;
    (b) to compile and transmit reports submitted to it;

    (c) to facilitate assistance to affected developing country Parties, on request, particularly those in Africa, in the compilation and communication of information required under the Convention;
    (d) to coordinate its activities with the secretariats of other relevant international bodies and conventions;
    (e) to enter, under the guidance of the Conference of the Parties, into such administrative and contractual arrangements as may be required for the effective discharge of its functions;
    (f) to prepare reports on the execution of its functions under this Convention and present them to the Conference of the Parties; and
    (g) to perform such other secretariat functions as may be determined by the Conference of the Parties.
    3. The Conference of the Parties, at its first session, shall designate a Permanent Secretariat and make arrangements for its functioning.

Article 24


Committee on Science and Technology


    1. A Committee on Science and Technology is hereby established as a subsidiary body of the Conference of the Parties to provide it with information and advice on scientific and technological matters relating to combating desertification and mitigating the effects of drought. The Committee shall meet in conjunction with the ordinary sessions of the Conference of the Parties and shall be multidisciplinary and open to the participation of all Parties. It shall be composed of government representatives competent in the relevant fields of expertise. The Conference of the Parties shall decide, at its first session, on the terms of reference of the Committee.
    2. The Conference of the Parties shall establish and maintain a roster of independent experts with expertise and experience in the relevant fields. The roster shall be based on nominations received in writing from the Parties, taking into account the need for a multidisciplinary approach and broad geographical representation.
    3. The Conference of the Parties may, as necessary, appoint ad hoc panels to provide it, through the Committee, with information and advice on specific issues regarding the state of the art in fields of science and technology relevant to combating desertification and mitigating the effects of drought. These panels shall be composed of experts whose names are taken from the roster, taking into account the need for a multidisciplinary approach and broad geographical representation. These experts shall have scientific backgrounds and field experience and shall be appointed by the Conference of the Parties on the recommendation of the Committee. The Conference of the Parties shall decide on the terms of reference and the modalities of work of these panels.

Article 25


Networking of institutions, agencies and bodies


    1. The Committee on Science and Technology shall, under the supervision of the Conference of the Parties, make provision for the undertaking of a survey and evaluation of the relevant existing networks, institutions, agencies and bodies willing to become units of a network. Such a network shall support the implementation of the Convention.
    2. On the basis of the results of the survey and evaluation referred to in paragraph 1, the Committee on Science and Technology shall make recommendations to the Conference of the Parties on ways and means to facilitate and strengthen networking of the units at the local, national and other levels, with a view to ensuring that the thematic needs set out in articles 16 to 19 are addressed.
    3. Taking into account these recommendations, the Conference of the Parties shall:
    (a) identify those national, subregional, regional and international units that are most appropriate for networking, and recommend operational procedures, and a time frame, for them; and

    (b) identify the units best suited to facilitating and strengthening such networking at all levels.


PART V


PROCEDURES


Article 26


Communication of information


    1. Each Party shall communicate to the Conference of the Parties for consideration at its ordinary sessions, through the Permanent Secretariat, reports on the measures which it has taken for the implementation of the Convention. The Conference of the Parties shall determine the timetable for submission and the format of such reports.
    2. Affected country Parties shall provide a description of the strategies established pursuant to article 5 and of any relevant information on their implementation.
    3. Affected country Parties which implement action programmes pursuant to articles 9 to 15 shall provide a detailed description of the programmes and of their implementation.
    4. Any group of affected country Parties may make a joint communication on measures taken at the subregional and/or regional levels in the framework of action programmes.
    5. Developed country Parties shall report on measures taken to assist in the preparation and implementation of action programmes, including information on the financial resources they have provided, or are providing, under the Convention.
    6. Information communicated pursuant to paragraphs 1 to 4 shall be transmitted by the Permanent Secretariat as soon as possible to the Conference of the Parties and to any relevant subsidiary body.
    7. The Conference of the Parties shall facilitate the provision to affected developing countries, particularly those in Africa, on request, of technical and financial support in compiling and communicating information in accordance with this article, as well as identifying the technical and financial needs associated with action programmes.

Article 27


Measures to resolve questions on implementation


    The Conference of the Parties shall consider and adopt procedures and institutional mechanisms for the resolution of questions that may arise with regard to the implementation of the Convention.



Article 28


Settlement of disputes


    1. Parties shall settle any dispute between them concerning the interpretation or application of the Convention through negotiation or other peaceful means of their own choice.
    2. When ratifying, accepting, approving, or acceding to the Convention, or at any time thereafter, a Party which is not a regional economic integration organization may declare in a written instrument submitted to the Depositary that, in respect of any dispute concerning the interpretation or application of the Convention, it recognizes one or both of the following means of dispute settlement as compulsory in relation to any Party accepting the same obligation:
    (a) arbitration in accordance with procedures adopted by the Conference of the Parties in an annex as soon as practicable;
    (b) submission of the dispute to the International Court of Justice.
    3. A Party which is a regional economic integration organization may make a declaration with like effect in relation to arbitration in accordance with the procedure referred to in paragraph 2 (a).

    4. A declaration made pursuant to paragraph 2 shall remain in force until it expires in accordance with its terms or until three months after written notice of its revocation has been deposited with the Depositary.
    5. The expiry of a declaration, a notice of revocation or a new declaration shall not in any way affect proceedings pending before an arbitral tribunal or the International Court of Justice unless the Parties to the dispute otherwise agree.
    6. If the Parties to a dispute have not accepted the same or any procedure pursuant to paragraph 2 and if they have not been able to settle their dispute within twelve months following notification by one Party to another that a dispute exists between them, the dispute shall be submitted to conciliation at the request of any Party to the dispute, in accordance with procedures adopted by the Conference of the Parties in an annex as soon as practicable.

Article 29


Status of annexes


    1. Annexes form an integral part of the Convention and, unless expressly provided otherwise, a reference to the Convention also constitutes a reference to its annexes.

    2. The Parties shall interpret the provisions of the annexes in a manner that is in conformity with their rights and obligations under the articles of this Convention.

