Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 15:06:08 (157)

1997-10-08 15:06:08# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[15:06]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. í gær er þetta í sjöunda sinn sem hann mælir fyrir frv. til fjárlaga. Það fer ekki á milli mála að á því hálfa sjöunda ári sem hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson hefur stýrt fjmrn. hefur náðst mikill árangur í stjórn ríkisfjármálanna. Ég vil taka undir það lof sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson bar á hæstv. fjmrh. í ræðu sinni áðan.

Það er hollt að rifja það aðeins upp hvernig ástandið var þegar ríkisstjórn undir forustu Sjálfstfl. tók við völdum árið 1991 eftir áralanga stjórn vinstri flokkanna. Góðæri undanfarinna ára hafði verið illa nýtt og þjóðin hlaðið upp skuldum jafnt utan lands sem innan. Sjálfvirk þensla var í ríkisútgjöldum og allt stefndi í strand. Góðærið var á enda, þorskstofninn á hraðri niðurleið, miklir erfiðleikar í landbúnaði og iðnaði og niðursveifla á mörkuðum stóriðjufyrirtækja þannig að rekstur þeirra var á heljarþröm. Atvinnulífinu hafði að hluta til verið haldið gangandi með fyrirgreiðslu úr sjóðum sem voru á hvínandi kúpunni og ríkissjóður varð að taka á sig milljarða króna vegna bágrar stöðu þessara sjóða. Stórkostlegur halli var á rekstri ríkissjóðs ár eftir ár og fráfarandi stjórn hafði í raun gefist upp við að stjórna fjármálum ríkisins. Þetta var nú búið sem ný ríkisstjórn tók við árið 1991 og vandamálin sem nýr fjmrh. þurfti að glíma við voru gríðarleg. Þessu til viðbótar gekk svo kröpp efnahagslægð yfir Evrópu sem olli okkur Íslendingum miklum erfiðleikum. Erfiðleikar fyrirtækja í höfuðatvinnuvegum okkar leiddu til þess að atvinnuleysi fór hratt vaxandi og forusta ASÍ spáði því að það gæti orðið allt að 20%. Ríkisstjórnin gerði það að einu höfuðviðfangsefni sínu að skapa atvinnuvegunum rekstrarskilyrði svo þeir gætu þraukað þá erfiðleika sem við var að etja og væru í stakk búnir til nýrrar sóknar og aukinnar atvinnusköpunar. Ráðist var í verulegan niðurskurð á útgjöldum ríkisins í harðri andstöðu við stjórnarandstöðuna sem taldi að allt væri hægt að gera fyrir alla og lagði fram ótal tillögur þar að lútandi. Smátt og smátt fóru aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar að skila árangri. Halli ríkissjóðs fór lækkandi, atvinnulífið rétti úr kútnum og segja má að flest hafi verið á réttri leið síðan.

Herra forseti. Mér finnst rétt að rifja þetta upp við þessa umræðu um fjárlagafrv. til að menn átti sig á því hve gífurleg umbreyting hefur orðið og árangur náðst á þessum rúmlega sex árum sem hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson hefur haldið um stjórnartaumana í fjmrn. Árangur breyttrar efnahagsstefnu kemur æ betur í ljós. Sú mikla áhersla sem lögð hefur verið á að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum, verðbólgu í lágmarki og stöðugu gengi, hefur leitt til þess að atvinnulífið hefur rétt úr kútnum og störfum fjölgar jafnt og þétt. Talið er að þeim muni fjölga um 5 þús. á þessu ári og næsta. Hagvöxtur er meiri en í flestum helstu viðskiptalöndum okkar og þessi trausta efnahagsstjórn á stærstan þátt í auknum áhuga erlendra fyrirtækja á fjárfestingum á Íslandi sem m.a. hefur þegar komið fram í stækkun álvers Ísals, nýju álveri á Grundartanga og væntanlegri stækkun Járnblendiverksmiðjunnar.

