Ferill 510. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 510 . mál.


1333. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um heimild til lækkunar á tekjuskatts­stofni vegna menntunar barna.

    Fjármálaráðuneytið hefur aflað upplýsinga hjá embætti ríkisskattstjóra.

     2.     Hversu margir nýttu sér heimild til lækkunar á tekjuskattsstofni vegna verulegra útgjalda við menntun barna sinna, 16 ára og eldri, árin 1994, 1995 og 1996, sundurliðað eftir árum?
    Skattyfirvöld hafa ekki sérstaklega skráðar upplýsingar um fjölda þeirra einstaklinga (hjón eru talin tveir einstaklingar) sem fengu ívilnun í tekjuskatti sökum verulegra útgjalda við menntun barna sinna, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignar­skatt. Fyrirliggjandi upplýsingar um ívilnanir skv. 66. gr. ná yfir alla töluliði greinarinnar.
    Við álagningu árið 1994 nutu 7.195 einstaklingar ívilnunar samkvæmt öllum töluliðum 66. gr.
    Við álagningu árið 1995 fjölgaði þeim sem nutu ívilnunar skv. 66. gr. verulega eða úr 7.195 einstaklingum í 11.381, þ.e. um 4.186. Þó að reikna megi með að einhver fjölgun hafi orðið milli áranna 1994 og 1995 vegna annarra töluliða 66. gr. en vegna útgjalda foreldra við nám 16–20 ára barna sinna má þó gera ráð fyrir að meginhluti fjölgunar þeirra sem nutu ívilnunar 1995 hafi verið vegna slíkra útgjalda.
    Helstu ástæður fyrir auknum ívilnunum skv. 66. gr. munu vera umræður og blaðaskrif sem fram fóru haustið 1994, svo og aukin áhersla skattyfirvalda á upplýsingagjöf til almennings um rétt þann er skattþegnar hafa samkvæmt ákvæðum 66. gr. Við álagningu á árinu 1996 fjölgar þeim sem nutu ívilnunar skv. 66. gr. aðeins um 170 frá fyrra ári eða úr 11.381 í 11.551 og þykir það styðja þessa tilgátu.

     4.     Hver var heildarfjárhæð þessarar skattaívilnunar á hverju ári fyrir sig og hvað lækkaði skattbyrði þeirra að meðaltali sem fengu slíkan frádrátt?
    Heildarfjárhæðir ívilnunar skv. 66. gr. til lækkunar tekjuskattsstofns voru á framtalsárinu 1994 rúmlega 800 millj. kr., framtalsárið 1995 rúmlega 1.000 millj. kr. og framtalsárið 1996 rúmlega 1.100 millj. kr.
    Talið er að lækkun á tekjuskattsstofni þeirra einstaklinga sem nutu ívilnunar skv. 4. tölul. 66. gr., þ.e. vegna náms barna 16–20 ára, hafi verið 92 millj. kr. framtalsárið 1994. Áætlað er að sambærilegar tölur hafi á framtalsárunum 1995 og 1996 verið á bilinu 250–350 millj. kr. og er þá höfð í huga sú fjölgun sem talin er að hafi orðið á þeim sem nutu ívilnunar milli fram­talsáranna 1994 og 1995.


     6.     Hversu margir áttu rétt á slíkri skattaívilnun vegna menntunar barna á þessum árum?

    Fjöldi þeirra sem átt hafa rétt til ívilnunar liggur ekki nákvæmlega fyrir eins og áður er sagt, en ætla má að um sé að ræða 5–6 þúsund einstaklinga.

     8.     Hversu margir á aldrinum 16–20 ára voru með tekjur undir viðmiðunarmörkum svo heimilt var að veita lækkun á tekjuskattsstofni skv. 4. tölul. 66. gr. laga um tekjuskatt og eign­arskatt, og hver var ónýttur persónuafsláttur þeirra árin 1994–96?
    Á framtalsárinu 1994 voru 11.723 einstaklingar af 21.263 á aldrinum 16–20 ára undir viðmiðunarmörkum, sem voru það ár 415 þús. kr. Ónýttur persónuafsláttur þeirra var 2.220 millj. kr. Í þessari tölu eru ungmenni 16–20 ára sem ekki voru við nám.
    Samsvarandi fjöldi framtalsárið 1995 var 11.530 af 20.886. Viðmiðunarmörk árið 1995 voru 417 þús. kr. og ónýttur persónuafsláttur var 2.206 millj. kr.
    Fjöldatölur framtalsársins 1996 voru 11.517 af 21.261. Viðmiðunarmörk voru 427 þús. kr. og ónýttur persónuafsláttur 2.268 millj. kr.
    Ekki eru fyrir hendi upplýsingar um fjölda nemenda undir viðmiðunarmörkum umrædd ár né heldur um ónýttan persónuafslátt þeirra. Þess skal þó getið að nemendur 16–20 ára voru samkvæmt útgefnum námsmannakortum 15.207 framtalsárið 1994 og 15.517 framtalsárið 1996. Ekki er vitað um fjöldann framtalsárið 1995.