Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 18:50:41 (123)

1997-10-07 18:50:41# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[18:50]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom inn á atriði sem fjallað var um í þessu fjárlagafrv. og var reyndar minnt aðeins á í greinargerð síðasta frv., þ.e. svonefnda kynslóðareikninga. Um það mál var reyndar samþykkt tillaga á Alþingi í fyrravor, að ýta á eftir ríkisstjórninni um að slíkir kynslóðareikningar skyldu unnir, flutt af mér og hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Ég vil bara benda hv. þm. á að það er hægt að bregðast við niðurstöðum kynslóðareikninga sem kunna að sýna halla sem lendir á komandi kynslóðum, þ.e. að þeirra skattgreiðslur verði meiri eða þær fái minna út úr samneyslunni heldur en sú sem nú lifir. Það er hægt að bregðast við þessu á ýmsan hátt annan en að halda bara áfram að einkavæða og selja eignir ríkisins upp í væntanlegan halla. Það er alltaf hægt að afsetja eignir ef það er málið. En þær eru ekki endalausar og hvað ætla menn þá að gera?

Ég benti á þá leið að afla meiri tekna til þess að núverandi kynslóð taki ekki velmegunina að láni hjá börnunum og barnabörnunum. Það er ekki það sem ríkisstjórnin er að gera um þessar mundir. Hún er að lækka skatta, líka á hátekjufólki sem veldur því að skattbyrði komandi kynslóða verður þá meiri. Það er líka hægt að reyna að auka sparnað og eitt af því sem ætti auðvitað að reyna að gera við aðstæður eins og þær sem nú eru er að auka sparnað. Mikilvægasta form sparnaðar í þjóðfélaginu eru lífeyrissjóðir og sparnaður í lífeyrissjóðum. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þeim efnum? Jú, hún ætlar að grafa undan uppsöfnunarkerfi lífeyrissjóðanna þannig að ríkisstjórnin er í raun og veru á kolrangri braut í veigamiklum atriðum hvað varðar það að bregðast skynsamlega við líklegri útkomu kynslóðareikninga. Þær vísbendingar sem nú liggja fyrir, að vísu bara fyrir einn árgang og hafa aðeins verið reiknaðir í eitt skipti, benda til þess, þó að þær séu að vísu miklu hagstæðari hér en víða erlendis, að það verði einhver halli sem valdi meiri skattbyrði komandi kynslóða og þá er skynsamlegt að bregðast við með þeim hætti sem ég hef verið að rekja en ekki þessum úrelta gamaldags frjálshyggjuhugsunarhætti, að það sé bara hægt að selja endalaust eignir ríkisins og leysa allan vanda þannig. Hvað ætlar íhaldið að gera þegar eignirnar verða búnar?