Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 16:16:00 (98)

1997-10-07 16:16:00# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[16:16]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð vegna þess að síðasti hv. ræðumaður vitnaði til þess að ég sagði í útvarpsviðtali í gær að þær aðstæður gætu verið til staðar að réttlætanlegt sé að hægja á greiðslu skulda ríkisins. Við hvers konar eða hvaða aðstæður? Ég skal útskýra það fyrir hv. formanni fjárln. Ef Jón Jónsson þarf að bíða í eitt ár eftir aðgerð og lyfjakostnaður á þeim sama tíma kostar helmingi meira en aðgerðin fyrir utan vinnutap og tryggingabætur þá stenst það sem ég sagði. Þetta getur einnig gilt í öðrum afmörkuðum tilvikum.

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hæstv. fjmrh. er auðvitað rétt að ýmislegt hefur lagast á undanförnum árum í meðferð ríkisfjármála, þó það nú væri. Það væri líka með endemum með allri þeirri tækni sem menn hafa yfir að ráða ef ekki væri meiri skilvirkni í meðferð ríkisfjármála í dag en fyrir fimm eða tíu árum. Menn verða að standa að rekstri ríkissjóðs eins og um rekstur fyrirtækis væri að ræða en það ber að viðurkenna að rekstur ríkissjóðs er nokkuð flókinn vegna margvíslegra samfélagsþátta sem ríkissjóður kemur að. Ég fyrir mitt leyti get sagt að skynsamlegt er að ná samningum við sveitarfélögin í landinu um yfirtöku ýmissa verkefna frá ríkinu. Að því vil ég standa. Samningar verða samt að vera þannig að nauðsynlegir fjármunir fylgi með verkefnum frá ríki til sveitarfélaga. Sveitarfélögin verða líka að hafa stjórnsýslustig til að annast verkefni sem færast til þeirra. Því var og er ekki enn að heilsa hvað varðar flutning grunnskólanna til sveitarfélaganna vegna mannfæðar í sumum sveitarfélögum.

Í tengslum við þessa umfjöllun tel ég rétt að segja að ástæða er til að breyta lögum um lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélögunum. Ef til vill verður margt örðugt í þeim málum í dreifðum byggðum landsins en eðlilegt er að miða við sveitarfélagastærð sem nemur 800--1.000 íbúa fjölda. Ég leggst heldur ekki gegn samningum um færslu verkefna frá ríki til einkaaðila þar sem það á við. En ýmsar grunneiningar velferðarkerfisins verður ríkissjóður og ríkisstjórn á hverjum tíma að annast. Ég tek undir með hæstv. fjmrh. að það er mikil breyting til bóta að fá ríkisreikning nú þegar til umfjöllunar.

Herra forseti. Vegna breyttrar framsetningar fjárlaga er ástæða til að setja fram skoðanir í nokkrum atriðum sem varða framsetningu og útsetningu fjárlaga í kjölfar nýsettra laga um fjárreiður ríkisins. Sú breyting er orðin á að fjárlög eru sett fram á rekstrargrunni en ekki greiðslugrunni og gefur sú aðferð raunhæfari mynd af meðferð fjármuna ríkissjóðs. Með vísan til fjárlaga fyrir árið 1997 hefðu þau verið að minnsta kosti 10 millj. kr. hærri ef þau hefðu verið sett fram á sama máta og nú. Það er svo sem ekki þannig að menn hafi ekki gert sér grein fyrir þeirri staðreynd en við útfærslu er framsetning á rekstrargrunni eðlilegri og skiljanlegri fyrir flesta. Þetta þýðir að þær fjárskuldbindingar sem stofnað er til eru færðar strax í stað þess að við fyrri uppsetningu fjárlaga voru þær færðar þegar þær komu til greiðslu. Samt sem áður má vera ljóst að ekki er neitt áþreifanlegt tæki eða tækni til þess að haldið sé nægjanlega við þau markmið sem fram eru sett. Eftir að fjárlög hafa verið samþykkt og afgreidd á Alþingi er það undir viðkomandi ráðuneytum komið hvort þau haga rekstri sínum í samræmi við þá áætlun sem samþykkt hefur verið. Skoðun mínn varðandi þetta kom rækilega fram í umræðum um lögin um fjárreiður ríkisins. Þá setti ég fram efasemdir um framkvæmd fjárlaga, ég endurtek, um framkvæmd fjárlaga, og stend við þær efasemdir sem lúta að aðhaldsleysi eftir að fjárlög eru samþykkt. Auðvitað er óhæfa eins og verið hefur árum saman að framúrakstur nemur milljörðum, hæstv. fjmrh., umfram samþykkt fjárlög.

