Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 18:04:27 (185)

1997-10-08 18:04:27# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[18:04]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla að víkja í þessari umræðu um fjárlagafrv. að fáeinum atriðum og fyrst atriði sem snertir heilbrrn. Það lýtur að því að í frv. er gert ráð fyrir því að framlög til heilbrigðismála breytist eins og rakið er í greinargerð frv. og ég ætla ekki að endurtaka hér. Jafnframt því er í frv. gert ráð fyrir því að framlög til heilbrigðismála verði skorin niður um 700 millj. kr. og það er ekki mjög rækilega skýrt í greinargerð frv. hvernig eigi að ná þeim niðurskurði. Fyrst eru tölurnar framreiknaðar eins og yfirleitt er gert og síðan eru þær skornar niður allar um 700 millj.

Í frv. eru að vísu í greinargerðinni nefnd tvö atriði sem eigi að skera niður. Það fyrra lýtur að niðurskurði á lyfjakostnaði og hann hækki ekki eins mikið og yrði að óbreyttu, heldur skorinn niður frá uppreiknaðri tölu, ef ég man rétt um 300 millj. Síðan er gert ráð fyrir því að lækka framlög og spara í tannlækningum. Það er sérstaklega nefnt. Ég held að við stöndum núna frammi fyrir þannig tíðindum í sambandi við tannlæknaþjónustuna að það sé algerlega ólíðandi ef það á að halda áfram að skera niður framlög til tannlæknaþjónustu, en svo virðist vera eftir þessum texta greinargerðarinnar. Ég held reyndar að málið liggi þannig að það eigi frekar að gefa í fjármuni í sambandi við tannlæknaþjónustuna, sérstaklega við börn, vegna þess að það hefur þegar komið í ljós að tannheilsa barna hefur versnað frá því sem var vegna þeirra breytinga sem gerðar voru fyrir þrem, fjórum eða fimm árum í þessum málaflokki. Þess vegna hvet ég til þess að þetta verði endurskoðað og menn hætti við að skera niður þessi framlög til tannlæknaþjónustunnar og ég hefði viljað spyrja hæstv. fjmrh. að því hvernig þessar tölur eru fundnar. Ég vildi auðvitað gjarnan hafa hér hæstv. heilbrrh. Er hún kannski í húsinu?

(Forseti (StB): Forseti getur upplýst að hæstv. heilbrrh. er ekki í húsinu.)

Nei, þá skulum við bara notast við hæstv. fjmrh., fyrirgefðu orðbragðið forseti. Ég er alveg viss um að hann leggur sig fram um að leysa þetta mál eins og hann lifandi getur. En áður en lengra er haldið hefði ég hins vegar viljað spyrja hæstv. forseta að því hvort hæstv. félmrh. er í húsinu. Ég hefði viljað fá að tala aðeins við hann. Ég hef grun um að hann sé hérna.

(Forseti (StB): Hæstv. félmrh. er í húsinu og mun forseti gera ráðstafanir til að þess að hann verði hér.)

Mér þætti vænt um ef hæstv. forseti vildi kalla hann hér til fundar þannig að það verði eitthvað hægt að tala við hann um dagskrármálið.

Aðeins varðandi annað mál. Ég hef nefnt þetta með heilbrigðismálin og spurt: Hvað á að skera niður, hvernig og með hvaða rökum? Annað mál sem ég vil nefna eru löggæslumálin. Það hefur náttúrlega verið svo í pólitíkinni á undanförnum árum og áratugum að menn hafa ekki litið þannig á að löggæslan væri hluti af þessu almenna velferðarkerfi sem oftast er rætt um. Nú er það orðið þannig að löggæslan í landinu, ekki síst hér á þéttbýlissvæðinu, er að verða óhjákvæmilegur hluti af velferðarkerfinu, öryggiskerfi almennings, því að staðreyndin er sú að fólk getur varla frjálst um götur gengið hér í þéttbýlinu vegna þess hvernig ástandið er í þeim efnum og ætla ég ekki að rekja það neitt nánar.

Staðreyndin er sú að stjórnmálaflokkarnir hafa aldrei, og er þá enginn undanskilinn, mótað heildstæða stefnu í því sem kalla má löggæslumál og í þeim efnum er náttúrlega sök Sjálfstfl. mest vegna þess að hann hefur farið lengur með löggæslumál en nokkur annar stjórnmálaflokkur. En það hefur engin heildstæð opinber stofnumótun átt sér stað í sambandi við löggæslumál og staðreyndin er sú að þar hefur verið tekið býsna tilviljanakennt á hlutunum. Það er mjög alvarlegt og er núna að koma okkur í koll. Ég tel að ástandið sé þannig núna hjá okkur í þéttbýlinu, a.m.k. í mínu kjördæmi og víðar, að á þessum málum þarf að taka. Það þarf að móta stefnu í löggæslumálum til að tryggja að fólk geti gengið sæmilega öruggt um götur í þessu byggðarlagi. Reyndar hefur oft verið rætt um það hvort rétt sé að hafa löggæslukostnaðinn, lögregluna, hjá ríkinu. Mér finnst að það eigi að ræða það mál, hvort það er endilega eitthvað sem segir það að lögreglan eigi að vera hjá ríkinu um aldur og ævi. Hún var hjá sveitarfélögunum, ég hygg til 1972--1973, og var flutt af vinstri stjórninni sem þá var, ef ég man rétt, yfir til ríkisins. Út af fyrir sig voru alveg full rök fyrir því að breyta þessu þá. Það eru full rök fyrir því að hluti af lögreglunni a.m.k. sé hjá ríkinu en hluti af lögreglunni er með alveg dæmigerða nærþjónustu við almenning. Þess vegna finnst mér koma til greina að þessi þáttur þjóðfélagskerfisins, mér liggur við að segja velferðarkerfisins, eigi að vera hjá sveitarfélögunum og það eigi að velta því mjög alvarlega fyrir sér.

