Fjárlög 1998

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 18:59:18 (127)

1997-10-07 18:59:18# 122. lþ. 4.4 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[18:59]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér hafa staðið umræður lengi dags og flestir ræðumenn hafa vikið að því í máli sínu hve framsetning frv. til fjárlaga er breytt að þessu sinni. Ég vil eins og aðrir lýsa yfir ánægju minni með þessa miklu breytingu. Það er ljóst að eins og frv. lítur út núna, þá gefur það miklu skýrari mynd af ríkisfjármálunum þó að það taki vissulega ákveðinn tíma að átta sig á hugtökum og breytingu sem hér er verið að gera. En ég tel þetta vera mjög til bóta og einnig það að bætt hefur verið mjög verulega við skýringar í frv.

En það er innihaldið sem skiptir mestu máli og get ég ekki látið hjá líða að víkja fyrst að stöðu ríkisfjármála þessa árs vegna þess að ég hygg að það sem hefur verið að gerast á þessu ári muni endurtaka sig á því næsta. Það er tvennt sem þar vekur mesta athygli og er svo sem saga undanfarinna ára. Það er annars vegar það hve tekjur ríkissjóðs hafa farið fram úr áætlunum. Út af fyrir sig er það gott að menn fari varlega í að áætla auknar tekjur. En það sem vekur þó enn meiri athygli er það hve útgjöldin hafa farið langt fram úr öllum áætlunum. Það beinir sjónum að því hvernig hefur verið vanáætlað til ákveðinna mála og málaflokka ár eftir ár. Auðvitað kemur ýmislegt óvænt upp og það var alveg ljóst í mínum huga þegar við ræddum fjárlögin í fyrra að t.d. sú hækkun sem spáð var á launum var fjarri öllu lagi. Menn miða við einhverjar lágar prósentur þrátt fyrir að ár eftir ár hafi verið farið fram úr slíkum áætlunum í öllum kjarasamningum.

Það sem mér finnst þó kannski að þurfi að gera mestar athugasemdir við eru vanáætlanir í heilbrigðiskerfinu. Ég hef rakið í umræðum hvernig þau mál hafa gengið fyrir sig ár eftir ár þar sem alltaf á að spara og spara, sérstaklega í lyfjakostnaði og á stóru sjúkrahúsunum. Og svo koma menn alltaf í aukafjárlögum og sækja þar um hundruð milljóna til viðbótar og ár eftir ár eru gerðir samningar milli ríkisins og Reykjavíkurborgar vegna Sjúkrahúss Reykjavíkur og ástandsins á stóru sjúkrahúsunum hér í borginni. Og ég spyr mig auðvitað: Hvað eiga svona vinnubrögð að þýða?

