Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 15:46:01 (97)

1997-10-07 15:46:01# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., JónK
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[15:46]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Það fjárlagafrv. sem er komið til 1. umr. markar tímamót a.m.k. að tvennu leyti. Í fyrsta lagi er uppsetning þess og upplýsingagjöf um ríkisfjármálin með öðrum hætti en áður. Þetta er í framhaldi af lagasetningu um fjárreiður ríkisins sem gengið var frá á Alþingi á síðasta vori og kváðu á um mörg nýmæli varðandi uppsetningu fjárlaga og ríkisreiknings. Frv. gefur heillegri mynd af ríkisrekstrinum. Með því hafa þeir sem þurfa að samþykkja löggjöfina um umsvif ríkisins, stjórnmálamennirnir, betri yfirsýn yfir málið, einnig þeir sem eiga að veita aðhald, fjölmiðlamenn og almenningur í landinu. Hin nýja framsetning sýnir afkomu ríkissjóðs á rekstrargrunni sem liggur nær uppgjörsmáta fyrirtækja í landinu og frekar en gamla greiðslugrunnsaðferðin samanburðarhæf við einkareksturinn þó seint geti verið um algera hliðstæðu að ræða vegna þeirrar sérstöðu sem ríkið hefur á mörgum sviðum.

Það er sannfæring mín eftir að hafa unnið að ríkisfjármálum um skeið að þessi nýja framsetning á eftir að hafa heillavænleg áhrif. Ríkisfjármálin eiga að vera opinber og gegnsæ. Allar breytingar sem horfa í þá átt eru til mikilla bóta og munu leiða til betri meðferðar fjármuna þegar fram í sækir. Það á að liggja fyrir skýrt og ljóst hvaða fjármunir eru innheimtir af almenningi í landinu og hvernig þeim fjármunum er varið.

Við höfum tekið risastökk fram á við í þessum efnum. Það voru tímamót árið 1987 þegar Ríkisendurskoðun var færð undir Alþingi. Það hafði og hefur gríðarmikil áhrif og hefur hjálpað Alþingi í eftirlitshlutverki sínu þó enn megi bæta um betur í þinglegri meðferð þeirra skýrslna sem frá stofnuninni koma. Framsetning fjárlaga nú er ekki síður tímamót. Auðvitað verður að fara yfir það sem betur má fara í ljósi reynslunnar. Hér er ekki endapunkti náð en það breytir engu um mikilvægi þessara breytinga.

Í öðru lagi markar þetta fjárlagafrv. tímamót vegna þess að nú er gert ráð fyrir að greiða niður skuldir ríkissjóðs í stærri stíl en áður hefur verið á næsta ári. Afkoman er í jafnvægi annað árið í röð ef áætlanir standast. Þetta er afar mikilvægt í ljósi þess að allar götur síðan 1983 hefur verið hallarekstur á ríkissjóði og hann hefur leitt til mikillar skuldasöfnunar sem gerir það að verkum að útgjöld vegna vaxta af þessum skuldum eru með stærstu útgjaldaþáttum ríkisins. Það er ljóst að ef slík þróun héldi áfram fram á næstu öld, næsta áratug eða svo, er lánstrausti og fjárhagslegu sjálfstæði íslenska þjóðfélagsins hætt.

Það árar vel á sviði efnahagsmála í íslensku samfélagi um þessar mundir. Hagvöxtur er áætlaður um 3,5% á næsta ári sem er hærra en í löndum Efnahagsbandalagsins og í iðnríkjunum sem nemur allt að 1%. Atvinnuleysi hefur farið minnkandi og er áætlað 3,6% á næsta ári. Ný störf hafa orðið til og eftirspurn hefur myndast á vinnumarkaði. Hins vegar hefur einkaneysla farið vaxandi og það eykur viðskiptahallann ásamt miklum vöruinnflutningi til fjárfestinga. Í ár er búist við að viðskiptahallinn verði 19 milljarðar kr. og svipaður á næsta ári. Hættumerkin eru í því fólgin að þenslan geti þrýst verðbólgustiginu upp en verðbólga hefur verið í lágmarki þrátt fyrir almenna kjarasamninga til langs tíma til þorra launafólks og kostnaðarhækkanir í atvinnulífinu af þeim sökum. Við þessar aðstæður er rétt að stefna að því að haga rekstri ríkissjóðs með þeim hætti að hann sé í jafnvægi og svigrúm sé skapað til að greiða niður skuldir. Hinn stóri hlutur einkaneyslu í hagvextinumn færir ríkissjóði verulegar tekjur. Sama er að segja um auknar fjárfestingar í landinu.

