Ferill 216. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 216 . mál.


1108. Skýrsla


fjármálaráðherra um fjárhagsleg áhrif af útboðum Vegagerðarinnar og töpuðum kröfum ríkisins á hendur verktakafyrirtækjum, samkvæmt beiðni.

(Lögð fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)


    Með beiðni frá Guðmundi Lárussyni og fleiri þingmönnum (á þskj. 272) er þess óskað að fjármálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um fjárhagsleg áhrif af útboðum og tilboðum og töpuðum kröfum ríkisins á hendur verktakafyrirtækjum.

Heildarupphæðir framkvæmda á vegum Vegagerðarinnar 1990–95.
    Heildarútboð framkvæmda á vegum Vegagerðarinnar 1990–95 er að finna í töflunni hér að neðan. Það ber að athuga að samanburður er gerður á kostnaðaráætlun og lægsta tilboði en ekki fjárhæð verksamnings. Í flestum tilvikum er lægsta tilboði tekið og er frávik á heildartölum því hverfandi lítið. Upphæðir eru á verðlagi í desember 1996.


Kostnaðar-

Tilboð

Mismunur

Hlutfall tilb.

Ár

áætlun m.kr.

m.kr.

m.kr.

af áætlun



1990          
995.340
756.458 238.882 76 ,0%
1991          
4.701.225
3.789.187 912.038 80 ,6%
1992          
1.498.224
916.913 581.311 61 ,2%
1993          
3.638.362
2.554.130 1.084.232 70 ,2%
1994          
1.286.089
918.268 367.821 71 ,4%
1995          
2.193.586
1.583.769 609.817 72 ,2%
Samtals     
14.312.826
10.518.726 3.794.100 71 ,9%


Tap ríkissjóðs vegna óinnheimtra fjármuna á árunum 1990–95.
    Ekki er unnt að svara því af nákvæmni með tölum hvert var tap ríkissjóðs á árunum 1990–95 vegna óinnheimtra fjármuna, annars vegar í formi þungaskatts af ökutækjum í eigu þeirra verktakafyrirtækja sem unnu verk fyrir Vegagerðina og hins vegar í formi virðisaukaskatts hjá verktakafyrirtækjum sem unnu að verkum fyrir Vegagerðina. Fyrir því eru ýmsar ástæður:
    1. Upplýsingar í álagningarkerfi þungaskatts byggjast á heildarakstri hvers ökutækis um sig. Þær gefa ekki mynd af akstri vegna einstakra verka eða í þágu einstakra verkkaupa, svo sem Vegagerðarinnar. Ógjörningur er að sundurliða álagningu þungaskattsins á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Sama máli gegnir um álagningu virðisaukaskatts.
    2. Í tekjubókhaldi ríkisins er að finna upplýsingar um vanskil á þungaskatti og virðisaukaskatti. Þar er hins vegar ekki að finna þær kröfur sem afskrifaðar hafa verið sem tapaðar vegna gjaldþrota. Þær kröfur, sem ekki hafa verið innheimtar, þurfa ekki í öllum tilfellum að vera tapaðar þar sem innheimtumaður hefur oft á tíðum náð að tryggja viðkomandi kröfu með fjárnámi.
    3. Skráning gagna í tekjubókhaldskerfi ríkissjóðs er með þeim hætti að til þess að safna upplýsingum um tapaðar kröfur hjá tilteknum hópi gjaldenda þarf forritun og úrvinnslu. Draga má í efa réttmæti þess að birta upplýsingar um álagningu skatta eða vanskil hjá hluta gjaldenda sem kunna að vera þannig að draga megi af þeim ályktanir um hverja er að ræða.
    4. Á síðari árum hefur það færst í vöxt að einstaklingar og lögaðilar sem starfa sem verktakar kaupi ökutæki í gegnum kaupleigufyrirtæki. Í slíkum tilfellum er viðkomandi ökutæki skráð sem eign kaupleigufyrirtækisins. Álagning og eftir atvikum vanskil þungaskatts vegna þessara ökutækja eru færð á kennitölu kaupleigufyrirtækisins en ekki verktakans.
    Á undanförnum árum hefur Vegagerðin gert þá kröfu til tilboðsgjafa að þeir veiti upplýsingar um skuldastöðu sína gagnvart ríkissjóði, að öðrum kosti verði tilboð þeirra ekki tekin gild. Þetta hefur leitt til betri skila aðila á þessum markaði og að meira jafnræði er í samkeppni í útboðum Vegagerðarinnar.