Article 30


Amendments to the Convention


    1. Any Party may propose amendments to the Convention.
    2. Amendments to the Convention shall be adopted at an ordinary session of the Conference of the Parties. The text of any proposed amendment shall be communicated to the Parties by the Permanent Secretariat at least six months before the meeting at which it is proposed for adoption. The Permanent Secretariat shall also communicate proposed amendments to the signatories to the Convention.
    3. The Parties shall make every effort to reach agreement on any proposed amendment to the Convention by consensus. If all efforts at consensus have been exhausted and no agreement reached, the amendment shall, as a last resort, be adopted by a two-thirds majority vote of the Parties present and voting at the meeting. The adopted amendment shall be communicated by the Permanent Secretariat to the Depositary, who shall circulate it to all Parties for their ratification, acceptance, approval or accession.
    4. Instruments of ratification, acceptance, approval or accession in respect of an amendment shall be deposited with the Depositary. An amendment adopted pursuant to paragraph 3 shall enter into force for those Parties having accepted it on the ninetieth day after the date of receipt by the Depositary of an instrument of ratification, acceptance, approval or accession by at least two thirds of the Parties to the Convention which were Parties at the time of the adoption of the amendment.
    5. The amendment shall enter into force for any other Party on the ninetieth day after the date on which that Party deposits with the Depositary its instrument of ratification, acceptance or approval of, or accession to the said amendment.
    6. For the purposes of this article and article 31, “Parties present and voting” means Parties present and casting an affirmative or negative vote.


Article 31


Adoption and amendment of annexes


    1. Any additional annex to the Convention and any amendment to an annex shall be proposed and adopted in accordance with the procedure for amendment of the Convention set forth in article 30, provided that, in adopting an additional regional implementation annex or amendment to any regional implementation annex, the majority provided for in that article shall include a two-thirds majority vote of the Parties of the region concerned present and voting. The adoption or amendment of an annex shall be communicated by the Depositary to all Parties.
    2. An annex, other than an additional regional implementation annex, or an amendment to an annex, other than an amendment to any regional implementation annex, that has been adopted in accordance with paragraph 1, shall enter into force for all Parties to the Convention six months after the date of communication by the Depositary to such Parties of the adoption of such annex or amendment, except for those Parties that have notified the Depositary in writing within that period of their non-acceptance of such annex or amendment. Such annex or amendment shall enter into force for Parties which withdraw their notification of non-acceptance on the ninetieth day after the date on which withdrawal of such notification has been received by the Depositary.
    3. An additional regional implementation annex or amendment to any regional implementation annex that has been adopted in accordance with paragraph 1, shall enter into force for all Parties to the Convention six months after the date of the communication by the Depositary to such Parties of the adoption of such annex or amendment, except with respect to:
    (a) any Party that has notified the Depositary in writing, within such six month period, of its non-acceptance of that additional regional implementation annex or of the amendment to the regional implementation annex, in which case such annex or amendment shall enter into force for Parties which withdraw their notification of non-acceptance on the ninetieth day after the date on which withdrawal of such notification has been received by the Depositary; and
    (b) any Party that has made a declaration with respect to additional regional implementation annexes or amendments to regional implementation annexes in accordance with article 34, paragraph 4, in which case any such annex or amendment shall enter into force for such a Party on the ninetieth day after the date of deposit with the Depositary of its instrument of ratification, acceptance, approval or accession with respect to such annex or amendment.

    4. If the adoption of an annex or an amendment to an annex involves an amendment to the Convention, that annex or amendment to an annex shall not enter into force until such time as the amendment to the Convention enters into force.

Article 32


Right to vote


    1. Except as provided for in paragraph 2, each Party to the Convention shall have one vote.

    2. Regional economic integration organizations, in matters within their competence, shall exercise their right to vote with a number of votes equal to the number of their member States that are Parties to the Convention. Such an organization shall not exercise its right to vote if any of its member States exercises its right, and vice versa.

PART VI


FINAL PROVISIONS


Article 33


Signature


    This Convention shall be opened for signature at Paris, on 14–15 October 1994, by States Members of the United Nations or any of its specialized agencies or that are Parties to the Statute of the International Court of Justice and by regional economic integration organizations. It shall remain open for signature, thereafter, at the United Nations Headquarters in New York until 13 October 1995.

Article 34


Ratification, acceptance, approval and accession


    1. The Convention shall be subject to ratification, acceptance, approval or accession by States and by regional economic integration organizations. It shall be open for accession from the day after the date on which the Convention is closed for signature. Instruments of ratification, acceptance, approval or accession shall be deposited with the Depositary.
    2. Any regional economic integration organization which becomes a Party to the Convention without any of its member States being a Party to the Convention shall be bound by all the obligations under the Convention. Where one or more member States of such an organization are also Party to the Convention, the organization and its member States shall decide on their respective responsibilities for the performance of their obligations under the Convention. In such cases, the organization and the member States shall not be entitled to exercise rights under the Convention concurrently.
    3. In their instruments of ratification, acceptance, approval or accession, regional economic integration organizations shall declare the extent of their competence with respect to the matters governed by the Convention. They shall also promptly inform the Depositary, who shall in turn inform the Parties, of any substantial modification in the extent of their competence.
    4. In its instrument of ratification, acceptance, approval or accession, any Party may declare that, with respect to it, any additional regional implementation annex or any amendment to any regional implementation annex shall enter into force only upon the deposit of its instrument of ratification, acceptance, approval or accession with respect thereto.

Article 35


Interim arrangements


    The secretariat functions referred to in article 23 will be carried out on an interim basis by the secretariat established by the General Assembly of the United Nations in its resolution 47/188 of 22 December 1992, until the completion of the first session of the Conference of the Parties.

Article 36


Entry into force


    1. The Convention shall enter into force on the ninetieth day after the date of deposit of the fiftieth instrument of ratification, acceptance, approval or accession.
    2. For each State or regional economic integration organization ratifying, accepting, approving or acceding to the Convention after the deposit of the fiftieth instrument of ratification, acceptance, approval or accession, the Convention shall enter into force on the ninetieth day after the date of deposit by such State or regional economic integration organization of its instrument of ratification, acceptance, approval or accession.
    3. For the purposes of paragraphs 1 and 2, any instrument deposited by a regional economic integration organization shall not be counted as additional to those deposited by States members of the organization.

Article 37


Reservations


    No reservations may be made to this Convention.



Article 38


Withdrawal


    1. At any time after three years from the date on which the Convention has entered into force for a Party, that Party may withdraw from the Convention by giving written notification to the Depositary.
    2. Any such withdrawal shall take effect upon expiry of one year from the date of receipt by the Depositary of the notification of withdrawal, or on such later date as may be specified in the notification of withdrawal.

Article 39


Depositary


    The Secretary-General of the United Nations shall be the Depositary of the Convention.

