Ferill 562. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 562 . mál.


920. Tillaga til þingsályktunar



um stefnumörkun sem miðar að því að auka erlenda fjárfestingu í landinu.

Flm.: Kristján Pálsson, Árni M. Mathiesen,
Pétur H. Blöndal, Guðmundur Hallvarðsson.

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að marka stefnu sem miðar að því að auka erlenda fjárfestingu í landinu. Stefnumörkunin beinist m.a. að því að skattkerfið verði aðlagað þeim aðstæðum sem ríkja í hinum vestræna heimi til að laða að erlent fjármagn og erlenda fjárfesta þannig Ísland verði samkeppnisfært við önnur ríki um erlenda fjárfestingu.
    Stefnuyfirlýsing og nauðsynleg lagafrumvörp verði lögð fyrir Alþingi á haustþingi 1997.

Greinargerð.


    Á undanförnum áratugum hefur mikil vinna farið í að kanna möguleika á að auka erlenda fjárfestingu í landinu. Má þar minna á fjöldan allan af þingsályktunum og fyrirspurnum um frísvæði á Suðurnesjum. Ýmis félagasamtök og fyrirtæki hafa einnig unnið að aukinni erlendri fjárfestingu í landinu og erlendir fyrirlesarar skoðað samkeppnisstöðu okkar miðað við aðrar þjóðir, m.a. með tilliti til skattalegrar samkeppnisstöðu okkar. Nýlega kom til landsins á vegum Endurskoðunar Sigurðar Stefánssonar Terry M. Browne, alþjóðlegur skattasérfræðingur, sem hefur gert samanburð á stöðu Íslands og annarra Evrópuþjóða í skattalegu tilliti, bæði gagnvart skattlagningu fyrirtækja og einstaklinga. Að hans mati er eftirfarandi mest áberandi hvað varðar íslenskt skattkerfi:
    Launaskattar einstaklinga eru lágir þar til kemur yfir tekjur millistjórnenda þá eru þeir háir, og laun eru lág.
    Tvísköttunarsamningar, sem þjóðin er aðili að, eru mjög fáir miðað við önnur Evrópulönd, eins og Svíþjóð og Bretland.
    Tekjuskattar og eignarskattar fyrirtækja eru hærri hér á landi en t.d. í Svíþjóð og Danmörku.
    Skattaumhverfi fyrirtækja er óstöðugt hér á landi og grundvallarbreytingar í skattkerfinu árvissar sem þekkist ekki hjá þjóðum sem eru þróaðar á þessu sviði.
    Sveigjanleiki gagnvart nýjum erlendum fjárfestum er mjög lítill og ekki í neinu samræmi við það sem gerist í Evrópu.
    Íslenska skattkerfið kemur fram við skattgreiðandann sem tortryggið yfirvald í stað þess að koma fram sem þjónustuaðili.
    Þeir sem lagt hafa mikið upp úr fjölþættri erlendri fjárfestingu á Íslandi hafa lagt höfuðáherslu á að gera skattkerfið sveigjanlegra og skiljanlegra ef árangur á þessu sviði á að nást. Sveigjanleiki á skattasviðinu og skýr ákvæði hafa t.d. fleytt Írum þjóða lengst í að laða að erlenda fjárfesta og hefur þar í miklum mæli verið beitt ívilnunum í tekjusköttum, flýtifyrningum og styrkjum til nýrra, erlendra fjárfesta. Bretar, Hollendingar, Belgar og Danir beita sérkjörum þegar kemur að því að ná erlendum fjárfestum til landsins. Þjóðir sem náð hafa árangri hafa sömu reynslu hvað þetta varðar
    Þegar kemur að því að laða að stóriðjufyrirtæki til landsins hefur sömu aðferðum verið beitt með góðum árangri og má þar nefna ívilnanir í raforkuverði og sköttum. Stóriðjufyrirtækin á Íslandi hafa öll sérstakan frísvæðasamning sem þau vinna eftir og skapar þeim réttindi t.d. á skattasviðinu þannig að skattar breytast ekki nema að undangengnum samningum við þau. Þetta skapar stöðugleika í rekstri fyrirtækjanna, þau vita að hverju þau ganga og geta treyst því sem samþykkt hefur verið. Á stóriðjusviðinu höfum við boðið sambærileg eða betri kjör en aðrar þjóðir bjóða. Aðrar aðferðir duga ekki þegar kemur að fyrirtækjum í stóriðjurekstri. Ísland verður einfaldlega legu sinnar vegna að bjóða betur en aðrir.
    Því hefur verið haldið fram af andstæðingum frísvæða að tekjuskattar fyrirtækja á Íslandi væru lágir miðað við önnur lönd. Það er rangt. Staðreyndin er sú að í Bretlandi eru þeir jafnháir og hér en í Danmörku og Svíþjóð eru þeir lægri, svo að ekki sé minnst á Írland þar sem tekjuskattar á frísvæðum eru 10%. Því hefur einnig verið haldið fram að frísvæði og sérkjör fyrir erlenda fjárfesta séu orðin sjaldgæf fyrirbæri. Staðreyndin er hins vegar sú að öll lönd Evrópu beita sérákvæðum þegar kemur að erlendri fjárfestingu og er þeirri aðferð beitt í vaxandi mæli. Ótrúlega mörg ljón verða á vegi manna þegar kemur að því að laða að erlenda fjárfesta til Íslands. Síðasta dæmið um slíkt er skýrsla Aflvaka Reykjavíkur hf. frá í maí 1995 en þar er frísvæðum fundið flest til foráttu. Það er illt þegar fyrirtæki eins og Aflvaki dagar uppi eins og „hvítur fíll“ í stað þess að vinna að nýjungum í atvinnulífinu.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðherra upplýsti á Alþingi 5. febrúar sl. að erlend fjárfesting í Íslandi væri 10–20 sinnum minni en í þeim löndum sem við miðum okkur helst við. Samanburðartölur frá OECD sýna einnig að Íslendingar eru að dragast aftur úr hvað varðar útflutning sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.
    „Svikull er sjávarafli“ segir máltækið en þar er reynslan ólygnust. Þegar vel árar í sjávarútvegi er lag að skapa forsendu fyrir nýjum möguleikum og styrkja stoðir atvinnulífsins. Það er okkur nauðsynlegt svo að meiri fjölbreytni skapist og störf fyrir fjölmenntaða Íslendinga standi til boða á hér á landi. Það þarf fleiri egg í körfuna. Tilgangurinn með þessari þingsályktunartillögu er að stuðla að því.