Þá hefur tekist að snúa rekstri ríkissjóðs úr milljarða halla ár eftir ár í heilan áratug í afgang á fjárlögum. Þetta er auðvitað árangur sem ástæða er til að gleðjast yfir jafnframt því sem það hlýtur að vera markmiðið að stefna að enn frekari afgangi á ríkissjóði á næstu árum. Með því mun okkur takast að lækka skuldir ríkisins og lækka vaxtakostnað sem allir er sammála um að er allt of hár. Varðandi þennan þátt, vextina, er auðvitað ástæða til að fagna því að lánshæfismat íslenska ríkisins hefur hækkað jafnt og þétt að undanförnu sem leiðir til þess að bætt lánskjör fást fyrir íslenska ríkið á alþjóðlegum mörkuðum. Sú staðreynd að þau erlendu fyrirtæki sem meta lánshæfi einstakra ríkja setja Ísland í hóp með traustustu ríkjum heims er mikil viðurkenning á góðri hagstjórn. Það er ánægjulegt sem fram kom í máli hæstv. fjmrh. að heildarskuldir ríkissjóðs munu samkvæmt þessu fjárlagafrv. lækka þriðja árið í röð og í fyrsta sinn verður tekið minna að láni en greitt verður af erlendum lánum, svo nemur 5 milljörðum kr.

Mér finnst sérstök ástæða til að fagna því að bætt staða ríkissjóðs hefur gert mögulegt að lækka skatta landsmanna en samþykkt hefur verið að tekjuskattur einstaklinga lækki um 4% í áföngum fram til ársins 2000 og fyrsti áfangi þessarar lækkunar kom til framkvæmda sl. vor. Einnig munu skattleysismörk hækka um 2,5% á ári næstu þrjú ár. Þetta er umfangsmesta skattalækkun sem gerð hefur verið í háa herrans tíð og leiðir að sjálfsögðu til aukins kaupmáttar en nú er talið að hann muni aukast um 20% á árabilinu 1995--2000 sem er sérstakt ánægjuefni því almenningur tók vissulega á sig talsverðar byrðar á meðan þjóðin var að vinna sig út úr mestu erfiðleikunum.

Okkar fámenna þjóð gerir kröfu til að standa jafnfætis milljónaþjóðunum á sem flestum sviðum og að ríkið veiti landsmönnum sem besta og mesta þjónustu. Það er í raun með ólíkindum að þessi 270 þúsund manna þjóð skuli geta staðið undir þeim fjölbreytta rekstri og þjónustu og því umfangsmikla velferðarkerfi sem landsmönnum býðst. Til að standa undir þessum margháttaða rekstri er áætlað að ríkissjóður hafi 148 milljarða í skatttekjur samkvæmt rekstrargrunni á næsta ári. Mér sýnist við fyrsta yfirlestur á fjárlagafrv. að örfáir málaflokkar taki til sín af þeiri upphæð 110 milljarða. Þar er um að ræða heilbrigðis- og tryggingamál, húsnæðis- og félagsmál, fræðslu-, menningar- og kirkjumál, vegagerð og svo barnabætur, vaxtabætur, afskrifaðar skattskuldir og lífeyrisskuldbindingar. Þá eru eftir aðeins 38 milljarðar til allra þeirra fjölmörgu annarra verkefna sem ríkið verður að sinna. Þessar stærðir sýna okkur að það er langt því frá auðvelt fyrir þessa litlu þjóð að halda uppi þeirri fjölbreyttu og fjölþættu þjónustu sem veitt er landsmönnum og sem flestum finnst víst að mætti vera miklu meiri en hún er.

Horfur í ríkisfjármálum næstu árin eru heldur góðar. Í fjárlagafrv. segir á bls. 37, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar um efnahagshorfur fram yfir aldamót verður hagvöxtur tæplega 3,5% að meðaltali á ári á tímabilinu 1998--2001. Þetta er heldur minna en verið hefur hér á landi að undanförnu en nokkru meiri vöxtur en almennt er spáð í nágrannaríkjunum. Gert er ráð fyrir að störfum haldi áfram að fjölga og kaupmáttur heimilanna vaxi. Útflutningur er talinn aukast um tæplega 5% á ári að meðaltali, en innflutningur er talinn aukast minna, eða um 4% á ári. Samkvæmt þessari spá minnkar viðskiptahalli jafnt og þétt næstu ár og er kominn í 1% af landsframleiðslu í lok tímabilsins. Erlendar skuldir þjóðarbúsins munu einnig lækka og verða um 41% af landsframleiðslu árið 2001, samanborið við 47% í lok síðasta árs. Verðbólga er talin verða heldur meiri en að undanförnu, eða nálægt 3% að jafnaði á ári.``

