Ferill 409. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 409 . mál.


1009. Frumvarp til laga



um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.

(Eftir 2. umr., 22. apríl.)



    Samhljóða þskj. 706 með þessum breytingum:

    5. gr. hljóðar svo:
    Við stofnun Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. skal allt hlutafé vera í eigu ríkissjóðs.
    Ráðherra ákveður heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum hlutafélagsbanka við stofnun. Skal við það miðað að heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum hlutafélagsbanka sé eigi hærri en sem nemur eigin fé Landsbanka Íslands annars vegar og Búnaðarbanka Íslands hins vegar samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi ársins 1996.
    Ráðherra skipar sér til ráðuneytis nefnd þriggja manna til að leggja mat á heildarfjárhæð stofnhlutafjár í hvorum hlutafélagsbanka skv. 2. mgr. Niðurstöður nefndarinnar skulu liggja fyrir í síðasta lagi 1. október 1997. Ákvæði 2. mgr. 2. gr. eiga við um störf nefndarinnar. Viðskiptaráðherra setur nefndinni erindisbréf.

    6. gr. hljóðar svo:
    Viðskiptaráðherra ákveður skiptingu hlutafjár í hluti.
    Sala á hlutafé í eigu ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. er óheimil án samþykkis Alþingis.
    Þrátt fyrir 2. mgr. getur ráðherra, til að styrkja eiginfjárstöðu hlutafélagsbankanna, heimilað útboð á nýju hlutafé. Samanlagður eignarhlutur annarra aðila en ríkissjóðs má þó ekki vera hærri en 35% af heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum bankanna um sig.

    19. gr. hljóðar svo:
    Þar sem Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands hefur verið falið í lögum að sinna sérstökum verkefnum taka Landsbanki Íslands hf. og Búnaðarbanki Íslands hf. við þeim réttindum og skyldum eftir því sem við á.
    Landsbanki Íslands hf. tekur við öllum réttindum og skuldbindingum Landsbanka Íslands og Búnaðarbanki Íslands hf. tekur við öllum réttindum og skuldbindingum Búnaðarbanka Íslands vegna yfirtöku ríkisviðskiptabankanna á sparisjóðum.