Það var lögð fram skýrsla Ríkisendurskoðunar þar sem hún fór yfir sparnaðartilraunirnar í heilbrigðiskerfinu og það varð niðurstaða Ríkisendurskoðunar að þær tilraunir hefðu litlu skilað, nánast engu skilað. Samt sem áður halda menn þessum leik áfram ár eftir ár og enn á að gera það á næstu árum. Það á enn að spara hundruð milljóna í útgjöldum til lyfja. Bæði Sjúkrahúsi Reykjavíkur og Ríkisspítölunum er gert að spara tugi ef ekki hundruð milljóna þrátt fyrir það að menn hafi horft upp á það ár eftir ár að þetta hefur ekki tekist. Og það er vegna þess, hæstv. forseti, að í þessum málaflokkum er síaukin þörf fyrir fjármagn. Öldruðum fjölgar eins og er reyndar tekið fram í frv. Reyndar finnst mér oft eins og þeir hjá ráðuneytunum séu eiginlega alveg steinhissa á þessari fjölgun þó að þeir ættu að geta spáð um hana langt fram í tímann. Þeir eru alltaf jafnhissa yfir þessari útgjaldaaukningu í tryggingamálum; sjúkratryggingum og lífeyri þó að allar þær upplýsingar sem við höfum um okkar samfélag sýni að stöðugt fjölgar í þessum hópum, þörfin er sífellt meiri og þar af leiðandi er þörf fyrir aukna hjúkrun, eftir því sem fleiri ná háum aldri og þurfa á aðstoð að halda. Þessum leik eða bókhaldskúnstum er haldið áfram ár eftir ár og ég ætla að fullyrða það, hæstv. forseti, að sá sparnaður sem á að nást fram í heilbrigðismálum á næsta ári mun ekki nást, ekki frekar en í fyrra, hittiðfyrra eða árið þar áður. Hér held ég að menn eigi að horfast í augu við veruleikann. Það er sérstaklega horft á þennan málaflokk, heilbrigðismálin og þá staðreynd hve stóran hlut hann tekur af útgjöldum ríkisins. Við hljótum að verða að leita annarra leiða en þeirra sem hafa mistekist ár eftir ár. Þar vil ég alveg sérstaklega nefna það sem ég hef svo sem oft nefnt áður, en góð vísa er svo sem aldrei of oft kveðin, að í forvörnum getum við tekið okkur alveg stórkostlega mikið á og náð niður kostnaði þannig, sumum fljótt, annað tekur lengri tíma. Ég vil reyndar fagna því að hæstv. núv. heilbrrh. hefur sýnt forvörnum aukinn skilning og meiri skilning en sá ráðherra sem sat á undan henni og lagði niður forvarnadeildina í heilbrrn. Hann taldi nú ekki mikla þörf fyrir forvarnir, sá ráðherra. En ég tel að þar sé hægt að taka verulega á og ná miklu meiri árangri í sparnaði heldur en með þessum niðurskurðaraðferðum sem hér hefur verið beitt og hafa ákaflega litlu skilað. Ég gæti tekið dæmi upp úr frv. til fjárlaga um það hvar verið er að ræða þennan sparnað en ég ætla að koma sérstaklega í lokin að stóru sjúkrahúsunum.

Að mínum dómi verður ekki fram hjá því horft þegar menn eru að reyna að leita orsaka og afleiðinga að staða ríkissjóðs hefur batnað stórlega. Eins og ég nefndi áðan hafa tekjur farið langt fram úr áætlun á sama tíma og útgjöldin hafa farið enn þá lengra fram úr áætlunum þannig að auðvitað hefur ríkissjóður verið rekinn með halla á undanförnum árum en nú eru menn að snúa því dæmi við. Hér er bullandi góðæri hvað sem það stendur lengi og við þurfum að hafa allan vara á því að þrátt fyrir allt eru ýmsir þættir í okkar efnahagskerfi býsna óstöðugir og það þarf ekki annað en veiðar bregðist á ákveðnum fiskstofnum þá setur það strax strik í reikninginn. Menn geta rétt ímyndað sér hvað munar t.d. um þann samdrátt sem orðið hefur í Smuguveiðunum. En hvað sem því líður þá hljótum við að spyrja okkur þeirrar spurningar þegar jafn vel árar og nú hvernig eigi að verja auknum tekjum ríkissjóðs. Það er auðvitað spurningin. Hvað er verið að gera hér? Hvernig er verið að verja tekjunum? Að mínum dómi eiga ýmis mál að hafa forgang umfram önnur. Þar vil ég fyrst og fremst nefna menntamál. Ég vil fyrst og fremst nefna menntamál þar sem ég tel að við þurfum verulega að taka okkur tak. Og því miður fæ ég ekki séð að það sé gert í fjárlagafrv. næsta árs. Framlag ríkisins til menntamála á næsta ári er 7,9% af ríkisútgjöldum. Þetta hlutfall hefur að sjálfsögðu lækkað vegna þess að grunnskólinn var færður yfir til sveitarfélaganna. Þetta heita reyndar framlög til fræðslumála og það er hægt að skoða þessa skiptingu milli málaflokka í töflu sem er birt í fjárlagafrv. og er reyndar eitt af því góða og nýja sem er að finna í þessu frv. þar sem þetta er greint niður. Þetta er á bls. 274 í frv. og í framhaldi af því og hér er liður 04. Fræðslumál, sem nema samtals rúmum 13 milljörðum kr. og samkvæmt mínum útreikningum er þetta 7,9% af ríkisútgjöldunum á næsta ári og það er ekki há prósenta.