Í ræðu sinni í gær benti hv. þm. Sturla Böðvarsson á þá miklu hættu sem stafaði af þeirri byggðaröskun sem nú á sér stað í landinu. Ég vil taka undir hvert orð sem hv. þm. sagði og tel að byggðaröskunin, flóttinn af landsbyggðinni, sé eitt stærsta vandamál okkar Íslendinga nú. Þetta er alls ekki auðvelt við að eiga og svo virðist sem fólk flytji af landsbyggðinni til Reykjavíkur þó það hafi ágæta afkomu. Við höfum ótal dæmi um að menn taka sig upp og segja upp ágætum og öruggum störfum út á landi og flytja til Reykjavíkur þó þeir hafi jafnvel ekkert fast í hendi með vinnu á höfuðborgarsvæðinu. Byggðastofnun er með í gangi mjög ítarlega könnun á þessu vandamáli, ástæðum þessara miklu fólksflutninga. Starfsmenn Byggðastofnunar og Stefán Ólafsson lektor eru að vinna þessa könnun sem er nú á lokastigi. Stjórn Byggðastofnunar hefur heimsótt sveitarfélög víða um land og rætt við forustumenn sveitarfélaga og atvinnulífs um þetta vandamál og satt að segja hafa það verið mjög fróðlegar heimsóknir og skýringar manna misjafnar eftir stöðum á því hverjar þeir telja ástæður flutninganna. En það er óneitanlega mjög undarlegt að koma á staði eins og Neskaupstað, Eskifjörð, Þórshöfn, Siglufjörð og fleiri sem ég gæti talið upp þar sem menn hafa verið að fjárfesta í atvinnulífinu að undanförnu fyrir hundruð milljóna og jafnvel milljarða. Fjárfesta í því að bæta atvinnulífið og efla. Það er yfirdrifin vinna á þessum stöðum en fólk flytur samt. Fólkinu fækkar og það verður að mæta því með því að flytja inn vinnuafl til að halda atvinnulífinu gangandi.

[15:15]

Svo virðist sem það séu þrjú til fjögur mál sem standa upp úr hjá fólki þegar það tekur ákvörðun um hvort því finnst vænlegt að búa á landsbyggðinni eða ekki. Það er heilsugæslan, skólamálin og kannski umfram allt samgöngumálin. Fólk leggur gríðarlega mikið upp úr samgöngunum og sættir sig illa við að búa við handónýta vegi ár eftir ár og vera meira og minna samgöngulaust mánuðum saman yfir vetrartímann. Þess vegna tel ég að aukin framlög til vegamála á næstu árum séu mál málanna varðandi bætt ástand á landsbyggðinni. Hæstv. fjmrh. benti á það í ræðu sinni í gær að það væri nokkur aukning til þessa málaflokks núna milli ára. Í fjárlagafrv. er þetta um 7,5 milljarðar. Ég tel að það megi ekki vera einni krónu minna og að á næstu árum verði að gera átak í bættum samgöngum á landsbyggðinni. Það er víða sem stór og smá verkefni bíða sem verður að ráðast í ef við ætlum að koma í veg fyrir stóraukinn flótta fólks af landsbyggðinni.

