Stefnan í heilbrigðismálum

Fimmtudaginn 16. október 1997, kl. 10:41:12 (533)

1997-10-16 10:41:12# 122. lþ. 11.93 fundur 55#B stefnan í heilbrigðismálum# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[10:41]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir kveður sér hljóðs utan dagskrár og ræðir um stefnu í heilbrigðismálum. Hún kom víða við í ræðu sinni og það er nauðsynlegt að fara yfir málaflokkinn í heild sinni til þess að fá yfirlit yfir það sem raunverulega er að gerast.

Stjórnarandstaðan grípur gjarnan til þeirra fullyrðinga að enginn stefna ríki í heilbrigðismálum. Er þetta rétt, virðulegu þingmenn? Ég skal enn og aftur fara yfir stefnuna í heilbrigðismálum.

Í fyrrasumar var mótuð stefna í málefnum heilsugæslunnar í 21 lið. Á liðnu ári hefur meiri árangur náðst en björtustu vonir stóðu til. Nánast það eina sem út af stendur er hið svokallaða valfrjálsa stýrikerfi. Framkvæmd þess snertir ekki bara heilsugæslulækna, hún snertir flesta lækna. Framkvæmd þess var og er bundin því að samkomulag náist við Læknafélag Íslands um þá útfærslu.

Virðulegi forseti. Hvað varðar aðra þætti í stefnunni í heilsugæslunni sjást þeir nú þegar víða í betra aðgengi að heilsugæslunni. Uppbyggingin er fyrst og fremst á Reykjavíkursvæðinu en þar töldu heilsugæslulæknar að mestra úrbóta væri þörf. Í Mosfellsbæ er verið að opna nýja heilsugæslustöð um áramót en hv. þm. Margrét Frímannsdóttir ræddi sérstaklega um heilsugæslustöðina í Mosfellsbæ. Ef litið er til fjárlaga næsta árs þá sést að fjármagn til að reka heilsugæslustöðina í Mosfellsbæ er aukið. Og hún ræddi um Reykjalund í sömu andrá. Ég ætla líka að taka Reykjalund fyrir vegna þess að við hækkuðum daggjöldin á Reykjalundi fyrir tveim árum síðan verulega. Í Fossvogi er búið að bjóða út nýja heilsugæslustöð. Í Kópavogi verður lokið við heilsugæslustöð um mitt næsta ár. Hafnfirðingar eru að fá viðbótarhúsnæði við sína heilsugæslustöð. Í Keflavík er verið að bjóða út nýja stöð um þessar mundir og í Garðabæ verður flutt í nýtt húsnæði fyrir áramót. Þá verður flutt í nýtt húsnæði í Laugarási í Biskupstungum, Eskifirði og Hrísey.

Nú liggur fyrir að um mitt næsta ár munu a.m.k. átta nýjar stöður heilsugæslulækna hafa bæst við frá því að samkomulagið var gert. Einhvers virði hlýtur þetta að vera, hv. þm. Þrátt fyrir þetta stöndum við frammi fyrir þeim vanda í heilsugæslunni að þeirri kjaradeilu sem leiddi til uppsagna heilsugæslulækna á síðasta ári er í reynd ekki lokið því að dregist hefur að kjaranefnd úrskurði um laun þeirra.

Ég held að það sé almennur skilningur á því að kjaranefnd er mikill vandi á höndum og það er reynt að flýta þessu verki eins og framast er unnt. En hér er um að ræða mikla kerfisbreytingu sem því miður hefur tekið lengri tíma að leysa en ég og heilsugæslulæknar höfðum vonað. Þó hefur gengið bærilega að manna flestar stöður, en nú eru 3--4 stöður ósetnar á landsbyggðinni þrátt fyrir þessa stöðu kjaramála. Þó það sé ekki mikill fjöldi skiptir hver ósetin staða íbúa viðkomandi byggðarlags afar miklu máli.

Þó ástandið sé bærilegt, gerum við okkur grein fyrir því að við verðum að gera það fýsilegt fyrir unga lækna að koma heim til Íslands eftir nám. Að því er unnið. Til þess þarf að hækka laun lækna og það þarf að minnka vaktabyrðina. Að því er einnig unnið. Og í heilbrrn. höfum við haft fulltrúa úr heilsugæslunni, héraðslækninn á Reykjanesi og héraðslækninn á Austurlandi, til að aðstoða okkur við að móta tillögur til framtíðar.