Herra forseti. Ég vísa til greinar Þórs Sigfússonar um eflingu kaupendahugsunar við stjórn ríkisfjármála og ég er alveg sammála þeim aðila um hlutverk Alþingis. Alþingi verður að hafa eins góðar upplýsingar um þá þjónustu sem veitt er almenningi og frekast er kostur. Þjóðin er nefnilega að kjósa fulltrúa sína á Alþingi og veitir umboð til að taka ákvarðanir fyrir sína hönd. Til þess að þær ákvarðanir endurspegli vilja kjósenda verða góðar upplýsingar að vera til staðar. Það er eins með hlutverk Alþingis að krefja ríkisstjórnina um reikningskil gerða sinna og því er mikilvægt að skýrar reglur séu um þau reikningskil og þær endurspegli sem best raunverulega stöðu ríkissjóðs til lengri og skemmri tíma. Ég vitna enn til þessarar greinar, með leyfi forseta, þar sem segir að Alþingi samþykki útgjaldaramma á vorþingi. Það skiptir miklu máli að fjárlagarammar séu lagðir fyrir á vorþingi en ekki á haustþingi eins og nú er verið að gera. Það er sænska leiðin sem ég er að fjalla um og mæli mjög með því að menn flýti þeirri vinnu og ákvörðunartöku um að færast nær þeirri leið því þar er um skilvirkni og aðhald að ræða sem á að vera hægt að fylgja eftir.

Ég tek einnig undir þau orð sem hafa fallið um að Alþingi horfi til lengri tíma í senn með gerð áætlana til fleiri ára. Samþykkt áætlana á flestum útgjalda- og tekjusviðum er afar þýðingarmikil ef menn ætla að auka stöðugleika. Með því að leggja meiri áherslu á langtímaáætlanir í ríkisrekstri getur verið að það skapist meiri umræða á Alþingi og í ríkisstjórn um langtímaskuldbindingar þjóðarinnar og langtímahorfur. Það mun auka umræður um hvort við erum að velta vanda yfir á komandi kynslóðir og draga úr líkum þess að verið sé að ýta á undan sér vandanum þar til í óefni er komið. Þetta eru atriði sem ég tel að hafi komið skýrt fram og sé að mörgu leyti sameiginlegur vilji allrar fjárln. eftir heimsókn fjárln. til Svíþjóðar þar sem menn voru að kynna sér sænsku leiðina svonefndu sem hæstv. fjmrh. nefndi hér áðan. Ég tek að mörgu leyti undir það sem þar hefur komið fram.

Mér virðist ljóst að fjárlög eru sett fram vegna ársins 1998 með afgangi upp á hálfan milljarð. Það er vegna markmiðsins um að skila hallalausum fjárlögum á pappírnum. Kannski ekki vegna þess að það sé staðreyndin, heldur vegna markmiðsins um að skila hallalausum fjárlögum á pappírnum. Þetta er framkvæmt á þann hátt eins og farið hefur verið rækilega yfir að ríkissjóður ákveður að selja bókfærðar eignir að verðmæti 4,3 milljarðar kr. á 6,2 milljarða, fá þannig 1.900 millj. kr. í hagnað af bókfærðri eign og þar með rekstrarafgang upp á hálfan milljarð. Ef ekki hefði verið farið í þessa sölu til að reyna að ná þessum hagnaði hefði samkvæmt einfaldri reiknireglu verið um að ræða 1,4 milljarða halla. Ég er ekki að deila um hvort réttlætanlegt sé að selja þessa eign ríkisins, það má vel vera. Ég ætla ekki að deila um það. En til þess að ná fram hallalausum fjárlögum í þessu tilviki þarf að gera þetta, plús að menn taka til sín af mörkuðum tekjustofnum einn milljarð og 64 millj. kr., t.d. af mörkuðum tekjustofnum Vegasjóðs. Þetta má nefna um leið. Ef menn leggja þetta saman er hallinn orðinn enn meiri.

