Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 14:28:59 (95)

1997-10-07 14:28:59# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[14:28]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Við fyrstu yfirferð yfir frv. til fjárlaga eru menn að vonum býsna uppteknir af þeim nýja búningi sem það er nú íklætt í samræmi við ný lög um fjárreiður ríkisins. Við höfum eðlilega verið full eftirvæntingar að sjá útkomuna eftir allan aðdragandann og undirbúning þeirra laga. Ég get sagt með góðri samvisku að mér finnst að mörgu leyti að hér hafi tekist vel til. Þessi breytta uppsetning á að gefa betri heildarsýn yfir öll fjármál ríkisins. Við eigum að fá yfirsýn yfir öll tekjutilefni og allar skuldbindingar en ekki bara inn- og útstreymi þegar það á sér stað og við fáum miklu skýrari mynd af lánsfjárþörf og þeim lagabreytingum sem eru taldar nauðsynlegar vegna afgreiðslu fjárlaganna.

Umfangið virðist allt miklu meira enda koma nú inn í fjárlögin allmargir liðir sem við höfum svo sem vitað af, flestum a.m.k., en hafa ýmist verið færðir til lækkunar á tekjuliðum eða þá færðir á liði í B-hluta fjárlaga eða jafnvel ekki færðir og þarna getur verið um miklar breytingar að ræða. Allt á þetta að geta gefið skýrari heildarmynd þegar við höfum áttað okkur til fulls á smáatriðunum. Það tekur vissulega tíma sinn. Efalaust eiga ýmis umdeilanleg atriði eftir að skjóta upp kollinum þegar farið verður betur ofan í saumana á þessum nýja búningi. Við sem skipum minni hluta fjárl. höfum þegar bent á tvö slík atriði, tvær færslur sem eru undanskildar á gjaldahlið og þetta eru liðir upp á heila 7 milljarða en inn á þetta kom hæstv. fjmrh. áðan og taldi okkur hafa sýnt mikið skilningsleysi við skoðun málsins.

Hér er annars vegar um að ræða 255 millj. kr. vegna hafnarframkvæmda sem eru unnar nú í ár en ætlunin að greiða síðar samkvæmt hafnaáætlun. Þessi upphæð er að vísu færð undir liðnum Viðskiptahreyfingar en í raun ekki tekin til færslu í fjárlögum vegna þess að lögin um fjárreiður segja að færa skuli allar skuldbindingar þegar stofnað er til þeirra og verður þá ekki annað séð en þessi fjárhæð verði í rauninni aldrei færð inn í fjárlög þar sem þegar hafði verið stofnað til þessara skuldbindinga áður en lögin um fjárreiður ríkisins koma til framkvæmda.

Í öðru lagi kemur fram á bls. 389 í greinargerð frv. að 6,7 milljarðar kr. vegna launa- og verðbreytinga á eldri skuldbindingum vegna áunninna lífeyrisréttinda verða færðir til skuldar á endurmatsreikningi en koma ekki beint fram í fjárlögum og munu aldrei koma fram í fjárlögum. Sem sagt, 7 milljarðar kr. á þessum tveimur liðum sem koma ekki fram í fjárlagaliðunum og verða aldrei færðir sem upphæðir á fjárlögum þrátt fyrir allar yfirlýsingar um að allar skuldbindingar eigi að koma þar fram. Ég gagnrýni ekki í sjálfu sér þennan færslumáta. Ég tel hann í raun í samræmi við lög og reglur eins og hæstv. ráðherra fjallaði áðan um, lög og reglur hvernig með slíkt skuli fara. Þarna er svo sannarlega um skuldbindingar að ræða sem að sjálfsögðu skipta máli fyrir allt heila dæmið og hefði verið rétt að benda skýrar á en gert er. Það er ekki gert og jafnvel er hægt að segja að þetta sé falið í greinargerðinni og það vekur ákveðna tortryggni. Hver veit nema eitthvað fleira af þessu tagi eigi eftir að koma í ljós við nánari yfirferð því að það er auðvitað enginn leikur er að fara í gegnum þetta stóra dæmi. Það er miklu stærra og umfangsmeira en svo að maður átti sig á öllum þáttum þess á örfáum dögum.