Article 40


Authentic texts


    The original of the present Convention, of which the Arabic, Chinese, English, French, Russian and Spanish texts are equally authentic, shall be deposited with the Secretary-General of the United Nations.

    IN WITNESS WHEREOF the undersigned, being duly authorized to that effect, have signed the present Convention.

    DONE AT Paris, this 17th day of June one thousand nine hundred and ninety-four.

ANNEX I


REGIONAL IMPLEMENTATION ANNEX


FOR AFRICA


Article 1


Scope


    This Annex applies to Africa, in relation to each Party and in conformity with the Convention, in particular its article 7, for the purpose of combating desertification and/or mitigating the effects of drought in its arid, semi-arid and dry sub-humid areas.


Article 2


Purpose


    The purpose of this Annex, at the national, subregional and regional levels in Africa and in the light of its particular conditions, is to:
    (a) identify measures and arrangements, including the nature and processes of assistance provided by developed country Parties, in accordance with the relevant provisions of the Convention;
    (b) provide for the efficient and practical implementation of the Convention to address conditions specific to Africa; and
    (c) promote processes and activities relating to combating desertification and/or mitigating the effects of drought within the arid, semi-arid and dry sub-humid areas of Africa.

Article 3


Particular conditions of the African region


    In carrying out their obligations under the Convention, the Parties shall, in the implementation of this Annex, adopt a basic approach that takes into consideration the following particular conditions of Africa:
    (a) the high proportion of arid, semi-arid and dry sub-humid areas;
    (b) the substantial number of countries and populations adversely affected by desertification and by the frequent recurrence of severe drought;
    (c) the large number of affected countries that are landlocked;
    (d) the widespread poverty prevalent in most affected countries, the large number of least developed countries among them, and their need for significant amounts of external assistance, in the form of grants and loans on concessional terms, to pursue their development objectives;
    (e) the difficult socio-economic conditions, exacerbated by deteriorating and fluctuating terms of trade, external indebtedness and political instability, which induce internal, regional and international migrations;
    (f) the heavy reliance of populations on natural resources for subsistence which, compounded by the effects of demographic trends and factors, a weak technological base and unsustainable production practices, contributes to serious resource degradation;
    (g) the insufficient institutional and legal frameworks, the weak infrastructural base and the insufficient scientific, technical and educational capacity, leading to substantial capacity building requirements; and
    (h) the central role of actions to combat desertification and/or mitigate the effects of drought in the national development priorities of affected African countries.

Article 4


Commitments and obligations of


African country Parties


    1. In accordance with their respective capabilities, African country Parties undertake to:
    (a) adopt the combating of desertification and/or the mitigation of the effects of drought as a central strategy in their efforts to eradicate poverty;
    (b) promote regional cooperation and integration, in a spirit of solidarity and partnership based on mutual interest, in programmes and activities to combat desertification and/or mitigate the effects of drought;
    (c) rationalize and strengthen existing institutions concerned with desertification and drought and involve other existing institutions, as appropriate, in order to make them more effective and to ensure more efficient use of resources;

    (d) promote the exchange of information on appropriate technology, knowledge, know-how and practices between and among them; and
    (e) develop contingency plans for mitigating the effects of drought in areas degraded by desertification and/or drought.

    2. Pursuant to the general and specific obligations set out in articles 4 and 5 of the Convention, affected African country Parties shall aim to:

    (a) make appropriate financial allocations from their national budgets consistent with national conditions and capabilities and reflecting the new priority Africa has accorded to the phenomenon of desertification and/or drought;
    (b) sustain and strengthen reforms currently in progress toward greater decentralization and resource tenure as well as reinforce participation of local populations and communities; and
    (c) identify and mobilize new and additional national financial resources, and expand, as a matter of priority, existing national capabilities and facilities to mobilize domestic financial resources.


Article 5


Commitments and obligations of


developed country Parties


    1. In fulfilling their obligations pursuant to articles 4, 6 and 7 of the Convention, developed country Parties shall give priority to affected African country Parties and, in this context, shall:
    (a) assist them to combat desertification and/or mitigate the effects of drought by, inter alia, providing and/or facilitating access to financial and/or other resources, and promoting, financing and/or facilitating the financing of the transfer, adaptation and access to appropriate environmental technologies and know-how, as mutually agreed and in accordance with national policies, taking into account their adoption of poverty eradication as a central strategy;
    (b) continue to allocate significant resources and/or increase resources to combat desertification and/or mitigate the effects of drought; and
    (c) assist them in strengthening capacities to enable them to improve their institutional frameworks, as well as their scientific and technical capabilities, information collection and analysis, and research and development for the purpose of combating desertification and/or mitigating the effects of drought.
    2. Other country Parties may provide, on a voluntary basis, technology, knowledge and know-how relating to desertification and/or financial resources, to affected African country Parties. The transfer of such knowledge, know-how and techniques is facilitated by international cooperation.

Article 6


Strategic planning framework for


sustainable development


    1. National action programmes shall be a central and integral part of a broader process of formulating national policies for the sustainable development of affected African country Parties.
    2. A consultative and participatory process involving appropriate levels of government, local populations, communities and non-governmental organizations shall be undertaken to provide guidance on a strategy with flexible planning to allow maximum participation from local populations and communities. As appropriate, bilateral and multilateral assistance agencies may be involved in this process at the request of an affected African country Party.

Article 7


Timetable for preparation of


action programmes


    Pending entry into force of this Convention, the African country Parties, in cooperation with other members of the international community, as appropriate, shall, to the extent possible, provisionally apply those provisions of the Convention relating to the preparation of national, subregional and regional action programmes.