Herra forseti. Ég tel rétt að benda á að frá síðasta fjárlagafrv. fyrir árið 1997 er ljóst að tekjur ríkissjóðs eru langtum meiri en gert var ráð fyrir sem nemur einhvers staðar á bilinu 4--6 milljarðar. En hvað gerist á sama tíma? Eyðslan og fjármunanotkunin er langt umfram það sem áætlað var og það er einmitt það sem ég var að segja. Það vantar aðhald. Það er ekki nægjanleg stýring, herra forseti. Þess vegna vil ég enn herða á aðhaldi í meðferð ríkisfjármuna. Ég vil segja að aðhaldstæknin er máttlaus til framfylgdar fjárreiðum ríkisins.

Mér finnst ekki gott að hagur ríkissjóðs stafi að verulegu leyti af skuldaaukningu heimilanna. Það er nöturleg staðreynd sem sýnir svo ekki verður um villst að helmingaskiptastjórn íhalds og Framsóknar hefur ekki vald á meðferð góðærisins og anar áfram í stefnuvillu og gleymir að byggja upp til framtíðar. Við ríkjandi aðstæður ætti að vera unnt að lækka skuldbindingar komandi kynslóða að verulegu marki. En svo er að sjá að þó segja megi að í góðærinu standi skuld ríkissjóðs nærri í stað hafa heildarskuldir Íslendinga aldrei verið meiri. Þær nema nú 282 milljörðum kr. Hvað er það sem blasir við í góðærinu, herra forseti?

Ég má til með að nefna einstaka liði úr fjárlagafrv., herra forseti. Áformaður er niðurskurður þeirra verkefna sem snerta landsbyggðina sérstaklega. Ég nefni niðurskurð vegáætlunar og markaðar tekjur Vegasjóðs sem ég nefndi áðan sem renna nú í enn ríkari mæli til ríkissjóðs en áður sem nemur 220 millj. kr. Ég spyr: Er þetta rétt stefna?

Herra forseti. Ég get ekki látið vera að nefna eitt atriði þó það sé kannski ekki mjög stórt í frv. Þjóðargjöfin sem samþykkt var á afmælinu 1994 til átaks um vistræna og lífræna framleiðslu er skorin niður um helming. Þetta var afmælisgjöf og ég ætla að rekja nokkuð á eftir úr þeim umræðum sem fóru fram á þeim tíma, árið 1995, í kjölfar þessa afmælis. Þannig ætlar ríkisstjórnin sem drottnar að slökkva þau ljós og þær væntingar sem bændur á Íslandi, sérstaklega sauðfjárbændur, hafa borið von í brjósti um að loksins sé komið að því að góðærið sé á ferð í formi aukinna framleiðslumöguleika á seljanlegum afurðum. En hvað gerist þá, herra forseti? Tillaga hæstv. forseta er tekin og rifin í tætlur ásamt þeirri tillögu sem hæstv. forseti flutti með þingflokksformönnum allra flokka á Alþingi þá um að þetta sérstaka átak skyldi fá til fimm ára 25 millj. kr. á ári.

Með leyfi forseta vitna ég í ræðu hv. þm. Geirs H. Haarde, formanns þingflokks Sjálfstfl. Þar segir: ,,En tilefni málsins er hins vegar það að þetta var eitt af þeim verkefnum sem valin voru sem mál til að styrkja í tengslum við þjóðargjöfina 17. júní sl. Þá var að vísu ekki samkomulag um að hafa þetta mál, framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða, inni í þeim pakka ef svo mætti segja. En til samræmis við það sem ákveðið var um Lýðveldissjóð og þau verkefni sem hann fæst við var ákveðið að festa þarna ákveðna tölu sem færi til verkefna sem tengdust fyrst og fremst landbúnaði og má segja að séu til samræmis við framlög sem ákveðin voru í Lýðveldissjóð til verkefna tengdum sjávarútvegi og hafrannsóknum.``