Það árar mjög vel í ýmsum greinum sjávarútvegs um þessar mundir, svo sem í síldveiðum og loðnuveiðum, og það er einn þátturinn í þeim tekjuauka sem ríkissjóður hefur orðið aðnjótandi. Sagan segir okkur hins vegar að afli í þessum tegundum er háður sveiflu. Það hefur verið svo alla þessa öld. Nú ríkir gott tímabil og þar við bætist að markaðsástandið er þannig að verð á afurðum er í hámarki. Það er ekki við því að búast að svona uppsveifla ríki til langframa en mikil nauðsyn er að gera sér glögga grein fyrir því þegar málefni sjávarútvegsins og ríkisfjármálin eru rædd og kem ég að því nánar síðar. Ef við getum ekki við þessar aðstæður snúið til réttrar áttar í ríkisfjármálum og greitt niður skuldir er borin von að það takist þegar verr árar en nú.

Áformin um að greiða niður skuldir byggjast á því að selja nokkrar verðmætar eignir ríkissjóðs og verja andvirðinu á þennan hátt. Hér er eins og fram hefur komið um að ræða hlut ríkissjóðs í Íslenskum aðalverktökum, í Járnblendifélaginu og í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins svo að stærstu eignirnar séu nefndar. Breyttar aðstæður réttlæta þessa sölu. Einkamarkaðurinn er fær um að annast verktakastarfsemi og samningar hafa verið gerðir við Norðmenn um rekstur á Grundartanga sem gerir það að verkum að þátttaka ríkisins í þeirri starfsemi er ekki nauðsynleg. Sala í Fjárfestingarbankanum er hluti af breytingunni sem átt hefur sér stað í bankakerfinu.

Það er hins vegar algert skilyrði að andvirði þessara eigna nýtist til að lækka skuldir ríkissjóðs en sé ekki notað í aukin útgjöld. Rekstri ríkissjóðs má líkja við heimilisbókhaldið og að því leyti að getan til útgjalda ræðst af tekjunum sem inn koma. En það þykir ekki gott ráðslag að ganga á eignir til þess að lifa. Hins vegar getur það haft heillavænleg áhrif á efnahaginn að létta á skuldum með eignasölu og skapa meiri ráðstöfunartekjur. Svo er með ríkissjóð.

Ég skildi hv. 5. þm. Vesturl. þannig í sjónvarpsviðtali í gær að til greina kæmi að borga skuldir hægar niður til að standa undir auknum útgjöldum. Ég trúi því ekki að hv. þm. hafi verið að leggja það til fyrir hönd stjórnarandstöðunnar að sala eigna yrði notuð til að standa undir útgjaldaaukningu þegar salan er í svo ríkum mæli sem áætlað er á næsta ári.

Í hinni nýju uppsetningu fjárlagafrv. eru ítarlegri upplýsingar og sundurliðanir á tekjuhliðinni en áður. Þar kemur fram að hlutur skatta á tekjur og hagnað eru 37,9 milljarðar kr. á rekstrargrunni en skattar á viðskipti með vörur og þjónustu eru 80,7 milljarðar. Þar er virðisaukaskatturinn hæstur, 53,5 milljarðar eða tæplega einn þriðji hluti af heildartekjum ríkissjóðs og vörugjöld um 20 milljarðar. Sá hluti tekna ríkissjóðs sem umdeildastur er og hefur verið rætt mest um það sem af er umræðunni eru gjöld fyrir þjónustu í velferðarkerfinu. Bróðurparturinn af þeim er reyndar færður sem sértekjur í frv. Í þeirri gjaldtöku get ég tekið undir að það þarf að gæta hófs enda eru ný þjónustugjöld ekki upp tekin með þessu frv. Hitt er svo annað mál að tekjuöflun ríkissjóðs eru takmörk sett í öllum þáttum. Hækkun skatta á vörur og þjónustu kemur beint inn í verðlagið og ekki verður deilt um það að skatthlutfall á einstaklinga í landinu er í hámarki. Hins vegar eru þær kenningar uppi að ríkið gæti aukið tekjur sínar með veiðileyfagjaldi sem lagt yrði á sjávarútveginn og auðlindagjaldi á aðrar auðlindir þó ekki hafi sést útfærslur á því. Því er jafnvel haldið fram að með slíkri skattlagningu sé hægt að lækka tekjuskatt landsmanna eða jafnvel fella hann alveg niður.