Verst er hversu erfitt er að bera alla þætti þess saman við fjárlög ársins í ár og fyrri fjárlög og við hljótum að minna á eindregnar óskir fjölmargra þingmanna um samanburðarhæfni --- mér þætti nú vænt um ef hæstv. fjmrh. mætti vera að því að hlusta á mál mitt --- eindregnar óskir fjölda þingmanna komu fram um samanburðarhæfni, þ.e. að gildandi fjárlög yrðu sett fram til viðmiðunar á skýran hátt. Það hefur ekki verið gert og það auðveldar sannarlega ekki yfirferð yfir fjárlagafrv. En við hljótum að bera saman allar forsendur og allar tölur fjárlagafrv. við gildandi fjárlög og velta fyrir okkur forsendum, hvort þær standist og hvernig sú stefna sem frv. byggir á er í raun.

Við afgreiðslu núverandi fjárlaga bentum við, sem skipum minni hluta fjárln., ítrekað á að bæði tekju- og gjaldahlið þeirra laga væru stórlega vanáætlaðar, forsendur væru rangar að hluta til og kröfur óraunhæfar. Mat okkar var, svo að ég rifji það aðeins upp, að varlega áætlað munaði 1--2 milljörðum á tekjuhliðinni og öðru eins á gjaldahlið fjárlaganna. Nú hefur komið í ljós að við vorum í rauninni afar varkár í fullyrðingum okkar því að tekjuaukinn er ekki 1,5--2 milljarðar, eins og við bjuggumst við, heldur virðist hann ætla að verða 4,7 milljarðar og munar nú um minna. Gjöldin aukast hins vegar um 6 milljarða en þó er réttara eða sambærilegra að tala um rúma 2 milljarða vegna þess að um 4 milljarðar eru vegna sérstakrar innköllunar spariskírteina og hvað sem segja má um þá ákvörðun, sem ég tel raunar hafa verið rétta, var óhugsandi að sjá hana fyrir varðandi afgreiðslu fjárlaga. Viðvaranir okkar og fullyrðingar standast því fyllilega því að bæði tekjuhliðin og gjaldahliðin voru stórlega vanáætlaðar við afgreiðslu fjárlaga ársins í ár.

Aukningu útgjalda í ár má fyrst og fremst rekja til óraunhæfra fjárveitinga til heilbrigðismála, til sjúkratrygginga og til stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík. Ástæðan er eins og við vöruðum eindregið við að enn eina ferðina hafa áætlanir ekki staðist eða kröfur um sparnað og niðurskurð og ætli ástæðan sé ekki einfaldlega sú að sparnaðarleiðin er orðin ansi erfið og matarholurnar eru hreinlega engar eftir. En menn halda áfram að klappa steininn og hyggjast enn skera niður og það veldur svo sannarlega áhyggjum.

Við eigum eftir býsna mikla yfirferð og upplýsingaleit áður en fullyrða má um niðurstöðu dæmisins á næsta ári. Kannski er rétt að koma hér að því að hluti teknanna er fenginn með sölu eigna sem eiga að skila tæplega 2 milljarða kr. hagnaði en salan er í heild sinni talin skila 6,3 milljörðum. Ég gagnrýni út af fyrir sig ekki hvernig þetta er fært en það eru 6,3 milljarðar sem menn búast við að fá inn. Ég hlýt að minna á að þetta eru tekjur sem fást aðeins einu sinni og það er mjög brýnt að þær tekjur verði notaðar til þess að lækka skuldir en ekki til neins annars. Slíkra tekna er aðeins aflað einu sinni.