[16:30]

Síðan segir hv. þm. Geir H. Haarde: ,,Ég tel að landbn. þurfi að fjalla nokkuð ítarlega um þetta mál. M.a. eru áhöld um hvort hægt sé að gera ráð fyrir því að Framleiðnisjóður leggi fram framlög`` --- á móti, því að gert var ráð fyrir að þessi upphæð næmi 250 milljónum á fimm árum. Ríkisstjórn íhalds og Framsóknar sker niður helstu væntingar bænda um helming. Væntingar um að geta aukið framleiðslu. Það vill svo til að fyrir hv. Alþingi hafa verið lagðar skýrslur og niðurstöður um störf þessa átaksverkefnis þar sem rakið er lið fyrir lið hvernig þessum fjárumunum hefur verið varið og árangurinn, herra forseti, er miklu meiri en menn órar fyrir. Og ég get sýnt það, herra forseti, að í dag er verið að selja íslenskt lambakjöt í Danmörku í 370 verslunum á 1.200 kr. kílóið. Þetta átak ætlar ríkisstjórn íhalds og Framsóknar að taka og slátra og skera niður við trog. Ég treysti því að hægt sé að ná því fram að þá fáu aura sem þarna er verið sælast eftir sé hægt að nýta eins og ætlað var á þessum fimm árum. Það eru aðeins tvö ár eftir og þetta verkefni stendur á þeim tímamótum að það má ekki stöðva það. Og ég treysti því að fjárln. hjálpi mér í þessu máli og það náist sá árangur sem þarf til að verkefnið haldi áfram.

Það er ástæða til þess og ég fagna því, herra forseti, að hæstv. landbrh. er hér í salnum, því það mál sem ég er að fara yfir snýr beinlínis að þeim niðurskurði sem landbrn. ákvað, að tillögu hæstv. fjmrh. geri ég ráð fyrir. Og ég segi: Það skiptir mjög miklu máli, hæstv. landbrh., að ekki verði slökkt þau ljós sem voru tendruð og að engu gerðar þær væntingar sem hafa verið settar fram um að bændur, sérstaklega sauðfjárbændur, gætu litið til bjartari tíma. Ég skora á hæstv. landbrh. að beita sér af öllu afli við hæstv. fjmrh. að ná því fjármagni sem til þarf svo þetta verkefni geti haldið áfram í því horfi sem það er því núna eru lykiltímamót varðandi þetta verk.

Ég vil, hæstv. forseti, minna á að hv. þm. Kristín Halldórsdóttir spurði út í þetta verkefni sem ég er að ræða um. Við því komu ítarleg svör og þau liggja einnig sem gögn fyrir hv. Alþingi og ég hvet menn til að athuga nú rækilega hvernig þessum fjármunum hefur verið varið.

Herra forseti. Það er sérstök ástæða til að minnast á heilbrigðismál sem sérstök ókyrrð ríkir um nú um mundir og hefur verið síðasta ár. Virðist ekki ætla að linna í þeim efnum. Við blasir að fjárvöntun í heilbrigðiskerfinu vegna yfirstandandi fjárlagaárs er vel á annan milljarð króna, rétt eins og minni hluti fjárln. gerði grein fyrir þegar fjárlög voru keyrð í gegn á síðasta ári. Svo tiltekið sé nákvæmlega hvernig þeim málum er varið má nefna að vegna sjúkrahúsanna í Reykjavík er fjárvöntun --- aðeins vegna viðhalds 1,2--1,4 milljarðar. Það lítur út fyrir samkvæmt fyrrgreindri áætlun að það verði 360 millj. kr. halli bara vegna ársins 1998. Þar við bætist að rekstrarhalli vegna áranna 1995 og 1996 er 156 millj. kr. Síðan er sá hali sem menn eru að drattast með á milli mánaða sem nemur 178 millj. kr. Alls er þetta, til viðbótar við þá tölu sem ég nefndi áðan, 694 milljónir, sem menn viðurkenna sem fjárvöntun. Og þar kemur, hv. formaður fjárln., það dæmi sem ég var að rekja áðan. Þess vegna bíða sjúklingar í hópum eftir aðgerðum sem eru jafnvel ódýrari heldur en þau lyf sem þeir fá á tímanum. Það er þetta sem gerir að réttlætanlegt er að hægja á greiðslu skulda, vegna þess að það getur skilað sér, og setja þá peninga einmitt í þetta kerfi sem ég er að ræða um.