Ég ætla ekki á þessum vettvangi að taka upp langar umræður um veiðileyfagjald. En ég minni á það sem ég vék að fyrr í máli mínu að einstöku greinar sjávarútvegsins eru í uppsveiflu sem eiga vart sinn líka í sumum greinum. Aðrar greinar svo sem landvinnsla á bolfiski eru reknar með tapi og það verulegu tapi. Sjávarútvegurinn hefur lagað stöðu sína mjög á undanförnum árum og ekki er langt síðan umræðan snerist um það hvort hann gæti mögulega borgað skuldir sínar. Það er nauðsyn fyrir atvinnugreinarnar nú þegar betur árar að byggja sig upp, m.a. til að þola betur samdrátt þegar að honum kemur. Ég vil vara við því að halda því fram að sjávarútvegurinn geti verið sú peningaveita í ríkissjóð sem sumir stjórnmálamenn og aðrir áhrifamenn í þjóðfélaginu vilja vera láta. Haldi afkoma sjávarútvegsins enn áfram að batna greiðir hann að sjálfsögðu skatta og skyldur í ríkissjóð eins og aðrar atvinnugreinar.

Það er fullljóst að tekjuöflunarmöguleikum í ríkissjóð eru takmarkanir settar og það er raunsætt að spila úr þeim tekjum sem ríkissjóður hefur nú, ekki síst þegar þær eru á uppleið og jafnvel í hámarki. Vinnu stjórnmálamanna og vinnu okkar fjárlaganefndarmanna við fjárlagafrv. verður að miða við þessar staðreyndir. Það ber að varast að líta svo á að möguleikar séu fyrir ríkissjóð að auka tekjur sínar án efnda.

Það er mjög athyglisvert að heyra umræðuna nú um getu sveitarfélaganna til að borga kennurum hærri laun. Allir virðast viðurkenna í umræðunni að þeirri getu séu takmörk sett. Þetta er fyrir það að sveitarfélögin eru nær öllum almenningi í landinu en ríkisvaldið er fjarlægara. Hins vegar gildir það sama um bæði stig stjórnsýslunnar. Auknar tekjur eru sóttar í vasa fólksins í landinu með beinum eða óbeinum hætti og bæði forsvarsmenn ríkis og sveitarfélaga eru nauðbeygðir til að sýna aðhald í útgjöldum og reyna að forgangsraða eftir bestu getu. Aðrar leiðir eru ekki færar.

Þeim sem fjalla um fjármál ríkissjóðs er mikill vandi á höndum þegar að því kemur að deila niður útgjöldum og forgangsraða í þeim efnum. Oftar en ekki heyrist því haldið fram að forgangsröð sé ábótavant og m.a. hefur stjórnarandstaðan á Alþingi haldið því fram að áherslurnar séu skakkar, stjórnarliðar séu varðmenn hinna ríku og betur settu en stjórnarandstaðan umboðsmenn hinna sem verr settir eru og eru undir í þjóðfélaginu. Því er haldið fram að breytt forgangsröð í ríkisútgjöldum muni leysa þennan vanda. Því er haldið fram að útgjöld til velferðarmála séu of lítil. Því er til að svara að afkoma ríkissjóðs er þáttur í því efnahagslega umhverfi sem allir landsmenn búa við. Það er öllum í hag, bæði hinum verr settu og hinum betur settu að verðbólgan haldist lág í þjóðfélaginu. Svo er nú. Á því byggist að kjarasamningar, sem hafa verið gerðir til langs tíma við þorra launþega, leiði til aukins kaupmáttar. Það eru svik við launþega að stýra málum þannig að verðbólgan fari upp úr öllu valdi á næstu missirum. Það er einnig þeim sem eiga við erfiðleika að etja í fjármálum í hag að vextir lækki í landinu. Ríkisfjármálin eru þáttur í því. Það skapar einnig grunn til aukinna átaka í velferðarmálum að lækka þær upphæðir sem ríkisvaldið þarf að greiða í vexti á ári hverju. Þetta frv. gerir ráð fyrir því að vaxtagreiðslur ríkissjóðs lækki umtalsvert á næsta ári. Bætt afkoma veldur þar nokkru um, bætt afkoma síðustu tveggja ára og einnig innkallanir á bréfum og skuldbindingum með óhagkvæmum kjörum. Bætt afkoma og aukið lánstraust ríkissjóðs hafa gert þessar innkallanir mögulegar og ljóst er að þær einar munu lækka vaxtagreiðslur ríkissjóðs um liðlega tvo milljarða á næstu árum. Þessi bati styrkir stöðu ríkissjóðs verulega og hann verður þeim tvímælalaust í hag sem þurfa mest á þjónustu hans að halda.

