Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 15. október 1997, kl. 14:40:17 (515)

1997-10-15 14:40:17# 122. lþ. 10.4 fundur 3. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (tekjutenging bótaliða) frv., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[14:40]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans og viðbrögð. Ég er ánægður með að hæstv. ráðherra er með opinn hug gagnvart því að áfram verði unnið að þessum málum og þau skoðuð m.a. af hv. efh.- og viðskn. Það þarf ekki að vera í neinni mótsögn við það nefndarstarf sem hæstv. ráðherra hefur sett af stað á sínum vegum.

Ég neita því að vísu ekki að ég hefði gjarnan kosið að sú nefnd hefði verið með breiðari skipan, í henni hefðu einnig verið fulltrúar verkalýðshreyfingar eða aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar stjórnarandstöðuflokka. Ég teldi það farsælla þegar um er að ræða viðamikið framtíðarstefnumótunarstarf í skattamálum af þessu tagi sem enginn veit hver kemur til með að framkvæma á komandi árum og kjörtímabilum. Það er eins og ég sagði áður meira en að segja það að stokka upp skattkerfið sem slíkt og fara í gegnum allar tekjutengingar og víxlverkunarfrumskóginn. Og ætli mönnum veitti nokkuð af því að hafa í því sæmilegan mannskap og liðsauka hvaðanæva að.

Ég minni líka á að í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar er sérstaklega kveðið á um samstarfið við aðila vinnumarkaðarins. Því er lofað. Því er lofað að endurskoða skattkerfið hvað varðar markmiðið að draga úr skattsvikum, lækka jaðarskatta og einfalda skattkerfið í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Og nú þegar jaðarskattanefndin hefur verið kistulögð og skrifaðar um hana minningargreinar í blöðum, þá spyr maður sig auðvitað hvernig á þá að haga áfram þessu samstarfi við verkalýðshreyfinguna úr því að ekki eru fulltrúar frá henni í hinni nýju nefnd.

Það er síðan rétt að í ræðu minni nefndi ég ekki veiðileyfagjald sem allsherjarlausn í skattamálum. Ég hef aldrei skilið hvernig ætti að vera hægt að gera með því einhverja ávísun á slíka fyrirsögn, allt fyrir alla í skattamálum eins og sumir virðast vilja gera, þ.e. lækka tekjuskattinn, bæta kjör barnafólks, bæta kjör aldraðra, leggja vegi úti um land og hvað það nú er. Auðvitað er slíkt ábyrgðarlaust tal um skattamál. Ég tók það einmitt skýrt fram í mínu máli að hér væri um vandasamt verkefni að ræða. Breytingar hreyfa til mikla fjármuni í millifærslukerfinu og þess vegna þurfa menn að ræða þessi mál af ábyrgð.