Ég vek í þessu sambandi athygli á ítrekuðum samþykktum í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem fulltrúar allra flokka sem þar eiga sæti hafa staðið að tillögum um áskorun á ríkisstjórnina um samstarf að því er varðar löggæslumál, sérstaklega t.d. í Breiðholti og Grafarvogi svo að ég nefni dæmi. Því miður hefur ekki verið hægt að verða við þessu af því að menn ganga eftir svo stífum reglum. Það eru stundum svo þykkir veggirnir í kerfinu að það má aldrei skoða það að færa einhvern hluta til af því að þá rekst það á þetta heilaga sem er hrein verkaskipting ríkis og sveitarfélaga sem er eitthvað það ótrúlegasta sem fundið hefur verið upp af öllu. Það er svona klisja sem menn ganga fyrir að það verði að vera svo hrein verkaskipting á milli ríkis og sveitarfélaga að það megi helst aldrei hittast nokkur skapaður hlutur á vegum ríkis og sveitarfélaga sem er alveg kolvitlaust því að auðvitað eiga ríkið og sveitarfélögin að vinna saman eins og allir aðrir í þessu landi.

Þetta nefni ég hér, herra forseti, og vil ítreka að það er mín skoðun að það þurfi að móta nýja stefnu í löggæslumálum og fara yfir þá hluti að hve miklu leyti löggæslan á jafnvel að vera á vegum sveitarfélaganna eða undir húsbóndavaldi þeirra þannig að tryggt sé að fólk geti um frjálst höfuð strokið, a.m.k., og það verði öruggara og betra fyrir fólk að hreyfa sig hér um götur heldur en það er núna.

Ég þakka hæstv. forseta fyrir rausnarskapinn. Ég er búinn að hafa hérna 20 mínútur alveg síðan ég byrjaði. Það var reyndar hæstv. forseti Sturla Böðvarsson sem var svona almennilegur við mig. En ég þakka hvaða forseta sem er fyrir það að vera svona rausnarlegur við mig á tímagjöf, enda veitir mér ekkert af því. Það er svo margt sem þarf að ræða hér.

(Forseti (RA): Ég skal nú reyna að færa þetta til betri vegar en hv. þm. er búinn að tala í 12 mínútur.)

Það nefnilega grunaði mig að gæti verið. Ég beygi mig undir þann dóm en held til haga þessu sem ég er hér að nefna, annars vegar með löggæsluna og hins vegar var ég að spyrja áðan um þessar 700 millj. sem á að spara í heilbrrn. eftir að tölurnar hafa verið uppreiknaðar og varaði við því að skorið yrði niður til tannlækninganna sérstaklega eins og mér sýnist vera gert ráð fyrir. Ég nefni þetta af því að hæstv. heilbrrh. heiðrar okkur með nærveru sinni á þessum fundi.

Þá ætlaði ég að leyfa mér, herra forseti, að víkja aðeins máli mínu til hæstv. félmrh. en 4. september sl. skrifuðu formaður og framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga undir yfirlýsingu sem var lögð fram á fundi formanns og framkvæmdastjóra sambandsins með fjmrh. og félmrh. 4. september 1997. Hérna er komið inn á mörg atriði í samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem ég hygg að hafi ekki verið rækilega rædd í þessari umræðu. Ég ætla t.d. að minna á þessar frægu 500 millj. sem ríkisstjórnin allt í einu ákvað að sveitarfélögin ættu að leggja í púkkið í sambandi við lausn kjarasamninga en eru ekki frágengið mál. Í yfirlýsingu Sambands ísl. sveitarfélaga segir, með leyfi forseta:

,,Harðlega er mótmælt hugmyndum um að tekjustofnar sveitarfélaga verði framvegis varanlega skertir um 500 millj. kr. í tengslum við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um skattalækkun við frágang kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum í mars sl.``

Hér er um að ræða mjög ákveðin mótmæli við þessum 500 millj. kr. sem átti að taka af útsvarinu og ég spyr: Hvar stendur þetta mál? Ég sé að textinn í fjárlagafrv. er ekki skýr í þessu efni.