[16:00]

Hv. 12. þm. Reykn. gat um það í ræðu sinni að hér hefði hallast mjög á ógæfuhliðina fyrir tíu árum og með kaupmátt tekna og í fleiri greinum. Mér er mjög í fersku minni ástandið fyrir tíu árum. Þá gekk þjóðfélagið inn í mestu uppsveiflu síðustu áratuga. Þá var hagvöxturinn yfir 8%. Þá var haldið þannig á málum að á árinu 1988, þegar komið var fram á mitt ár, var verðbólgan orðin 26,5%. Þið getið ímyndað ykkur núna hvort það væri ekki hinum lægstlaunuðu í hag ef verðbólga hér í landinu væri 26,5%. (Gripið fram í: Hver var þá í ríkisstjórn?) Ég og mínir flokksmenn báru hluta af þeirri ábyrgð og það er þess vegna sem ég vil ekki endurtaka slíkt. Og það var þess vegna sem gengið var í það af verkalýðshreyfingunni, af Vinnuveitendasambandinu og af ríkisstjórninni að gera þjóðarsátt ... (Gripið fram í: Og bændum.) --- já og af bændum --- sem hefur lagt grunninn að jafnvægi síðustu ára í efnahagsmálum. Nú erum við að njóta að mörgu leyti ávaxtanna af því.

Það er ástæða til að undirstrika það sérstaklega að þau almennu áhrif sem jafnvægi í fjármálum ríkisins hefur koma engum betur til góða en þeim sem lakast eru settir. Þetta frv. gerir sem fyrr ráð fyrir auknum útgjöldum til velferðarmála og það er mín skoðun og míns flokks að bætta afkomu eigi að nota til að styrkja undirstöðu velferðarkerfisins. Hins vegar verður það ekki gert nema jafnframt sé aðhald í útgjöldum og leitast við að nýting fjármuna verði sem best.

Stjórnarandstaðan heldur því gjarnan fram að breytt forgangsröð sé lausn á vandanum í ríkisfjármálum. Ég vil taka undir það að ætíð er þörf á því að fara yfir forgangsröð útgjalda. En ég vara hins vegar við of mikilli bjartsýni um að breytt forgangsröð valdi byltingum í þessu efni. Vissulega væri þörf á því að Alþingi tæki sérstaka umræðu um forgangsröðina, t.d. að vorlagi, líkt og gert er í sumum þingum nágrannalandanna. Svo er t.d. gert í sænska þinginu en fjárln. hefur kynnt sér fjárlagagerð þar sérstaklega á liðnu ári. Ég er ekki þeirrar skoðunar að allt sé óumbreytanlegt í forgangsröðinni en hitt er staðreynd að þrýstingur á aukin útgjöld birtist í öllum málaflokkum. Við könnumst við umræðuna um velferðarútgjöldin, í tryggingamálum, heilbrigðismálum, málefnum fatlaðra, málefnum aldraðra og nægir að minna á fjölmennan útifund í hádeginu hér við þinghúsið þar sem aldraðir kröfðust betri kjara. Mikil umræða er um aukningu fjármagns til menntamála og þykir það forsenda þess að við séum samkeppnisfærir í framtíðnni í breyttum heimi. Við könnumst einnig mætavel við umræðuna um aukningu útgjalda til samgangna, átaks í umhverfismálum og margs fleira. Sannleikurinn er sá að þorri þingmanna vill í raun hafa alla þessa málaflokka í forgangi, enda eru þeir það. Mikill þrýstingur er einnig um útgjaldaaukningu í ýmsum þáttum dóms- og kirkjumála, t.d. um aukna löggæslu í landinu.