Greiðsla Vegagerðarinnar vegna vanefnda verktaka á verkum í vinnslu samkvæmt útboði árin 1990–95.
    Vegagerðin hefur ekki orðið fyrir beinu fjárhagslegu tjóni vegna vanefnda verktaka enda er krafist verkábyrgða við gerð verksamninga og að þeim gengið, ef vanefndir verktaka gefa tilefni til.

Tap undirverktaka og annarra aðila á viðskiptum við verktaka sem urðu gjaldþrota eða stóðu ekki í skilum á sama tímabili.
    Samkvæmt útboðsgögnum er Vegagerðin ekki aðili að samningasambandi milli verktaka og undirverktaka og getur því ekki sagt til um þau viðskipti sem þar fara fram. Vegagerðinni er þó kunnugt um að undirverktakar hafa tapað fé á viðskiptum við verktaka en ekki er vitað í hve miklum mæli.

Kröfur til verktaka sem Vegagerðin felur verk.
    Í útboðslýsingum Vegagerðarinnar er eftirfarandi texti sem unnið er eftir:
    „Við val á verktaka verður tekið mið af fyrri verkum hans og fjárhagsstöðu. Skilyrði er að hann sé ekki í vanskilum með opinber gjöld og æskilegt að hann hafi unnið sambærilegt verk fyrir Vegagerðina eða annan aðila. Verkstjórnendur skulu hafa reynslu af verkstjórn sambærilegra verka. Ef bjóðandi verður með undirverktaka skal þeirra getið í tilboðsskrá undir 3. lið, verkstjórnendur – verkreynsla.
    Verkkaupi mun óska eftir eftirfarandi upplýsingum um bjóðanda áður en gengið verður til samninga:
    Ársreikningum síðastliðinna tveggja ára.
    Yfirlýsingu viðskiptabanka um að bjóðandi sé í eðlilegum bankaviðskiptum.
    Skriflegri yfirlýsingu frá innheimtuaðilum ríkis og viðkomandi sveitarfélags þess efnis að bjóðandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld. Ekki er einungis átt við álögð gjöld í og utan staðgreiðslu heldur öll opinber gjöld, svo sem þungaskatt, virðisaukaskatt, afdregna staðgreiðslu starfsmanna og tryggingargjald. Bjóðandi veitir Vegagerðinni heimild til að sannreyna upplýsingar hjá innheimtumönnum með undirritun þessa tilboðs.
    Skrá yfir helstu yfirmenn (yfirstjórnanda, yfirverkstjóra, tæknilegan ráðgjafa o.s.frv.) sem bjóðandi hyggst láta stjórna verkinu, ásamt greinargerð um reynslu þeirra og hæfni til að stjórna sambærilegum verkum.
    Áætlun um önnur verk sem bjóðandi þarf að vinna meðan á þessu verki stendur.“
    Tiltækur tækjakostur á að koma fram í tilboði. Er sá listi yfirfarinn og metið hvort fullnægjandi sé.

Samningar um viðbótarverkþætti án útboðs við verktaka sem fyrir eru í verkum.
    Nokkuð algengt er að gerðir séu samningar við verktaka um viðbótarverk. Yfirleitt er um smáverk að ræða sem hagkvæmt er að leysa með þessum hætti þar sem tækjakostur er fyrir hendi á staðnum. Samanburður hefur verið gerður á fjárhæð verksamninga og endanlegum greiðslum til verktaka og er frávik lítið. Hins vegar liggur ekki fyrir hvað er vegna magnaukningar í verki og hvað er vegna viðbótarsamnings.

Verkefnaskil.
    Nokkuð algengt er að verkum sé ekki skilað á tilsettum tíma, ýmist af ástæðum sem varða verkkaupa vegna breyttra aðstæðna, ástæðum sem stafa af óviðráðanlegum orsökum, t.d. náttúrufari, eða af ástæðum sem varða verktaka.

Dagsektir.
    Dagsektum er beitt ef verki er ekki lokið innan þess skilatíma sem settur hefur verið og ástæður tafanna má rekja til seinlætis verktakans eða vanefnda hans að öðru leyti. Frekari upplýsingar um beitingu dagsekta má finna í 24. kafla í Sérskilmálum Vegagerðarinnar við ÍST 30:1988.