Í öðru lagi segir í yfirlýsingu Sambands ísl. sveitarfélaga, með leyfi forseta:

,,Í samræmi við yfirlýsingu félmrh. og fjmrh. og formanns og framkvæmdastjóra sambandsins frá 13. desember 1996 verður að bæta sveitarfélögunum að fullu fjárhagsleg áhrif vegna skattlagningar fjármagnstekna, breytinga á tryggingagjaldi og ákvæða tekjuskattslaga um frádrátt vegna hlutafjárkaupa. Ganga þarf frá nauðsynlegum lagabreytingum þar að lútandi fyrir lok þessa árs. Samkvæmt útreikningum sambandsins nemur samanlagður útgjaldaauki og tekjutap sveitarfélaganna vegna þessara lagabreytinga 215 millj. kr. á árunum 1996, 1997 og 1998.

[18:15]

3. Ítrekuð er krafa um að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði bætt aukin útgjöld vegna aukinna vanskila meðlagsgreiðenda við Innheimtustofnun sveitarfélaga sem leiddu af einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar um hækkun meðlaga frá byrjun árs 1993. Í samræmi við skýrslu Löggiltra endurskoðenda hf. eru aukin útgjöld jöfnunarsjóðsins, sem eingöngu má rekja til hækkunar meðlaganna, 462 millj. kr. vegna áranna 1994, 1995 og 1996. Hefur þá verið tekið tillit til sérstakrar 250 millj. kr. greiðslu ríkissjóðs til jöfnunarsjóðsins á árinu 1993. Á sömu forsendum þarf auk þess að bæta jöfnunarsjóðnum aukin útgjöld vegna vanskila meðlaga á árinu 1997.

4. Í kjölfar hækkunar útsvars vegna niðurfellingar aðstöðugjalds og yfirtöku launagreiðslna til kennara er innheimtuþóknunin, sem sveitarfélögin greiða ríkinu vegna innheimtu staðgreiðslu, um 57 millj. kr. hærri á þessu ári en fyrir breytingarnar. Afar óeðlilegt er að ríkissjóður hagnist með þeim hætti á verkaskipta- og tekjustofnalagabreytinu á kostnað sveitarfélaganna. Ítrekuð er krafa um að þóknun sveitarfélaganna vegna staðgreiðslu innheimtunnar verði lækkuð til samræmis við það sem var fyrir ofangreindar breytingar.

5. Umsýsla sveitarfélaganna vegna staðgreiðslutöku skatta af fjárhagsaðstoð er það umfangsmikil að þau sveitarfélög sem mesta fjárhagsaðstoð greiða þurfa bæði að leggja í aukinn kostnað vegna starfsmannahalds og hækka bæturnar til að fjárhagsaðstoðin komi viðkomandi einstaklingi að gagni. Óþægindi þeirra skjólstæðinga félagsmálastofnana sem koma til með að greiða skatta af fjárhagsaðstoð eftir á eru léttvæg miðað við það umstang og þá auknu vinnu sem lögð er á sveitarfélögin með staðgreiðslutökunni. Ríkissjóður verður ekki af neinum tekjum þótt skattar af fjárhagsaðstoð séu eftirágreiddir en það sparar sveitarfélögunum veruleg útgjöld. Lýst er mikilli óánægju með að félagsmálaráðneytið hafi enn ekki orðið við óskum sambandsins um að fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna væri undanþegin staðgreiðslu og ítrekaðar eru óskir um að teknar verði upp viðræður til að fjalla nánar um þetta vandmeðfarna mál.``

Undir þetta rita eins og ég sagði áðan Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Þórður Skúlason framkvæmdastjóri. Bréfið er dagsett 4. september 1997.

Hér er með öðrum orðum um það að ræða, herra forseti, að forusta sveitarfélaganna í landinu er að fara fram á í fyrsta lagi að 500 milljónirnar verði aldrei af þeim teknar. Og ég spyr: Verður það gert? Hvað verður gert í þeim efnum? Í öðru lagi eru sveitarfélögin að segja: Við höfum orðið fyrir útgjaldaauka vegna breytinga á tryggingagjaldi og fleira upp á 215 millj. kr. Í þriðja lagi segja sveitarfélögin: Við höfum orðið fyrir skakkaföllum vegna breytinga á meðlögum upp á 462 millj. kr. Og þessi meðlagabaggi lendir reyndar eingöngu á litlu sveitarfélögunum í landinu vegna þess að hann er allur tekinn af jöfnunarframlaginu og snertir þess vegna ekki Reykjavík. Og í fjórða lagi er hér verið að segja: Við viljum að kostnaður verði lækkaður um 57 millj. kr. vegna innheimtu í staðgreiðslu og síðan er beðið um breytingar á staðgreiðslu á félagslegum bótum.

Með öðrum orðum, herra forseti, hér er um að ræða bil á milli ríkisstjórnarinnar annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar upp á u.þ.b. 1.000 millj. kr. Og það er algjört lágmark, herra forseti, að þessari umræðu ljúki ekki án þess að ríkisstjórnin geri nákvæmlega grein fyrir því hvernig hún hugsar sér að koma til móts við sveitarfélögin í þessu efni.