Raunar ætti að vera mun auðveldara en oft áður að spá um þróun mála. Færri óvissuþættir eru í heildarmyndinni. Búið er að semja við marga hópa launafólks, ekki alla en marga, og samningar eru yfirleitt til lengri tíma þannig að menn vita nokkurn veginn um launaþróunina. Sama má segja um atvinnumálin. Núna eru ekki margir óvissuþættir þótt t.d. sé aldrei hægt að vera viss um hvernig veiðist. Þar eru þó horfur góðar í sumum greinum. Seiðatalning á þessu ári gefur góðar vonir og þorskurinn er enn að styrkjast en það er spurning hvort menn eru ekki of bjartsýnir á annað, t.d. rækjuna. Á flestum sviðum atvinnulífsins eru allgóðar horfur. Það má alveg tala um uppsveiflu. Jafnvel loðdýrarækt og fiskeldi gefa góða raun um þessar mundir eftir ótrúlega erfiðleika fyrri ára og má kannski að mestu rekja til þess þjóðareinkennis eða þjóðarlösts okkar Íslendinga að demba okkur fyrirvaralítið út í hlutina, undirbyggja ekki nógu vel, byggja ekki nægilega á rannsóknum og traustum undirbúningi, markaðsleit og vel grunduðum fjárfestingum fyrir utan það að ef eitthvað nýtt rekur á fjörur ætla helst allir að græða á því. Nýlegar upplýsingar um stórauknar tekjur af ferðaþjónustu á þessu ári sýna okkur enn einu sinni mikilvægi þeirrar greinar sem menn reiknuðu tæpast með fyrir hálfum öðrum áratug og litu nánast á sem tómstundagaman fárra manna. Sú grein á enn eftir að bæta um betur, trúi ég, og færa okkur enn meiri tekjur og svona mætti áfram telja. Það er meiri bjartsýni, meira þor og dugur í atvinnulífinu og með sanni er hægt að tala um góðæri.

Vissulega eru nokkrar blikur á lofti sem gætu haft áhrif á þessa mynd. Menn hafa vissar áhyggjur af auknum viðskiptahalla en sá halli stafar fyrst og fremst af þeim miklu fjárfestingum sem eru í gangi og víst er að aukinn kaupmáttur skilar sér í aukinni neyslu sem aftur þýðir auknar tekjur í ríkiskassann. En það er þetta með kaupmáttinn. Mikið er talað um aukinn kaupmátt og ráðamenn stæra sig mjög af því og segja að aukinn kaupmáttur almennings sýni það og sanni að góðærið skili sér til fólksins.

En er það nú svo? Jú, aukinn kaupmáttur skilar sér til sumra en ekki allra. Hann skilar sér til hinna betur settu, til vel stæðra manna á miðjum aldri í góðri stöðu, heilbrigðra og að öllu leyti með góðar aðstæður. Sú stefna sem fylgt hefur verið á undanförnum árum hefur í rauninni gerbreytt þjóðfélaginu og skilur æ meira á milli hinna vel megandi og þeirra sem minna hafa. Þetta hefur verið að gerast undanfarinn áratug með vaxandi þunga og er í rauninni skelfileg þróun sem hófst að mínu mati af krafti fyrir einum áratug þegar tekinn var upp skattur á matvæli. Ráðandi öfl eru að breyta samfélagi okkar úr samfélagi velferðar og samhjálpar í samfélag einstaklingshyggju og peningahyggju og það er hörmuleg og hættuleg þróun. Aukinn kaupmáttur kann að vera staðreynd sem menn rökstyðja með útreikningum á blaði en þeir finna ekki fyrir auknum kaupmætti sem eru á meðallaunum og lægstu laununum, hafa börn á framfæri, þurfa mikið að nýta sér þjónustu í heilbrigðiskerfinu, þurfa að greiða kostnað við skólagöngu barna sinna, kostnað sem hefur farið sívaxandi og svona mætti áfram telja. Þjónustugjöld, síaukinn kostnaður almennings vegna heilbrigðisþjónustu, skólagjöld og annar kostnaður er ekki tekinn inn í útreikning kaupmáttar og því megum við ekki gleyma. Það er holur hljómur í því þegar verið er að tíunda hækkun lífeyris og bóta sem hefur verið klipið af jafnt og þétt árum saman. Skárra væri það ef þetta hækkaði ekki einhverja ögn í þessu svokallaða góðæri en til þess þurfti reyndar mikla baráttu.

