Textun íslensks sjónvarpsefnis

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 14:37:02 (3142)

1998-01-28 14:37:02# 122. lþ. 54.10 fundur 196. mál: #A textun íslensks sjónvarpsefnis# þál., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[14:37]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur fyrir að flytja þetta þarfa mál hér á hinu háa Alþingi um leið og ég hvet þingheim til að gefa því gaum og veita því brautargengi. Hér er hreyft mjög mikilvægu réttindamáli sem snertir fjölda fólks en ég ætla ekki að rekja þau atriði sem fjallað hefur verið um nú þegar.

Það sem mig langar til að gera að umræðuefni, hæstv. forseti, er að þetta snertir mannréttindi, þau grundvallarmannréttindi að geta notið þess menningarefnis og þeirra upplýsinga sem birtast í sjónvarpi eða í útvarpi daglega. Þetta er mikið atriði til að gera heyrnarskertum kleift að fá sem eðlilegasta hlutdeild í samfélaginu. Ég vil gjarnan velta því upp hvort réttur þessa fólks sé ekki stöðugt brotinn með því að verða að hafa skylduáskrift að ríkisútvarpi og ríkissjónvarpi og greiða þar gjöld, jafnvel án þess að geta notið á við aðra þess efnis sem þar er sýnt. Ég gæti ímyndað mér að væri það kannað betur, þá kæmi í ljós að þetta jaðraði við mannréttindabrot og mismunun sem stjórnarskráin í rauninni bannar.

Ég vil aftur þakka hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur fyrir að bera málið fram um leið og ég hvet þingheim allan til að veita þessu máli stuðning.