Fjórða málið sem upp úr virðist standa hjá fólki er að því finnst atvinnulífið of einhæft. Í þeirri könnun sem Byggðastofnun er að láta gera var í sumar kannað viðhorf 1.200 manna á landsbyggðinni til ákveðinna málaflokka, hvernig þeim fyndist þeir hafa þróast á sl. fimm árum. Almennt var fólk nokkuð ánægt með flesta þjónustuliði en óánægjan var fyrst og fremst með þróun atvinnutækifæra, þ.e. einhæfni atvinnulífsins. Byggðastofnun hefur breytt nokkuð áherslum sínum varðandi atvinnuráðgjöf á landsbyggðinni og ég bind vonir við að sú breyting muni leiða af sér meiri fjölbreytni í atvinnulífinu úti á landi. Í stað þess að vera að drita smáupphæðum í einstök sveitarfélög til atvinnuþróunar og atvinnuuppbyggingar hefur verið tekin upp sú stefna að semja við hvern landshluta, þ.e. landshlutasamtökin, um framlag sem um munar, það er um 9 millj. á hvert kjördæmi, gegn svipuðu framlagi heimamanna, til að menn geti komið upp sterkri atvinnuráðgjöf í kjördæmunum. Ég bind miklar vonir við þessar breyttu áherslur og er ekki í vafa um að þetta á eftir að skila góðum árangri. Þar sem þetta fór fyrst af stað, líklega í hittiðfyrra á Austurlandi og Suðurlandi, hefur þetta tekist afskaplega vel. Nú hefur verið samið við hina landshlutana og þetta á vonandi eftir að skila sér vel. Ég ítreka að ég tel að þeir miklu búferlaflutningar og sú byggðaröskun sem nú á sér stað séu eitt höfuðvandamál okkar Íslendinga í dag.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir verulegum tekjum af sölu eigna. Það er auðvitað allt gott um það að segja að selja eignir og nota andvirðið til góðra mála. En það má ekki bara selja til að selja, það verður að gerast af skynsemi. Meðal þess sem gert er ráð fyrir að selja er 25% af hlutafé ríkisins í Sementsverksmiðjunni. Þetta var reyndar samþykkt við fjárlagagerðina í fyrra líka. Ég var þá andvígur þessari samþykkt og taldi mig færa rök fyrir því að þessi sala gæfi ríkinu ekkert og kannski minna en það. Ég tel að það hafi nú komið fram. Hér er ég með endurskoðað virðismat á fyrirtækinu sem unnið er af ráðgjafarfyrirtækinu Fjárvangi fyrir einkavæðingarnefnd. Samkvæmt því er virðismat fyrirtækisins nú 788 millj. mínus lífeyrisskuldbindingar. Fyrirtækið Talnakönnun hefur reiknað út lífeyrisskuldbindingarnar og þær eru 326 millj. kr. Þá standa eftir 462 millj. kr. sem nettó verðmæti Sementsverksmiðjunnar á Akranesi. 25% af þessum 462 millj. eru 115,5 millj. kr., sem er þá væntanlega það sem ríkissjóður fær út úr þessari sölu að frádregnum einhverjum milljónum vegna kostnaðar við söluna. Hvað þýðir þetta svo fyrir fyrirtækið og áframhaldandi rekstur þess? Jú, það verður væntanlega að greiða tilvonandi hluthöfum arð, enginn hefur áhuga á að eignast hlutafé í fyrirtækinu upp á annað. Þá er fyrirtækinu gert að gefa út skuldabréf til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna lífeyrisskuldbindinganna og vextir af þeim bréfum verða um 18 millj. kr. á ári, auk þess sem greiða verður um 5 millj. í stimpilgjöld af þessum bréfum. Öllu þessu verður fyrirtækið væntanlega að mæta með verðhækkun á sementi enda er gert ráð fyrir því í skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins.

Sementsverksmiðjan hefur hagrætt gríðarlega í rekstri sínum á undanförnum árum. Meðal annars hefur starfsmönnum verið fækkað úr 190 í 90, þannig að þessum kostnaðarauka verður væntanlega ekki mætt með frekari hagræðingu. Verðhækkun sýnist mér því óumflýjanleg ef af þessari sölu verður. Á hverjum bitnar svo verðhækkun á sementi? Hún bitnar auðvitað á þeim sem eru að byggja og framkvæma. Hverjir skyldu vera stærstu kaupendur sements í dag? Ætli það sé ekki ríkið og fyrirtæki þess sem beint og óbeint er stærsti aðilinn á þessum framkvæmdamarkaði. Því held ég að þessi sala, ef af verður, muni virka eins og búmerang og koma beint í hausinn á ríkissjóði aftur. Ég tel því með sama hætti og ég taldi við fjárlagagerðina í fyrra að þessi sala sé ekki rökrétt og vil spyrja hæstv. fjmrh. af því að það er ekki sundurliðað í fjárlagafrv.: Hvernig á sala ríkiseigna að skila sér og hversu mikið af þeirri upphæð sem þar er gert ráð fyrir er tilkomið vegna sölu hlutafjár í Sementsverksmiðjunni hf.?