Heildartalan sem ég hef verið tína hér saman nemur alls 2,6 milljörðum kr. og sá vandi er meiri en svo að menn geti á sama tíma verið að hreykja sér yfir rekstrarafgangi upp á 500 millj. kr.

Einn þáttur er enn sem er rétt að nefna og tala aðeins um, og ég fagna því að hæstv. heilbrrh. er mætt í salinn, en það er fyrirhugaður niðurskurður um 160 millj. kr. vegna svonefndra landsbyggðarsjúkrahúsa. Sem betur fer er hann nú fyrir bí. Eftir standa áætlanir upp á 40 millj. kr. sem enginn veit hvar á að taka því staða sjúkrahúsanna og heilsugæslunnar á landsbyggðinni er sú að aðeins örfá standast áætlun en flest eru með halla og ef ég hef réttar upplýsingar þá nemur sá halli samtals um 80 millj. kr. Og þar eiga niðurskurðarmeistarar íhalds og Framsóknar að finna 40 milljónir eða finna 40 milljóna sóun. Það er ótrúlegt að það á að finna 40 milljóna sóun þar sem um er að ræða 80 millj. kr. halla. Þessi áform geta menn séð með því rétt að líta yfir þetta fallega plagg, frv. til fjárlaga.

Herra forseti. Alþingi Íslands sem æðsta stjórnvald þessa lands ætti að grípa inn í það ófremdarástand sem ríkir í heilbrigðisgeiranum þar sem eru a.m.k. fimm eða sex sparnaðarnefndir í gangi og óánægja og óvissa skelfir orðið starfsfólk og alla sem á þjónustunni þurfa að halda þegar borið er niður í þeim ranni. Það er ástæða til að Alþingi taki sér tak og við vinnum öll saman að því að losa okkur út úr þessum ógnargreipum aðhalds og sparnaðar í heilbrigðiskerfinu.

Herra forseti. Það er ástæða til þess að nefna frekari skerðingar en ég nefndi hér áðan, skerðingar til Framkvæmdasjóðs fatlaðara sem á að hafa tekjur vegna framkvæmda eins og nafnið bendir til. Hann á nú eins og áður að kosta félagslega hæfingu og endurhæfingu og standa undir kostnaði vegna stjórnunarnefndar fatlaðra. Af erfðafjárskatti sem á að renna til málefna fatlaðra er ákveðið að taka 235 milljónir --- hvert? --- í ríkissjóð, en að 185 milljónir gangi til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Þar er enn ein upphæðin til þess að laga stöðu ríkissjóðs.

Ég nefndi áðan að af mörkuðum tekjustofnum Vegasjóðs ætlar ríkið einnig að taka einn milljarð og 64 millj. kr. í ríkissjóð til þess að laga stöðuna, til að geta skilað hálfum milljarði í plús á pappírunum. Það á að taka 210 millj. kr. meira til ríkisins frá mörkuðum tekjustofnum heldur en í fyrra til þess að ná fram þessum tekjuafgangi. Það er eðlilegt þegar tekjurnar eru miklu meiri. Það er alveg eðlilegt að eitthvað meiri fjármunum sé varið til vegagerðar enda eru tekjurnar langtum meiri, enda er meira tekið af þessum tekjum í ríkissjóð eins og hér er getið um. Ég tel mjög ólíklegt að landsbyggðin fagni þessum skerðingaraðgerðum helmingaskiptastjórnar íhalds og Framsóknar en það getur vel verið að það verði kveðið niður með einhverri vísnagerð.