Article 8


Content of national action programmes


    1. Consistent with article 10 of the Convention, the overall strategy of national action programmes shall emphasize integrated local development programmes for affected areas, based on participatory mechanisms and on integration of strategies for poverty eradication into efforts to combat desertification and mitigate the effects of drought. The programmes shall aim at strengthening the capacity of local authorities and ensuring the active involvement of local populations, communities and groups, with emphasis on education and training, mobilization of non-governmental organizations with proven expertise and strengthening of decentralized governmental structures.
    2. national action programmes shall, as appropriate, include the following general features:
    (a) the use, in developing and implementing national action programmes, of past experiences in combating desertification and/or mitigating the effects of drought, taking into account social, economic and ecological conditions;
    (b) the identification of factors contributing to desertification and/or drought and the resources and capacities available and required, and the setting up of appropriate policies and institutional and other responses and measures necessary to combat those phenomena and/or mitigate their effects; and
    (c) the increase in participation of local populations and communities, including women, farmers and pastoralists, and delegation to them of more responsibility for management.
    3. national action programmes shall also, as appropriate, include the following:
    (a) measures to improve the economic environment with a view to eradicating poverty:
         (i) increasing incomes and employment opportunities, especially for the poorest members of the community, by:
—    developing markets for farm and livestock products;
—    creating financial instruments suited to local needs;
—    encouraging diversification in agriculture and the setting-up of agricultural enterprises; and
—    developing economic activities of a para-agricultural or non-agricultural type;
         (ii) improving the long-term prospects of rural economies by the creation of:
—    incentives for productive investment and access to the means of production; and
—    price and tax policies and commercial practices that promote growth;
         (iii) defining and applying population and migration policies to reduce population pressure on land; and
         (iv) promoting the use of drought resistant crops and the application of integrated dry-land farming systems for food security purposes;
    (b) measures to conserve natural resources:

         (i) ensuring integrated and sustainable management of natural resources, including:
—    agricultural land and pastoral land;
—    vegetation cover and wildlife;
—    forests;
—    water resources; and
—    biological diversity;
         (ii) training with regard to, and strengthening, public awareness and environmental education campaigns and disseminating knowledge of techniques relating to the sustainable management of natural resources; and
         (iii) ensuring the development and efficient use of diverse energy sources, the promotion of alternative sources of energy, particularly solar energy, wind energy and bio-gas, and specific arrangements for the transfer, acquisition and adaptation of relevant technology to alleviate the pressure on fragile natural resources;
    (c) measures to improve institutional organization:
         (i) defining the roles and responsibilities of central government and local authorities within the framework of a land use planning policy;
         (ii) encouraging a policy of active decentralization, devolving responsibility for management and decision-making to local authorities, and encouraging initiatives and the assumption of responsibility by local communities and the establishment of local structures; and
         (iii) adjusting, as appropriate, the institutional and regulatory framework of natural resource management to provide security of land tenure for local populations;
    (d) measures to improve knowledge of desertification:
         (i) promoting research and the collection, processing and exchange of information on the scientific, technical and socio-economic aspects of desertification;
         (ii) improving national capabilities in research and in the collection, processing, exchange and analysis of information so as to increase understanding and to translate the results of the analysis into operational terms; and
         (iii) encouraging the medium and long term study of:
—    socio-economic and cultural trends in affected areas;
—    qualitative and quantitative trends in natural resources; and
—    the interaction between climate and desertification; and
    (e) measures to monitor and assess the effects of drought:
         (i) developing strategies to evaluate the impacts of natural climate variability on regional drought and desertification and/or to utilize predictions of climate variability on seasonal to interannual time scales in efforts to mitigate the effects of drought;
         (ii) improving early warning and response capacity, efficiently managing emergency relief and food aid, and improving food stocking and distribution systems, cattle protection schemes and public works and alternative livelihoods for drought prone areas; and
         (iii) monitoring and assessing ecological degradation to provide reliable and timely information on the process and dynamics of resource degradation in order to facilitate better policy formulations and responses.

Article 9


Preparation of national action programmes and


implementation and evaluation indicators


    Each affected African country Party shall designate an appropriate national coordinating body to function as a catalyst in the preparation, implementation and evaluation of its national action programme. This coordinating body shall, in the light of article 3 and as appropriate:
    (a) undertake an identification and review of actions, beginning with a locally driven consultation process, involving local populations and communities and with the cooperation of local administrative authorities, developed country Parties and intergovernmental and non-governmental organizations, on the basis of initial consultations of those concerned at the national level;
    (b) identify and analyze the constraints, needs and gaps affecting development and sustainable land use and recommend practical measures to avoid duplication by making full use of relevant ongoing efforts and promote implementation of results;

    (c) facilitate, design and formulate project activities based on interactive, flexible approaches in order to ensure active participation of the population in affected areas, to minimize the negative impact of such activities, and to identify and prioritize requirements for financial assistance and technical cooperation;
    (d) establish pertinent, quantifiable and readily verifiable indicators to ensure the assessment and evaluation of national action programmes, which encompass actions in the short, medium and long terms, and of the implementation of such programmes; and
    (e) prepare progress reports on the implementation of the national action programmes.

Article 10


Organizational framework of subregional


action programmes


    1. Pursuant to article 4 of the Convention, African country Parties shall cooperate in the preparation and implementation of subregional action programmes for central, eastern, northern, southern and western Africa and, in that regard, may delegate the following responsibilities to relevant subregional intergovernmental organizations:
    (a) acting as focal points for preparatory activities and coordinating the implementation of the subregional action programmes;
    (b) assisting in the preparation and implementation of national action programmes;
    (c) facilitating the exchange of information, experience and know-how as well as providing advice on the review of national legislation; and
    (d) any other responsibilities relating to the implementation of subregional action programmes.
    2. Specialized subregional institutions may provide support, upon request, and/or be entrusted with the responsibility to coordinate activities in their respective fields of competence.

Article 11


Content and preparation of subregional


action programmes


    Subregional action programmes shall focus on issues that are better addressed at the subregional level. They shall establish, where necessary, mechanisms for the management of shared natural resources. Such mechanisms shall effectively handle transboundary problems associated with desertification and/or drought and shall provide support for the harmonious implementation of national action programmes. Priority areas for subregional action programmes shall, as appropriate, focus on:
    (a) joint programmes for the sustainable management of transboundary natural resources through bilateral and multilateral mechanisms, as appropriate;

    (b) coordination of programmes to develop alternative energy sources;
    (c) cooperation in the management and control of pests as well as of plant and animal diseases;
    (d) capacity building, education and public awareness activities that are better carried out or supported at the subregional level;
    (e) scientific and technical cooperation, particularly in the climatological, meteorological and hydrological fields, including networking for data collection and assessment, information sharing and project monitoring, and coordination and prioritization of research and development activities;
    (f) early warning systems and joint planning for mitigating the effects of drought, including measures to address the problems resulting from environmentally induced migrations;
    (g) exploration of ways of sharing experiences, particularly regarding participation of local populations and communities, and creation of an enabling environment for improved land use management and for use of appropriate technologies;
    (h) strengthening of the capacity of subregional organizations to coordinate and provide technical services, as well as establishment, reorientation and strengthening of subregional centres and institutions; and
    (i) development of policies in fields, such as trade, which have impact upon affected areas and populations, including policies for the coordination of regional marketing regimes and for common infrastructure.