Grunnlífeyrir aldraðra er nú t.d. aðeins helmingur þess sem hann ætti að vera ef hann væri sambærilegur við það sem var fyrir 20 árum og á sama tíma hefur kostnaður þessa hóps verið að aukast. Annað dæmi er auðvitað persónufrádrátturinn sem var áhersluatriði allra flokka fyrir kosningarnar fyrir sex árum, 1991, þegar öllum fannst það brýnast að hækka skattleysismörkin vegna þess að upphæð persónufrádráttar var kippt úr sambandi við þróun vísitölu þegar staðgreiðslu skatta var komið á. Þessi áhersluatriði gleymdust snarlega eftir kosningarnar og heyrast varla lengur. Þannig hefur þróunin verið undanfarin ár. Stefnan hefur gengið út á að efla svokallaða kostnaðarvitund almennings, kafa æ lengra ofan í vasa fólks eftir þátttöku í samfélagslegum verkefnum.

[14:45]

Þjóðhagsstofnun hefur tekið saman upplýsingar um hlut almennings í útgjöldum undanfarin ár, t.d. til heilbrigðismála. Þar kemur fram m.a. að fyrir 10 árum voru heildarútgjöld hins opinbera til heilbrigðismála 6,89% af vergri landsframleiðslu en almenningur greiddi þá beint sem svaraði 1% af vergri landsframleiðslu. Á síðasta ári var hlutur hins opinbera nær hinn sami mælt á þennan mælikvarða eða 6,83% en hlutur almennings hafði hækkað um þriðjung og var 1,32% af vergri landsframleiðslu. Samkvæmt útreikningum stofnunarinnar greiddu heimilin í landinu nálega 6,4 milljarða fyrir lyf- og læknisþjónustu í fyrra. Heildarútgjöld til heilbrigðismála námu hér um bil 40 milljörðum króna og hlutur almennings samkvæmt því rúmlega 16%. Þessar tölur tala sínu máli og þetta er vond stefna og þetta er hættuleg stefna því hún grefur undan samstöðu og samhjálp og hún særir réttlætisvitund fólks og hún stenst ekki til lengdar. Hún breikkar bilið milli ákveðinna hópa og leiðir til ófarnaðar, jafnvel byltingar. Nú má ekki skilja það svo að ég sé að boða blóðuga byltingu í íslensku samfélagi en stefna sem miðar að því að gera hina ríku ríkari og hina fátæku fátækari verður að lokum til þess að menn rísa upp. Menn sætta sig ekki við þetta. Við viljum ekki þjóðfélag þar sem hinir ríkari geta keypt sig upp eftir biðlistum sjúkrahúsa eða keypt börnum sínum aðgang að menntun. Við viljum ekki stéttskipt þjóðfélag heldur þjóðfélag réttlætis, samkenndar og samhjálpar.

Það er kannski ekki hægt að segja að nein stökk séu tekin á þessari þróunarbraut í því frv. til fjárlaga sem við hér ræðum, ekki stökk en þróunin á greinilega að vera áfram á sömu leið. Þegar búið er að leggja saman og draga frá og taka tillit til breyttrar framsetningar kemur í ljós að í heild er gert ráð fyrir að útgjöld á greiðslugrunni eins og hefur hingað til verið haft til viðmiðunar, standi í stað milli á ára og það mun auðvitað sýna sig að sú niðurstaða gengur ekki upp öðruvísi en að draga enn úr þjónustu ríkisins við almenning eða ganga enn þá nær fólki með þátttöku í kostnaði. Og það er fyllsta ástæða til þess að ætla að tekjuhliðin sé vanáætluð, þ.e. að tekjur muni skila sér á greiðslugrunni mun betur en hér er reiknað með, e.t.v. ekki jafn stórkostlega og nú í ár, en tekjuhliðin er vanáætluð samt. Það ættu menn að viðurkenna og taka á ýmsum augljósum útgjaldavanda um leið. Það er hægt að gera það án þess að fórna markmiðinu um tekjuafgang, það er ég sannfærð um.

