Ferill 321. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 321 . mál.


962. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um afnám skattframtala.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Sér ráðherra fram á að forsendur muni skapast í náinni framtíð til afnáms sérstakra skattframtala einstaklinga?

    Árið 1992 var lögð fram skýrsla ríkisskattstjóra þar sem gerð var tillaga um nýtt álagningarkerfi fyrir launamenn. Tilgangurinn með því er:
—    að auka þjónustu við framteljendur með því að einfalda framtalsgerð þeirra,
—    að auka hagkvæmni og hagræðingu við öflun og úrvinnslu upplýsinga,
—    að efla hlutlægt skatteftirlit og opinbera tekjuöflun,
—    að samræma framkvæmd álagningar milli skattumdæma,
—    að koma upp öflugu skatteftirlits- og valkerfi,
—    að stuðla að nákvæmari álagningu en verið hefur og draga þannig úr kærum til skattstjóra að lokinni álagningu.
    Ríkisskattsjóri hefur lagt til að sem fyrst verði komið á forskráningu upplýsinga á framtalseyðublöð. Til þess að þetta sé hægt þurfa upplýsingar í tölvukerfum hins opinbera, og raunar einnig hjá fyrirtækjum, að vera aðgengilegar og áreiðanlegar. Þetta er ekki þannig enn sem komið er. Þá þarf einnig að liggja fyrir að skattyfirvöld hafi aðgang að upplýsingum en tölvulög takmarka þetta nokkuð, sem og bankaleynd um fjármagnstekjur og eignir.
    Svarið við fyrirspurninni er því það að í dag er ómögulegt að afnema framtöl einstaklinga því að ekki er hægt að vélvinna þau. Hitt liggur þó fyrir að framtalsgerðina er hægt að auðvelda almenningi og skattkerfinu í hag og er unnið að því eftir því sem fjármunir og mannafli leyfa.