Article 12


Organizational framework of the


regional action programme


    1. Pursuant to article 11 of the Convention, African country Parties shall jointly determine the procedures for preparing and implementing the regional action programme.
    2. The Parties may provide appropriate support to relevant African regional institutions and organizations to enable them to assist African country Parties to fulfil their responsibilities under the Convention.

Article 13


Content of the regional action programme


    The regional action programme includes measures relating to combating desertification and/or mitigating the effects of drought in the following priority areas, as appropriate:
    (a) development of regional cooperation and coordination of sub-regional action programmes for building regional consensus on key policy areas, including through regular consultations of sub-regional organizations;
    (b) promotion of capacity building in activities which are better implemented at the regional level;
    (c) the seeking of solutions with the international community to global economic and social issues that have an impact on affected areas taking into account article 4, paragraph 2 (b) of the Convention;
    (d) promotion among the affected country Parties of Africa and its subregions, as well as with other affected regions, of exchange of information and appropriate techniques, technical know-how and relevant experience; promotion of scientific and technological cooperation particularly in the fields of climatology, meteorology, hydrology, water resource development and alternative energy sources; coordination of sub-regional and regional research activities; and identification of regional priorities for research and development;
    (e) coordination of networks for systematic observation and assessment and information exchange, as well as their integration into world wide networks; and
    (f) coordination of and reinforcement of sub-regional and regional early warning systems and drought contingency plans.

Article 14


Financial resources


    1. Pursuant to article 20 of the Convention and article 4, paragraph 2, affected African country Parties shall endeavour to provide a macroeconomic framework conducive to the mobilization of financial resources and shall develop policies and establish procedures to channel resources more effectively to local development programmes, including through non-governmental organizations, as appropriate.
    2. Pursuant to article 21, paragraphs 4 and 5 of the Convention, the Parties agree to establish an inventory of sources of funding at the national, subregional, regional and international levels to ensure the rational use of existing resources and to identify gaps in resource allocation, to facilitate implementation of the action programmes. The inventory shall be regularly reviewed and updated.

    3. Consistent with article 7 of the Convention, the developed country Parties shall continue to allocate significant resources and/or increased resources as well as other forms of assistance to affected African country Parties on the basis of partnership agreements and arrangements referred to in article 18, giving, inter alia, due attention to matters related to debt, international trade and marketing arrangements in accordance with article 4, paragraph 2 (b) of the Convention.

Article 15


Financial Mechanisms


    1. Consistent with article 7 of the Convention underscoring the priority to affected African country Parties and considering the particular situation prevailing in this region, the Parties shall pay special attention to the implementation in Africa of the provisions of article 21, paragraph 1 (d) and (e) of the Convention, notably by:
    (a) facilitating the establishment of mechanisms, such as national desertification funds, to channel financial resources to the local level; and
    (b) strengthening existing funds and financial mechanisms at the subregional and regional levels.
    2. Consistent with articles 20 and 21 of the Convention, the Parties which are also members of the governing bodies of relevant regional and subregional financial institutions, including the African Development Bank and the African Development Fund, shall promote efforts to give due priority and attention to the activities of those institutions that advance the implementation of this Annex.
    3. The Parties shall streamline, to the extent possible, procedures for channelling funds to affected African country Parties.

Article 16


Technical assistance and cooperation


    The Parties undertake, in accordance with their respective capabilities, to rationalize technical assistance to, and cooperation with, African country Parties with a view to increasing project and programme effectiveness by, inter alia:
    (a) limiting the costs of support measures and backstopping, especially overhead costs; in any case, such costs shall only represent an appropriately low percentage of the total cost of the project so as to maximize project efficiency;
    (b) giving preference to the utilization of competent national experts or, where necessary, competent experts from within the subregion and/or region, in project design, preparation and implementation, and to the building of local expertise where it does not exist; and
    (c) effectively managing and coordinating, as well as efficiently utilizing, technical assistance to be provided.

Article 17


Transfer, acquisition, adaptation and access to


environmentally sound technology


    In implementing article 18 of the Convention relating to transfer, acquisition, adaptation and development of technology, the Parties undertake to give priority to African country Parties and, as necessary, to develop with them new models of partnership and cooperation with a view to strengthening capacity building in the fields of scientific research and development and information collection and dissemination to enable them to implement their strategies to combat desertification and mitigate the effects of drought.

Article 18


Coordination and partnership agreements


    1. African country Parties shall coordinate the preparation, negotiation and implementation of national, subregional and regional action programmes. They may involve, as appropriate, other Parties and relevant intergovernmental and non-governmental organizations in this process.
    2. The objectives of such coordination shall be to ensure that financial and technical cooperation is consistent with the Convention and to provide the necessary continuity in the use and administration of resources.
    3. African country Parties shall organize consultative processes at the national, subregional and regional levels. These consultative processes may:
    (a) serve as a forum to negotiate and conclude partnership agreements based on national, subregional and regional action programmes; and
    (b) specify the contribution of African country Parties and other members of the consultative groups to the programmes and identify priorities and agreements on implementation and evaluation indicators, as well as funding arrangements for implementation.
    4. The Permanent Secretariat may, at the request of African country Parties, pursuant to article 23 of the Convention, facilitate the convocation of such consultative processes by:
    (a) providing advice on the organization of effective consultative arrangements, drawing on experiences from other such arrangements;
    (b) providing information to relevant bilateral and multilateral agencies concerning consultative meetings or processes, and encouraging their active involvement; and


    (c) providing other information that may be relevant in establishing or improving consultative arrangements.
    5. The subregional and regional coordinating bodies shall, inter alia:
    (a) recommend appropriate adjustments to partnership agreements;
    (b) monitor, assess and report on the implementation of the agreed subregional and regional programmes; and
    (c) aim to ensure efficient communication and cooperation among African country Parties.
    6. Participation in the consultative groups shall, as appropriate, be open to Governments, interested groups and donors, relevant organs, funds and programmes of the United Nations system, relevant subregional and regional organizations, and representatives of relevant non-governmental organizations. Participants of each consultative group shall determine the modalities of its management and operation.
    7. Pursuant to article 14 of the Convention, developed country Parties are encouraged to develop, on their own initiative, an informal process of consultation and coordination among themselves, at the national, subregional and regional levels, and, at the request of an affected African country Party or of an appropriate subregional or regional organization, to participate in a national, subregional or regional consultative process that would evaluate and respond to assistance needs in order to facilitate implementation.