Á bls. 274 í fjárlagafrv. er einkar gott yfirlit um hvernig málaflokkar gjalda í A-hluta fjárlaganna skiptast á rekstrargrunni, þ.e. með nýju uppgjörsaðferðinni. Það kemur í ljós að þeir málaflokkar sem ég nefndi, að viðbættum vaxtakostnaði, taka til sín liðlega 120 milljarða af 162 milljarða kr. útgjöldum á rekstrargrunni. Útgjöld til atvinnuveganna eru innifalin í þeim 40 milljörðum sem út af standa en æðsta stjórnsýsla ríkisins að utanríkisþjónustunni meðtalinni tekur til sín 7 milljarða kr. En það er nú fyrst og fremst hún sem horft er á þegar rætt er um forgangsröðina. Ég get tekið undir það að fara þarf vel með fjármuni í æðstu stjórnsýslunni og get tekið undir hvert orð sem sagt er um það. Sparnaður í málaflokki sem kostar 7 milljarða af 160 milljarða kr. útgjöldum veldur ekki byltingu en hins vegar er jafnsjálfsagt að sýna aðhald í útgjöldum í æðstu stjórn ríkisins.

Ég mun ekki gera einstaka liði fjárlagafrv. að umræðuefni nú við 1. umr. málsins. Fjárln. á eftir að vinna sitt verk við frv. og við 2. umr. gefst tækifæri til að fjalla nákvæmar um einstök atriði. Ég vil hins vegar víkja örfáum orðum að heilbrigðismálum vegna þeirrar miklu umræðu sem verið hefur um þann málaflokk. Því er haldið fram að skortur á stefnumótun standi þessum málaflokki fyrir þrifum. Svo er ekki. Sú stefna sem núv. heilbrrh. hefur mótað hefur legið fyrir. Svo að nokkur atriði séu nefnd þá er hún í því fólgin að hagræða í rekstri sjúkrahúsa með samvinnu og sameiningu yfirstjórnar þar sem því verður við komið og skilgreina hlutverk þeirra sem best þannig að þau geti þjónað því og haldið uppi þeirri þjónustu sem krafist er af þeim. Hún er einnig sú að hefja byggingu barnaspítala og ýta því máli áfram. Hún er sú að halda áfram uppbyggingu heilsugæslunnar hér á höfuðborgarsvæðinu, ljúka þeirri uppbyggingu á landsvísu þá og vinna svo að málum að heilsugæslan sé grunneining heilbrigðisþjónustunnar. Það hefur einnig verið mótuð sú stefna að styrkja forvarnir.

Ég hef drepið hér á nokkrum þáttum en þessi stefna hefur verið undirbyggð með mikilli vinnu og mikil gögn liggja fyrir um hvernig mögulegt væri að framkvæma hana. Hins vegar er það einfaldlega þannig að skiptar skoðanir eru um þessa stefnu, m.a. innan heilbrigðisgeirans, milli einstakra starfsstétta sem vinna í heilbrigðisgeiranum og sú barátta hefur verið sýnileg svo vægt sé til orða tekið. Það er oft tekið svo til orða í fjölmiðlaumræðu um heilbrigðismál að umræða um breytingar veki óöryggi almennings í landinu og sjúklinga sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda. Þetta er alveg rétt, umræðan mætti gjarnan vera á lægri nótum oft á tíðum. Hins vegar verður ekki allt óbreytt í heilbrigðisþjónustu landsmanna með breyttum þjóðfélagsháttum. Það þarf að fara yfir skipulagið í þessum geira samfélagsþjónustunnar eins og annarra, bæði opinberra aðila og einkaaðila. Hins vegar er hér um afar viðkvæma starfsemi að ræða og því þarf að varast að fórna því sem áunnist hefur. Heilbrigðisþjónusta á Íslandi er góð og glæsilegur árangur hefur náðst á mörgum sviðum. Það hefur aldrei verið stefna stjórnvalda nú eða fyrr að brjóta þessa þjónustu niður eða hörfa. Hins vegar þarf að endurskoða skipulagið miðað við breyttar aðstæður til þess að geta tekið við nýjungum og halda þeim góða árangri sem náðst hefur miðað við þá fjárhagsgetu sem ríkissjóður hefur og þann fjárhagsramma sem settur er.

