Ferill 599. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 599 . mál.


1329. Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Þóru Sverrisdóttur um ríkisjarðir.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu margar eru ríkisjarðir? Hefur þeim fækkað eða fjölgað á árunum 1980–97?
    Hversu miklar tekjur er áætlað að ríkissjóður hafi af ríkisjörðum árið 1997? Hversu mikil gjöld er áætlað að ríkissjóður beri af ríkisjörðum árið 1997?
    Hvert er áætlað heildarsöluverðmæti ríkisjarða?
    Eru uppi áætlanir í ráðuneytinu um sölu ríkisjarða?


    Ríkisjarðir (þjóðjarðir/kirkjujarðir) eru 630. Þeim hefur fækkað á því tímabili sem um er spurt. Langflestar þessara jarða eru á forræði landbúnaðarráðuneytisins en forræðið skiptist þó á fleiri ráðuneyti og ríkisstofnanir.
    Áætlaðar tekjur af ríkisjörðum á þessu ári eru 25 millj. kr. Tekjur af jörðum, bæði leigutekjur og tekjur af sölu á þjóðjörðum (eða eignarhluta ríkissjóðs í slíkum jörðum), renna í Jarðasjóð ríkisins skv. 4. gr. laga um Jarðasjóð, nr. 34/1992. Áætluð gjöld eru samkvæmt fjárlögum 1997 13,3 millj. kr. Taka ber fram að gjöld vegna ríkisjarða ráðast að miklu leyti af úttektum sem fara fram á ríkisjörðum í tilefni af ábúendaskiptum í maí og júní ár hvert og því er ókleift að áætla með nákvæmni hver þessi gjöld eru árlega, en þau stafa af kaupum á húsum og öðrum framkvæmdum fráfarandi ábúenda á jörðunum.
    Ekki eru til upplýsingar um söluverðmæti ríkisjarða, hvorki að hluta eða í heild, enda er nánast útilokað að áætla verðmæti 630 jarðeigna sem eru um allt land og eðlilega mjög misverðmætar.
    Eins og áður sagði hefur ríkisjörðum fækkað á því tímabili sem spurt er um. Sem dæmi má nefna að á tímabilinu frá 1. janúar 1990 til 10. maí 1997 hafa verið seldar 70 jarðir, flestar til sveitarfélaga eða ábúenda, samkvæmt heimildum í 1. mgr. 37. og 38. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, með síðari breytingum. Ríkisjarðir verða ekki seldar án sérstakrar heimildar í lögum. Greindar heimildir í jarðalögum eiga við um sveitarfélög og ábúendur sem setið hafa jarðir í tíu ár eða lengur, en eftir tíu ára ábúð öðlast ábúendur kauprétt að ábýlisjörðum sínum. Ráðuneytið hefur ekki sérstakar áætlanir um sölu ríkisjarða. Nokkur eftirspurn er eftir kaupum á ríkisjörðum, sérstaklega af ábúendum og sveitarfélögum, og á allra síðustu árum hafa verið seldar 10–14 jarðir á ári. Þá eru einnig dæmi þess að jarðir séu sérstaklega auglýstar til sölu og er þá um að ræða jarðir sem ekki eru leigðar út til nytja.