Ég vil nefna örfá atriði sem mér finnst nauðsynlegt að benda á. Við verðum að taka okkur ærlegt tak í menntamálum. Við erum að dragast aftur úr í samfélagi þjóðanna. Við höfum fengið alvarlegar viðvaranir í því efni og það er okkur hættulegt upp á framtíðina að taka ekki mark á þeim viðvörunum. Nú duga ekki orðin tóm. Við verðum að láta verkin tala. Efling menntunar, vísinda og rannsókna á að vera forgangsmál. Hér væri líka hægt að fara mörgum orðum um að það verði að taka á kjörum og aðbúnaði kennara. Það er þjóðfélaginu til skammar og furðulegt í raun að nokkrir skuli fást til að sinna þeim mikilvægu störfum miðað við alla þá lítilsvirðingu sem þeir hafa þurft að þola.

Ástandið í heilbrigðismálum er óviðunandi með öllu. Það er búið að þrengja allt of mikið að þeirri þjónustu til mikils skaða fyrir þjóðfélagið í heild. Það má nefna að aðalvandi stóru sjúkrahúsanna er að það vantar fráflæði, ef svo má orða það. Það vantar fleiri hjúkrunarrými fyrir aldraða. Það vantar sjúkrahótel fyrir þá sem þurfa ekki mikla umönnun, en þó umönnun og eftirlit og er ekki skynsamlegt að senda heim. Sparnaður við heilbrigðisþjónustu kemur yfirleitt alltaf fram á öðrum póstum. Sparnaður á sjúkrahúsum skilar sér í auknum lyfjakostnaði. Fólk kemur veikara en áður í aðgerð. Það er sent fyrr heim sem aftur eykur á vanda og kostnað heimilanna. Þetta ástand er gjörsamlega óviðunandi. Því er reyndar haldið fram að verið sé að auka framlög til heilbrigðismála í þessu frv. Það er ekki rétt. Þetta er að vísu einhver aukning miðað við fjárlög, en þetta er niðurskurður miðað við raunkostnað, það er það. Hér er verið að viðurkenna brot af vandanum sem hefur verið viðvarandi vegna þess að heilbrigðisstofnanir og Tryggingastofnun hafa ekki getað haldið sig innan ramma fjárveitinga þrátt fyrir sífelldar kröfur um aðhald. Og enn er verið að reifa nýjar hugmyndir og gamlar í þessu efni sem augljóslega ganga ekki eftir nema með því að draga úr þjónustu.

Ég vil líka nefna löggæslu sem forgangsmál og átak gegn fíkniefnaneyslu og vaxandi ofbeldi í þjóðfélaginu. Við eigum ekki að sætta okkur við ástandið í þessum efnum og verðum að gera eitthvað meira heldur en að tala um þann vanda. Þess sér ekki stað í þessu frv. að menn hafi áttað sig á því að það þurfi eitthvað til að koma af hálfu ríkisins.

Umhverfismálin eru mér líka hugleikin og e.t.v. fjalla ég um þau síðar í þessari umræðu.

Eins og fyrr segir þá erum við nú með stærri pakka en áður ef svo má segja og allt hjálpar það nú til að gefa skýrari heildarmynd. Við erum t.d. með skerðingarákvæði nú inni í frv. og þar kennir ýmissa grasa að venju þótt slíkum ákvæðum hafi raunar fækkað á undanförnum árum. Þetta var áður oft langur listi og heldur ófagur. Það má rifja upp t.d. lögbundinn tekjustofn til ferðamála sem var hér til umræðu á hverju einasta hausti. Nú hefur það ákvæði verið fellt niður úr lögunum. Það voru þessi 10% af sölu Fríhafnarinnar í Keflavík sem voru ætluð til ferðamála en var aldrei skilað nema að hluta. Þetta lagaákvæði var fellt niður, ef ég man rétt, fyrir tveimur árum og það var á vissan hátt hreinlegra en að setja þessi skerðingarákvæði í tengslum við hverja einustu fjárlagaafgreiðslu. En það er ljóst að ferðamálageirinn var hlunnfarinn um hátt í 1 milljarð kr. á þessum árum sem lögin giltu. Svo slæmt sem það auðvitað er þá var ég nú hálffegin þegar þetta lagaákvæði var fellt út vegna þess að það er sóðaskapur að hafa lög sem menn vilja svo ekki standa við. Það er þá hreinlegra að viðurkenna að menn ætli ekki að standa við það og fella það hreinlega í burtu.

