Heilbrigðismál

Þriðjudaginn 02. júní 1998, kl. 17:02:37 (7268)

1998-06-02 17:02:37# 122. lþ. 140.94 fundur 435#B heilbrigðismál# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur, 122. lþ.

[17:02]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 4. þm. Vestf. fyrir að efna til þessarar umræðu. Það hefur verið óvenjuhljótt um heilbrigðismálin að undanförnu þrátt fyrir næg tilefni. Orsökin er auðvitað hversu mörg stór mál hafa verið til umfjöllunar í þinginu og í þjóðfélaginu að undanförnu. Heilbrigðismálin hafa því svolítið lent í útideyfu.

Ég minni á öll átökin sem eiga sér stað á Alþingi á hverju einasta ári, einkum nú síðustu árin í tengslum við fjárlög og fjáraukalög, þar sem stjórnendum og starfsfólki heilbrigðisþjónustu er æ ofan í æ stillt upp frammi fyrir hinu ómögulega, frammi fyrir því óvinnandi verkefni að draga úr kostnaði án þess að draga úr þjónustunni við fólkið sem þarf á henni að halda og er tryggt með lögum. Þetta fólk kannast ekki við hið stórbætta ástand sem hæstv. heilbrrh. taldi sig hafa efni á að lýsa áðan í ræðu sinni.

Ég segi óvinnandi verkefni vegna þess að það er í rauninni orðið svo. Vissulega kom í ljós þegar aðhaldsaðgerðir hófust að einhverju marki fyrir nokkrum árum að menn fundu ýmsar leiðir til sparnaðar og aðhalds og hafa lagt mjög hart að sér til að ná þeim fram. Árangurinn er í rauninni ótrúlegur á öllum sviðum en það er auðvitað ekki hægt að ná slíkum árangri endalaust. Það hlýtur að enda með ósköpum eins og tilraunin með hestinn sem átti að athuga hvað kæmist af með lítið fóður. Sú tilraun tókst formlega nokkuð vel þangað til aumingja hesturinn dó úr hor.

Þar með er ég ekki að segja að nú séu allar leiðir þrautreyndar til aðhalds og sparnaðar í heilbrigðiskerfinu. Fyrst og fremst hlýtur þar að vera horft til stjórnunar og skipulagningar, skýrrar og afmarkaðrar verkaskiptingar og samstarfs, einkum í sjúkrahúsum landsins. Þar hefur náðst eins og ég hef sagt gríðarlega mikill árangur. Sjúklingar á hvern starfsmann eru mun fleiri en áður. Aðgerðum hefur fjölgað, legudögum hefur fækkað og þannig mætti áfram telja og líklega mundi einhver freistast til að tala um aukna framleiðni, sem mér finnst reyndar alveg ótækt orð í þessu samhengi. En það er mín skoðun að allt of langt sé gengið á þessari braut og að í raun og veru sé svo komið að álag á starfsfólk sé komið út á verulega hættulega braut. Það sé farið að segja hættulega mikið til sín í minnkandi starfsþreki og minnkandi starfsgleði, auknum álagssjúkdómum og atgervisflótti sé að komast á varhugavert stig í þessum geira.

Önnur hlið á málinu er svo vaxandi álag á heimilin í landinu. Sjúklingar eru orðnir veikari þegar þeir komast til meðferðar og þeir eru sendir veikari heim, og það er aldeilis óþolandi fyrir veikt og lasburða fólk og reyndar allt fólk því að flestir verða einhvern tíma veikir og þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda að búa við sífellda óvissu og öryggisleysi í þessu efni.

Herra forseti. Hér er lýst eftir stefnu og ég tek undir það. Hv. málshefjandi fór yfir nokkur atriði sem tæpt hefur verið á en lítið unnið úr eða leitt til lykta og allt er þetta heldur óljóst eftir svarræðu hæstv. ráðherra. En ég ætla að halda mig við kostnaðinn. Hæstv. ráðherra fór enn einu sinni yfir milljarðana sína sem gera þó ekki mikið meira en halda í við sannanlegan kostnaðarauka vegna mannfjölgunar og breyttrar tækni. Stefnumörkun í heilbrigðismálum er nauðsynleg. Stefnumörkun þar sem tekið er mið af þróuninni sem er og hefur verið í þekkingu og tækni en við megum aldrei missa sjónar á þeirri meginhugsun sem við flest okkar höfum talið að ætti að liggja til grundvallar góðu heilbrigðiskerfi, hugsun sem byggir á mannréttindum og samhjálp. Um þá hugsun þarf að standa vörð.