[10:45]

Í sjúkrahúsmálum er einnig unnið markvisst að auknu samstarfi og skýrari verkaskiptingu í raun. Hér á höfuðborgarsvæðinu hefur náðst verulegur árangur á því sviði. Heilbrrh., fjmrh. og borgarstjórinn í Reykjavík ákváðu að láta fara fram sérstaka úttekt á þeim kostum sem við stöndum frammi fyrir í framtíðarrekstri þessara stofnana. Nú liggur fyrir úttekt frá ráðgjafarfyrirtæki þar sem leiddar eru að því líkur að veruleg hagkvæmni geti leitt af því að stefna að einu fullkomnu háskólasjúkrahúsi á Íslandi. Þar yrðu sameinaðir ákveðnir þættir sérhæfðustu þjónustu og ýmis önnur starfsemi skilin frá og hugsanlega falin sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum og einkaaðilum. Skýrsla þessi er nú til umsagnar og athugana hjá stofnunum og þegar það liggur fyrir verður tekin ákvörðun um framhaldið. (ÖS: Á næsta kjörtímabili?)

Í haust var gerður samningur sem færði sjúkrahúsunum á höfuðborgarsvæðinu tæplega 500 millj. kr. Jafnframt voru ákveðnar aðgerðir til að skerpa verkaskiptingu og auka samvinnu stofnana sem mun leiða til sparnaðar á næsta ári. Við höfum góða reynslu af því að hafa þriggja manna stjórn með stjórnendum sjúkrahúsanna, þ.e. frá borginni, frá fjmrn. og heilbrrn. sem vaka yfir málefnum sjúkrahúsanna í Reykjavík. Tillögur þeirra hafa skilað verulegri hagkvæmni og starf þeirra hefur borið góðan ávöxt. Vegna þess sem hv. þm. sagði hér áðan um þjónustuna, vil ég nefna að með þessum 500 millj. er tryggt að gæði þjónustunnar, sérstaklega varðandi endurhæfingu, geðþjónustu og öldrun, verða styrkt.

Þær tillögur sem uppi eru núna um breytingar koma frá stjórnendum sjúkrahúsanna og eru ekki til að minnka þjónustu. Þrátt fyrir endalaust tal um samdrátt og niðurskurð er það nú samt svo að við erum ávallt að endurbæta og auka heilbrigðisþjónustuna. Við skulum líta á nokkur dæmi svo sem nýja gjörgæsludeild og skurðstofu á Landspítala. Unnið er að sams konar endurbótum á Sjúrakhúsi Reykjavíkur. Stefnt er að endurbyggingu á skurðstofu og gjörgæsludeild þar. Ný göngudeild krabbameinslækninga tók til starfa í fyrra. Á næstu dögum verður vígð ný æðarannsóknarstofa á Landspítala. Ný líknardeild verður opnuð á næsta ári. Lýtalækningadeild var opnuð í vor. Aukið fjármagn hefur verið lagt til barna- og unglingageðdeildarinnar auk þess sem félmrn. hefur lagt aukna fjárveitingu til Greiningarstöðvar ríkisins og mun það bæta úr brýnni þörf fyrir þá sem þurfa á þeirri þjónustu að halda. En stærsta og mikilvægasta málefnið fram undan er bygging nýs barnaspítala og mun hann gerbreyta aðstöðu langveikra barna á Íslandi.

Á landsbyggðinni er unnið víða að sameiningu heilsugæslu og sjúkrahúsa undir formerkjum heilsugæslunnar. Með því er flókið skipulag einfaldað og gert skilvirkara. Samhliða þessu er unnið að tillögum um styrkingu sérfræðiþjónustu með því að efla tengsl minni sjúkrahúsa við sérfræðiþjónustu sjúkrahúsanna í Reykjavík og á Akureyri. Stór skref hafa verið stigin á sviði fjarlækninga og sjúkrahúsin úti á landi hafa fengið aukna þjónustu sérfræðinga og stærri sjúkrahúsin hafa tekið myndarlega á biðlistavandanum. Má þar nefna sjúkrahús eins og á Akureyri, Akranesi, Selfossi, Keflavík og St. Jósefsspítalann í Hafnarfirði svo eitthvað sé nefnt.