Enn eru hér nokkrir liðir eða lagaákvæði sem ríkisstjórnin leggur til að ekki verði staðið við og versta dæmið að mínum dómi er ákvæðið um Framkvæmdasjóð fatlaðra. En lagt er til að tekjur hans af erfðafjárskatti verði skornar niður um 235 millj. kr. og að auki fari drjúgur hluti þeirra tekna sem framkvæmdasjóður fær til reksturs en ekki framkvæmda eins og tilgangur sjóðsins er. Nóg er nú þörfin og mætti hafa langt mál um það sem kannski gefst færi á síðar.

Ég vil líka benda á að sérstakur eignarskattur til að standa straum af kostnaði við endurbyggingar á húsakosti menningarstofnana er talinn munu skila 515 millj. kr. á næsta ári og þar af er ætlun ríkisstjórnarinnar að taka 200 milljónir inn í ríkissjóð en 315 fari til þess að uppfylla þetta lagaákvæði. Þetta tel ég mjög slæmt vegna þess að ástand bygginga í þessum flokki bygginga í eigu ríkisins er alls ekki gott og það er slæmt og væntanlega dýrara að draga eðlilegt og nauðsynlegt viðhald. Annars geta menn skoðað þessa grein frv. og skýringar á bls. 428.

Stærsta skerðingin er að venju á mörkuðum tekjum til vegagerðar. Nú ætla menn að taka rúmlega milljarð af þeim tekjustofni inn í ríkissjóð og nú erum við ekki bara að tala um skerðingu lagaákvæða heldur er ljóst að það verður að taka upp bæði vegáætlun og flugmálaáætlun vegna þessara skerðingaráaforma.

Það er sérstök ástæða til þess að hafa áhyggjur af því hvernig launum er haldið niðri í ákveðnum greinum samfélagsins sem þýðir einfaldlega að við megum búast við síauknum atgervisflótta úr ákveðnum atvinnustéttum sérmenntaðs fólks og við missum sífellt fleiri til annarra landa af þessum sökum. Og það er verulegt og vaxandi áhyggjuefni og þjóðfélaginu til óbætanlegs tjóns ef þróunin heldur áfram á þessari braut.

Það er minnt í grg. með frv. á að samningar gera ráð fyrir nýju launakerfi þar sem sjálfvirkum launahækkunum eins og vegna aldurs er haldið í lágmarki en á móti komi aukið svigrúm fyrir forstöðumenn ríkisstofnana til að umbuna starfsmönnum eftir frammistöðu í starfi, ábyrgð og/eða breyttu vinnufyrirkomulagi. Það er engin útfærsla þessarar stefnu fyrir hendi og mikil tregða yfirleitt við að vinna úr þessum hugmyndum. Þetta má ekkert kosta. Það sjáum við á bls. 393 þar sem stendur, og ég vitna orðrétt, með leyfi forseta:

,,Miðað er við að heildarlaunakostnaður stofnana hækki ekki vegna útfærslu nýs launakerfis. Því munu engar launabætur koma til vegna þessa.``

Menn geta velt fyrir sér hvernig í ósköpum eigi að vinna úr þessum hugmyndum. Það virðist vera svo að menn ætli að fara að lækka laun sumra til þess að geta hækkað hjá öðrum og auðvitað er þarna einstaklingshyggjan á fullu. Það er um að gera að vera ekki að púkka upp á eldra fólk jafnvel þó það hafi nú sýnt tryggð og trúmennsku í starfi, þar sem það er sérstaklega tekið fram að það eigi að halda sjálfvirkum launahækkunum eins og vegna aldurs í lágmarki. Lækka bara eldra fólk í launum og umbuna ungum og sprækum starfsmönnum í staðinn. Það er helst að hægt sé að lesa þetta út úr þessum skýringum. Reyndar er þessi launastefna engin nýjung í sjálfu sér. Menn hafa farið ýmsar leiðir í þessu efni. Það eru mýmörg dæmi um að menn hafi verið prýddir einhverjum titlum til þess að hækka þá í launum, jafnvel gerðir að deildarstjórum án nokkurra undirmanna. Og það verður fróðlegt að fylgjast með þessari útfærslu. En ég hvet menn til að íhuga vandlega hvert stefnir í þessum efnum og hversu lengi menn teljast munu afbera þá lítilsvirðingu í launum sem ýmsum hópum er boðið upp á. Við sjáum afleiðingar þessa í vaxandi mæli eins og ég orðaði hér áðan og þetta á ekkert skylt við sparnað í ríkisrekstri því þetta er í rauninni atlaga við framtíðina.

