Túlkun þingskapa

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 13:59:38 (3649)

1998-02-11 13:59:38# 122. lþ. 64.93 fundur 212#B túlkun þingskapa# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[13:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vona að hæstv. forseti hafi lagt eyru við og heyrt hvaða ásakanir komu fram hjá hv. þm. Geir H. Haarde, formanni þingflokks Sjálfstfl., og síðan var undir þær tekið með vissum hætti af hæstv. forsrh. Þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra, héldu því fram að hér hefði farið fram misbeiting af hálfu stjórnarandstöðunnar á þingsköpum eða hennar stöðu í þinginu.

Nú er það ótvírætt að þau ákvæði þingskapanna sem þarna koma til eru skýr og á ekki að þurfa að deila um túlkun þeirra. Ég fer því fram á það að hæstv. forseti kveði upp úr um það hvort hann telji að hér hafi átt sér stað misbeiting á þingsköpum eða stjórnarandstaðan hafi með einhverjum hætti misbeitt þeim rétti sem hún hefur eða minni hluti á hverjum tíma og skýrt er búið um að þessu leyti í þingsköpunum. Sé það skoðun forseta og hans niðurstaða eða úrskurður að svo sé ekki, þá hljótum við að ætlast til að þessir hv. þingmenn dragi þau ummæli sín til baka og biðjist afsökunar á þeim. Annað er algerlega ósæmilegt og menn verða að standa ábyrgir orða sinna einnig þótt þeir beri háa titla. Við getum ekki setið undir því við slíkar aðstæður að þingstörfin gangi áfram fyrr en búið er að skýra úr þessum málum, herra forseti.