Já, það hefur verulega fækkað á biðlistum. Ef við lítum á bæklunaraðgerðir, þá var bið eftir t.d. hryggspengingaaðgerðum um tvö ár fyrir stuttu síðan. Þessi bið er komin niður í sex mánuði sem læknar telja ekki óeðlilega langan tíma því að mikinn undirbúning þarf undir svo stóra aðgerð. Í öðrum bæklunaraðgerðum hefur náðst verulegur árangur einnig.

Varðandi hjartaaðgerðir, þá voru 300 manns á biðlista eftir hjartaaðgerðum fyrir rúmum tveim árum síðan. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá prófessornum í skurðlækningum á Landspítalanum er bið eftir hjartaaðgerð í þægilegu jafnvægi eins og hann orðar það sjálfur eða 24 sjúklingar. Hið sama má segja um augnlækningar. En meðan á flutningi augnlækningadeildar frá Landakoti yfir á Landspítala stóð mynduðust biðlistar sem sem betur fer styttast óðum.

Vík ég þá að stefnunni í forvörnum. Ég hef beitt mér fyrir nýjum áherslum á nánast öllum sviðum forvarna. Ég nefni t.d. reykingavarnir, en fjármagn til tóbaksvarna hefur fjórfaldast og svigrúm til fræðslu er allt annað og betra en áður var.

Varðandi áfengis- og vímuefnavarnir hefur auknu fjármagni verið beint til þess málaflokks og aukin samhæfing á milli þeirra aðila sem vinna að áfengis- og vímuefnavörnum er skilvirkari nú en áður var.

Átak í krabbameinsvörnum hefur staðið yfir að undanförnu og þar er um að ræða samstarfsverkefni Krabbameinsfélagsins og ráðuneytisins. Höfuðmarkmið verkefnisins er að minna á mikilvægi þess að mæta til skoðunar og eftirlits.

Vík ég þá að stefnunni í öldrunarmálum. Ég hef lagt áherslu á að aldraðir geti dvalist í heimahúsum eins lengi og heilsa leyfir. Með breyttum áherslum í öldrunarlækningum og endurhæfingu hefur dagvistarrýmum fjölgað og heimahjúkrun verið aukin. Fyrsta öldrunarsjúkrahúsið á Íslandi verður formlega tekið í notkun nú í dag á Landakoti. Með tilkomu þess verður þjónusta við aldraða betri og skilvirkari en áður. Samhliða þessu er hafin þjónusta við aldraða í hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Mjódd sem nýlega var opnað. Þar hafa 48 sjúklingar lagst inn en 79 rúm verða alls þar. Í Víðinesi er verið að fjölga hjúkrunarýmum, eins á Vífilsstöðum og Ás í Hveragerði er í uppbyggingu. Víða úti á landi er líka verið að fjölga rýmum í öldrunarþjónustu og bæta. Ég minni á Hvammstanga, Blönduós og Akranes. Nýlega var nýtt hjúkrunarheimili á Höfn í Hornafirði tekið í notkun. Hjúkrunarrýmum hefur í heild fjölgað um 86 rúm og ákveðið hefur verið að fjölga enn til viðbótar á næsta ári. Í málaflokkinn er bætt 300 millj kr. í fjárlagafrv. fyrir árið 1998, þar af 100 millj. kr. til hjúkrunarheimila vegna bættrar nýtingar. Þá er unnið að endurskoðun laga um málefni aldraðra.

Ég sé að tíma mínum er að ljúka, virðulegi forseti, og ég skal ljúka hér máli mínu, en það eru kjaramálin sem brenna á mönnum. Kjaramálin eru í vinnslu á þrennum vettvangi, hjá samninganefnd ríkisins, Tryggingastofnun og kjaranefnd. Allir samningar lækna eru lausir. Það kallar á hraða og örugga vinnu.

Og nú bara í blárestina vil ég segja um þroskaþjálfana, en þeir eru 20 sem vinna hjá heilbrigðisþjónustunni, að ef ekki semst við þá, sem enn standa vonir til, þá munum við sjá til þess að skjólstæðingar þeirra fái þjónustu. Það sem brennur á okkur í dag eru kjaramálin og þau þarf að leysa.