Hæstv. fjmrh. fjallaði nokkuð um launamálin áðan og hann hélt því m.a. fram að aukin áhersla væri á jafnréttishugmyndir í ríkisbúskapnum og nefndi þar til sögunnar einhverjar áherslur í launamálunum. Það væri nú gaman að fá það betur skýrt, en ef hann á við meiri hækkanir í prósentum talið til svokallaðra kvennastétta sem hefur vissulega verið niðurstaðan út úr sumum þessara samninga sem gerðir hafa verið, þá er það rétt að það hafa komið til meiri hækkanir í prósentum til slíkra stétta en til ýmissa annarra hópa. En það fékkst nú ekki aldeilis baráttulaust. Og þar var ekki um hækkanir frá háum launum að ræða, það er nú kannski heila málið. Ég held að fáir hópar hafi orðið að berjast jafnmikið fyrir bættum kjörum og er þó ekki af miklu að státa. Það er í rauninni mjög athyglisvert hversu hörð barátta hefur átt sér stað einmitt hjá ýmsum kvennastéttum sem styður auðvitað það sem við höfum oft verið að halda fram hvað framlag kvenna er til miklu færri fiska metið heldur en karla, því miður. Ég efast um að nærstaddir mundu sætta sig við 60--103 þús. kr. mánaðartekjur eftir margra ára framhaldsnám eins og margar dæmigerðar kvennastéttir, t.d. í umönnunarstörfum, þurfa að sætta sig við og hafa enga möguleika á að drýgja tekjur sínar.

[15:00]

Hæstv. fjmrh. minntist á fæðingarorlof karla sem lið í auknu jafnrétti. Sú aðgerð er vissulega af hinu góða og ég óska honum til hamingju með að hafa loksins undið sér í þá aðgerð. En mikið var það nú heppilegt fyrir hann að þetta kostar ríkissjóð ekki neitt. Það er kannski þess vegna sem hann loksins dreif í þessu.

Herra forseti. Í heildina verður að segja að framsetning frv. til fjárlaga er til bóta og stendur að flestu leyti undir væntingum. En við megum ekki vera svo upptekin af þessu nýja formi að innihaldið gleymist. Stefna frv. skiptir auðvitað mestu. Það skiptir meginmáli hvernig teknanna er aflað og hvernig þeim er varið í þágu landsmanna. Það er mergurinn málsins. Gagnrýni mín er því ekkert minni eða mýkri en áður, þ.e. á innihaldi frv. Við höfum þurft að berjast mjög hart gegn metnaðarleysi í menntakerfinu og sífelldum atlögum að heilbrigðis- og tryggingakerfinu. Sú barátta þarf augljóslega að halda áfram af engu minni krafti en áður. Menn mega ekki láta sem þeir séu einir í heiminum þarna uppi í fjmrn. Það er því miður engu líkara en að þeir heyri ekki umræðuna í þjóðfélaginu, heyri ekki röksemdir aldraðra, sem telja sig með réttu hlunnfarna eftir allt sem þeir hafa lagt af mörkum til að skapa réttlátara þjóðfélag velferðar og samhjálpar. Það er engu líkara en að þeir heyri ekki og skilji áhyggjur fólks yfir þrengingum í versnandi heilbrigðiskerfi, skilji ekki ömurlegar aðstæður sérstakra sjúklingahópa --- og þá vil ég sérstaklega nefna geðsjúka og aðstandendur þeirra. Það er eins og þeir hafi ekki nægan skilning eða vilja til að ráðast gegn stöðnun í menntakerfinu, treysti sér ekki til að takast á við vaxandi vandamál vegna aukinnar neyslu fíkniefna og sífellt grófara ofbeldis. Málið er þó það, því miður, að menn heyra en vilja ekki.