Article 19


Follow-up arrangements


    Follow-up of this Annex shall be carried out by African country Parties in accordance with the Convention as follows:
    (a) at the national level, by a mechanism the composition of which should be determined by each affected African country Party and which shall include representatives of local communities and shall function under the supervision of the national coordinating body referred to in article 9;
    (b) at the subregional level, by a multidisciplinary scientific and technical consultative committee, the composition and modalities of operation of which shall be determined by the African country Parties of the subregion concerned; and
    (c) at the regional level, by mechanisms defined in accordance with the relevant provisions of the Treaty establishing the African Economic Community, and by an African Scientific and Technical Advisory Committee.

ANNEX II


REGIONAL IMPLEMENTATION ANNEX


FOR ASIA


Article 1


Purpose


    The purpose of this Annex is to provide guidelines and arrangements for the effective implementation of the Convention in the affected country Parties of the Asian region in the light of its particular conditions.

Article 2


Particular conditions of the Asian region


    In carrying out their obligations under the Convention, the Parties shall, as appropriate, take into consideration the following particular conditions which apply in varying degrees to the affected country Parties of the region:
    (a) the high proportion of areas in their territories affected by, or vulnerable to, desertification and drought and the broad diversity of these areas with regard to climate, topography, land use and socio-economic systems;

    (b) the heavy pressure on natural resources for livelihoods;
    (c) the existence of production systems, directly related to widespread poverty, leading to land degradation and to pressure on scarce water resources;
    (d) the significant impact of conditions in the world economy and social problems such as poverty, poor health and nutrition, lack of food security, migration, displaced persons and demographic dynamics;
    (e) their expanding, but still insufficient, capacity and institutional frameworks to deal with national desertification and drought problems; and
    (f) their need for international cooperation to pursue sustainable development objectives relating to combating desertification and mitigating the effects of drought.

Article 3


Framework for national


action programmes


    1. national action programmes shall be an integral part of broader national policies for sustainable development of the affected country Parties of the region.
    2. The affected country Parties shall, as appropriate, develop national action programmes pursuant to articles 9 to 11 of the Convention, paying special attention to article 10, paragraph 2 (f). As appropriate, bilateral and multilateral cooperation agencies may be involved in this process at the request of the affected country Party concerned.

Article 4


National action programmes


    1. In preparing and implementing national action programmes, the affected country Parties of the region, consistent with their respective circumstances and policies, may, inter alia, as appropriate:
    (a) designate appropriate bodies responsible for the preparation, coordination and implementation of their action programmes;
    (b) involve affected populations, including local communities, in the elaboration, coordination and implementation of their action programmes through a locally driven consultative process, with the cooperation of local authorities and relevant national and non-governmental organizations;
    (c) survey the state of the environment in affected areas to assess the causes and consequences of desertification and to determine priority areas for action;
    (d) evaluate, with the participation of affected populations, past and current programmes for combating desertification and mitigating the effects of drought, in order to design a strategy and elaborate activities in their action programmes;
    (e) prepare technical and financial programmes based on the information derived from the activities in subparagraphs (a) to (d);
    (f) develop and utilize procedures and benchmarks for evaluating implementation of their action programmes;
    (g) promote the integrated management of drainage basins, the conservation of soil resources, and the enhancement and efficient use of water resources;
    (h) strengthen and/or establish information, evaluation and follow up and early warning systems in regions prone to desertification and drought, taking account of climatological, meteorological, hydrological, biological and other relevant factors; and

    (i) formulate in a spirit of partnership, where international cooperation, including financial and technical resources, is involved, appropriate arrangements supporting their action programmes.
    2. Consistent with article 10 of the Convention, the overall strategy of national action programmes shall emphasize integrated local development programmes for affected areas, based on participatory mechanisms and on the integration of strategies for poverty eradication into efforts to combat desertification and mitigate the effects of drought. Sectoral measures in the action programmes shall be grouped in priority fields which take account of the broad diversity of affected areas in the region referred to in article 2 (a).

Article 5


Subregional and joint


action programmes


    1. Pursuant to article 11 of the Convention, affected country Parties in Asia may mutually agree to consult and cooperate with other Parties, as appropriate, to prepare and implement subregional or joint action programmes, as appropriate, in order to complement, and increase effectiveness in the implementation of, national action programmes. In either case, the relevant Parties may jointly agree to entrust subregional, including bilateral or national organizations, or specialized institutions, with responsibilities relating to the preparation, coordination and implementation of programmes. Such organizations or institutions may also act as focal points for the promotion and coordination of actions pursuant to articles 16 to 18 of the Convention.
    2. In preparing and implementing subregional or joint action programmes, the affected country Parties of the region shall, inter alia, as appropriate:
    (a) identify, in cooperation with national institutions, priorities relating to combating desertification and mitigating the effects of drought which can better be met by such programmes, as well as relevant activities which could be effectively carried out through them;
    (b) evaluate the operational capacities and activities of relevant regional, subregional and national institutions;
    (c) assess existing programmes relating to desertification and drought among all or some parties of the region or subregion and their relationship with national action programmes; and

    (d) formulate in a spirit of partnership, where international cooperation, including financial and technical resources, is involved, appropriate bilateral and/or multilateral arrangements supporting the programmes.
    3. Subregional or joint action programmes may include agreed joint programmes for the sustainable management of transboundary natural resources relating to desertification, priorities for coordination and other activities in the fields of capacity building, scientific and technical cooperation, particularly drought early warning systems and information sharing, and means of strengthening the relevant subregional and other organizations or institutions.


Article 6


Regional activities


    Regional activities for the enhancement of subregional or joint action programmes may include, inter alia, measures to strengthen institutions and mechanisms for coordination and cooperation at the national, subregional and regional levels, and to promote the implementation of articles 16 to 19 of the Convention. These activities may also include:

    (a) promoting and strengthening technical cooperation networks;
    (b) preparing inventories of technologies, knowledge, know-how and practices, as well as traditional and local technologies and know-how, and promoting their dissemination and use;
    (c) evaluating the requirements for technology transfer and promoting the adaptation and use of such technologies; and
    (d) encouraging public awareness programmes and promoting capacity building at all levels, strengthening training, research and development and building systems for human resource development.

