Smíði nýs varðskips

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 15:15:15 (3867)

1998-02-16 15:15:15# 122. lþ. 68.1 fundur 222#B smíði nýs varðskips# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[15:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og lýsi nokkurri ánægju með þau. Ég tek það svo að ríkur vilji sé hjá hæstv. ráðherra að skoða í alvöru en ekki bara til málamynda að þetta tækifæri verði notað til að hleypa af stað skipasmíðum af stærri gráðunni á nýjan leik á Íslandi, en Íslendingar hafa sem kunnugt er ekki byggt stærri skip í talsvert á annan áratug. Hér mæla öll rök með því að skoða þetta vandlega, líka þjóðhagsleg. Benda má á að um þá samsetningu verksins gæti verið að ræða að ódýrasti hluti stálvinnunnar væri jafnvel unnin erlendis en samsetning færi fram á Íslandi, niðursetning búnaðar o.s.frv. Því fylgja líka ýmsir kostir fyrir okkur þegar kemur að því að þjónusta skipið og halda því við að um innlenda aðila sé að ræða sem öllum hnútum séu kunnugir.

Enn fremur má benda á að vonandi verður síðan fram haldið endurnýjun á skipaflotanum á komandi árum og þá gæti orðið um einhvers konar raðsmíðaþróun að ræða.