Það er reyndar hægt að skoða aðra liði sem tengjast mennta- og menningarmálum og vísindum og rannsóknum. Hér er liður sem heitir 01.3 Opinberar frumrannsóknir, 325,7 millj. kr. af útgjöldum ríkisins. Þetta er afar lágt hlutfall og sýnir hver forgangsröðin er hjá þessari ríkisstjórn.

Við höfum fengið niðurstöður úr könnunum sem sýna að því miður er íslenskt skólakerfi að dragast aftur úr því sem gerist hjá ýmsum öðrum þjóðum. Fram hjá því verður ekki horft. Ég er búin að fara rækilega í gegnum kaflann um menntmrn. og ég sé að þar er verið að bæta við hér og þar. Það er nú ekki eins og það sé ekki verið að gera neitt, þar eru á ferð ýmsar framkvæmdir og ýmsar breytingar og það á að gera rekstrarsamninga við skólana og er allt gott og blessað um það að segja. En ég spyr: Hvað um innihaldið? Hvað um innihald menntunar því að það er þar sem við þurfum virkilega að taka okkur tak? Þó að umhverfi skóla skipti að sjálfsögðu miklu máli, þá er það þó starfið sem skiptir mestu og það tengist þessu stóra og erfiða máli, kjörum kennara.

Það er búið að semja við framhaldsskólakennara og ég hygg að samningum sé lokið við háskólakennara og eins og við vitum þá stendur yfir kjaradeila við grunnskólakennara sem nú hafa boðað verkfall sem vonandi tekst að afstýra. Nógu eru nú verkföll erfið fyrir kennara en þau eru ekki síður erfið fyrir nemendur og svona stórt verkfall kennara mun hafa mikil áhrif á allt þjóðfélagið. Þetta hangir saman, laun og kjör kennara og ástandið í menntamálum og inntak menntunarinnar. Ég held að það verði ekki fram hjá því horft að við verðum að taka okkur ærlegt tak og setja menntamálin í algjöran forgang og þar skal ég veita menntmrh. allan minn stuðning eigi hann erfitt uppdráttar innan ríkisstjórnarinnar. Ég held því miður að það sé ekki nægilegur skilningur á því ástandi sem hér ríkir í menntakerfinu og þar kem ég auðvitað að háskólastiginu líka.

Á undanförnum árum hefur Háskóli Íslands, bæði kennarar og nemendur hans, sem er langsamlega stærsta menntastofnunin, mátt sæta miklum niðurskurði meðan nemendum hefur fjölgað jafnt og þétt. Nemendur og starfsmenn háskólans hafa virkilega reynt að beita sér fyrir auknum fjárveitingum en samkvæmt því sem ég les út úr frv. aukast rekstrarframlög til háskólans um 60 millj. kr. að raungildi, segir hér á bls. 323. Ef ég man rétt þá taldi háskólinn sig þurfa a.m.k. 300 millj. til viðbótar við það sem hann áður hafði til þess að komast á svipað stig og háskólar t.d. á Norðurlöndunum. Nú er ég ekki að segja að hægt sé að bæta úr þessum mikla vanda á einum degi. Það þarf að gera það í áföngum vegna þess að það tekur tímann sinn að undirbúa og skipuleggja, en þetta verður að gerast. Og, hæstv. forseti, sá vandi sem við stöndum frammi fyrir bæði í menntamálum og heilbrigðismálum er fortíðarvandi. Hann er fortíðarvandi ríkisstjórna Davíðs Oddssonar sem skapaðist með niðurskurði, tekjutengingum, háum jaðarsköttum og ýmsu fleiru sem báðar hans ríkisstjórnir hafa gripið til. Þær hafa skapað hér margra ára vanda sem hefur verið að hlaðast upp í skólakerfinu og velferðarkerfinu. Það er kominn upp nýr fortíðarvandi. Það er óskaplega brýnt, hæstv. forseti, að fólk opni augun og skilji hvað er að gerast. Ég gerði þessi mál að megininntaki ræðu minnar í umræðunum um stefnuræðu forseta og ekki að ástæðulausu.

20:31 [sækja PostScript eða prenta (einungis innan húss)]

Óyfirlesið. Bein tilvitnun óheimil.