Þrátt fyrir þennan lestur minn þá er það nú svo að ástæða er til þess að fagna ákveðnum áföngum sem náðst hafa. Ég fagna því að búið er að rjúfa haftið sem var í Hvalfjarðargöngunum, það var gert sl. föstudag. Það voru fleiri sem fögnuðu því og kannski rétt til þess að létta aðeins umræðuna að rifja upp eina litla vísu sem ágætur skólastjóri, Ingi Steinar Gunnlaugsson, setti saman í tilefni af þessu. Hún er svona:

  • Fyrir virtan vísnakjaft
  • er vandi að yrkja bögur.
  • En þegar rífur Halldór haft
  • hljóðin eru fögur.
  • Ég fagna því að sjálfsögðu að þessum áfanga er náð og það má auðvitað fagna þeim áfanga sem hefur náðst með miklum vegaumbótum í Reykjavík. En þetta er í fyrsta skipti sem við náum þeim árangri að leggja veg undir hafsbotn, og það getur vel verið að það þurfi fara á fleiri stöðum með slíka vegagerð.

    En það er ekki þannig að fjárlagafrv. íhalds og Framsóknar boði neinn nýjan sannleik eins og ég hef komið hér að áður. Það er sett fram á þann hátt að rauntalan fer úr 137 milljörðum í 163 milljarða. Það má auðvitað benda á að einhvern veginn eru ekki færðar framkvæmdir vegna hafnarframkvæmda upp á 255 milljónir sem eru settar inn á einhvern umsýslureikning sem menn kalla viðskiptareikning hreyfinga. Þetta er auðvitað atriði sem má deila um eins og menn hafa verið að deila hér um lífeyrissjóðsskuldbindingar upp á 6,7 milljarða. Það fer auðvitað eftir þeim forsendum sem menn gefa sér hvaða niðurstöðutölur menn fást síðan við.

    Herra forseti. Hvað er það sem virðist svo vanta? Af hverju eigum við að hafa áhyggjur? Það er engin leið að henda reiður á með lestri þessa fjárlagafrv. að menn séu að skoða það á okkar ágæta Íslandi þar sem góðæri formanns íhaldsins, hæstv. forsrh., ríkir. Það er ekki verið að skoða þær leiðir sem ég vil nefna nú. Það vekur áhyggjur að í þeirri öldu glæpa sem virðist vera í þjóðfélaginu er ekki að finna neinar aðgerðir gegn þeim við skoðun þessa frv. Það er ömurlegt og ég vona að úr því verði bætt.

    Það vekur auðvitað áhyggjur að á sama tíma og menn eru að tala um að fjárstreymi til heilbrigðiskerfisins verði aukið um 3% er ekki gert ráð fyrir auknu fjármagni til sjúkrahúsa sem eru að dragnast með stóra skuldahala og vantar fjármagn til viðhalds. Ef þetta er talið saman eins og ég nefndi áðan þá má tala um fjárvöntun upp á 2,5 til 3 milljarða og þar af er halli sem nemur um 1,2 milljörðum.

    Það vekur áhyggjur að ekki eru áformaðar stefnubreytingar varðandi menntunarmál þjóðarinnar þó að fyrir liggi að verulega þarf að taka á í þeim málum.

    Það vekur áhyggjur að engar aðgerðir eru boðaðar varðandi fiskveiðistjórnina. Auðlindin er í sívaxandi mæli að færast á hendur færri sem telja sig vera eigendur þrátt fyrir ákvæðið um sameign þjóðarinnar. Það er engin tilraun gerð til þess að útfæra gjaldtöku vegna aðgangs að auðlindinni, t.d. í formi þess að afgjald standi undir stoðdeildum sjávarútvegs svo sem Hafró, Landhelgisgæslu og eftirlitsþáttum svo nokkuð sé nefnt. Það er ljóst að smátt og smátt er sameignin að festast í höndum tiltölulega fárra og ríkisstjórn íhalds og Framsóknar vill ekki ræða breytingar eða rök fyrir þeim. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í grein í Morgunblaðinu eftir Þórólf Matthíasson, laugardaginn 4. október, þar sem fjallað er um ,,lítilræðisrökin``:

    ,,Veiðigjald fellur undir þann flokk opinberrar gjaldtöku sem nefndir hafa verið grunnrentuskattar. Grunnrentuskattar þykja heppilegri en margir aðrir skattar vegna þess að þeir hafa ekki óheppileg áhrif á nýtingu framleiðsluþátta í hagkerfinu. Um þetta er ekki deilt meðal hagfræðinga.``

    Margir veiðigjaldssinnar eru sannfærðir um að það sé hægt að koma fram með hagkvæma tillögu um skattkerfisbreytingar, úr t.d. 41% og allt niður í 28% skattkerfi. Og það væri auðvitað þess virði að skoða málið. Það væri þess virði að fá hæstv. ríkisstjórn til þess að ræða um tekjumöguleikana, breyta tekjuöflunarkerfi ríkisins en það er eins og að tala við vegg, það er eins og að fara út á Stórhöfða og gala upp í vindinn að ræða við þessa aðila um þau mál. Þeir skynja ekki vilja þjóðarinnar, þeir skynja ekki að fyrir veiðileyfagjaldi eru sterk rök og vilja ekki einu sinni ræða við þá aðila sem geta útskýrt betur en sá sem hér stendur í stól. Ég velti því fyrir mér eins og kemur fram í þessari grein sem ég vitnaði til hvort það sé almenn skoðun á meðal ungra sjálfstæðismanna að lækkun jaðarskatta úr 41% í 28% sé lítilræði.

    Herra forseti. Ég vil að lokum nefna þau mál sem aldraðir hafa vakið athygli á nú í dag. Það er að þeir krefjast tengingar bóta við laun í landinu í stað almennrar verðlagsþróunar sem getur verið með nokkuð öðrum hætti en launaþróunin. Þess vegna var á fyrsta degi þingsins lagt fram frv. af hálfu stjórnarandstöðu, þess efnis að laun aldraðra og bótaþega verði þegar tengd við laun.

    Ég vil að lokum vísa til greinar eftir Pál vin minn Gíslason, fyrrum sjúkrahúslækni á Akranesi, í Morgunblaðinu sl. laugardag þar sem hann segir í fyrirsögn, ,,Hvað á að gera við jaðarskatta aldraðra?`` Það liggur ljóst fyrir í þessu frv. að þar ætla menn að fylgja eftir með lagasetningu því áformi að tengja ekki bætur við laun. Ég vil hafa yfir tillögu Páls sem lýtur að hækkun skattleysismarka í 80 þús. kr. sem hefur ekki fengið nokkurn stuðning hjá stjórnvöldum og er talin vera of dýr fyrir ríkissjóð. Það getur verið að þetta mál þurfi að skoða, hvort hægt sé að framkvæma þetta á tiltölulega einfaldan máta. Það má líka velta fyrir sér að fjölga skattþrepum. Ég er nokkurn veginn viss um að það væri sanngjörn lausn og hún er ekki eins flókin og hún lítur út fyrir að vera. Á þessu þurfa menn að taka og ég vona að menn skilji aldraða í þeirri baráttu sem þeir standa í í dag. Erindi þeirra var ekki að tilefnislausu og ég vona að það náist árangur af heimsókn þeirra hér á Austurvöll. Ég vona að hæstv. fjmrh. skoði erindi þeirra og veiti lausn þar sem þörfin er mest. Ég er sannfærður um það sjálfur að það eina sem er sanngjarnt er að allar bætur verði þær sömu til allra aðila, allra ellilífeyrisþega, síðan sé það eina sem sé réttlætanlegt að innheimta skatt af umframtekjunum en ekki að fara út í þær skerðingar sem nú eru í dag. Ég held að þetta sé það sem menn þurfi að gá að sér með.

    Herra forseti. Ég læt þetta nægja, þessi örfáu atriði sem ég drap á í ræðu minni, en ég minni enn á þann hóp sem hér var í heimsókn í dag og ég minni á að það er þörf hjá okkur að veita miklu meira aðhald í framkvæmd fjárlaga heldur en gert hefur verið.