Ferill 500. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 500 . mál.


979. Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Lúðvíks Bergvinssonar um uppkaup á alifuglabúum.

    Hvaða reglur hefur landbúnaðarráðuneytið sett sér um uppkaup á alifuglabúum þar sem salmonellusýkingar hafur orðið vart?
    Þann 10. apríl 1996 voru lagðar fyrir landbúnaðarráðherra tillögur yfirdýralæknis og Félags kjúklingabænda um aðgerðir gegn salmonellu í kjúklingarækt. Þær fólu í sér áætlun um útrýmingu á salmonellu í kjúklingarækt og varnir gegn áföllum sem upp kynnu að koma þannig að tryggt sé að allir íslenskir kjúklingar séu lausir við salmonellu og afurðir séu öruggar. Svo að slíkt átak heppnaðist var lagt til að veitt yrði aðstoð við að skera niður eða að hætta rekstri á búum þar sem um viðvarandi salmonellumengun hefur verið að ræða. Lagt var til að samhliða þessum grunnaðgerðum, sem snúa að því að koma á góðu heilbrigðisástandi og öryggi í kjúklingaframleiðslu með því að hætta framleiðslu á þeim búum þar sem salmonella hefur verið viðvarandi, taki búgreinin sjálf upp öryggiskerfi sem feli í sér varnir gegn því að salmonellumengaðar kjúklingaafurðir berist á markað.
    Þann 25. febrúar sl. gerðu Félag kjúklingabænda, landbúnaðarráðherra og yfirdýralæknir samning sín á milli um aðgerðir til útrýmingar á salmonellu í kjúlingarækt sem í meginatriðum byggjast á tillögum frá 10. apríl 1996. Í samningnum eru eftirfarandi ákvæði:
—    Til að útrýma salmonellumengun í fullunnum afurðum verði hætt, a.m.k. tímabundið, framleiðslu kjúklinga á búum þar sem salmonellumengun hefur verið þráfelld.
—    Félag kjúklingabænda skal á félagslegum grundvelli koma á tryggingum sem bæta óhjákvæmilegt tjón, sem verður við niðurskurð á bústofni eða eyðingu afurða, komi upp salmonellusýking á búum eða afurðir mengast af salmonellu.
—    Landbúnaðarráðuneytið veiti Félagi kjúklingabænda framlag í eitt skipti fyrir öll, 40 millj. kr., til að koma þessu átaki í framkvæmd.
    Samkvæmt því sem að framan greinir hefur landbúnaðarráðuneytið ekki sett sér reglur um „uppkaup“ alifuglabúa þar sem salmonellusýkingar hefur orðið vart, en gert samning um fjárhagslegan stuðning við félagslegar aðgerðir kjúklingabænda til að uppræta salmonellusýkingar á alifuglabúum og tryggja neytendum kjúklinga sem eru lausir við salmonellu.

    Hversu mörg bú hafa verið keypt út úr rekstri og hversu háar fjárhæðir hefur ráðuneytið lagt fram í því skyni?
    Ekkert bú hefur verið keypt úr rekstri, sbr. það sem greint er frá í svari við 1. spurningu. Félag kjúklingabænda hefur hins vegar gert samning við tvö bú um tímabundna stöðvun á framleiðslu kjúklinga og fengið til þess 40 millj. kr. framlag frá landbúnaðarráðuneytinu.

    Hvaða lagaheimildir hefur ráðuneytið fyrir uppkaupunum og hversu háa fjárhæð hyggst ráðuneytið nota í þessu skyni á þessu ári?
    Á fjárlögum 1997 eru veittar 72 millj. kr. á fjárlagalið 04-521 Greiðslur vegna smitsjúkdóma og salmonellumengunar. Þar af notar ráðuneytið 40 millj. kr. til verkefnisins.

    Geta allir alifuglaræktendur leitað eftir því við ráðuneytið að fá sig keypta út úr rekstrinum eða setur ráðuneytið skilyrði fyrir uppkaupum? Ef svo er, hver eru þau skilyrði?
    Ráðuneytið hyggst ekki kaupa alifuglaræktendur út úr rekstri. Rekstur var stöðvaður tímabundið hjá nokkrum kjúklingabúum að ráði Félags kjúklingabænda í samráði við dýralækna sem sérfróðir eru um þetta verkefni.

    Hvaða reglur setur ráðuneytið um mat á fjárhæðum sem greiddar eru vegna uppkaupanna?
    Sú framleiðslustöðvun sem um ræðir grundvallast á samningum milli Félags kjúklingabænda og rekstraraðila búanna, sbr. það sem áður er nefnt. Í þessum samningum var lögð til grundvallar árleg framleiðsla þessara búa sem hefur numið um 100 tonnum á ári að meðaltali.

    Hversu stór er hlutdeild þriggja stærstu alifuglaræktendanna á íslenska markaðinum?
    Hlutdeild þriggja stærstu alifuglaræktendanna á íslenska markaðinum var 69% árið 1996.

    Er uppkaupaaðferðinni beitt í nágrannalöndunum í baráttu gegn salmonellu í alifuglarækt?
    Uppkaupaaðferðinni var beitt í Svíþjóð þegar útrýming á salmonellu í alifuglahópum hófst þar. Í Noregi eiga sér einnig stað uppkaup á alifuglahópum þegar um ákveðna sjúkdóma er að ræða.

    Hefur salmonella greinst í alifuglum á Íslandi síðan 1995? Ef svo er ekki, hvernig getur það þjónað heilbrigðishagsmunum alifuglaræktarinnar að kaupa út bú sem ekki hefur starfað síðan 1995? Hafi salmonella á hinn bóginn greinst frá árinu 1995, hvar greindist hún þá og hvernig var brugðist við?
    Salmonella fannst árið 1995 á fimm búum í 6% sýna og árið 1996 á fjórum búum í 3,6% sýna. Í þeim tilfellum þar sem salmonella fannst í ungum var þeim fargað. Þegar salmonella fannst í afurðum var áður leyft að hitameðhöndla vöruna í vissum tilvikum og hún síðan seld til neyslu, sem er algeng aðferð erlendis, en nú hefur verið tekið fyrir slíkt hér á landi og vörunni er eytt.