Article 7


Financial resources and mechanisms


    1. The Parties shall, in view of the importance of combating desertification and mitigating the effects of drought in the Asian region, promote the mobilization of substantial financial resources and the availability of financial mechanisms, pursuant to articles 20 and 21 of the Convention.
    2. In conformity with the Convention and on the basis of the coordinating mechanism provided for in article 8 and in accordance with their national development policies, affected country Parties of the region shall, individually or jointly:
    (a) adopt measures to rationalize and strengthen mechanisms to supply funds through public and private investment with a view to achieving specific results in action to combat desertification and mitigate the effects of drought;
    (b) identify international cooperation requirements in support of national efforts, particularly financial, technical and technological; and


    (c) promote the participation of bilateral and/or multilateral financial cooperation institutions with a view to ensuring implementation of the Convention.
    3. The Parties shall streamline, to the extent possible, procedures for channelling funds to affected country Parties in the region.

Article 8


Cooperation and coordination mechanisms


    1. Affected country Parties, through the appropriate bodies designated pursuant to article 4, paragraph 1 (a), and other Parties in the region, may, as appropriate, set up a mechanism for, inter alia, the following purposes:
    (a) exchange of information, experience, knowledge and know-how;
    (b) cooperation and coordination of actions, including bilateral and multilateral arrangements, at the subregional and regional levels;
    (c) promotion of scientific, technical, technological and financial cooperation pursuant to articles 5 to 7;
    (d) identification of external cooperation requirements; and
    (e) follow-up and evaluation of the implementation of action programmes.
    2. Affected country Parties, through the appropriate bodies designated pursuant to article 4, paragraph 1 (a), and other Parties in the region, may also, as appropriate, consult and coordinate as regards the national, subregional and joint action programmes. They may involve, as appropriate, other Parties and relevant intergovernmental and non-governmental organizations in this process. Such coordination shall, inter alia, seek to secure agreement on opportunities for international cooperation in accordance with articles 20 and 21 of the Convention, enhance technical cooperation and channel resources so that they are used effectively.

    3. Affected country Parties of the region shall hold periodic coordination meetings, and the Permanent Secretariat may, at their request, pursuant to article 23 of the Convention, facilitate the convocation of such coordination meetings by:
    (a) providing advice on the organization of effective coordination arrangements, drawing on experience from other such arrangements;
    (b) providing information to relevant bilateral and multilateral agencies concerning coordination meetings, and encouraging their active involvement; and

    (c) providing other information that may be relevant in establishing or improving coordination processes.

ANNEX III


REGIONAL IMPLEMENTATION ANNEX


FOR LATIN AMERICA AND


THE CARIBBEAN


Article 1


Purpose


    The purpose of this Annex is to provide general guidelines for the implementation of the Convention in the Latin American and Caribbean region, in light of its particular conditions.

Article 2


Particular conditions of the Latin American


and Caribbean region


    The Parties shall, in accordance with the provisions of the Convention, take into consideration the following particular conditions of the region:
    (a) the existence of broad expanses which are vulnerable and have been severely affected by desertification and/or drought and in which diverse characteristics may be observed, depending on the area in which they occur; this cumulative and intensifying process has negative social, cultural, economic and environmental effects which are all the more serious in that the region contains one of the largest resources of biological diversity in the world;
    (b) the frequent use of unsustainable development practices in affected areas as a result of complex interactions among physical, biological, political, social, cultural and economic factors, including international economic factors such as external indebtedness, deteriorating terms of trade and trade practices which affect markets for agricultural, fishery and forestry products; and
    (c) a sharp drop in the productivity of ecosystems being the main consequence of desertification and drought, taking the form of a decline in agricultural, livestock and forestry yields and a loss of biological diversity; from the social point of view, the results are impoverishment, migration, internal population movements, and the deterioration of the quality of life; the region will therefore have to adopt an integrated approach to problems of desertification and drought by promoting sustainable development models that are in keeping with the environmental, economic and social situation in each country.



Article 3


Action programmes


    1. In conformity with the Convention, in particular its articles 9 to 11, and in accordance with their national development policies, affected country Parties of the region shall, as appropriate, prepare and implement national action programmes to combat desertification and mitigate the effects of drought as an integral part of their national policies for sustainable development. Subregional and regional programmes may be prepared and implemented in accordance with the requirements of the region.
    2. In the preparation of their national action programmes, affected country Parties of the region shall pay particular attention to article 10, paragraph 2 (f) of the Convention.

Article 4


Content of national action programmes


    In the light of their respective situations, the affected country Parties of the region may take account, inter alia, of the following thematic issues in developing their national strategies for action to combat desertification and/or mitigate the effects of drought, pursuant to article 5 of the Convention:
    (a) increasing capacities, education and public awareness, technical, scientific and technological cooperation and financial resources and mechanisms;
    (b) eradicating poverty and improving the quality of human life;
    (c) achieving food security and sustainable development and management of agricultural, livestock-rearing, forestry and multipurpose activities;
    (d) sustainable management of natural resources, especially the rational management of drainage basins;
    (e) sustainable management of natural resources in high-altitude areas;
    (f) rational management and conservation of soil resources and exploitation and efficient use of water resources;
    (g) formulation and application of emergency plans to mitigate the effects of drought;
    (h) strengthening and/or establishing information, evaluation and follow-up and early warning systems in areas prone to desertification and drought, taking account of climatological, meteorological, hydro logical, biological, soil, economic and social factors;

    (i) developing, managing and efficiently using diverse sources of energy, including the promotion of alternative sources;
    (j) conservation and sustainable use of biodiversity in accordance with the provisions of the Convention on Biological Diversity;
    (k) consideration of demographic aspects related to desertification and drought; and
    (l) establishing or strengthening institutional and legal frameworks permitting application of the Convention and aimed, inter alia, at decentralizing administrative structures and functions relating to desertification and drought, with the participation of affected communities and society in general.

Article 5


Technical, scientific and


technological cooperation


    In conformity with the Convention, in particular its articles 16 to 18, and on the basis of the coordinating mechanism provided for in article 7, affected country Parties of the region shall, individually or jointly:
    (a) promote the strengthening of technical cooperation networks and national, subregional and regional information systems, as well as their integration, as appropriate, in worldwide sources of information;
    (b) prepare an inventory of available technologies and know-how and promote their dissemination and use;
    (c) promote the use of traditional technology, knowledge, know-how and practices pursuant to article 18, paragraph 2 (b), of the Convention;
    (d) identify transfer of technology requirements; and
    (e) promote the development, adaptation, adoption and transfer of relevant existing and new environmentally sound technologies.