Herra forseti. Eins og ég sagði fyrr ætla ég ekki að þessu sinni að fjalla um einstök fjárframlög sem frv. gerir ráð fyrir. Fjárln. mun fá frv. til meðferðar og samkvæmt venju er nefndin þegar byrjuð að taka viðtöl sem tengjast fjárlagavinnunni. Vera kann að hin nýja uppsetning verði til þess að breyta þurfi vinnu fjárln. að einhverju leyti. Nú eru lánsfjárlög hluti fjárlagafrv. og hlýtur það eitt að leiða til breytinga á starfi nefndarinnar. Frv. til lánsfjárlaga er nú að finna í 5. gr. og hin svokölluðu skerðingarákvæði í 6. gr. frv. Þetta er þáttur í skýrari uppsetningu og mun auðveldara er að fá heildaryfirlit yfir fjármál ríkissjóðs og ábyrgðir með því að hafa fjárlögin í höndunum.

Það sem af er hafa félagar mínir í stjórnarandstöðunni í fjárln. haldið hér ágætar ræður um fjárlögin og hv. 5. þm. Vestf. ræddi um ábyrga fjármálastjórn og nauðsyn þess að reka ríkissjóð í jafnvægi og nauðsyn þess að forðast skuldasöfnun og deildi á hæstv. fjmrh. fyrir skuldasöfnun síðustu ára. Þetta var nokkuð góður kafli í ræðu hans en mér finnst hann ekki alltaf ríma við málflutning flokks hans sem hefur gert kröfur um aukin útgjöld á flestum sviðum. Ég hygg að hv. 5. þm. Vestf. hafi verið að ýja að því í ræðu sinni að skattheimtan væri ekki nógu mikil. En það hefur komið fram í mínu máli að ég tel, þó að litið sé á tekjuöflun ríkissjóðs, að það sé ekki akur sem hægt sé að plægja endalaust til að afla meiri tekna. Skattheimtan er mikil hér á landi þó að hún sé ekki eins mikil og víða í nágrannalöndunum. En þó held ég að bærileg samstaða sé um að auka hana ekki verulega. En það þarf að vera samhengi í þessari umræðu um tekju- og gjaldahliðina.

Ég vil að lokum drepa á málaflokk sem hefur verið mjög í umræðunni að undanförnu og reyndar um langt árabil en það eru byggðamál og tilflutningur fólks hingað til höfuðborgarsvæðisins. Ég nefni þetta í þessari umræðu vegna þess að hér er um vanda að ræða sem kemur í mörgum tilfellum beint inn í ríkisfjármálin í framtíðinni. Byggðaröskunin leiðir til þess að það þarf að hefja á ný uppbyggingu í ýmsum greinum á höfuðborgarsvæðinu vegna fólksfjölgunar og vegna fólksflutninga utan af landi þar sem sambærilegri uppbyggingu var e.t.v. lokið. Það er brýn þörf á því að halda vöku sinni í þessum efnum og reyna að sporna við þessari þróun. Það verður ekki gert eingöngu með fjárlögum, ég geri mér fulla grein fyrir því. En eigi að síður er nauðsynlegt að kanna sérstaklega þá þætti þeirra sem tengdir eru byggðaþróun í landinu. Ég endurtek að það er fullljóst að herkostnaðurinn vegna fólksflutninganna getur haft áhrif á afkomu ríkissjóðs á næstu árum og þar með lífskjörin í landinu.

Herra forseti. Íslenska þjóðin hefur nú gullið tækifæri til þess að sækja fram til betri lífskjara og betra þjóðfélags á nýrri öld. Jafnvægi í efnahagsmálum, þar á meðal ríkisfjármálum, skapar betri samkeppnisaðstöðu og örvar fólk á öllum sviðum þjóðlífsins til dáða. Slíkt hefur þegar gerst og slíks sjást þegar merki í auknum umsvifum, auknum útflutningi og aukinni fjölbreytni í atvinnulífinu. Sú þróun mun halda áfram ef þess er gætt að halda áfram á braut jafnvægis og stöðugleika.