[19:15]

Ég kem sjálf úr þessu umhverfi skóla- og háskólamanna og hitti nánast daglega fjöldamarga sem vinna við þessi mál og það er mér mikið áhyggjuefni hvað allt vinnusiðferði hefur farið versnandi, áhugi á því sem fólk er að gera, trú á því sem fólk er að gera, vegna þess að það er svo niðurbrjótandi að búa við endalausan barning, endalaus vonbrigði ár eftir ár. Og þar vil ég ekki síst minna á það sem formaður stjórnar Sjúkrahúss Reykjavíkur hefur nefnt, Kristín Ólafsdóttir, sem hefur staðið í því með öðrum í yfirstjórn Sjúkrahúss Reykjavíkur að stunda þar það sem hún kallar krísustjórnun. Ár eftir ár er þessum stóra spítala stjórnað með krísustjórnun þar sem sífellt er verið að taka nýjar ákvarðanir og taka við nýjum skipunum um enn meiri niðurskurð. Svona er hvorki hægt að reka heilbrigðiskerfi né velferðarkerfi í heild, hvað þá menntakerfið. Því eru það mín meginskilaboð í þessari umræðu, þó að menn geri lítið úr því þegar við í stjórnarandstöðunni segjum að það þurfi að breyta forgangsröð, að það verður að breyta forgangsröðinni. Það verður að setja meiri peninga í menntamálin og heilbrigðismálin til þess að við getum staðist allt það sem framtíðin mun krefjast af okkur og til þess að við einfaldlega missum ekki allt okkar menntaða og góða fólk úr landi eða það hætti að skila sér heim. Þetta er verulegt áhyggjuefni.

Hv. þm. Jón Kristjánsson gagnrýndi umræður stjórnarandstöðunnar um heilbrigðismálin og vildi meina að þar væri ákveðin stefna uppi. Ég á ákaflega erfitt með að sjá þá stefnu, þ.e. að hér sé einhver heildstæð stefna í heilbrigðismálum. Það hefur ekki náðst niðurstaða um það hvernig verkaskiptingu eigi að vera háttað, hvorki á milli stóru sjúkrahúsanna né milli landsbyggðasjúkrahúsanna annars vegar og sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu hins vegar. Er t.d. rétt að athuga hvort það beri að byggja eitt stórt sjúkrahús hér á höfuðborgarsvæðinu í stað Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítalanna eins og m.a. Helgi Sigurðsson læknir hefur skrifað um í Morgunblaðinu út frá þeirri forsendu að sjúkrahús einfaldlega úreldist og það sé miklu betri lausn að byggja hreinlega nýtt? Kröfur tímans séu orðnar slíkar.

Ég fæ ekki betur séð en að heilsugæslumálin séu enn þá í hnút. Það hefur ekki verið fundin lausn á þeirri deilu sem heilsugæslulæknar áttu í við ríkisvaldið. Vissulega er verið að uppfylla hluta af þeim samningum, m.a. með því að nú á loksins að sinna þeirri þörf sem er hér í Reykjavík fyrir heilsugæslustöðvar. En verkaskiptingin milli sérfræðinga og heilsugæslulækna --- það mál er óleyst. Við sjáum þessa dagana að gífurleg óánægja er meðal lækna. Ungir læknar eru að undirbúa aðgerðir, sérfræðingar segja upp samningum sínum við Tryggingastofnun og þetta allt saman endurspeglar kerfi í upplausn þannig að af nógu er að taka og vandinn er mikill. Ég hef einmitt komist að þeirri niðurstöðu í gegnum mitt starf í nefndinni sem vinnur að forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu og eins og vænta mátti hefur það starf teygst allnokkuð að það sem fyrst og fremst vanti sé skýr stefna. --- Tíma mínum er að ljúka, hæstv. forseti. Ég á enn mikið eftir ósagt. En ég vil endilega fá að koma að einni spurningu til hæstv. fjmrh. hæstv. forseti og hún varðar það að nefnt er hér í frv. að hann ætli að skipa skattanefnd til þess að endurskoða skattkerfið og mig langar að fræðast um það hjá honum hvernig hann hugsar sér þá nefnd. Fær stjórnarandstaðan að koma að þessu mikla og mikilvæga verki og hugsanlega aðrir, eða hvernig hugsar hann sér skipan þessarar nefndar?