Article 6


Financial resources and mechanisms


    In conformity with the Convention, in particular its articles 20 and 21, on the basis of the coordinating mechanism provided for in article 7 and in accordance with their national development policies, affected country Parties of the region shall, individually or jointly:
    (a) adopt measures to rationalize and strengthen mechanisms to supply funds through public and private investment with a view to achieving specific results in action to combat desertification and mitigate the effects of drought;
    (b) identify international cooperation requirements in support of national efforts; and

    (c) promote the participation of bilateral and/or multilateral financial cooperation institutions with a view to ensuring implementation of the Convention.

Article 7


Institutional framework


    1. In order to give effect to this Annex, affected country Parties of the region shall:

    (a) establish and/or strengthen national focal points to coordinate action to combat desertification and/or mitigate the effects of drought; and
    (b) set up a mechanism to coordinate the national focal points for the following purposes:
         (i) exchanges of information and experience;
         (ii) coordination of activities at the subregional and regional levels;
         (iii) promotion of technical, scientific, technological and financial cooperation;
         (iv) identification of external cooperation requirements; and
         (v) follow-up and evaluation of the implementation of action programmes.
    2. Affected country Parties of the region shall hold periodic coordination meetings and the Permanent Secretariat may, at their request, pursuant to article 23 of the Convention, facilitate the convocation of such coordination meetings, by:
    (a) providing advice on the organization of effective coordination arrangements, drawing on experience from other such arrangements;
    (b) providing information to relevant bilateral and multilateral agencies concerning coordination meetings, and encouraging their active involvement; and
    (c) providing other information that may be relevant in establishing or improving coordination processes.

ANNEX IV


REGIONAL IMPLEMENTATION ANNEX


FOR THE NORTHERN MEDITERRANEAN


Article 1


Purpose


    The purpose of this Annex is to provide guidelines and arrangements necessary for the effective implementation of the Convention in affected country Parties of the northern Mediterranean region in the light of its particular conditions.




Article 2


Particular conditions of the


northern Mediterranean region


    The particular conditions of the northern Mediterranean region referred to in article 1 include:
    (a) semi-arid climatic conditions affecting large areas, seasonal droughts, very high rainfall variability and sudden and high-intensity rainfall;
    (b) poor and highly erodible soils, prone to develop surface crusts;
    (c) uneven relief with steep slopes and very diversified landscapes;
    (d) extensive forest coverage losses due to frequent wildfires;
    (e) crisis conditions in traditional agriculture with associated land abandonment and deterioration of soil and water conservation structures;
    (f) unsustainable exploitation of water resources leading to serious environmental damage, including chemical pollution, salinization and exhaustion of aquifers; and
    (g) concentration of economic activity in coastal areas as a result of urban growth, industrial activities, tourism and irrigated agriculture.


Article 3


Strategic planning framework for


sustainable development


    1. national action programmes shall be a central and integral part of the strategic planning framework for sustainable development of the affected country Parties of the northern Mediterranean.
    2. A consultative and participatory process, involving appropriate levels of government, local communities and non-governmental organizations, shall be undertaken to provide guidance on a strategy with flexible planning to allow maximum local participation, pursuant to article 10, paragraph 2 (f) of the Convention.

Article 4


Obligation to prepare national action


programmes and timetable


    Affected country Parties of the northern Mediterranean region shall prepare national action programmes and, as appropriate, subregional, regional or joint action programmes. The preparation of such programmes shall be finalized as soon as practicable.



Article 5


Preparation and implementation of


national action programmes


    In preparing and implementing national action programmes pursuant to articles 9 and 10 of the Convention, each affected country Party of the region shall, as appropriate:
    (a) designate appropriate bodies responsible for the preparation, coordination and implementation of its programme;
    (b) involve affected populations, including local communities, in the elaboration, coordination and implementation of the programme through a locally driven consultative process, with the cooperation of local authorities and relevant non-governmental organizations;
    (c) survey the state of the environment in affected areas to assess the causes and consequences of desertification and to determine priority areas for action;
    (d) evaluate, with the participation of affected populations, past and current programmes in order to design a strategy and elaborate activities in the action programme;

    (e) prepare technical and financial programmes based on the information gained through the activities in subparagraphs (a) to (d); and
    (f) develop and utilize procedures and benchmarks for monitoring and evaluating the implementation of the programme.

Article 6


Content of national action programmes


    Affected country Parties of the region may include, in their national action programmes, measures relating to:
    (a) legislative, institutional and administrative areas;
    (b) land use patterns, management of water resources, soil conservation, forestry, agricultural activities and pasture and range management;

    (c) management and conservation of wildlife and other forms of biological diversity;
    (d) protection against forest fires;
    (e) promotion of alternative livelihoods; and
    (f) research, training and public awareness.

Article 7


Subregional, regional and joint


action programmes


    1. Affected country Parties of the region may, in accordance with article 11 of the Convention, prepare and implement subregional and/or regional action programmes in order to complement and increase the efficiency of national action programmes. Two or more affected country Parties of the region, may similarly agree to prepare a joint action programme between or among them.
    2. The provisions of articles 5 and 6 shall apply mutatis mutandis to the preparation and implementation of subregional, regional and joint action programmes. In addition, such programmes may include the conduct of research and development activities concerning selected ecosystems in affected areas.
    3. In preparing and implementing subregional, regional or joint action programmes, affected country Parties of the region shall, as appropriate:

    (a) identify, in cooperation with national institutions, national objectives relating to desertification which can better be met by such programmes and relevant activities which could be effectively carried out through them;
    (b) evaluate the operational capacities and activities of relevant regional, subregional and national institutions; and
    (c) assess existing programmes relating to desertification among Parties of the region and their relationship with national action programmes.


Article 8


Coordination of subregional, regional


and joint action programmes


    Affected country Parties preparing a subregional, regional or joint action programme may establish a coordination committee composed of representatives of each affected country Party concerned to review progress in combating desertification, harmonize national action programmes, make recommendations at the various stages of preparation and implementation of the subregional, regional or joint action programme, and act as a focal point for the promotion and coordination of technical cooperation pursuant to articles 16 to 19 of the Convention.

Article 9


Non-eligibility for financial assistance


    In implementing national, subregional, regional and joint action programmes, affected developed country Parties of the region are not eligible to receive financial assistance under this Convention.


Article 10


Coordination with other subregions and regions


    Subregional, regional and joint action programmes in the northern Mediterranean region may be prepared and implemented in collaboration with those of other subregions or regions, particularly with those of the subregion of northern Africa.